Blogghistorik: 2008 Länk

22.05.2008 05:40

Um íslensku SAUÐBÚFJÁRKINDINA.

476. Er ekki kominn tími til að við Íslendingar sem stöndum framar öllum öðrum þjóðum í hverju því sem við tökum okkur fyrir hendur, þróum og nútímavæðum þær afurðir og þá framleiðslu vora sem virðist allavega endrum og sinnum standa höllum fæti í grjóthörðu samkeppnisumhverfi dagsins í dag. Við höfum upplifað þá tíma að lambakjötið okkar með hinu óborganlega fjallalofts og náttúrubragði hefur ekki alltaf verið að seljast sem skyldi. Birgðir hlóðust upp um tíma og voru þær kallaðar kjötfjallið ef ég man rétt. Þá voru tvö fjöll mest, hæst og stærst í landslagi hins Íslenska bændasamfélags, þ.e. umrætt kjötfjall svo og smjörfjallið ógurlega. Nú eru bæði þessi fjöll uppétin m.a. af okkur Frónbúum, Færeyingum og öðru svöngu fólki sem hefur átt fyrir mat sínum. En það sem einu sinni hefur gerst, hlýtur að geta gerst aftur og vísa ég hér með til afbrigðis af lögmáli Murphy´s uppfært á Íslenskt samfélag.

Fyrir nokkrum árum átti sér stað merk tilraun í Japan sem ég mæli með að við lítum til. Þar voru kjúklingar fóðraðir á úrgangi og því sem af gekk úr verksmiðju sem framleiddi karrý. Hugmyndin var sú að framleiða kjúklingakjöt með karrýkeim, því eins og margoft hefur verið sagt: "Þú ert það sem þú étur." Ekki fara þó miklar sögur af árangri þeirra Japana, enda þykir þjóð mun hagkvæmara að stela hugmyndum annarra frekar en að uppdikta sínar eigin. Það sparar líka heilmikið sem lýtur að þróunarvinnu og tilraunastarfsemi svo líklega hafa þeir gefist upp á karrýkjúklingunum. En við Íslendingar erum ekki vanir að gefast upp og það jafnvel þó blási hressilega á móti. Margar af hinum vannýttu auðlindum okkar mætti með svolítilli hugkvæmni breyta í dýrmætan gjaldeyri s.s. evrur, svissneska franka og yen. (Mæli ekki með dollurum um þessar mundir.) Fjallagrösin sem reyndust þjóðinni svo vel þegar hún var horuð og vansæl, langt undir kjörþyngd og hafði danskan kóng, bíða þess að verða nýtt aftur. Söl og ýmis fjörusækinn þaragróður kemur svo auðvitað sterkt inn í myndina og jafnvel Skógarkerfilinn með sínu náttúrulega semi-lakkrísbragði og við þurfum hvort sem er að grisja hressilega í görðum landsmanna. Allt þetta og eflaust miklu fleira mætti hugsanlega nýta til að framleiða lambakjöt með hinum ýmsu bragðtegundum og hver veit nema þetta gæti orðið okkar næsta stóriðja.

Ullariðnaðurinn hefur sem kunnugt er átt undir högg að sækja en það hljóta að vera til einhver ráð við því. Íslenskt sauðfé hefur hingað til verið ræktað þannig að hinir ýmsu kostir þess hafa með tímanum komið enn betur fram en áður var. Getur ekki verið að það sé einnig hægt að rækta í það t.d. fleiri liti en það sem við þekkjum í dag sem íslensku sauðalitina? - Ég bara spyr?

14.05.2008 17:46

Siglfirðingaball.

Nokkrum sýnishornum af ballinu bætt við þann 20.maí.



475. Ekki þykir mér annað við hæfi en að bæta við nokkrum völdum sýnishornum af ballinu. Sum eru kannski enn meira sérvalin en önnur, en vonandi sleppur þetta allt svona móralslega fyrir horn. Myndirnar tala sínu máli og þurfa því lítilla skýringa við.











































Ekki voru allir bornir og barnfæddir Siglfirðingar sem þarna voru. Hér er tenginginn maður sem er ættaður frá Sigló, honum fylgir svo kona úr Reykjavík, þá vinkona hennar úr Breiðholtinu og síðan vinur hennar sem er Portúgali. Þá er vissulega farið að teygjast svolítið á þessu.



