15.11.2013 23:44
Strætó í ljósum logum
896. Í gær mátti lesa eftirfarandi smáfrétt í visir.is: "Eldur kom upp í strætisvagni á leið 28 við Aðalþing í Kópavogi um klukkan 11.40 í morgun. Vagnstjóra sakaði ekki og komst hann heill á húfi út úr vagninum. Enginn farþegi var um borð í bílnum. Eldsupptök eru ókunn og hefur slökkviliðið náð að ráða niðurlögum eldsins. Að sögn Kolbeins Óttarssonar Proppé, upplýsingafulltrúa Strætó bs., er vagninn gjörónýtur". Fréttin var nánast samhljóða á vefútgáfu Mbl.
Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/11/14/kviknadi_i_straeto/
Á dv.is var fréttin einnig með
líku sniði, en við hana voru nokkrar verulega "fræðandi" og athyglisverð comment.
Og þeir sem þau rituðu kunnu allar skýringar á því hver orsökin var og höfðu ótrúlega
margt um málið að segja, án þess þó að nokkur ritaranna hafi verið á staðnum eða viti neitt um aðstæður eða aðdraganda. Það
var eiginlega ekki annað hægt en að glotta eilítið út í annað yfir öllum þessum
"sérfræðiálitum" og öllu bullinu í þeim.
Ótrúlega skammur tími leið frá því að eldurinn gaus upp aftarlega í vagninum, þar til ekki var mögulegt að sjá handa sinna skil fremst við inngöngudyrnar. Sá tími mældist í sekúndum miklu frekar en mínútum og bíllinn var einnig orðinn nánast alelda á svipuðum tíma.
Bílstjóri á rútu frá Teiti Jónassyni sem kom aðvífandi, svo og starfskona úr eldhúsi leikskólans við Aðalþing eiga mikið þakklæti skilið fyrir veitta aðstoð, en þetta er nokkuð sem maður vill komast hjá að þurfa að upplifa aftur þó svo að eldsvoðinn teljist ekki með þeim stærstu og enginn hafi verið í umtalsverðri hættu.