Færslur: 2010 Febrúar

26.02.2010 12:19

Ný kynslóð Nígeríubréfa



617. Nígeríubréfin hafa nú tekið á sig nýja mynd með hjálp þýðingaforrita. Þau þróast eða þroskast í þeim tilgangi að ná betur til fórnarlamba sinna, en útkoman verður líka svolítið skondin í leiðinni vegna þeirra tæknilegu takmarkanna sem forritinu fylgir.

Slík forrit geta eflaust gagnast ágætlega sem hjálpartæki við vissar aðstæður, en þau eiga greinilega talsvert langt í land með að falla svo vel sé að íslensku málkerfi sem er ekki það einfaldasta í heimi.

Markmiðið virðist vera það að ná betur til vænlegri markhóps, t.d. þeirra sem eru illa mælandi á enska tungu og að öllum líkindum því minna menntaðir.

Ég fékk eina af þessum endurunnu sendingum með rafpóstinum.

 

 

"Halló,

                                       
   Góður dagur, ég sakna Sarah Thomas, from Abidjan Cote d'Ivoire, Ég óska eftir að beiðni um aðstoð þína í áætlunum fjárfestingu mína í grunn þinn, ÉG vilja til að fjárfesta í framleiðslu og fasteignir stjórnun í grunn þinn, þetta er vegna þess að ég arf mikilvægt er frá seint í föður mínum Höfðingi Steve Thmas.
sem var eitur af félagi hans viðskipti í einni af outings þeirra til discuse um viðskipti.
 
Fyrir dauða föður mínum, gaf hann mér öll nauðsynleg lagaleg skjöl um afhendingu sjóðsins í bankanum, sem hann hefur vistað alger summa ($ 3,5) þrír million fimm hundred thousand Bandaríkin dollari aðeins í einn af banki hér í Fílabeinsströndin, var þetta fé verið afhent fyrir félagslegu öryggi mínu og ber ávöxt erlenda, ábendingar þínar og hugmyndir munu vera mjög litið. Nú leyfi mér að spyrja þessa nokkurra spurninga:
1. Getið þið hjálpað heiðarlega mér af hjarta þínu?
2. Get ég treysti fullkomlega þér?
3. Hvaða hlutfall af heildarfjölda fé verður appreciateable fyrir þig?
 
Vinsamlegast, íhuga þetta og koma aftur til mín eins fljótt og auðið er. Immedaitely Ég staðfesti vilja þínum, mun ég senda þér myndina mína og einnig gefa þér meiri upplýsingar um mig og bankinn þar seint á föður minn vörslu sjóðsins, þannig að þú getur náð í bankanum og staðfesta tilvist sjóðsins og því sjá er að trúa. Ég er að bíða strax svar þitt.
 
Bestu kveðjur
ungfrú Sarah Thomas¨"




Maður nokkur sem fékk sambærilegan póst og má sjá hér að ofan, ákvað að bregða á leik og gera svolítið at í sendandanum. Hann svaraði erindinu og lýsti yfir miklum áhuga sínum á að skoða það frekar. Ekki stóð á viðbrögðunum og í næsta bréfi var aðstæðum sendanda lýst enn átakalegri en áður, ákallið um hjálp var enn meira sannfærandi, en einnig var beðið um ýmsar upplýsingar s.s. símanúmer, heimilisfang og númer bankareiknings.

Ekki var svarandinn alveg á því að veita umbeðnar upplýsingar umyrðalaust, en eftir að hafa skipst á nokkrum tölvupóstum til viðbótar stingur hann hins vegar upp á því að báðir aðilar hittist á svonefndu Damtorgi sem er í Amsterdam í Hollandi. Þar muni verða gert út um viðskiptin og allir væntanlega græða og ganga sáttir frá borði.

Fundurinn á Damtorgi var ákveðinn tiltekinn dag og stund, en okkar maður setti nokkur skilyrði.

"Til að ég þekki þig úr fjöldanum og útiloka að um nokkurn misskilning eða mistök geti hugsanlega orðið að ræða, verðurðu að skera þig úr fjöldanum á mjög afgerandi hátt".

Jú það var auðvitað alveg rétt, ekki máttu verða nein mistök og það var líka til mikils að vinna.

"Vertu í gulum jakkafötum, með gult bindi en líka slaufu, og með hatt sem minnir á eitthvað matarkyns".

Lýsingin hljómaði þannig að þetta gæti orðið nokkuð skrautleg útfærsla. Tillagan var þó samþykkt, en með nokkrum semingi þó.

"Svo verður þú að ganga gæsagang um torgið, syngjandi þýska hergöngumarsa - á þýsku".

Nú var mótmælt og þetta síðasta var talið alveg út í hött, óþarft með öllu og auk þess kynni sendandi bréfsins enga þýsku.

Okkar maður gaf hins vegar engan afslátt á ítrustu kröfum sínum.

"Það er ekkert mál að skella sér á stutt námskeið í þýsku og svo vil ég líka vera alveg hundrað prósent viss".

Þetta var því samþykkt líka en með enn meiri tregðu krafan um búninginn.

Þegar stefnumótadagurinn rennur upp fer okkar maður á torgið og kemur sér þægilega fyrir á bekk með dagblað nokkru áður en sá guli átti að birtast.

Og á þeim tíma sem um hafði verið rætt hófst mikil skrautsýning á torginu sem stóð lengi, því okkar maður gerði að sjálfsögðu ekki vart við sig. Uppákoman vakti þó blendin viðbrögð hjá viðstöddum, því þýskir hergöngumarsar höfðu svo sem verið gengnir áður þarna yfir torgið. En búningur þess sem gjörninginn framdi þótti einstaklega litríkur og allrar athygli verður, einkum þó höfuðfatið. Dagblaðið kom hins vegar í góðar þarfir því okkar maður skýldi sér á bak við það og bókstaflega grét af hlátri.

20.02.2010 01:06

Siglótengt



616. Ég var á ferðinni
inni í Reykjavík sem oftar og sá þá þennan afturenda á strætó. Það verður að segjast sannleikanum samkvæmt, að þessi sýn sem þarna blasti við mér gladdi mig verulega. Ég hef stundum verið að skima eftir þeirri afurð sem þarna sést auglýst, en alls ekki fundið allt of víða - að mínu mati. Þó veit ég það nú orðið að það má alltaf ganga að henni vísri í "verðlaunabúðinni" Fjarðarkaupum. Fyrir ekki svo margt löngu síðan fékk ég "skyndilöngun" í Egils-síld og var þá staddur á Siglufirði. Ég átti leið í tvö stórmagasín nyrðra þann dag sem ég fylltist umræddri löngun og málið bjargaðist, en þó ekki á þann hátt sem ég átti von á. Egils-síld var EKKI til í Samkaupum, en Eysteinn klikkaði hins vegar ekki. En það er sem sagt markaðsátak í gangi hjá Egils-síld.




