Blogghistorik: 2009 Mer >>

30.06.2009 08:59

Norðurferð í júní - þriðji hluti



575. Frá Flugumýri lá leiðin aftur á Siglufjörð og upp á háaloft í smíðavinnu næstu dagana. Það miðaði vel þessa daga og háaloftið tók sífellt á sig meiri og betri mynd. Stundum var þó ekki annað hægt en að koma sér út úr rykinu um stund og einn daginn rölti ég út að Bátadokk. Þar hitti ég fyrir Guðbrand Ólafs og Bjössa Sveins og tókum við tal saman. Bar þá að Gunnar Trausta og Dóru Jónasar sem spurðu hvort ég ætlaði ekki að mæta í gönguna þá um kvöldið, en ég hváði því ég vissi ekki um neina göngu.
"Það verður gengið yfir Dalaskarð í kvöld, ætlarðu ekki að mæta"?
Gunnar talaði eins og allar aðrar ákvarðanir en sú "að mæta" yrðu teknar á röngum forsendum og ég fann fyrir einhverju sem flokka mætti sem afar kurteislegan þrýsting.
"Auðvitað mæti ég" svaraði ég svolítið hikandi.
Á leiðinni heim sá ég auglýsinguna í glugganum á Pizza 67 þar sem auglýst var Sólstöðuganga yfir Dalaskarð.
Mæting var kl. 20.30 og það var ekið inn að bílastæðinu í Mánárdalnum þar sem þeir félagar Þórður og Bjarki gerðu ítrekaðar tilraunir til að reisa sér sumarbústað á áttunda áratugnum.



Það var gengið inn Mánárdalinn og gönguleiðin var mjög vel merkt. Fyrir miðri myndinni hér að ofan er Hádegisfjall en hægra megin við það rís Illviðrishnjúkur.

Ferðin var farin á vegum Ferðafélags Siglufjarðar sem mér virðist eiga svolítið undir högg að sækja um þessar mundir þar sem starfsemin er borin uppi af örfáum áhugasömum einstaklingum. Það væru ill tíðindi ef það legðist af því tilvist þess er í eðli sínu heilsusamleg, félagsleg vítamínsprauta fyrir þátttakendur, mannbætandi hvernig sem á málið er litið og túristavæn í þokkabót.



Þessi lækur heitir að ég best veit Máná rétt eins og bærinn, en Mánárdalur er syðri dalurinn af tveimur sem saman eru nefndir Úlfsdalur. Sagt er frá því í Landnámu að Ólafur Bekkur og Úlfur Víkingur hafi orðið samskipa´til Íslands, Ólafur hafi numið Ólafsfjörð en Úlfur Úlfsdali. Sagnir eru um að Úlfur hafi setið á Dalabæ en verið heygður í hón nokkrum niður við árbakkana þar sem hann gæti fylgst með skipaferðum um alla tíð.



Gönguleiðin upp Mánárdalinn er ágæt yfirferðar og alls ekki brött. Þegar upp á brúnina er komið er fjallið Snókur mjög áberandi í landslaginu enda örstutt í það. Á þessum slóðum er Styrbjarnardys, en um Styrbjörn eru til nokkrar og svolítið misvísandi sagnir.
Eftirfarandi má lesa á snokur.is

"Nálægt vegi þessum suðaustan við Dalaskarð er

vörðubrot eitt, er nefnist Styrbjörn halda sumir hér það dys þó ólíklegt sé; en sagt

er að þar hafi bráðdauður orðið Styrbjörn bóndi á Hóli á heimleið frá Dalabæ með þunga byrði matar stolna frá Rafni bónda og var dauði hanns kenndur göldrum Rafns. Aðrir segja þó Styrbjörn hafa búið í Úlfsdölum en stolið frá Höskuldi bónda á Meiri Höfn sem líka var mjög fjölkunnugur talinn og hafi hann valdið dauða Styrbjarnar. Trúlegra er þó að þá hefði hann farið utar yfir fjallið. Virðist sögn þessi vera frá fyrri hlut 17. aldar því þá voru þeir Rafn og Höskuldur kunnir bændur, en oft munu hér hafa verið gripdeildir útlendra og innlendra."
Einnig hef ég rekist á frásögn um að Styrbjörn hafi verið eltur uppi af Höskuldi sem hafi banað honum og síðan dysjað.



Þetta er hópurinn sem gekk yfir Dalaskarð, en á myndina vantar þó Gunnar Trausta og Stellu Matt.



Þegar upp á brúnina er komið blasir Siglufjörður við.



Eins og sjá má er örstutt að fara að Snót (lengst til vinstri á myndinni rétt fyrir ofan miðju), en þaðan á að vera kjörstaður fyrir fólk með myndavélar og í góðu veðri.



Eins og sjá má er enn talsverður snjór á skíðasvæðinu í Skarðinu.



Þegar upp var komið og búið að staldra við um stund skipti hópurinn sér. Sumir gengu niður Stóra-Bola en þessi hluti sem hér sést gekk til norðurs ofan við Leirdali.  



Þarna hækkar landið lítillega og áfram var haldið vestan við Hafnarhyrnu og að suðvesturbrún Hvanneyrarskálar.



Og áfram norður fyrir botn Skálarinnar. Hér pósum við Stella bekkjarsystir mín með sjálfa Hvanneyrarskál og hluta af bænum í baksýn.



Svo skemmtilega vildi til að gríðarlega langur og mikill snjóskafl náði frá efstu brún og alla leið niður á botn skálarinnar. Tóku þá ýmsir til þess ráðs að setjast niður og renna sér á rassinum upp á gamla mátann alla leið niður sem var hreint enginn smáspölur. Eins og sjá má er talsverð hreyfing í myndinni hér að ofan en mér finnst eiginlega ekki hægt annað en að láta hana fylgja þrátt fyrir það.



Og snjórinn bauð upp á fleiri möguleika. Hann var alveg hæfilega þéttur og gaf svo passlega mikið eftir að það var engum vandkvæðum bundið fyrir þá að renna sér fótskriðu sem það kusu.


Það var góður og skemmtilegur hópur sem þarna var á ferðinni þótt fleiri hefðu alveg mátt slást með í för. Veðrið var hið besta og það gerði ekkert til þótt svolítill rigningarúði og léttur goluþeytingur sæi "genginu" fyrir hæfilegri kælingu stutta stund.

