Blogghistorik: 2009 N/A Blog|Month_10
20.10.2009 09:34
Ein gömul (en ekkert sérlega góð) og önnur af videótökuvél ásamt fylgisveini.
591. Ég starði í fyrstu lengi á þessa furðuveru og reyndi að átta mig á hvar eða jafnvel hvort ég hefði séð hana nokkurs staðar áður. Það var Siglfirðingurinn, Píparinn, Flísarinn, Hjálmurinn og ofurtrommarinn Helgi Svavar Helgason sem sendi mér þessa mynd ásamt athugasemdum sem ég ætla ekkert að hafa eftir hérna. En það má hins vegar fylgja að honum fannst hún mun fyndnari en mér, - en samt...
Ég hef undanfarið haldið til á góðum stað í Akrahreppi í Skagafirði, en í dag verður allnokkur breyting á því haldið verður suður á bóginn seinni partinn.
Bloggað úr fjóstölvunni á Flugumýri.
-
Skömmu síðar bættist við önnur tiltölulega svipuð sending en úr annarri átt. Hún kom frá Steingrími (sameign okkar Siglfirðinga) Kristins og mun vera tekin upp úr 1980 í Bíóinu þar sem 1. maí hátíðahöld fóru fram. Fyrir utan manninn á myndinni má sjá videótökuvél sem er talsvert frábrugðin "2007" týpunni, en þó mikill og góður gripur á sínum tíma. Þessa ofurgræju keypti af Birgi Kristmundssyni Fáskrúðsfirðing sem var einn af gömlu videókóngunum á árum áður.
19.10.2009 11:11
Nokkur orð um kornrækt í Skagafirði.
590. Í fyrstu viku októbermánaðar var farið að huga að því að koma kornuppskerunni í hús. Við bæinn Réttarholt sem er vestan við þann hluta Siglufjarðarvegar sem liggur um Blönduhlíð og gegnt Flugumýri, er ágæt aðstaða til að athafna sig og sekkja kornið.
Ekki skemmdi að fjallahringurinn skartaði sínu fegursta í blíðunni og Mælifellshnjúkurinn vakti yfir héraðinu.
Depill horfir forviða á ferlíkið sem nálgast og hikar við að gelta að þessu undarlega faratæki.
Þreskivélin er svolítið ógnvænleg að sjá þar sem hún nálgast. Hún er eins og skrímsli með ógnarstóran hvoft, alsettan beittum tönnum.
Talið er að korn hafi fyrst verið ræktað fyrir u.þ.b. 10.000 árum. Um kornrækt á Íslandi er það að segja að landnámsmenn létu það verða eitt af sínum fyrstu verkum að sá korni við komuna til landsins. Eftir eða upp úr þjóðveldisöld fer litlum sögum af kornrækt og mun hún hafa að mestu lagst af, til að byrja með og kannski lengst af vegna kaldara veðurfars. Öldum saman voru þó gerðar ræktunartilraunir með einhverra ára eða áratuga millibili sem heppnuðust yfirleitt illa. Það var svo árið 1981 sem segja má að tilraunir Austur-Landeyinga hafi tekist með ágætum og bygg hefur verið ræktað hér óslitið síðan þá. Nú eru kornræktarbændur orðnir 90-100 talsins í þremur landsfjórðungum.
Það er farið hring eftir hring á skákinni þar til ekkert er eftir.
Hálmurinn verður eftir á akrinum en kornið safnast í tank þreskivélarinnar og er síðan blásið á sturtuvagna. Þeir sem aka því síðan þangað þar sem það er sýrt og sekkjað.
Eitthvað hefur komið upp á og það þarf að skipta um ljá.
Kornið er rotvarið með própíonsýru sem hér er komið með á athafnasvæðið.
Ingimar gerir klárt fyrir íblöndun.
Það gerist þegar byggið er á leið af sturtuvagninum sem sækir það út á akurinn og í gegn um snígilinn sem flytur það til sekkjunar.
Það þarf að jafna í sekkjum og gæta þess að þeir yfirfyllist ekki, en uppgufunin úr nýsýrðu korninu fer ekki vel í augu.
"Fráfærur" eða hvað? Eftir því sem á daginn leið fjölgaði sekkjunum á planinu.
