Blogghistorik: 2012 Denna post är låst. Klicka för att öppna.
31.08.2012 09:54
Sitt lítið af hvurju.
26.08.2012 00:52
Göngum hægt um póstsins dyr
832. Í kvöld nákvæmlega kl. 23.10 dúkkaði upp póstur hjá mér sem mér fannst í meira lagi skrýtinn og jafnvel enn skrýtnari þegar ég las hann öðru sinni svona til að reyna að átta mig á þessum stórundarlegheitum. Það þarf ekki að fara í einhverjar djúpar pælingar til að átta sig á að líklea flokkast hann að stofni til sem tefund eða undirtegund af þeirri gerð sem gjarnan er kennd við Nígeríu, enda var ekkert að sjá um umrætt efni þegar skyggnst var inn á siminn.is og smellt á "fréttir".
Pósturinn leit svona út.
"Þetta er til að formlega tilkynna þér að við erum nú að
vinna að gagnagrunni vefsíðu okkar til að berjast gegn spam póstur, og þetta
getur lokað vefur þinn email reikningur alveg.
Til að forðast þetta, vinsamlegast sendu eftirfarandi datas:
E - póstur ( _____ _________________________)
Notandanafn / ID ( _____________ _________)
Núverandi lykilorð ( _________)
Lykilorð ( _________)
Vinsamlegast
Strax svar þitt er mjög þörf.
Vefpóst Stuðningur Stjórnandi.
INTERNET Tæknileg aðstoð
24 tíma á dag, 7 daga vikunnar."
Það er því líklega full ástæða til að fera fetið þegar kemur að hugleiðingum um svarpóst. Sérstaklega þegar stafsetning, beygingar, orðanotkun og setningafræðin er skoðuð, en svo kom sendingin úr webcustomer.servic5@gmail.com og eitthvað segir mér að siminn sé ekki mikið að nota gmail.
18.08.2012 02:16
Út við ysta sæ...
Skagaströnd og bæjarfjallið Spákonufell í baksýn. (Myndin var fengin af netinu).
831. Á leiðinni frá Siglufirði eftir tvo frábæra daga á Síldarævintýri (sem var auðvitað allt of stuttur tími), var farin styttri leiðin þ.e. yfir Þverárfjallið á suðurleiðinni. Þegar ofan af fjallinu kom, fékk ég þá skyndihugdettu að beygja til hægri í stað vinstri eins og vanalega, þ.e. í átt til Kántrýbæjarins Skagastrandar í stað þess að taka stefnuna á Blönduós og líta við hjá gömlum kunningja, Adolf Berndsen oddvita Höfðahrepps sem ég kynntist á videóárum mínum. Á leiðinni út ströndina sló ég á þráðinn og hann reyndist einmitt vera staddur á sínum heimaslóðum þennan daginn. Ég renndi í bæinn og mér var tekið fagnandi eins og búast mátti við, því sá ágæti drengur er mikill höfðingi heim að sækja. Ég ætlaði auðvitað bara að staldra örstutt við og heilsa upp á Skagstrendinginn, en eins og stundum vill verða teygðist úr heimsókninni því Adolf hélt mér alveg frábæra staðarkynningu. Þar kom mér mjög á óvart hvað staðurinn hefur upp á margt að bjóða og hve vel er hlúð að sögunni, menningu og listalífi. Við gengum frá einum stað til annars og Adolf útskýrði það sem fyrir augu bar.
Unnið við endurbyggingu Hólaness áður en því er breytt í menningarhús. (Myndin er fengin af netinu).
Fyrir fáeinum árum stofnaði Lárus Ægir Guðmundsson styrktarsjóð til minningar um afa sína og ömmur í föður og móðurætt, þau Helgu Þorbergsdóttur og Jóhannes Pálsson sem bjuggu í Garði á Skagaströnd og Láru Kristjánsdóttur og Lárus G. Guðmundsson sem bjuggu á Vindhæli í Skagabyggð en síðar á Skagaströnd. Stofnfé sjóðsins var 50 milljónir króna og aðallega ætlað að efla menningar og listalíf á Skagaströnd og í Skagabyggð.
-
Lárus sem er borinn og barnfæddur Skagstrendingur var m.a. sveitarstjóri á Skagaströnd frá árinu 1972 til 1984, framkvæmdastjóri frystihússins Hólanes frá 1984 til 1994 og stofnandi, eigandi og framkvæmdarstjóri fiskmarkaðarins Örva á Skagaströnd frá 1994 til 2007.
Lárus átti þátt á að kaupa húsið sem áður hýsti frystihúsið Hólanes og nú hefur því verið breytt í menningarhús sem listamenn frá öllum heimshornum heimsækja og dvelja þá þar við listsköpun sína í u.þ.b. mánaðartíma í senn.