Mig langar til að þakka þeim Gesti Hansa og Maresku alveg sérlega fyrir þeirra framlag í þágu félagsins sem heimamenn mættu að ósekju alveg sýna meiri áhuga og ræktarskap.
Fleiri myndir frá Siglufirði en einnig frá göngunni yfir Dalaskarð er að finna aftarlega í myndaalbúmi http://leor.123.is/album/default.aspx?aid=141649


Kvöldið eftir var kominn tími til að kveðja norðurlandið og haldið af stað suður yfir heiðar. Það var þó ekki hægt annað en að smella af einni sólarlagsmynd út Skagafjörðinn á leiðinni eins og sjá má.

Síðan þessi ferð var farin er eitt og annað búið að bera til tíðinda og ég er kominn aftur norður á Sigló. - En nánar um það innan tíðar.

25.06.2009 01:58

Norðurferð í júní - annar hluti



574. Það var þann 3. dag júnímánaðar að við Haukur Þór áttum leið um Skagafjörðinn og til tilbreytingar datt okkur í hug að aka Blönduhlíðina. Ég fór að segja honum frá gömlu brúnum yfir Héraðsvötnin sem þóttu mikil samgöngumannvirki á sínum tíma. Það varð til þess að við stöldruðum við og röltum niður að austari brúnni yfir vötnin gegnt Varmahlíð.
Hauki fannst brúin mjó og hafði á orði að varla hefðu aðrir bílar rúmast á svona mjórri brú en litlir fólksbílar, en þannig var nú aldeilis ekki. Þarna fóru um allar þær rútur svo og flutninga og vörubílar sem áttu leið um héraðið, en það er hins vegar annað mál að mikil stærðarmunur er á slíkum ökutækjum þá og nú .
Ég rakst á gamla bókun frá Sýslufundi í Skagafirði sem haldinn var 10-13 mars 1903, en í þá daga var algengt að slíkir fundir stæðu yfir í 2-4 daga en mun lengra var á milli þeirra þá en síðar. Ástæður þess munu hafa verið erfiðar samgöngur og tafsamar.
Veittur 50 kr. styrkur til að koma á kláfdrætti á Kökulsá eystri, en jökulhlaup í ánni í vetur hafði tekið kláfinn.
Veitt allt að 600 kr. til vegagerðar milli Framnes og Brekkna í Akrahreppi. Veitt allt að 400 kr. til að gera við veginn frá Kolkuósi að Hólum svo hann verði fær með kerrur; til þessarar vegagerðar hefur Flóvent Jóhannson á Hólum boðið að leggja fram 100 kr. og hreppsnefnd Hólahrepps allt hreppsvegagjaldið þetta ár.
Hallgrímur Þorsteinsson ráðinn verkstjóri við sýsluvegavinnu næsta vor.
Skorað á þingmenn sýslunnar að útvega 2.000 kr. styrk úr landsjóði til vegagerðar frá Hofsós fram að Stóru-Ökrum gegn jaf miklu framlagi frá sýslunni.
Brúarsjóðsgjald.
Samþykkt að leggja 20 aura brúarsjóðsgjald á hvert lausafjárhundrað og hvern verkfæran mann.
Tölulegar stærðir voru greinilega með öðrum hætti á þessum tíma.



Þarna er flest eins og ég man eftir því nema kofinn sem hliðvörðurinn hélt til í yfir sumarmánuðina er horfinn og var það reyndar löngu áður en brúin var aflögð. En þegar ég fór þarna mínar fyrstu ferðir á Barnaskólaárunum voru Héraðsvötnin auðvitað heppilegur tálmi að því leytinu að þau nýttust afar vel sem sauðfjárveikivarnarlína. Frá sauðburði og fram yfir réttir var búandi hliðvörður í litlum kofa við brúarsporðinn að austan verðu sem opnaði og lokaði hliði fyrir þeim bílum sem þarna áttu leið um. Áður en brúin kom til mun hafa verið þarna sams konar dragferja og við ósa Héraðsvatna, en mjög vel gerða og greinargóða lýsingu má finna á slíku samgöngutæki á vef Skagafjarðar.