Galvaskir kornbændur pósa fyrir manninn með myndavélina, þeir Ingólfur á Dýrfinnustöðum, Jón í Réttarholti og Ingimar á Flugumýri.
Árið 2005 var bygg af ökrum Leirár í Leirársveit fyrst notað í Þorrabjór sem framleiddur var hjá Ölgerð Egils Skallagrímssonar. Þorrabjórnum var síðan tappað á hvorki meira né minna en 45 þúsund flöskur sem eru væntanlega allar orðnar tómar þegar þetta er skrifað.
Afurðirnar fluttar heim í hlöðu...
...og kornið valsað.
Jón Ingimarsson stendur við skammtarann sem er fullur af nývölsuðu bygginu og hún er alveg með ólíkindum tæknin. Lesari sem tengist róbótanum úthlutar hverri kú hæfilegum skammti af korni, en þó ekki fyrr en eftir að hún hefur verið mjólkuð. Ekki þýðir fyrir fjósbúa með tölvukubb festan við eyrað að reyna að svindla á þessu kerfi því tölvutæknin lætur ekki að sér hæða, a.m.k. meðan enginn er "errorinn".
Ætli það sé hægt að baka úr þessu hráefni? Nei líklega færi miklu betur á að nota það við bjórgerð.
En henni þessari finnst eflaust allar slíkar vangaveltur óþarfar og eiginlega alveg út í hött, enda tilheyrir hún markhóp númer eitt.
Og dagur er að kvöldi kominn í Blönduhlíðinni. Svört nóttin hefur komið sér makindalega fyrir á hinum Skagfirsku kornökrun og mun bíða þar næstu dagrenningar.
En þegar þessi pistill er ritaður og myndskreyttur, er ég aftur kominn norður á þennan ágæta stað og sestur við blogggerð við tölvuna í fjósinu á Flugumýri.
18.10.2009 04:36
Axel kveður
589. Um nýliðna helgi var komið að enn einum vendipunktinum í tónlistarbröltinu, því "Vanir Menn" þ.e. dúóið Axel Einarsson og ég spiluðum saman á Catalinu að öllum líkindum í síðasta sinn. Ástæðan er sú að Fáskrúðsfirðingurinn Axel hefur pakkað saman öllum sínum pjönkum og sent til Svíþjóðar þar sem hann hyggst setjast að. Hann hefur einnig fest kaup á húsi þarlendis sem er því sem næst við enda Eyrarsundsbrúarinnar gegnt Köben og er þessar vikurnar að koma sér þar fyrir.
Öll tæki og tól sem tilheyrðu Stúdeó Stöðinni voru skrúuð í sundur og þeim pakkað í gám, en nú er unnið að því að koma því aftur saman úti í Svíaríki.
Ekki er hægt að segja annað en að samstarfið hafi gengið afburða vel og afraksturinn hafi verið verulegur miðað við hvað fyrir hlutunum var haft. Algengt var til dæmis að annar hvor okkar kæmist yfir texta sem var prentaður út í tveimur eintökum (eitt á mann), síðan var farið yfir hljómagang lagsins í bílnum á leiðinni á áfangastað og lagið spilað um kvöldið. Annað sem var svo skemmtilega jákvætt við Axel var óttaleysi hans við að prófa nánast hvaða lag sem var undirbúningslítið eða laust, hvort sem það var gert á fámennu skralli eða fjölmennri og virðulegri samkomu í fagurlega skreyttum salarkynnum. Skipti þá litlu hvort um var að ræða eitthvað sem hann hafði spilað fyrir 30 árum og þurfti að sækja inn í mistur hugans og lágþokubakka löngu liðins tíma, eða eitthvað splunkunýtt sem var að ganga þann daginn.
Eitt af lögunum sem við Axel höfum tekið fyrir undanfarið er "Nú er gaman" með hljómsveitinni Deildarbungubræðrum sem voru geysivinsælir upp úr 1970. Það er hins vegar ekki fyrr en fyrst núna að ég las þennan óborganlega texta og velti fyrir mér "hinni dýpri merkingu" hans. Niðurstaðan er að það er líklega auðveldast að hafa bara gaman af og komast í gott skap við lesturinn.
Deildarbungubræður gáfu út plötuna "Saga til næsta bæjar" árið 1976 og "Enn á jörðinni" ári síðar.
