Færslur: 2008 Apríl

30.04.2008 20:55

Fyrsta fjallganga ársins.



471. Þegar degi tók að halla föstudaginn 18.apríl  s.l., var lagt af stað norður á Sigló. Fyrir mig átti þetta að vera helgarferð á heimaslóðuim en Magga ætlaði að verða eftir um óákveðinn tíma í húsmæðraorlofi eins og hún kallaði það. Hún gaf út þá yfirlýsingu að nú yrði skyr í alla mata a.m.k. fyrstu vikuna og hún myndi vaska upp að hámarki tvær teskeiðar á dag. - Rétt er að láta þess getið að ágætt bókasafn er á staðnum.



Myndirnar tvær hér að ofan eru teknar af brúnni yfir Blöndu, eða nánast af hlaðinu hjá Blönduóslöggunni stórvarasömu. Vel má sjá fjöllin á Ströndunum þar sem þau standa upp úr haffletinum hægra megin.



Hér má sjá Drangey standa aðeins upp fyrir gömlu aflögðu og einbreiðu brúna á Héraðsvötnum vestari. "Kvöldroðinn bætir, morgunroðinn vætir" stendur einhvers staðar og víst er að sá fyrrnefndi bætti útsýnið norðan heiða svo um munaði þetta kvöld.



Daginn eftir voru teknar margar myndir af Síldarbænum, enda veðrið til þess eins og sjá má. 



Það var ekki fyrir nokkurn mun hægt að loka sig inni á slíkum degi. Óhætt er að segja að sjórinn hafi verið spegilsléttur í víðtækustu merkingu þess orðs.



Það fjaraði á Leirunum og nokkrir fiðraðir trítlarar og svamlarar ýmist flutu þar um eða spígsporuðu um í leit að æti. Ef vel er að gáð sjást "hús" sandmaðkanna standa lítillega upp úr yfirborðinu.



Ég komst samt ekki hjá því að gjóa augunum annað slagið upp eftir Stórabola og hlíðum Hafnarfjalls. Það var nú líklega allt of mikill snjór til að fara að príla í fjöll ennþá, en samt var nú melurinn fyrir sunnan Strengsgilið auður alla leið upp á brún.



Og svo er þessi gríðarlega breyting á landslaginu fyrir ofan bæinn sem ég á svolítið erfitt með að venjast.



Og líklega væri engu logið upp á himinninn ef sagt væri að hann væri frekar blár þennan frábæra dag.



Eitt af betri skotstæðunum (fyrir myndavélar) er fyrir ofan Jóhannslund í skógræktinni.



Ef það er snjór, gott veður og Ríkið er lokað, verða að teljast yfirgnæfandi líkur á að Ómar Möller sé úti að moka snjó.



Ég skrapp upp á Skarð og undraðist mjög hve þar var fámennt miðað við að aðstæður til skíðaiðkunnar voru tvímælalaust með allra besta móti. Ég hallast því að þeirri skoðun sem fram hefur komið að skíðasvæðið á Siglufirði sé undarlega vel varðveitt leyndarmál sem full ástæða væri til að láta vita betur af.



Á brúnni yfir Skútuá sat hann þessi og var hinn rólegasti meðan ég mundaði myndavélina.



Ég lagði bílnum við rætur Stórabola og rölti upp í fjallið sunnan við Strengsgilið. Ég var þar með lagður af stað í fyrstu fjallgöngu ársins, en þó án þess að gera mér fyllilega grein fyrir því til að byrja með. Ég ætlaði í fyrstu aðeins að rölta svolítið upp í hlíðina til að ná nokkrum góðum skotum í blíðunni og það lá auðvitað beint við að byrja á Hólshyrnunni.



Útsýnið yfir fjöllin austan fjarðarins og inn af honum varð betra eftir því sem ofar dró



Fyrir miðjum Hólsdalnum rís Blekkill (776 m.), tignarlegt fjall sem ég hef oft litið vonaraugum til. Einhvern tíma verður það gengið, en líklega er skynsamlegt að bíða eftir að snjóa leysi. Ég man óljóst eftir að hafa heyrt einhverjar gamlar sagnir um mannskaða í fjallinu og ef einhver veit meira um það væru frekari upplýsingar vel þegnar.



En lítið sást til bæjar því Stóriboli byrgði sýn. Það var því ekki um annað að ræða en halda aðeins ofar. Það var einhvers staðar þarna sem ég velti fyrir mér hvort þetta væri rétti dagurinn til að fara alla leið upp á Hafnarhyrnuna, en hún er búin að vera ofarlega í huga undanfarið. Ég fann að ég var ekki í sérlega góðu formi, en skítt með það. Alla vega 20 - 30 metrar í viðbót.



Þarna var orðið mjög bratt og mér fannst eiginlega vera nóg komið í bili. Þetta var líklega ekki mjög skynsamlegt og ég búinn að vera full slakur til hreyfings mánuðum saman. En ég afréð að bæta við 20 - 30 metrum og sjá svo til. Ég var líka kominn upp fyrir Stórabola og fyrir ofan mig mátti sjá klettana sem kallaðir voru Tröllakirkja a.m.k. á Brekkunni hér í eina tíð.



Þarna fyrir sunnan eru líka klettar. Gaman væri að skoða þá aðeins betur við tækifæri, en það yrði þó ekki gert í þessari ferð. Ég var í raun alveg búinn að fá nóg en bætti samt við öðrum 20 - 30 metrum.



Ég var nú kominn jafnhátt Tröllakirkju og það var orðið mjög stutt upp á brúnina. Svo stutt að það var auðvitað með engu móti hægt að snúa við úr þessu. Áfram skyldi þá haldið.



Af brúninni var nú hægt að sjá Eyrina og bæinn að mestu.



Þegar ég segi "af brúninni" er ég að tala um brún Leirdala sem eru fyrir ofan Fífladali.



Nú blasti Hafnarhyrnan við í öllu sínu veldi, en hún er nyrsti hluti Hafnarfjalls.



Skuggarnir voru farnir að lengjast niðri í firðinum en hérna uppi var enn glampandi sól.



Þessi kassi varð á vegi mínum þarna uppi á reginfjalli, rétt eins og hluturinn "sem stingur í stúf" í einhverju súrrealísku verki.



Ég varð auðvitað að gá hvað væri í honum. Og viti menn, þarna var fullt af einhverju torkennilegu dóti sem sumt var merkt Veðurstofu Íslands.



Það var allt á kafi í Leirdölunum og byrjað að myndast þunnt hjarn ofan á snjónum. Samt var ágætt að ganga og ég sökk sáralítið ofan í snjóinn sem var alveg passlega þéttur í sér.



Hnjúkarnir austan fjarðarins teygðu sig í mikilfengleika sínum upp fyrir brúnina.



Í suðri kom Illviðrishnjúkur betur og betur í ljós eftir því sem ofar dró.



Lítilsháttar klettapríl framundan.



Og áfram gakk.



Illviðrishnjúkur var nú orðinn allvel sýnilegur og það rifjaðist upp að þangað kom ég ásamt nokkrum samferðungum fyrir u.þ.b. 40 árum. Það fer líklega að verða fljótlega kominn tími á hann aftur.



Ég var nú kominn langleiðina upp og sá nú vel ofan í Hvanneyrarskálina. Fyrir norðan hana er svo fjallið Strákar sem ég heyrði fyrir stuttu að hefðu í eina tíð heitið Strókar. Það var freistandi að ganga brúnirnar í kring um Hvanneyrarskálina og á Strákafjall, en ég vissi að tíminn myndi líklega hlaupa frá mér einhvers staðar á leiðinni og það yrði orðið dimmt áður en þeirri göngu lyki.



Út á Siglunes



Ysta hluta snjóflóðavarnargarðanna og Ströndina.



Húsin í bænum voru eins og kubbahús og ökutækin eins og litlir leikfangabílar.



Ég var nú kominn upp fyrir svolítð klettabelti í Hafnarhyrnunni.



Og framundan var svo hæsti tindurinn, - og þangað hélt ég auðvitað.



Takmarkinu var náð. Fyrir vestan mig eru lág fjöll upp af Leirdölum sem erui ekki sýnileg neðan úr bæ. En af toppnum er því sem næst þverhnípi niður í botn Hvanneyrarskálar. Ég gægðist fram af brúninni en var fljótur að bakka því ég var ekki viss nema ég stæði á snjóhengju.



Illviðrishnjúkur (895 m.) enn og aftur. Lengi vel hélt ég að hann væri hæsta fjall við Siglufjörð og því halda enn margir fram, eða þar til ég vissi að Almenningshnakki væri 915 m. En hnjúkurinn er miklu flottari...



Það er ekki oft sem maður getur litið niður á kollinn á Hólshyrnunni (683 m.), en það er alveg hægt frá Hafnarhyrnunni. (687 m.)



Fjöllin austan Héðinsfjarðar gægjast upp fyrir Kálfsdalinn og nágrenni. 



Og það skín enn sól úti á Siglunesi.



Það er komið kvöld og tímabært að fara að hugsa til heimferðar. Þarna niður frá er Norðurtún, en hún er syðsta gatan á Siglufirði svo öfugsnúið sem það er. Hverjum datt þessi nafngift í hug?



Héðan sést líka ágætlega út á Skagafjörð. Vegurinn á myndinni er beygjan undir Mánárskriðum.



Og rétt er að leggja fram óræka sönnun þess að ég fór þarna um í raun og veru en fékk ekki myndirnar lánaðar hjá einhverjum sem ekki vildi láta narns síns getið. En það má hins vegar glögglega sjá að það er orðin full þörf fyrir meiri hreyfingu eftir súkkulaðitímabilið mikla.



Leiðin niður af toppnum til vesturs.



Og svo til suðurs niður að Blýkerlingamel.



Og aftur er slóðin mynduð, en í þetta sinn fékk skugginn ekki að vera með á myndinni.



Ég kvaddi með svolítilli eftirsjá því ég hefði viljað vera þarna miklu lengur.