Þessi mynd er tekin út um framrúðuna á Bláus á Fjarðarhrauninu í Hafnarfirði. Það vakti ekki bara athygli mína að þarna fór um götu gamall Volvo Amazon, heldur var hann líka með F-númeri. Það var hins vegar sama hvað ég gruflaði, ég mundi alls ekki eftir því af heimaslóðum frá árum áður, og þegar ég stoppaði á rauðu ljósi við hliðina á þessum fallega fornbíl kannaðist ég ekkert við ökumanninn.
Veit annars nokkur....?




Ég hef verið að lesa óvenju mikið undanfarnar vikur miðað við að slíkt gerðist bara alls ekki fyrir fáeinum mánuðum síðan. Af þessum fimm bókum sem hafa verið eða eru til lestrarlegrar meðferðar um þessar mundir, eru þrjár "Siglufjarðartengdar" ef þannig mætti að orði komast. Ég byrjaði á efstu bókinni í staflanum "Stjörnuskipið", en það er íslensk vísindaskáldsaga eftir Kristmann Guðmundsson frá árinu 1975. Ég stóðst að sjálfsögðu ekki mátið þeagr ég sá hana í "Góða hirðinum" á heilan hundraðkall, en ég hef verið undarlega veikur fyrir vísindaskáldskap frá barnæsku. "Stjörnuskipið" er alveg stórskemmtileg saga og þó hún sé vissulega svolítið barn síns tíma, þá hefur hún staðist tímans tönn hreint ótrúlega vel. En þessi bók er ein af þeim Siglufjarðartengdu þó óvíst sé að margir átti sig á þeirri tengingu hjálparlaust. En Kristmann Guðmundsson rithöfundur var bróðir Kristins Guðmundssonar útvarpsvirkja sem bjó á Hverfisgötu 1, og því förðurbróðir Steingríms Kristinssonar, hins ötula upphafsmanns siglo.is og ljósmyndagúrús.

Hin eina sanna Star wars eftir George Lucas var svo næst í röðinni og þrátt fyrir að kunna söguna utan að, las ég hana eins og langþyrstur maður myndi teiga glas af köldu vatni. Ég er núna kominn vel inn í "Sjúddirarirei" og verð mikið hissa á sjálfum mér ef hún verður ekki upplesin innan einhverra klukkustunda miklu frekar en daga. Eftir hana bíða mín "Harmleikur í Héðinsfirði" og "Þorskastríð og hvernig á að tapa þeim". Það er því enn til nokkurs að hlakka.

17.02.2010 11:21

Bíóborgin

Anton og Gunnar árið 1979

615. Það mun að öllum líkindum hafa verið snemma árs 1979 að tveir tiltölulega ungir menn fóru að undirbúa opnun nýs kvikmyndahúss. Hvorugur þeirra vissi þó meira um kvikmyndir en venjulegur meðaljón sem hlýtur að gera þá í augum margra að miklum bjartsýnismönnum, enda fór svo að þeir fetuðu þann þrönga troðning þar sem menn reka sig á flest hornin. Það er sagt að í lífsins skóla séu skólagjöldin í hærri kantinum og það sé bæði skynsamlegra og ódýrara að nýta sér reynslu annarra, en þeir eru engu að síður ófáir sem kjósa að setja undir sig hausinn og telja sig vita betur en þá sem reynt hafa. Þessir drengir fóru þá leiðina og hér að neðan verður stiklað á stóru um sögu Borgarbíósins við Smiðjuveg 1 í Kópavogi, en mér hefur löngum þótt hún svolítið merkileg á sinn hátt og tel hana eiga fullt erindi í þess konar skólabækur sem notaðar eru til kennslu í markaðsfræðum. Þetta voru þeir Gunnar Jósefsson sem nú rekur Laugarásvideó og Anton Kröyer sem hefur rekið hljóðfæraverslunina Gítarinn frá upphafi.

 

Framan af voru þeir duglegir að setja sig í samband við fjölmiðla, enda höfðu þeir allt að vinna og leiðin að viðskiptavininum liggur vissulega í gegn um þá. Í Vísi birtist eftirfarandi frétt laugardaginn 14. júlí 1979.

 

Nýtt bíó opnar 1. ágúst - Borgarbíóið í Kópavogi

"Það er hugmyndin að kalla þetta bíó Borgarbíóið og á það að rúma um 300 manns i sæti", sagði Anton Kröyer, en hann ásamt Gunnari Jósefssyni er að fara af stað með nýtt bió að Smiðjuvegi 1 austast i Kópavogi. Anton sagði að þeir hefðu fengið leyfi hjá bæjaryfirvöldum i Kópavogi til að starfrækja kvikmyndahús á þessum stað, en hann væri miðsvæðis milli Breiðholts, Kópavogs og Fossvogshverfis. Væri nú verið að vinna af fullum krafti en stefnt væri að þvi að opna kvikmyndahúsið i byrjun ágúst. Anton var spurður hvers konar kvikmyndir kæmu til með að verða sýndar þarna og sagði hann að mest væru það amerískar afþreyingarmyndir eins og algengastar væru i kvikmyndahúsum, en þó væri meiningin að reyna að hafa nokkra fjölbreytni i vali þeirra mynda sem teknar yrðu til sýninga.

 

Og þeir komu að sjálfsögðu víðar við því Tíminn fjallaði einnig um þessi tímamót í Íslenskri bíósögu í "Kvikmyndahorninu" þar sem fjallað mun hafa verið um kvikmyndir og kvikmyndatengd málefni.

 

Nýtt bíó.

Um mánaðamótin næstu verður opnað nýtt kvikmyndahús á höfuðborgarsvæðinu. Eigendur þess eru Gunnar Jósefsson og Anton Kröyer, báðir um þrítugt. Þar sem það hljóta að teljast allnokkur tíðindi á þessari öld imbakassans að nýtt bíó hefji starfsemi, lagði skrifari Kvikmyndahornsins leið sína á frídegi verslunarmanna í Kópavoginn, nánar tiltekið að

Smiðjuvegi 1. Það var erfitt að ímynda sér að nokkur maður væri að vinna í slíku dýrðarveðri sem var þennan dag. En viti menn. Frá húsinu barst hávaði frá vélsög og borvél ásamt hamarshöggum. Það var Gunnar sem var að saga, en Anton stóð uppi í stiga og var önnum kafinn við að skrúfa hlera fyrir glugga í sýningarsalnum. Með hálfum huga bað skrifarinn þá

félaga að rabba við sig örstutta stund. Við þeirri frómu ósk var orðið og fyrst var spurt um stærð hússins.

G&A: Bíóið á að taka 312 áhorfendur. Ef vel gengur getum við bætt við öðrum sýningarsal fyrir tæplega hundrað manns.