En til að fleiri en ég geti notið þeirrar ánægju að finna sér svolítinn húmorsvott í kreppunni er auðvitað nauðsynlegt að skjóta umræddu ljóði hérna að.
Nú er gaman.
Ég held ég elski Stínu samt er ég ekki viss,
því aðra fallegri ég sá í gær.
Ég arka nú um bæinn og vonast hana að sjá,
og viti menn brátt stendur hún mér hjá.
Og nú er gaman,
kærastan og ég hér saman,
leiðumst um bæinn hönd í hönd,
um draumalönd, - nú er gaman.
Því nú er gaman,
kærastan og ég hér saman,
leiðumst um bæinn hönd í hönd,
um draumalönd, - nú gaman er.
Ég reyti af mér brandara og hvísla ástarorð,
hún segist vera til í að fara á fast
Þó langt sé liðið kvöldið á er hvorugt okkar þreytt,
og hún segist vera afslöppuð hjá nér.
Ó hve unaðsleg,
þessi stund er mér,
er ég hugsa til þín.
Finn mig knúinn til,
til þess að faðma þig,
hamingjan mér hliðholl er.
Hmmm... Er hægt að finna svolítinn gelgjutón einhvers staðar?
Það er auðvitað skondnara en flest annað þegar maður hugsar til þess að þeir sem þetta "frömdu" á sínum tíma eru nú um sextugt...
Textann gerði annars Árni Sigurðsson sem var söngvari Deildarbungubræðra en lagið er danskt.
Um þessa vinsælu sveitaballahlómsveit sem stundum hefur verið talað um sem eins konar grínband er ýmislegt hægt að segja. Til að byrja með var tilurðin og upphafið mjög sérstök, því hljómsveitin var stofnuð á Jökuldalnum þar sem Eikin átti að spila í Valaskjálf á Egilstöðum um kvöldið. Á þessum tíma var Axel umboðsmaður Eikarinnar og hugmyndin var þróuð svolítið nánar síðasta spölinn austur. Hún fólst í því að þeir sem í bílnum voru flestir nýttir til verksins og spiluðu þá Eikarmenn á önnur hljóðfæri en þeir gerðu alla jafna. Til dæmis settist gítarhetjan Steini Magg við trommusettið, umoðsmaðurinn Axel tók til við gítarinn og bílstjórinn lék á bassann. Þegar á áfangastað var komið voru menn nokkurn veginn tilbúnir með u.þ.b. 20 lög, en uppistaðan voru laufléttirléttir rokkslagarar og mikið af kæruleysi og glensi. Þetta var eins og þeir sem þekktu til Eikarinnar vita, eins langt frá tónlistarstíl hennar eins og vera má en svínvirkaði. Um nafngiftina er það að segja að á leiðinni austur var ekið fram hjá sveitarbæ sem heitir Deildartunga og var nafninu lítillega breytt til að framkalla það sveitalega "bomsufíl" sem hugmyndin um Deildarbungubræðraþemað gekk út á. Það er skemmst frá því að segja að bandið sló í gegn þegar það kom fram í pásunni og svo fór að það kom fram aftur þegar lengra leið á ballið sem það kláraði og gæðasveitin Eik komst ekki aftur að á pallinum. Eftir þetta varð ekki aftur snúið og þróaðist sveitin á sínum eigin forsendum til frægðar og frama.
Nokkrir harðir poppnaglar hafa haft lengri eða skemmri viðdvöl í þessu "bræðrabandi" og má þar t.d. nefna Lárus Gríms, Jón Ragnars, Harald Þorsteins, Óla Kolbeins, Óla Garðars og bassaleikarann Kristinn Sigurjónsson eða Didda sem núna rekur ísbúðina í Kringlunni.
Hins vegar vil ég geta þess að ágæta umfjöllun um Eikina er að finna á vef Steins Skaptasonar en slóðin þangað er...
http://steinnskaptason.blog.is/blog/steinnskaptason/entry/391618/ og http://steinnskaptason.blog.is/blog/steinnskaptason/entry/401563/
En í beinu framhaldi af þessum textapælingunum hér að ofan kemur eftirfarandi vísa upp í hugann, en hún hefur verið eignuð ekki ómerkari eðaltöffara en Ragga Bjarna.
Diddi litli datt í dý
og meiddi sig í fótnum.
