Blogghistorik: 2008 Författad av
26.09.2008 11:46
Tíðindi og þó engin tíðindi
En að þessu sinni kom það strax í ljós að lyklarnir voru ekki þar sem þeir áttu að vera og umfangsmikil leit hófst, eins og það er gjarnan orðað þegar maður heyrir í fréttum að björgunarsveitir hafi verið kvaddar út vegna einhverra rjúpnaskytta sem rata ekki heim. Það var leitað í öllum vösum, öllum flíkum, í öllum skotum, á öllum gólfum, undir og ofan í stólum og sófum en ekkert fannst. Það var farið út í bíl og hann næstum því skrúfaður í sundur, en ekkert fannst þar heldur. Aftur var farið inn og íbúðin tekin í gegn. Ýmislegt fannst sem hafði verið týnt lengi en ekki þó lyklarnir. Þá var aftur farið í bílinn og hann "gegnumlýstur" en án nokkurs árangurs. Næst var að ganga um stæðið og gangstéttina meðfram húsinu eins og þefdýr með nefið alveg fast niður við jörðu. Mér til mikillar furðu rak ég augun í notaðan smokk (sem ég lét ósnertan), nokkra eyrnapinna, fimmtíukall (klink) frá árinu 1975 (sem ég skakk í vasann), uppþornaðan ánamaðk (sem hefur greinilega verið feitur og pattaralegur í lifanda lífi) og ýmislegt fleira sem ástæðulaust er að telja upp. Ég settist niður eftir tæpa tvo tíma, var nú orðinn ansi pirraður (sem ég verð oft) og velti fyrir mér hvar leita skyldi næst. Mér datt helst í hug að ég hefði misst þá þegar ég steig upp í bílinn inni í Reykjavík í gærkvöldi. Ég lagði því af stað (með heimilishamarinn meðferðis) albúinn því að þurfa að brjóta rúðu til að komast inn. Eftir rúmt korter gekk ég að dyrunum með hamarinn á lofti og málið var leyst. Lyklarnir höfðu þá verið í skránni allt kvöldið áður, nóttina og þar sem liðið var á daginn. Staðsetning hússins er næstum því eins mikið miðsvæðis og hugsast getur og þarna er oft margt um manninn. Skemmtistaðurinn Lídó er t.d. hinum megin við götuna, aðeins eru örfá skref yfir á Skólavörðustíginn svo dæmi séu tekin og inni eru talsverð verðmæti í verkfærum. Ætli hið skelfilega ástand í miðbænum sem svo oflega er til umræðu þar sem argasti óaldarlýður á að hafa tekið sér bólfestu, hann gengur ruplandi um og lemur hvern þann í götuna sem á vegi hans verður, hafi kannski verið "talað upp" eins og það er stundum kallað? "Heyrðu herramaður, má ekki bjóða þér aðeins á rúntinn?" Annar lögginn mælti þessi orð og bar sig að eins kaþólskur pokaprestur frá Útnára sem ávarpar páfann á pílagrímsferð sinni til Rómar. Hinn brosti sínu blíðasta til allra viðstaddra eins og uppistandari að loknu vel heppnuðu kvöldi eftir fjórða uppklapp.
Það er kominn snjór.
502. Þegar ég kom heim um sjöleytið tók ég eftir því að nokkur hvít korn flögruðu sakleysislega umhverfis mig, en slíkt hef ég ekki séð mánuðum saman. Þegar ég fór aftur til vinnu um áttaleytið voru þau mun fleiri og þéttari. Og þegar ég kom aftur heim rétt fyrir ellefu var færð tekin að spillast og mátti sjá tæki vegagerðarinnar á ferðinni. Þetta er fyrsta sýnishornið af vetrinum sem við fáum að sjá hérna á suðvesturhorninu. Á móti mér tók "lítill drengur" sem er auðvitað ekkert lítill lengur. Hann var að koma í fyrsta sinn akandi heim úr vinnu og lenti þá í snjókomu. Hann var nefnilega að taka bílpróf í gær og fékk bráðabirgðaskírteini í dag.
Úlfur, úlfur eða bara aulapanik.
Það var mikið sem gekk á á dögunum þegar ég var í þann vegin að leggja af stað á Hallveigarstíg 10 að halda áfram flísalagningu þar sem frá hafði verið horfið deginum áður. Eins og venjulega var aðgætt hvort allt væri til staðar sem þurfti til, og þar á meðal var þreifað á vösum til að fullvissa sig um að lyklar væru til staðar. Það hefur nefnilega oftar en einu sinni komið upp sú staða að ég hef verið kominn niður í miðbæ Reykjavíkur alla leið frá Hafnarfirði, búinn að leggja í stæði og borga alveg helling í stöðumæli þegar það hefur komið í ljós að mér hefur verið húslykla vant. Það er ekki svo lítið skítt því ef maður gluggar í tölulegar upplýsingar um umfang klúðursins, kemur m.a. í ljós að í slíkum tilfellum kostar það akstur samtals upp á u.þ.b. 40 km. þ.e. að heiman, til baka og aftur að heiman áður en hægt er að byrja að vinna.
Sjóræningi í næst, næst, næst, næsta húsi.
Mér hefur fundist það svolítið undarlegt og eiginlega nokkuð úr takti við það sem er að gerast a.m.k. í næsta nágrenni, að þegar "sannkristnir" Hafnfirðingar draga hínn Íslenska krossfána að hún á sunnudögum um það leyti sem barnamessa er að hefjast í kirkjunni skammt frá, skuli þessi fáni vera dreginn upp á stöng um sama leyti að Öldugötu númer 21.
Hafnfirskur húmor, mótmæli gegn þjóðkirkjunni eða innlegg í vitræna, heimspekilega og þjóðfélagslega umræðu með trúarlegu ívafi sem þó er enn ekki hafin mér vitandi...
Ég veit ekki...
Brókarlalli á röltinu í miðbæ Kópavogs.
Það er nú kannski allt í lagi að fá sér aðeins í tána og vissulega er sagt að hóflega drukkið vín gleðji mannsins hjarta. En það getur verið býsna strembið að halda þann sjóinn og víst er að margur maðurinn hefur vaknað upp við þann vonda draum að eitthvað fór úrskeiðis í gærkvöldi þrátt fyrir góðan ásetning.
Myndin er tekin í Hamraborg í Kópavogi síðla kvölds á dögunum að viðstöddum nokkrum fjölda fólks sem fylgdist með af mikilli athygli. Tveir uppáklæddir laganna verðir komu þó fljótlega til aðstoðar (því þeir eru jú einu sinni þjónar fólksins) og buðu manninum í bíltúr.