SKRIFARI: Hvað á bíóið að heita?

G&A: Við höfum ákveðið að kalla þaö Borgarbíóið.

SKRIFARI: Ráðgerið þið að skapa Borgarbíói einhverja sérstöðu meðal kvikmyndahúsanna á höfuðborgarsvæðinu með því að sýna ákveðna tegund kvikmynda?

G&A: Nei, við stefnum að þvi að hafa sem fjölbreytilegast úrval kvikmynda af sama tagi og önnur kvikmyndahús. Nú þegar höfum við náð samningum við bandarísk dreifingarfyrirtæki um leigu á nokkrum myndum. Sýningarfjöldinn hjá okkur verður sá sami og öðrum, þ.e. þrjár sýningar á dag.

SKRIFARI: Hvernig er tækjakosturínn?

G&A: Við erum með nýja 35 mm Pion sýningarvél með scopelinsu, sýningartjaldið er 8x4 metrar.

SKRIFARI: Eruð þið ekki illa i sveit settir að vera með bíóið i Kópavogi?

G&A: Nei, síður en svo. Óhætt er að segja að við séum mjög miðsvæðis hérna austast i Kópavoginum, mitt á milli Breiðholtsins og annarra hverfa i Reykjavík.

SKRIFARI: Hvenær á að byrja?

G&A: Við ætlum að reyna að byrja síðustu vikuna i ágúst.

SKRIFARI: Hver verður fyrsta myndin?

G&A: Það er leyndarmál að svo komnu máli.

Áður en skrifarinn vissi af var Anton farinn að skrúfa uppi í stiganum og Gunnar að bjástra við sögina.

G.K.

 

Aftur tók Vísir upp þráðinn þar sem frá var horfið og birti svolitla innsíðufrétt um hið nýja kvikmyndahús þ. 20. sept. 1979. Er mér ekki með öllu grunlaust um að það hafi verið fyrir þrábeiðni aðstandenda þeirra félaga og þar hafi auðvitað auglýsingahagsmunir blaðsins einnig ráðið för.

 

NÝTT BÍÓ FYRIR KÓPAVOGS- OG BREIÐHOLTSBÚA

"Breiðholtsbúar hafa mikið kvartað undan þvi að það vanti kvikmyndahús i hverfi þeirra og einnig hefur ekki verið kvikmyndahús i Kópavogi siðan 1972", sagði Anton Kröyer, en hann hefur ásamt Gunnari Jósefssyni opnað nýtt kvikmyndahús að Smiðjuvegi 1 i Kópavogi. Borgarbió heitir það og er i Útvegsbankahúsinu, stutt frá Breiðholtsbrautinni.

 

"Við vonumst til að þetta kvikmyndahús fylli það skarð sem verið hefur i kvikmyndamálum

Breiðholtsbúa og granna þeirra í Kópavogi", sagði Anton. Nýja kvikmyndahúsið tekur 311 manns í sæti. Mesti leyfilegi halli er á gólfi hússins þannig að ekkert sem fram fer á hvíta

tjaldinu ætti að fara fram hjá kvikmyndahúsgestum. Borgarbíó er fyrsta kvikmyndahúsið

sem þannig er úr garði gert að fatlaðir eiga auðvelt með að komast í húsið. Skábrautir eru fyrir hjólastóla. Svið hússins er mjög stórt og rúmgott, þannig að það er upplagt að halda hljómleika og sýna leikþætti í húsinu.

"Við höfum þegar ákveðið hljómleika sem líklega verða sunnudaginn 30. september", sagði Anton. Margar forvitnilegar myndir verða í Borgarbíói á næstunni, má til dæmis nefna bandarisku kvikmyndina Van Nuys Blvd. (Rúnturinn) sem hefur hlotið mjög góða aðsókn í Bandarikjunum. Sýnt er í Borgarbíóii klukkan 3, 5, 7, 9 og 11.

-KP.

 


Gunnar Jósefsson og Anton Kröyer fyrir utan Borgarbíóið, en það er i Útvegsbankahusinu á Smiðjuveginum i Kópavogi. (Tímamynd 12. ágúst 1979)

 

Skömmu eftir opnunina birtist viðtal við Gunnar í Helgarpóstinum. Þar var bjartsýnin greinilega í fyrirrúmi og þeir félagar virtust meira að segja vera í þann veginn að opna B-sal í húsinu sem þó aldrei varð. Athyglisvert er hve mikið virðist vera einblínt á stærð markaðarins en mun minna lagt upp úr því sem hlýtur að teljast hitt stóra lykilatriðið, þ.e. góðum myndum.

 

Borgarbíó í Kópavogi ekki bara bíó:

TÓNLEIKA OG REVÍUHÚS

Borgarbíó, nýja blóið sem Helgarpósturinn sagði frá í sumar, hóf starfsemi sína fyrir hálfum mánuði. Þar með hafa Kópavogsbúar fengið sitt bíó á ný, eftir að kvikmyndasýningar voru aflagðar i Kópavogsbíói. En eigendurnir þeir Gunnar Jósefsson og Anton Kröyer, hafa ekki bara bíó á dagskrá hjá sér. Eftir hálfan mánuð hyggja þeir á poptónleika þar sem m.a. "Ljósin i bænum" koma fram, og hugmyndin er að hafa í framtiðinni möguleika á kabarettsýningum. "Það var ágæt aðsókn að sýningunum hjá okkur fyrstu helgina en frekar rólegt i vikunni á eftir. Mest aðsókn á fimmtudaginn. Þegar við getum farið að auglýsa okkur betur fer fólk vafalaust að átta sig á að það er komið nýtt bíó", segir Gunnar Jósefsson.

"Við efumst ekki um að það er grundvöllur fyrir þessu. Bíóið er mitt á svæði þar sem búa um 40 þúsund manns. Í Kópavogi eru þrettán þúsund, 23 þúsund i Breiðholti og svo er það Fossvogshverfið".

Það er ekki áhlaupaverk fyrir nýtt kvikmyndahús að komast inn á markaðinn og útvega góðar myndir. Þó hefur þeim félögum tekist að ná samningi við Manson í Hollywood, og þegar um hægist ætla þeir að bregða sér yfir pollinn til að fá fleiri sambönd við kvikmyndaframleiðendur. Á næstunni taka þeir til sýninga myndirnar "The Shadows of Chikara", "Bare Knuckles", "Kill Alex, Kill" og "End of the World Storm". Í þeirri siðarsnefndu er Christopher Lee í aðalhlutverki. Og þegar þeir hafa tekið í notkun hundrað manna sal við hlið aðalsalarins, er hugmyndin að flytja myndirnar þangað þegar aðsókn tekur að slakna, en byrja á nýrri mynd í aðalsalnum. - ÞG



Í Borgarbíóið komu stundum myndir sem aldrei hefðu verið sýndar í neinu öðru bíóhúsi hérlendis og þó víðar væri leitað. Reyndar er þessi fullyrðing svolítið tvíbent og ræður smekkur þess sem leggur út af hverju sinni hvort hún er jákvæð eða neikvæð.

