Færslur: 2010 Júlí
19.07.2010 13:38
Aðalgatan
(Hótel Hvanneyri)
641. Það var í maí árið 1934 að Sigtryggur Benediktsson sem áður rak Hótel Akureyri opnaði stórt og vandað gistihús á Siglufirði sem hann nefndi Hótel Hvanneyri.
Þetta nýja stórhýsi var fyrsta húsið sem var byggt samkvæmt nýju og endurskoðuðu skipulagi Aðalgötunnar, sem miðaðist við að gömlu lágreistu húsin skyldu víkja smátt og smátt, en háhýsi upp þrjár til fjórar hæðir skyldu koma í þeirra stað.
(Aðalgata 12 gegnt Hótel Hvanneyri)
Þetta var líklega í fyrsta sinn á Íslandi sem stefnt var að því markmiði að þétta byggðina og það var vissulega ekki alveg að ástæðulausu. Bærinn hafði stækkað og fólki fjölgað hraðar en dæmi voru um og ef sú þróun héldi áfram sem hafði verið frá upphafi síldarsöltunar, myndi innan fáeinna áratuga eða jafnvel ára stefna í óefni hvað varðar sæmilega nýtanlegt byggingarland.
(Útvegsbankahúsið við Ráðhústorg var einnig byggt skv. gamla skipulaginu)
Þau orð voru m.a. látin falla að Aðalgatan ætti að líta út eins og skipaskurður, þráðbein og umlukin háum veggjum til beggja handa. Menn hugsuðu greinilega stórt í þá daga, enda fátt sem benti til breytinga í þeirri þróun í búsetu og atvinnumála þjóðarinnar sem verið hafði næstu tæpa 3 áratugi á undan.
(Ofan á Aðalbúðina átti að koma skrifstofuhæð og íbúð á þriðju hæð)
Fimmta hver króna sem þjóðin aflaði í formi gjaldeyris barst um Siglufjarðarhöfn, og Alþingi gat ekki lokið gerð fjárlaga fyrr en lá fyrir hversu mikið af síld hafði verið söltuð á Siglufirði og hvað myndi fast fyrir hana á erlendum mörkuðum.
(Mjólkursamsalan átti líka að verða þrjár hæðir, en eins og á Aðalbúðinni var sett bráðabirgðaþak ofan á neðstu hæðina og "staldrað við")
En nú eru aðrir tímar, önnur framtíðarsýn, aðrar væntingar og þegar gengið er um Aðalgötuna er auðveldlega hægt að ímynda sér að hún hafi verið eins og svolítið ráðvillt í stefnu sinni inn í framtíðina.
(Aðalgatan 1910 - Ljósmyndari ókunnur)
Svona var umhorfs við upphaf Síldarævintýrisins. Myndin er tekin nokkurn vegin þar sem nú er bensínstöð Olís.
(Aðalgatan í dag)
En eins og sjá má hefur margt breyst á 100 árum og þessi mynd er tekin á sama stað og sú hér að ofan.
18.07.2010 04:48
Kjarnakonan hún Nanna Franklín
640. Ég er lengi búinn að reyna að ná mynd af Hallfríði Nönnu Fanklín þegar hún leggur leið sína um bæinn á vélfáki sínum, en henni hefur til þessa alltaf tekist að smjúga úr skotlínu myndavélarinnar áður en ég hef náð að athafna mig. En það kom að því að ætlunarverkið heppnaðist og Nanna er núna komin í albúm. Ég sá hvar hún kom akandi á móti mér eftir Túngötunni og var stödd á móts við Hólakot þegar ég var í þann mund að fara fram hjá Iðjuhúsinu sem ég kalla reyndar ennþá Bólsturgerðina. Ég renndi mér inn á stæðið og smellti af þegar hún ók hjá og kinkaði í leiðinni kolli til mín með bros á vör.
Nanna hefur verið fastur punktur af tilverunni og bæjarlífinu áratugum saman, eða hvað mig snertir í u.þ.b. hálfa öld.
