Færslur: 2014 Ágúst

27.08.2014 08:06

Sterakjöt



952. Í byrjun júlí sagði RÚV frá því að smásölukeðjan Costco hefði hug á að opna risaverslun af áður óþekktri stærð ásamt bensínstöð á Íslandi og leitaði nú eftir því við ráðuneyti hvort undanþágur fengjust fyrir starfsemina. Costco vill flytja inn og selja ferskt bandarískt kjöt auk lyfja og áfengis. Ljóst er að ef til kæmi, þyrfti að gera hér talsverðar lagabreytingar. Nokkur umræða skapaðist vegna þessara frétta, en virðist nú hafa lognast út af, því nokkuð er síðar eitthvað var ritað eða rætt um þessar hugmyndir í fjölmiðlum.

Umræður um innfluttar kjötvörur eru þó síður en svo nýjar af nálinni og hefur sjaldnast skort á rök bæði með og á móti.


Vísir sagði frá því þ. 12. júlí að í setningaræðu sinni á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins hefði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson rætt um áhuga bandarísku verslunarkeðjunnar um að opna verslun hér og sagði þá meðal annars.

"En 99% af því kjöti sem framleitt er í þessum verksmiðjubúum í Bandaríkjunum er sterakjöt. Sprautað með ýmis konar hormónum, testesteróni og hinu og þessu. Það er mjög óeðlilegt að fóðra þessar skepnur með þessum hætti, þær eru grasbítar. Og afleiðingin er sú að ýmis bakteríumengun, sérstaklega ekólibakteríur, eru í nánast öllum þessum skepnum, langt umfram það sem eðlilegt er. Svo er auðvitað sýklalyfjum dælt út í aumingja skepnurnar, því annars berast alls konar smitsjúkdómar þarna á milli í þessum gríðarstóru verksmiðjubúum," Og viðbrögðin við orðum forsætisráðherra létu auðvitað ekki standa á sér og sýnist sitt hverjum eins og búast mátti við.


Mbl. segir í mars 2008

"Ekkert kemur í veg fyrir að kjöt af skepnum sem hafa fengið vaxtarhormón sé flutt til landsins. Engin ákvæði eru í reglum um merkingar og eru dæmi um að hormónasprautað kjöt hafi verið selt hér".


Vikublaðið birti grein um málið um málið 1994 og í innganginum að henni var tónninn gefinn

"Hvernig litist þér á hormónakjöt í kvöldmatinn? Eða kjöt sem er mengað af

skordýraeitri, illgresiseyði og aðskiljanlegum öðrum lyfjum og eiturefnum?

Hefurðu ekki lyst? Það er ekki von. Evrópubúar og Bandaríkjamenn eru líka

að missa lystina á svona mat og hafa æ meiri áhuga á lífrænt ræktuðu kjöti

og öðrum landbúnaðarafurðum sem eru lausar við aukaefni. Það getum við

íslendingar boðið og á þessu sviði eigum við mikla möguleika til útflutnings.

Að vísu er verðið sem okkur býðst enn ekki nógu hátt til þess að borga

kostnað en flestir telja að eftirspurn muni fara vaxandi og verð hækkandi. í

þessu eins og öðru þurfum við að sýna þolinmoði, ekki gera okkur of miklar

vonir en halda áfram að vinna að markaðs- og sölumálum".


Á bloggsíðunni http://www.bullogsteypa.blogspot.com/ mátti lesa þettmálum".a skemmtilega komment.

"Grillað hormónakjöt í ameriku, já offer sér fyrir sér ca. hálfsfermetra lærisneið sem grillast á risagrilli úr ryðfríu stáli í risastórum garði fyrir framan eða aftan risastórt hús með kvistum og turnum og við húsið stendur risastór pikkup og risastór van. Í garðinum er risastór sundlaug undir risastórum trjám og við risastóra ryðfría grillið stendur risastór sveittur hormóna-ameríkani í risastórum hnébuxum sem eru ekki með gulrótarsniði né reiðsniði og offer hugsar ósjálfrátt hvort geti verið að risvandamál þjái hann ? því vill offer hvetja bullogsteypu til að passa sig vel þegar hún heimsækir risann í vestri".


En í framhaldinu af framanrituðu getum við Íslendingar svo velt því fyrir okkur hvort við viljum verða enn amerískari í útliti en við erum nú þegar. Kannski ekki svo vitlaust að íhuga það vandlega á meðan við við skoðum myndina hér að ofan. 

23.08.2014 14:06

Villtur í frumskógi litrófsins....



951. Litríka húsið á myndinni hér að ofan stendur á mótum Selvogsgötu í Hafnarfirði, en eigandi þess virðist alls ekki geta gert upp við sig hvernig hann vill hafa það á litinn.

Hann hefur greinilega gefið sér ágætan tíma til umhugsunar og jafnvel eitthvað umfram það en án þess þó að komast að niðurstöðu, því það hefur ekkert breyst um nokkurra ára skeið.

En áður en fjölbreytnin í litavalinu varð sú sem hún er nú orðin, gat ég ekki séð að nokkra ástæðu til málningarframkvæmda, því ekkert var út á ástand hússins að setja og það hafði þá verið málað fyrir ekki svo ýkja mörgum árum síðan.