Svo fóru þeir þremenningarnir saman í ökuferð.
Pizza, pizza, pizza...
Ég hef eftir því sem tímar hafa liðið, orðið sífellt minni og lélegri pizzuæta. En þegar það gerist að goggað er og ég legg mér flatbökur til munns og maga, vil ég gjarnan hafa þær bragðmiklar og jafnvel svo mjög að ekki treystast allir til að ganga til fóðrunar af sama garða og ég. Mér finnst það sem ég kalla "barnaafmælisbökur" t.d. með osti, skinku og ananas, heldur daufgerðar og ekki ýta nægilega hressilega við bragðlaukunum. Kannski er þetta eitthvert afbrigði af karlagrobbi, en svona er þetta nú bara. Mér finnst matur og öll sú matargerð sem telst vera upprunin í öðrum löndum og þjóðleg þar á bæ vera eins og einhvers konar áskorun, og mér hættir ofar en ekki til að ganga skrefinu lengra en hóflegt og skynsamlegt getur talist. Þetta flokkast kannski undir einhvern ólæknandi sálrænan kvilla, en það verður þá bara svo að vera.
Pizzustaður í nágrenni við mig bauð á dögunum upp á tilboð sem hljómaði svo sem ekkert illa og varð það til þess að ákveðið var að brjóta upp hversdagsleikann og bíta á auglýsingaagnið. Pöntuð var ein "venjuleg" fyrir venjulega fólkið, en svo önnur fyrir okkur feðgana sem var samkvæmt minni forskrift að svo miklu leyti sem hægt var. Ég bað um nautahakk, pepperoni, jalapeno, beikon, lauk, tómata og auka ost, en ferskur chilli var því miður ekki til og piparostur ekki heldur. En svo átti að krydda vel með svörtum pipar og chilikryddi. Ég neita því ekki að ég fann fyrir svolítilli eftirvæntingu því nokkur tími er liðinn frá síðusta flatbökuáti. Þegar svo komið var að því að fóðrun skyldi hefjast, reyndist bakan ógurlega svo sem alveg þokkalega en ekkert umfram það. Mér þótti sérstaklega botninn nokkuð rýr að ofanverðunni miðað við sex álegg og bragðlaukarnir voru ekki í því losti á eftir sem ég vonaðist þó til. Ég mun því að öllun líkindum halda áfram að vera slakur á þessari línunni og jafnvel enn lélegri í áti á hinum ítalskættaða flatmat en áður. Í framhaldinu leyfi mér að spá því að næsta tilraun verði gerð síðla sumars 2009.
21.09.2008 21:34
Í gær.
501. Eitt af því sem gerðist í gær var að ég fékk tölvupóst frá Birnu Björg, en hún tilheyrir harða kjarnanum sem mætir flestar helgar á Catalinu og er orðin mjög svo spjallkunnug okkur spilurunum. Ég sé að pósturinn hefur farið hratt yfir og komið víða við, en ég hef ekki heyrt af þessum vírus annars staðar frá.
VÍRUS, VÍRUS.
Viðvörun til allra sem þú þekkir. Ef þið fáið Powerpoint tölvupóst sem heitir 'Welcome to the matri ps..' þá megið þið alls ekki opna hann.
Þar kemur fram mynd í 10 sek. og síðan birtist texti 'You're harddrive is over' og þá er það bara of seint, allt er horfið úr tölvunni.
Þetta er nýtt vírus prógram sem var hannað af frönskum aðila sem kallar sig Nwin
Í gær eignaðist ég mín fyrstu lesgleraugu. Fyrir þremur árum gat ég lesið smæsta letur sem mörgum öðrum var þá með öllu ósýnilegt. En svo kom að tímamótum hvað þetta varðaði og ég hætti smátt og smátt að lesa. Undanfarið má segja að ég hafi bara lesið fyrirsagnirnar og skoðað myndirnar í blöðunum, en ekki opnað bók a.m.k. síðustu tvö árin. Oft þegar ég hef kíkt á bloggheima hefur ekki annað dugað til en copy/paste aðferðin. Ég kópíera pistlana og peista í word, stækka síðan letrið og les, eyði að lokum skjalinu og sæki þann næsta o.s.frv.
Í gær var ég svolítið kvikindi þegar ég sendi góðum manni 21 lag með "söngkonunni" Mrs. Miller, vitandi að hann myndi að öllum líkindum spila eitthvað af sendingunni í heyranda hljóði. Ég komst yfir herlegheitin fyrir nokkrum árum og spilaði þessi furðuverk á tímabili bæði aftur á bak og áfram við litla hrifningu annars heimilisfólks. Ég sat alveg dolfallinn yfir þeim, hlustaði furðu lostinn á þessi undarlegu hljóð og tók ekki eftir hve andrúmsloftið í kring um mig hafði farið hratt kólnandi eftir að ég greindi sjálfan mig með Millerheilkennið.
19.09.2008 05:58
Vinur minn Guðmundur Skoti og bensínverðið.
500. Eftirfarandi saga er dagsönn en það skal í leiðinni viðurkennt að hún er vissulega lítillega stílfærð. Guðmundur heitir t.d. ekki Guðmundur í alvörunni, en málið snýst líka hvort eð er um allt annað en það. Viðurnefnið "Skotinn" fékk hann mjög fljótlega eftir landsleik við Skota þann 10. september s.l. Ekki vegna þess að hann gæti rakið ættir sínar til Skotlands, sé boltafíkinn nema rétt í góðu meðallagi eða að nokkuð annað tengi hann beinlínis við það ágæta land. Ég spurði hann á dögunum hvort hann ætlaði ekki að fara á völlinn og sjá leikinn, en að sjálfsögðu var það ekki inni í myndinni vegna þess að það kostaði nú sitt og hann skildi raunar ekkert í þeim sem það gerðu í stað þess að sitja heima yfir sjónvarpinu og horfa á sama atburð á sama tíma án þess að þurfa að greiða sérstaklega fyrir. Og þar komum við einmitt að kjarna málsins því þegar Skotarnir fóru að flykkjast til landsins skömmu fyrir leikinn og sáust gjarnan á strætum og torgum með bauk í hendi, rifjaðist upp það sem í eina tíð var af mörgum talið jafnvel vera eitt af þjóðareinkennum þeirra.