Þessi tvö fylgdust af miklum áhuga með því sem fram fór, en eru að öllum líkindum ekki að norðan. Alla vega man ég ekki eftir þeim þaðan.

En miklu fleiri myndir af ballilnu er að finna í myndaalbúmi í möppu merkt Catalina.

Eftirfarandi var svo skrifað þann 14. maí.



Það hefur oft komið til tals
meðal nokkurs hóps Siglfirðinga sem búa sunnan heiða og hafa staðið fyrir hljómsveitarútgerð og dansleikjahaldi á ýmsum tímum, að koma saman annað hvort fyrir norðan eða sunnan og taka nokkur lög sér og öðrum sveitungum til skemmtunar. Oftar en ekki hefur viðkvæðið verið: "Jæja, nú förum við að gera eitthvað í málinu," en síðan líða ár og dagar og frasinn er svo endurtekinn næst þegar menn hittast. En að þessu sinni myndaðist einhver pressa á framkvæmdina, yfirlýsing var gefin út og dagsetningin ákveðin. Þannig var búið um hnútana að tæplega var hægt að hætta við, fresta málinu eða bakka út úr því nema vera heldur minni maður á eftir. Samkoman er hugsuð með svipuðu sniði og var norður á Sigló í Allanum um páskana fyrir fáeinum árum þegar Svavar rak þann ágæta stað. Stefnan hefur verið sett á skemmtistaðinn Catalinu við Hamraborg í Kópavogi næstkomandi laugardag eða þ. 17. maí.

Dansleikur hefst laust fyrir miðnætti, en eftir svolitla upphitun stíga á svið Siglfirðingarnir Selma Hauksdóttir, Magnús Guðbrandsson, Leó Ingi Leósson, og Kristbjörn Bjarnason.



Maggi Guðbrands...



Leó Ingi...



Kristbjörn Bjarna, og Eyþór að greinilega að syngja millirödd af mikilli innlifun...



Selma Hauks...



Dúóið Vanir Menn leikur síðan fyrir dansi. Það er frítt inn og eru Siglfirðingar á suðvesturhorninu hvattir til að nota tækifærið, hittast og skemmta sér saman.



Steingrímur Stefnisson og Sigríður Samsonardóttir eiga og reka staðinn, en fyrir þá sem ekki vita er Steingrímur sonur Stefnis Guðlaugssonar sem bjó á Eyrargötu 22 á Siglufirði fyrir allmörgum árum.



Samkvæmt síður en svo óbrigðulu minni mínu var það annað hvort árið 2002 eða 2003 sem stormað var norður um páskana og slegið upp balli í Allanum hjá Svavari. Dúóið Vanir Menn sem þá var skipað þeim sem þetta ritar auk gítarleikaranum Eþóri Stefánssyni, fékk mikinn og góðan liðsauka. Hér að ofan er það Selma Hauks sem þenur raddböndin.



Gummi Ingólfs söng líka um rauðu sokka rabbarbarans.



Kristbjörn (Stubbi) Bjarnason í hreint ótrúlegum stórsöngvarastellingum.



Biggi Ölmu söng Creadence Clearwater eins og honum er einum lagið.



Rabbi Erlends söng bæði einn og svo dúetta með Selmu.
(Myndin er reyndar fengin að láni hjá Steingrími.)



Ég var hins vegar vel geymdur á bak við hljómborðsgrindina.

Skrallið var svo endurtekið árið eftir, en þá átti Rabbi því miður ekki heimangengt. Í staðinn mætti Gauti Sveins með svört sólgleraugu og söng m.a. um Jamison við mikinn fögnuð ungra meyja sem þyrptust að sviðinu, föðmuðu fætur hans í endalausri hrifningu og höfðu hátt. En mér hefur því miður ekki tekist að grafa um neinar myndir frá þeim atburði. - Slíkar væru hins vegar vel þegnar.



Það var svo í október 2004 að 1978 útgáfan af Miðaldamönnum kom saman alveg eins skipuð og 26 árum áður. Þá eins og þarna var hún mönnuð talið frá vinstri: Leó, Gummi Ragnars, Selma Hauks, Biggi Inga og Maggi Guðbrands.

11.05.2008 03:50

Saga af vini mínum. - Hártogun.