Í september 1979 sýndi Borgarbíóið m.a. myndirnar Robinson Cruso, Fyrirboðann (Premonitión) og Blóðþorsta (Bloodlust) kl. 11, en í blaðaauglýsingum má lesa eftirfarandi lýsingu um þá síðast nefndu: Ensk mynd um geðveikan mann, sem grefur upp nýgrafin lík og sýgur úr þeim blóðið.

Til marks um samkeppnina var Regnboginn að sýna Deer hunter á sama tíma, Nýja Bíó Damien - Omen II, Tónabíó Sømænd på sængekanten og Háskólabíó Assault on Precint 13.

 

Í október hafði Austurbæjarbíó tekið til sýninga Clint Eastwood myndina The Enforcer, eina af Dirty Harry myndunum, Saturday Night Fever var sýnd í Háskólabíó, Laugarásbíó flaggaði hinni frábæru Animal house, en sömu myndir eru enn til sýninga í Borgarbíói.

Æ, æ. Þetta leit ekki vel út.



Örlaganóttin heitir "Silent night bloody night" á frummálinu, en aðstandendur kusu að nota einungis íslenska nafnið. Ástæðan mun hafa verið sú að þá voru minni líkur á að það kæmist í hámæli að myndin var orðin 5 ára gömul.

Í nóvember 1979 var "stórmyndin" ÖRLAGANÓTTlN tekin til sýninga og auglýsingin sem birtist í blöðunum var eftirfarandi:

Ný feykispennandi bandarisk hrollvekja, sem fær hárin til að rísa og taugarnar til að titra.

Hjón koma að gömlu óðalssetri til gistingar, þau órar ekki fyrir þeim grimmu örlögum sem bíða þeirra þar. Hver voru þessi grimmu örlög sem biðu þeirra og annarra er lögðu leið sína í óðalssetrið????? Það þarf sterkar taugar til að líta ekki undan þvi er gerist á hvíta tjaldinu.

Það slær út á fólki köldum svita er það sér hina draugalegu atburðarás "ÖRLAGANÆTURINNAR".

Engan getur órað fyrir hinum mjög svo óvænta endi myndarinnar. - Hún svíkur engan þessi.

 

Hið nýja kvikmyndahús hafði ekki starfað nema í fáeina mánuði þegar var farið að bera á gagnrýnisröddum hvað varðaði myndaval. Ljóst var að reynsluleysi aðstandenda var farið að koma þeim verulega í koll og engu líkara en aðeins væri hugsað um að halda innkaupsverði þeirra mynda sem keyptar voru til sýninga niðri.

 

Helgarpósturinn 16. nóvember 1979

Til þess að einhver von sé um að svona fyrirtæki beri sig, því þetta er jú bissness en ekki góðgerðarstarfsemi, þá verður að bera lágmarks virðingu fyrir smekk kvikmyndahúsagesta.

Nýtt fyrirtæki á alltaf í erfiðleikum með að vinna markað og til þess að það megi gerast, verður það að geta boðið betur en keppinauturinn, eða þannnig held ég að það gangi i

frumskógi samkeppninnar. Gæði kvikmynda i Reykjavík hafa aldrei verið mikil þegar á

heildina er litið, en segja má að flest öll hús komi öðru hverju með mynd, sem hægt er að

horfa á. Ég hef að vísu ekki séð nema ofannefnda mynd í Borgarbióinu, en af auglýsingum

að dæma er hún síst verri en þær sem á undan hafa farið. Í Örlaganóttinni er meira að segja einn frægur leikari, meira en hægt er að segja um hinar. Ég var einn af þrem áhorfendum

(að visu fór ég kl. 7) og ef aðstandendur þessa kvikmyndahúss ætla að fá fleira fólk til sin, verða þeir að endurskoða myndval sitt. Þetta eru byrjunarörðugleikar, segja þeir, en þegar byrjunarörðugleikarnir eru viku eftir viku er hætt við að fólk nenni ekki að koma. Það væri synd, þvi eins og áður segir, er húsnæðið alveg ágætt. - GB.

Ég gúgglaði þessa mynd og komst að því að hún heitir á frummálinu  "Silent night, bloody night", er amerísk, gerð árið 1974 og hinn virti kvikmyndagagnrýnandi Leonard Maltin kallar hana "the best of the So-Bad-it's-Good movies".

 

Í desember 1979 var svo jólamyndin auglýst með pompi og prakt og hvergi til sparað þegar kom að því að skreyta auglýsingar blaðanna með sterkum lýsingarorðum.

 

Stjörnugnýr.

Fyrst var það "Star Wars" siðan "Close Encounters", en nú sú allra nýjasta, STAR CRASH eða "Stjörnugnýr" - ameriska stórmyndin um ógnarátök i geimnum. Tæknin i þessari mynd er hreint út sagt ótrúleg.



Hin fáklædda Stella og geimverurnar hennar.


En það kvað við talsvert annan tón þegar gagnrýnendur tóku hana fyrir. Guðlaugur Bergmundsson sem skrifaði í Helgarpóstinn á þessum árum, hafði eftirfarandi um myndina að segja.


Stella Star getur allt

Borgarbíóið:

Stjörnugnýr (Star Crash).

Bandarisk kvikmynd. Leikendur:

Marjoe Gortner, Caroline

Munro , Christopher Plummer.

Handrit og leikstjórn: Lewis Coates.

Stella!

Simon!

Ah Stella!

Simon!

Þau fallast i faðma, Stella Star og Símon keisarasonur, brátt verður heimurinn þeirra. Á meðan situr gamli keisarinn á hásæti sínu og segir okkur nokkur spakleg orð. The End.

