Færslur: 2012 Janúar

31.01.2012 10:33

Hundadráparinn á Þingeyri



796. Rannsókn hundadrápsmálsins á Þingeyri mun vera lokið, en hræ af hundi fannst bundið við tvö dekk á BMW felgum í Þingeyraröfn snemma í desember sl. Fætur hundsins höfðu verið bundnir saman og hálsól hans síðan við dekkin.

"Siggi er búin að játa" sagði heimildamaður minn, en þorpsbúar hafa fæstir talið sig vera í miklum vafa um hver gerðarmaðurinn var, allt frá því að atburðurinn átti sér stað. Sá er aðfluttur og hefur ekki búið mjög lengi í bænum, en mun hafa farið víða og yfirleitt staldrað stutt við á hverjum stað. Hann ásamt sambýliskonu sinni hefur tekið að sér hunda í pössum, en einnig hunda sem eigendur hafa viljað láta frá sér. Fjölmargar kvartanir munu hafa borist lögreglu og dýralækni vestra, en lítið virðist hafa verið aðhafst þar til nú. Þá hafa fleiri hræ af hundum fundist á undanförnum mánuðum sem hafa verið skilin eftir m.a. í fjörunni utan við Þingeyri, en engum sögum fer af rannsókn þeirra.

Ekki veit ég hver refsiramminn er við þessu broti, en það verður fróðlegt að fylgjast með málalokum.

27.01.2012 23:13

Vetur í bæ

 795. Stundum er sagt að þegar við verðum uppiskroppa með umræðuefni, sé þó alltaf hægt að tala um veðrið. Það þarf líklega ekki að verða kjaftstopp til að veðrið beri á góma þessa dagana, því svo rysjótt hefur það verið að með ólíkindum verður að teljast.

Í dag er allt í svelli, bleytu og krapi og snjóskaflar gærdagsins hafa sigið saman líkt og úr þeim sé allur vindur. Ökumenn lenda víða í vandræðum með bíla sína sem hafa bleytt sig í risastórum tjörnum á götunum, þar sem niðurföllin eru stífluð eða taka illa við öllu því vatnsmagni sem til fellur.

Í gær voru vandræðin af öðrum toga en þó af völdum sama efnis, þ.e. vatnsins sem þá var aðeins í svolítið fastara og svalara formi. Á þriðjudaginn þegar ég var að erindast í bænum, hafði ég myndavélina upp á vasann. 













Og þar eru víðar skrýtnir fuglar en við tjörnina í Reykjavík, en ég við taka það skýrt fram að þar á ég ekki við myndefnið á neðstu myndinni. Það var farið að skyggja og ég var á heimleið þegar ég rakst á ágætan kunningja minn Hebba Guðmunds stórsöngvara sem minnti mig á að kjósa rétt í Júrvisjóninu á laugardaginn.

21.01.2012 01:32

Vax


794. Einu sinni hélt ég að allar stelpur (eða konur) væru svo yfirgengilega vandaðar til munns og handa, eða orðs og æðis að þær segðu varla nokkurn tíma nokkuð sem mætti misskilja eða gæti talist tvírætt. Hvað þá beinskeytt, afgerandi og ögrandi. Það væri einfaldlega í þeirra eðli að vera settlegar og dömulegar í hvívetna, slíkt væri óumbreytanlegt og andstætt öllum þekktum sem óþekktum lögmálum og regluverki.

"Dömur prumpa ekki, (en roðna ef þær heyra aðra gera það)" var frasi sem gekk hérna um árið og rennir að mínu mati stoðum undir þessa fyrrverandi skoðun mina.

"Döpur er dráttlaus kona" er annar, en það var sérstaklega tekið fram að hann hafi verið uppdiktaður af karli. Það passar auðvitað mjög vel, því karlar bregðast yfirleitt allt öðru vísi við dráttleysi og fylgir því sjaldnast mikil depurð, heldur bregðast þeir gjarnan ókvæða við og láta ófriðlega ef fiðringurinn neðan þindar verður full mikill að þeirra mati og útrásarmöguleikar e.t.v. litlir sem engir.

