Blogghistorik: 2013 N/A Blog|Month_3

28.03.2013 04:45

Meira um Bítlamessu



862. Það er kominn skírdagur og tími Bítlamessunnar nálgast. Aðstandendur hennar eru að tygja sig til norðurferðar og fregnir berast af því að forsala aðgöngumiða hefur tekið góðan kipp í gær og í fyrradag. Veðurspáin verður varla mikið hagfelldari og flest bendir til þess að bæði burtfluttir og nærsveitungar fjölmenni á staðinn, bæði skíðafólk og aðrir. Líklega verða einhverjir líka til þess að flýja umferðaröngþveitið í Hlíðarfjalli eins og dæmi eru til og færa sig um set. Þá er Skarðsdalurinn án nokkurs vafa langbesti og skynsamlegasti kosturinn. Það verður bæði gott og gaman að koma á heimaslóðir eins og alltaf.

-

En nokkur orð um Bítlana svona í leiðinni.

Þeir voru tíðir gestir á sjöunda áratugnum í óskalagaþáttum Ríkisútvarpsins og þá gjarnan nefndir Bresku bítlarnir til aðgreiningar frá hinni Keflvísku bítlahljómsveit Hljómum. Reyndar voru líka til Bravó Bítlar frá Akureyri sem unnu sér það til frægðar að hita upp fyrir Kinks í Austurbæjarbíói árið 1965, þá aðeins 12-13 ára gamlir. Þeir spiluðu líka á einum tónleikum hérna á Siglufirði, - líklega hafísárið 1965. Eftir þá tónleika biðu siglfirsku stelpurnar í röðum til að fá þá til að skrifa á handleggina á sér sem var eitthvað alveg nýtt og hefði aldrei komið til tals hjá heitustu dægurlagastjörnum þess tíma eins og Alfreð Clausen, Skapta Ólafs, Ragga Bjarna, Hauki Mortens og fleirum og fleirum. 

Og svo skulum við ekki gleyma Báu bítlunum sem æfðu uppi í risi í Æskó hér norður á Sigló, en það band sem varð því miður allt of skammlíft var skipað þeim. og haldið ykkur nú fast, - Friðfinni Haukssyni, Sigurði Blöndal, Bjössi Sveins og Róberti nokkrum Guðfinnssyni. Halli Gunni staldraði þar við um tíma, en strákarnir urðu að láta hann fara því hann kunni allt of mörg lög. Biggi Inga, sá sami og mun sitja við settið í Bátahúsi á morgun, mun einnig hafa komið lítillega við sögu í Bláu bítlunum undir það síðasta og Robbi þá gerst umboðsmaður sveitarinnar. Mér skilst að í þarna á Æskóárunum hafi orðið þau umskipti að Róbert Guðfinnsson hafi bæði hafið og lokið sínum tónlistarferli, en snúið sér að bissnessþættinum. Þetta mun hafa verið 1968 eða 69.

-

Nokkru áður eða um áramótin 1963-64 náðu Bítlarinr þeim áfanga að koma lagi í fyrsta sæti í Bandarríkjunum, en framan af hafði Ameríka svo gott sem hafnað bítlunum. Þeir þóttu rustalegir og ódannaðir, lögin þeirra kannski allt í lagi lesin af nótum, en textarnir allt að því dónalegir, eða í það minnsta allt of tvíræðir. Capitol sem hafði gert samning um útgáfu á bítlaefni í henni Ameríku, harðneitaði að dreifa efni þessarra bresku göndlarokkara til hinnar sakausu amerísku æsku. Sagan segir að umboðsmaðurinn Brian Epstein hafi hvatt John og Paul til að semja lag sem höfðaði sérstaklega til unga fólksins vestan hafs. Hún segir líka að þeir hafi orðið við því og útkoman hafi verið smáskífulagið I want to hold yur hand. En George Martin upptökustjóri þeirra segir hins vegar að sagan sé í raun tómt kjaftæði, en burtséð frá því þá stökk lagið nánast beinustu leið í fyrsta sæti í Ameríku og sat þar í sjö vikur.

Ýmislegt hefur eflaust haft áhrif og enn einu sinni hafa Bítlarnir eflaust verið á réttum stað á réttum tíma.

Hinn írskættaði John F. Kennedy hafði þá nýlega verið myrtur í Dallas í Texas og bandarríska þjóðin var enn í djúpum sárum eftir þá atburði. Forfeður hans höfðu flutt frá landinu hinum megin við Írlandshafið en austan þess stendur einmitt Liverpool fæðingarborg Bítlanna. Það mátti þess vegna með góðum vilja finna augljós tengsl milli Kennedy´s og Bítlanna.

I want to hold your hand var því eins og útrétt og sálargræðandi hönd huggunar yfir Atlandsála, vottur um samstöðu og hluttekningu, en í leiðinni ósk um styrk til handa bandarísku þjóðinni til að láta ekki bugast og halda ótrauð áfram.

