Blogghistorik: 2014 N/A Blog|Month_11
25.11.2014 10:22
Gaggó vest og endalokin nálgast
966. Eins og sést, eins og sést, eins og sést
þá er ég alinn upp í Gaggó-Vest.
Gaggó gaf mér allt sem reyndist svo best.
Þessar línur Ólafs Hauks Símonarsonar
við lag Gunnars Þórðarsonar segja alveg heilan helling og ennþá meira svona
mörgum árum síðar þegar horft er til baka.
En ég ætla ekki að missa mig í
einhverja óendanlega tilfinningasemi eina ferðina enn þó svo að hugurinn leiti til
löngu liðinna ára, heldur hafa upp svolitlar vangaveltur um húsið, stofnunina, söguna
og jarðveginn. Húsið var teiknað af húsameistara ríkisins Guðjóni Samúelssyni
og reist á árabilinu 1951 - 1957, en þá var það tekið í notkun. Gagnfræðaskóli
Siglufjarðar var þó upphaflega settur á stofn árið 1934, en var starfræktur
fyrstu 23 árin á kirkjuloftinu þar sem nú er safnaðarheimilið.
Ég vil benda fróðleiksfúsum
um G.S. á mjög góða grein eftir Jónas Ragnarsson sem finna má á siglo.is slóðin
þangað er: http://old.sksiglo.is/is/news/mmm/
Bjallan glymur gróft er hennar mál.
Gaggó-Vest hefur enga tildursál.
Eins og sést, eins og sést, eins og sést
þá er ég alinn upp í Gaggó-Vest.
En af hverju er ég að nefna
gamla skólann okkar Gaggó vest?
Veit ekki alveg, - og þó.
Líklega finn ég öðrum þræði
einhverja samsvörun eða til samkenndar við persónurnar í textanum við þetta frábæra
lag sem nú er reyndar að skora nokkuð hátt í þáttunum "Óskalögum Þjóðarinnar"
sem við könnumst við úr sjónvarpinu um þessar mundir.
Hins vegar eru það vissulega gild
rök að skólahúsið er staðsett undir fjallsrótum Hafnarfjalls og því í vestari
hluta bæjarins, en barnaskólahúsið niðri á eyrinni mun austar. Þess utan ef við
horfum til sameiningar sveitafélaganna á utanverðum Tröllaskaga, hefur
Siglufjörður stundum verið kallaður vesturbærinn og Ólafsfjörður austurbærinn.
Gaggó-vest nafngiftin ætti því
þess vegna að geta gengið upp í a.m.k. þrennum skilningi.
Þ. 19. okt 1934 birtist
eftirfarandi grein í Einherja um hinn nýja skóla.
Hinn nýi Gagnfræðaskóli Siglufjarðar var settur s.l.
laugardag í skólastofum þeim, er honum eru ætlaðar á kirkjuloftinu. Athöfnin byrjaði
með ræðu formanns skólanefndar, frú Guðrúnar Björnsdóttur, minntist hún
stofnunar unglingaskóla er hér hefur starfað
síðan 1910, nefndi fyrstu nemendur þess skóla, skýrði
frá aðdraganda að því, að gagnfræðaskóli var settur hér á stofn og tildrögum
til þess að skólanum var valið það húsnæði er hann nú á að hafa. Þá flutti
skólastjóri gagnfræðaskólans, Jón Jónsson frá Völlum, snjalla ræðu og kom víða
við. Minntist hann þess, meðal annars, að skólar ættu ekki eingöngu að þroska
heila og skynsemi heldur ættu þeir einnig, og engu síður, að þroska mannúð,
samúð og kærleika hjá nemendunum. Bæjarfógeti G. Hannesson flutti einnig ræðu
við þetta tækifæri og bæjarfulltrúi Andrés Hafliðason, minntist 25 ára
starfsafmælis frú Guðrúnar Björnsdóttur í þarfir siglfirzkra skólamála. Skólastofur
þær, er gagnfræðaskólinn hefir til umráða eru hinar prýðilegustu, rúmgóðar og hlýlegar.