Hér hallar annars vegar niður til Siglufjarðar en hins vegar til Úlfsdala.



Það gerðist kvöldsettara og ég stillti myndavélina á "sunset" og tók nokkrar myndir á móti sól.



Mánárhyrna - Mánárskriður.



Hvergi sá á dökkan díl í Leirdölunum og ég fór einu sinni hálfur á kaf á leiðinni. Líklega hefur einhver gjóta verið undir snjóskaflinum, en ég kraflaði mig upp á hélt áfram.



Hér var ég kominn á svipaðar slóðir og fyrir ári síðan þegar ég lenti í sjálfheldu þarna við snjóflóðavarnirnar fyrir ofan Fífladal og nokkrir hrafnar voru farnir að krunka í kring um mig og virða mig fyrir sér.



Ég fór að þessu sinni niður norðan Strengsgils og eftir Stórabola.



Ég var eiginlega búinn að fá alveg nóg í dag, klukkan var að verða 10 þegar ég kom í hús og ég gerðist sjónvarps og sófadýr þá stuttu stund sem eftir lifði kvölds.



Klukkan hálftíu á sunnudagsmorgni skrapp ég niður á bensínstöð og hitti þar fyrir vin minn Steingrím (Lífið á Sigló). Ég sagði honum frá ferðalaginu frá því deginum áður og við sátum á tali (og mali) fram undir hádegi.



Og eitt skot í viðbót af Hólshyrnunni og því sem enn stendur af Hafliðaplaninu frá fjörunni við bensínstöðina.



Það var kominn mánudagur og ég var á leiðinni úr bænum. Það er sennilega ekki algengt að skólabörnin fjölmenni á pöbbinn í hádeginu, en í þessu tilfelli er það fullkomlega eðlilegt. - Þau eru nefnilega svöng.

Ég rakst áðan á línurnar hér að neðan þegar ég var að leita að gömlum myndum í möppu frá síðasta ári, en þær hef ég sett í ploggpistil þ. 11. maí í fyrra.

Ég var á dögunum að gera svolítinn óskalista yfir þá staði sem mig langar að heimsækja í sumar, og eftir nokkrar vangaveltur varð til eins konar topp-tíu listi.

Hólshyrnan (hressilegur labbitúr með Steingrími og myndavélunum okkar.)
Héðinsfjörður yfir Hestsskarð (en þangað hef ég aldrei komið.)
Illviðrishnjúkur (því ég átti enga myndavél síðast þegar ég fór)
Selvík og Kálfsdalur (sem þangað kom ég síðast fyrir 40 árum.)
Hafnarfjall (til að ná góðri mynd af Borgarnesi.)
Akrafjall (til að ná góðri mynd af Akranesi.)
Esjan (til að geta sagt að ég hafi farið þangað upp, og til að ná góðri mynd af Reykjavík.)
Reykjaneshringurinn (því það er fulllangt síðan síðast.)
Virkjanaleiðin upp eftir Þjórsá (til að telja hvað virkjanirnar eru margar, eða til að reyna að átta sig á hvað þær gætu hugsanlega orðið margar.)
Vík og Mýrdalurinn ásamt næsta nágrenni (því þar er bæði landið fagurt og fólkið gott.)

 Eins og gengur rætast ekki allar spár, óskir eða villtustu draumar og í þessu tilfelli væri e.t.v. hægt að tala um 40 - 50% "rætingu" með því að búa sér til sértæka reiknireglu að aðlaga hana síðan sinni hugmyndafræði.

Hólshyrnan var gengin, en að vísu án Steingríms sem fylgdist vel með okkur Magga af svölunum hjá sér og náði ótrúlegri mynd af okkur á toppnum úr 7 km. fjarlægð.
Héðinsfjörður var að vísu sigldur en ekki genginn, en nóg var nú gengið samt þegar þangað var komið. Frábær ferð daginn eftir Hólshyrnuna í fylgd góðra manna.
Illviðrishnjúkur varð ekki klifinn að sinni, en það komu í leitirnar myndir sem teknar voru í ferðinni fyrir 40 árum. Ég mun nálgast þær innan tíðar og flagga þeim hér á síðunni.
Selvík og Kálfsdalur (ásamt Reyðarárdal og Siglunesi) átti að gangast í ferðinni með Önnu Maríu þegar hún varð fimmtug, en þar sem ég hafði þá nýlega snúið undir mér löpp við fjallapríl í Hrómundartindum varð ég að taka það rólega í nokkrar vikur.
Framtaks og tímaleysi urðu til þess að ég gekk ekki á Hafnarfjall og Akrafjall.
En Esjan var farin tvisvar og þá sitt hvor gönguleiðin í hvort skiptið. Fyrst svokallaðar Smáþúfur, en síðan Þverfellshornið sem er langmest gengin.
Reykjaneshringurinn var farinn tvisvar, en aðeins að hluta í hvort skipti og enn vantar nokkra kílómetra upp á að honum hafi verið alveg lokað.
Virkjanaleiðin gleymdist hins vegar alveg og hefur ekki komið upp í hugann fyrr en nú þegar ég las þessar línur aftur ári síðar.
Heill dagur var tekinn í skoðun á Vík og Mýrdalnum, en það dugði hvergi til. Reyndar fór talsverður tími í skoðun ýmissa merkra staða á leiðinni en ljóst er að fara þarf aftur í sumar til að komast lengra áleiðis í því verki.

En nýr topptíu listi fyrir árið í ár gæti litið einhvern vegin svona út...

Frá Hestskarði upp á Hestskarðshnjúk, þaðan niður eftir fjallsbrúninni til norðurs og upp á Staðarhólshnjúk. Síðan áfram til "norðurs og niður" og upp á Hinrikshnjúk, en þaðan niður í Kálfsdal, Selvík og bakkana og fjöruna inn að Ráeyri..
Siglufjarðarskarð - Hólsskarð. Ekið upp í Skarð og gengið þaðan yfir Afglapaskarð, Hákamba, Leyningssúlur, Selfjall, Blekkilshorn, Blekkil, Fiskihrygg, Almenningshnakka og loks niður í Hólsdal við Hólsskarð.
Hestsskarð - Hólsskarð. Gengið upp í Hestsskarð síðan til suðurs á Pallahnjúk, Dísuna, Móskógarhnjúk, Presthnjúk og komið niður úr Hólsskarði Hólsdalsmegin.
Siglufjarðarskarð - Illviðrishnjúkur - Hafnarfjall - Hvanneyrarskálahringurinn - Strákafjall.
Hafnarfjall (Önnur tilraun til að ná góðri mynd af Borgarnesi.)
Akrafjall (Líka önnur tilraun til að ná góðri mynd af Akranesi.)
Aftur í Mýrdalinn, en að þessu sinni m.a. til að skoða Heiðardalinn og Þakgil.
Keilir. Ljúka við göngu á Keilir, en á síðasta ári hreinlega fukum við niður af honum þegar við vorum u.þ.b. hálfnaðir upp.
Kaldbakur sem er milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, en það er hæsta fjall á Vestfjörðum.
Virkjanaleiðin má gjarnan rata aftur á listann, en líklega er hún ekki mjög krefjandi þegar kemur að líkamlegri áreynslu. - En hún er flott...

Og svo er bara að sjá...

30.04.2008 20:48

Stöðumælasekt.



470. Ég varð fyrir svolítið undarlegri reynslu
í gær þegar nokkuð sem mig óraði ekki fyrir að gæti gerst, gerðist engu að síður. Aðdragandi málsins var sá að ég þurfti að bregða mér um stund inn í hús í miðborg Reykjavíkur þar sem gjaldskylda er. En þar sem ég er (alla vega núorðið) með eindæmum löghlýðinn borgari setti ég pening í mælinn, prentaði út miða sem ég setti ofan á mælaborðið fyrir innan framrúðuna. Allt eins og vera ber og samkvæmt skýrum og skorinorðum leiðbeiningum á sjálfum miðanum. En þegar ég kom út aftur varð ég ekki lítið hissa því það var kominn sektarmiði undir annað þurrkublaðið. Ég horfði forviða á þessa undarlegu og auðvitað óvelkomnu, ósanngjörnu og óæskilegu sendingu, síðan á litla miðann fyrir innan glerið sem var enn á sínum stað og ég trúi því tæpast að hann hafi þurft að bregða sér neitt frá um stund eins og ég.



Eins og sjá má er sektarmiðinn skrifaður kl. 13.47, en tími minn rann út kl. 14.12 skv. kvittuninni. Kannski gleymdi Stöðuvörðurinn þykku kókflöskubotnagleraugunum sínum heima, hann hefur e.t.v. verið óvenju syfjaður þennan dag vegna heimaleikfiminnar nóttina áður sem hafði verið að mestu gleymt fyrirbæri um nokkurra missera skeið, kannski var hann að hugsa um risastóra brúnkökusneið með miklu súkkulaði, óhóflega miklum þeyttum rjóma og rjúkandi kakói, eða konuna sína til síðustu 27 ára sem hafði sagt eins og upp úr þurru yfir kókópöffsinu um morguninn að hún ætlaði að gista í fyrsta skipti hjá æskuvinkonu sinni um helgina...!!!
Hvað veit ég um hver ástaðan hefur verið.

En hvað sem frekari pælingum líður þá tel ég mig hafa ástæðu til að hafa samband við höfuðstöðvar Bílastæðasjóðs við fyrstu hentugleika.

24.04.2008 11:39

Bögg...

469. Eitthvað er kerfið að stríða mér í augnablikinu svo ég geymi Kínabloggið þar til lausn hefur fundist á þeim vandamálum sem upp eru komin. En myndin hér að ofan gefur svo auðvitað glögga mynd af því hvað getur gerst ef menn sökkva sér of mikið ofan í blogg og vandamál því tengdu.

Nokkuð ljóst er að það er ekkert heilsusamlegra að vera tölvufíkill en súkkulaðifíkill.

24.04.2008 11:29

Um Kína.