Á þakið að vera blátt eða brúnt, eiga gluggarnir að vera gulir eða hvítir, eiga veggirnir að vera rauðir eða ljósbrúndrappaðir?

 


 

Á fótstykkið að vera ljósbrúndrappað eins og veggirnir eða gulir?

Á grunnurinn að vera blár, grár eða ljósrauðbrúnn?

Annað hvort er húseigandinn haldinn valkvíða í lit á áður óþekktu stigi eða villtur í frumskógi litrófsins - og ratar ekki til baka. 

19.08.2014 13:17

Halli Gunni og Hugsjónafólkið



950. Í dag þ. 19. ágúst eru liðin 75 ár frá stofnun Blindrafélagsins, en af því tilefni verður efnt til mikilar afmælishátíðar á Hilton hótel í kvöld. Þar mun meðal annarra hljómsveitin "The Visionaries" eða "Hugsjónafólkið",koma fram, en hana skipa þau Gísli Helgason, Hlynur Þór Agnarsson, Rósa Ragnarsdóttir og okkar maður Haraldur G. Hjálmarsson eða Halli Gunni.

Hljómsveitin sem var stofnuð fyrir tveimur árum, er frábrugðin öðrum sveitum að því leyti að allir meðlimir hennar eru sjónskertir, og í kvöld mun hún leika tónlist eftir sjónskerta og/eða blinda höfunda innlenda sem erlenda.

Sjá umfjöllun í Mbl. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/08/18/sjonskert_tonlistarfolk_heidrad/

 

"The Visionaries" hafa komið nokkrum sinnum opinberlega fram, m.a. í vinnustofu listamanna á Korpúlfsstöðum sem buðu til Myrkurkvölds og efndu þar til óvenjulegrar myndlistarsýningar sem nefnist "Ljós í myrkri". Þar var aðeins lýst upp með lítilli ljóstýru frá kertum fyrir þá sem ekki treystu sér til að rata í myrkri til að sem minnstur munur yrði á upplifun sjáandi og blindra gesta, en verkin voru öll áþreifanleg og/eða þrívíð.

Hljómsveitin tók einnig lagið í morgunútvarpi RÚV fljótlega eftir stofnun hennar í apríl 2012 og hélt um svipað leyti tónleika á Café Rosenberg.


-

 

Og svo verð ég endilega að bæta því við að hann Leó Ingi á líka afmæli í dag.

16.08.2014 22:35

Nýja Bíó 90 ára


Nýja Bíó 1930


949. Nýja Bíó var tekið formlega í notkun föstudaginn 25. júlí árið 1924 og varð því nýlega 90 ára. 

Ef það hefði lifað - kynnu einhverjir að segja, en í hugum okkar sem upplifðum alvöru bíómenningu hinna góðu og hæfilega gömlu ára, mun minningin ylja okkur um hjartarætur sem fengum að njóta.

Þrjúbíóin á sunnudögum og hasarinn við að ná hurðarhúninum eða að minnsta kosti standa sem næst þeim sem það gerði, var spurning um virðingarstöðu og hvar í goggunarröðinni menn stæðu í tilverunni sem skipti auðvitað hreint ekki svo litlu máli.



Úr kvikmyndinni Madsalune.


Bæjarbúum var öllum boðið til opnunarinnar á sínum tíma og húsfyllir var við vígsluna eða 355 manns. Þar sungu þeir Þormóður Eyjólfsson og Sóphus A. Blöndal tvísöng við góðar undirtektir, en síðan var kvikmyndin Madsalune sýnd. Sú mynd var dönsk ævintýramynd framleidd árinu áður og var síðan sýnd all nokkrum sinnum við ágæta aðsókn. Næsta mynd sem tekin var til sýninga var svo sænska myndin Berg Ejvind och hans husfru eða Fjalla-Eyvindur sem var byggð á leikriti Jóhanns Sigurjónssonar. Hún hafði verið páskamynd Gamla Bíós í Reykjavík árið 1919 og mun hafa fengið mikið lof kvikmyndahúsgesta.

Nýja Bíó á Siglufirði var lengi vel elsta starfandi kvikmyndahús landsins og nokkuð örugglega það fyrsta sem var sérstaklega byggt sem slíkt á landsbyggðinni.



Úr leikhúsuppfærslu á Fjalla Eyvindi frá árinu 1911, en ekki fannst neitt myndefni úr kvikmyndinni.


Húsið sem stendur við Aðalgötu og er númer 30, byggði Hinrik Thorarensen ásamt Oddi bróður sínum. Sá fyrrnefndi rak það í einhverja áratugi, en síðan tóku synir Hinriks þeir Oddur og Ólafur við rekstrinum og enn síðar Oddur ásamt Guðrúnu konu sinni þegar Óli snéri sér alfarið að verslunarrekstrinum á Tórahorninu.

Árið 1982 seldi Oddur Steingrími Kristinssyni og fjölskyldu hans Nýja Bíó, en fyrsta kvikmyndin sem sýnd var af hinum nýju eigendum var Funny people 1.