Jú, Skotasögurnar hér á árum áður gengu út á hreint ótrúlega sparsemi þeirra en voru jafnframt skemmtilegar skopsögur sem alltaf mátti segja aftur og aftur og hafa endalaust gaman af. En það verður auðvitað að geta þess að þeir eru sjálfir nefndir til sögunnar á undan öllum öðrum þegar spurst er fyrir um hugsanlega höfunda þessara sagna. Það segir okkur að þeir hafi góðan húmor fyrir sjálfum sér og sínum þjóðlegu sögum, sem segir okkur jafnframt og í leiðinni heilmikið um gott innræti þeirra og létta lund. Enda sást það á dögunum að þar fóru um götur hinir vænstu menn, en ekki einhverjar andstyggðar boltabullur. Vinur minn Guðmundur (núorðið oftlega kallaður Skoti) er um margt líkur þessum mönnum, en fellur einnig sérlega vel inn í gömlu Skotasögurnar. Hann hefur ágætan húmor fyrir sjálfum sér og er hinn vænsti félagi í alla staði, en það verður líka að segjast að hann er ákaflega sparsamur þrátt fyrir að geta einnig verið hinn mesti höfðingi heim að sækja ef svo ber undir.
Fyrir nokkru síðan þegar bensín og olíuverð var í sínum hæstu hæðum hingað til og umræðan í þjóðfélaginu snérist meira um það en nokkuð annað, lágu leiðir okkar Guðmundar saman sem svo oftlega gerist.
Yfirbragð hans og fas var allt óvenju hæglátt, hann var þegjandalegur aldrei þessu vant og eiginlega svolítið dapurlegur ásýndum. Ég spurði hann því hvort eitthvað amaði að, því hann var greinilega ekki líkastur sjálfum sér þess stundina. Hann svaraði því ekki beint en sagðist hafa verið að taka bensín rétt áðan. Sú skýring nægði mér í bili svo ég spurði hann annarra frétta ef einhverjar væru. En hugur hans var enn við bensíndæluna og hann átti greinilega erfitt með að slíta sig þaðan.
"Segðu mér," sagði hann og ræskti sig svolítið.
"Ef þú kemur að brekku og ert á leiðinni niður, læturðu þá bílinn ekki fríhjóla til að spara bensín?"
Ég hnyklaði brýrnar og annað eyrað á mér lyftist lítillega. Var þetta grín eða kannski hin fúlasta alvara? Hvort tveggja gat alveg átt við þegar Guðmundur var annars vegar.
Nei, ég hafði nú ekki vanið mig á það, þrátt fyrir hækkandi orkuverð.
"En þegar þú kemur að ljósum, drepurðu þá ekki á bílnum meðan þú bíður eftir grænu?"
Ég horfði fast á hann til að reyna að átta mig á hvort ekki gæti verið um að ræða tilraun til að draga mig út í umræðu sem seinna væri hægt að herma upp á mig. Útsetja hana upp á nýtt, snúa að nokkru leyti upp í andhverfu sína og endursegja á góðri stund með tilheyrandi ýkjum og tilþrifum mér til minnkunar.
Ég benti honum á að startsopinn væri víst drjúgur og mér þætti líklegt að hann eyddi jafnvel meira bensíni með þessari aðferð. Hann sagðist vera búinn að reyna mikið að reikna þetta út á blaði, en þar sem stærðfræði hefði aldrei verið hans sterkasta hlið fengi hann ekki neina vitræna útkomu út úr dæminu. Hins vegar hefði hann ákaflega sterka tilfinningu fyrir því að með því að drepa á bílnum við umferðarljós og láta hann fríhjóla niður brekkur, gæti hann náð til baka allra síðustu bensínhækkununum. Ég vissi að frekari umræða um þessi mál var í sjálfu sér með öllu óþörf, Guðmundur hefði tekið ákvörðun sem ekki yrði hnikað hvað sem tautaði og raulaði.
Og hvers vegna ætti ég svo sem að reyna að fá hann til að hafa aðra skoðun á málinu?
Það var svo skömmu síðar að ég heimsótti Guðmund og var hann staddur fyrir framan húsið þegar mig bar að garði. Hann tók mér fagnandi eins og hann átti venju til, en bað mig að hinkra aðeins því að bílnum hans var lagt þannig að hann tók bæði bílastæðin sem tilheyrðu húsinu. Það var nú ekki mikið mál og ég fylgdist með honum ganga að bíl sínum með lyklana á lofti og opna hann. En í stað þess að setjast inn setti hann lyklana í og snéri til hálfs, tók hann úr gír og lagðist síðan með bakið á hurðarpóstinn. Bíllinn mjakaðist af stað aftur á bak og Guðmundur snéri stýrinu og rétti hann af. Síðan ýtti hann í hina áttina en það var heldur meira mál því stæðinu hallaði lítillega að götunni. Hann varð því fljótlega eldrauður í framan af áreynslu en bíllinn tók að hreyfast.
"Er bilað?" Kallaði ég til hans.
"Nei" svaraði hann og andaði út í leiðinni.
"Slappaðu af, ég skal aðstoða þig í málinu."
"Nei, bíddu bara, ég er að hafa þetta." Guðmundur Skoti rumdi orðunum út úr sér og varð ennþá rauðari í andliti.
Það var engu líkara en honum hafi runnið í skap því hann færðist nú allur í aukana og bíllinn nálgaðist húsvegginn hægt og hægt.
En þess er vert að geta að Guðmundur er tiltölulega lítil maður vexti og grannur, og þurfti hann því að hafa nokkru meira fyrir þessum tilfæringum en sæmilegur meðalmaður hefði þurft. Auk þess er hann nokkuð farinn af kröftum og öllu líkamlegu atgervi. Illar tungur segja að það sé vegna vannæringar en ég vil nú trúa að einhverjar aðrar skýringar séu á því.
Þar kom að hann lét sig falla inn í bílstjórasætið og sló aftan á gírstöngina þannig að bíllinn var nú í fyrsta gír og hreyfðist því hvergi.
Þarna lá hann svolitla stund meðan mesta mæðin fór af honum og andlitið öðlaðist sitt rétta litarraft á ný.
Svo stóð hann upp, lokaði bílhurðinni og bauð mig velkominn inn á stæðið með miklu handapati, undarlegum tilburðum sem áttu líklega að vera upp á Franska mátann frá tíma Loðvíks 14., en allt þetta endaði í djúpri hneigingu.
"Komdu í veislukaffi, ég var að kaupa Frón mjólkurkex" sagði hann og rak upp mikla hlátursroku.
Ég renndi inn í stæðið og spurði í leiðinni hvað væri að bílnum.
"Það er ekkert að bílnum" svaraði Skotinn.
"Af hverju þurftir þú þá að ýta honum?"
"Sko, heldurðu að ég geri þessum feitu olíufurstum það til geðs að fara að setja í gang fyrir svona skitterí?"
Hann hristi höfuðið hægt og glotti með öllu andlitinu.
"Nei ekki hann Guðmundur Skoti."