Dragferjan á vestri Héraðsvatnaósnum í Skagafirði er 12 ál. lengd að ofan og tæpar 6 ál. á breidd; stefni í báðum endum með nokkrum lotum. Botninn, 10 ál. á lengd og hér um bil 3½ á breidd um miðjuna, er "stokkbyggður" úr 1½ þuml. borðum og "kalfatrað" neðan í allar fellingar með stálbiki yfir (botninn náttúrlega marflatur). Ofan í botninum eru böndin úr 2 þuml. plönkum með fullri breidd. Utan á botninn er svo súðbyrt úr 1¼ þuml. borðum neðst og 1. þuml. borðum að ofan, 7 umför, en töluverð kringing eða áhlaup er á þeim öllum, af því þau eru undin frá báðum endum til að fá útlagið (skábyrðing) sem mest um miðjuna, svo að ferjan yrði skerstöðug; dýptin á sjálfum ferjuskrokknum, þegar lögð er þverslá yfir hann, er þannig ekki meira en nálægt 20 þuml. Böndin í hliðunum eru úr 3 þml. plönkum og ganga allstaðar niður í botnborðin við hlið botnplankanna. Ofan á byrðinginn kemur skjólborð. 3 borðbreiddir eru flettu, og ganga stytturnar innan í því niður í byrðinginn eins og á þilskipum. Skjólborð þetta stendur mikið til lóðrétt upp og eru í báðum hliðum um miðjuna dyr í gegn um það með vel sterkum stuðlum (fullkomin plankabreidd) til beggja hliða, er ná nokkuð upp fyrir skjólborðið, og eru í dyr þessar gerðir hlerar, tæpar 2 ál. á hæð, sem leika á þreföldum, mjög sterkum járnhjörum að neðan. Þegar hlerum þessum er hleypt niður, mynda þeir bryggju til að fara á upp í ferjuna og út úr henni við bæði löndin, en meðan yfrum er dregið, er þeim krókað upp að dyrastuðlunum. Nálægt endanum á hlerum þessum er lítið hjól í annarri röðinni, er trássa leikur í, svo léttara sé fyrir ferjumanninn, að draga hlerann upp og hleypa honum niður. Í framstafni ferjunnar er vinda og 1 sveif á afturenda hennar, sem snúið er til beggja hliða, eftir því, hvort farið er austur eða vestur yfir ósinn. Vinda þessi er upphækkandi til beggja enda, með 2 brögðum utan um sig af dráttarfærinu, og hlaupa brögðin jafnhraðan að miðjunni þegar snúið er, en dráttarfærið leikur í hjólum ofan á keipnum báðum megin við, eða réttara sagt milli tveggja hjóla hvoru megin, sem liggja lárétt á keipnum og snúa röðunum saman innan í hlýranum, svo þó ferjan dragist hálf-skakkt yfir - sem að öðru leyti horfir beint í strauminn þegar hún liggur kyrr - þá liggja þó brögðin beint frá vindunni út á keipinn. Á báðum löndum eru 3 ál. háir trébúkkar og í þá er dráttarfærið fest; aftur af þessum búkkum, sem þá að öðru leyti eru fylltir með grjóti, eru 2 stagir úr járnþráðakaðli, 5 faðma langir hvorum megin, er liggja á ská, svo þeir halda á móti átakinu af dráttarkaðlinum, hvort sem það kemur ofan frá eða neðan frá (það kemur nefnilega oft mikill innstraumur í ósinn), en endarnir á þessum vírstögum eru þannig festir í sandinum, að grafin eru niður þvertré, sem þeir standa í gegnum, og borið grjót á þau að ofan. Stagir þessir mega ekki vera úr hampkaðli, af því væta og þurrkur hefur svo mikil áhrif á, að gera hann slakan og stirðan. Dálítið fram í vötnin er lagt akkeri með hlekkjum og kaðli við; kaðlinum er haldið ofan á vatninu með duflum, og er sá kaðall ætíð fastur í ferjunni, þegar hún ekki er brúkuð, til að varna því, að hún fari út úr ósnum, ef dráttarfærið kynni að bila, og fleira er gert til tryggingar, t.d. að ræði eru á ferjunni og árar til taks að bjarga sér að landi með, ef dráttarfærið kynni að bila, meðan verið er að ferja. - Dráttarfærið er 2 þuml. kaðall, og var áformið upphaflega að það yrði tvöfalt, þannig, að endarnir væru festir í stefnið á ferjunni frá báðum hliðum og það léki svo í blökkum á búkkunum, en straumþunginn lagðist þá svo mikið í kaðalinn, að erfitt var að snúa sig yfir með vindunni, enda þykir það nú helsti ókosturinn, að nokkuð er þungt að snúa sig yfir með vindunni, þó að dráttarkaðallinn sé að eins einfaldur, og er því búið að fá spilhjól með "drífara", er verður sett í ferjuna á næsta vori. - Í afturendanum er dálítið upphækkað innra fóðrið og þar eru bekkir settir til að sitja á, en allur miðpartur ferjunnar er ætlaður fyrir hestana, og voru þeir hafðir þar 8 í einu, þegar mikið var að flytja, enda var það sögn ferjumannanna, að umferðin hefði verið þar fullum helmingi meiri yfir ósinn næstliðið sumar en nokkurn tíma hefði áður verið. Allt járn í ferjunni og umbúnaðinum er galvaníserað.
Hraunum 23. febr. 1893. - E. B. Guðmundsson.




Og þar sem við vorum í nágrenninu datt okkur í hug að kíkja við á Flugumýri hjá litlu systir og sníkja kaffi. Það stóð ekki til að staldra lengi við á þessum ágæta stað, en oft er það svo að ekki ganga allar áætlanir eftir. Þannig varð það einnig að þessu sinni og var farið að styttast verulega í deginum þegar við fórum að hugsa til heimferðar.
Sú spurning kom upp hvernig nafn bæjarins væri til komið og ég svaraði því til að líklegt þætti mér að þarna hefður verið miklar mýrar og líklega þá í leiðinni mikið um hvimleiða flugu.
Margrét leiðrétti mig og sagði mér hið rétta um málið en þær upplýsingar má finna í Landnámu en þar segir:

Þórir dúfunef var leysingi Yxna-Þóris; hann kom skipi sínu í Gönguskarðsárós; þá var byggt hérað allt fyrir vestan. Hann fór norður yfir Jökulsá að Landbroti og nam land á milli Glóðafeykisár og Djúpár og bjó á Flugumýri.
Í þann tíma kom út skip í Kolbeinsárós hlaðið kvikfé, en mönnum hvarf í Brimnesskógum unghryssi eitt. Þórir dúfunef keypti þá vonina og fann síðan en það var allra hrossa skjótast og var kölluð Fluga.

Örn hét maður; hann fór landshorna í millum og var fjölkunnigur. Hann sat fyrir Þóri í Hvinverjadal, er hann skyldi fara suður um Kjöl, og veðjaði við Þóri, hvors þeirra hross mundi skjótara, því að hann hafði allgóðan hest, og lagði hvor þeirra við hundrað silfurs. Þeir riðu báðir suður um Kjöl, þar til er þeir komu á skeið það, er síðan er kallað Dúfunefsskeið. En eigi varð minni skjótleiksmunur hrossa en Þórir kom í móti Erni á miðju skeiði. Örn undi þá svo illa við félát sitt að hann vildi eigi lifa og fór upp undir fjallið er nú heitir Arnarfell og týndi sér þar sjálfur, en Fluga stóð þar eftir því að hún var mjög móð.

En er Þórir fór af þingi fann hann hest föxóttan og grán hjá Flugu við þeim hafði hún fengið. Undir þeim var alinn Eiðfaxi er utan var færður og varð sjö manna bani við Mjörs á einum degi, og lést hann þar sjálfur. Fluga týndist í feni á Flugumýri.
Og það má bæta því við að ennþá mótar fyrir pytti þeim sem Fluga er sögð hafa sokkið í þó hann sé fyrir löngu orðinn þurr eftir að land hefur verið ræst. En bærinn var landnámsjörð en síðan mikið höfðingjasetur og þeim sem til þekkja þarf ekki að blandast hugur um að svo er enn.
Löngu áður en Ingimar og Margrét hófu sinn búskap á þessum merka stað, réð þar húsum Gissur Þorvaldsson Jarl sem Hákon "gamli" Hákonarson Noregskonungur skipaði jarl yfir Íslandi og var sá sem hafði meiri aðkomu að "gamla sáttmála" en flestir aðrir. Gissur átti um tíma í illdeilum við Sturlunga og má með réttu segja að Flugumýrarbrenna hafi verið beinlínis afleiðing Örlygsstaðabardaga svo og aðkomu Gissurs að vígi Snorra Sturlusonar.
Eftirfarandi fann ég á vef Lundarskóla á Akureyri, en leyfði mér að bæta nokkrum smáatriðum við það.