Áratug síðar eða 1992 tók Valbjörn Steingrímsson og fjölskylda hans alfarið við og breyttu þau árherslum og  umfangi rekstursins verulega. Auk myndbandaleigu og sjoppureksturs sem áður hafði komið til, fékk staðurinn vínveitingaleyfi og gamla Bíókaffi á efri hæðinni var opnað aftur eftir áratugalangt hlé.

Reglulegar kvikmyndasýningar munu síðan hafa lagst af árið 1999.

 

Húsið hefur í áranna rás hýst ýmis konar starfsemi. Þar hefur verið rekið kvikmyndahús, sælgætis og íssala, það notað undir dansleikjahald, skóverslun, fataverslun, lyfsala og meira að segja kjúklingaeldi. Þarna var um tíma til húsa umboð Tóbaksverslunar ríkisins. Þarna hefur einnig verið rekin matsala, haldnar leiksýningar, troðið upp með tónleika, haldnir fundir og eiginlega allar hugsanlegar gerðir, stærðir og útfærslur mannamóta.


Árið 1936 kviknaði í húsinu þegar verið var að sýna myndina NERO fyrir fullu húsi og voru þar staddar inni m.a. áhafnir af nokkrum Færeyskum skútum. Kristinn Guðmundsson var sýningarstjóri Þetta kvöld og hjá honum í sýningarklefanum var Ragnar, elsti sonur Thorarensen. Filman sem verið var að sýna slitnaði fyrir ofan ramma og svo illa vildi til að filmuræman rúllaði inn í kolbogahúsið (ljósgafann). Þá voru filmurnar úr efni sem kallað var nitrit, sama efni og var notað í riffilskot í stríðinu. Ekki var að sökum að spyrja, það kviknaði í og fyrr en varði varð úr mikið eldhaf. Kristinn byrjaði á því að koma Ragnari út, fór síðan og slökkti á vélinni og ætlaði að freista þess að koma logandi filmunni út. Hann greip um spóluna, bar hana út að glugga en um leið og aukið súrefni umlukti spóluna varð allt alelda. Kristinn brenndist illa bæði á höndum og andliti. Það er að segja af áhorfendum að það gleymdist að kveikja ljósin í salnum en áhorfendur komust ekki hjá því að sjá hvað var að gerast, fyrst þegar slitnaði og síðan af eldbjarmanum og allir þutu hver um annan til dyra. Engin alvarleg meiðsl urðu á fólki ef undan er skilinn sýningarstjórinn. En síðar var sagt frá því að tréklossar sem færeyingarnir áttu hefðu verið á floti um allan salinn, en þeir höfðu flestir skilið þá við sig í látunum við að komast út og sagnir herma að það hafi verið spaugilegt að fylgjast með daginn eftir, er þeir reyndu að þekkja og endurheimta skótau sitt en sumir munu hafi krafið bíóið um nýja skó.

Athyglisvert er um þennan atburð að segja að það er enn til filmubúturinn sem varð eftir í myndrammanum (ein heil mynd), rammi lítilsháttar sviðinn og á svörtum fleti standa þessi orð: "Dod over Nero, Dod over Brændstifteren". En einmitt á þessari stundu í bíómyndinni sjálfri stóð yfir bruni Rómarborgar á dögum Neros.

 

Um 1950 leigði Fúsi frá Bræðrá (Bræðrá er í Fljótunum) húsnæðið þar sem seinna var Bíóbarinn og opnaði þar verslun sem endaði með því þar kviknaði aftur í. Það lagði mikinn reyk um húsið og Oddur hafði áhyggjur af kvikmyndafilmum sem voru í filmugeymslunni við sýningarklefann. Áhyggjur Odds voru ekki aðeins til komnar vegna mögulegrar sprengihættu sem þeim fylgdi, heldur ekkert síður vegna þess að kvikmyndirnar voru fimm, en aðeins þrjár þeirra voru tryggðar. Hann fékk Steingrím Kristins (Baddý í bíóinu) til að lóðsa mannskap upp og koma filmunum út. Á þessum tíma var gengið upp í sýningarklefann að norðanverðu úr sundinu milli sýningarsalarins og Valashgerðarinnar hjá Schiöth. Menn úr Slökkviliðinu bundu hann og Helga Sveins saman með stuttri taug og settu súrefnisgrímur á þá áður en þeir lögðu af stað inn í reykjarkófið. Þegar þeir voru komnir ofarlega í stigann kippti Helgi í spottann og vildi snúa við, en Steingrímur streittist á móti og hélt sínu striki. Aftur vildi Helgi snúa við en Steingrímur spyrnti þá við fótum og hálfdró hann á eftir sér. Þegar upp var komið steinleið yfir Helga en Steingrímur kom filmunum út um gluggann Aðalgötumegin. Við nánari athugun kom í ljós að ástæðan fyrir því að Helgi vildi snúa við var síður en svo einhver gunguskapur, heldur hafði gleymst að opna fyrir súrefnið á grímunni hans. Greiðlega gekk að slökkva eldinn sem reyndist ekki mikill, en reykurinn sem kom frá honum var hins vegar alveg gríðarlegur.

 

Meðan Oddur og Guðrúnu ráku bíóið kom það stöku sinnum fyrir að engin mynd var í húsi sem var ekki of mikið bönnuð til að verða sýnd á barnasýningu. Þá var auglýst nokkuð sem bar yfirskriftina "Smámyndir og þættir" og var blanda af bútum úr kúrekamyndum, teiknimyndum, gömlum grínsketsum og fleiru þar sem flestir fengu eitthvað við sitt hæfi.