En ég segi "fyrrverandi skoðun", því nýlega áttaði ég mig á að það er sennilega mun minni munur á kynjunum en ég hafði alla tíð gert mér grein fyrir. Þá á ég við allan heila pakkann, þ.e. hvernig þau hugsa, tala og jafnvel framkvæma. Hin endanlega ástæða þess að ég skipti um skoðun er sú að ég rakst á reynslusögu konu á netinu sem mér fannst tala og tjá sig miklu frekar eins og draugfullur sjóræningi, en einhver sykursætt og sakleysislegt meyjarblóm. Mig hafði lengi grunað eitt og annað í þessa veru, en núna var ég kominn með grjótharða og afgerandi sönnun fyrir að svo reyndist vera. Ég geri ráð fyrir að umræddur pistil hafi farið víða um netheima og margir hafi stautaðsig í gen um hann, en fyrir hina læt ég hann fylgja hér að neðan.

-

Kvöldið var sem hvert annað venjulegt kvöld í miðri viku. Ég kom heim, eldaði kvöldmat, vaskaði upp og vafraði aðeins á netinu. Svo sló einni hugmynd niður í kollinn á mér... hugmynd sem átti eftir að skilja eftir sig sársaukafullar minningar það sem eftir væri:

"Kannski ætti ég aðeins að grípa í vaxið sem liggur í skápnum í baðherberginu."

Hálfnað verk þá hafið er! Fram á baðherbergi!

Þetta var eitt af þessu "kalda vaxi" þið vitið, þetta sem fæst í strimlum í apótekunum. Við erum ekkert að tala um að bræða heilan vaxklump, þú hitar bara strimlana með að nudda þeim saman, síðan skilur þú þá að og klessir þeim á fótleggina (eða þar sem þú hefur þörf fyrir að fjarlægja óvelkomin hár), þar á eftir rífur þú strimlana af og voila! Ekkert mál fyrir Jón Pál. Ég meina, hversu erfitt getur þetta verið? Ég er kannski ekkert gáfnaljós, en ég tel mig þó nógu vel gefna til að geta fundið út þessu.

(EN EKKI HVAÐ?)

Jæja, ég þreif einn strimilinn úr kassanum. Þetta voru sem sagt tveir strimlar sem sneru vaxhliðinni að hvorum öðrum, þannig að þeir voru áfastir. Í stað þess að hita þá í höndunum með því að nudda þeim saman, þá var ég svo klár að ná í hárþurrkuna mína. Ég hitaði strimlana á 1000 wöttum. (Kalt vax? Hah!)

Að því loknu setti ég strimlana á innanvert lærið, hélt við með annarri hendinni og reif strimilinn af. Það virkaði!

Ókei, þetta var ekki það besta sem ég hef upplifað, en heldur ekki það versta.

Ég get þetta fjandinn hafi það! Ég er kvendjöfull! Ég lýsi hér með yfir stríði gegn líkamshárum og er aðalgúrinn um það hvernig öðlast skal skínandi mjúka húð!

Ég fikra mig í norðurátt með næsta vaxstrimil.

Ég fleygi brókunum á gólfið og kem öðrum fætinum fyrir ofan á klósettinu.

Svo nota ég sömu aðferðir - legg vax strimilinn við bikinilínuna þannig að strimillinn þekur hú-ha-ið mitt (lesist; "hún" sem má ekki nefna).

Strimillinn nær alla leið frá hú-ha-inu til innanverðrar rasskinnarinnar (þetta var frekar langur strimill), ég dreg andann djúpt og ríf í strimilinn!

RRRRRRRRÍÍÍÍÍ....FFFFFFFF!!!!!!!!!!!

Ég er blind! Blinduð af sársauka!!! Ááááá..aaaaandskotinn sjálfur? (!)

Ég fæ sjónina aftur.

Ég tek eftir því að ég reif bara helminginn af strimlinum af. *@!#$!

Ég dreg andann djúp aftur og RRRÍÍÍÍFFF!

Allt hringsnýst og svartar doppur dansa fyrir augunum á mér.

Getur verið að það sé að líða yfir mig?

Verð að halda jafnvægi? Verð að halda jafnvægi!

Heyri ég trommuslátt?

Anda inn - anda út! & helvxxxx!

Ég vil sjá minjagripinn minn? Vaxstrimilinn sem hefur valdið mér svo miklum sársauka, fullan af hári.

Ég vil vera böðuð sigurljóma baráttu minnar gegn líkamshári! Ég lyfti strimlinum upp svo ég geti skoðað hann betur.

Ekki eitt einasta hár sjáanlegt.