474. Einn vinur minn
á langan og viðburðarríkan tónlistarferil að baki og er reyndar enn að. Hann sagði mér á dögunum frá einu af fjölmörgum skondnum atvikum sem hann hefur upplifað á hljómsveitarpallinum, en hafði engin orð um að þau mættu ekki fara lengra. Og áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að það komi fram að á þeim tíma sem uppákoman átti sér stað, var hann með allt að því óeðlilega mikið sítt ljóst og liðað hár sem hann hirti líka með eindæmum vel. Hann var að spila á sveitaballi austur í Rangárvallasýslu fyrir allmörgum árum með þáverandi félögum sínum og nokkuð var farið að líða á kvöldið. Það var alveg rífandi stemming en óvenju mikið um ölvun. Rétt hjá sviðinu sátu nokkrir ærslabelgir og höfðu hátt. Þeir supu drjúgt á, stungu saman nefjum, ráku upp miklar hlátursrokur og bentu stundum í átt að hljómsveitinni. Enn líður nokkur tími og færast þeir allir í aukana í réttu hlutfalli við magn þess sem þeir innbyrða af eldvatninu sem nóg virtist vera til af. Vinur minn sér þá hvar einn þeirra stendur upp en hinir virðast hvetja hann óspart til dáða. Sá sem upp stóð gengur að pallinum og allur hans svipur ber vott um að hann eigi þangað brýnt erindi. Hann bíður hinn spakasti eftir að lagið klárist en að því loknu gefur hann umræddum vini mínum merki um að hann vilji eiga við hann orð. Sá lýtur þá niður að gestinum og á helst von á að hann hafi einhverjar hugmyndir um óskalag, kveðju fram í sal eða skilaboð af einhverju tagi. En þá bregður svo við að gesturinn rífur af afli í hár hans með báðum höndum og togar fast í. Vinur minn æpir upp skelfingu lostinn eins og stunginn grís og er alveg frávita af sársauka, því hann er og hefur alltaf verið með afbrigðum hársár. Við þessi viðbrögð verður gesturinn engu minna skelfdari og sleppir takinu hið snarasta. Hann stendur grafkyrr svolitla stund og starir uppglenntum augum á hár vinar míns sem er þó enn á sínum stað en komið í hina mestu óreiðu, en tekur síðan á rás fram salinn í átt til dyra. Félagar hans sem sitja við borðið voru búnir að setja sig í einhverjar sérstakar stellingar og virtust vera albúnir að fagna einhverju sem ekki varð, urðu allt í einu lítið annað en augun og skórnir. Eitthvað hafði gerst sem ekki átti að gerast, eða þá að eitthvað hafði ekki gerst sem átti að gerast. Fljótlega eftir atburðinn tíndust þeir einn af öðrum svolítið skömmustulegir úr sætum sínum og fundu sér annað borð eins langt frá hljómsveitinni og mögulegt var. Ekki urðu nein eftirmál af verknaðinum, hljómsveitin hélt áfram að spila eins og lítið sem ekkert hefði gerst og gestirnir héldu áfram að skemmta sér hið besta.

En skýringin á þessu undarlega athæfi barst spilurunum til eyrna síðar um nóttina, um það leyti sem flestallir voru farnir annað hvort í næsta partý eða til síns heima, hljóðfærunum hafði verið pakkað saman og voru á leið út í bíl. Húsvörðurinn gekk glottuleitur til strákanna og sagði þeim söguna, en þeim fannst hún með ólíkindum fyndin svona eftir á og hlógu þeir mikið undir frásögninni, allir nema einn þeirra sem varð eitthvað svo undarlega rjóður í kinnum. Hann sagði fátt og sá alls ekkert fyndið við söguna, en það voru vissulega ástæður sem lágu að baki hinu skerta skopskyni hans hvað þetta einstaka mál varðaði. Hann strauk sér varlega um hárið og klappaði létt ofan á kollinn á sjálfum sér um leið, líklega alveg ómeðvitað rétt eins og hann væri kominn með einhvern alveg splunkunýjan kæk.