Stórir gluggar vita móti suðri er gefa ágæta birtu. Gangur er rúmgóður, stólar
og borð vandað og af nýustu gerð. Allt er nýtt, allt er hreint og óskaddað,
kemur nú til kasta nemenda að hafa góða umgengni og gat skólastjóri þess í ræðu
sinni. Hinir fyrstu nemendur setja svip sinn á skólann, skapa skólabrag og hafa
því mikla ábyrgð. Hins bezta er að vænta af þessum fyrstu nemendum. Þeir eru
mannvænlegir áhugasamir unglingar, er munu skilja sitt hlutverk og hvers er krafist
af þeim í þessu efni. Fastir kennarar við skólann eru þeir Jón Jónsson frá
Völlum, skólastjóri, og Jón Kristgeirsson. Auk þess stundakennarar. Margar
hlýar hugsanir og árnaðaróskir fylgja þessum nýja gagnfræðaskóla, er hann tekur
til starfa í fyrsta sinn.
Því miður er greinarhöfunds
ekki getið.
Auglýsing sem birtist í Siglfirðing í ágúst 1934
Kennarahræin eru kuldaleg í framan
kannski þykir þeim hreint ekki gaman
að vakna í bítið í vetrarhríð
til að vitka draugfúlan æskulíð.
Bekkjastofur fyllast af bleikum fésum
Finnum og Jónum og Siggum og Drésum
handalögmál og hefðbundin læti
hundskisti til að fá ykkur sæti.
Segðu mér hvaða ár hengdu þeir Krist?
Í hvaða bandi spilar Frans þessi Liszt?
Einn týndi bókinni, annar gleymdi að lesa.
Af hverju kallar hann okkur lúsablesa?
o.s.frv.
Alveg eru þetta óborganlegar
línur enn og aftur.
En hvað svo? Hvað verður um
þetta svipmikla hús?
Í einni af fjölmörgum ferðum
mínum á heimaslóðir sagði mér maður að einhverjir spegúlantar hefðu komið að
sunnan og kveðið upp þann dóm að húsið þyrfti orðið verulegra endurbóta við og
vafasamt væri að slíkt væri réttlætanlegt þar sem not fyrir það væru ekki
fyrirsjáanleg eins og staðan væri. Þess vegna gæti það komið til skoðunar hvort
ekki væri heppilegast að brjóta það niður.
Mörgum hugnast eflaust slík
örlög skólans vægast sagt illa og ég fyrir mitt leyti leyfi mér að efast um að ástand
hússins sé svo slæmt. Sérstaklega ef horft er til ört hækkandi fasteignaverðs og
fyrirsjáanlegs húsnæðisskorts á Siglufirði.
Ég á meira að segja erfitt
með að trúa því að nokkur maður hafi látið annað eins frá sér fara og þætti mér fróðlegt
væri að vita hvort svo er í alvörunni.
En látum nú þessari umfjöllun um Gaggó-vest lokið að sinni og setjum endapunkt við þessa þrílógíu að sinni, a.m.k. hér á síðunni, enda þykir eflaust mörgum nóg komið.
17.11.2014 23:48
Gaggó vest og hugurinn reikar til liðinna ára
965. Gamla skólahúsið sem stendur
við Hlíðarveginn er nú orðið ákaflega dapurlegt og tómlegt að sjá. Það er eins
og minnismerki í dulmögnuðum glæsileika sínum um löngu liðna daga. Um óteljandi
stundir, sumar minnisstæðar, aðrar hálfgleymdar en er þó ennþá hægt að bjarga
fyrir horn, draga fram í núið og rifja upp með góðum vilja og jákvæðu
hugarfari. Góða daga þó okkur fyndist það alls ekki alltaf þá.
Þegar ég á leið fram hjá því
skynja ég vel hina yfirþyrmandi og þrúgandi þögn sem hlýtur að umlykja allt innan
dyra. Og ef ég á leið fram hjá því eftir að skyggja tekur horfi ég stundum upp í
dimmuna í gluggunum, en þeir horfa þá bara á mig á móti eins og brostin augu með
ísköldu tómlæti í einhverri undarlegri ofurkyrrð.
