Blogghistorik: 2014 N/A Blog|Month_2

26.02.2014 08:46

Fyrir 100 árum

913. Árið 1914 eða fyrir réttum 100 árum mátti lesa eftirfarandi í blaðinu Ísafold undir fyrirsögninni "Pistlar úr sveit".


 


Um þetta leyti eru landsmenn byrjaðir að brjóta sér leið úr klóm bændasamfélagsins í átt til nútímans. Fólk í sveitum landsins að losna úr þess tíma þrælahaldi, þéttbýli að myndast víðar en í Reykjavík og sumir (meira að segja þingmenn) orðuðu það í fullri alvöru að réttast væri að banna síldveiðar til þess að bændum héldist á hjúum sínum.

22.02.2014 04:10

Amen eftir efninu


912. Skyldi það vera prestur sem á þessa skruggukerru? Eða er það kannski einhver víxlubiskupinn, biskupsritari eða jafnvel biskupinn sjálf(ur).

En hvernig sem eignarhaldinu er háttað, þá er bíllinn drulluflottur og númerið ekki síður.

Svo vildi ég láta þess getið svona rétt til að afsaka sjálfan mig og sáralitla "framlegð" mína hérna á síðunni undanfarið, að þær fáu stundir sem ég hef haft aflögu undanfarna daga, hef ég flestar notað til að endurskrifa gamla grein um hina goðsagnakenndu unglingahljómsveit HRÍM frá Siglufirði og mun hún væntanlega birtast á siglo.is um eða upp úr helginni.

13.02.2014 01:06

Á ferð og flugi á Fésbókinni



911. Myndin af þessari gömlu kennslubók í reikningi eftir Eirík Briem  hefur verið á miklu flugi í fésbókarheimum að undanförnu. Það er ekkert skrýtið, ef litið er til þeirrar kúvendingar og rúmlega það sem hefur orðið á skoðunum fólks þegar kemur að því hvað telst birtingarhæft á prenti, ásættanleg umræða og heilbrigður hugsunarháttur.

Í dag finnst okkur með miklum ólíkindum hvað þótti eðlilegt og sjálfsagt hér í denn.

Þar sem ég rakst á myndina hér að ofan fylgdi henni eftirfarandi texti:

"Pabbi safnar gömlum kennslubókum og í kvöld var hann að lesa í einni gamalli stærðfræðibók. En eins glöggir menn sjá má lesa á kápunni að bókin er rétt rúmlega 100 ára gömul. Við lesturinn rakst hann á þetta snilldar stærðfræðidæmi, það er langt síðan ég hef verið í stærðfræði en dæmin voru ekki svona skemmtileg í minningunni".



Þetta minnir mig á aðra umræðu um aðra bók sem var endurútgefin árið 2007. Bókin um negrastrákana 10 kom fyrst út árið 1922 og hefur margsinnis verið endurútgefin eftir það, og sumir kalla hana fyrstu íslensku barnabókina þó hún sé alls ekki íslensk.

Foreldrar þeldökkra barna hafa ritað bréf til leikskóla á höfuðborgarsvæðinu, þar sem hvatt er til þess að barnabókin Tíu litlir negrastrákar verði ekki lesin fyrir börnin. Efni og myndir bókarinnar séu særandi og kyndi undir fordómum í garð svartra. (Frétt af RUV.)

-

Eftirfarandi er sótt á sbs.is (Stefán Birgir Stefánsson), en hann framkvæmir sína tegund af krufningu á mjög skemmtilegan hátt.

Ég var að hlusta á einhverja jólaplötu, svona eins og gengur og gerist, þegar lagið "Negrastrákarnir" byrjaði í spilun. Ég áttaði mig ekki alveg á því hvernig ófarir tíu lítilla svertingja gæti hugsanlega tengst jólunum á einhvern hátt.

Ég man vel eftir bókinni "Tíu Litlir Negrastrákar", hét á frummáli "Ten Little Niggers". Ég man líka að mér fannst hún alltaf svolítið skrítinn.

Eftir að hafa hlustað á þetta lag gerði ég mér grein fyrir því að hér er á ferðinni lag sem er svo fullt af fordómum og hatri í garð svertingja að Guð einn veit á hvaða Ku Klux Klan fundi það var samið. Förum yfir textann og reynum að ímynda okkur hugsunar hátt einstaklingsins sem skrifaði hann.