Gissur reyndi að sættast við Sturlunga og stofnaði í því skyni til hjúskapar milli Halls sonar síns og Ingibjargar dóttur Sturlu Þórðarsonar sem þá var aðeins 12 ára gömul, en brúðkaupið var haldið á Flugmýri.  

Nóttina eftir að gestir fóru komu frændur Sturlunga þeir Eyjólfur ofsi Þorsteinsson sem Þórður Kakali Sighvatsson hafði sett yfir Skagafjörð og Hrani Koðránsson sem hann hafði sett yfir Eyjafjörð, og lögðu þeir eld í húsin. Létust þar 23 úr röðum Gissurar eftir frækilega vörn, en þar á meðal voru synir hans þrír og eiginkona. Sjálfur komst Gissur undan brennumönnum á mjög hugvitssamlegan hátt. 

"Gissur gekk í búrið og sá þarhvar skyrker stóð á stokkum í búrinu. Þar hleypti hann sverðinu Brynjubít ofan í skyrið svo að það sökk upp um hjöltin. Gissur sá að þar var ker í jörðu hjá lítið og var í sýra, en skyrkerið stóð þar yfir ofan og huldi mjög sýrukerið það er í jörðunni var. Þar var þó það rúm að maður mátti komast í kerið og fór Gissur þar í. Hann settist niður í sýruna sem tók honum í geirvörtur en hann var í línklæðum einum og var kalt mjög. Skamma hríð hafði hann setið þar áður hann heyrði mannamál og heyrði að um var talað, að ef hann fyndist væru þrír menn  ætlaðir til áverka við hann, og skyldi sitt högg höggva hverr og fara ekki ótt að og vita hvernig hann yrði við. Hrani var til þess ætlaður, en einnig Kolbeinn grön og Ari Ingimundarson. Nú komu þeir í búrið með ljósi og leituðu. Þeir komu að kerinu þar sem Gissur sat og lögðu spjótum símum í kerið þrír menn eða fjórir. Sögðu sumir að eitthvað fyrir yrði en aðrir ekki, en Gissur hafði lófana fyrir kviði sér. Hann skeindist á lófunum og svo framan á beinum á sköflungnum en voru það lítil sár en nokkuð mörg. Svo hefur Gissur sagt sjálfur að áður er þeir komu í búrið hafi hann skolfið svo mjög af kulda að svaglaði í kerinu, en er þeir komu í búrið þá skalf hann ekki. Tvisvar leituðu þeir um búrið en ekki fundu þeir Gissur.

Brennumenn héldu að svo búnu til Hóla þar sem Heinrekur biskup tók vel á móti þeim og gaf þeim

upp allar sakir af ódæðinu af hálfu kirkjunnar, en lýsti stórmælum yfir Gissuri þegar hann reyndi að hefna harma sinna sem hann gerði að hluta. Hann lét síðar drepa fjölda brennumanna en náði samt engum foringjum þeirra.


Fyrir ofan bæinn rís fjallið Glóðafeykir sem áður og líklega upphaflega mun hafa verið nefnt Glóafeykir. Sagnir eru um að þegar Jón biskup Arason var tekinn af lífi í Skálholti haustið 1550 ásamt sonum sínum tveimur, Ara lögmanni og séra Birni á Melstað, hafi Helga Sigurðardóttir eftirlifandi kona Jóns biskups flúið frá Hólum og í fjallið. Þar hafi þær dulist um sumarið og nokkrir menn með þeim allt þangað til stríðsskipin voru sigld um haustið.



En margt hefur greinilega breyst síðan á Sturlungaaöld eins og sjá má og í garðinum sunnan við bæinn er eitt og annað sem erfitt er að standast.



Haukur reyndist vera hið ágætasta efni í loftfimleikamann og fór flikk flakk og heljarstökk bæði áfram og aftur á bak í loftinu.



Það var lagt hart að mér að skríða inn fyrir netið og taka nokkir létt hopp en ég færðist lengi undan. En svo fór að varnir brustu og afsakanir dugðu ekki gegn fram lögðum mótrökum, en læt ég hins vegar ógert að birta þær myndir sem voru teknar af mér við þessa iðju nema þessa... 



...og þessa sem segir líklega meira en mörg orð.



Hann Jón Hjálmar frændi minn tók nokkra létta takta á settið og fór létt með það því hann hefur nefnilega verið að læra á trommur í vetur.



Svo fórum við að skoða fjósið undir leiðsögn Katarínu sem vissi auðvitað allt um allt, en ég sagði fátt en hlustaði þeim mun betur. Ég vissi vel að sá sem veit lítið en talar samt, er líklegur til að opinbera fáfræði sína og fáfræði mín á þessu sviði er næstum því algjör.



Svo var setið fyrir á ökutækinu sem ég kann því miður ekki að nefna, - þ.e. tegundina.



Við fylgdumst með róbótanum sem okkur fannst mikið undratæki þó að skilningurinn á því sem þarna fór fram væri svolítið takmarkaður.



Jakob vinnumaður (sem er frá Löngumýri) setti sig í sérlegar stellingar fyrir framan myndavélina. Líklega fer hann ekki svona létt með að halda á kálfinum eftir nokkur misseri en fullvaxin kýr vegur á bilinu 450-650 kíló.   



Spyrjandi augnaráð og tiltölulega gáfulegt yfirbragð... En þannig eru kýrnar á Flugumýri.



Það voru heilmiklar framkvæmdir framundan í mjólkurhúsinu. Gamli 3000 lítra mjólkurkælirinn var farinn og annar splunkunýr 5000 lítra kominn í hans stað. En áður en honum yrði endanlega komið fyrir, þurfti að gera allnokkrar endurbætur á húsnæðinu. Og akkúrat og nákvæmlega hvernig sú staða kom upp eða með hvaða hætti, var ég áður en ég vissi af búinn að samsinna húsráðendum þeim Ingimar og Margréti að réttast og eðlilegast væri að ég kæmi strax daginn eftir og tæki þátt í fyrirhugaðri framkvæmd. Ég (malardrengurinn) var sem sagt eiginlega á leiðinni "í sveit" eins og ekkert væri sjálfsagðara og eðlilegra.