268. Þessi færsla er tileinkuð hinum illu harðstjórum í Kína
fyrr og nú, Ólympíuleikunum 2008, sleikjuskap og undilægjuhætti þeirra sem þykjast vera fulltrúar frelsis og lýðræðis, en hafa svo enga alvöru sannfæringu ef von er um fjárhagslegan ávinning og síðast en ekki síst minningu stúdentanna sem létu lífið í fjöldamorðum 4. júní 1989.
Einnig ráðamönnum þeirra þjóða sem tala tungum tveim og setja viðskiptalega hagsmuni ofar kröfunni um mannréttindi. Þeim sem hrópa hátt um réttlæti á jörð, krossa sig í bak og fyrir og mæta að hætti hræsnarans reglulega til kirkju og gefa smáaura í samskotabaukinn. Þeim hinum sömu sem telja sig jafnvel vera lögreglu alheimsins en koma öðruvísi fram gagnvart ríkjum þar sem markaðir eru minni og skipta þess vegna litlu máli í augum þjóns Mammons sem setur dollarann og evruna í hásætið en sannfæringuna, réttlætið og siðferðið skör neðar.



Hún var á þessari línu hugljómunin sem varð til þess að ég setti saman lag og ljóð um ástandið í fjölmennasta ríki heims. Ég fékk harðsnúið úrvalslið til að aðstoða mig og upptaka var gerð í gamla Hljóðrita í Hafnarfirði. Það voru þeir Sigurgeir Sigmundsson (Start, Gildran, Popps o.fl.) gítar, Jóhann Ásmundsson (Mezzoforte o.fl.) bassi, Ásgeir Óskarsson (Icecross, Stuðmenn, Þursaflokkur o.fl.) trommur og upptökumaður var Birgir Jóhann Birgisson. Sjálfur spilaði ég á ýmis hljómborð, söng aðalrödd og allar milliraddir. Þrátt fyrir að ég væri ekkert ókátur með útkomuna, var aldrei gert neitt meira með afurðina og hún hefur safnað ryki í þau ca. 5 ár sem liðin eru frá hljóðritun hennar.



Hér að neðan er texti lagsins, þá slóðin á lagið, umfjöllun um mótmælin á torginu, þróun Kínverskra stjórnmála í tæpa hálfa öld og menningarbyltinguna svonefndu.

Á torgi hins himneska friðar.
Hann Maó formaður menningarbyltingu leiddi,
og milljónir manna limlesti hann og deyddi.
Skásettu augun þau ljómuðu, landsmenn þeir sungu,
lofsöngva Maó til heiðurs á kínverskri tungu. 

Valdhafinn mikli sem vinnandi stéttirnar leiðir,
hann verndar og þjónar, úr hugsanavillunum greiðir.
Hvort Tíbet er eða Taíwan, auðmýkt skal sýna,
svo takmarkalausa, í öllum "héruðum" Kína. 

En ungliðar andfélagslegir að mótmælum valdir,
til endurskoðunarsinna voru þeir taldir.
Byssurnar gelta og brátt gengur sólin til viðar,
og blóðið það rennur á torgi hins himneska friðar.

Vesturlönd mótmæltu formlega harðstjórans verki,
þau varðhundar sannleika og lýðræðis rísandi merki.
Harðsnúna, beinskeytta, sérlega sendimenn sína,
þá sendu til viðræðna um alvarlegt ástand í Kína.

Ef viðskiptasamninga við getum undirritað,
og verslunin hún gengur vel, þá enginn fær vitað,
að skoðanir vorar þær skulu þá víkja til hliðar,
og skítt með blóðið á torgi hins himneska friðar. 

Ef hagsæld og framfarir fólkið í landinu þráir,
það fellur ei lengur í stafi og valdhafann dáir.
Þá alþýðulýðveldishugsjón skal ýta til hliðar,
og úthella blóði á torgi hins himneska friðar.

Smeltu á... http://cs-002.123.is/StreamVideo.aspx?id=354911bc-8725-4e82-b49d-b8861b964ffb
smelltu á "open" og hlustaðu á lagið.



Hvað fólst í menningarbyltingunni í Kína?
Hugtakið menningarbylting er oft notað sem samheiti yfir ólguskeið í Kína á árunum 1966-1969, sem einkenndist af uppgangi róttækra stefna. Þær áttu það sammerkt að vera stefnt gegn viðteknum menningarlegum og pólitískum gildum og var mikil áhersla lögð á virkni alþýðunnar í að varpa af sér oki yfirstéttar. Að lokum fjaraði menningarbyltingin hins vegar út og var að mörgu leyti horfið til fyrri hátta í stjórn- og menningarmálum.

Forsaga byltingarinnar
Orsaka menningarbyltingarinnar í Kína er að leita í hugmyndum Mao Zedong (1893-1976) sem var formaður kínverska Kommúnistaflokksins 1934-1976. Mao gerði mikið úr þætti bænda sem byltingarafls og var því byltingin í Kína að mörgu leyti gerð undir öðrum formerkjum en rússneska byltingin 1917.

Eftir að valdaeinokun Kommúnistaflokksins var komið á í Kína árið 1949 kom með tíð og tíma upp togstreita milli forystumanna. Sumir þeirra vildu efla hagvöxt og stöðugleika í hinu nýja ríki, undir styrkri leiðsögn Kommúnistaflokksins. Í þeim hópi voru meðal annarra Liu Shaoqi (1898-1969) og Deng Xiaoping (1904-1997). Gegn þeim stóð Mao formaður sem taldi að byltingunni væri ekki lokið þótt Kommúnistaflokkurinn væri kominn til valda.

Í fyrsta lagi taldi Mao Zedong að Kína ætti á hættu að þróast í sömu átt og Sovétríkin þar sem völdin væru í höndum flokksins og nýrrar stéttar embættismanna. Slík stétt hafði að mati Maos svipuð tengsl við alþýðu manna og auðstéttin við verkamenn í kapítalískum samfélögum. Mao boðaði að færa þyrfti völdin úr höndum hinnar nýju yfirstéttar og til fólksins, fyrst og fremst með því að virkja ungt fólk innan stúdentahreyfinga, hina svokölluðu "rauðu varðliða". Þessi þáttur í hugmyndafræði byltingarinnar náði áheyrn víða um heim, og ýmsar hreyfingar í anda hennar voru stofnaðar á 8. áratug síðustu aldar. Meðal þeirra eru til dæmis skæruliðahreyfingar í Nepal og Perú. Sárafáar slíkar hreyfingar nutu þó stuðnings kínverskra stjórnvalda, hvort sem var í orði eða verki.
 

öðru lagi gagnrýndi Mao mennta- og heilbrigðiskerfi landsins sem væri um of miðað við hina best settu en ekki þarfir bændaalþýðunnar. Líkt og margir aðrir kínverskir menntamenn af hans kynslóð aðhylltist Mao kenningar bandaríska heimspekingsins John Dewey (1860-1952) um að menntun ætti að snúast um framleiðslu og lausnir á vandamálum fremur en klassískan lærdóm sem viðhéldi ríkjandi menningu.

Upphaf byltingarinnar
Menningarbyltingin hófst með harðri gagnrýni á borgarstjórann í Beijing, Peng Zhen (1902-1997). Einn aðstoðarmanna hans hafði samið leikrit um embættismann á Ming-tímanum (Hai Rui Ba Guan) sem skilja mátti sem gagnrýni á Mao. Leikritinu var svarað með óvæginni gagnrýni í blaði hersins í árslok 1965. Greinin var samin af Yao Wenyuan (f. 1931), Zhang Chunqiao (1917-2005) og Jiang Qing (1914-1991), eiginkonu Maos. Peng Zhen varð að draga sig í hlé en gagnrýni hinna róttæku beindist fljótlega að öðrum forystumönnum flokksins, þar á meðal Liu Shaoqi og Deng Xiaoping. Þeir höfðu sjálfir skipulagt "hófsamar" stúdentahreyfingar sem voru undir handleiðslu flokksins. Þeir Shaoqi og Xiaoping voru beittir harðræði af hendi rauðu varðliðanna sem talið er að hafi flýtt fyrir láti hins fyrrnefnda. Þá lamaðist sonur Deng Xiaoping þegar honum var varpað út um glugga.

Framvinda byltingarinnar
Eftir nokkra baráttu tóku róttæklingar völdin í Shanghai í janúar 1967 og stofnuðu kommúnu í stað borgarstjórnar. Kommúnan lognaðist út þar sem Mao og aðrir forsvarsmenn menningarbyltingarinnar í Beijing voru ekki tilbúnir að fallast á róttækar kröfur hennar. Hið sama gerðist í borgum víðs vegar um Kína. Stuðningur Maos við róttækustu öfl menningarbyltingarinnar virðist því hafa verið hálfvolgur og hafa ýmsir fræðimenn gert því skóna að hann hafi einungis hugsað sér hana sem tæki til að efla tök sín á Kommúnistaflokknum. Á hinn bóginn er ljóst að margar kröfur og aðgerðir róttæklinganna voru langt umfram það sem Mao hafði nokkru sinni boðað. Enda þótt Mao hafi hrint menningarbyltingunni af stað virðist hann hafa haft takmörkuð áhrif á þróun hennar.

Herinn studdi róttæklingana fyrst í stað enda hafði leiðtogi hersins, Lin Biao (1907-1971), unnið mikið starf til að breiða út kenningar Maos. Ýtt var undir persónudýrkun á Mao, meðal annars með útgáfu Rauða kversins sem dreift var í fjölda eintaka. Á hinn bóginn höfðu ráðamenn hersins áhyggjur af því stjórnleysi og ofbeldi sem fylgdi framgangi rauðu varðliðanna. Vorið 1967 tók herinn að sér að leysa með valdi upp róttækustu stúdentahreyfingarnar og koma víða til bardaga, einna skæðastra í borginni Wuhan við Yangzi-fljót. Um haustið fékk herinn svo skipun um að koma á "lögum og reglu" í landinu. Töluvert mannfall varð í aðgerðum hersins gegn rauðu varðliðunum, mest sumarið 1968 þegar barist var í háskólanum í Beijing. Var þá menningarbyltingunni í raun og veru lokið þótt eftirhreytur hennar hafi lifað innan stjórnkerfisins til 1976.