Þannig var að það hafði spurst út að alveg áreiðanlegar heimildir væru fyrir því að einhver hljómsveitarmeðlimanna væri með hárkollu. Og það var einmitt það sem strákarnir við áðurnefnt borð voru að gaspra um og reyna í leiðinni að reikna út hver væri nú líklegastur til að vera kolluberinn. Eftir miklar umræður og skoðanaskipti komust þeir að þeirri niðurstöðu að vinur minn með sitt óeðlilega mikla, síða, ljósa og liðaða hár, hlyti að vera rétti maðurinn. Og nú skyldi gera svolítið sprell, rífa upp móralinn og hleypa svolítið meira fjöri í skrallið. Einn var því gerður út af örkinni eða kannski öllu heldur út af borðinu. Átti hann að fara upp að hljómsveitarpallinum, ná meintri hárkollu af höfði vinar míns, hlaupa með hana út í sal og skilja hann eftir á sviðinu með beran skallann fyrir allra augum. Hinir biðu svo alveg yfir sig spenntir eftir að sjá hver viðbrögðin yrðu.

En þau urðu bara ekki í samræmi við væntingar af nokkurn vegin alveg augljósum ástæðum...

09.05.2008 16:02

Vegurinn að heiman er vegurinn heim.



473. Enn og aftur var ég á leiðinni norður á Sigló. Það var strekkingsvindur hér syðra þegar lagt var upp og bíllinn sem ég ók fram hjá á Kjalarnesinu hafði sennilega fokið út af veginum og því var eins og áminning um að fara varlega. Að vísu var ekki mikil hætta á að ég færi of greitt á Micrunni með 1.275 lítra vélinni, en samt...

Utan á bílnum sem var kyrfilega skorðaður af ofan í skurðinum stóð; "ALLT FYRIR GÓÐAN SVEFN OG BETRI HEILSU." Ætli ökumaðurinn hafi kannski dottað undir stýri en fyrir einskæra heppni sloppið við heilsutjón?



Á Almenningunum vestan við Siglufjörð var greinilega nýlega búið að bera ofani í misgengi á veginum. Þetta sem hér sést er þó með allra minnsta móti, en stundum er eins og vegurinn hafi verið klipptur í sundur og hlutarnir standast þá engan vegin á. Hlutar hlíðarinnar í fjallinu síga smátt og smátt neðar og neðar og vegurinn auðvitað með. Fram hefur komið sú kenning að undir jarðveginum sé klöpp og eftir henni seytli vatn sem flytji vatnssósa jarðveginn með sér til sjávar. Stórfellt úrfelli gæti við vissar aðstæður orsakað aurskriðuhlaup úr fjallinu sem myndi þá breyta landslaginu  í einni svipan og hreinsa m.a. veginn í burtu og jafnvel fram í sjó. - Eins gott að vera ekki á ferðinni þann daginn.



Enn og aftur verða leifarnar af bryggjunni út af Hafliðaplaninu myndefni sem dregur að sér athygli mína. Þær eru eins og minnisvarði um liðna tíð þegar allt var í blóma og smjör draup af hverju strái, eða kannski er réttara að segja síld var í hverju bjóði. Ég fæ alltaf svolítið nostalgíukast þegar svona ber fyrir augu.


(Úr ljósmyndasafni Steingríms.)

Sú var tíðin að í "gullgrafarabænum" var meira að gerast á þessum slóðum en .þeir sem ekki þekkja munu nokkru sinni getað ímyndað sér.


(Úr ljósmyndasafni Steingríms.)

Þessi mynd er væntanlega tekin um eða upp úr 1973 því á henni er verið að byggja frystigeymsluna við væntanlegt frystihús Þormóðs Ramma, en Rauðkuverkstæðið þar sem Halli Þór réð ríkjum stendur enn. Hafliðaplanið er greinilega farið að láta verulega á sjá og virðist miðja þess vera fallin að mestu. Enn stendur hluti Rauðkuverksmiðjunnar vestan við Slippinn, en mestur hluti hennar var rifinn árið 1972. Þá stendur enn hús Haraldar Böðvarssonar & co á svipuðum slóðum og Fiskmarkaðurinn er núna, en á þessum vestasta hluta Hafnarbryggjunnar rak það fyrirtæki söltunarstöð. (Leiðrétting óskast ef ég er að villast í sögunni.)