Vestan hafs komu þeir fram í þætti Ed Sullivans og gerðu eins og fyrir þá var lagt, þ.e. að haga sér vel og halda sakleysislegri ímynd sinni barnslegri og hreinni. Sagt er að Ed hafi verið mjög kvíðinn fyrir þáttinn, en varpað öndinn léttar að honum loknum og sagt í heyranda hljóði að þeir væru sennilega ekki eins rosalegir og músikin gæfi til kynna þessir Bítlar. Þetta væru sætir, vel klæddir strákar sem sungu saklausa texta um þrá ungra manna um að fá að smeygja hönd sinni í lófa elskunnar sinnar og annað ekki.

Smáskífan seldist að meðaltali í 10.000 eintökum á klukkustund í New York City eingöngu þær sjö vikur sem hún var í efsta sæti Billboard og eftirleiðis stóðu bítlunum flestar dyr opnar upp á gátt vestra. Hver ætli summan sé af þeirri upphæð sé í íslenskum krónum að viðbættum verðbótum frá árslokum 1963?

-

En sjáumst við ekki bara í Bátahúsinu á föstudagskvöldið?

18.03.2013 09:07

Bítl í Bátahúsi



861. Það er mikið að gerast þessa dagana, því undirbúningur og æfingar standa nú sem hæst vegna fyrirhugaðs tónleikahalds í Bátahúsi um páskana. Og það á að fara svolítið óhefðbundnar miðlunarleiðir ef þannig mætti komast að orði, því hugmyndin er að tvinna saman hljóð og mynd þannig og áheyrendur verði samtímis einnig áhorfendur. Skilningarvit gestanna fá því væntanlega úr nægu að moða meðan á tónleikunum stendur. Verið er að safna saman bítlatengdum fróðleiksmolum, vinna að ýmis konar kynningarefni svo og að grafíkinni sem nota skal vegna myndasýningarinnar, ásamt því að afla myndefnis héðan og þaðan - einnig vegna hennar, og svo auðvitað að æfa öll flottu bítlalögin. Þá má einnig nefna að einnig er staðið í talsverðum fjárfestingum um þessar mundir, því það er verið að kaupa splunkunýtt hljóðkerfi svo bæði tal og tónar komist til skila eins og best verður á kosið. 

Þetta verður vafalaust bæði gaman og skemmtilegt, - en nánar um málið einhvern allra næstu daga.

08.03.2013 21:19

Gluggað í gömul blöð

860. Það getur oft verið meira en lítið gaman að kíkja í gömul blöð frá löngu liðnum árum, rifja upp næstum gleymdar stundir, draga nokkur nöfn fram úr þoku fortíðarinnar og minnast staða sem einu sinni voru þeir langsamlega heitustu. Sé flett upp á bls. 25 laugardaginn 1. maí, árið 1965 í Morgunblaðinu, getur að líta fimm auglýsingar þar sem nokkrar af vinsælustu hljómsveitum þess tíma leika á dansleikjum. Eftir að hafa rennt yfir síðuna sá ég mér til mikillar furðu en einnig talsverðrar ánægju, að þær eiga það allar sameiginlegt að tengjast Siglufirði með einhverjum hætti, reyndar bæði mjög misjöfnum og líklega mætti einnig segja mismiklum.



Haukur Mortens sótti konuefnið sitt Ragnheiði Magnúsdóttur til Siglufjarðar.



Guðjón Pálsson kenndi um tíma í Tónlistarskóla Siglufjarðar. Það mun hafa verið í kring um 1980



Hallvarður S. Óskarsson (Garíbalda) var um tíma trommuleikari í Lúdó sextet þó svo að hann hafi ekki verið orðinn það á þeim tíma sem hér er vísað til.



Karl Lilliendahl var eiginmaður Hermínu dóttir Jónasar rakara og reyndar líka faðir Krístínar Lilliendahl sem söng "Ég skal mála allan heiminn elsku mamma" árið 1972 og þá í leiðinni afi Grétu Salóme Júróvisjónfara.

Hallvarður var líka trommuleikari hjá Gretti Björnssyni um nokkurra ára skeið.

Það má svo láta þess getið að Hjördís Geirs er móðir stórsöngkonunnar Heru Bjarkar þó að það sé nú allt annað mál og sú tenging við Siglufjörð e.t.v. svolítið langsótt.



Alli Rúts er svo hálfbróðir Hannesar Rúts sem lengi bjó á Siglufirði og á líklega enn íbúð í Norðurgötunni, og einnig hálfbróðir Huldu Friðgeirs (kona Gests Hansa) sem á heima á Hverfisgötunni.

  • 1

Namn:

Leó R. Ólason

Plats:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Antal sidvisningar idag: 818
Antal unika besökare idag: 141
Antal sidvisningar igår: 1391
Antal unika besökare igår: 279
Totalt antal sidvisningar: 496195
Antal unika besökare totalt: 54759
Uppdaterat antal: 26.12.2024 21:06:26
clockhere

Länkar