Eftirköst byltingarinnar
Á meðan menningarbyltingin stóð sem hæst hafði Kommúnistaflokkur Kína verið lítt starfhæfur en forystuhlutverk hans var endurreist 1969. Nokkrir af leiðtogum menningarbyltingarinnar, einkum þeir sem næst stóðu Mao formanni, fengu stöður innan flokksins til að vega upp á móti áhrifum hinna sem voru hægfara. Lin Biao fórst í flugslysi 1971 og virðist hafa verið á flótta til Sovétríkjanna. Eftir það jókst vægi hinna hófsamari afla innan stjórnkerfisins, einkum forsætisráðherrans Zhou Enlai (1898-1976).

Á tímabili virðist Mao hafa ætlað að gera verkalýðsleiðtogann Wang Hongwen (1935-1992) að eftirmanni sínum en féll frá því og endurreisti Deng Xiaoping sem einn af leiðtogum flokksins árið 1973. Deng féll aftur í ónáð vorið 1976 og gerði Mao þá Hua Guofeng (f. 1920) að arftaka sínum. Eftir fráfall Maos í september 1976 var hinni svokölluðu "fjórmenningaklíku", Jiang Qing, Zhang Chunqiao, Yao Wenyuan og Wang Hongwen, ýtt til hliðar af Hua Guofeng og Deng Xiaoping, sem fljótlega varð æðsti maður Kína. Hann hafði svipaðar áherslur og áður; hagvöxtur, hægfara þróun til sósíalisma og forystuhlutverk Kommúnistaflokksins urðu helstu stoðir kínverskra stjórnmála og hefur svo verið frá 1976.

Gert var upp við menningarbyltinguna með sýndarréttarhöldum yfir fjórmenningaklíkunni sem leidd var fyrir rétt ásamt fimm fyrrverandi forystumönnum flokksins. Þar var hún sökuð um tilraunir til valdaráns, morðtilræði við Mao Zedong og dráp á 34.000 manns. Voru sakborningarnir dæmdir í langa fangavist en Jiang Qing og Zhang Chunqiao til dauða. Jiang Qing framdi sjálfsmorð í fangelsi en Zhang Chunqiao var látinn laus vegna heilsubrests 2002. Jafnframt var staða Mao Zedong endurmetin og honum eignuð "mistök" í þeim málum þar sem stefna hans vék frá hugmyndum Deng Xiaoping.

Horft til baka
Í vestrænum fjölmiðlum frá þessum tíma (nánar tiltekið fréttatilkynningu Agence France Press frá 1979) var því haldið fram að 400.000 manns hefðu látist vegna menningarbyltingarinnar. Engin sundurgreining hefur þó fengist á þeim tölum og margt er óljóst um umfang mannfalls í byltingunni. Ljóst er að verulegur hluti af því var í bardögum þegar herinn barði niður róttækustu öfl byltingarinnar, enda þótt núverandi valdhafar í Kína haldi fremur á lofti því ofbeldi sem margir leiðtogar Kommúnistaflokksins voru beittir.

Einnig er ljóst að mikil eyðilegging fornminja og menningarverðmæta átti sér stað í baráttunni gegn "gamaldags hugsun". Almennt er talað um stöðnun í menntamálum í Kína á þessum tíma og lítið gert úr hugmyndum um "endurmenntun" fólks sem sent var út í sveitir til að kynnast nánar störfum bændaalþýðunnar. Forsvarsmenn menningarbyltingarinnar börðust gegn fornum kínverskum menningararfi, svo sem kenningum Konfúsíusar (551-479 f.Kr.), sem þeir töldu að ýttu undir íhaldssemi og staðið framþróun í Kína fyrir þrifum. Baráttan gegn Konfúsíusi var þó einkum áberandi eftir að upplausnarskeiðinu lauk á 8. áratugnum. Síðar hefur hagur Konfúsíusar vænkað og hann er mikils metinn af núverandi ráðamönnum í Kína.

Áhrifa menningarbyltingarinnar gætir enn, til að mynda hjá mörgum sem kenna sig við Maóisma. Maóistar vísa ennþá í hugmyndafræði menningarbyltingarinnar, ekki síst greinina "
Beiting alræðis yfir borgarastéttinni" eftir Zhang Chunqiao
Höfundur er Sverrir Jakobsson.













Fyrir hverju var barist í stúdentamótmælunum á Torgi hins himneska friðar og hvernig brást stjórnin við?
Segja mætti að Torg hins himneska friðar (Tian'anmen square) sé nokkurt rangnefni, þar sem Tian'anmen merkir í raun 'Hlið hins himneska friðar'. Átt er við hliðið milli torgsins og gömlu keisarahallarinnar í Peking í Alþýðulýðveldinu Kína sem gengur gjarnan undir nafninu 'Forboðna höllin' eða 'Forboðna borgin' (e. forbidden palace, forbidden city). Torgið er kennt við þetta hlið sem upphaflega var byggt árið 1417 á tímum Ming-keisaraættarinnar (1368-1644). Torgið er mun yngra eða frá upphafi 20. aldar. Síðan þá hefur það verið áberandi kennileiti í borginni sem og svið ýmissa mikilvægra atburða, seinast umræddra stúdentamótmæla vorið og sumarið 1989. 

Skömmu eftir fráfall Maos Zedongs (1893-1976), formanns kínverska kommúnistaflokksins, komst Deng Xiaoping (k. ???, 1904-1997) til valda í Kína og hóf efnahagslegar umbætur í landinu. Mörgum menntamönnum þótti samt sem áður að umbótum á efnahagskerfi hafi ekki fylgt umbætur á pólitísku frelsi (eins og Glasnost Gorbachevs í Sovétríkjunum). Þrátt fyrir hina nýju stefnu kommúnistaflokksins höfðu efnahagslegar aðstæður menntastétta heldur ekki batnað jafn mikið og bænda og verkamanna. Sumum fannst enn fremur að umbótastefna Dengs Xiaopings væri of langt gengin og hefði í för með sér atvinnuleysi, verðbólgu og annað ójafnvægi.

Útför hins umbótasinnaða Hus Yaobangs (k.
???) um vorið 1989 varð svo upphaf mótmælanna sem snérust fyrst og fremst um lýðræðislegar umbætur og aukið pólitískt frelsi. Eftir að fréttir um mótmælin og átök mótmælenda við lögreglu voru birtar jókst umfang þeirra mjög og samúðarmótmælafundir voru haldnir víða í Alþýðulýðveldinu Kína sem og í Hong Kong (þá breskt verndarsvæði) og Taívan (sæti Kínverska lýðveldisins síðan 1949).
 

byrjun maí voru yfir 100.000 mótmælendur á torginu, hungurverkföll höfðu hafist og háskólalóðir og götur Peking voru yfirfullar af mótmælendum sem flestir komu úr röðum stúdenta. Að lokum gripu stjórnvöld til þess ráðs að lýsa yfir herlögum þann 20. maí og herdeildir hófu inngöngu í Peking. 3. júní var hafin atlaga að mótmælendum á torginu og næsta dag hafði torgið verið rutt og ekkert bólaði á mótmælendum. Hversu mikið mannfall varð á torginu og annars staðar í Peking er óljóst og mjög umdeilt.

Viðbrögð kínverskra stjórnvalda hafa verið mikið gagnrýnd og voru sannarlega hörkuleg. Eftir áratuga langa harmasögu Kína á 20. öld er samt svo til ógerlegt að átta sig á öllum staðreyndum og varasamt að trúa neinni einni heimild þar sem flestar koma heimildirnar frá aðilum sem hafa pólitískra hagsmuna að gæta. Umræða um atvikið í Alþýðulýðveldinu í dag er lítil, en þó meiri en fyrstu árin á eftir. Almennt virðast viðbrögð stjórnvalda hafa orðið til þess að opinber stjórnmálaþátttaka af þessu tagi er sjaldgæf meðal kínverskra borgara. Þó ber að benda á að frá tímum stúdentamótmælanna hafa orðið miklar framfarir í Alþýðulýðveldinu Kína, ekki aðeins stórkostlegar framfarir á sviði efnahagsmála og aukin lífsgæði heldur einnig nokkrar umbætur á mannréttindum.
Höfundur er Jón Egill Eyþórsson. 



FJÖLDAMORÐIN Í PEKING.
(Morg
unblaðið þriðjudaginn 6. júní 1989.)
Torg hins himneska friðar blóði drifinn vígvöllur.
Óstaðfestar fréttir herma að allt að 7.000 manns hafi verið myrtir Peking. Skriðdrekar óku um götur í miðborg Peking snemma í gærdag að kínverskum tíma. Skothvellir kváðu við og eldar loguðu í strætisvögnum og farartálmum sem námsmenn og stuðningsmenn þeirra höfðu reist til að hindra árás hermanna sem talin var yfirvofandi. Slagorð höfðu verið máluð á strætisvagnanna áður en eldur var lagður að þeim og á einum þeirra sagði "Hefnum blóðbaðsins 4. júní". Tæpum sólarhring áður höfðu kínverskir hermenn gráir fyrir járnum og studdirskriðdrekum látið til skarar skríða gegn umbótasinnum, sem haldið hafa til á Torgi hins himneska friðar í miðborg Peking undanfarnar vikur og krafist lýðræðis og upprætingu spillingar í landinu. Án sýnilegstilefnis hófu hermenn vopnaðir hríðskotabyssum skothríð á fólkið á torginu.