Hvar er hárið? HVAR ER VAXIÐ???

Ég þori varla að líta niður, en geri það ofurhægt, enn með fótinn ofan á klósettinu (sjáið þið þetta ekki fyrir ykkur góðir hálsar?).

Ég get séð hárið. Hárið sem ætti að vera á strimlinum? Það er ekki á strimlinum. Ég þreifa varlega. Fingurnir nema vaxið. ég káfa á viðkvæmasta stað líkama míns sem nú er þakinn köldu vaxi. og hári?

Svo geri ég önnur STÓR mistök.

Ég man skyndilega að ég stend enn klofvega við klósettið.

Ég þarf að gera eitthvað svo ég tek fótinn niður.

Allt lokast!

Rassgatið á mér er límt saman! Algjörlega, gjörsamlega lok lok og læs og allt í stáli lokað!

Ég labba eins og mörgæs hring eftir hring í baðherberginu - og reyni að finna út úr því hvað ég get gert í þessu. Ég hugsa örvæntingarfull: "Plís, bara að mér verði ekki mál að skíta núna, því annars mun hausinn á mér sennilega fljúga af!"

Hvað get ég gert til að bræða vaxið?

Heitt vatn!

Heitt vatn bræðir vaxið.

Ég fylli baðkarið af eins heitu vatni og hægt er. Nú getur vaxið bráðnað og ég get fjarlægt það varlega, er það ekki? RANGT!

Ég læt mig síga ofan í baðkarið - vatnið var bara aðeins heitara en það sem maður er vanur að nota til að kvelja stríðsfanga.

Ég sest niður.

Það eina sem er verra en að láta kjallarasvæðið bráðna fast saman er þegar kjallarasvæðið bráðnar eins og það leggur sig.

Bráðnuð fast við botninn á baðkarinu - í sjóðandi heitu vatni. Og vaxið bráðnar ekki einu sinni af!

Nú var ég orðinn svo límd við botninn á baðkarinu, að ég hefði ekki getað gert betur þó ég hefði steypt mig fasta við postulínið! Í huganum þakkaði ég guði fyrir manninn sem hafði sannfært mig um það að það væri mjög góð hugmynd að hafa síma inni á baðherberginu!

Ég hringi til vinkonu minnar því ég er viss um að hún þekkir til leyndardómsins um það hvernig hægt er að losna úr kringumstæðum sem þessum.

Er ekki þetta ekki örugglega góður máti að byrja símtöl á? "Uhh, rassgatið mitt og hú-ha-ið mitt eru límd við botninn á baðkarinu!"

Það kom stutt þögn. Vinkona mín þekkti ekki til leyndardómsins hvernig hægt væri að losna úr vandkvæðum sem þessum né vissi hún hvernig hægt væri að fiffa þetta. Og ekki nóg með það, þá reyndi hún ekki einu sinni að fela það að hún væri í hláturskasti!

Hún vildi vita nákvæmlega hvar vaxið væri staðsett; "erum við að tala um rasskinnarnar, boruna eða hú-ha-ið? Hún veinar úr hlátri. Ég heyri í henni.

Ég gef henni stuttu útgáfuna af hrakförum mínum og hún stingur upp á því að ég hringi í númerið utan á öskjunni af strimlunum.

Já!!! Einmitt!!!

Eins og ég hefði áhuga á að vera aðhlátursefni kvöldsins hjá fleirum!

Á meðan við reynum að finna út úr þessu, þá reyni ég að ná vaxinu af með dömurakvél. Ekkert er þægilegra en að hafa kvenleika minn þakinn heitu vaxi, hú-ha-ið mitt límt saman, sitjandi í brennheitu baðvatni, með rassgatið límt við botninn og nota fjxxxx rakvélina.

Nú virkar heili minn ekki lengur, sjálfsvirðing mín er fokin út í buskann og ég er handviss um að ég þurfi áfallahjálp og sálfræðing sem sérhæfir sig í áfalla- og streituröskun eftir þetta ævintýri.

Vinkona mín lætur móðan mása þegar ég kom auga á björgun mína! Kremið sem maður á að nota til að fjarlægja leifarnar af vaxinu.

Ég meina - ég hef engu að tapa - eða hvað? Ég maka kreminu á og.... "ANDSKOTANS, HELVÍTIS, DJÖFULSINS DJÖFULL!"