Negrastrákar fóru á rall,
þá voru þeir tíu,
einn drakk flösku af ólyfjan
en eftir urðu níu.

Hér byrjum við söguna, kynnum persónurnar til sögunnar og sýnum strax að þetta eru tíu heimskir litlir negrastrákar. Einn gaurinn var svo heimskur að hann drakk heila flösku af eitri, hve heimskur þarftu að vera? Sjálfsmorð ef þú spyrð mig.

Níu litlir negrastrákar
fóru seint að hátta
einn þeirra svaf yfir sig
og þá voru eftir átta

Sjáið til, blökkumenn, einfalt fólk. Það er ekki hægt að ætlast til þess að einfeldningar kunni á vekjaraklukku. Blökkumenn hata líka aðra blökkumenn, þess vegna vöktu hinir átta gaurarnir ekki þennan eina.

Átta litlir negrastrákar
vöknuðu klukkan tvö.
Einn þeirra dó úr geispum
en þá voru eftir sjö.

Okay, þarna, sko. Blökkumenn eru svo latir að þeir fara á fætur klukkan tvö. Munið að gaur númer níu svaf yfir sig, hve lengi svaf hann ef hinir vöknuðu klukkan tvö? Og hvað er það að deyja úr geispum? Gat hann ekki bæði andað og geispað svo hann kolféll? Heimski maður.

Sjö litlir negrastrákar
sátu og átu kex
einn þeirra át yfir sig
en þá voru eftir sex.

Ef það er eitthvað sem svertingjar elska meira en vatnsmelónur og kjúkling þá er það kex, sætt sætt melónukjúklingabragðbætt kex. Þegar þeir byrja þá geta þeir ekki hætt. Enda eru svertingjar mjög gráðugt fólk.

Sex litlir negrastrákar
sungu dimmalimm
einn þeiirra sprakk á limminu
en þá voru eftir fimm.

Að springa á limminu merkir að standast ekki freistingar eða geta ekki haldið eitthvað út. Ég geri ráð fyrir að svertinginn hafi verið svo aumur að hann átti erfitt með að syngja dimmalimm (ég geri ráð fyrir að þeir séu að tala um lagið með Spírandi Baunum). Þetta vandamál á við marga svertingja.

Fimm litlir negrastrákar
héldu að þeir væru stórir
einn þeirra fékk á hann
en þá voru eftir fjórir.

Ég geri ráð fyrir að hér sé verið að tala um að hann hafi fengið AIDS. "Fékk á hann", hann hvern? Broddinn. Hvað gerist þegar svertingjar fá á broddinn? AIDS. (ég veit hvað "að fá á'ann merkir!)

Fjórir litlir negrastrákar
fóru að reka kýr
ein kýrin stangaði einn þeirra
en þá voru eftir þrír.

Helsti óvinur svertingjans eru ráðvillt dýr, sérstaklega kvenkyns dýr.

Þrír litlir negrastrákar
þorðu nú ekki meir
einn þeirra dó úr hræðslu
en þá voru eftir tveir.

Að eðlisfari eru svertingjar hrætt fólk, þess vegna ganga allir svertingjar um með byssu. Það að deyja úr hræðslu er í öðru sæti yfir það sem dregur svertingja til dauða, númer eitt er að einhver bösti cap í rassinn þeirra.

Tveir litlir negrastrákar
þögðu nú eins og steinn
annar hann varð vitlaus
en þá var eftir einn

Það þurfti nú ekki mikið til að hann varð vitlaus, skal segja ykkur það.

Einn lítill negrastrákur
sá hvar gekk ein dama
Hann gaf sig á tal við hana
og bað hennar með það sama

Hann bað hennar, augljóslega. Mér finnst þetta samt vera verst skrifaða stanzaið.

Negrastelpan sagði já
og svo fóru þau í bíó
ekki leið á löngu
uns þau urðu aftur tíu.

Auðvitað drápust 9 manns í þessu lagi (þessi sem svaf yfir sig var étinn af krókódíl síðar) en það er allt í lagi því blökkumenn eignast börn eins og kanínur og hver getur hvort sem er séð muninn á þeim? Enginn. Takið eftir að það nægði að fara með hana í bíó, svertingjar eru fátækt fólk og það þarf ekki mikið til að heilla þá.