Við gengum þar inn og hittum fyrir fólk frá ýmsum löndum sem var ýmist að mála, skrifa eða eitthvað annað. Líklega hefur allt að því tugur listamanna verið á staðnum, en ég stillti mig um að mynda til að valda ekki truflun.
Gamli bragginn sem nú hefur fengið nýtt hlutverk.
Spákonuhofið er í gömlum hermannabragga sem upphaflega var sjúkraskýli í seinna stríði og stóð þá á Blönduósi. Eftir stríð var hann tekinn niður og fluttur út á Skagaströnd þar sem hann gegndi hlutverki samkomustaðar bæjarbúa. Árið 1956 settu Hallbjörn Hjartarson þá aðeins 21 árs gamall ásamt tveimur bræðrum sínum og nokkrum bjarsýnum og framtakssömum vinum upp bíó sem var rekið af þeim allt til ársins 1985 þegar hreppurinn tók við rekstrinum. Þá flutist sú starfsemi í félagsheimilið Fellsborg og húsnæðið var eftir það nýtt sem verkstæði og svo áhaldageymsla bæjarins.
Adolf Berndsen og Sigrún Lárusdóttir í hofinu.
Það mun ekki hafa verið upp á marga fiska þegar Menningarfélagið Spákonuarfur var stofnað og hafist var handa við endurbygginguna. Það voru þær Dagný Marin Sigmarsdóttir og Sigrún Lárusdóttir sem hafa frá upphafi farið fyrir hópnum, en aðalhönnuðurinn var Ernst Backman og sá hann að miklu leyti um uppsetninguna.
Eldhúsið í spákonuhofinu þar sem gjarnan er sest niður yfir kaffibolla sem síðan á að spá í.
Þórdís spákona fyrsti nafngreindi íbúi Skagastrandar og settist að á Spákonufelli um miðja tíundu öld. Hún tók að sér Þorvald sem síðar var kallaður Víðförli og ól hann upp, en hann var sonur Koðráns sem bjó þá á Giljá og varð einn af fyrstu hérlendum kristniboðum. Saga hennar er öll hin merkilegasta og fyrir þá sem vilja kynna sér hana frekar, þá er aðgengilegt á RÚV alveg stórskemmtilegt viðtal við Dagnýju þar sem saga Þórdísar er rakin sem ég vil hvetja alla til að hlusta á.
Slóðin þangað er http://www.ruv.is/frett/ras-1/spakonuhofid-a-skagastrond
Siglfirðingurinn Sigurjón Jóhannsson hafði á heiðurinn af gerð refilsins sem er samansettur úr fjölda vatnslitamynda eftir hann og segir sögu Þórdísar.
Bragginn er skemmtilega hólfaður niður í nokkur rými og hér er lítið "skúkkelsi" þar sem spáð er í Tarrotspil.
Hér er rúnum kastað og síðan ráðið í þær.
Og hér er lesið í lófa.
Þórdís fyrir framan bæjarþil sitt.
Gæsirnar koma við sögu þegar Þórdís mun hafa bruggað kröftugan seið án þess þó að hann hafi nýst eins og hún ætlaðist til, en sú saga er rakin í viðtalinu sem slóðin fyrir ofan myndina af reflinum leiðir okkur til.
Hrafnarnir koma þar einnig við sögu, en þeir eiga að vísa þeim á lykilinn af gullkistunni sem geta gengið upp á Spákonufell án þess að líta nokkurn tíma aftur fyrir sig á þeirri leið.
Hallbjörn tekur sig vel út á skjánum
Kántrýsetrið er í Kántrýbæ og þar má sjá mikið efni frá ferli kúrekans Hallbjarnar Hjartarsonar. Reyndar svo mikið að ég komst ekki nema yfir svolítið brotabrot af því þann hálftíma sem ég staldraði þar við og á því eftir að koma þar aftur og líklega enn aftur.
Í þessum glerskáp má m.a. sjá albúmið af fyrstu plötu Hallbjarnar sem kom út áður en hann tók ástfóstri við sveitatónlistina.
Þessi er verulega athyglisverð, en til er ákaflega keimlík brjóstmynd af Ludwig van Beethoven.
Í þessum skáp er auglýsing um Kántrýhátíð frá árinu 2000, en á hvern hátt hún á samleið með þessum glæsilega hvíta kögurjakka veit ég ekki.
Það sem hér getur á að líta er líklega frá síðustu öld þó það sé alls ekki eins langt síðan eins og það hljómar þegar maður segir það.
Kántrýbær hinn nýji.
Árnes.
Árnes er elsta húsið á Skagaströnd og var byggt árið 1899 af Fritz H. Berndsen kaupmanni, en eigendur hússins hafa þó ekki verið nema fjórir frá upphafi. Það var gert upp fyrir fáeinum arum og opnað sem safn árið 2009, en þar má sjá hvernig fólk bjó fyrir hartnær hundrað árum síðan.
Bjarnarnes ásamt fallbyssunni í forgrunni.