06.09.2008 09:08
Hafnarfjall
499. Sunnudaginn 31. ágúst sl. héldum við feðgarnir (sá sem þetta ritar og Gunnlaugur Óli Leósson) upp í Borgarfjörð, báðir jafn ákveðnir í að gera það sem ÉG hef stefnt að tvö síðustu sumur. Það er að "rölta" upp á Hafnarfjallið sem snöggast og síðan niður aftur skömmu síðar. En það er með þetta verkefni eins og svo mörg önnur, þau eru oft stórlega vanmetin eða eiga það jafnvel til að vinda upp á sig. Að vísu er ekkert stórmál að ganga brúnirnar frá Hámelum og fyrir ofan "Flyðrurnar" upp á topp og síðan niður aftur, en málið er ekki alveg svona einfalt. Þegar upp á toppinn er komið, þ.e.a.s. þann sem sést með góðu móti frá veginum, er annar skammt undan sem er aðeins hærri. Sá heitir Gildalshnjúkur og er hæsti hluti Hafnarfjalls. Auðvitað er ekki hægt að fara aftur niður nema að hafa farið þar upp líka, en þá poppar bara upp þar næsta spurning. Verður ekki að klára hringinn um Gildalinn og fara niður austan megin fyrst menn eru komnir svona langt? Auðvitað er slíkur valkostur skoðaður með jákvæðu hugarfari, en það líka nokkuð borðleggjandi að erfitt er að standast freistunguna.
En eftir að hafa rennt sér aðeins yfir Borgarfjarðarbrúna sem stendur nú á rétt rúmlega þrítugu og var steypt að m.a. úr dansk/íslensku hraðsementi á sínum tíma, var aðeins komið við í Shellinu við norðari brúarsporðinn. Ástæðan fyrir því að ekki var staldrað við í Hyrnunni að þessu sinni eins og oftast áður, er auðvitað ónefndur pistill á ónefndri bloggsíðu sem nýlega var rituð af ónefndum manni sem veit alveg hvað hann er að segja.
Í Shellskálanum heyrði ég eina afgreiðslukonuna tala betri þýsku en margur Þjóðverjinn talar, við nokkra miðevrópska "túrhesta" sem höfðu uppi einhverjar spurningar sem ég ekki skildi.
"Æ, æ. Er nú farið að nota Þjóðverja í afgreiðslustörf á íslenskum bensínstöðvum" hugsaði ég með mér og reyndi að rifja upp eitthvað af Gagnfræðaskólaþýskunni sem Gunnar Rafn kenndi mér forðum.
Sú hin sama snéri sér síðan að mér og spurði á lýtalausri Íslensku: "Get ég aðstoðað?"
Mér var stórlega létt og það lítur nú út fyrir að Shellið bjóði ekki aðeins upp á meira hreinlæti en samkeppnisaðilinn, heldur einnig betur menntað starfsfólk.
Síðan var skroppið út að brúnni sem liggur yfir Brákarsundið og tengir Brákarey við fastalandið (eða stóru eyjuna.)
Ég rifjaði upp nokkurra mánaða gamla frétt sem mér fannst nokkuð kostuleg á sínum tíma og finnst reyndar enn.
Lögreglan í Borgrnesi gaf bílstjóra bíls sem ók talsvert yfir leyfilegum hámarkshraða merki um að stöðva för því hún taldi sig hafa ærna ástæðu til að hafa tal af viðkomandi.
Ökumaður bílsins sinnti stöðvunarmerkjunum í engu, reyndi að stinga laganna verði af og ók um götur bæjarins á seinna hundraðinu með glampa blárra og blikkandi ljósa í afturrúðuni. Það var ekki fyrr en leikar bárust út í Brákarey að honum tókst að "stinga þá af" að hann taldi því löggan "gafst upp" á miðri brúnni. Það var ekki fyrr en "okkar maður" á flóttabílnum áttaði sig á að eina undankomuleiðin (ef bakaleiðin um brúna var undanskilin) var út á Faxaflóa, að hann skildi hvers vegna löggan varð svo skyndilega uppgefin á eltingaleiknum.
Við brúna getur að líta þessa vörðu sem reist hefur verið til minningar um ambáttina Þorgerði Brák, sem með réttu mætti gjarnan skipa hærri og stærri sess í sögunni en raun ber vitni.
Minnismerki um Þorgerði Brák, fóstru Egils Skalla-Grímssonar, var reist í Borgarnesi fyrir forgöngu menningarnefndar sveitarfélagsins árið 1997 og er eftir Bjarna Þór Bjarnason sem þá var bæjarlistamaður á Akranesi. Minnismerkið stendur eitt sér uppi á háu holti við Brákarsund, þar sem ambáttin Brák er sögð hafa farist þegar hún steypti sér í straumiðuna á sínum tíma og Skalla-Grímur fleygði bjargi á eftir henni; ,,kom hvorugt upp síðan" segir í Egilssögu. Æðiskast Skalla-Gríms kom í kjölfar knattleiks sem haldinn var í Sandvík. Skalla-Grími var farið að ganga miður í leiknum; hann drap þá vin Egils sonar síns, Þórð Granason frá Granastöðum, og greip síðan til Egils, en Þorgerður Brák kom þá þar að og sýndi það hugrekki að draga athygli garpans að sér með þessum afleiðingum. Egill átti því Þorgerði Brák líf sitt að launa og sýndi þakklæti sitt í verki þegar hann síðar eignaðist sína fyrstu dóttur og nefndi hana Þorgerði.
(Gúgglað af vef Borgarbyggðar.)
Nýtt leikverk, Brák, eftir Brynhildi Guðjónsdóttur var frumsýnt á sögulofti Landnámssetursins í Borgarnesi á Þrettánum, 6. janúar sl. Verkið fjallar um Þorgerði brák, ambátt Skallagríms Kveldúlfssonar landnámsmanns í Borgarfirði og fóstru Egils Skallagrímssonar. Allir sem lesið hafa Egilssögu muna eftir hinni kyngimögnuðu lýsingu þegar Þorgerður brák bjargaði lifi Egils með því að snúa athygli hins hamramma Skallagríms yfir á sjálfa sig. Hann eltir hana langa leið niður að Brákarsundi þar sem hún kastar sér á sund en hann hendir á eftir henni steini miklum og kom milli herða henni og kom hvorugt upp síðan.
Þetta er saga ískrar stúlku sen hertekin var af norrænum víkingum í heimalandi sínu, sett í skip og seld í þrældóm til Íslands. En þar átti hún eftir að fóstra mesta skáld Íslendinga, manninn sem kallaður hefur verið jafnaldri íslenskra
(Gúgglað af vef Skessuhorns.)