Blóðbaðið var óskaplegt en fréttir herma að 3.000 til 7.000 manns hafi verið á torginu er fjöldamorðin voru framin. Stjórnvöld hafa enn ekki skýrt frá því hversu margir féllu, en erlendir sendimenn telja að a.m.k. eitt þúsund manns hafi verið myrtir á Torgi hins himneska friðar og í nærliggjandi götum. Aðrar heimildir herma að talan sé mun hærri. Fréttaritari Reuters-fréttastofunnar í Peking kvaðst í gær hafa heyrt óstaðfestar fregnir þess efnis að 7.000 manns hefðu verið myrtir á laugardag. Dagblað hersins í Kína lýsti árásinni sem miklum sigri yfir "gagn byltingarmönnum".

Fjöldamorðin voru framin á aðfaranótt sunnudags að kínverskum tíma en fyrstu fréttir af atburðum þessum bárust til Vesturlanda um klukkan 16 að íslenskum tíma á laugardag. Að sögn sjónarvotta hófst árás hersins klukkan 4 á aðfaranótt sunnudags að kínverskum tíma.

Skyndilega varð miðborg Peking ljóslaus. Námsmennirnir á torginu ákváðu að fara hvergi og hófu að syngja "Internationalinn", baráttusöng kommúnismans. Skömmu síðar þustu hermenn vopnaðir hríðskotabyssum út úr Alþýðuhöllinni miklu við Torg hins himneska friðar. Umleið birtust brynvarðir liðsflutninga bílar á torginu. Segja sjónarvottar að fjöldi manns hafi látist og særst er vagnarnir óku yfir tjöld námsmanna sem þeir höfðu komið þar upp.

Í fréttaskeytum Reuters-frétta stofunnar segir að talið sé að 6.000 til 7.000 manns hafi verið á torginu er herliðið hóf skothríð. Sjónarvottar segja að hermennirnir hafi skotið á fólkið, sem var óvopnað, og lítt hirtum hvar byssukúlurnar lentu. Fólkið lagði á flótta í átt að götum í nágrenninu. Hermennirnir tóku einnig á rás og hleyptu af vopnum sínum á hlaupunum. Fólkið hrópaði: "glæpa menn, glæpamenn". Skipulögð fjöldamorð hafa ekki verið framin í Peking með þessum hætti í þau 40 ár sem kommúnistar hafa ráðið ríkjum í Kína.

Fótum fjör að launa.
Um klukkan 5.30 að kínverskum tíma birtust sex skriðdrekar og óku þeir yfir farartálmana í átt að torginu. Að sögn Grahams Hutchings, fréttaritara breska dagblaðsins The Daily Telegraph í Peking, lögðu þúsundir manna á flótta er bryndrekarn ir birtust. Sjálfur átti hann fótum fjör að launa. Fólkið hljóp inn í hliðargötur en skriðdrekarnir fylgdu á eftir. Ærandi vélbyssuskothríð kvað við og eldglæringarnar úr byssuhlaupunum sáust greinilega í myrkrinu.

Skriðdrekarnir óku í röð að torginu og komu inn á það úr austri en áður höfðu hermenn haldið inn á torgið úr norðri og vestri. Fréttaritari The Daily Telegraph telur að þá hafi um 3.000 umbótasinnar verið á torginu. Bryndrekarnir óku yfir allt það sem fyrir þeim varð og herma sjónarvottar að fjöldi manns hafi orðið undir þeim er þeir óku niður Changanbreiðgötuna framhjá Peking-hóteli og inn á torgið. Um 15 brynvarðir liðsflutningavagnar fylgdu skriðdrekunum. Einn skriðdrekinn ók á fullri ferð að eftirlíkingu að bandarísku Frelsisstyttunni, sem námsmenn höfðu komið upp á torginu. Styttan, sem gerð var af listnemum í Peking-háskóla og kölluð "Lýðræðisstyttan" féll til jarðar og tættist í sundur undir járnbeltum skriðdrekans.

Hollir forsetanum.
Talið er að herliðið sem framdi fjöldamorðin heyri undir 27. herinn en hann er að jafnaði staðsettur í Hubei-héraði í miðhluta landsins. Herinn er sagður vel þjálfaður og agaður en hann er talinn hollur Yang Shangkun, forseta Kína. Vitað er að Yang sem er 82 ára að aldri hvatti til þess að mótmæli námsmanna yrðu barin niður af fullri hörku og virðist svo sem hann hafi nú náð að treysta stöðu sína innan valdakerfisins. Hugsanlegt er talið að hann komi til með að berjast um völdin við Deng Xiaoping, hinn eiginlega leiðtoga kínverska kommúnistaflokksins.
(Reuter)

23.04.2008 11:51

Í tilefni dagsins.



467. Er þetta ósanngjörn mynd af ráðherra?

17.04.2008 08:23

Karlinn á leigunni.

466. Þessa mynd mátti sjá í Mogganum í dag á bls. 32 eða nokkrum síðum aftan við minningagreinarnar. Ef einhver skyldi láta sér detta í hug að ég líti svona út vil ég koma afgerandi leiðréttingu á framfæri, bæði hér svo og alls staðar annars staðar sem ég get komið því við. 

ÞETTA ER SKO ALLS EKKI ÉG!

En því má svo bæta við að Mogginn er ekki eini fjölmiðillinn sem tekur Laugarásvideó til umfjöllunar þessa dagana. Á "Okursíðu dr. Gunna" er að finna pistil merktan #384 þar sem til umræðu er útleiguverðl myndefnisins á staðnum. Og fyrir þá sem vilja kíkja á þá lesningu er slóðin http://this.is/drgunni/okur367-400.html 

17.04.2008 07:32

Ég er fíkill.



465. Ég er forfallinn sælgætisfíkill, en aðallega þó veikur fyrir súkkulaði. Þegar litið er til baka sést hversu undarlega kaflaskipt lífið getur verið. Það sem ég taldi að alls ekki gæti komið til einn daginn, beinlínis hrynur ofan í hausinn á manni þann næsta svo rækilega að engum vörnum verður við komið. Nákvæmlega þann 4. desember 2007 skömmu eftir að ég vaknaði datt ég í það. Það var eins og ég hefði hnotið um einhverja ójöfnu á lífsins göngu og steypst á höfuðið beint ofan í djúpan súkkulaðipytt. Framan af tók ég þessu frekar létt og sagði öllum sem heyra vildu að ég væri kominn á Ritter-sport kúrinn. Sumir hváðu og spurðu hvort þetta væri einhver nýr megrunarkúr og ég svaraði þá að bragði að vissulega hefði hann með þyngdarstjórnun að gera.
-
En þetta var bara byrjunin.




Þegar farið var í verslunarleiðangra vikurnar eftir að Ritter-sport kúrinn kom til, fór að bera á að nokkuð f frjálslega væri lesið á milli línanna á innkaupalistanum. Þetta jókst smátt og smátt og náði svo hámarki í síðasta mánuði. Það var alls staðar til sælgæti í allgóðu úrvali, heima, í bílnum og á vinnustað.



Fyrir jólin var Engilsaxneskt og konunglegt sælgæti boðið á fádæma góðu tilboði bæði í Bónus og Krónunni. 3.9 kg dunkur eins og sést hér að ofan var á aðeins 1.890 kr. Því má bæta við að 1.7 kg. var ekki nema 20 kr. ódýrari svo ég þurfti ekki að velta mikið vöngum yfir því hvora stærðina rétt væri að fjárfesta í. Ég stakk upp á að kaupa svona nammi og eiga, ef svo óheppilega og reyndar einnig ótrúlega vildi til að eitthver hefði gleymst og það vantaði hreinlega einn pakka eða þannig. En vissulega var jú hugsanlegt að einhver droppaði óvænt inn með eitthvað utan dagskrárefni og þá var gott að vera við öllu búinn. Annað eins hefur nú gerst og það oftar en einu sinni það ég man. Og svo var nú líka allt í lagi að kaupa annan svona dunk fyrir okkur heimilisfólkið eða hvað? Tillagan var samþykkt með "öllum" greiddum atkvæðum, en það er skemmst frá því að segja að ég át upp úr þeim báðum og svo gott sem hjálparlaust. Þeir voru lengst af staðsettir á náttborðinu eða við tölvuborðið þar til allur botninn varð vel og greinilega sýnilegur en ég auðvitað rétt að vekja athygli á hvað þetta voru frábær ílát undir smákökurnar um næstu jól. Annar hvarf síðustu dagana fyrir jól, en hinn entist fram yfir áramótin. Sömu örlög hlutu einnig þrír konfektkassar sem okkur bárust í glitrandi fallegum umbúðum með slaufu og korti. - Ég át þá líka.



Mælaborðið á bílnum var notað undir ferðasælgætislagerinn og þess var vandlega gætt að birgðastaðan væri alltaf viðunandi. En þarna varð oft mjög hlýtt og jafnvel full notalegt fyrir hinar umræddu sykurauðguðu kakóafurðir í litríku neytendaumbúðunum, því miðstöðin blés auðvitað heitu lofti upp á framrúðuna því það var nú einu sinni hávetur. Það varð svo til þess að súkkulaðið varð stundum lint og fljótandi, en það hafði aftur á móti þann ótvíræða kost að það var hægt að drekka það beint úr bréfinu og þannig komast yfir talsvert meira magn á hvern ekinn kílómetra.



En svo tæmdust umbúðirnar og það þurfti að fara í tiltekt, en svo var fyllt á aftur.



Hólfin innan á hurðinni fylltust líka mjög fljótt af tómum sælgætisbréfum.



Á Hallveigarstígnum  var líka alltaf eitthvað til innan um verkfæri og byggingarefni.



Einu sinni þegar ég kom inn í Bónus á Völlunum var heilt bretti af Möndlukökum við dyrnar og kostuðu þær aðeins 99 kr. stykkið. Ég keypti fimm en það voru bara tvær eftir þegar ég loksins gaf mér tíma til að taka myndina. 



En nýverið fór ég til doksa því ég var eitthvað undarlegur undanfarið sem er auðvitað ekkert nýtt. Hann sendi mig m.a. í blóðprufu og þremur dögum síðar hringdi síminn.
"Það er allt gott að segja af þessari prufu, NEMA..." - Og þá kom sjokkið eða ætti ég kannski heldur að segja sykursjokkið.
"Þú ert kominn með 7.1 í blóðsykri og nú verður að stíga fast á bremsuna karlinn minn, því annars gæti verið stutt í stórvandamál sem illa verður ráðið við."