Ísinn var svo landsfrægur og jafnvel rúmlega það vegna góða bragðsins. Uppskriftin var mikið leyndarmál sem var geymd í Færeyjum, að sögn Odds. Bragðið breyttist verulega þegar Steingrímur og fjölskylda tók við rekstrinum og sumir sögðu til hins verra, en skýringin mun hafa verið sú að ísvélin var þrifin sem aldrei fyrr.

 

Ég man eftir atviki fyrir framan útstillingargluggann á Bíóinu sem var alls ekkert fyndið þá, en virkar einhvern vegin allt öðruvísi í dag. Ég var varla meira en 9-10 ára gamall polli, á röltinu þarna um gangstéttina. Oddur var að hengja upp auglýsingu um mynd kvöldsins út í glugga og tvær gelgjur þess tíma fylgdust spenntar með. "Gvööööð! Það er danskur texti" andvarpaði önnur. "Og myndin er í lit" skríkti hin. Svo flissuðu þær báðar og ég skynjaði vel þótt ungur væri, að þær ætluðu alveg örugglega að kíkja á myndina fyrst hún var bæði með dönskum texta og í lit. - Og kannski líka aðeins á strákana svona rétt í leiðinni. Samkvæmt mínum útreikningum ættu þær að vera komnar fast að sjötugu í dag blessaðar stúlkurnar.

 

Tómas Óskarsson og Ásta Oddsdóttir ráku húsið um skeið og létu gera á því gríðarlega miklar endurbætur og breytingar. Næstu rekstraraðilar voru Brynjar Sigurðsson og Guðrún Jónsdóttir, þar á eftir Hulda Alfreðs og Didda Ragnars, síðan tóku við Friðfinnur Hauksson, Sigurbjörg Elíasdóttir, Ægir Bergsson og Hallfríður Hallsdóttir, en Haraldur Björnsson og Ólafía Ingibjörg Sigríður Guðmundsdóttir (Lóa) eiga það og reka í dag undir nafninu ALLINN sem margir sem komnir eru til vits og ára geta illa sætt sig við.

 

Að lokum verð ég að láta þess getið að ég starfaði þarna sem dyravörður upp úr 1980, en á móti tók Oddur að sér að sjá um bókhald myndbandaleigunnar sem ég rak á sama tíma næsta húsi.


Og til gamans má það einnig fylgja með að fyrsta skíðakappmót á Íslandi fór fram á Siglufirði þetta sama ár, fyrsti sótarinn var skipaður skv. nýlegri reglugerð um hreinsun reykháfa, byrjað var að loka Álalæknum sem varð í framhaldinu fyrsta skólpræsið í bænum, Karlakórinn Vísir var stofnaður og eflaust bar margt fleira til tíðinda, en látum þetta nægja að sinni.

 

Heimildir: Steingrímur Kristinsson, Þ. Ragnar Jónasson (Siglfirskur annáll), Gunnar Trausti Guðbjörnsson, Jóna Möller, Siglfirðingur, Morgunblaðið og ég sjálfur.

10.08.2014 23:50

Í minningu Blomma



948. Nokkrir aulabrandarar ættaðir af síðu "Blomma" skömmu áður en hann nennti ekki lengur að safna saman því sem var fyndið og skemmtilegt að hans mati og margra annarra. En Blommi sem ég veit reyndar ekki hver er (eða var), átti sinn link og sínar dyr hérna hægra megin á síðunni sem opnuðust inn á svæði hans sem var fullt af afþreyingargríni af einfaldri og aðgengilegri gerð sem stundum hentar best. Einhverjir munu þó eflaust hafa orðið til þess að gagnrýna neðanbeltishúmorinn og andfemínismann sem þar mátti finna ef djúpt var skyggnst og kannski hefur hann bara verið beittur þrýstingi sem hann hefur ekki staðist til lengdar. Ég veit ekki. Ég hef ekki spurt hann..

 

VOND LYKT.

Eldri hjón voru á ferðalagi á húsbíl í Bandaríkjunum.

Allt í einu skýst eitthvað út á veginn og lendir undir bílnum. Þau stoppa og athuga málið og sjá að það liggur skunkur á veginum. Virðist hann vera með lífsmarki svo þau ákveða að taka hann með og fara með hann til næsta dýralæknis.

Þau taka skúnkinn og leggja á gólfið í bílnum og keyra af stað.

"Skúnkurinn skelfur", segir konan, "ætli honum sé ekki bara kalt".

"Settu hann þá á milli fótanna á þér", segir maðurinn.

"En lyktin?", segir konan.

"Já, haltu bara fyrir nefið á honum."

 

BÍLVELTA.

Hjón sem voru á leið austur fyrir fjall í síðustu viku lentu í því á miðri Hellisheiði að bíllinn valt og maðurinn lenti undir bílnum, töluvert slasaður. Bílinn hafði lent við álfahól og út úr hólnum kom álfur. Eitthvað hefur álfurinn vorkennt karlinum svo hann gaf honum tvær óskir.