Hann varð aldrei upp frá því
jafngóður í fótnum.
Menn eiga það nefnilega til í þessum bransa rétt eins og í öðrum "brönsum" að fara annað slagið á svolítið flug.
En nú er ég kominn langt frá efninu eins og ég á svo sem vanda til.
Ég hef áður minnst á að Axel á sér talsvert skrautlegan feril að baki í poppinu og reyndar mun fjölskrúðugari á allan hátt en margurinn veit af. Hlómsveitin Icecross (1973) var líklega fyrsta íslenska poppútrásin, en með honum í þeirri sveit voru þeir Ómar Óskarsson (Pops) og Ásgeir Óskarsson (Stuðmenn). Þeir æfðu sitt prógram sem innihélt eingöngu frumsamið þungt rokk, sigldu út með Gullfossi og gerðust þar hústökumenn í fríríkinu Krisjaníu. Þeir spiluðu talsvert á hinum merka tónleika og veitingastað Revolution og m.a. á móti danska stórrokkbandinu Gasoline þar sem aðalmaðurinn var sjálfur Kim Larsen. Algengt var að erlendar hljómsveitir kæmu á þennan stað eftir tónleika til að kynna sér hina "dönsku" rokkmenningu. Axel sagði mér m.a. frá því að eitt sinn þegar hann leit upp eftir langt inproviserað gítarsóló sat hljómsveitin "Who" eins og hún lagði sig á borði næst sviðinu og fylgdist grannt með þessu íslenska bandi. Einhverju síðar eftir annað sóló sátu fjórir félagar við þetta sama borð og sperrtu eyrun. Það voru þeir Crosby, Stills, Nash og Yong.
Icecross starfaði í u.þ.b. 8 mánuði en leystust síðan upp og komu aftur heim með Gullfossi. Þegar þeir fóru út höfðu þeir keypt sér gamlan Benz sendibíl, en við heimkomuna lagði tollurinn hald á bifreiðina og hélt henni í þrjá daga til skoðunnar. Mun hið "rokksýrulega" útlit þeirra félaga eflaust hafa haft sitt að segja og sagt var að þeir ágætu enbættismenn þar á bæ hafi tekið þrjá daga að skrúa bílinn í sundur og setja hann saman aftur.
Eftir Icecross ævintýrið fór Axel til BNA og túraði þar m.a. um nokkurra mánaða skeið með hinni einu sönnu Shady Owens.
Næst tók við Tilverutímabilið en hljómsveitina Tilveru (1969-1971) stofnaði hann ásamt Engilbert Jensen sem kom úr Hljómum, Rúnari Gunnarssyni úr Dátum, Jóhanni Kristjánssyni bassaleikara úr Flowers og Ólafi Garðarssyni sem hafði verið í Óðmönnum. Fleiri höfðu einnig viðdvöl í Tilveru s.s. Gunnar Hermannsson bassaleikari og Herbert Guðmundsson söngvari.
Axel gerðist umoðsmaður Eikarinnar en út úr því ofurbandi spruttu áðurnefndir Deildarbungubræður fyrirvaralaust og því sem næst fullskapaðir.
Þá hefur hann starfað um lengri eða skemmri tíma í Sálinni (hinni eldri), Persónu, Landshornarokkurum, Haukum, Freeport og núna síðast Vönum mönnum. En flestir þekkja líklega Axel vegna samstarfs við Jóhann G. Jóhansson þegar þeir sömdu saman lagið "Hjálpum þeim", en svo undarlegt sem það kann að vera þá samdi Axel lagið en lagahöfundurinn Jóhann að þessu sinni textann.
Hebbi Guðmunds með okkur Axel á Catalinu í gærkvöldi (17.okt.)
Í lokasprettinum á Catalinu í gærkvöldi fengum við óvæntan gest upp á pall. Þar var mættur Herbert Guðmundsson í sínu besta formi og var þá snarlega skipt yfir í Bítla og Stones sem söngvarinn kann utan að rétt eins og Faðirvorið, en það má gjarnan geta þess að hann kann það alveg upp á tíu. Það var ekki að sökum að spyrja að dansgleði gestanna sem var þó ærin fyrir, jókst enn meira og það um talsvert margar "stuðeiningar". Ég er ekki frá því að klukkan hafi eitthvað "litilsháttar" verið farin að halla í fjögur þegar síðustu tónar Lennonlagsins "Imagine" dóu út.