Það var háfjara og miklar sandeyrar stóðu upp úr haffletinum.
Á leiðinni til baka fórum við framhjá Skalla-Gríms garði. Og þó ég hafi átt leið um Borgarnes oftar en lélegt minni mitt (núorðið) er fært um að hafa tölu á, man ég ekki eftir þessum athyglisverða reit. En þarna voru sagðir hvíla þeir Skalla-Grímur og Böðvar. Ég áttaði mig ekki alveg á hver Böðvar var, þrátt fyrir að vita af Böðvarsgötu þarna skammt frá svo ég fór aðeins á netflakk.
Skallagrímur Kveldúlfsson var norskur landnámsmaður sem kom til Íslands nokkru fyrir aldamótin 900.
Skallagrímur fæddist árið 863 og ólst upp á bæ föður síns, Kveldúlfs, og Salbjargar, konu hans, í Firðafylki í Noregi. Átti Skallagrímur einn bróður, Þórólf, sem er talinn vera 5 árum eldri.
Skallagrímur var ljótur maður, dökkur á brún og brá, berserkur mikill og skáld. Eiginlega hét hann bara Grímur en þegar hann var hálfþrítugur að aldri var hann orðinn nauðasköllóttur og fékk því viðurnefni sitt. Undir nafninu Skalla-Grímur þekkjum við hann flest. Skallagrímur var forvitri og vissi því fyrir um ýmsa atburði.
Skallagrímur bjó í Noregi til um 30 ára aldurs en flúði þá til Íslands ásamt föður sínum. Þeir flúðu Noreg af því að þeir höfðu drepið menn konungs til að hefna dauða Þórólfs. Skallagrímur og kona hans, Bera Yngvarsdóttir (sem hann kvæntist í Noregi), settust að á Borg á Mýrum árið 891. En þar rak kistu Kveldúlfs að landi. Kveldúlfur hafði látist á leiðinni og kistu hans var varpað útbyrðis. Áður en hann dó þá mælti hann svo fyrir að Skallagrímur skyldi setjast að þar sem kistuna myndi reka að landi.
Þau eignuðust synina Þórólf (f. 900) og Egil (f. 910) en á milli þeirra eru dæturnar Sæunn og Þórunn.
Skallagrímur var iðjumaður mikill og kom sér upp stóru búi að Borg og hafði þar jafnan margt manna. Hann var járnsmiður mikill og skipasmiður og lét hann menn sína róa út og fara í eggver.
(Gúgglað af vef fva.)
Böðvar Egilsson var myndarlegur piltur, sonur Egils og Ásgerðar. Hann drukknaði í Borgarfirði þegar hann fór með húskörlum að sækja timbur í skip sem lá við festar í Hvítá. Böðvar var þá á unglingsaldri. Egill hélt mjög upp á Böðvar og varð hugstola af sorg þegar hann dó. Sagt er að Egill hafi þrútnað (bólgnað) svo mjög þegar Böðvar var heygður að fötin rifnuðu utan af honum. Egill reið sjálfur með lík sonar síns í fanginu út á Borgarnes og heygði hann í haugi Skalla-Gríms, sem enn sést í Skalla-Grímsgarði.
Eftir þetta reyndi Egill að svelta sig í hel en Þorgerður dóttir hans fékk hann ofan af því og stakk upp á að Egill semdi erfiljóð. Egill fór að ráðum hennar og orti Sonartorrek.
(Gúgglað af vef fva.)
En við Gulli gengum upp frá Háumelum þaðan sem allir leggja upp sem á annað borð ganga á Hafnarfjall. Í baksýn má sjá Gildal sem gengur inn í fjallið, en hinum megin við botnsbrúnina tekur við Hafnardalur sem hallar í hina áttina.
Nokkru ofar þótti ástæða til að taka eins og eina mynd.
Þarna erum við því sem næst hálfnaðir upp eftir brúnunum og erum komnir upp fyrir ofan svokallaðar Flyðrur.
Flyðrur eru tveir ljósir klettar sem líta út ekki ósvipað flyðrum eða lúðum.
Þjóðsagan segir að fyrir mörgum öldum hafi bóndi nokkur í Borgarfirði róið til fiskjar um Páskana þá er allir menn skyldu hvíldar og helgi njóta, en matur hafði þá verið ónógur í héraði um nokkurt skeið. Kom hann að landi með afla sinn sem var einn þorskur og tvær flyðrur, en þær voru svo stórar að þær mettuðu alla sveitunga hans þar til önnur matbjörg varð.
Um næstu Páska var ekki hungur í sveitinni en bóndi réri samt, því hann var nú gráðugur orðinn í afla sem eigi þyrfti að deila með öðrum. Hið sama gerðist, hann fékk einn þorsk og tvær flyðrur. En nú brá svo við að flyðrurnar slettust upp í Hafnarfjall og urðu þar að klettum sem síðan hafa alla tíð verið við þær kenndar. En hann varð hræddur og réri hið skjótasta til lands og lét aldrei reyna á gæftir um nokkra Páska eftir þetta.
Örin til hægri bendir á topp þess hluta fjallsins sem snýr að veginum. Eitthvað hlýtur þessi tindur að heita en mér hefur ekki tekist að finna út hvert nafnið er. Annar tindur er svo sunnar (örin til vinstri) þ.e. Gildalshnjúkur og er hann hæsti hluti Hafnarfjalls.
Ég mátti svo til með að setjast í þægilegt sæti á brúninni og dingla fótunum fram af.
Gulli vildi ekki vera minni maður og gjörði slíkt hið sama.
Eins og sjá má unir hann sér þarna hið besta.
Við sáum nú til mannaferða á toppnum sem kom ekki svo mjög á óvart. Ég hafði reyndar ætlað mér að verða samferða þessum hópi fólks, en ferðafélagið Útivist hafði skipulagt gönguferð á fjallið þennan dag. Ég var hins vegar ekkert mjög upprifinn í morgunsárið því ég hafði auk þess að hafa verið í stífri steypuvinnu deginum áður, einnig verið að spila á Catalinu um nóttina. Þriggja til fjögurra tíma svefn tvær nætur í röð auk annarra þátta gerði það því að verkum að ég dró fæturnar þar til hópurinn var lagður af stað en ég sat eftir heima. Þegar leið að hádegi var "Eyjólfur" þó tekinn að hressast til muna, en einnig að ókyrrast verulega vegna slóðaskapsins. Það var að lokum úr að lagt var af stað og Gulli slóst með í för mér til mikillar ánægju. Það skyldi vera gengið á þetta tiltekna fjall þennan dag fyrst það var búið að ákveða það.