Og vinnan við mjólkurhúsið hófst morguninn 4. júní eftir morgunkaffi. Þarna má sjá Ingimar koma skálmandi yfir hlaðið og vel vopnaðan til verksins sem var þar með formlega hafið.



Kvöldið eftir var boðið upp á "Smjörsteikta Mumma" á Dýrfinnustöðum en sá bær er nokkru utar í Blönduhlíðinni.
En hvers konar mannanna fóður er nú það spurði ég fullur grunsemda?
Hvaða líkamshlutar á skepnunni eru kallaðir "Mummar" og þá af hvaða og hvers konar skepnu skyldu þeir vera?
Ég sem er svo sem ekkert verulega matvandur, vil nú samt vita hvað ég læt ofan í mig. Ingimar var ekkert á því að fræða mig nánar um hvað "Mummar" væru nákvæmlega, en glotti meinfýsislega þegar ég spurði og sagði það hlyti að koma í ljós. Ótti minn við hið óþekkta reyndist hins vegar ástæðulaus með öllu þegar í ljós kom að "Mummarnir" voru kótilettur eða frampartssneiðar af Íslensku fjallalambi sem beitt hefur verið á kjarnmikinn Skagfirskan gróður á sólríku sumri.
Það var hins vegar Guðmundur (Mummi) höfundur hinnar sértæku aðferðar við matreiðsluna svo og auðvitað aðverðin sjálf sem gerði "Mummana" svo sérstaka sem þeir sannarlega voru. Matreiðsla þeirra er "listform" sem Vestfirðingurinn Mummi hefur þróað í áranna rás og fundið hinn rétta og sanna farveg.
Panna er hituð og byrjað á að setja á hana hálft eða jafnvel heilt smörstykki og svo eru heil ósköp sett á hana af sneyddum lauk og hvítlauk. Svo er farið að steikja kjötið og smjöri bætt við eftir þörfum en laukurinn látinn malla með. Kjötið er síðan borið fram á fati eins og gengur en "laukfeitin" í stórum potti sem klárast oftast á undan öllu öðru. Rabbarbarasulta og grænar baunir eru svo nauðsynlegur hluti veisluborðsins og rétt er að geta þess að nokkrir "baukar" á borðum eru hreint ekki illa séðir. Menn tóku vel og rösklega til matar síns og kættust því meira sem minna var eftir af veisluföngunum, en það má koma fram að steiktar voru hvorki meira né minna en 6 pönnur af þessum sérstaka "héraðsrétti".
Í fjörugum og skemmtilegum umræðum sem stóðu svolítið fram yfir miðnætti kom fram að Mummi þessi mun vera frændi minn eins og svo margir sem rekja kyn sitt til Bolungarvíkur og Jökulfjarða.




Daginn eftir var haldi áfram hinum verklegu framkvæmdum en þó nokkuð seinna hafist handa en suma aðra daga því menn þurftu jú að jafna sig eftir Mummana og það sem þeim fylgdi. Eftir nokkra daga var búið að rífa niður úr loftum og einangra á ný svo og klæða. Þá var hafist handa við veggi mjólkurhússins og þeir lagfærðir, ýmislegt rifið í burtu sem ekki þjónaði upphaflegum tilgangi lengur, múrað, spartlað og að lokum málað. Eftir það var komið að gólfinu því það stóð ekkert annað til en að flísaleggja mjólkurhúsið. Ingimar sagði mér frá "dönsku aðferðinni" sem hann hafði séð í framkvæmd í kóngsins Köben einu sinni þegar hann hafði verið þar á ferð. Hún fólst í því að múrarar mættu gjarnan til vinnu með tvær fötur sem ætlaðar voru til mjög svo ólíkra þarfa. Önnur geymdi þau áhöld sem notuð voru til hinna ýmsu og fjölbreyttu verkþátta og einnig til að hræra í lím eða múr, en í hinni var eins kalt vatn og fáanlegt var og hún notuð til kælingar "meðlætis" þess sem Danskinum þótti tilhlýðilegt að fylgdi hinni fötunni. Við urðum ásáttir um að reyna dönsku aðferðina svona eins og einu sinni, en eftir á að hyggja var mesta furða hvað það gekk með miklum ágætum. Ég mæli samt ekki með að íslenskir iðnaðarmenn taki upp danska siði við múrverk.



En hvort sem það var vegna hinnar dönsku aðferðar eða ekki, þá kláraðist límið á undan flísunum og ég fór daginn eftir í kaupstað eftir meira lími. Á leiðinni til Sauðarkróks staldraði ég við í Varmahlíð og skaut léttu linsuskoti að þessum gullfallegu farartækjum sem lagt var á bílastæðinu fyrir utan bensístöðina meðan að ferðalangarnir stöldruðu við í sjoppunni eða erinduðust í kaupfélaginu.



Á Króknum staldraði ég við og heilsaði upp á Róbert Óttars sem stóð í stórframkvæmdum við bakaríið. Hann sagðist hafa keypt húsið sem hafði verið áfast suðurgaflinum og rifið því það hefði verið ónýtt. Nú stæði til að koma upp skemmtilegri aðstöðu til útisetu í góðu skjóli sem vonandi hefði góð áhrif á viðskiptin.