Kannski er ég að taka þetta of alvarlega en mér finnst þetta lag setja vissar hugmyndir í huga barna sem eiga ekki við á tuttugustu og fyrstu öld. Þetta lag má vel vera til sem "icon" af hvernig hugsunarháttur var hér í den en hann á ekki heima á leikskólum, nema hugsanlega í suðurríkjum bandaríkjanna.

Viðauki:
Vel hugsanlegt er að margir hér séu að dæma börn of hart, halda að þau séu ekki nægilega þroskuð til að tengja saman hluti eins og texta af lagi og hugmyndir. Ég veit ekki til þess að það sé einhver sönnun fyrir því að texti um stereótýpur hafi ekki áhrif á "implicit" hugsunarhátt barna, þvert á móti mundi ég telja að" primaceið" væri meira fyrir fordómum ef þau læra snemma að "tíu litlir negradrengir" séu frekar heimskir gaurar.

P.S. ég veit hvað það að fá á'ann merkir...

-

En finna má fordóma víða í námsefni og barnaefni frá liðinni öld sem fáum eða engum þótti vera neitt tiltökumál á sínum tíma. Orðið "negri" var jafn sjálfsagt og eðlilegt í málinu eins og t.d. sykur og kaffi eða svart og hvítt. Á visir.is birtist í vikunni grein undir fyrirsögninni "Fordómar leynast víða í námsefni" og er úrdrátturinn hér að neðan úr henni.

"Mennirnir á jörðinni eru ekki allir eins. Svartir menn eru kallaðir negrar." Svo hljóðar heimaverkefni fyrir börn í öðrum bekk í Varmárskóla. Það er ekki einsdæmi að námsbækur sem innihalda úreltar upplýsingar séu í umferð í grunnskólum og ekkert eftirlit er með slíku.

Í bókinni sem um ræðir er tekið fram að gulir menn séu kallaðir mongólar og búi flestir í Asíu. Rauðir menn séu kallaðir rauðskinnar eða indíánar og þeir búi í Ameríku. Vísir.is fjallaði um málið í gærkvöldi og vakti það mikla athygli og fjölmargir tjáðu sig í athugasemdakerfi fréttarinnar.  

Þórhildur Elvarsdóttir, skólastjóri í Varmárskóla sagði svo í viðtali við vefinn í dag að bókin sem um ræðir, "Við lesum C," hafi verið í umferð fyrir mistök. Bókin sé notuð sem aukaefni fyrir íslensku og efnistök í verkefnum hafi farið framhjá kennurum.

Slíkt er ekki einsdæmi. Bókin "Þjóðfélagsfræði" er ætluð efstu bekkjun grunnskólans og er skrifuð af Garðari Gíslasyni. Bókin hefur verið gefin út þrisvar sinnum frá árinu 2000. Í kafla bókarinnar um kynvitund og fjölskyldur kemur fram að hjónabönd fólks af mismunandi kynþáttum séu afar sjaldgæf. Ef þau verða er það yfirleitt þannig að karlinn er svartur og konan hvít".

-

Ja hérna...!

09.02.2014 04:17

Við Reykjavíkurtjörn




910. Í gærmorgun þegar sólin var að koma upp, opnaði dagurinn sig í mikilli litadýrð yfir snjóhvítum Bláfjöllunum. Skýin tóku á móti birtu nýs dag og endursendu okkur mannfólkinu hana löngu áður en við gátum numið þau beint og milliliðalaust frá ljósgjafanum mikla þegar hann lyfti sér upp fyrir sjóndeildarhringinn.

Gult, bleikt, rautt og appelsínugult á heiðblárri festingunni. Ég bölvaði í hljóði. "Hvað það getur verið skítt að eiga ekki almennilega myndavél".

Svo vaknaði allt.

Eftir vinnu fór ég í aðra vinnu, en eftir hana hélt ég áleiðis heim. Dagur var að kvöldi kominn og sólin að setjast í engu minni litadýrð en um morguninn. Ég ók fram hjá Tjörninni og dáðist að því sem fyrir augu bar. Ég var næstum því kominn fram hjá henni þegar ég fékk bakþanka og snéri við, fann mér laust stæði eftir svolitla leit og gekk fram á völlinn vopnaður gömlu, þreyttu og löskuðu myndavélinni sem varð bara að duga rétt eina ferðina enn því ekkert annað var í boði.