Við mættum Útivistarhópnum nokkru áður en við náðum toppnum. Hann hafði farið upp austan dalsins og kom niður vestan megin. Við gengum hins vegar upp að vestanverðu. Ég þekkti tvo göngumanna. Grétar ljósmyndara, sem hafði verið samverða mér upp á Lómagnúp í júní sl., og svo auðvitað stórvin minn og sveitunga Magga Guðbrands.
Það var kominn tími á aðra mynd því eftir því sem ofar dró varð bakgrunnurinn alltaf flottari og tilkomumeiri.
Borgarfjarðarbrúin þetta stórkostlega mannvirki var nokkuð smágerð og efnislítil séð úr þessari fjarlægð.
Þetta á maður eiginlega ekki að gera en samt...
En bara einn og svo ekki meir...
Langt, langt fyrir neðan eru pínulitlir bílar og pínulítil hús.
Í hina áttina er útsýnið með þessum hætti. Í hrjóstrugum Gildalnum er lítill gróður en þess meira grjót.
Nú eru aðeins nokkrir metrar eftir.
Og fyrsta toppnum er náð.
Þar er gestabók í vörðu og rétt að melda sig.
Útsýnið er ekki slakt og hér var því tekin póstkortsmynd af Borgarnesi.
Það virtist vera stutt til Snæfellsjökulls.
Það var hægt að horfa ofan á þökin á Hvanneyri.
Skorradalsvatn sást líka vel yfir fjallsaxlirnar fyrir norðan okkur.
Inn allan Norðurárdal í átt að Holtavörðuheiði. Það er Baula sem stendur upp úr fjallahringnum vinstra megin.
En fyrir sunnan okkur er Gildalshnjúkur hæsti hluti Hafnarfjalls 844 m.
Og þangað lá auðvitað leiðin sem er stutt en brött síðasta spölinn.
Efsti hlutinn er svolítið klettóttur en ágætt að klifra hann.
Og ekki versnar útsýnið við að komast enn hærra upp.
Í gegn um þetta gat í klettunum sést hér niður í Gildalinn.
En uppi á toppnum sáum við til mannaferða.
Við nálguðumst ferðalanginn og tókum tali. Hún kvaðst vera kölluð Jenný og búa í Borgarnesi. Hún gat sagt okkur nöfnin á öllum fjöllum, tindum og dölum eins langt og augað eygði, enda notaði hún hvert tækifæri sem gæfist til að ganga á fjöll. Eftir nokkurt spjall kom það auðvitað upp að ég væri frá Siglufirði. Þá sagði hún mér að systir sín væri gift manni frá Siglufirði og að hann héti Vernharður Skarphéðinsson. Ég kannaðist auðvitað vel við þann ágæta pilt.
Nokkrum dögum síðar sá ég auglýsta á netinu gönguferð á Hafnarfjall þar sem leiðsugumaðurinn var sögð vera "Fjallkonan Jenný."
En þarna var önnur gestabók og við settum auðvitað loppufar okkar einnig í hana. Það gerði svolitla skúr sem stóð reyndar mjög stutt yfir en hreinsaði loftið og gerði það tærara ef eitthvað var.
Héðan sást ágætlega suður fyrir m.a. á Grundartanga.
Og Akranes.
Næsti tindur var framundan. Hann heitir Þverfell í bókini hans Ara Trausta, en Jenný sagði það ekki vera rétt því það fjall væri innar.
En toppnum var náð og nú var skeggrætt um hvort ætti að fara sömu leið til baka eða ganga hringinn um Gildalinn og kona niður austan megin. Hið síðara varð ofan á og við gengum á þriðja tindinn sem annað hvort heitir Þverfell að eitthvað allt annað.
Þaðan sást m.a. vel til Eiríksjökuls, en Langjökull faldi sig bak við lágskýjabakka.
Næsta fjall heitir Klausturtunguhóll og er klettum girt að mestu á þrjá vegu. Þó mun leið okkar eiga að liggja niður klauf í þessu klettabelti samkvæmt leiðarlýsingu Ara Trausta og hann tekur sérstaklega fram í bók sinni að sú leið sé auðveld.
Við vorum nú komnir að klettunum og hófum leit að niðurgönguleiðinni.
En hvernig sem við leituðum fundum við ekki leiðina.
Engin ummerki voru um mannaferðir uppi á brúninni. Hvorki nokkurt traðk né neinar merkingar.
Og eftir talsvert mikla leit gáfumst við upp og gengum upp á kollinn á Klausturtunguhólnum.
Fyrir neðan okkur sáum við eins og áður gönguslóðina í melnum, (sem er eins og mjótt strik fyrir m,iðri mynd) en hún hvarf síðan inn undir klettana og útilokað var að sjá nákvæmlega hvar. Við gengum því austur fyrir og leituðum annarrar leiðar niður af fjallinu.
Sú leið fannst að lokum og var þá gengið niður í næsta dal austan við Gildal. En sól var farin að lækka ískyggilega mikið á lofti og rétt að fara að hraða sér því lítið spennandi er að vara á fjöllum eftir að myrkur er skollið á.
Við kvöddum því fjallatindana og hröðuðum okkur niður. Til að byrja með gengum við í leir en síðan tóku við brattar skriður næsta klukkutímann. Við vorum ekki lítið fegnir þegar við náður til bíls um það bil sem kennileitin í kring um okkur voru að verða ósýnilega vegna myrkurs.
Síðasta Borgarnesmyndin var tekin og það voru tveir göngumenn sem óku heimleiðis bæði þreyttir og svangir.
Þetta kort er "fengið að láni" úr bókinni han Ara Trausta og sýnir hringleiðina um Gildal. (Græna línan.) En við fórum ef svo mætti segja vitlausan hring þ.e. upp að vestan (t.v. á kortinu.) En við blasir að leiðin um hamrabeltið virðist vera auðveld að klífa upp en illmögulegt að komast niður nema þá fyrir vel kunnuga. Þessar upplýsingar vantar sárlega í annars hina ágætu bók sem höfð var svo mjög til hliðsjónar. Við fórum því út af fyrirhugaðri gönguleið
En ég hef verið að flísaleggja alla vikuna og er að ég held kominn með króníska gigt í mjóhrygginn. Og til þess að rétta aðeins úr bakinu og hvíla hnén um stund verður farið til Húsavíkur þar sem staldrað verður við yfir helgina.
