05.04.2010 23:41

Páskar og fleira skemmtilegt



624. "Hoppandi meirihlutar á Alþingi duga skammt við aðstæður eins og okkar þjóð er í nú og of mikil orka og tími fer í að smala þeim saman og ná málum í gegn. Ein flokkssystir okkar orðaði þetta ágætlega þegar hún sagði að þetta væri "eins og að smala köttum".

Þetta voru orð Jóhönnu á flokkráðsfundi Samfylkingarinnar á dögunum. Einhverjir lásu það út úr boðskap hennar að með þeim mætti líkja Samfylkingunni við húsbændurnar sem legðu línurnar, en órólegu deildinni í VG við lítt meðfærileg og óþekk húsdýr.

Mér persónulega finnst þetta vera lúmst snilld og skondin samlíking í senn, sem gerir "órólegu VG köttunum "erfitt með að svara fyrir sig eins og þeir e.t.v. vildu. Ef þeir fyrtast við má halda því fram með nokkrum rétti að þeir geti ekki tekið gríninu, en annað mál að sé það skoðað af svolítilli dýpt er í sjálfu sér ekkert grin endilega þarna á ferðinni. - En samt.

Á slóðinni hér að neðan má sjá hvernig kattarsmölun fer fram er rétt er að taka það fram að hvergi sést til Jóhönnu, þrátt fyrir að eðlilegast væri að hún færi þar fremst í flokki smalanna.

Kíktu á http://www.youtube.com/watch?v=m_MaJDK3VNE

                                   

Þegar ég sá þessa mynd á siglo.is tók það mig svolitla stund að átta mig á að þetta væri í raun ég. Ef mig misminnir ekki, þá hefur Róbert Guðfinnsson að öllum líkindum tekið hana á árabilinu 1972-3. Hann hefur svo að öllum líkindum fundið hana í pússi sínu nýverið, skellt henni á síðuna og skemmt sér síðan stórkostlega yfir lúkkinu sem er vægast sagt fortíðarlegt.

Nema það hafi verið Steingrímur.

Það er mikið búið að brosa að henni á mínu heimili og auðvitað fittar hún alveg þrælvel inn í mottumarsþemað.




Það hlýtur að teljast nokkuð óyggjandi að Hollie Steel er upprennandi barnastjarna svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Líklega eru flestir sæmilega virkir netverjar bæði búnir að sjá hana og heyra, því ekki hefur farið svo lítið fyrir umfjölluninni um hana á þeim vettvangi. En hafi einhverjir ennþá hvorki heyrt né séð, þá endilega bætið úr því núna. Myndband frá því þegar hún sló í gegn á Britains got talent 2009 þá aðeins 10 ára, er að finna á slóðinni
http://www.youtube.com/watch?v=RY-BY4YNs0o og það er alveg óhætt er að hækka aðeins í hátölurunum meðan þetta ótrúlega nýstirni lætur ljós sitt skína.

 

En frægðin er sjaldnast tekin út með sældinni því vægast sagt ógeðfelldum skilaboðum hefur rignt yfir hana í gegnum Facebooksíðu hennar og móðurinni er síður en svo skemmt. Hún segist ekki leyfa dóttur sinni að vafra um netið án eftirlits, enda sé það eins gott miðað við hvað þaðan berst.

Ótrúlegasta fólk hafi líka bankað upp á heima hjá þeim til að biðja um að fá að leika við dóttur þeirra.

Hollie gefur út sína fyrstu breiðskífu í maí næstkomandi.



Það er svolítið öfugsnúið að vera á Sigló síðustu vikuna í marsmánuði, en þurfa svo að taka sig upp og yfirgefa bæinn þegar páskarnir ganga í garð og missa því af öllum skemmtilegaheitunum sem þeim fylgja. Ástæðan er sú eins og svo oft áður, að til stóð að spila á Catalinu fyrir gesti sem vildu fá sér snúning (með meiru) á þeim ágæta stað um páskana. En að þeim liðnum er svo stefnan sett aftur á gamla síldarbæinn, en þá eru auðvitað flestir farnir þaðan sem sóttu bæinn heim um hátíðarnar. Það er nefnilega ekkert minna skemmtilegt að hitta burtflutta sveitunga á förnum vegi, en að sækja a.m.k. sumar uppákomur og þá afþreyingu sem boðið er upp á, án þess að ég vilji gera lítið úr þeim nema síður sé.
Ég náði þó að stuðla að komu nokkurra skíðamanna og kvenna þetta árið sem féllu auðvitað fyrir Skarðdalnum og er auðvitað hinn kátasti með það. 

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 481
Gestir í dag: 35
Flettingar í gær: 2014
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 485159
Samtals gestir: 53495
Tölur uppfærðar: 10.12.2024 16:27:05
clockhere

Tenglar

Eldra efni