Það ríkti einhver undarleg og lotningarfull kyrrð yfir öllu. Mest heyrðist í fuglunum við bakkann. Skvamp, vængjasláttur, kvak. - Agndofa útlendingar með myndavélar á lofti. - Hljóðlátir Íslendingar horfðu út á tjörnina og nutu kyrrðarinnar. - Einhverjir útdeildu brauðmeti til fiðraðra vina sinna. - Ungmenni voru á rölti úti á ísnum.

Heildarmyndin nálgaðist fullkomnunina svo mikið að nær því takmarki verður vart komist.











05.02.2014 10:02

SpKef

909. Ég sá þessa bók í búðarhillu á dögunum og auðvitað var ekki annað hægt en að veita henni athygli, en nú eru "góð" fimm ár liðin frá Hruni (með stórum staf). 




"SpKef 100 ára, - 1907-2007. Sjóður Suðurnesjamanna,

bakhjarl í heimnabyggð" 

eftir Eðvarð T. Lárusson er eitthvað svo mikið 2007, enda kom hún einmitt út í tilefni aldarafmælis sparisjóðsins árið 2007.

Það er ekki laust við að maður finni fyrir einhverri undarlegri tímaskekkjutilfinningu sem lýsir hann sér svolítið eins og stingur í eitthvað mikilvægt líffæri, (þó ekki í hjartað því það beintengist öðru byggðarlagi). En kannski fá einhverjir sáran verk í veskið við að lesa svona bók. En auðvitað er svona bók bara sagan, - eða einhver hluti af henni. Annar hluti kom svo síðar í ljós, en við skulum ekkert minnast á hann hér því hann er ekkert skemmtilegur. Svo svo á sagan sér líka stundum jafn margar hliðar og sögumennirnir eru margir og hver vill svo sem vera dómari um bestu útgáfuna?

Ekki ég!




En það var virkilega gaman á þessum dýrðarinnar tímum, við skulum ekki gleyma því. Þá voru jafnvel dæmi um að menn átu gull sér til þarflausrar skemmtunnar, kannski bara til að geta sagt frá því einhvern tíma seinna að þeir hefðu jú gert það og það gekk síðan niður af þeim eins og gengur og endaði úti í sjó, líka eins og gengur.

Eflaust hafa fiskarnir þá orðið mjög hissa á því sem fyrir þeirra stóru og  kringlóttu fiskaaugu bar. Og hvað skyldu fiskarnir þá hafa hugsað?

Kannski: Ætli mannfólkið uppi á þurrlegndinu sé nú endanlega búið að tapa glórunni?

Ef fiskarnir hafa hugsað þannig hafa þeir verið framsýnni en við mennirnir.

Kannski þarf ekki alltaf svo ýkja mikið til.

02.02.2014 14:51

Áhlaup og ofankoma

908. Fimmtudaginn 30. jan. sl. laust upp úr miðjum degi, gerði mikla ofankomu hérna á suðvesturhorninu. Færð breyttist á svo undraskömmum tíma að fá dæmi eru um annað eins. Ég lagði upp frá skiptistöð strætó í Hamraborg í síðasta hring vaktar minnar kl. 14.06 og ók leið 28 sem liggur fram hjá Hjallahverfi í átt að Dalvegi, um Smára, Lindir, Sali, Kóra, Þing, Hvörf, þaðan um Breiðholtsbraut niður að Mjódd og síðan sömu leið til baka. Ef allt gengur samkvæmt áætlun, tekur u.þ.b. eina og hálfa klukkustund að aka leiðina fram og til baka. Við upphaf ferðar var rigningarúðinn svolítið að væta framrúðuna annað slagið eins og hann hafði reyndar gert frá því snemma um morguninn. Þegar droparnir voru farnir að sitja þéttar en æskilegt þótti, fengu risastór þurrkublöðin það hlutverk að strjúka vætuna af og útsýnið varð aftur eins og best varð á kosið. Þau hreyfðust letilega yfir rúðuna rétt eins og þeim findist verkefnið ekkert sérlega merkilegt. Þegar ég ók fram hjá Smáralindinni sá ég fáeinar stórar flyksur blandast úðanum og það var ekki laust við að ég yrði svolítið hissa því hitamælirinn í mælaborði vagnsins sýndi fjögurra gráðu hita úti. Leiðin lá eftir þetta upp á við og þegar landið hækkaði breyttist samsetning úrkomunnar.