Í bakaleiðinni staldraði ég við fyrir ofan hinn merka stað Glaumbæ, en þangað hef ég ekki komið síðan ég var 12 ára sem er auðvitað ekki nógu gott og ég ætti að hafa vit á að þegja yfir en hef greinilega ekki.
Á vefnum skagafjordur.is má lesa eftirfarandi:

Bærinn í Glaumbæ er samstæða þrettán húsa. Níu þeirra opnast inn í göng sem svo eru kölluð og eru mjór gangur, sem liggur frá bæjardyrum til baðstofu, sem er aftasta húsið í húsaþyrpingunni. Sex húsanna snúa gafli/burstum að hlaði og hægt að ganga inn um þau þaðan. Þetta eru kölluð framhúsin. Inn í eitt bakhúsanna, sem svo eru kölluð, er hægt aða ganga og eru það bakdyr bæjarins þar sem heimilsifólk gekk vanalega um.
Fyrsta sýning safnsins var opnuð þar þann 15. júní árið 1952 og fjallaði hún, þá sem nú, um mannlíf í torfbæjum. Glaumbær er í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands. Starfssvæði Byggðasafns Skagfirðinga, sem er elsta byggðasafn landsins, er allur Skagafjörður og í dag er safnið með bækisstöðvar á nokkrum öðrum stöðum í héraðinu.
Á bæjarhólnum, þar sem bærinn stendur, hafa hús staðið í mörg hundruð ár. Bæjarhúsin hafa breyst að stærð og gerð og færst til á hólnum, eftir efnum og ástæðum húsbænda á hverjum tíma. Árið 2002 fundust leifar húsa frá 11. öld, í túninu austur af bæjarhólnum og virðist sem bæjarhúsin hafi verið flutt um set um eða fyrir 1100, um mannsaldri eftir að sagnir herma að Snorri Þorfinnsson, sonur Þorfinns karlsefnis og Guðríðar Þorbjarnardóttur, hafi byggt fyrstu kirkjuna í Glaumbæ fyrir orð móður
sinnar. Snorri var fyrsta evrópska barnið, sem sögur fara af, fætt á meginlandi Ameríku.
Glaumbær er torfríkasti bær landsins. Skýringin er sú að grjót í veggjahleðslu er vart að finna í Glaumbæjarlandi, en torfrista er góð. Það má sennilega fullyrða að hvergi í veröldinni sé torf notað í jafnmiklum mæli í jafn stóra byggingu eins og í Glaumbæ. Veggirnir eru hlaðnir úr klömbrum, sniddu og streng. Rekaviður og innfluttur viður eru í grindum og þiljum. Bæjarhúsin eru misgömul að efni og gerð því menn byggðu húsin eftir því hvort þörf var á stærri eða minni húsum er kom að endurnýjun.
Það sem skipti sköpum um varðveislu Glaumbæjar að breski Íslandsvinurinn Mark Watson (1906-1979) gaf 200 sterlingspund til varðveislu bæjarins árið 1938.

Bærinn var friðlýstur árið 1947. Sama ár fluttu síðustu íbúarnir burtu úr bænum. Árið 1948 er Byggðasafn Skagfirðinga var stofnað og fékk safnið bæinn fyrir starfsemi sína.



Þegar kom að því að fúga, bættist við mikill og góður liðsauki. Það var sjálfur Agnar oddviti á Miklabæ, en Akrahreppur sker sig úr Skagafjarðarhéruðum að því leyti að hann er enn "sjálfstæður" og sameining við aðra hreppi sem mynda sveitafélagið Skagafjörð í dag var felldur af íbúum.



Það tók tímann sinn að þrífa fúguna og dettur mér í hug að þar hafi "lítilsháttar leifar" af hinni "dönsku aðferðarfræði" haft nokkuð að segja.



Jón Hjálmar sýndi mér nýtt "gæludýr" sem hann hafði eignast og var hýst um stundarsakir í þessari krukku. Það reyndist vera Araneus diadematus eða könguló upp á íslensku. Hann var nýbúinn að fóðra hana með flugu sem hann veiddi henni til matar.



Þó svo að Agnar virðist gera eins og svo margir mektarmenn þessarar þjóðar, þ.e. láta fara vel um sig í aftursæti bifreiðarinnar, með einkabílsjóra sem hlýðir möglunarlaust öllum hans fyrirmælum og fylgjist með því sem fyrir augu ber spekingslegur á svip, þá er það ekki svo. Ég var einfaldlega á undan honum að ná framsætinu, en myndin er tekin á bökkum Héraðsvatna talsvert neðan við veginn um Blönduhlíðina.



Og meðan við stöldruðum við þarna á bökkunum fjölgaði í kringum okkur.



En á Þormóðsholti sem er stutt frá býr Þröstur sem ýmislegt er til lista lagt. Hann er eins og alfræðiorðabók þegar kemur að bílum og ökutækjum hvers konar og að því leytinu komast fáir með tærnar þar sem hann hefur hælana. Hann hafði tekið að sér að bjarga afturrúðummi í Micruna sem hafði brotnað í þúsund mola við þvottavélaflutninga nokkru áður og gerði það með miklum ágætum. Þröstur er vel birgur af varahlutum eins og sést á myndunum hér að neðan og ef hann á ekki það sem vantar eru allar líkur á að hann viti hvar hlutinn er að finna. Eitt af því fyrsta sem tók á móti okkur þegar við heilsuðum upp á Þröst var þessi aldna dráttarvél sem mun fyrir margt löngu síðan hafa borið skráninganúmerið K-211.
 


Á milli bílanna sem e.t.v. eiga það flestir sameiginlegt að hafa verið gangfærir og jafnvel á númerum við komuna á staðinn, eru svolítil hjólför í grasinu.



Það var engu líkara en þarna væru skipulagðar bílagötur sem bæru síðan nafn af þeim tegundum sem staðsettar væru við þær.



Sko, á þessum gula þarna fórum við Þröstur á ball norður á Siglufjörð fyrir löngu, löngu síðan sagði Ingimar sem kættist mjög og lifnaði allur við þessa upprifjun. Andlitið varð eitt slælubros við endurfundi hans og þess gula og ég dró þá ályktun af hegðunarmynstrinu að það hafi verið mjög gaman á því balli.



Þröstur er greinilega mikill áhugamaður um eðalvagna eða a.m.k. fyrrum eðalvagna af hinni virðulegu tegund Mercedes-Benz.



Margir þeirra gætu líka alveg átt erindi út í umferðina á ný ef áhugasamir aðilar með fornbílabakteríuna tækju þá að sér.



Ég velti fyrir mér hvort Þröstur bónar eitthvað af flotanum reglulega því margir bílarnir þarna líta hreint ekki út fyrir að til standi að rífa þá.



Já þarna er Benzgata, Lödugata, Land-rovergata og svo mætti lengi telja.



Kvikmyndaleikkonan og söngfuglinn Ertha Kitt á fulltrúa sinn á staðnum.





Svo er líka talsverður húmor á svæðinu.