06.09.2008 09:01
Einelti eða viðtekin venja
498. Þrátt fyrir að ég hafi mikið til haldið mig á "hundraðogeitt" svæðinu að deginum til síðustu misserin, hef ég verið svo heppinn að hafa ekki fengið mikið af þess konar pósti sem garnan er handskrifaður á staðnum og síðan smeygt undir þurrkublöð ökutækja. Eiginlega hef ég oftlega furðað mig á því hve lítið hefur verið um slíkar sendingar, þrátt fyrir að ég hafi einstaka sinnum gleymt mér stund og stund. Það skal nefnilega viðurkennt að það hefur komið fyrir að ég hef hreinlega gleymt mér við iðju mína, en skyndilega áttað mig á að síðasti miði rann út fyrir svo og svo mörgum mínútum síðan. Þá hefur undantekningalítið verið stokkið af stað og fundið til eitthvað fékyns á hlaupunum til að mata hina sísvöngu þverrifu á málmhausnum sem stendur á stólpa sínum við gangstéttarbrúnina utan við húsið. En nú virðist lánsemi mín til langs tíma hreinlega hafa snúist upp í andhverfu sína og það svo um munar. Þrátt fyrir að ég hafi matað hina að því er virðist óseðjandi gjaldmæla Bílastæðasjóðs af klinki í kílóavís, hafa einkennisklæddir starfsmenn hans sem rölta um hin steinlögðu stræti miðborgarinnar talið sig hafa ástæðu til að gauka að mér smávægilegum athugasemdum undir blaðið undanfarið, mér til lítillar stemmtunnar, ánægju eða yndisauka.
Á tiltölulega stuttu tímabili nýverið má segja að hinir bláklæddu starfsmenn með derhúfurnar og pennana á lofti hafi skorað eins konar þrennu hjá mér. En þegar ég rýndi súr á svipinn í síðasta blaðið, sá ég nokkuð sem mér fannst í meira lagi undarlegt og fékk mig til að fitja örlítið upp á trýnið.
"Skyld'ann eða hún hafa tekið sér stöðu við bílgarminn og beðið eftir að miðinn rynni út, skrifað sektarmiða í grænum hvelli og hlaupið svo í burtu með skotti á milli fótanna, skíthrædd(ur) um að einhver hefði séð til hans eða hennar."
Þetta var svona nokkurn vegin fyrsta hugsun, en hugsun númer tvö fylgdi síðan í kjölfarið og var eilítið yfirvegaðri. Ég leitaði uppi hin tvö skilaboðin frá sömu stofnun og sá mér til mikillar furðu að það sem þarna gat að líta var ekkert einsdæmi.
Eins og sjá má á efsta sektarmiðanum rennur tíminn út kl. 14.27 og stöðumælavörðurinn skrifar miðann á sömu stundu þ.e. kl. 14.27 (strikað undir með rauðu.) Hann gæti því allt eins hafa þurft að leggja það á sig að bíða í einhvern tíma í þeirri "von" að geta neglt þann á litla bláa bílnum og síðan uppskorið árangur erfiðis síns. Sama gildir um þann næsta, tíminn rennur út kl. 16.59 og miðinn er hraðritaður kl. 16.59 eftir venjulegum boðleiðum. Í þriðja skiptið er allt eins og fyrr, klukkan 14.31 er tíminn úti og gæslumaður minn skellir pappírsvinnunni undir þurrkublaðið kl. 14.31.
Það vakti athygli mína við þessa skjalaskoðunina að það er aldrei sami vörður sem á í hlut sem bendir til þess að þarna séu um samantekin ráð að ræða eða hvað. Að manninn eða konuna með blokkina og pennann beri að í sama mund og tíminn er úti, er eflaust ekkert einsdæmi, en þrisvar í röð hlýtur að teljast vera það.
Nú er ég ekki maður samsæriskenninga að upplagi en hér virðast alveg einstakir hlutir vera að eiga sér stað og spurning vaknar um hvort gæti verið um einhvers konar afbrigði af einelti að ræða.
Mér var bent á að líklega gæti þetta bara verið viðtekin venja að skrifa tímann sem miðinn rennur út þó svo að skrifarann hafi borið að nokkru síðar. En hinn smámunasami "ég" bendi þá á að það hlýtur að flokkast undir skjalafals svona tæknilega séð að skrifa rangar upplýsingar á eyðublað. Opinberir starfsmenn verða nefnilega að gæta sín alveg sérlega vel á slíku því stundum hafa ómerkilegustu smáatriði haft tilhneygingu til að vaxa úr sér og endað sem risastór vandamál. Og ef þeir geta skrifað tímasetningu aftur í tímann, geta þeir þá ekki alveg eins skrifað hana fram í tímann eða skömmu áður en hann er útrunninn?
Mig minnir að ég hafi heyrt af því að laun stöðumælavarða væru árangurstengd að einhverju leyti, þ.e. þeir fengju bónus fyrir að vera harðir í skrifum sínum. Nú er ég ekki alveg viss um hvort svo er, en slíkt getur auðvitað freistað þeirra sem ístöðuminni eru til að fara lítillega fram úr sér í von um fjárhagslegan ávinning.
Í vor upplifði ég það að fá stöðumælasekt þrátt fyrir að vera réttu megin við tímalínuna. Miðinn var vel sýnilegur í glugganum en það dugði ekki til eins og sjá má hér að ofan. Tími minn rann út kl. 14.12, en sektarmiðinn var skrifaður kl. 13.47. Ég gat auðvitað ekki setið á strák mínum, hafði fyrir því að fara í höfuðstöðvarnar og leggja fram skriflega kvörtun og uppskar í framhaldinu niðurfellingu sem mér var tilkynnt bréflega nokkrum mánuðum síðar eftir að málið hafði verið tekið fyrir á fundi.
En nú er nóg komið af morgunnöldrinu að sinni og ég er vonandi tæmdur af því í bili. Ég stefni nú að því að vera alveg sérlega jákvæður það sem eftir lifir dags.
05.09.2008 01:49
Það er komið haust.
497. Í gær lagði ég leið mína á áður mér ókunnar slóðir, þó svo að þær séu ekki langt í burtu og eiginlega alltaf að færast meira og meira inn í borgina eftir því sem byggðin stækkar. Ég fór austur fyrir Rauðavatn og skammt suður frá nýju Moggahöllinni, en þar hafði mér verið sagt að væri að finna villt ribsber. Kannski ekki svo mjög villt í eðli sínu, heldur miklu frekar nokkra yfirgefna runna sem enginn hefði lengur óvéfengjanlega lögsögu yfir. Það reyndist allt saman rétt og satt nema að einhverjir hafa verið ögn fljótari á sér en ég. Runnarnir voru allir á sínum stað samkvæmt fenginni lýsingu, en berin voru hins vegar með öllu horfin. En á móti kom að það rann upp fyrir mér mikill og stór sannleikur. Hautið var mætt til starfa á þessum upphæðum Reykjavíkurlandsins, alveg samkvæmt almannakinu svo og löngu prentaðri dagskrá. En þar sem ribsberjavonir mínar brugðust með svo afgerandi hætti var ekki úr vegi að reyna einhvern vegin að bæta tjónið. Ég leit í kring um mig og sá að hér gat borið vel í veiði engu að síður. Ég var að venju með myndavélina upp á vasann og hóf heljarmikla skothríð í allflestar áttir. Afraksturinn má svo sjá hér að neðan og um hann er fátt eitt að segja nema að enn eitt sumarið er komið að fótum fram og það er greinilega farið að hausta að.