Ég hef því alfarið skipt yfir í sykurlausan Opal, alla vega í bili.

Í dag (föstudag) ætla ég að skreppa á heimaslóðir yfir helgina, en það verður líklega að mestu leiti sykurskert fóður á borðum.

06.04.2008 17:13

Páskar á Sigló 2008.



464. Það var ekki amalegt að koma á heimaslóðir um síðast liðna páska frekar en venjulega. Það var bjart yfir bænum, allt undir mjallahvítu teppi og himininn heiður og blár. En það hefur hins vegar tekið lengri tíma en áætlað var að koma afurðunum inn á bloggið og hætt við að eitthvað hafi hreinlega fallið í gleymsku þá daga sem liðnir eru. Hætt er því við að það sem fréttnæmt gæti talist sé farið að úreldast svolítið, en því skal nú tjaldað til engu að síður. Meginástæðan er sú að farið var í uppfærslu á 123.is vefnum strax eftir páska og ekki hefur verið hægt að setja myndir inn á síðuna fyrr en nú. Lagt var af stað norður að kvöldi mánudagsins 17. mars og komið norður um hálffjögur leytið aðfararnótt þriðju dagsins18.

Morguninn eftir var ég vaknaður snemma og fljótlega kominn út á rúntinn, en það voru ekki margir á ferli í bænum. Þó sá ég í skottið á Möggu Steingríms þar sem hún var í þann veginn að hverfa inn um dyr gamla Videóvals.



Ég elti hana auðvitað inn og spurði hvað hún væri að sýsla þarna þessa dagana, en hún sagði mér að þetta væri vinnustofa hennar um páskana. Hún væri að vinna þrívíddarverk í ull fyrir sýningu sem yrði í Deiglunni á Akureyri í næsta mánuði.



Ég skoðaði og myndaði þessi mjög svo merkilegu verk, og  viðurkenni fúslega að ég hef aldrei séð neitt þessu líkt.



Við Magga, sem er bekkjarsystir mín áttum síðan langt og skemmtilegt spjall



Og hún þæfði á meðan.



Svo má líka bæta því við að hún er með ólæknandi bíladellu.



Ég hitti Sirrý sem vinnur hjá Metrosav (vona að það sé rétt skrifað) fyrir framan Bakaríið og fékk góðfúslegt leyfi hennar til að smella af einni mynd.



Þetta gamla skráningarnúmer vakti athygli mína á Aðalgötunni, en svona númer eru ekki orðin mjög algeng. Það mátti oft sjá bíl með þessu númeri fyrir framan barnaskólann hér í eina tíð þegar ég gekk þar um dyr, en þá var eigandi hans Helgi Sveinsson leikfimi og handavinnukennari sællar minningar.



Það var ekki fyrr en síðari hluta sama dags að ég frétti af snjóflóðinu sem hafði fallið vikunni áður úr gilinu fyrir norðan og neðan Skollaskál, eða á sömu slóðum og snjóflóð hreinsaði Evanger verksmiðjurnar af grunni sínum og út í sjó árið 1919. Þar sem allt land var skjannahvítt og mjög bjart yfir sást ekki mikið hvar flóðið hafði fallið, en með því að fikta svolítið í myndinni tókst mér að gera það greinanlegra.



Morguninn eftir var lagt af stað í svolitla skoðunarferð. Það var of mikill snjór á veginum fyrir litla Micru til þess að komast mætti yfir á gamla flugvöllinn svo ég gekk frá brúnni yfir Skútuá.



Skammt undan landi stakk þessi forvitni selur kollinum upp úr sjónum og fylgdist með mér um hríð.



Eftir því sem nær dró virtist flóðið verða stærra og meira að umfangi, þykkra og hærra.



Það var eins og stórvirkar vinnuvélar hefðu rutt þessum sköflum upp.



Sums staðar líktust ruðningarnir mánudagsmorgunverkum jarðýtu í götukanti, eftir að ekki nokkur maður hefur séð út úr augunum fyrir snjókomu alla helgina.



Snjórinn var blautur og þungur.



Og eitthvað svo undarlega blár.



Það er eins og hér séu för eftir eitthvert farartæki.



Sums staðar hefur hann náð ofan í jarðveginn á leiðinni niður hlíðina.



En þessi undarlegu för eru líklega eftir núning snjófyllunnar við það sem áður var hjarn.



Það liggur því beinn og breiður vegur í áttina til sjávar.



Eða a.m.k. langleiðina niður í fjöru.



Það verður til nýtt landslag.



Ég horfi hér upp eftir hlíðinni og gilinu í áttina að Skollaskál, en þaðan kom allt efnið sem notað var í breytingarnar.



Að vísu mun það færast aftur til fyrra horfs með tímanum.



Það eritthvað svo undarlega stutt yfir á Hafnarbryggjuna.



Og líka þessa manngerðu eyri sem var ekki þarna þegar ég var lítill. 



Alla vega þegar aðdráttarlinsan er notuð.



Hæstu ruðningarnir voru tæpir þrír metrar á hæð.



Sumir voru undarega lagskiptir.



Og þrátt fyrir að það væri búin að vera talsverð hláka nokkra af þeim dögum sem liðnir voru frá því að flóðið féll.



Ég færði mig svolítið ofar í hlíðina



Þar var flóðið mun mjórra en það var nú samt alveg nóg af snjó fyrir því.



Þetta leit út eins og snjóeyja í snjóhafinu þarna á bakkanum rétt fyrir ofan ströndina.



Þegar leið á fór bæði að rigna og bæta hressilega í vindinn.



Næstu myndir voru sumar hverjar lítillega hreyfðar, því ég var greinilega ekki nógu vel klæddur og var orðinn svolítið skjálfhenntur af kulda.



Það blés af suðri eða suðaustri.



Ég staldraði við um stund í skjóli undir hæsta hrauknum með hendur djúpt í vösum áður en ég manna mig upp í gönguna að bílnum.



En þetta er eins og skúlptúr.



Hann er orðinn ansi dökkur til hafsins.



Örfáar myndir í viðbót og síðan að drífa sig til mannheima.



Ef ég vissi ekki betur héldi ég að hér væru för eftir jarðýtutönn.



"Siglufjörður skafla á milli."



En að lokum kvaddi ég Snjóflóðasvæðið fyrir ofan rústir Evangerverksmiðjunnar og gekk til baka. Það var komin hellirigning og ég orðinn hundblautur.



Eftir svolitla þurrkun var ég fljótlega kominn aftur á stjá. Ég fylgdist með hvernig snjónum sem kyngt hafði niður nokkru fyrir páska og lagst yfir bæinn eins og teppi, var komið fyrir. Ég hef aldrei séð svona aðfarir á suðvesturhorninu, en þessi aðferð er víðast hvar notuð á landsbyggðinni.



Snjónum er mokað upp í hauga til að byrja með, en síðan þegar tækifæri gefst er honum ekið í burtu sem hlýtur að vera verulega búbót fyrir vörubílaeigendur.



Svo er honum sturtað út í sjó þar sem hann bráðnar. Einhvers staðar sunnar á jarðarkringlunni mun hann að öllum líkindum í fyllingu tímans gufa upp og mynda ský. Þau fylgja svo e.t.v. lægðunum sem leggja leið sína upp að Íslandsströndum og inn á landið. Skyldi þá aldrei vera að eitthvert snjókornið á pallinum hjá Árna hafi komið þar við áður? En þetta fer að verða fullmikil og djúp speki, meira að segja á minn mælikvarða. 



Gæti verið að það leynist einhver ætur biti ættaður af Hvanneyrarbrautinni þarna í sjónum fyrir framan Óskarsbryggju?



Gamli fótboltavöllurinn hefur líklega verið mest notaða snjógeymslusvæðið árum og áratugum saman. Þessi aðferð er sennilega alveg einstaklega hversdagsleg og óeftirtektarverð fyrir þann sem hefur vanist þeim sem sjálfsögðum og eðlilegum, en annað gildir um þann sem kemur úr öðru umhverfi.



Daginn eftir eða þann 20. var ekki bara hellirigning, heldur líka alveg bálhvasst. Það sást vel á öldurótinu í fjörunni fyrir neðan munna Strákaganganna Siglufjarðarmegin.



Og ef horft var yfir fjörðinn virtist oddinn á Siglunesinu vera á kafi í hvítfyssandi og brotnandi haföldunni. En ef betur var að gáð braut á grynningum langt út af nesinu sem sést því miður ekki vel á myndinni vegna þess hve lágskýjað var.



Sama var uppi á teningnum í Selvíkinni og næsta nágrenni hennar.



Þegar ég kom af ströndinni og aftur í bæinn ók ég niður Eyrargötuna og sá að dyr stóðu galopnar á húsi sem ég taldi eiga að vera mannlaust. Annað hvort var veðrinu um að kenna eða einhver hafði lagt leið sína þangað og hver veit í hvaða tilgangi. Ég hringdi í 460-3950 og Brandur var kominn að vörmu spori til að kanna málið. Ég sá að hann hrukkaði ennið aðeins meira en venjulega og virtist svolítið ábúðarfyllri en venjulega. Kannski var hann bara ekkert allt of ánægður með að láta draga sig út í kuldann frá rjúkandi kaffibollanum sem hann hafði hugsanlega þurft að standa upp frá neðarlega á Gránugötunni. En auðvitað var þetta tóm vitleysa og eftir að Brandur hafði fullvissað sig um að þarna hafi ekkert misjafnt átt sér stað bauð hann mér í svolitla vinnustaðaheimsókn sem ég þáði auðvitað. Þegar ég var svo kominn á stöðina sagði hann: Viltu kannski kaffi???