Æ, ég vildi nú komast undan bílnum heill heilsu, stundi karlinn.

Ekkert mál, sagði álfurinn og undan komst karlinn heill heilsu.

Hver er hin óskin? spurði álfurinn.
Ja, mikið vildi ég geta pissað dýrindis kampavíni í hvert skipti sem ég þarf að pissa, sagði karlinn.

Ekkert mál, sagði álfurinn og hvarf á braut.

Hjónin komust með hjálp aftur í bæinn og þegar karlinn fór næst á klósettið heima hjá sér, þá mundi hann eftir síðari óskinni svo hann hrópaði "Heyrðu kona komdu með glas. Síðan pissaði karlinn í glasið og fékk sér sopa. Jú, dýrindis kampavín var í glasinu. Konan bað nú um að fá að smakka og rétti karlinn henni glasið.

Hún fékk sé svolítin sopa, en síðan kláraði hún úr glasinu í einum teyg.

Karlinn pissaði þá aftur, hélt síðan áfram að sötra þessar eðalveigar og var duglegur að bæta í glasið.

Nú vildi frúin fá meira kampavín úr glasinu en karlinn leit á hana yfir glasbarminn og sagði:

Nei heyrðu nú kelli mín,ef þig langar í meira þá drekkur þú sko af stút !!!!!!

 

REGLUR UM SVEFNHERBERGISGOLF.

1. Hver leikmaður skal vera útbúinn eigin tækjum fyrir leiki, venjulega einni kylfu og tveimur kúlum.

2. Aðeins má leika á vellinum með samþykki eiganda holu.

3. Ólíkt utanhúsgolfi er takmarkið að setja kylfuna í holuna en halda kúlunum utan hennar.

4. Til þess að fá sem mest út úr leiknum verður kylfan að hafa sterkt skefti

5. Vallareigandi hefur heimild til þess að kanna þykkt skeftis áður en leikur hefst.

6. Eigandi vallar getur takmarkað lengd kylfu til þess að holan skemmist ekki.

7. Takmarkið er að ná eins mörgum baksveiflum og þurfa þykir eða allt þar til eigandi vallar er ánægður og telur leik lokið. Takist þetta ekki getur það haft þær afleiðingar að ekki verði aftur veitt heimild til þess að leika á vellinum.

8. Það þykir óíþróttamannslegt að hefja leikinn strax og komið er að velli. Reyndir leikmenn byrja á að dást að vellinum og veitir gryfjum sérstaka athygli.

9. Leikmenn eru varaðir við því að minnast á aðra velli sem þeir hafa spilað á á meðan á leik stendur. Æstir vallareigendur hafa eyðilagt útbúnað leikmanna af þeim sökum.

10. Til öryggis eru leikmenn hvattir til þess að hafa með sér regnfatnað.

11. Leikmenn skulu skipuleggja leikinn vel, sérstaklega ef leikið er á nýjum velli í fyrsta skipti. Fyrrverandi leikmenn hafa orðið ásáttir, komist þeir að því að einhver annar er að spila á velli sem þeir töldu í einkaeign.

12. Leikmenn skulu ekki gera ráð fyrir að alltaf sé hægt að leika á vellinum. Leiðir það til þess að vandræðaástand skapast ef t.d. tímabundnar viðgerðir fara fram á honum. Ráðlagt er að spila með öðrum aðferðum en venjulega á slíkum stundum

13. Leikmönnum er uppálagt að fá leyfi hjá vallareiganda ætli þeir að spila í bakgarði hans.

14. Mælt er með hægum leik en leikmenn skulu alltaf vera viðbúnir því að setja á fulla ferð a.m.k. tímabundið að ósk vallareiganda

15. Sigurvegari er sá sem spilar sömu holuna oftast í sama leiknum.

09.08.2014 01:27

Eyja-bylgjan, dagur þrjú



Íslenska útvarpsfélagið sem rak Bylgjuna hóf starfsemi sína á efri hæðinni í þessu húsi þar sem Osta og smörsalan hafði eitt sinn aðsetur. Á neðri hæðinni var verslun ÁTVR og tískufataverslunin Herraríkið. Síðar myndbandaleigan Ríkið ásamt málningarverslun frá Hörpu. Ég man að eitt sinn hringdi ég í beina útsendingu Bylgjunnar og rukkaði þáttagerðarmann (konu) um ógreiddar videóspólur sem fengust greiddar mjög fljótt og vel. 

947. Síðbúnum endalokum á umfjölluninni sem Bylgjan boðaði um útihátíðir verslunnarmannahelgarinnar lýkur hér með af minni hálfu og með all nokkuð færri orðum en ég hugði í fyrstu að myndi verða.

Það að dagskrárgerðarmenn Bylgjunnar yrðu á ferð og flugi alla Verslunarmannahelgina og tækju stöðuna á flestum útihátíðunum reyndist bara prump og plat þriðja daginn í röð.

Strax í hádegisfréttunum var gefinn sá tónn sem entist allan daginn, því lítið var fjallað um hvað hafði gerst annars staðar en á Þjóðhátíð í Eyjum. Jú annars, lítillega var minnst á Mýrarboltann á Ísafirði, við skulum alls ekki gleyma honum.