Og þegar þetta er skrifað reiknast mér til að það séu ekki nema 15 og ½ vika til jóla. Svo á ég líka bráðum afmæli og þá bætist enn eitt árið í safnið, en það er nú hin síðari ár orðið einna líkast því að fá sendinu af einhverju sem maður hefur alls ekki pantað.
En svona er lífið og það sem á eftir fer...
Ég hitti svo einn ágætan kunningja minn í gærkvöldi og sagði honum af ferðinni upp að Rauðavatni.
"Það er eins og mig minni að það séu einhver ber í garðinum hjá mér. Þú mátt tína þau öll ef þú nennir því."
Í dag var svo farið og umræddur garður kannaður. Þar reyndust vera ógrynni af berjunum rauðu. Það var týnd heil fata af ribsberjum, eða heil fimm kíló á u.þ.b. einum og hálfum tíma.
02.09.2008 22:50
Bókin hans Ara Trausta
496. Þegar ég gekk á þrjá tinda austan Siglufjarðar á föstudegi í Síldarævintýri fór það ekki fram hjá mér hve misjafnlega oft og mikið þeir eru greinilega gengnir.
Toppurinn á Hestskarðshnjúk var allur úttraðkaður og þar mátti sjá margs konar mynstur eftir skósóla að velflestum stærðum og gerðum. Slóðin sem ég fór þangað upp var líka talsvert troðin, þrátt fyrir að a.m.k. tvær algengar leiðir sé að ræða þarna upp og heildarfjöldi göngumanna hlýtur því að vera talsverður því hann skiptist á þær og e.t.v. fleiri. Vörðunni á toppnum hefur greinilega verið ágætlega við haldið af göngumönnum, þrátt fyrir að ekki sé mikið grjót að finna alveg í næsta nágrenni hennar.
Nú er Staðarhólshnjúkur ekki langt undan og ég sé ekki að það ætti að vera neitt minni ástæða að ganga á það myndarlega fjall. En þegar þangað var komið upp, var allt öðruvísi umhorfs en á hinu fyrrnefnda. Varðan var nokkru minni og greinilegt var að færri áttu leið um til að leggja sinn stein í hana. Engin fótspor var þar að sjá sem benti til þess að lítið sem ekkert hafi verið um heimsóknir eftir síðustu stórrigningu.
Þegar komið var á Hinrikshnjúk var ekki að finna nein ummerki um mannaferðir. Að vísu er toppurinn á þessu fjalli að mestu leyti ein klettaborg og það markar auðvitað illa í mosann og grjótið. En það eru þó til skjalfestar heimildir um a.m.k. einn mann sem lagði leið sína þarna upp fyrr í sumar, en ekki kæmi það mér á óvart að telja mætti þá sem drepa niður fæti árlega á Hinrikshnjúk á fingrum og tám.
Og þarna var ekki einu sinni varða.
Hálfum mánuði síðar var ég aftur staddur á Siglufirði og þá kom ágætur frændi minn í heimsókn. Hann er hin mesti göngugarpur og ég fæ stundum á tilfinninguna að hann gangi á flest þau fjöll sem á vegi hans verða.
Það var þá sem ég fékk skýringuna á öllu þessu "misgengi" ef svo mætti segja.
"Ég er að hugsa um að skreppa upp á eitthvert skemmtilegt fjall í morgunsárið" sagði hann og spurði svo í framhaldinu um hvað það væri sem heimamaðurinn mælti helst með. Ég kom með nokkrar uppástungur og þar á meðal að ganga upp Stóra Bola, upp í Leirdali og þaðan upp á Hafnarhyrnu. Þetta leist honum vel á og hann gerði sig líklegan til að leggja af stað, en þá var eins og hann myndi eftir einhverju. Hann hljóp út í bíl og kom til baka með bókina hans Ara Trausta.
"Hvar er þessi Hestskarðshnjúkur" spurði hann þegar hann gekk aftur inn og nú með opna bókina.
Ég sagði honum það og þar með var hann farinn á Hestskarðshnjúk.
Ari Trausti tekur til umfjöllunar aðeins eitt fjall við Siglufjörð og þess vegna fara líklega flestallir þangað. Enn og aftur sannast að máttur bókarinnar er mikill.
Ég tel nokkuð víst að bókin sé eins konar "Biblía" fjölmargra gönguáhugamanna, og e.t.v. vegna þess að upplýsingar af þessu tagi eru af skornum skammti. Ég hef verið spurður um hvort einhvern bækling eða einhverjar upplýsingar sé að hafa um gönguleiðir við Siglufjörð, en því miður hefur verið minna um svör en ég hefði kosið. Ég hef bent mönnum að á vefnum http://www.fjallabyggd.is/ er undirsíðan http://fjallabyggd.is/is/page/gonguleidir þar sem er að finna ágætar lýsingar á fjölmörgum gönguleiðum í Siglufirði, Héðinsfirði og Ólafsfirði, þó heilmiklu sé hægt að bæta við með tiltölulega lítilli fyrirhöfn. Eins hinn nýtilkoma og hið frábæra framtak, örnefnavefinn http://snokur.is/ sem er góð viðbót fyrir þá sem vilja vita meira um hvert þeir eru að fara. En það ganga nú ekki allir með netið upp á vasann og eftir stendur að brýn þörf er á skemmtilegum og vönduðum bæklingi með myndum og lýsingum sem ferðamenn og fjallaklifrarar gætu nálgast t.d. á bensínstöðinni, í Samkaupum, á Síldarminjasafni og eflaust fleiri stöðum. Slíkt hlýtur að teljast verðugt verkefni fyrir þá sem vilja stuðla að öflugri ferðaþjónustu á staðnum. Ég held að það hljóti að teljast óumdeilanlegt að það er gríðarlega mikil vakning á þessu sviði um land allt og Siglufjörður getur auðveldlega staðið undir því að vera sannkölluð paradís áhugafólks um gönguleiðir og útivist, lengri sem skemmri ferðir og af velflestum erfiðleika og áreynslustigum. En það þarf að markaðssetja þessa auðlind, annars gerist í besta falli lítið eitt.
- 1