Færslur: 2015 Október

08.10.2015 10:13

Valash



Saga gosdrykkjarins "Valash" er nokkuð sérstök og ótrúlega margslungin þegar farið er að skoða hana örlítið ofan í kjölinn. Það mun hafa verið árið 1928 sem ungur og nýútskrifaður lyfsali flutti til Siglufjarðar og hóf þar starfsemi í húsi sem ég er reyndar eigandi að í dag ásamt bakaranum á staðnum. Hinn ungi maður hét Aage Riddermann Schiöth, fæddur á Akureyri, sonur Axels Schiöth bakara, og var náfrændi Hinriks Thorarensen þar í bæ og menntaði sig í Þýskalandi.




Rekstur Apóteksins gekk vel og árið 1930 var búið að flytja það af grunni sínum á baklóð og reisa nýtt glæsilegt hús á lóðinni.
Hann vildi þá færa út kvíarnar og fór að reyna fyrir sér á fleiri sviðum. Árið 1939 fékk gamla húsið á baklóðinni nýtt hlutverk, því hann stofnaði Efnagerð Siglufjarðar sem varð þar til húsa og hóf framleiðslu gosdrykkja, þar á meðal Valash. Drykkurinn varð geysivinsæll og seldist um tíma betur á Siglufirði en alheimsdrykkurinn "Kóka kóla".



Hús Schiöth á Siglufirði þar sem hann rak Apótekið


Schiöth mun hafa verið nokkuð veisluglaður maður og sagt er að ósjaldan hafi mátt heyra söng og glasaglaum út um opna gluggana á íbúð hans fyrir ofan Apótekið, en hann var líka mikill söngmaður og söng m.a. einsöng inn á hljómplötu með karlakórnum Vísi. 
Sagt er að eitt sinn mun maður nokkur hafa verið á leið til vinnu sinnar snemma morguns og gengur niður Aðalgötuna. Heyrir hann þá að enn stendur yfir gleðskapur í húsi Apótekarans, en þó eru orðin nokkuð greinileg þreytumerki á þeim sem þar eru. Hann staldrar við og hlustar um stund, en þarna virðast tveir menn vera að reyna að syngja saman þekkt íslenskt sönglag af mikilli innlifun. Önnur röddin var björt og áferðarfalleg, en hin var dimm og all nokkuð drungaleg. Tenórinn var áberandi lagviss en sá dimmraddaði var víðs fjarri nokkurri laglínu og hljóðin sem hann gaf frá sér líktust mest drungalegu bauli. Daginn eftir fréttist að Davíð nokkur Stefánsson frá Fagraskógi hefði sótt Apótekarann heim og þeir hafi gert sér glaðan dag saman.

En af nostalgíudrykknum Valash er það að segja að starfsemin flyst til Akureyrar árið 1962 þegar til varð Efnagerð Akureyrar, en hún breyttist síðan í Sana hf. 1966 sem aftur sameinaðist Sanitas 1978. Það varð síðan Víking árið 1994 sem sameinaðist Sól 1997 svo úr varð Sól-Víking sem gekk inn í Vífilfell 2001.

Lítið hefur hins vegar farið fyrir framleiðslu á Valash í einhverja áratugi, (fróðlegt væri að vita hversu marga) en einhvern tíma heyrði ég þá sögu að MIX hefði átt að leysa það af hólmi sem svar norðlendinga við appelsíninu að sunnan. Líklega var svo Valash-ið fyrsti sykurlausi gosdrykkurinn hérlendis ásamt Fresca.

En sagan var þó ekki alveg öll, því segja má að þessi drykkur sem enn á veglegt pláss í hugum margra norðlendinga, því hann var "endurgerður" þegar Minjasafnið á Akureyri varð 50 ára 2. júní 2012, við það tækifæri mikið drukkinn af ánægðum gestum og lofaður í hástert.
Þá sveif andi 1962 yfir vötnunum, Lúðrasveit Tónlistarskólans á Akureyri flutti viðhafnarlög, haldnar voru ræður og gestum og gangandi var boðið upp á Valash, Lindu buff og Braga kaffi. Síðan var tjúttað við undirleik Danshljómsveitar kirkjumálarans Snorra Guðvarðssonar.

Því er svo við að bæta að Akureyringar hafa alveg gert Valash-ið að sínu og svo er einnig um músikantinn Snorra Guðvarðsson. Eins og fram kemur hér að ofan kom Valash-ið frá Siglufirði, en uppskriftin mun þó vera þangað komin frá Danmörku. Um Snorra er það að segja að hann er að vísu fæddur á Akureyri eftir því sem ég best veit, en það mun hafa verið skömmu eftir að foreldrar hans fluttu frá Siglufirði og eldri bróðir hans Trausti Reykdal videógúrú á Eskifirði fæddist í Síldarbænum. Akureyringar virðast þannig hafa notið góðs af uppsprettu góðra hugmynda og góðu fólki sem komu frá bænum út við Grímseyjarsundið - og öfugt. 


(Samvinnuhugmyndafræðin í hnotskurn og því kannski svolítið KEA-legt).









Sérstakar þakkir til Þórs Jóhannssonar á Siglufirði sem safnað hefur öllum þessum óborganlegu minningum frá liðinni öld.


Allar leiðréttingar og viðbætur vel þegnar...

  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 448
Gestir í dag: 102
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495825
Samtals gestir: 54720
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 14:42:01
clockhere

Tenglar

Eldra efni