Kaffi Bjarmanes er gamalt steinhús, byggt 1913 en var endurbyggt 2004 og í framhaldi af því fundið nýtt hlutverk. Það hefur í gegn um tíðina gegnt hlutverki sem samkomuhús og lögreglustöð, en einnig verið nýtt sem íbúðarhús. Þar er nú rekið verulega fallegt kaffihús og þaðan er óviðjafnanlegt útsýni út á Húnaflóann.
Á hlaðinu hefur fallbyssu verið fundinn staður, en heypt er af henni við sérstök tækifæri.
Á vefnum skagastrond.is má lesa eftirfarandi um fallbyssuna:
Fallbyssa til Skagastrandar
Á fundi
sveitarstjórnar 15. apríl 2008 var samþykkt að styrkja áhugahóp um gömlu
fallbyssurnar á Skagaströnd um 500 þús kr til að flytja inn fallbyssu frá Danmörku.
Fallbyssan er
eftirlíking af fallstykkjum frá 17. - 18. öld og er 1400 mm að lengd og vegur
60 kg. Hægt er að hlaða byssuna og skjóta úr henni púðurskotum. Hún er gerð
fyrir sérstök cal. 12 "salutpatron". Framleiðandi / seljandi gerir einnig þá
kröfu fyrir afhendingu byssunnar að viðtakandi og ábyrgðarmaður komi til
Danmerkur og læri á byssuna. Fremstillet af bronze
Forsaga þessa máls er
sú að í gömlum annálum um Skagaströnd er þess getið að fyrr á öldum þegar
Skagaströnd var aðal verslunarstaður Húnavatnssýslu og víðar þá voru til á
staðnum tvö fallstykki. Segir sagan að skotið hafi verið úr þessum fallstykkjum
við kaupskipakomur. Heyrðist þá hvellurinn víða og vissu þá bændur og búalið að
kaupskip var komið í Höfða eins og sagt var í þá daga.
Önnur fallbyssan var
send til Þjóðminjasafnsins árið 1946 og er þar í einhverri geymslu. Hin
fallbyssan sást síðast um 1960, þá hálfgrafin í jörð við bæinn Vindhæli í
Skagabyggð. Ekki hefur reynst unnt að fá byssuna úr Þjóðminjasafninu og
fallstykkið sem talið er að hafi verið við Vindhæli hefur ekki fundist.
Hugmyndin er því nú að
fá nýja/nýlega fallbyssu keypta til að endurvekja þessa gömlu sögu
Skagastrandar. Eftir töluverða leit fannst framleiðandi í Danmörku sem vill
selja fallbyssu til Skagastrandar.
Fallbyssa þessi yrði
eign Sjóminja- og sögusafns Skagastrandar.
Hugmyndin er að nota
fallbyssuna á hátíðis og tyllidögum og skjóta þá nokkrum púðurskotum fólki til
skemmtunar.
Þetta hafa nokkrir
kaupstaðir hér á landi gert. T.d. Akureyri, Seyðisfjörður og Vestmannaeyjar.
-
Núna um helgina (16-19 ágúst) standa yfir hinir árlegu Kántrýdagar og má þá reikna með að mannlífið taki miklum stakkaskiptum í þorpinu. Það verður boðið upp á mjög fjölbreytilega dagskrá http://www.skagastrond.is/kantrydagskra2012.pdf en það er þó helst svokölluð Þórdísarganga upp á Spákonufell sem ég er nokkuð súr yfir að komast ekki í. Reyndar vildi ég líka ganga suðureggjar Siglufjarðarfjalla (á sama tíma), en strætóannirnar verða einnig miklar því það þarf að ferja gesti menningarnætur til síns heima (líka á sama tíma) og er þá hver einasti sótraftur á sjó dreginn, allur bílaflotinn í meiri háttar aksjón og þá auðvitað bílstjórarnir einnig og hvorki frí eða grið gefin.
-
Og á vefnum http://www.huni.is/ eru svo Kántrýdagar auglýstir.
Kántrýdagar hófust í
gær á Skagaströnd og verður mikið um að vera alla helgina enda dagskráin
fjölbreytt og skemmtileg og fyrir alla aldurshópa. Eins og venjan er var
hátíðin formlega sett með fallbyssuskoti við Kaffi Bjarmanes klukkan 18 í gær.
Í morgun hófst Þórdísarganga upp á Spákonufell og svo rekur hver viðburðurinn
annan sem eftir lifir helgi.
Í Kántrýbæ verða böll og sýning kvikmyndarinnar Kúrekar norðursins. Hljómsveitirnar Gildran, Klaufar, Illgresi, 1860 og Sefjun eru kallaðar til leiks. Ljósmynda- og listsýningar ásamt handverkssölu eru einnig í boði ásamt spádómum og gönguferðum.
12.08.2012 08:10
Svolítið síðbúið sýnishorn frá Síldarævintýri
- 1