Einhvern vegin svo kaldir, tómir
og holir að það er eins og það sé ekkert lengur þarna fyrir innan og svo er líka
eins og þeir séu líka fullir af eftirsjá.
Einsemd hússins verður næstum
því áþreifanleg.
Raddir kennaranna eru þagnaðar,
viskan og viljinn til að búa okkur sem áttum að erfa landið undir framtíðina
eru ekki lengur til staðar, ekki á þessum stað. Sömuleiðis kliðurinn í
nemendunum á leið til stofu og auðvitað öll ærslin á göngunum í frímínútunum.
En samt finnst mér ég ennþá heyra dauft bergmál frá æskuárunum og finna ofurlítinn
tóbakskeim við útidyrnar þar sem sum okkar stóðu úti í hvaða veðri sem var og
smókuðu sig. Fyrirmyndir óharðnaðra unglinga voru þá rétt eins og nú voru bæði
margar og margs konar. Já sum okkar fengu jafnvel sígarettur út á krít í
Lillusjoppu og borguðu þegar einhver peningur var til, fengu svo strax skrifað
aftur þrátt fyrir að vera bara fimmtán ára og engum fannst neitt óeðlilegt við
það. Fáeinum árum áður var ég líka stundum sendur niður í kaupfélag til að
kaupa þrjár, stundum fjórar sígarettur í lausu. Þá var ég bara tólf ára og
engum fannst það neitt óeðlilegt heldur.
Já og kennararnir, - þvílíkur
hópur af heiðursmönnum. Jóhann skólastjóri, Hafliði, Guðbrandur, Palli, Hinni og
fleiri og fleiri, svo komu þau Gunnar Rafn og Ína og ennþá fleiri eftir að skólagöngu
okkar lauk á Hlíðarveginum og aðrir skólar tóku við hinu innra og andlega
uppbyggingarstarfi, nú eða þá skóli lífsins.
Orð dagsins eru söknuður og
eftirsjá.
12.11.2014 01:20
Gaggó vest og hittingur í vændum
964. Það er búið að stofna
facebook síðu til að halda utan um væntanlegt árgangsmót okkar "krakkanna" frá
Sigló sem erum fædd rigningarárið mikla 1955 og áttum samleið í svo mörg ár. Ótalmörg
ár sem ætluðu engan enda að taka fannst okkur þá, því á þeim árum var tíminn svo
miklu lengur að líða en hann er í dag.
Allt of mörg ár eru liðin síðan
þá og þau liðu allt of hratt, finnst okkur sennilega öllum í dag.
Við áttum samleið gegn um súrt
og sætt, upplifðum auðvitað bæði góða daga og slæma, því tilveran fer jú í
svona upp og niðursveiflu rétt eins og hún hefur alltaf gert þar sem annars
staðar. Við þurftum að þola hvort annað á stundum og komumst kannski misjafnlega
vel frá því, eða gleðjast með hvort öðru þegar allt var gott og allir voru skemmtilegir.
En þegar árin eru orðin svo mörg sem raunin er, uppgötvum við smátt og smátt verðmætin sem liggja í þessum löngu liðna tíma. Ljúfsárar minningar, barnalegir brestir, væntingar, vonbrigði, gremja, eftirsjá, sorg, gleði, góðvild, stríðni og svo kom gelgjan...
Allt þetta og svo miklu meira til.
Smávægilegir atburðir sem
engu máli skiptu þegar þeir gerðust, verða í hugum okkar eins og eitthvað sem olli
straumhvörfum og mun lifa í það minnsta jafn lengi og við.
Mannstu þegar við.. o.s.frv.
Þannig verður þetta einhvern vegin orðað, bros munu þá færast yfir andlitin, hjartað
slær í það minnsta eitt aukaslag, það sléttast úr hrukkunum og hárið fer næstum
því aftur að vaxa.
Við munum á einu andartaki yngjast um hartnær hálfa öld.
- 1