21. mars fannst mér vera kominn tími á svolitla smíðavinnu uppi á háalofti sem ég er að skipta niður í þrjú svefnherbergi, geymslu og smíðaherbergi. Þennan dag kláruðust að mestu þær birgðir sem til voru af spýtum, plötum, nöglum og skrúfum. Og þegar leið á fann ég í nokkrum pappakössum merki um mannvistarleifar sem tími var kominn á að rifja upp, bæði frá upphafsárum mínum í húsinu og þaðan af eldri. Auk þess mikið af skemmtilegum ljósmyndum frá árunum upp úr að ég held 1930. Þær fóru með suður og verða teknar til sérstakrar skoðunar innan tíðar.



Laugardaginn 22. mars átti ég svolítið spjall við Ómar Möller. (Skiptir svo sem ekki máli hvar.) En skömmu eftir að ég kom frá honum sá ég þykkan og svartan reyk leggja til himins einhvers staðar neðarlega á eyrinni. Ég varð auðvitað að svala minni eðlislægu forvitni og komst þá að því að eldur var laus í netum sem geymd voru í gámi norðan við Sigló-síld. Þá rifjaðist upp skemmtilegt samtal sem ég hafði átt við Ámunda slökkviliðsstjóra um hádegisbilið þann dag, en það var efnislega eitthvað á þessa leið.
"Neiiii komdu margblessaður Ámundi"
"Sæll veru sjálfur, hvernig hafiði það sunnlendingarnir?"
"Ha, ha, ha... Er ég nú orðið eitthvað Reykjavíkurpakk."
"Nei, nei. En ég vissi bara að þú tækir því ekkert allt of vel. Það er bara skemmtilegra þannig"
"Hvað er annars að frétta af svæðinu?"
"Af svæðinu? Ekki nokkur skapaður hlutur. Hér brennur aldrei neitt."



En það brann nú samt og bíll frá Olíudreifingu stóð meira að segja við hliðina á bálinu sem gaus upp úr gámnum með miklum látum.



En innan tíðar mættu vinnumennirnir hans Ámunda á rauðum bíl.



Þegar ég var lítill var mér sagt að það væri bannað að teika, en ég gerði það nú samt í þá daga. Ég er hins vegar fyrir löngu vaxinn upp úr því en það eru greinilega ekki allir.



Hvers konar slökkviliðsbíll er nú þetta? 
Var atburðurinn kannski auglýstur og er þetta þá sætaferðin?
Vegir hins nútímalega túrisma eru svo sannarlega órannsakanlegir.



Og fær hann ekki meira fram úr en þetta?
Þetta er náttlega bara utanaðkomandi rúðupiss.



Menn hlaupa til því það vill greinilega vill enginn missa af fjörinu.



"Þýtur í laufi bálið brennur..."
Að vísu vantar alveg laufið því það er auðvitað hávetur, en bálið er á staðnum.



Og svo hefst atlagan.



Það dökknar yfir öllu.



Eldur og reykur fitla við þakskeggið á Sigló-síld.



En hin vaska sveit gefur engin grið.



Það verður sko drepið í honum þessum.



Það er sótt fast að gámnum og því sem í honum er eða var.



Og hér er hægt að segja að menn vaði reyk í bókstaflegri merkingu.  



Þetta er eiginlega eins og flott sena úr Backdraft eða Towering inferno.



Og myndaveiðimenn voru auðvitað mættir í löngum bunum.



Það vantaði bara að þeir tækju myndir hver af öðrum.



Og allar og alls konar græjur voru á lofti.



BÁS var svo eina fyrirtækið sem hafði vit á að nýta sé auglýsingahléð.



En eldurinn blossaði svolítið upp aftur.



En fékk þá bara myndarlega gusu og var slökktur á ný.



Þessi gæti alveg ratað upp á stofuvegg hjá Ámunda í gylltum ramma...



En þessu fór senn að ljúka.



Og þar kom að menn luku verkinu og það á ágætum tíma en útræsið gerði fjóra tíma á kjaft, en ég veit ekki hvaða launaflokki þessir vösku menn tilheyra.



Þegar hvorki var eldur né reykur lengur til staðar var ekki mikið fútt í að hanga yfir engu. Ég gekk til bíls en hitti þá Bjössa og Álfhildi bekkjarsystur mína.

Anna Lára, Bryndís, Bára frænka mín og Lalli Blöndal.
Anna Lára, Bryndís, Bára frænka mín og Lalli. - Ó Lalli.

Bjössi leit upp þegar hann heyrði þessa gamalkunnu rullu.
Hva segirði gott? - Og svo stóðum við og mösuðum í tvo tíma.



Ég lagði leið mína inn að Síldarminjasafni, en rétt áður en ég var kominn þangað tók ég eftir því að það var háfjara. Gamlir bryggjustaurar sem sjaldan sjást stóðu upp úr haffletinum. Líklega eru þetta leifar af Þóroddarblaninu.



Þegar ég var kominn inn að flugvelli gat að líta "auðan sjó" ef svo mætti að orði komast. Þ.e.a.s. það var enginn sjór í innsta hluta fjarðarins sem við köllum Leirurnar, heldur aðeins svartur sandbotninn alveg fram fyrir stálþil.



Á bakaleiðinni stoppaði ég svo aftur og virti fyrir mér landslagsbreytinguna sem hefur orðið þegar horft er til fjallsins eftir að snjóflóðavarnargarðarnir komu til.



Daginn eftir eða Páskadag var alveg brakandi blíða þó svo það væri lengst af sólarlítið. Ég fór upp á einn af betri útsýnispöllunum á leiðigörðunum eða þann nyrsta, sem er fyrir ofan fjárhúsin hans Hafsteins Hólm og virti fyrir mér bæinn og næsta nágrenni. Ég horfði inn Hólsdalinn og hugsaði með mér að þetta væri líklega dagurinn til að klífa svolítið upp eftir hlíðum Hólshyrnunnar og ná góðri vetrarmynd. Ég lagði leið mína því næst inn eftir og þegar ég var kominn þar sem Andabúið hans Halla Þór var eitt sinn, var farið að verða erfiðara að komast leiðar sinnar. Þarna voru einhver jeppaför í snjónum sem var samt ekki mjög djúpur, en allt var svo yfirþyrmandi hvítt að erfitt var að greina þau. Það bætti svo ekki út skák að þarna voru einnig för eftir vélsleða sem lágu að mestu leyti samhliða veginum en þó ekki alveg alltaf. Þar kom því að ég komst ekki lengra. Snjóskurnin gaf eftir og annað framhjólið sökk niður. Ég hafði látið platast, elt vitlaust far og nú alveg pikkfastur. Eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir gafst ég upp og rölti af stað til bæjar og það var svo sem ekkert að því að spássera þarna í blíðunni.



Ég var kominn að hesthúsunum þegar ég heyrði mikinn undirgang að baki mér og sá þetta ökutæki nálgast. Það væri auðvitað miklu gáfulegra að vera á svona ökutæki en Nissan Micru. Ég pírði augun eins og ég er farinn að gera svo oft nú í seinni tíð og mér sýndist þetta vera hann Áki Vals sem sat undir stýri.

Þegar heim var komið hringdi ég í Hauk Þór, en ég hugsaði með mér að hann yrði ekki í miklum vandræðum með að kippa litla bláa dúkkubílnum upp á kantinn á nýja jeppanum, en hann var þá á leið til Ólafsfjarðar. Ég var þá bara ekkert að velta þessu máli fyrir mér í bili því það voru komnar fréttir, kvöldmatur og ég var orðinn latur. Það var svo ekki fyrr en daginn eftir sem ég hringdi í Gulla Sínu og spurði hann hvort ég mætti betla svolítið á honum. Það var auðsótt mál og við héldum inn á fjörð á jeppanum hans með spotta í skottinu. Ekki tókst betur til en að Gulli lenti í sömu gildru og ég og sat alveg pikkfastur og komst hvergi. Við höfðum auðvitað ekki talið neina þörf á skóflu og það var sama hvað við spörkuðum snjónum frá hjólunum, hann varð bara enn fastari við hverja tilraun. Þetta leit hreint ekki vel út þegar við sáum heljarmikinn tröllajeppa nálgast okkur. Það reyndist vera Guðbjörn Haralds og reyndist hann vera sá bjargvættur sem við þurftum nú báðir á að halda. Það reyndist ekki mikið mál fyrir hann að koma okkur upp á veginn. Ég hafði þá á orði að fúlt væri að myndavélin hefði aldrei þessu vant gleymst í bænum.
"Ertu þá ekki með myndavélina" sagði Gulli og virtist allur hressast við þau tíðindi.
"Djö.. var það gott. Maður verður þá ekki notaður til skrauts á einhverri síðu."
Það var engu líkara en að gleymskan í mér hefði hreinlega bjargað deginum hjá Gulla sem kættist verulega.
Svo lögðum við allir af stað áleiðis til bæjar.



Óli Símon, Bjarni Kristjáns og Elli Ísfjörð jr. heiðruðu okkur með nærveru sinni um stund. Þeir eru eins og allir vita hinir bestu drengir og er þá heldur lítið sagt.



Katrín gerði það líka en hún er hreint út sagt alveg frábær stelpa, og það vita líka allir.



Á leiðinni suður fékk ég svar við spurningu sem hefur beðið og vakað með mér síðan leiðin yfir Þverárfjall var gerð að heilsársvegi.
Hvað styttir þetta leiðina mikið?
Og þá vitum við það svart á gulu.
27 km. aðra leiðina sem gerir 54. km báðar leiðir.
Ég fer einu sinni í mánuði til Siglufjarðar þannig að ef ég fer alltaf Þverárfjallið er styttingin 648 km. á ársgrundvelli, eða 1.109589041 ferð Reykjavík - Siglufjörður - Reykjavík. Það gerir sem sagt rétt rúmlega þrettándu hverja ferð fría.



En við vorum ekki alveg ein á leiðinni suður. Arna Rut fylgdi í humáttina á eftir okkur með afabörnin tvö. Hérna er Vigfús Bjarki í pylsuogkókstoppi í Staðarskála.