Ég vil þakka Axel Einarssyni samstarfið sem staðið hefur undanfarin þrjú ár og verið einkar ánægjulegt og farsælt í alla staði, þó svo það sé auðvitað aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér.
10.10.2009 00:06
Laufskálarétt 2009
588. Laugardaginn 26. sept. var ég staddur á Flugumýri, en þann hinn sama dag var heilmikið að gerast í næsta nágrenni. Það er hefð fyrir því að Laufskálaréttir beri upp á síðustu helgi septembermánaðar og því var engin spurning um hvernig verja ætti deginum. Þar sem Bjarni B. sem var samferðarmaður
Það var reyndar leiðindaveður þennan dag, hríðarhraglandi og skítakuldi. Það gerði nokkuð þétt él annað slagið fram eftir deginum og margir leituðu skjóls í heitum bílunum á meðan þau gengu yfir. Ég átti í endalausum vandræðum með myndavélina mina því linsan vildi hvorki opnast né lokast að fullu og kenndi ég kuldanum um.
Þarna voru samankomin um 500 hross og 2000 manns í þessum stærstu og mestu stóðréttum landsins sem jafnframt eru þær mest og best sóttu.
En það var mikið fjör í réttunum þrátt fyrir óheppilegt veðurfarið og ég hef aldrei séð eða upplifað neitt svipaða réttarstemningu og þarna var ríkjandi. Það var mikið sungið, trallað og svolítið sopið á.
Ég rakst á skemmtilegan greinarstúf efir Birgi Haraldsson bónda á Bakka í Viðvíkursveit og leyfi mér að hafa hann eftir í von um að ég komist upp með "glæpinn".
Frá ómunatíð hafa bændur í Hóla- og Viðvíkurhreppum hinum fornu rekið búfé sitt á Kolbeinsdalsafrétt. Elstu heimildir telja að búfé af þessu svæði hafi verið réttað í rétt sem stóð í Grófinni á milli dalanna (Kolbeinsdals og Hjaltadals) skammt vestan við núverandi afréttarhlið. Mikil dulúð hvílir yfir þessari rétt og sögur af henni með þjóðsagnablæ.
Árið 1818 er rétt byggð á Heljareyrum undir Heljarfjalli í Kolbeinsdal; var hún öll hlaðin úr grjóti með stórum almenningi og 15 dilkum. Upp úr 1920 fóru menn að ræða það af fullri alvöru að flytja réttina niður í byggð og smala til hennar af öllu svæðinu. Beindust augu manna fljótt að Laufskálaholti í landi Brekkukots (nú Laufskálar) en þrátt fyrir margra ára þóf náðist ekki að byggja hana þar. Sumarið 1929 var byggð timburrétt á Brekkukotseyrum (nokkru sunnar en núverandi rétt stendur) með 22 dilkum. Þessi rétt reyndist illa og var að verða ónothæf um 1950.
Aftur beindust augu manna að Laufskálaholtinu. Eftir fjögurra ára baráttu með ótal fundum, sendinefndum og viðtölum virtist allt komið í strand, en þá bauð Páll Jónsson, bóndi í Brekkukoti, land undir réttina og nátthaga á Laufskálaholti, endurgjaldslaust.
Bygging núverandi réttar hófst 2. júní 1954, en grunnur var jafnaður haustið áður. Byggingarnefnd skipuðu Sigurmon Hartmannsson, Kolkuósi, sem var formaður, Friðbjörn Traustason, Hólum og Pétur Runólfsson, Efra-Ási. Teikningu gerði Teiknistofa landbúnaðarins. Réttin er öll steinsteypt og stendur á stólpum en annars holt undir veggi, almenningur er láréttur en dilkarnir 23 halla lítilega frá miðju.
Áætlaður kostnaður var 150.þúsund en sú áætlun stóðst ekki og var endanlegur kostnaður kr. 201.989,55.