 

Star Wars var mynd og var hún af ætt Lucas, þess sem fyrrum gerði mynd um táninga og togstreitu. Star Wars var mynd mikil og gat af sér mörg afkvæmi, að vísu öll þrælóskilgetin og með misjafnt greppitrýnið. Komu meira að segja upp deilur um hvort hún væri í raun móðir allra stjörnuhamfaramynda. Vildu sumir meina að svo hafi ekki verið. Ekki ætla ég mér aö blanda mér í þessar deilur. Hitt er víst að Stjörnugnýr er óskilgetið afkvæmi þeirra kynstóru myndar sem áður er getið, eða skilgetið, það fer eftir þvi hvernig menn vilja líta á hlutina. Stella Star heitir kona og þykir ægifögur með nettan kropp enda gengur hún um á bikini allan liðlangan daginn, nema þegar hún gengur út i snjónum og í frostinu, þá fer hun í sundbol. Stella þessi er geimflugkona og smyglari að atvinnu. Félagi hennar heitir Akton og er maður forspár, veit hvenær hann á að deyja og er ekki með neitt múður. Þetta eru bara forlögin segir hann. Það er ekki hægt að breyta framtiðinni, en ég mun lifa að eilifu. Hann segir ekki amen, en hverfur þess í stað sjónum okkar. Eftir ýmsum krókaleiðum fá þau það verkefni að bjarga stjörnukerfinu úr bráðri hættu, því hinn grimmi greifi myrkravaldanna Zarth Arn girnist völdin, en auðvitað má slíkt ekki henda og hendir að sjálfsögöu ekki eins og vera ber. Ferðast er milli stjörnukerfa ýmist í efra eöa neðra lagi geimsins og fögur eru fleyin. Ég gleymdi að minnast á það, að keisarinn bað þau skötuhjú að reyna að finna einkason sinn, Símon þann, sem áður er getið í leiðinni. Og hvað haldið þið lesendur góðir að gerist? Auðvitað reddar Simmi litli Stellu Star frá greifanum illa og framhaldið þekkið þið.

Margt er höggið og mikið sprengt.

Mjög er nú að greifa þrengt.

Hann á ekki heimangengt.

Hár er hvellur skellur.

Svo vikið sé að kjarna málsins, þá er skemmst frá þvi að segja að mynd þessi er náttúrlega bölvuð della og léleg stæling á myndinni, sem áður var talað um, fremur illa gerð og illa leikin. En það er eins og um fleiri hljóðfráar myndir, að það er kannski betra að skilja vitið eftir heima i plastpoka í frystikistunni. En hér eru það ekki einungis farartækin sem eru hljóðfrá, heldur líka hljóðið "hljóðfrátt geimhljóð". Ef þessar vanúðarráðstafanir eru teknar,

má hafa af mynd þessari einhverja skemmtan.
ÞVÍ STELLA STAR GETUR ALLT.

GB.

 

Snemma á árinu 1980 kvað svolítið við nýjan tón sem átti þó eftir að hljóma hærra eftir því sem leið á árið eða allt þar til að reksturinn lagðist af. Borgarbíóið tók til sýninga myndirnar

Tangó spillingarinnar (Tango of perversion), Djúpt i hálsi í Tokýó (Deep Throat in Tokyo) ásamt fleirum slíkum og sýndu þær gjarnan kl. 11. Eitthvað varð jú að gera því það hrikti í hinum rekstrarlegu stoðum fyrirtækisins. Auglýsing síðarnefndu myndarinnar var færð í stílinn eins og svo oft og eiginlega meira að segja líka vafasöm líka þó á annan hátt væri, því þar var skírskotað til frægrar klámmyndadrottningar sem kom þó hvergi við sögu og var hún með eftirfarandi hætti:

Allir kannast við hina amerísku Lindu Lovelace. Hér kemur sú Japanska og er sjálfsagt miklu fallegri.

Þessar ellefu-sýningar virtust ætla að rétta við bágborinn efnahaginn, þeir félagar Gunnar og Anton fóru vígreifir til Danmerkur til að kaupa inn meira af hæfilega vafasömu myndefni til sýninga og gistu þá auðvitað á "hóteli" á Eastegade í Köben.

En nú skyldi líka taka á honum stóra sínum hvað varðaði myndaval og í Helgarpóstinum birtist eftirfarandi grein þ. 12. september 1980.

 

Borgarbíóið ársgamalt og bætir myndavalið.

Borgarbíóið á von á nokkrum nýjum og nýlegum kvikmyndum til sýninga á næstunni, sem telja verður i nokkuð öðrum gæðaflokki en sumar myndanna sem þar hafa verið á tjaldinu upp á siðkastið, enda bióið oroið ársgamalt og væntanlega orðið stöðugra. Frægust þessara mynda er eflaust "Exorcist 2 - The Heretic", með Lindu Blair, Richard Burton, Louise Fletcher, Max Von Sydow og fleiri stórstjörnum í aðalhlutverkum. Myndin er framhald annarrar ennþá frægari Exorcistmyndar, sem sýnd var hér fyrir nokkrum árum. John Boorman (Deliverance, Zardez.) er leikstjórinn. Önnur mjög þekkt mynd sem þeir Borgarbíósmenn eru að fá er Quadrophenia, sem gerð er eftir hljómplötu bresku rokkhljómsveitarinnar The Who. Hljómsveitin kemur þó ekki fram í myndinni, heldur hópur ungra og óþekktra breskra leikara.

Quadrophenia er einskonar fantasía um ungu kynslóðina í Bretlandi á tímum bitlaæðisins.

önnur mynd um næstu kynslóð á eftir er væntanleg i bióið. Breaking Glass heitir hún og hefur vakið verulega athygli í Bretlandi. Þetta er rándýr pönkrokk söngleikur um unga stúlku

sem verður stórstjarna eftir miklar flækjur og baráttu við erfið yfirvöld. Aðalhlutverkið er i

höndum alveg óþekktrar stúlku Hazel O'Connor, sem nú er að verða stórstjarna i heimalandi

sinu, og annað stórt hlutverk leikur Phil Daniels, einn leikaranna i Quadrophenia. Það er einn

ungu bresku leikstjóranna sem er höfundur handrits og leikstjóri, Brian Gibson heitir sá. Honum þykir í myndinni takast vel að lýsa lífi og hugsanagangi pönkaranna i London, og þvl þjóðfélagi sem þeir búa í. Fjórða myndin sem von er á í Borgarbióið, hefur ekki vakið minni athygli en Breaking Glass. Það er "Zombie - Dawn of the Dead", sem var ein helsta aðsóknarmyndin i Englandi i sumar og Bandarikjunum i fyrra. Þetta er hryllingsmynd af hörðustu sort, gerð af George Romero, leikstjóranum sem gerði "Night of The Living Dead", geysivinsæla hrollvekju. Romero þessi kemur úr auglýsingakvikmyndabransanum og þykir mjög sleipur leikstjóri. Auk þessara fjögurra mynda eru væntanlegar hingað tvær eldri, hrollvekjan "It's alive!" og hin gamalkunna mynd "Night Moves", með Gene Hackman

sem af dularfullum ástæðum hefur ekki enn verið sýnd í íslenskum kvikmyndahúsum.

- GA

 

Og mánudaginn 22. september 1980 birtist svo í Vísi stutt viðtal við Gunnar sem er á sömu nótum og greinin í Helgarpóstinum. Það virðist eiga að blása til sóknar og reyna að snúa þróuninni við þeir félagar halda áfram að bera hönd fyrir höfuð sér og lofa bót og betrun.

 

Fjórar góðar í Borgarbíói.