Það var gaman að skoða "safnið" hjá Þresti og ég hefði alveg getað verið þarna allan liðlangan daginn. Og þó að ég sé ekki verulega mikið á heimavelli þegar bílar eru annars vegar, skildi ég þó að það er allt hið merkilegasta fyrir margra hluta sakir. Svo mikið er víst.



Þröstur snaraðist inn í þennan gamla Opel frá sjöunda áratug síðust aldar snéri lyklunum og viti menn, míllin hrökk í gang eins og ekkert væri.



Þarna er ein af fjölmörgum "drossíum" staðarins, Agnar settist inn til að máta bílstjórasætið og ég gat ekki merkt annað en mjög vel hefði farið um hann þar.



Þessi trilla kom frá Hofsósi fyrir nokkrum árum og hét þá "Alki", en seljendur í því ágæta plássi vildu ekki láta nafnið fylgja svo að núna heitir hún "Sunna". 



Þetta forláta stýri er svo ein af skrautfjöðrunum í vinnuskúrnum.



Hjónaleysin að Þormóðsstöðum tóku vel á móti okkur ferðalöngunum og voru bæði skemmtilega skrafhreyfin. Ég hef margsinnis keyrt framhjá þessum bæ í Blönduhlíðinni en aldrei tekið eftir bílasafninu mikla vegna þess að það er ekki svo mjög áberandi þegar ekið er eftir þjóðveginum. Þess vegna er full ástæða að benda á þessa "námu" ef einhver þyrfti á að halda.



Flesta daga sem unnið var að endurbótum í mjólkurhúsi renndi ég augunum upp eftir hlíðum Glóðafeykis og þegar verkinu var lokið var ekki eftir neinu að bíða. Þann 13. dag júnímánaðar var því gengið á fjallið í blíðskaparveðri og glampandi sólskini. Myndin hér að ofan er tekin af "Kirkjunni" sem er klettur ofarlega í norðvesturhlíðinni.



Uppgangan var ekkert sérlega erfið þó að brattara væri eftir því sem ofar dró. Af toppnum var hreint út sagt alveg frábært útsýni og ég sat lengi og horfði yfir hið blómlega hérað niðri á jafnsléttunni.
Ég fékk símtal frá Flugumýri með hamingjóskum og risastóru húrra. Ég stóð upp og veifaði og heyrði þá í gegn um símann að það fór ekki fram hjá þeim sem voru með kíkinn á lofti.



Svona lítur þá Flugumýri út séð ofan frá.



Sauðárkrókur og Tindastóll virtust ekki langt undan.



Og örstutt niður á Varmahlíð eða til Vatnsskarðs.



En litlu innar og sunnar var annar tildur sem einnig tilheyrir fjallinu. Og þó hann sé ekki hinn "skráði" tindur fjallsins samkvæmt mínum heimildum, ákvað ég að réttast væri að klífa hann líka í leiðinni.



Talsvert er um rauðamöl ofan til í fjallinu sem setur mark sitt á litasamsetningu hlíða og kletta.



Fyrir innan fjallið er Flugumýrardalur sem ég hef reyndar aldrei vitað að væri til, enda sést hann ekki vel úr byggð. Fyrir miðri mynd gægist svo lítil hyrna upp fyrir fjallahringinn.



Mér var sagt að hún væri toppurinn á fjalli sem héti Grasdalshnjúkur en mér láðist að forvitnast meira um hann.



Á leiðinni niður fjallið tók ég svo aðra mynd af "Kirkjunni" en frá svolítið öðru sjónarhorni.



Þegar neðar dró og ég nálgaðist bæinn sá ég hvar Jón Hjálmar kom á móti mér því hann vildi vera fyrstur að heyra allt um hvernig ferðalagið hefði gengið fyrir sig. Hann sagði mér að vel hefði verið fylgst með mér og ég hefði sést vel næstum allan tímann. Svo sýndi hann mér afdrepið á bak við hesthúsið sem hann, Rakel og Katarína höfðu komið sér upp.



Eftir að ég kom niður af fjallinu var farið að tína saman pjönkur sínar og undirbúa heimferð. Að þessu sinni var það heimferð til Siglufjarðar en ekki suður á bóginn því ég ætlaði að vera nokkra daga enn nyrðra og hann Depill kvaddi mig á sinn hæverska hátt þarna á hlaðinu.



Síðan var komið að því að kveðja heimilisfólkið en það tók miklu lengri tíma. Þetta var búinn að vera hreint út sagt alveg frábær og mjög svo gefandi tími.



Ég ók hægt niður afleggjarann, beygði til hægri þegar komið var niður að þjóðveginum og hélt af stað til Siglufjarðar. Þetta var búinn að vera frábær tími og ég vona að ég eigi eftir að eiga þar viðdvöl sem fyrst aftur.

23.06.2009 18:18

Norðurferð í Júní - fyrsti hluti.



573. Það var föstudaginn 29 maí að ég lagði af stað frá Hafnarfirði áleiðis til fyrirheitna fjarðarins, þangað sem stefnan er gjarnan tekin svo oft sem tækifæri gefst.
"Hvað á að stoppa lengi" var spurt en ég kunni engin svör við því. Ég var búinn að vera verklaus allt of lengi hérna syðra og varð að komast í annað umhverfi og finna mér eitthvað til dundurs. Það skipti ekki alveg öllu máli þó að kaupið væri lágt ef það gerði sálinni gott og það var vitað mál að verklegra framkvæmda var þörf nyrðra og hafði verið það um árabil. Ég lagði því upp með nauðsynlegt nesti þar sem uppistaðan var Diletto kaffi úr Bónus á kr. 298 kr. pakkinn, en að vísu var ég á afar gömlum og útúrslitnum skóm.



"Flutningabíllinn" sem er af gerðinni Nissan Micra var notaður til efnisflutninga þegar norður var komið og reyndist eins og ávallt, bæði rúmgóður og með ótrúlega mikla burðargetu. Þetta er líklega einn af þeim bílum sem eru miklum mun stærri að innan en utan.



Svo var farið að saga uppi á háalofti, en eins og sjá má var eitthvað bogið við annað hvort timbrið eða sögina. Það reyndist vera sitt lítið af hvoru, spýtan var sennilega lítillega blaut og sagarblaðið eiginlega búið á því. En þetta var nú ekkert sem ekki mátti kippa í liðinn sem var auðvitað gert, en síðan haldið áfram að saga. Svo var sótt meira 34x70 grindarefni og sagað enn meira, skrúfað, lektað o.s.frv.



