Færslur: 2015 Mars

21.03.2015 11:14

Í tilefni mánaðarins


MOTTUMARS

Í byrjun þessa mánaðar sem nú er langt liðið á, var hárið sett í tagl, stóru rakgræjurnar teknar fram og látið vaða á jólasveinaskeggið sem hafði fengið að vaxa óáreitt í tæpt ár.

Mottumarsinn nú er eins og hin fyrri ár, áminning til okkar karlanna að huga að jákvæðum lífsstílsbreytingum sem komið gætu í veg fyrir krabbamein og einnig því bráðnauðsynlega heilsufarseftirliti sem því miður er sjaldnast sinnt sem skyldi.




HRAUSTIR MENN FARA TIL LÆKNIS!

Ristilkrabbamein er eitt algengasta krabbamein meðal karla og þriðja algengasta dánarorsök krabbameina. Í hverri viku deyr einn Íslendingur vegna þess, sem því miður eru óþarflega margir vegna þess að allt of mikið vantar upp á að hugað sé tímanlega að þeim forvörnum sem eru þó sjálfsagðar og kosta ekki mikið. Allir ættu að fara a.m.k. árlega í læknisskoðun sem vel mætti kalla ástandsskoðun, þar sem hugað yrði að helstu heilsufarsþáttum, svo sem blóðþrýstingi, blóðsykri, hæð, þyngd, fituprósentu o.fl. Við förum með bílana okkar í skoðun og finnst það fullkomlega eðlilegt, en gleymum því miður okkur sjálfum allt of oft.
Þá má ekki gleyma því að mikilvægustu þættir í forvörnum gegn sjúkdómum almennt í dag eru reglubundin hreyfing, hollt mataræði, nægur svefn, hóflegt álag og andleg vellíðan. Það vitum við auðvitað, en samt er full átæða til að krefja okkur sjálf svara um hvort við tökum nægilega mikið mark á þeim sannindum.




KEPPNI EÐA ÁMINNING

Það er auðvitað hið besta mál að efna til ýmissa leikja og keppna í kring um mottumarsinn, því slíkt vekur bæði athygli á þessu brýna máli og styður í flestum tilfellum fjárhagslega við Krabbameinsfélagið sem ekki er vanþörf á. En slíkt hentar þó ekki öllum, og eftir stendur að mottan hvort sem hún er á okkur sjálfum eða aðrir í kring um okkur skarta henni hver með sínum hætti, er áminning sem ber að taka alvarlega.




JAFNGAMALL

Það vekur vissulega blendnar tilfinningar þegar ég minnist þess að akkúrat núna er ég jafngamall stjúpa mínum honum Hauki Stefánssyni málara og kennara sem bjó á Sauðárkróki, þegar hann fékk ristilkrabbamein sem leiddi hann til dauða á fáeinum vikum frá því að það uppgötvaðist. Slíkt vekur mann til umhugsunar um hvort ekki sé rétt að taka þessi mál fastari tökum og hringja í doksa helst á morgun til að panta tíma.



  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 292
Gestir í dag: 68
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495669
Samtals gestir: 54686
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 13:59:18
clockhere

Tenglar

Eldra efni