Okkur fannst timi til kominn að sýna einhverjar virkilega góðar myndir." sagöi Gunnar

Jósefsson forstjóri Borgarbíós, en bióið er nú að taka til sýninga fjórar nýjar myndir sem hafa

vakið geysimikla athygli erlendis. Þetta eru myndirnar Exorcist II: The Heretic, Zombie,

Breaking Glass og Quadrophenia. Flestir þekkja myndina Exorcist sem sýnd var hér á landi fyrir nokkrum árum, nú er komið framhald af þeirri mynd og leika ekki óþekktari leikarar en Linda Blair, Richard Burton og Max Von Sydow og fleiri í henni.



"Mökkur og dómarinn" reyndist aðeins vera dauft bergmál og döpur stæling af hinum gríðarlega vinsælu "Smokey and the bandit" myndum sem skartaði m.a. Burt Reynolds og Sally Field.

Í apríl 1981 sýndi Borgarbíóið grínmyndina Smokey and the Judge sem á íslensku var nefnd hinu skemmtilega nafni Mökkur og dómarinn. Hún er sögð fjalla um þrjár gelgjur sem lenda í fangelsi, brjáluðu diskói og spilltum dómara sem fléttast inn í atburðarrásina, þær stofna söngtríó og gera allt hreinlega vitlaust. Þetta var páskamynd Borgarbíós en á sama tíma er Stjörnubíó að sýna Kramer vs. Kramer, Hafnarfjarðarbíó Brubaker með Robert Redford, Laugarásbíó er að sýna "Punktur, punktur, komma, strik", Regnboginn "The Eliphant man" Háskólabíó The Hurricane, og Laugarásbíó Spielberg myndina "The Island".

 

Eins og sjá má á þessari upptalningu, þá var samkeppnin geysihörð og það má líka segja að feigum verður tæpast forðað. Í Morgunblaðinu þ. 14. maí 1981 mátti lesa frétt um að Borgarbíó í Kópavogi hefði verið innsiglað vegna vanskila á sölu og skemmtanaskatti og starfsemi þess stöðvuð.

Úrklippa úr Dagblaðinu 3. okt. 1980

Á þessum árum var skattheimta af bíómiðum með ólíkindum og nam samanlagður hluti þessarra tveggja skatta tæpum helming af andvirði miðans.
Þá var líka hafður sá háttur á að kvikmyndahúsin létu prenta miða í númeraröð og skiluðu þeim síðan inn til Bæjarfógeta sem lét stimpla alla miðana með stimpli embættisins. Síðan fengu kvikmyndahúsin miðana aftur í slumpum og gerðu síðan upp skattana eftir því sem gekk á miðabirgðirnar. En til að fjármagna reksturinn gripu þeir félagar til þess örþrifaráðs að skila fógeta aðeins hluta af nýprentuðum miðum sínum til stimplunar. Þeir seldu síðan jöfnum höndum stimplaða og óstimplaða miða, allt eftir því hvernig þeim leist á viðskiptavini sína og hvort þeir litu út fyrir að vera líklegir til að veita þessu smávægilega fráviki athygli eða ekki. Auðvitað kom að því að þeir urðu óheppnir í miða eða mannavali og voru í framhaldinu kærðir fyrir skattsvik. Talsvert umfangsmikil lögreglurannsókn var gerð og húsleitir voru framkvæmdar. En ævintýrið var úti og sögu Borgarbíós lauk þannig á fyrstu dögum maímánaðar 1981.

 

 

Innsigli fógeta og skiltið um breytingarnar segja hvort sína söguna um ástæðurnar fyrir lokun Borgarblós. (Tímamynd: Róbert).

Tíminn fjallar um lokunina þ. 7. maí 1981

Borgarbíói lokað vegna vangoldins sölu- og skemmtanaskatts:

VANSKIL ÞESS SKIPTA HUNDRUÐUM ÞUSUNDA

"Við létum loka Borgarblói vegna margra mánaða vangoldins sölu- og skemmtanaskatts.

Upphæðirnar eru orðnar svo verulegar, að ég hef ekki trú á að forráðamönnum biósins takist að leysa þetta", sagði Ásgeir Pétursson, bæjarfógeti í Kópavogi, þegar blaðamaður Tímans

innti hann eftir þvi hvernig stæði á lokun Borgarbíós, sem undanfarna daga hefur auglýst að bíóið sé lokað vegna breytinga. Ásgeir sagði að þessi vangoldni sölu- og skemmtanaskattur væri nú farinn að skipta hundruðum þúsunda eða tugum milljóna gamalla króna. Hann sagði

bæjarfógetaembættið hafa varað forráðamenn bíósins ítrekað við og veitt þeim frest á frest ofan en árangurslaust, og þvi hefði orðið að gripa til lokunaraðgerða, sem væru i raun hefðbundnar aðgerðir þegar um svona vanskil væri að ræða. Hann benti á að söluskattur

væri annars eðlis en t.d. tekjuskattur og útsvar. Söluskatturinn væri skilafé sem i þessu tilviki

væri hluti ríkisins af hverjum seldum aðgöngumiða. Þarna væri þvi ekki um venjuleg vanskil að ræða, heldur væru forráðamenn Borgarbíós að halda fé hins opinbera. Sagði Ásgeir jafnframt að vanskil Borgarbíós á skemmtanaskattinum væru jafn alvarlegt, ef ekki alvarlegra mál en vanskilin á söluskattinum. Ekki náðist i gærkveldi í forráðamenn Borgarbiós, en lögfræðingur þeirra, Guðmundur Þórðarson, staðfesti við Tímann að lokunin væri vegna þess að bíóið hefði ekki staðið i skilum með sölu- og skemmtanaskattinn. "Ég held þeir hafi auglýst "Lokað vegna breytinga" til þess að vekja ekki athygli á máli þessu á meðan að reynt er að ná samkomulagi við bæjarfógeta", sagði Guðmundur.

Forráðamenn bíósins ásamt lögfræðingum munu eiga fund með bæjarfógeta árdegis i dag.

 

Ekkert er síðan fjallað um afdrif Borgarbíós í fjölmiðlum fyrr en Tíminn segir frá nýju bíói í húsnæðinu sem hýsti starfsemi þess fimmtudaginn 5. nóvember 1981

 

BORGARBÍÓIÐ HEFUR VERIÐ SETT UNDIR HAMARINN

Nýtt bíó væntanlega sett á stofn í sömu húsakynnum. 

"Það er nú orðið greinilegt að rekstur þessara tveggja sameigenda að Borgarbió er hættur," sagði Ásgeir Pétursson, bæjarfógeti í Kópavogi í viðtali við Tímann í gær.