Þar kom að búið var að ulla, plasta, lekta, og leggja fyrir rafmagni í þeim áfanga sem stefnt var að ljúka við í bili, þ.e. rými sem spannaði þrjá kvisti af fimm. Fyrir nokkrum árum þegar skipt var um þak var allt hreinsað burt og endurbyggt frá grunni, þ.e. járn, klæðning, sperrur og einnig milliveggir. Þetta rými hafði um árabil verið einn stór geimur en fyrir nokkru byrjaði ég að einangra þakið. Ullin hafði að mestu beðið í plastinu tilbúin til notkunar síðan 2005 og nú var komið að því að gera svolítið átak í þessum málaflokki.



Þá voru spónaplöturnar næsta atriði á listanum en mikið rosalega hefur allt byggingarefni hækkað síðan ég var að kaupa eitthvað verulegt af því á síðasta ári. Mig sveið í veskið og bölvaði kreppunni, útrásinni og gengi krónunnar í hljóði en lét það yfir mig ganga því ekkert annað var í boði.



Eina nóttina (eða kannski tvær) var ég að fram undir morgun og varð litið út um gluggann rétt undir lokin. Það varð auðvitað til þess að ég taldi alveg bráðnauðsynlegt að skreppa niður eftir myndavélinni og bætti í beinu framhaldi við enn einni myndinni í Hólshyrnumyndasafnið mitt sem er þó talsvert fyrir. Ég hef líklega ekki oft séð bæjarfjall Siglufjarðar svona rautt í skini miðnætursólarinnar úr norðri.



Þegar ég átti sem oftar leið upp í Samkaup einn daginn, rak ég augun í "auglýsingaskiltin" sem hanga þar uppi á veggjum og það var ekki laust við að ég slakaði brúnum í forundran.
"Betur sjá augu en möffins"...
Vááá maður, á hverju hefur hönnuðurinn verið þegar hann setti saman þessi mergjuðu slagorð?
Mig langaði helst til að æða um alla búð og mynda öll skiltin, en þá hefði líklega einhver viðstaddur farið að velta fyrir sér á hverju ÉG væri svo ég stillti mig a.m.k. um það í þetta skiptið.
En ég er hins vegar ekkert viss um að Siglfirðingar sem eiga daglega leið í Samkaup sem hét áður eitthvað annað, einu sinni KEA og þar áður KFS (Kaupfélag Siglufjarðar) hafi allir rekið augun í þessi ljóðrænu skilaboð. En þau glöddu vissulega mitt litla hjarta þarna inni á gólfinu, þrátt fyrir þær tölulegu upplýsingar sem lesa má af verðmiðunum á hillinum og heimfæra má upp á landlæga fákeppni í matvöruverslun, smæð markaðarins á klakanum, áðurnefndu gengi krónunnar, erfiða samkeppnisstöðu Samkaupa gagnvart Kaupás og Bónuskeðjunum og eflaust margs annars.




En það var búin að vera svo mikil blíða í svo marga daga samfleytt, að þetta gat hreinlega ekki haldið mikið lengur áfram því allt er jú forgengilegt. Meira að segja veðrið. Það sem blasti við syfjuðum augum mínum kom mér því lítið á óvart einn morguninn þegar ég leit út um gluggann.
Það hafði gránað í fjöll og dagatalið var langt gengið í júlí...




Ég átti leið upp á Háveg og þar sá ég nokkuð sem vakti athygli mína. Einhvers konar klifurplanta hefur tekið upp á því að fara sínar eigin leiðir upp úr blómabeðinu undir húsveggnum, fundið skjól undir Steni-klæðningunni á neðri hæðinni og þreifað sig upp milli plötu og steins. Þegar hún hefur verið komin á þriðja metra upp á við í kolniðamyrkri, hefur hana líklega verið farna að lengja eftir sólarglennu og því gægst út undan litaða bárustálinu.
Og þó að vegir hennar teljist ekki órannsakanlegir með öllu, verða þeir alla vega að teljast í það minnsta til þeirra óhefðbundnari.

12.06.2009 18:19

Nokkur orð frá Flugumýri



572. Nú eru liðnir allmargir dagar
frá því að ég lagði upp frá Hafnarfirði norður á Sigló. Ferðaáætlunin átti þó eftir að breytast svo um munaði því ég beygði upp afleggjarann að Flugumýri til að betla kaffisopa og kannski "meððí" hjá henni Margréti systur minni og Ingimar bónda. En þannig hittist á að búið var að kaupa nýjan mjólkurtank og lá fyrir að koma honum fyrir til frambúðar inni í mjólkurhúsi, en áður en það gæti gerst þurfti húsnæðið nokkurra endurbóta við. Ég er því svona tæknilega séð enn í "kaffi" á Flugumýri og í dag er sjöundi dagur heimsóknarinnar að líða hjá. Búið er að rífa niður úr lofti og setja upp í það aftur, laga veggi og mála og flísaleggja gólfið. Verkinu er lokið og ég er aftur á leið á Sigló þar sem ég ætla að vera í alla vega viku til viðbótar uppi á háalofti að smíða. Myndavélin er að fyllast af myndum sem verða væntanlega komnar hingað upp úr 20. þ.m. og  verður mig eflaust farið að lengja verulega eftir að berja þær augum á skjá þegar sá tími kemur. Dvölin í sveitinni hefur verið mikil upplifun og hið daglega bras mjög ólíkt því sem ég gerði mér í hugarlund. Hér gerast hlutir með öðrum og ólíkum hætti en í þéttbýlinu og í fyrsta sinn á æfinni hef ég hugleitt að það hefði líklega verið með öllu óvitlaust ef ég hefði gerst bóndi hér á árum áður. 

Skrifað á Flugumýri 12. júní.
  • 1

Namn:

Leó R. Ólason

Plats:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Antal sidvisningar idag: 748
Antal unika besökare idag: 132
Antal sidvisningar igår: 1391
Antal unika besökare igår: 279
Totalt antal sidvisningar: 496125
Antal unika besökare totalt: 54750
Uppdaterat antal: 26.12.2024 20:45:01
clockhere

Länkar