Öskrin vöktu eflaust allt hverfið og hræddi líftóruna úr vinkonu minni. Þetta er svoooooo VONT, en mér er alveg sama.

ÞETTA VIRKAR! ÞETTA VIRKAR!

Vinkona mín óskar mér til hamingju og við leggjum á. Ég fjarlægi afganginn af vaxinu þegar ég, mér til mikillar óhamingju, kem auga á.

HÁRIÐ SITUR FJANDANUM HAFI ÞAÐ ENNÞÁ FAST Á SÍNUM STAÐ. HVERT EITT OG EINASTA!

Nú er mér orðið svo skítsama um allt að ég raka allt af. Djö!*"#"%$, það sem ég er aum í klofinu núna. Og dofin. Svo dofin að ég gæti sennilega aflimað sjálfa mig án þess að finna fyrir því.

Í næstu viku ætla ég svo að lita á mér hárið.

17.01.2012 10:20

Saltfárið mikla


793. Salt, NaCl eða natríumklóríð hefur verið óvenju mikið í umræðunni undanfarið. Ekki þó vegna þess að það sé hollt eða hinn mesti skaðvaldur eins og slík umræða hefur oft litast af, heldur vegna þess að menn rugluðust á salti og salti. Vissulega ber að hafa það hugfast að of mikið salt hefur slæm áhrif á heilsuna og skiptir þá engu máli hvort það er vottað eða ekki, en við getum ekki lifað án þess og við skulum ekki gleyma því að lífið kviknaði upphaflega í sjónum sem er eins og við vitum, alveg brimsaltur.

Nei umræðan snýst að mestu leyti um Ölgerðina sem kennd er við víkinginn og skáldið Egil Skallagrímsson. Þar á bæ rugluðust menn lítillega á merkingum og töldu að mekingin "INDUSTRIAL SALT" þýddi að þar væri um að ræða salt sem ætlað væri til iðnaðar sem er alveg hárrétt, þar á meðal matvælaiðnaðar sem er hins vegar umdeilanlegra. En svo var víst ekki raunin og þessi smávægilega þýðingarvilla er að koma Egilsmönnum all hressilega í koll þessa dagana. Reyndar hafa þeir afhent u.þ.b. 90 kaupendum sínum saltið í upprunalegum umbúðum og maður gæti því ætlað að einhver úr þeim hópi væri það vel að sér í engilsaxneskri tungu að einhvern tíma sl. 13 ár hefði einhver gáfumaðurinn áttað sig á mistökunum, en það gerðist ekki sem verður að teljast í meira lagi undarlegt.

Framleiðandinn AkzoNobel segir muninn á iðnaðarsaltinu og matvælasaltinu vera í meginatriðum að annað er vottað en ekki hitt. Annað er síað en ekki hitt. Annað er stundum geymt úti en hitt á alltaf að geymast innan dyra hvort sem þeð er þannig í raun eða ekki. Ég hef kannski óeðlilega litlar áhyggjur af málinu, því ég hef miklu meiri áhyggjur af svo mörgu öðru en því hvaða salt hefur farið í grautinn sem ég legg mér til munns. Það hvarflar meira að segja að mér að þeir sem hafa farið hvað mest síðustu dagana, hafi fundið sér fóður og ráð til að ljúka langri og vandræðalegri þögn sem hefur plagað vegna umræðuskorts og gúrkutíðar með tómum hávaða. Ég minnist saltbingjanna við síldarplönin á síldarárunum og hugurinn hvarflar til forfeðra okkar og saltkjötsins sem hélt lífinu í þjóðinni á hörðum vetrum. Hvernig salt ætli hafi verið notað á 17., 18., eða 19. öldinni? En hvert sem svarið við þeirri spurningu er, þá erum við hérna á skerinu og höfum það bara fínt. Eiginlega mun betra en flestir aðrir að undanskildum Noregi, en það er örugglega ekki vegna saltsins.