En tjöld fuku í Eyjum þegar líða tók á nótt og upp komu ein 50 fíkniefnamál. Síðan var spáð í umferðarþungann frá Landeyjahöfn, bílastæðin eða öllu heldur bílastæðaleysið við höfnina og talað við lögguna á Selfossi plús nokkur orð svona almennt um umferðina.

Málið í hnotskurn. - Það sem á eftir kom og allt til enda dags var á sömu eða svipuðum nótum.


En það er ekkert nýtt að Bylgjan fari sínar eigin leiðir og sunar jafnvel nokkuð sérstakar þegar kemur að tónlistarstefnu, fréttaflutningi og umfjöllun ýmis konar. Sumt er gott en annað síðra eins og gengur. Það geta til dæmis varla talist meðmæli með útvarpsstöð sem hefur þá stefnu að spila ekki Bítlana vegna þess að þeir væru orðnir "svolítið gamaldags", en þannig var það um árabil.

Eitt sinn fór þekktur stórpoppari í viðtal á Bylgjuna og tilefnið var að hann ásamt fleirum stóð að útgáfu gospeldisks. Svo óheppilega vildi til að einn af starfsmönnum sömu útvarpsstöðvar stóð einnig að útgáfu svipaðs efnis um líkt leyti. En okkar maður fór í viðtalið eins og fyrr segir sem gekk með miklum ágætum, enda maðurinn vel máli farinn og hafði heilmikið að segja. En í lokin þótti auðvitað tilhlýðilegt að spila eins og eitt lag af umræddum diski, en þá brá svo við að hann reyndist með öllu ófinnanlegur. Var gerð talsverð leit, en án nokkurs árangurs. Það var engu líkara en þau eintök sem höfðu verið send inn á tónlistardeildina hefður hreinlega gufað upp, - eða kannski verið látin hverfa.


Þegar ég gaf út fyrri diskinn af "Svona var á Sigló" árið 1999, kom upp mjög svipuð staða. Lengi vel var ekki eitt einasta lag spilað á Bylgjunni þrátt fyrir að ég hefði sent þangað 10 eintök.

En eitt kvöldið þegar ég var að afgreiða á Laugarásvideó birtist þar maður í lopapeysu og Álafossúlpu sem spurði um mig. Sá sagðist heita Sigurður Pétur og kvaðst starfa á Bylgjunni. Hann vildi vita af hverju diskurinn með lögunum sem svo mikið væri beðið um í óskalagaþættinum sínum hefði ekki borist útvarpsstöðinni.

Sami Sigurður Pétur varð síðar einn helsti aðstoðarmaður Sophiu Hansen í forræðisdeilu hennar við fyrrum eiginmann sinn Halim Al og umsjónarmaður söfnunarinnar "Börnin heim", var með gríðarlega vinsælan þátt á laugardagskvöldum upp úr 1990 þar sem aðeins var spiluð tónlist með íslenskum textum. Þetta var á sínum tíma algjört stílbrot á tónlistarstefnu Bylgjunnar, en það svínvirkaði.

Sigurður Pétur fékk að sjálfsögðu ellefta eintakið sem segja má að gengið hafi þar með óbeint til Bylgjunnar og ég spurði hann hvernig hin tíu hefður getað horfið á svo dularfullan hátt, en lítið var um svör þó mig gruni að viðmælandi minn hafi engu að síður kunnað þau.

Á þessum tíma voru Bylgjan, Stöð 2 og Skífan eitt og hið sama fyrirtæki. - Skífan seldi geisladiska.


En nú er komið nóg af neikveiðum "bylgjum" í bili og tímabært að hugsa fram á við.

Tölum um eitthvað annað og skemmtilegra næst.

04.08.2014 01:42

Eyja-bylgjan, dagur tvö



946. Í beinu framhaldi af gærdeginum (sem hefur þegar þetta er skrifað umbreyst í fyrradag) og því sem bar fyrir eyru á Bylgjunni, stillti ég á sömu útvarpsstöð eftir hádegið á nýliðnum degi. Ég vildi ekki trúa því að sagan endurtæki sig annan daginn í röð, en vonbrigðin urðu mikil.

Í stuttu máli var sá hluti dagskrárinnar þar sem útihátíðar komu beint eða óbeint við sögu og sneytt hjá allri síbylju eitthvað á þessa leið:

 

Vatýr Björn, Bjarni Ara og Jói í "Verslunarmannahelgarútvarpi" Bylgjunnar.

Byrjunin lofaði góðu þegar þeir áttu ágætt spjall við forsvarsmann Kotmóts Hvítasunnumanna, en strax eftir það var farið að auglýsa brekkusönginn í Eyjum.

Þá var talað við Ásgeir Pál Bylgjupartýsmann sem var á leið til Eyja. Hann lýsti því hvernig fólksflutningaferjan Víkingur skoppaði eins og korktappi á sjónum í Landeyjarhöfn og hann taldi sig jafnvel sjá spýjur farþeganna gusast út yfir borðstokkinn. Valtýr Björn tók undir og taldi þá vera í "Æluvinafélaginu". Svo var hlegið.

Síðan var slegið á þráð vestur á Ísafjörð til aðstandenda Mýrarboltans, en síðan kom auglýsing um að brekkusöngurinn yrði í beinni á Bylgjunni.

