Blogghistorik: 2015 Nästa sida

22.04.2015 07:35

Samtíningur


Í MINNINGU NONNA REBB

 

Ég lagði leið mína vestur á Þingeyri við Dýrafjörð í gærmorgun til þess að fylgja góðum manni, Jón Sigurssyni síðasta sinn spöl sem lá úr guðshúsinu í friðargarðinn, en hann hefur nú kvatt allt sitt fólk hinsta sinni og hlotið sína ærlegu hvíld eftir langan jarðvistardag. Hann var sjálfstæður íslendingur í hugsun og gjörðum, útsjónasamur vinnuþjarkur sem trúði fyrst og síðast á eigin atorkusemi, hann var tengdafaðir minn í hartnær 28 ár.

Hann byrjaði ungur á sjónum, fyrst á skútum síðan á línu, netum og svo síðutogurum. Hann ætlaði síðan að prófa að fara eins og einn túr á skuttogara, en sá túr entist honum í 11 ár. Sumum sem þekkja til Jóns er væntanlega enn í fersku minni þegar Helgi Seljan heimsótti Jón á dvalarheimilinu Tjörn þegar flytja átti vistmenn nauðuga til Ísafjarðar í hagræðingarskyni. Þá sagði Jón að þeir yrðu þá að bera sig úr húsi og var fastmæltur í meira lagi. Þarna ræddust við tveir sjóarar sem skildu greinilega hvorn annan og Jón rifjaði upp skútutímabilið og lét þess getið að það hefði verið mikil bylting þegar gúmmívettlingarnir komu til sögunnar. Ja hérna, og "við yngra fólkið" sem hélt að þeir hefðu alltaf verið til.
Sjá: http://beta.ruv.is/frett/haett-vid-hreppaflutninga

Hann fékk viðurnefni sitt sem hann kunni bara vel við og var eiginlega nokkuð stoltur af. Nonni Rebb var hann oft kallaður af því hann var dugandi refaskytta, en alls ekki af því að hann væri einhver refur í viðskiptum nema síður væri.

Á meðfylgjandi mynd sem var tekinn þ. 17. júní 2007 þegar við fengum okkur svolítinn bíltúr um fjörðinn, er hann fyrir utan Hvamm í Dýrafirði þar sem hann fæddist og bjó síðar um tíma, því hann var líka bóndi lengst af sinni ævi jafnframt því að stunda sjóinn. Þar stendur hann við það sem eftir er af gamla traktornum og er að velta fyrir sér hvort þarna sé kominn hinn sami gripur og hann keypti þegar hann var nýlega byrjaður búskap á hluta jarðarinnar nokkru fyrir miðja síðustu öld.

Við siglfirðingar könnumst vel við aðra alþýðuhetju sem sem fæddist á þessum sama bæ 23 árum á undan Nonna Rebb, en það var Gústi guðsmaður.
Jón Sigurðsson fæddist árið 1920 og var því 95 ára þegar hann lést.

Blessuð sé hans minning.



LEÓ LEÓ OG LEÓ.

Síðast þegar við hittumst þrír nafnar, þrjár kynslóðir eða þrjú ljón eins og einn okkar orðaði það, fannst okkur full ástæða til að festa fund okkar í flögu. Það gerist því miður allt of sjaldan þrátt fyrir að ekki sé neitt sérlega langt á milli Hafnarfjarðar og Ásbrúar sem einhver gæti auðvitað eflaust hugsað sér að kalla Keflavík eða bara Völlinn.
Frá vinstri talið: Leó Ingi Leósson, Leó Marínó Leósson og svo sá sem þetta ritar; Leó R. Ólason.
-
(Einn góður með sjálfan sig og sína).



GUNNA FINNA - BLESSUÐ SÉ HENNAR MINNING


En spurningin sem fylgdi myndinni á facebook var: Er þetta ekki ein flottasta gella sem Siglufjörður hefur átt?

Út frá henni urðu 129 like fyrir utan þar sem hún birtist á öðrum síðum, sjö deilingar og endalaus comment. 

Svarið hlýtur því að teljast jákvætt. 



"FLÖSKUTÍMABILIÐ"

 

Rakst á hana þessa uppi í skáp á Aðalgötunni í haust, en hef því miður ekki minnstu hugmynd um hver tók hana. Lýsi því hér með eftir viðkomandi. Hún er mjög sennilega frá árabilinu 1976-77 eða 79-83, því þá átti ég þessi bláu djammjakkaföt með vesti og alles, og þá vorum við að spila saman þessir þrír. Við höfðum yfirleitt með okkur flöskusettið ef verið var að spila á einhverju þorrablótinu eða þess konar samkomu því eins og eitt ókeypis aukaskemmtiatriði var undantekningalaust vel þegið af skemmtinefndunum. Svo kom það stöku sinnum fyrir að aðrar flöskur slæddust með sem var þá ekki spilað á, heldur er miklu nær lagi að segja að þær hafi spilað með okkkur. Myndin er því miður orðin all nokkuð máð og segja má að áferðin á henni hafi svolítið orðið samferða þeim sem hún er af, því enginn okkar er lengur með dökkt og mikið hár svo dæmi sé tekið.