Það hefur stundum verið all nokkuð skondið að fylgjast með saltumræðunni í netmiðlunum, því hún hefur verið fjölbreytileg svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Mjólkursamsalan baðst afsökunar og innkallaði fimm "eitraða" osta í hvelli. S.S. sagði það þeirra mistök að hafa látið plata sig. Jói Fel var mjög slakur yfir saltfárinu og sagðist ætla að klára að baka upp úr því iðnaðarsalti sem enn væri til og umræðan væri ekkert nema stormur í vatnsglasi. Tommi í Hamborgarabúllunni er sagður vera fullur iðrunar og segist hafa verið blekktur en skaðinn sé skeður. (Ekki kemur fram hvaða skaði). Bubbi Mortens er auðvitað sjálfum sér líkur og lítið fer fyrir hógværð og yfirvegun í orðum hans eins og venjulega, en hann segir í fésbókarfærslu; "Held að ég versli ekki við Ölgerðina í bráð hverskonar skíthælar eru þetta sem stjórna þar. Ölgerðin og flestir þeir sem hafa verslað við þá eru vísvitandi að misnota sér traust okkar hinna og já þetta seigir okkur að eftirlitið er gjörsamlega ekkert". Reyndar kommentaði einhver og taldi að þeir Ölgerðarmenn mættu nú bara vera heppnir að vera lausir við hann.

En eiginlega er mér slétt sama um þetta allt saman, því ég er svo innilega sannfærður um að eitthvað allt annað en umrætt iðnaðarsalt verður mér að fjörtjóni þegar minn tími kemur.

12.01.2012 01:04

Þegar Chrysler Windsor kom til Siglufjarðar


Gott eintak af Chrysler Windsor 1947


792. Chrysler framleiddi Windsorinn frá 1939 og eitthvað fram á sjöunda áratuginn. Þessi eðalvagn var (og er) m.a. með hálfsjálfvirkri gírskiptingu (Fluid drive) sem var algjör nýlunda á sínum tíma þegar framleiðslan hófst. Hún virkar þannig að ef bíllinn er settur í fyrsta gír, þá skiptir hann sér sjálfur í annan gír, og úr þeim þriðja í þann fjórða. Bíllinn er glæsilegur í alla staði, verulega stór og rúmgóður, sætin yfirleitt klædd plussi, mælaborðið er með því fallegasta sem sést hefur og húddið er langt og mikið.

Einn slíkur var fluttur inn alveg splunkunýr árið 1947 af Ludvig Storr Chryslerinn sem var kaupmaður og aðalræðismaður Dana hér á landi. Hann var ljósgrænn í upphafi, en hefur einu sinni verið sprautaður. Plusssætin eru drapplituð og mælaborðið með viðarlit. Ludvig Storr átti þennan bíl lengi, fór á honum víða um land með konu sinni Svövu Storr, og voru þá gjarnan erlendir gestir með þeim í för. Þessum bíl tengist veröld sem var, þegar þéringar tíðkuðust og góðir mannasiðir voru iðkaðir af yfirstéttinni. Menn opnuðu undantekningalaust dyr fyrir dömunum og tóku ofan hattinn þegar mæst var á götu. Þessi heimur er með öllu horfinn, en upp er runnin öld gallabuxna og stuttermabola þar sem allir eru alltaf að flýta sér. Á þessum tíma var frú Bodil Begtrup sendiherra Dana á Íslandi og fyrsti kvenkyns sendiherra heims, gift fyrrverandi sendiherra, Bolt Jörgensen, sem m.a. var sendiherra Dana í Rússlandi. Á milli Storrhjónanna og sendiherrahjónanna var góður vinskapur og þau ferðuðust oft saman. Eitt sinn lá leiðin til Siglufjarðar og erindið var að heimsækja danska konsúlinn Aage Schiöth. Þetta var löngu áður en Strákagöng voru gerð, svo ekki var um annað að ræða en aka yfir Siglufjarðarskarð sem þá var mun erfiðara yfirferðar en nú er, þrátt fyrir að það hafi verið lagt af að öðru leyti en því að vera túristavegur yfir hásumarið. Hinum fyrrverandi sendiherra, Bolt Jörgensen, leist hreint ekkert á ferðina upp í skarðið og vildi komast út úr bílnum og ganga upp. Frú Svava Storr bauðst þá til að koma aftur í til hans og lesa fyrir hann íslensk ljóð á uppleiðinni. Þá sagði Bolt: "Hvis du kan oversætte det på dansk er det í orden, ellers ikke." Þá sagði frú Bodil Begtrup: "Ved du at det er en Chrysler og oveniköbet kört av General Konsulen?" Við þessi orð tveggja glæsikvenna lét Bolt sig og upp í Siglufjarðarskarð ók generalkonsúllinn á sínum Chrysler Windsor með glæsibrag. Þegar upp var komið, beið þar konsúll Aage Schiöth til að bjóða gestina velkomna og bauð upp á kærkomna hressingu eftir svaðilförina.