"Þessir menn hafa ekki enn greitt söluskattinn og þvi hef ég ekki viljað fallast á að þar yrði opnað aftur og þar með er rekstrinum lokið" sagði Asgeir og bætti við "skipti á þrotabúi mannanna fara nú fram, í beinu framhaldi af þessu og þau eru reyndar hafin en það eru aðfaragerðir og lausafjáruppboð". Aðspurður um hve miklar upphæðir væri hér að ræða sem krafa yrði gerð í, sagðist Ásgeir ekki hafa nákvæmar tölur við höndina en óhætt væri að segja að kröfurnar um full skil bæði á söluskatti og skemmtanaskatti næmu tugum þúsunda króna. Samkvæmt heimildum Tímans er það aðeins annar aðilinn, Gunnar Jósefsson sem situr í súpunni hvað kröfur hins opinbera snertir, þvi hinn aðilinn, Anton Kröyer, er sagður eignalaus, eða m.ö.o. hafa látið skrá allar eigur sinar á nafn sambýliskonu sinnar þannig að ekki mun vera hægt að gera kröfur í eigur hans. Þá hefur Tíminn heimildir fyrir þvi að eigandi hússins þar sem Borgarbíó var til húsa, Björn Traustason húsamiðameistari, hyggist hefja kvikmyndarekstur í húsakynnum sinum ef honum tekst ekki að fá viðunandi leigu fyrir húsnæðið með öðrum hætti. -AB

 

Og allra síðustu heimildir um starfsemi Borgarbíós í íslenskum ritmiðlum er að finna í Tímanum sáluga

 

Tíminn FÓSTUDAGUR 31. DESEMBER 1982

(Fréttaannáll)

Áramótin 1981-1982 og helgin sem á eftir fylgdi var annatími fyrir lögreglu og slökkvilið í

Reykjavík. Kærð voru yfir tuttugu innbrot, flest þó minniháttar. Á nýársnótt varð slökkviliðið að sinna 16 útköllum en yfirleitt var um að ræða sinueld sem kviknað hafði vegna flugeldaskota. Nýtt kvikmyndahús hóf starfsemi í Kópavogi um áramótin. Heitir það Bíóbær og hefur aðstöðu í sama húsnæði og Borgarbíó áður. Framkvæmdastjóri er Gunnar Jósefsson og eigandi er Björn Traustason húsameistari.



Gunnar og Anton meðan allt lék í lyndi

Svo mörg verða þau orð að sinni, en hitt er víst að þeir félagar Gunnar Jósefsson og Anton Kröyer sem höfðu m.a. spilað saman í rokkbandinu "Systir Sara" í allmörg ár og rekið saman hljóðfæraverslunina Hljómbæ að Hverfisgötu 108, hafa enn ekki þegar þetta er ritað átt orðastað hvor við annan sem kemur þeim á ekki óvart sem til þekkja.

Þessu tímabili var nú lokið en nýtt um það bil að hefjast, - nýtt tímabil í sögu kvikmyndahúsareksturs í Kópavogi sem einnig átti eftir að verða nokkuð skrautlegt á köflum, en nánar um það síðar.

15.02.2010 23:49

Nokkur orð um þá sem kvatt hafa



614. Meðan ég beið eftir símtali
í dag sem aldrei kom, dvaldist ég við að skoða mig um á netinu eins og svo oft áður. Að þessu sinni staldraði ég við á gardur.is og þá helst og lengst í hinum eldri kirkjugarði á Siglufirði. Á gardur.is er skráður Siglufjarðarkirkjugarður hinn eldri og yngri, en ennþá eldri (og þar er ekkert skráð) er þó kirkjugarðurinn á Hvanneyrarhólnum fyrir ofan prestsetrið. Þar var sr. Bjarni Þorsteinsson jarðsettur árið 1938 og líklega hefur hann verið sá síðasti til að hljóta þar hvílustað. Þá man ég ekki betur en að hafa heyrt því fleygt að kirkjugarður hafi fyrir margt löngu verið á eyrinni ekki langt frá þar sem Barnaskólinn stendur núna, en það kann að vera á misskilningi byggt. Þar stóð þó kirkja fram undir miðja síðustu öld og var afhelguð þegar núverandi kirkja var tekin í notkun. Þá er kirkjugarður á Siglunesi en þar var aðalkirkja Hvanneyrarhrepps á öldum áður.

 

En mér þótti svolítið merkilegt að skoða skráningarnar

Gerður er greinarmunur t.d. á lögfræðing og málafærslumanni, - barni, kornabarni og ungabarni, - gamalmenni og öldungi,-  byggingarmeistara og smið, - ógiftri konu og jómfrú, - daglaunamanni og verkamanni, - sjúkling, öryrkja eða farlama, prestfrú, húsfrú, (bara) frú, ekkjufrú, húsmóður og húsfreyju og svo mætti lengi telja.

Ég velti því fyrir mér eitt lítið andartak hvort hvort titlar og virðingarstöður fylgja mannfólkinu yfir gröf og dauða, eða hvort skráningin segi kannski meira um skrásetjarann en þann sem skrásettur er. En að slepptum öllum léttúðugum vangaveltum, er auðvitað fyrst og síðast verið að aðgreina Jón smið frá Jóni sjóara eða jafnvel Jóni grafara og auðvelda aðstandendum þannig að finna sína.

En hér eru engu að síður nokkur dæmi tekin beint upp úr bókinni:



Nafn                                      Fæðingard.   Andlátsd.       Staða.

 

Alfons Jónsson                   16.07.1898    29.04.1952    Lögfræðingur

Andreas T. Rundhaug        26.06.1910    18.09.1934    Norskur sjómaður

Ann Einarsdóttir Sívertsen Ekki vitað       Ekki vitað       Lausakona

Egill Jónsson                       Ekki vitað       Ekki vitað       Sendisveinn

Ágústa Jósepsdóttir           Ekki vitað       08.09.1959    Gamalmenni

Björg Jónasdóttir                Ekki vitað       Ekki vitað       Jómfrú

Björn Guðmundsson           Ekki vitað       Ekki vitað       Þurfalingur

Einar Ásmundsson             25.11.1878    13.10.1979    Öldungur

Færeyskur drengur             Ekki vitað       Ekki vitað       Barn

Guðmundur Einarsson       15.01.1865    25.09.1907    Faktor

Guðrún Halldórsdóttir         Ekki vitað       Ekki vitað       Sjúklingur

Hildur Jónsdóttir                  20.05.1872    08.07.1946    Ógift

Sigurður Gunnlaugsson      05.10.1906    25.10.1991    Bæjarmaður

Stefán Pétursson                 Ekki vitað       Ekki vitað       Farlama

Vignir Eðvaldsson               11.06.1907    06.06.1969    Fatapressari og hringjari

12.02.2010 00:52

Sea Shepherd, hvalir, selir og ESB

613. Meðan ég var að raða saman ýmsu því sem var mér ofarlega í huga úr Skagafirðinum frá liðnu ári, rakst ég á nokkrar fréttir í fjölmiðlum sem ég gat ekki annað en staldrað við og sett í nokkurt samhengi við hina Íslensku pólitík sem tók alveg nýja stefnu með umsókn í ESB.