BANNÁRIN 1915-1989


Rakst á þessa skemmtilegu mynd á netinu og fór því að grúska svolítið í því tímabili í sögu okkar íslendinga sem oftast voru nefnd Bannárin, en þau stóðu yfir í 20 ár (7 eða jafnvel 74 ár eftir því hvernig á málið er litið). Lög um áfengisbann voru sett eftir þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór árið 1908 þar sem bannliðar urðu ofan á og fengu 60% greiddra atkvæða. Í ár eru liðin 100 ár frá því að þau öðluðust fullt gildi og algjört áfengisbann gekk í gildi eftir nokkurra ára aðlögun. Bannið tók til þess að framleiða, selja og neyta áfengra drykkja. Slakað var á banninu og sala léttra vína eða svokallaðra Spánarvína var þó leyfð aftur árið 1922 til þess að liðka fyrir saltfisksölu til Spánverja. Áfengisbannið var síðan afnumið 1935 en þó ekki að fullu, því segja má að það hafi ekki gerst fyrr en þ. 1. mars árið 1989 þegar bjórinn var leyfður. Áfengisauglýsingar voru bannaðar árið 1928 og eru þau lög enn í gildi að miklu leyti óbreytt.

Sigurður Grímsson lögfræðingur var þingfréttaritari árið 1922 og lýsti því eitt sinn í viðtali hvernig aðstæður höfðu verið áður en banninu var aflétt.

Á þingritaraárum mínum var ég viðstaddur þann sögufræga fund sem samþykkti innflutning á Spánarvínunum. Þá hafði verið algert vínbann í nokkur ár með hörmulegum afleiðingum, smygli, þefi, sektum, þrætum, kærum og bruggi. Þá varð maður að bjarga sér á ýmsa lund t.d. með svokölluðum hundaskömmtum hjá læknum, en það voru 210 grömm af hreinum spíra. En þessi fundur var ákaflega skemmtilegur. Forseti sameinaðs þings, Magnús Kristjánsson, var alltaf að ruglast í ríminu, og Benedikt Sveinsson og Guðmundur Björnsson landlæknir, leiðréttu hann í sífellu, spruttu á fætur og kölluðu til skiptis: "Herra forseti,... herra forseti." Þeir voru báðir góðglaðir, og það sem verra var olíulampinn í skrifstofu landlæknis hafði ósað allmikið og bar Guðmundur þess ljós merki. Jónas frá Hriflu og Tryggvi Þórhallsson kusu gegn afléttingu bannsins árið 1922. Jónas sagði í grein í Tímanum árið 1939.

"Þegar Spánarvínin voru leyfð, var ég annar af þeim tveim þingmönnum, sem greiddi atkvæði gegn undanhaldinu við Spánverja. Og árið 1928 undirbjó ég hina síðustu sókn, sem Alþingi gerði í löggjöf um áfengismálin. Með tilstyrk þeirrar löggjafar var læknabrennivínið og skipabrennivínið upprætt. En þjóðin þoldi ekki þetta aðhald. Jafnvel ungmennafélögin höfðu afnumið bindindisheitið, og tvær stærstu hátíðir félaganna voru orðnar landskunnar fyrir opinbera stórdrykkju".

Sagt var að á Siglufirði væru starfandi 27 (aðrir sögðu 23) leynivínknæpur þegar þær voru flestar á þessum árum og margar hverjar á vægast sagt undarlegum stöðum. Til að komast í sumar þeirra þurfti að þekkja vel til leiðarinnar, þræða hálfgerða krákustíga milli tunnustafla og bryggjuskúra og stundum hefur tunnunum eflaust verið umstaflað og þá breyttist auðvitað leynistígurinn.



SIGLUFJÖRÐUR FYRIR 100 ÁRUM.


Einn mesti athafna og útflutningsbær landsins fyrri hluta síðustu aldar, 20% alls gjaldeyris sem þjóðin aflaði kom til vegna síldarvinnslu í bænum og hann var því veigamikill þáttur í efnahagslegri uppbyggingu þjóðarbúsins. Þremur árum síðar hlaut Siglufjörður kaupstaðarréttindi en áður höfðu aðeins Reykjavík, Akureyri, Ísafjörður, Seyðisfjörður og Hafnarfjörður hlotið slík réttindi. Síðan komu Vestmannaeyjar sama ár og eftir það Neskaupsstaður 1928, Akranes 1941, Sauðárkrókur 1947, Keflavík og Húsavík 1949 og Kópavogur 1955.

Eins og sjá má vantar ýmis kennileiti á myndina sem okkur nútímabörnunum kann auðvitað að koma nokkuð undarlega fyrir sjónir. Þarna er að vísu Norska Sjómannaheimilið sem nú hýsir Tónskólann og fiskbúðina hans Eysteins. Beint á móti því er gamla húsið sem Aage Schiöth hóf starfsemi sína í, en var fært á baklóð Apóteksins árið 1929 og rifið upp úr 1980. Það virðist vera efsta hús við götuna norðan megin. Eða kannski það neðsta því á þessum árum var talið í hina áttina, þ.e. SPS hefði þá væntanlega verið númer eitt og Valgeir númer þrjátíuogeitthvað. Mér sýnist Gránugata 14 eða Vökuhúsið vera komið þarna, en Gránugatan sjálf nær ekki mikið upp fyrir Norðurgötu því þar fyrir ofan tekur fjaran við. Egils Síld væri því úti í sjó því vogurinn þar sem bátadokkin er, nær að grunni ráðhússins þar sem það stendur í dag. Sama gildir um húsin þar fyrir neðan s.s. Ísafold og öll hin. Allt á kafi í sjó. Annars er lítið mál að týna sér yfir svona myndum, því þarna er m.a. fjöldi bygginga sem maður áttar sig ekkert á hverjar eru (eða voru).

  • 1

Namn:

Leó R. Ólason

Plats:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Antal sidvisningar idag: 229
Antal unika besökare idag: 17
Antal sidvisningar igår: 289
Antal unika besökare igår: 9
Totalt antal sidvisningar: 513128
Antal unika besökare totalt: 55415
Uppdaterat antal: 14.1.2025 00:58:28
clockhere

Länkar