Bíllinn sem Ludvig Storr átti eftir að búið var að gera hann upp og sprauta.


Ef einhver skyldi hafa áhuga að eignast svona glæsikerru, þá er því miður ekki mikið um þær á bílasölum nú orðið. Þó var einn seldur á nýliðnu ári, á hann var sett kr. 800 þús., en sá mun hafa þarfnast verulegrar aðhlynningar. Ég rakst hins vegar á 1947 árgerðina á amerískri síðu, en þar var toppeintak boðið á $94,500 eða u.þ.b. 11,7 millur.



Ludvig Storr ásamt Svövu konu sinni og gestum í Almannaskarði.


Og ein smásaga í lokin: Eitt sinn sem oftar var konsúlnum og Chrysler Windor Ludvig Storr boðið til veislu að Bessastöðum, en hann var aðeins í meðallagi sleipur í íslenskunni. Frá forsetabústaðnum er fallegt útsýni og stutt niður í fjöru, en mjög var útfallið þegar veislan stóð sem hæst. Ludvig Storr stendur þá við gluggann, horfir á fjöruna og segir: "Það er mikið fjör hér á Bessastöðum."


Heimildir: Mbl.is, Wikipedia, askautoexperts.com, cars.trovit.com.

10.01.2012 12:58

Nánar um það síðar

791. Óvenju lítill tími hefur gefist til skrifa á þessu vefsvæði undanfarna daga, því sitthvað er og hefur verið í bígerð sem þarfnast tímafrekrar undirbúningsvinnu. Þessa dagana er verið að leita að og safna saman ýmis konar hlutum sem nauðsynlegar eru til verslunarreksturs, svo sem notuðum búðarkassa, hillum og ýmis konar innréttingum fyrir verslun, borðum, stólum, auk ýmis konar smærri hluta og nauðsynlegs útbúnaðar. Flest notað og heldur af ódýrara taginu, en nánar um það síðar.

Einhvern tíma fyrir margt löngu síðan, setti ég mér það markmið ef markmið mætti kalla, að blogga 1000 pistla á einhverju ótilgreindu tímabili, láta það gott heita á þeim vettvangi og finna mér eftir það eitthvað annað til dægrastyttingar, sem áhugamál eða til afþreyingar. Samkvæmt þeirri áætlun eru því eftir 209 færslur sem miðað við minn skrifhraða ættu að dreifast á næstu tvö árin eða svo. En ljóst er að sá stíll hefur sífellt orðið meira hægfara eftir því sem tímar hafa liðið, kannski vegna þess að fleira keppir um þær lausu stundir sem leggjast til. Líklega gengur þetta allt eftir, því miðað við þann viðvarandi flótta sem verið hefur úr bloggheimum og yfir í fésveröld, gætu hinir fyrrnefndu hæglega lagst af um svipað leyti og umræddum áfanga er náð. En nánar um það síðar.

Þeir félagarnir og kanínubændurnir Gulli og Konni hafa verið að fást við angórukanínurækt síðan í haust, og er komið að rakstri númer tvö nú í janúar. Nýlega fékk ég að verða þeim drengjum samferða og fylgjast með þegar þeir fóru að gefa, og barði þá dýrðina augum í fyrsta sinn. Bústofninn er ekki stór enn sem komið er, aðeins fjórar kanínur. Breyting verður þó á því innan tíðar því ein kanínan hefur gildnað mjög að undanförnu. Þá er einnig líklegt að núverandi húsnæði fari að verða of lítið fyrir "reksturinn" ef fram heldur sem horfir og ef eitthvert sannleikskorn felst í orðtakinu "að fjölga sér eins og kanínur". Ég hafði myndavélina upp á vasann í túrnum þó það verði sífellt fátíðara og læt svolítið sýnishorn af  " stafrænum afrakstri" mínum fylgja með hér að neðan. En eins og með sumt annað um þessar mundir; - nánar um það síðar.