Heimamenn sáu um grunnin undir verkstjórn Hermanns Sveinssonar á Miklahóli . Svitnuðu margir við það verk því handgrafa þurfti fyrir öllum stöplum svo og almenningi og voru verkfærin skóflur, hakar og járnkarlar. Stöplarnir voru steyptir í mótum sem smíðuð voru úr gömlu réttinni, öll steypa var handhrærð á flekum og vatn sótt í mjólkurbrúsum. Um veggjabyggingu sá Kaupfélag Skagfirðinga og var yfirsmiður Guðmundur Sigurðsson.
Margir spáðu illa fyrir þessu verki, töldu að það yrði aldrei búið og svo myndi réttin hrynja. En með þrotlausri vinnu tókst að ljúka verkinu á réttum tíma og var réttin vígð þann 20 september 1954 að viðstöddu miklu fjölmenni.
Einn góðviðrisdag, á meðan á verkinu stóð, kallaði Friðbjörn á Hólum okkur saman, sem þarna vorum að störfum, og sagði: "Piltar. Þessi rétt á að heita Laufskálarétt, ekki Laufskálaholtsrétt. Þið heyrið það".
Síðan hefur Laufskálarétt staðið undir nafni í 50 ár, sér og sínum til sóma. Mjög hægur stígandi var í gestakomu í réttina framan af, en smátt og smátt laðaði stóðréttin að sér fleira fólk og um tíma var hrossaverslun allfjörleg þótt dregið hafi úr því á seinni tíð. Gestir sem nú koma í stóðréttina árlega skipta þúsundum , enda er Laufskálarétt af mörgum talin drottning stóðréttanna.
Líklega eru þessir að hita upp fyrir réttarballið sem var haldið um kvöldið í reiðhöllinni að Svaðastöðum þar sem mættu á þriðja þúsund manns.
Svo eru alltaf einhverjir sem finna sig best í þjónustuhlutverkinu og ekki skemmir ef hægt er að skrapa saman nokkrum aurum í leiðinni. Þessi opnaði afturhlerann á bílnum og seldi grimmt, enda er góður harðfiskur ómissndi við aðstæður sem þessar.
Strákurinn með möppuna snéri sér að mér og spurði hvort hann mætti leggja fyrir mig nokkrar spurningar. Hann kvaðst vera nemandi við Hólaskóla og yfir stæði könnun sem tengdist ferðamennsku. Ég var auðvitað alveg til í það og svaraði í kjölfarið nokkrum spurningum, m.a. hvort ég væri hestamaður.
Einn kaldur á mann í skítakulda. Brrrrrrrr...
Og það voru ekki bara hestar og menn sem sóttu Laufskálarétt.
Við Bjarni hittum vin okkar og félaga úr hestaferðinni miklu frá liðnu sumri sem farin var um Snæfellsnes sem fagnaði okkur vel og innilega. Þarna var Þórólfur bóndi, hið gangandi vísnasafn og gleðimaður frá Hjaltastöðum mættur, en hann lætur sig aldrei vanta við Laufskálaréttir.
Þessum piltum virtist ekki vera neitt átakanlega kalt, enda líklega ýmsu vanir ef það var rétt sem einhver nærstaddur hafði á orði þ.e. að þarna væru Grænlendingarnir mættir. Og þá er líklega fullkomlega eðlilegt að þeir haldi fast í baukana sína, því á dögunum var kynnt verðkönnun á bjór á veitingahúsum víða um lönd. Þar sagði að ölið væri dýrast á Grænlandi af öllum löndum í "Evrópu" eða 1500-2000 kr. Reyndar tilheyrði Grænland Ameríku í landafræðinni sem ég lærði í denn, en er að vísu undir stjórn gömlu herraþjóðarinnar okkar þ.e. Dana svo málið verður því e.t.v. pínulítið loðið og teygjanlegt fyrir vikið.
Er þessi ekki með réttu græjurnar eða kannski "réttargræjurnar" þ.e. hatt, lopapeysu og svo auðvitað peli innan seilingar.
Þeir kunnu sér ekki læti fyrir kæti þessir drengir og hoppuðu saman hring eftir hring. Fyrir vikið var alveg ómögulegt að ná þeim óhreyfðum á mynd, en við látum hana nú samt fljóta með þrátt fyrir augljósa annmarka.
Bogga og vinkonur hennar voru líka á of mikilli hreyfingu fyrir myndavél eins og sjá má. En það verður að hafa þær með, enda eru þarna á ferðinni kátar stelpur í góðri sveiflu.