Slippurinn hefur fengið nýtt og annað hlutverk fyrir löngu, löngu síðan og sleðinn hefur líklega ekki runnið mikið til sjávar undanfarinn ár. Karlarnir eru fyrir löngu hættir að kalfatta, teinarnir komnir á kaf í möl og þannig hefur það eflaust verið um langa hríð. Ég man samt að verulegar endurbætur voru gerðar á Dráttarbrautinni sumarið 1976, bæði ofan sjávar og neðan. Ég var nefnilega tíður gestur á staðnum, bæði til að fylgjast með framkvæmdunum og svo þurfti ég líka stundum að hitta á Bjössa Birgis sem vann við verkið en við spiluðum saman hluta af því sumri.



Annar minnisvarði um fortíðina er búinn að hvíla sig lengi á búkkunum við hliðina á sleðanum. Hvað skyldi þessi fleyta eiga eftir að vera þarna lengi og með hvaða hætli ætli hún hverfi á braut þegar hennar tími kemur?


(Ér ljósmyndasafni Steingríms.)

Þarna stendur Gránuverksmiðjan því sem næst á sama stað og frystiklefinn er núna. Sunnan við Gránu eru tankarnir sem Dagný dró fram af Hafnarbryggjunni og var síðan fleytt eitthvað langt í burtu. Norðan við (lengst til hægri á myntinni) Slippinn má svo sjá í Hafliðaplanið sem á þessum tíma hefur líklega verið í ágætri hirðu.



Hér tengjast svo nútíð og fortíð. Hinn eldrauði og endurgerði Roaldsbrakki er að mínu viti hið eiginlega Síldarminjasafn, en nær er svo Síldarbræðslan og þá Báthúsið. Nýju húsin sem byggð voru utan um söguna munu vonandi varðveita hana meðan byggð helst á þessum slóðum.



Þegar ég ók upp Gránugötuna tók ég eftir þessum stórskemmtilega "skúlptúr" og velti fyrir mér hvaða dýpri merkingu hann gæti haft.

En nú var kominn tími til að halda suður á bóginn.



Það var staldrað svolitla stund við Höfðavatn sem virtist vera í þann veginn að losna undan vetrarísnum, en svokallaðir "hungurdiskar" flutu um vatnið þó þeir sjáist ekki mikið á myndinni. En einhvern tíma skal ég klifra upp í fjöllin þarna fyrir ofan og ná betri mynd af Málmey.




Upp kom sú hugmynd að fara svolítinn aukakrók og aka í gegn um Hofsós, en það er orðið fátítt hin síðari ár. Og auðvitað varð Drangey sem er eitt af aðalkennileitum Skagafjarðar eins og alþjóð veit að fá að vera með á myndinni.



Það tekur sig vel út Vesturfarasafnið á Hofsósi þegar horft er yfir það af brekkubrúninni fyrir ofan. Það er eftir því sem ég hef fregnað annað mest sótta safn utan höfuðborgarsvæðisins á eftir Síldarminjasafninu. Þar inni var ekkert lífsmark svo ekki reyndist þetta vera dagurinn til að skoða það.



Í þessu húsi eru bersýnilega tvær íbúðir og sýnilega bendir fátt til þess að íbúar hússins hafi sömu skoðanir á því hvernig hlutirnir eiga að vera.



Nú orðið liggur leiðin milli höfuðborgarsvæðisins og Siglufjarðar oftar en ekki um Þverárfjall í stað Vatnsskarðs og er því enn styttra út á Skagaströnd en áður. Það var lögð önnur lykkja á leiðina og staldrað ögn við í þorpi kúreka norðursins.



Meðan rölt var í fjörunni fyrir sunnan þorpið sigldi þessi litla skekta hjá svo til alveg upp í harða landi eins og sjá má.



Sennilega hefur þetta hótel orðið undir í samkeppninni um gesti.



Sá sem er vanur að leggja í stæðið þarna undir húsveggnum ætti kannski að láta kíkja á bremsurnar á bílnum sínum. Dældin inn í húsvegginn er eiginlega mun meiri en myndin sýnir.



Þessi Tótemsúla stóð úti í garði við eitt húsið. Ætli það séu eitthvað af Indíánum á Skagaströnd?



Út við ysta sæ, blómstrar staður einn,
komdu í Kántrýbæ, komdu og líttu inn,
sæll þar sí og æ, sértu hýr á kinn,
komdu í Kántrýbæ, komdu vinur minn.

Já komdu í Kántrýbæ,
já komdu vinur minn,
komdu og líttu inn,
því þú ert velkominn.