01.01.2012 18:06

Gleðilegt nýtt ár



790. Aftur og enn er komið nýtt ár, tíminn flýgur hraðar með hverju árinu sem líður og mér finnst hann stundum hendast áfram í þvílíkum lotköstum að ég er mest hræddur um að hann skilji mig eftir einhvers staðar á leiðinni inn í framtíðina. Kannski væri það ekki svo bölvað að hægja aðeins á þróuninni eða þannig. Alla vega verð ég yfirleitt ekki svo ýkja frábitinn hugmyndinni í þau fáu skipti sem ég á leið fram hjá spegli og vík frá þeirri meginreglu sem er að líta undan við slíkar aðstæður. En ég ætlaði ekki að fara allt of mörgum orðum um sjálfan mig á nýju ári, því margt merkilega mun eflaust eiga eftir að fanga athygli okkar þegar fram líða stundir og það er jú framtíðin sem við leiðum flest hugann að um áramót. Við munum til dæmis (ef Óli hættir ekki við að hætta sem einhverjir spegúlantar vilja ekki útiloka) kjósa okkur nýjan forseta á árinu. Auðvitað er strax farið að velta fyrir sér vænlegum kandídötum og er þegar kominn dágóður nafnalisti. Þórólfur Árnason, Jón Baldvin Hannibalsson, Salvör Nordal, Þorvaldur Gylfason, Ragna Árnadóttir, Kristín Ingólfsdóttir, Berglind Ásgeirsdóttir, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Páll Óskar, Þorsteinn Pálsson, Stefán Haukur Jóhannesson, Mugison og stjórnmálaspúttnikinn Jón Gnarr. Þá hefur Ástþór Magnússon gefið í skyn að hann hyggist styðja einhvern verðugan skoðanabróðir sinn, haft var eftir stuðningsmanni Hönnu Birnu að gott væri að fá Bjarna Ben á Bessastaði og eitthvað heyrðist um að Björgólfur Guðmundsson væri flottur í djobbið, en það er gömul pæling og slíkar raddir virðast nú með öllu hljóðnaðar.

-

Svo eigum við von á eldgosum bókstaflega út um allt, eða svo segja hinar ýmsustu og vísustu Völvur og draga ekkert úr því. Hekla, Katla, Blöndulón, Krýsuvík, Vatnajökull og einhvers staðar milli lands og Eyja. Sunnlendingar munu þá væntanlega ekki sjá út úr augunum í einhverja mánuði, en þeir eru auðvitað orðnir vanir slíku og kippa sér ekkert upp við svolitla öskuábót. Búfénaður mun líklega allur falla í hvínandi hvelli, heilu sveitirnar hverfa í ösku og hraun og leggjast í auðn næstu þúsund árin eða svo. Ferðamannabúllur munu hins vegar fitna eins og púkinn á fjósbitanum og hamast við að selja túrhestum eldfjallaösku í litlum glösum sem verða merkt hverju eldfjalli fyrir sig. Bömmerinn verður sem sagt ekki alslæmur og eitthvað gott mun af hljótast.

-

Ein af stóru fréttunum frá því milli hátíða er að Ásdís Rán hefur þyngst um heil þrjú kíló um jólin. Auðvitað er þjóðin slegin yfir fréttunum og mun eflaust fylgjast agndofa með þróun mála á næstunni, senda henni hugheilar samúðarkveðjur og óska henni alls hins besta í baráttunni gegn þeim grimmu örlögum sem margt bendir til að bíði hennar. Hún gæti nebblega þurft að þola einelti þar sem hún yrði kölluð Ásdís Rán feitabolla og þyrfti þess utan að fjárfesta í fullt af nýjum fötum í stærri númerum. En hún er sniðug stelpa að upplagi og gæti auðvitað gert auglýsingadíl við verslunina "Stórar stelpur" við Hverfisgötu.

-

En burtséð frá öllu ofanrituðu sem hefði vissulega mátt sleppa frá fyrsta til síðasta stafs, þá skrapp ég á Tjarnarvelli og leit þar aðeins á brennuna hérna í Hafnarfirði, en síðan lagði ég leið mína til Reykjavíkur þar sem ég staldraði ögn við á Tjarnargötunni. Hér að neðan eru nokkrar myndir frá báðum stöðum, en meira í Myndaalbúmi ef vill.

-

Já og innilegar nýjársóskir

















  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 216
Gestir í dag: 38
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495593
Samtals gestir: 54656
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 13:37:52
clockhere

Tenglar

Eldra efni