Mín fyrsta minning henni tengd, var þegar ég fékk að sitja í Wolksvagen bjöllunni hennar sem hún átti á árunum um og upp úr 1960. Þá var ferðinni heitið í réttirnar, sem í eina tíð var bæði mikil og merkileg samkunda á haustin. Fyrir þá sem ekki muna eða vita, þá voru þær fyrir ofan núverandi hesthúsasvæði og standa þar enn uppi leifar mannvirkjanna sem minna á þessa liðnu tíð. Kannski hef ég fengið bílfarið út á tengslin við hana í gegn um föðurfólkið mitt, en Nanna er Strandamaður eins og það.
Þá man ég eftir henni þar sem hún afgreiddi í mjólkurbúðinni á Hafnarhæðinni þar sem Óli Geir rak nýlenduvöruverslun í hálfu húsnæðinu, en Dúddi Eggerts löngu síðar videoleigu. Núna er húsið nýtt sem frístundahús eftir því sem ég best veit.
Á unglingsárum nínum rak hún svo sjoppu í kjallaranum á Túngötunni þar sem hún bjó. Þar var oftar en ekki komið við annað hvort á leið í eða úr sundtíma og brást það ekki að Nanna var með prjónana í höndunum þegar við krakkarnir rákum nefið inn hjá henni.
Á þessum árum gengu fáir um bæinn eftir að kólna tók, örðu vísi en með "Franklínhúfu" á höfði og breytti þá litlu hvort þar fóru ungir eða gamlir. Það var með ólíkindum hversu vel húfurnar hennar Nönnu náðu að verða hvort tveggja í senn, tískuflík og skynsamlegt svar við áreiti kuldabola sem vildi klípa í eyrun.
Og Nanna er síður en svo hætt að prjóna. Um síðustu áramót var hafist handa að prjóna 17 km. langan trefil sem tengja skyldi saman þéttbýliskjarnana Siglufjörð og Ólafsfjörð um Héðinsfjarðargöng og stefnt að því að hann verði tilbúinn við opnun þeirra.
Óskað var eftir liðsinni velunnara bæjanna við prjónaskapinn og brást fjöldi fólks bæði hérlendis og erlendis vel við kallinu. Nanna lét að sjálfsögðu ekki sitt eftir liggja og þegar búið var að prjóna u.þ.b. 5 kílómetra af treflinum í síðasta mánuði, hafði hún ein prjónað 300 metra eða um 6% af þeim hluta sem lokið var. Það verður að teljast vel af sér vikið hjá kjarnorkukonunni Nönnu sem er nú á 94. aldursári.
18.07.2010 04:38
Sem lindin tær
(Helgi Björnsson og Guðmundur Ó. Þorláksson)
639. Það hefur varla farið fram hjá neinum sem á annað borð sem hlustar eitthvað á útvarp að "Sem lindin tær" hefur gengið í endurnýjun lífdaga undanfarið og það svo um munar. Það hefur verið spilað eins og sagt er "sundur og saman" fyrst á Bylgjunni, en síðan einnig á Rás 2 og jafnvel eru þess dæmi að það hafi verið spilað tvisvar í einum og sama þættinum sem er eflaust frekar fátítt.
(Bjarki Árnason textahöfundur - kroppað úr Ljósmyndasafni Siglufjarðar)
Ekki eru þó allir alveg sáttir við framtak Helga því óhætt er að segja að þetta lag sé svolítið heilagt í hugum margra Siglfirðinga síðan Guðmundur Ó. Þorláksson söng það fyrir meira en 40 árum með karlakórnum Vísi. Helgi ásamt hljómsveit sinni "Reiðmönnum vindanna" hafi eiginlega "stolið" því og reyni nú að selja það sem hestalag. Útsetningin sé með lágreistara móti, framleiðslan beri það með sér að vera af ódýrasta tagi og að öllu leyti lítið í lagt. Þess utan sé farið vitlaust með textann á a.m.k. tveim stöðum, og í viðtali á Rás 2 á dögunum hafi söngvarinn ekki einu sinni vitað eftir hvern hann er.