Þegar Skagaströnd var kvödd varð auðvitað að skjóta einu lausu skoti eða svo í átt að Kántrýbæ þar sem nú er allt harðlæst og lokað.

En svo var haldið suður bóginn.

07.05.2008 05:26

Málningarvinna.



472. Meðan Magga dvaldi norður á Sigló, nærðist á skyri og vaskaði upp teskeiðar, fékk ég þá flugu í höfuðið að mála baðherbergið hér syðra sem var alveg komið á tíma. Hér í eina tíð var eiginlega komin hefð á að þegar hún fór í sitt svo til árlega "húsmæðraorlof," var eitt herbergi tekið fyrir á meðan og það málað hátt og lágt. Þessari hefð hefur verið ágætlega við haldið þau ár sem að baki eru, og ekki stóð til að breyta neinu í reglugerðarverkinu að þessu sinni. En þar sem herbergi, aðgreind rými, vistarverur eða hvað við viljum kalla það eru alls átta í íbúðinni að öllu meðtöldu, ætti hún því að vera máluð frá a til ö á u.þ.b. átta ára fresti samkvæmt þessari aðferð. Það hefur nokkurn veginn alveg gengið eftir.



Það hefur komið í minn hlut og fylgt framkvæmdinni að velja og bera alla ábyrgð á litavalinu, en að þessu sinni verður að viðurkennast að á þeim þætti  málsins var tekið með nokkurri léttúð. Það var nefnilega hafist handa á fimmtudegi (1.maí og uppstigningadegi í ofanálag) þegar alls staðar var lokað þar sem málningu var að hafa. Ég lagði því leið mína í geymsluna þar sem marga og misgamla afganga var að finna frá liðnum árum í þeirri von að eitthvað hentaði í umrætt verkefni. En þar sem eiginlega ekkert var til af heppilegum litum í nægjanlegu magni, var brugðið á það ráð að fara þá leið sem er vel við hæfi á krepputímum.

Ég hafði í flestum tilfellum merkt lokin með hinum ýmsu nöfnum og rifjuðust upp nokkur gömul handtök og uppákomur við lesturinn. "Baldursgata stofa," "Báru-bleikt," "Bláa herb. við Njálsg.," "Hvst-veggir (Hvst stendur fyrir Hallveigarstíg)" "Stofurautt," "Símahvítt," o.s.frv. Þess má geta að "Síma-hvítt" er ekki beint nafnið á litnum, heldur kom það til vegna þess að ég missti gemsann úr brjóstvasanum ofan í 10 lítra málningarfötu þegar ég laut yfir hana. Ég kafaði strax eftir símanum og þreif hann í skyndi með öllum tiltækum og að talið var skynsamlegum ráðum, en það er annars af honum að segja að hann er enn í fullri notkun og þjónar herra sínum og eiganda með stakri prýði. 



Ég byrjaði á loftinu og tíndi til alla þá málningu sem var frá "Kópal," helti henni saman og úr varð liturinn sem fór á loftið. Því næst hrærði ég saman þá afgangana sem eftir stóðu, en sleppti að vísu tveimur að eðlilegri ástæðu að mér fannst. Annar var hárauður, en hinn var dökkgrænn. Eftir heilmikla hrærivinnu með grautarsleif var kominn liturinn sem nota skyldi á veggina og þar sem pensill og rúlla var orðin vel þurr og þrifaleg eftir þvott og hreinsun frá fyrri áfanga var auðvitað ekki eftir neinu að bíða.

Og að lokum þegar litið er yfir verkið verð ég að segja: Alveg ótrúlegt hvað litasamsetningin heppnaðist (að mínu mati) með eindæmum vel miðað við blöndunaraðferðina og ekki varð úr einhver "ólitur."
HEPPINN...



VIÐBÓT: Mynd samkvæmt áskorun (mín millilínalesning) og eindreginni ósk frá Gunnari Th. sem sýnir umrædda litasamsetningu.
  • 1

Namn:

Leó R. Ólason

Plats:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Antal sidvisningar idag: 818
Antal unika besökare idag: 141
Antal sidvisningar igår: 1391
Antal unika besökare igår: 279
Totalt antal sidvisningar: 496195
Antal unika besökare totalt: 54759
Uppdaterat antal: 26.12.2024 21:06:26
clockhere

Länkar