"Það eru nú ennþá 47 vikur til næstu jóla" hugsaði ég með mér meðan ég ók upp brekkuna á Hlíðardalsveginum fyrir ofan Lindirnar sem var var næstum orðinn alhvítur. Ekki eru allir Kópavogsbúar búnir að taka niður jólaseríurnar utanhúss þrátt fyrir að komið sé fram undir janúarlok, svo þær harmoneruðu ákaflega vel við hvítu flyksurnar sem bæði stækkuðu og fjölgaði svo að umhverfið varð líkast risastóru póstkorti. Áfram var ekið sem leið lá upp á "hálendi Kópavogs" og ég heyrði í talstöðinni að verið var að ræsa út saltarana. Ekki veitti af því það var orðið skrambi hált og mér var lítillega farið að skrika dekk í kröppustu beygjunum inn og út úr hringtorgunum sem þarna eru fjölmörg. Það var farið löturhægt niður löngu brekkuna ofan af Víkurhvarfinu, en hún liggur eins og fram af brekkubrún rétt neðan við Vatnsendahæðina og niður á Breiðholtsbrautina. Ekki var þó allt búið enn því önnur brekka var eftir sem er stundum lúmskari en góðu hófi gegnir, en það er spölurinn frá Æsufelli og niður að Stekkjarbakka. Það átti svo sannarlega við í þetta skipti því afturendi vagnsins reyndi ítrekað að komast fram úr framendanum þrátt fyrir að hægt væri þokast áfram veginn. Það tókst þó að koma í veg fyrir að slíkt gerðist og skömmu síðar var lagt upp að í Mjóddinni aðeins á eftir áætlun. Það gerði þó lítið til og var jafnvel síst verra, því allir aðrir vargnar voru álíka mikið á eftir áætlun. Svo var lagt af stað til baka.

Snjókoman fór vaxandi og var nú orðin ansi þétt. Þurrkurnar gengu látlaust og rétt eftir að ég náði upp á brúnina við Víkurhvarf ók trailer þá sömu leið, en líklega full seint því hann komst aðeins upp fyrir miðja brekkuna áður en hann rann til hliðar og staðnæmdist þannig að hann lokaði veginum. Ég heyrði í talstöðinni að bílstjóri næsta vagns sem á eftir kom sagði brekkuna lokaða. Um það leyti mætti ég fyrsta trukknum sem skóf götuna um leið og hann saltaði og það mynduðust litlir ruðningar í vegkantinum. Þá var ekki liðin klukkustund frá því að ég varð var við fyrstu snjókornin. Í sama mund heyrði ég tilkynningu frá Þjónustuveri Strætó á Hesthálsinum að allar tímaáætlanir væru felldar úr gildi, vagnstjórar skuli fara sér hægt og aðeins huga að öryggisþættinum.

Ég ók inn á skiptistöðina í Hamraborginni tíu mínútum á eftir áætlun. Tvisturinn var kominn og farinn, Fjarkinn að lenda, en Ásinn tilkynnti að hann væri enn við Kringlu. Vaktinni var lokið og ég frétti daginn eftir að þeir sem tóku við áttu eftir að lenda í talsverðu brasi það sem eftir lifði dagsins.

Um kvöldmatarleytið átti ég erindi út í búð, en þá var hvellurinn búinn og rissastórt, skjannahvítt og tandurhreint teppi lá yfir öllu. Ég tók í leiðinni nokkrar myndir sem sjá má hér að neðan þar sem síðbúinn jólasnjór skreytti greinar trjánna. Um nóttina frysti og morguninn eftir þegar ég var kominn á stjá utan dyra var jafnvel enn fallegra um að litast. Ég hugsaði mér að erindast svolítið fyrst, en fara síðan góðan hring og taka nokkrar myndir til viðbótar. Klukkutíma síðar hafði hlýnað skyndilega og ekki sást snjókorn á nokkru tré.

Þetta var stutt og snarpt og á heildina litið alls ekki svo mikið snjómagn, en svona geta hlutirnir breyst með undraverðum hraða og það var einmitt það sem setti svo margt úr skorðum þennan dag.


                   













  • 1

Namn:

Leó R. Ólason

Plats:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Antal sidvisningar idag: 818
Antal unika besökare idag: 141
Antal sidvisningar igår: 1391
Antal unika besökare igår: 279
Totalt antal sidvisningar: 496195
Antal unika besökare totalt: 54759
Uppdaterat antal: 26.12.2024 21:06:26
clockhere

Länkar