Þegar hlustað er eftir, heyrist Helgi vissulega syngja um hundrað strengi í stað undrastengja og hann lætur lindina líka glettast ögn við lítinn fót en ekki blóm eins og Bjarki Árnason lét hana gera í þá góðu gömlu daga.
Þetta og ýmislegt fleira hefur heyrst á götubylgjunni nyrðra og virðist a.m.k. eitthvað af því sem sagt hefur verið eiga við einhver rök að styðjast. Ítalska lagið sem Engilbert Humperdink söng einnig á sjöunda áratugnum er sem sagt orðið svo rammsiglfirskt að einn þeirra sem ég átti svolítið spjall við á dögunum um nefndi gjörninginn "Helgi-spöll" hvorki meira né minna.
En burt séð frá því hvað okkur Siglfirðingum kann að vera þóknanlegt og hvað ekki, er alla vega sá ljósi punktur í málinu staðreynd, að "Sem Lindin tær" í flutningi Guðmundar Gauta hefur fyrir vikið fengið að hljóma nokkrum sinnum í útvarpi allra landsmanna og er það vel.
En Helgi má hins vegar alveg eiga það að hann er afburðamaður á sviði markaðssetningar, því það sjá allir sem þekkja eithvað til svona mála að vinsældirnar eru tilbúnar ef þannig mætti að orði komast, þ.e. lagið er látið verða vinsælt og hann á greinilega marga góða vini meðal dagskrárgerðarmanna.
Guðrún Gunnarsdóttir og Hlöðver Sigurðsson hafa einnig sungið þetta sama lag inn á disk á undanförnum árum og ekki gert því síðri skil, en það dugar skammt ef öflugt tengslanet er ekki fyrir hendi.
17.07.2010 04:43
Tiltekt á síðunni
638. Það er búið að standa til í talsverðan tíma að taka til í tenglasafninu. Margir þeirra sem áður áttu ágæta spretti, hafa í raun yfirgefið bloggheima og snúið sér að "fésinu" eða þá einhverjum allt öðrum áhugamálum. Mánuðum saman er ég búinn að smella á sömu tenglana og sjá sömu "síðustu" færslurnar eða jafnvel tómar og lokaðar síður. Það er því alveg kominn timi á svolitla tiltekt og jafnvel þó fyrr hefði verið. Ég held þó lengi vel í þá veiku von að einhverjir átti sig á villu síns vegar og hrökkvi aftur í gírinn. Þess vegna set ég mörkin nokkuð rúm (að mínu mati) og miða við að ef ekkert hefur gerst sl. 12 mánuði tel ég síðuna af og skiptir þá engu hver á í hlut.
Það eru þó ekki allt í mínus og allir á hröðu undanhaldi, því fáeinir nýjir hafa líka bæst við. Nú síðast sérann á Sigló (Sigurður Ægisson) með nýja og spennandi síðu, svo og Jón Grunnvíkingur sem ég hef lengi ætlað mér að festa link við. Ég skil reyndar alls ekki af hverju ég var ekki búinn að því fyrir löngu síðan því hann er að gera mjög fína hluti, bæði í bloggheimum svo og auðvitað fyrir vestan á henni Ramónu sem stundum hefur líka komið við á Sigló.
Svo eru auðvitað allar ábendingar vel þegnar.
12.07.2010 18:58
Meira jójó
637. Í seinni tíð, ýmist á norður eða suðurleið er oftar en ekki staldrað við á Flugumýri, heilsað upp á kýrnar í fjósinu og mannfólkið inni í bænum. Þegar ég var þar á ferðinni á dögunum lagði ég vinnubílnum "Bláusi" fyrir aftan dráttarvélina sem renndi í hlað rétt á undan mér. Ég rölti til bæjar en leit um öxl um það leyti sem ég kom í hús og sá þá ekki betur en þarna á hlaðinu gæti að líta "drög að myndefni". Eins og sjá má er sá stutti svolítið siginn að aftan, en það er vegna þess að hann fékk það hlutverk að þessu sinni að flytja búslóð (að vísu af minni gerðinni) á milli landshluta. Sætin fyrir bílstjóra og farþega voru færð fram, aftursæti lögð niður og síðan var staflað og raðað af eins mikilli útsjónarsemi og menn áttu til, þar til ekki var lengur pláss fyrir svo mikið sem haldapoka.