Hann guðaði á gluggann Bjarna megin og var "hleypt inn" en kíkti bara aðeins í gættina af því að hann var með hest með sér. Ég tel mig hins vegar vita að hann sé Pálsson og frá Varmahlíð.
Þegar líða tók á daginn fór bæði mönnum og hestum fækkandi. Þeir tíndust í burt einn og einn rétt eins og jólasveinarnir þegar jólin eru búin og allt tilstandið er að baki.
Norpað við að kveikja í nagla í norðangarra og næðingi.
Við Bjarni vorum komnir inn í bíl og bjuggumst til heimferðar þegar honum datt í hug að gaman væri að fá eina mynd af sér inni í réttinni. Það var auðvitað hin ágætasta hugmynd og við fórum aftur út til að hrinda henni í framkvæmd. Þegar þangað kom stökk Bjarni inn fyrir réttarvegginn en ég setti mig í stellingar og skaut nokkrum léttum linsuskotum að honum. Að því loknu gengum við aftur til bíls og ég sá Bjarna setjast farþegamegin inn í
"Heldurðu að þú eigir nokkuð að vera að keyra bíl svona á þig kominn? Viltu ekki bara koma út fyrir og fá þér einn gráan með mér"?
Hann lyfti pelanum eins og hann vildi skála fyrir einhverju, en ég skildi ekkert í hvað hann var að fara. Reyndar fannst mér þessi athugasemd hans svolítið kjánaleg því ég er þess fullviss að ég lít ekkert mjög brennivínslega út.
"Komdu nú og fáum okkur einn léttan, því það er miklu betra að ég láti konuna keyra en þig".
Nú læddist að mér illur grunur og ég horfði betur í kring um mig. Í bílnum við hliðina sat Bjarni hinn rólegasti, talaði í gemsann sinn og beið eftir bílstjóranum sínum. Ég fann fyrir skyndilegri hitaaukningu í andliti og vissi satt best að segja ekki alveg hvernig ég ætti að reyna að afsaka mig. Ég steig út úr silfurlitaða Troopernum og skotraði augunum að silfurlitaða Land cruisernum þar sem Bjarni sat enn hinn rólegasti og malaði í símann. Gerðarleg kona sem hafði staðið svolítið til hliðar við manninn gekk nú að bílnum og settist inn þar sem ég hafði áður setið. Maðurinn rak upp mikla hláturroku og sló létt á bakið á mér.
"Fáðu þér nú einn og hafðu hann stóran" sagði hann og rétt mér pelann.
"Veistu að ég er edrú í alvörunni" sagði ég lágróma.
"Ha, ertu edrú í alvörunni"? Maðurinn horfði vantrúaður á mig.
"Já ég er bara svona vitlaus að ruglast á bílum" bætti ég við.
Ég man að ég sagði eitthvað fleira, en það var bæði svo ruglingslegt og vandræðalegt að engu tali tók.
Meðan ég talaði mjakaðist ég að rétta bílnum og kvaddi manninn með pelann og bað hann enn og aftur margfaldlegrar afsökunar.
Hann virtist enn svolítið vantrúaður á svipinn en um það leyti sem ég settist aftur undir stýri skellti hann upp úr og sagði eitthvað sem ég heyrði ekki. Ég ók af stað, heilsaði honum með týpískri bílstjórakveðju og var engan veginn hlátur í hug.
Það sem maður getur nú verið verið vitlaus hugsaði ég með mér, en rosalega tók hann þessu nú létt blessaður karlinn. Tómu dósirnar tvær vögguðu í takt á gúmmímottunni við fætur Bjarna og ég er ekki frá því að ég hafi verið hálf feginn að sjá þær þarna á sínum stað, en þegar ég var svo kominn úr augsýn fann ég að steinninn í maganum var byrjaður að léttast.
Við ókum síðan ofan Hjaltadalinn sem gekk ágætlega í fyrstu, en urðum þó fljótlega að slá af því á undan okkur fór Guðný kúabóndi alveg löturhægt á græna bílnum sínum. Hún myndaði í sífellu reksturinn og e.t.v. eitthvað fleira sem fyrir augu bar, ýmist út um framrúðuna eða gluggann farþegamegin. Ég er alveg viss um að Guðný hefur komið heim með mikið af myndum.
- 1