Fyrst rakst ég á frétt um að Sea Shepherd menn eru óhressir með að Japanskt hvalveiðiskip sökkti áreytisfleytunni Ady Gil að þeirra sögn viljandi, en þeir voru að reyna að flækja reipi í skrúfu þess (viljandi). Þar sem það liggur fyrir að áhafnarmeðlimum hraðbátsins varð ekki meint af, spyr maður sig hvort ekki bara góð ástæða til að glotta flírulega út í annað hér uppi á Íslandi og það alveg vorkunnarlaust?




Það rifjaði upp að Hval 6 og 7 var sökkt í Reykjavíkurhöfn snemma að morgni þ. 9. nóv. 1986 og Paul Watson virtist stoltur af þeim verkum sínum þegar hann viðurkenndi þau að því er virtist fúslega í viðtali við fréttamann RUV.

En það er auðvitað með öllu óþolandi að skipum Sea Shepherd sé sökkt þó svo að sömu samtök hafi staðið fyrir því að sökkva öðrum skipum.

En kannski er siðferðisgenið í Paul Watson með móralskan einstreymisloka...




Ég stóðst svo ekki mátið þegar ég hnaut um eftirfarandi pistil og fékk hann að "láni" frá Þórhildi Daðadóttir.

"Sea Shepard meðlimir sem handteknir voru í Færeyjum fyrir rétt um 20 árum fengu að borða grindhvalasteik, gúllash ofl. góðgæti eftir að þeir voru settir í steininn í Thorshavn. Þeir voru búnir að bíða í einvherjar vikur innan Færeyskrar landhelgi eftir því að heimamenn kölluðu út í grind, en án árangurs. Reyndar veiddu heimamenn grind á meðan hryðjuverkaliðið lét flatreka. Þá kom að því að einhverjir spjátrungarnir um borð voru búnir með sumarleyfið sitt og þurftu að komast heim. Þeim var því skutlað í land í Thorshavn á gúmmítuðru. Um leið og þeir lögðust að bryggju voru þeir handteknir fyrir þær sakir að koma ólöglega til landsins, þ.e. þeir höfðu ekki tilkynnt yfirvöldum að þeir væru væntanlegir og þar með brutu þeir lög. Þeir voru dæmdir til setu á bak við lás og slá í einhverja daga. Á meðan dvöl þeirra stóð voru þeim bornir miklar kræsingar, enda Færeyingar höbbðingjar heim að sækja, og þar á meðal, sem fyrr segir nýslátruð grind matreidd af mikilli list."


En nýjasta "afrek" Sea Shepherd manna er að þeim tókst að slasa þrjá menn í andliti, þegar Paul Watson og menn hans köstuðu smjörsýru um borð í Japanskt hvalveiðiskip í vikunni. Skömmu áður en þessir atburðir gerðurst, munu Japanarnir hafa tekið þátt í leit af Sea Shepherd mönnum sem voru týndir á hraðbát og talið var að gætu verið í nauðum.
Skrýtið þakklæti þetta...


-

En svo við víkjum að því sem umræðan hefur snúist svo mjög um hér á Fróni undanfarna mánuði að undanskildu Icesave, þá ætla dýraverndunarsamtök að beita sér fyrir því að viðsemjendur Íslendinga standi hart á Evrópureglum sem banni aðildarlöndum að veiða hvali.

"Það er pólitísk afstaða Evrópusambandsins sem líka kemur fram í tilskipunum sambandsins, að það eigi ekki að veiða hvali heldur eigi að vernda þá. Við munum að sjálfsögðu halda mönnum við efnið í þessu sambandi", segir Sigursteinn Másson talsmaður Alþjóða dýraverndunarsjóðsins eða International Fund for Animal Welfare. Hann sagði síðan að Íslendingar þyrftu að velja á milli hvalveiða og aðildar að ESB.

 

Nýlega bauð fjármálaráðherra Canada forystumönnum G7 ríkjanna til hátíðakvöldverðar eftir að leiðtogafundi þeirra lauk og meðal annars átti að bjóða gestunum upp á selkjöt. Vonast var til að með því mætti auka skilning á selveiðum frumbyggja á heimskautasvæðunum, en ráðherrarnir ásamt fylgdarliði sínu brugðust við gestrisni Canadamanna með því að hundsa boðið. Og fyrir þá sem ekki vita, þá er í gildi innflutningsbann við selaafurðum í löndum ESB.

 

Þetta er eitt af því sem fær mann til að hrukka ennið og velta fyrir sér hvort við Frónbúar eigum samleið með hinu verðandi sambandsríki "Stór-Evrópu".

11.02.2010 17:29

Gamalt & nýtt



612. Háaldraður maður var í árlegri læknisskoðun og læknirinn spurði hann hvernig hann hefði það.
Mér hefur aldrei liðið betur, ég á einbýlishús, lítið fyrirtæki og Benz og gengur þess utan allt í haginn.
Nýja konan mín er 18 ára og hún gengur með fyrsta barnið okkar.

Læknirinn hugsaði um þetta eitt augnablik og sagði svo:
Einu sinni var maður sem var mjög ákafur skotveiðimaður og hann sleppti aldrei nokkurn tíma veiðitímabili.

Dag einn var hann á mikilli hraðferð og hann greip með sér regnhlíf í staðinn fyrir riffilinn sinn.
Þegar hann var kominn langt inn í skóginn, þá gengur hann fram á stóran og grimman skógarbjörn sem gerði sig líklegan til að ráðast á hann.
Hann miðar á hann með regnhlífinni og bang, björninn dettur niður steindauður.

Það er óhugsandi sagði gamli maðurinn hugsandi og klóraði sér í skallanum, einhver annar hlýtur að hafa skotið hann.

Já svaraði læknirinn dræmt, það er nú eiginlega það sem ég var að reyna að segja.

 

Því er svo við að bæta að ég rakst á eftirfarandi línur.

"Að finna hina einu sönnu ást í London er erfiðara en mörgum grunar. Allavega vill hagfræðingurinn Peter Backus meina það. Backus kennir hagfræði í Warwick-háskólanum. Hann hefur reiknað út að hann eigi 0.00034 prósent möguleika á upplifa hina einu sönnu ást í London. Hann notar sömu Drake-jöfnu við útreikninginn og vísindmenn notast við til að reikna út mögulegan fjölda geimvera í okkar stjörnukerfi".

  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 292
Gestir í dag: 68
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495669
Samtals gestir: 54686
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 13:59:18
clockhere

Tenglar

Eldra efni