Það var óvenju gestkvæmt meðan ég staldraði síðast við á Sigló sem var ekkert nema skemmtilegt. Einn af þeim sem áttu leið um og heiðraði mig með nærveru sinni var Ásgeir bakari, en hann hafði með sér amerískan og þýskan hveitibjór sem eru talsvert ólíkir flestu öðru sem ég hef kynnst í þeim efnum. Hann hefur verið á mjög sérstöku námskeiði undanfarið sem hann sagði mér frá um leið og við smjöttuðum á innihaldi glerílátanna. Þegar hann minntist á "bjórnámskeið" datt mér fyrst í hug að það væri auðvitað yfirskin til að komast frá uppvaskinu og bleyjuskiptunum heima fyrir eitt kvöld í viku eða svo, en því var ekki þannig farið. Námskeiðið var á fræðilega sviðinu, farið var yfir sögu bjórsins og þróun síðustu árhundruðin, uppbyggingu, framleiðsluaðferðir og mismunandi efnasamsetningu, mismunandi neyslumynstur og markaðssetningu og svo mætti lengi telja. - Í ALVÖRU.
E.S. Hver er annars munurinn á ölgeri opg pressugeri?
Eitt af því sem pirrar mig mjög mikið í umferðinni á þjóðvegunum, svo og eflaust marga fleiri, er algjörlega tilgangslaus og stórhættulegur framúrakstur ökumanna sem eru annað hvort yfir sig stressaðir eða einhverjir heilalausir gerfitöffarar.
Það var einmitt ein slík uppákoma sem gerði mig fúlann (ég verð það víst stundum) á leiðinni niður Norðurárdalinn rétt fyrir ofan Bifröst. Umferðin var nokkuð þétt og ég var aftastur í langri lest sem liðaðist í suðurátt á 80 km. hraða. Umferð var líka nokkur á móti og það var nú einmitt meinið í þetta skiptið. Ég sá í baksýnisspeglinum hvar silfurlitaður jeppi nálgaðist hratt og það skipti engum togum að þegar hann var kominn fast að mér, skellti hann sér fram úr í sama mund og annar bill var rétt um það bil að mæta okkur. Mér dauðbrá því á þessu átti ég ekki von og mín ósjálfráðu viðbrögð voru að nauðhemla. Það var líklega eins gott því að hægra afturbretti jeppans var ekkert mjög marga sentimetra frá vinstra framstuðarahorni mínu þegar hann snöggsveigði fyrir mig og inn á réttan vegarhelming. Honum hefur líklega eitthvað verið brugðið sjálfum því talsverð stund leið áður en hann ók fram úr næsta bíl, og síðan þar næsta, eftir það þar, þar næsta o.s.frv. Ég hugsaði honum þegjandi þörfina og bölvaði í hljóði, en staðan bauð ekki upp á aðrar aðgerðir en skot í gegn um linsuop.
Síðustu Siglufjarðarlotu lauk annars s.l. föstudag, menn því komnir suður fyrir fjöll og heilmikið búið að vera að gerast um helgina. Ber þar hæst að ég eignaðist nafna, því sveinbarni Svandísar M. E. Leósdóttur og Jóhanns Waage var gefið nafn að sið ásatrúarmanna. Sá kornungi maður fæddist þ. 3. júní s.l. og heitir Ólafur Leó Waage.
Og þar sem eitt og annað smálegt liggur fyrir hér syðra sem þarf að sinna næstu daga, þykir ekki vera inni í myndinni að aka norður fyrr en eftir komandi helgi, því það stendur til að "skralla" á Catalinu 16. og 17. júlí n.k. Eftir helgina verður svo brunað norður og dvalið þar eitthvað fram í ágúst við endurbætur á húsinu uppi á Hafnarhæðinni.
- 1