Þóra Sóley stóra systir hefur mjög keimlíkan smekk á því hvað telst álitlegt til fóðrunar á svona ferðalögum.



Það var líka staldrað ögn við í Borgarnesi og þá sá ég að mikill fjöldi ísnála hafði tekið sé far með okkur og héngu utan á bílnum rétt eins og einhver sníkjudýr. - Skrýtið. En þetta hefur víst eitthvað með að gera hita og rakastig niður við jörð.



En þegar heim var komið tók hún Aría á móti mér og skreið upp í sófann þar sem ég hafði tekið mér bólfestu því það voru byrjaðar fréttir og ég er algjör fréttafíkill.



En það var ekki pláss fyrir fleiri í sófanum svo að hún Káta sem er alíslensk lét sér nægja að brosa breitt framan í myndavélina.

04.04.2008 18:31

Engillinn hún Nína.

463. Á hverjum einasta degi og meira að segja oft á dag upp á það allra síðasta, hef ég staðið í glímu við að koma myndum inn á síðuna mína en án nokkurs árangurs. Ég hlóð skv. ábendingu frá 123.is niður einhverri deluxe útgáfu af galdramegaturboforriti sem átti að leysa allan minn vanda, en allt kom fyrir ekki. Ekkert myndefni vildi setjast að í pistlum mínum og í framhaldi af því opinberast á síðunni. Og síðustu myndir sem ég hafði þó náð að koma fyrir í albúmi fyrir fáeinum dögum, virðast nú alveg vera gufaðar upp. Þar er um að ræða myndir sem teknar voru um páskana á Sigló, og til stóð að nota í Siglufjarðarpáskablogg. Ég gerði þó eina tilraun áðan sem mér sýnist hafa heppnast, en hún fólst í því að sækja "url" á netið og setja slóðina inn sem "mynd af netinu." Myndin sem varð fyrir valinu er af engli sem blakar vængjum sínum í sífellu eins og sjá má. Ég hef ákveðið að gefa englinum nafnið Nína en ástæður þess eru m.a. eftirfarandi.

Nína númer eitt er auðvitað persónan úr hinum mjög svo skemmtilega dægurlagatexta sem Jón heitinn Sigurðsson bankamaður þýddi af stakri snilld, en þar spilar mannvesalingurinn hann Geiri einnig stóra rullu. Lag og ljóð sem lifað hefur með þjóðinni í hartnær þrjá áratugi. En þetta lag hefur stundum átt það til að límast við heilasellurnar í mér tímabundið, ég hef á verið meira eða minna á valdi þess, sönglað það og trallað í tíma og ótíma og lítið sem ekkert fengið að gert. Nú finn ég að það hefur sest að til frambúðar þó með nokkuð öðrum hætti sé. Ég finn fyrir því vegna þess að það tekur sitt rými og hefur nú skotið rótum inni í höfðinu á mér rétt fyrir framan litla heilann. Ég skynja nálægðina við það og boðskap þess alla daga, allt frá því að ég vakna að morgni og þar til ég svíf inn í það sem ætti að vera meðvitundarleysi næturinnar. Og þegar nóttin kemur þá vitjar það mín í draumi.
Það er ekkert annað.

Nína númer tvö er svo önnur persóna sem hefur lagt mig í einelti að undanförnu. Hún virðist hafa bitið það í sig að það sé hennar köllun að gera mér lífið leitt. Sú Nína þykir mér mun síðri að öllu upplagi, en hún er gjaldkeri í húsfélagi þar sem ég á íbúðarrými og hef verið að vinna að endurbótum á undanfarið. Til allrar ólukku var brotist inn í húsið á dögunum og leið innbrotsþjófanna lá í gegn um minn hluta húseignarinnar.
Morguninn eftir hringdi Nína í mig og upphafsorð samtalsins voru eitthvað á þessa leið: "Nú þarftu sko að fara að gera eitthvað í þínum málum karlinn minn."
Ég var enn hálfsofandi og hváði.
"Þú berð sko alla ábyrgð á þessu" bætti hún við.
"Það var brotist inn og þetta þjófalið komst inn um glugga í þínu plássi og þú berð ábyrgð á því að þetta hafi getað gerst."
Ég komst smátt og smátt til meðvitundar meðan Nína talaði í bæði niður til mín og skammaði mig í leiðinni eins og hund sem hefur pissað í skó húsbónda síns. Ég spurði hana hvort innbrotsþjófurinn væri ekki sá seki í málinu en hún gaf ekki mikið fyrir slíkan málflutning.
Þetta var mér að kenna þó svo að ég hafi verið víðs fjarri og misst af öllu fjörinu. Það skal viðurkennt að það er vissulega bæði gardínulaust og engin blóm í gluggum og það fer því ekkert á milli mála að þarna býr ekki nokkur maður. Ég bauð þess vegna öllum þeim sem viðsjárverðir geta talist og bera enga virðingu fyrir eignarétti annarra til veislu á kostnað annarra íbúa. Ég hélt í fyrstu að verulegar skemmdir hefðu verið unnar, miklu stolið eða jafnvel einhver orðið fyrir slysi. En þegar ég kom á staðinn skömmu síðar kom í ljós að þarna hafði ógæfufólk sennilega aðallega verið að leita sér að húsaskjóli eftir svall og neyslu næturinnar, en reynt að hafa með sér frosin matvæli úr frystikistu eins íbúans en verið truflað og stökkt á flótta.
Ég veit satt að segja ekki hvort Nína hin síð(a)ri trampar hreinlega ekki í vitinu eða þyrfti að fara í einhvers konar hugarfarslega og sálarlega niðurtröppun og afeitrun, en ég vona nú samt að henni batni.
Ef til vill ætti hún að fá nokkur heillaráð frá lífsstílshönnuði sínum en kannski þarf hún bara að borða meira af trefjum.
Mér finnst hins vegar Nína mjög fallegt nafn og lít því að nokkru leiti á nafngift engilmyndarinnar hér að ofan sem eins konar mótvægisaðgerð gegn þessari hundfúlu uppákomu.

Nína númer þrjú heitir reyndar Jónína og seldi mér áðurnefnda fasteign í umboði bróður síns sem flutti af landi brott í miklum flýti. Ég komst að því eftir á að ekki hefur verið hirt um að greiða húsfélagsgjöldin síðustu mánuðina fyrir sölu, og þar sem slíkt telst vera lögveð á eigninni kemur líklega í minn hlut að leysa úr þeim vanda. Jó-Nína hefur síðan ég minntist á þetta vandamál í fyrstu, ekki viljað svara gemsanum sínum þegar ég hef hringt í hana því hún veit alveg hvað ég ætla að segja. En málið er ekki mikið að umfangi svo vandinn telst ekki stór. Það síðasta sem ég heyrði svo af henni var að hún væri týnd og ákaft leitað af alls konar fólki. En hvað sumir eru gjarnir að lenda í ævintýrum meðan hreinlega ekkert gerist hjá öðrum. Sendi Nínu hinni þriðju mínar bestu óskir bæði um fjör og farsæld hvar sem hún er niðurkomin.

03.04.2008 09:29

Áfangaskipt vandræðaástand.

462. Mér hafa verið flestar bloggbjargir bannaðar síðustu daga. Lokað hefur verið inn á stjórnsvæði 123.is svæðið vegna uppfærslu kerfisins, eða alla vega hef ég ekki komist þangað. Ýmist hefur meldingin "SERVER ERROR" poppað upp á skjáinn með stórum rauðum stöfum sem stinga í augu, eða síðan komið upp seint og um síðir og þá er útlit hennar oftar en ekki mjög framandi. Mikið stafa, lita og myndarugl og fátt er á sínum rétta stað. Mig var sterklega farið að gruna að einhver maðkur hafi komist í mysuna, eða þá að ormur tekið sér bólfestu og gert sér hreiður á harða disknum. Svo gufaði líka "kommentið" hans Gumðmundar Óla á jeppafærslunni alveg upp og ekkert til þess spurst síðan. Ég hef skoðað mig um í bloggheimum og sá að sumar síðurnar hjá 123.is virðast vera í góðu lagi en aðrar ekki. Og nú þegar Þetta fúla ástand hafði varað í allt of marga daga að mínu mati, fór ég inn á 123.is og prófaði að stofna nýja síðu en þá birtust mér skilaboðin "Óvirkt um tímasakir." Ég las orðin þrjú aftur en nú mun hægar en áður og ég hrukkaði ennið og velti fyrir mér merkingu þeirra. Niðurstaðan var sú að líklega hafa forsvarsmenn 123.is bunað þessu út úr sér í stresskasti, ætlað að rita "Óvirkt um stundarsakir", en eiginlega vafist tunga um höfuð eins og maður nokkur sagði eitt sinn. Og ég sem er nýlega kominn út páskaferð til Sigló með fullt af myndum og er alveg heilmikið niðri fyrir.

- - -

En loksins, loksins er þessi færsla orðin sýnileg, það er farið að rofa til og vonandi fer þessu vandræðaástandi senn að linna. En það er samt greinilega ekki alveg yfirstaðið því mér hefur enn ekki  tekist að setja inn myndir. Nú er því fátt annað hægt að gera en að bíða og vonast eftir að sá þátturinn leysist líka, því a.m.k. í mínu tilfelli er er vægi hans hreint ekki svo lítið.

En í stað þess að gerast daufgerður vegna ástandsins og sökkva sér niður í depurð lita og myndalausrar bloggtilveru, kíki ég gjarnan á slóðina hér að neðan og hækka í leiðinni svolítið í hátölurunum. Það bætir sálarlífið, gerir daginn yfirstíganlegrii, hefur jákvæð áhrif á bjartsýnisstuðulinn, vandamál eiga það hreinlega til að hverfa og ég mæli þess vegna með því að aðrir gjöri slíkt hið sama.
Smelltu á
http://www.hugi.is/hahradi/bigboxes.php?box_id=51208&f_id=1323


  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 292
Gestir í dag: 68
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495669
Samtals gestir: 54686
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 13:59:18
clockhere

Tenglar

Eldra efni