Þá var spjallað við Árna Johnsen um Þjóðhátíðina og eftir það fluttu Fjallabræður ásamt Sverri Bergmann þjóðhátíðalagið frá 2012, "Þar sem hjartað slær". Reyndar ferlega flott lag, flottur flutningur og alltaf gaman að heyra það.

Næsta viðtal var við Ingó og væntanlega stjórn hans á Brekkusöngnum um kvöldið. Eftir það kom auglýsing um væntanlegan brekkusöng.


Talsverð umfjöllun var um Þjóðhátíð í fréttum kl. 17 en eftir þær tók Hlynur Hallgríms við.

Hann spilaði annað þjóðhátíðalag og Brekkusöngurinn var auglýstur tvisvar, bæði með hefðbundnum og óhefðbundnum "auglýsinga"-hætti ef svo mætti segja.

Svo kom lag með Skítamóral og þess getið að þeir drengir hefðu nú verið að spila í Eyjum í gærkvöldi.

Þvi næst var "Eyjan græna" þjóðhátíðalagi Bubba Mortens frá 2009 demt yfir saklausa hlustendur. Sumir hafa þá líklega kveinkað sér og nuddað sár eyrun, - ég var einn þeirra.

Þá var fjallað um mjög bættar forvarnir af ýmsu tagi í Eyjum, s.s. hópinn sem stóð að "Bleika fílnum" og fjölgun myndavéla í dalnum. (Hið besta mál).

Svo flutti Jón Jónsson Þjóðhátíðalag 2014 sem var síðasta lag fyrir kvöldfréttir.

 

Í fréttum stöðvar 2 var sýnt frá Þjóðhátíð í Eyjum, Ein með öllu á Akureyri og Mýrarboltanum á Ísafirði, en þó lang, lang, lang mest frá Eyjum.

 

Eftir fréttir var svo Ásgeir Páll mættur á Partývaktina í beinni útsendingu úr Herjólfsdal. Reyndar var hin klassíska Bylgjusíbylja ríkjandi, en þáttastjórnandinn kom inn annað slagið alveg ofurhress og talaði þá fjálglega um að umrædd Partývakt væri stærsta og skemmtilegasta partý á Íslandi og hver vill ekki vera með??? Hann heimsótti Elliða bæjarstjóra sem stóð sig ágætlega í spjallinu, skreið undir sæng til Stebba Hilmars sem átti líka skemmtileg tilsvör og lagði heilmikið púður í að byggja upp sem mesta eftirvæntingu fyrir Brekkusönginn sem hófst svo kl. 23.

Á heimasíðu Bylgjunnar er hann auglýstur með eftirfarandi hætti:

"Ein stærsti viðburður í íslensku útvarpi verður svo klukkan 23:00 á sunnudagskvöld þegar Bylgjan færir þér Brekkusönginn úr Herjólfsdal í beinni útsendingu. Það er alveg sama hvar í heiminum þú ert. Þú getur hlustað á Brekkusönginn í beinni á Bylgjunni í gegnum útvarpið, í gegnum netið, í sjónvarpinu og í Bylgju- Appinu".

Mér fannst ekki sérlega mikið til um útkomuna og hreinlega nennti ekki að hlusta lengur og stillti yfir á aðra útvarpsstöð.

 

Á heimasíðu Bylgjunnar má einnig lesa:

"Dagskrárgerðarmenn Bylgjunnar verða á ferð og flugi alla Verslunarmannahelgina og taka stöðuna á flestum þeim útihátíðum sem haldnar verða um helgina".

Bölvaðir lygalaupar, þeir fóru á einn stað og hringdu á þrjá. Kannski hafa þeir ekki átt meiri inneign...!

 

En á morgun verður kominn nýr dagur og ég ætla að fylgjast með þeim Bylgjukumpánum, en þó ekki nema með öðru því að við norðanmenn eigum greinilega fáa vini í höfuðstöðvum 365 í Skaptahlíðinni.

Ég hvet alla Siglfirðinga til að segja upp áskrift að Stöð 2 og verða sér úti um NETFLIX.

03.08.2014 01:43

Eyja-bylgjan, dagur eitt


Jói og Valtýr

945. Meðan ég kíkti á frásögn DV um glæpamennina sem halda Ólafsfirði í heljargreipum sínum, (slóðin er: http://www.dv.is/frettir/2014/8/1/olafsfjordur-i-heljargreipum-glaepamanna/ ) kveikti ég á útvarpinu og hlustaði svona með öðru eins og maður gerir stundum. Það var stillt á Bylgjuna að þessu sinni og þar hljómaði þáttur sem nefndur er Verslunarmannahelgarútvarp með þeim Valtý Birni og Jóa. En sá þáttur reyndist heldur betur einsleitur og það er ekki laust við að stoltinu vegna upprunans og rótanna hafi verið svolítið misboðið. Fyrst eftir að ég kveikti var rætt um Þjóðhátíð í Eyjum, síðan hringt á Ísafjörð og rætt stuttlega við aðstandendur Mýrarboltans, síðan var gamalt Eyjalag leikið, eftir það var rætt við Elliða Vignisson bæjarstjóra í Eyjum. Svo komu Bylgjufréttir kl. 16 þar sem m.a. var ítarlega fjallað um aðsókn á Þjóðhátíð í Eyjum, Eina með öllu og Ungmennafélagsmótið á Sauðárkróki en engar aðrar. Síðan hélt umfjöllunin um Þjóðhátíð í Eyjum áfram um stund og óspart var minnt á að Brekkusöngnum yrði útvarpað beint kl. 23 annað kvöld. Að lokum þökkuðu þeir kumpánar fyrir sig en vildu að lokum senda góðar kveðjur til Eyja



Sigurður Hlöðversson


Kl. 17 mætti svo Siggi Hlö til leiks hæfilega sjálfumglaður að venju og spilaði sérstakt Eyjabylgjumix, en tók þó fram sem rétt er að það væri talsvert á skjön við tónlistarstefnu þáttarins. Hann var hins vegar duglegur að plögga ballinu á Spot þar sem hann og Greifarnir ætluðu að trylla lýðinn og líklega að fá "stelpurnar" til að ÖSKRA af hrifningu. Ekki man ég hvort þær sem sögðu að Siggi væri æðislegur fengu óskalögin sín leikin frekar en aðrir, eða kannski frekar aðrar, en þannig finnst mér alla vega að hlutirnirnir gangi fyrir sig. - Bara svona tilfinning.

 

Í fréttum stöðvar 2 var boðið upp á beina útsendingu frá Eyjum og meira að segja í Íþróttafréttunum var sérstaklega fjallað um Jón Jónsson og Þjóðhátíðarlagið hans í ár.



Ásgeir Páll


Eftir fréttir tók við dagskrárliðurinn Partývaktin sem Ásgeir Páll sá um. Hann var auðvitað ofurhress að venju því þannig eiga menn að vera í hans starfi og öðru vísi halda menn ekki djobbinu. Áfram hélt umfjöllunin um Þjóðhátíð í Eyjum, hann spilaði mikið af ágætri "með sítt að aftan" tónlist í bland við nokkur misgömul þjóðhátíðarlög og hafði nokkrum sinnum samband út í Eyjar. Jú það var beðið um meira af íslensku efni og Ásgeir spilaði nokkur íslensk lög með flytjendum sem Bylgjan hefur velþóknun á án þess þó að ástæðan sé öllum fyllilega ljós í öllum tilfellum.

Svo voru það auglýsingarnar. "Það er alveg sama hvar í heiminum þú ert. Þú getur hlustað á Brekkusönginn í beinni á Bylgjunni í gegnum útvarpið, í gegnum netið, í sjónvarpinu og í Bylgju- Appinu". Og. - "Dagskrárgerðarmenn Bylgjunnar verða á ferð og flugi alla Verslunarmannahelgina og taka stöðuna á flestum þeim útihátíðum sem haldnar verða um helgina".

Þá hló ég bæði hátt og snjallt.

 

Það er ekki laust við að maður velti fyrir sér hvað veldur þessum ósköpum. Ég hélt að Bylgjan væri ekki landshlutaútvarp. Ég hélt líka að það væru fleira að gerast á landinu þessa helgina en Þjóðhátið í Eyjum að henni ólastaðri. Hvað er þetta þá? Klíkuskapur, starfsmenn ættaðir frá Eyjum að misnota aðstöðu sína eða umfjöllun gegn greiðslu eða greiða?

Ég giska á þetta síðasta og get vel ímyndað mér að það sé bara nokkuð gott gisk.

 

Sé farið inn á visir.is sem er sama kompaníið, má finna þar sex fréttir sem tengjast mannamótum um helgina, þar af er helmingurinn tengdur Eyjum.


Það rifjaðist upp að í fréttatímanum í hádeginu sl. fimmtudag einmitt á Bylgjunni, voru taldar upp "helstu hátíðirnar" á landinu sem voru að mati viðkomandi: Mýrarbolti á Ísafirði, Ungmennafélagsmótið á Sauðárkróki, Ein með öllu á Akureyri sem fyrirfram var talið að yrði sú stæsta í ár og gætti þá undrunarhreims hjá fréttamanni, Neistaflug á Neskaupsstað, Þjóðhátíð í Eyjum, Kotmót Hvítasunnumanna, Edrúhátíð SÁÁ og Innipúkinn. Ekki var minnst á neitt annað.

 

Það rifjaðist líka upp að þeir Valtýr og Jói heimsóttu Siglufjörð á Síldardögum sem gladdi mitt Siglfirska hjartra alveg heilan helling, en eftir á að hyggja læðist sá grunur að manni að þarna hafi þeir aðeins verið að fylla upp í dagskrána, prófa útsendingargræjurnar eða búa til efni til að benda á að þeir hafi jú komið víðar við en raun ber vitni, - og nóta bene; Þjóðhátíðin var heldur ekki byrjuð þá.

 

Það er því dagljóst að Bylgjan er ekki útvarp allra landsmanna og það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu á morgun og hinn.

Að endingu og af gefnu tilefni vil ég benda á nauðsyn þess að Rás 2 verði EKKI seld og/eða einkavædd. - ALDREI.

  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 270
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 212
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 512880
Samtals gestir: 55396
Tölur uppfærðar: 13.1.2025 18:58:25
clockhere

Tenglar

Eldra efni