Blogghistorik: 2009 N/A Blog|Month_2
27.02.2009 01:10
Slippurinn á Sigló
546. Fljótlega upp úr 1960 var ég farinn að laumast nokkuð oft að heiman og niður í slipp (um Stuttuleiðina svokölluðu) til að fylgjast með því sem þar var að sjá. Og þar sem Leó afi minn vann þar, þóttist ég geta leyft mér að vera kannski heldur heimaríkari en yfirleitt teldist ásættanlegt í dag og þá ekki síst af nútímalegum öryggisástæðum. Ég fylgdst með afa, Jóni Páls og Sigga Björns þykktarhefla borðin í gömlu súðbyrðingana sem gera þurfti við, kalfatta þá, tjarga o.s.frv. Mér fannst verklagið oft á tíðum undarlegt og víst er að sumt það sem þarna var gert tilheyrir þeirri tíð og þeim tíma sem nú er endanlega horfinn á braut. Einna mest spennandi þótti mér að sjá skipin tekin upp þrátt fyrir að það gerðist ofurhægt. Fyrst var sleðanum sleppt lausum og hann rann niður teinana og út í sjó með miklu skvampi og boðaföllum. Og eftir að bátnum sem taka átti upp hafði verið komið fyrir á réttum stað yfir sleðanum hófst næsti verkþáttur. Spilið inni í húsinu tók að snúast en þar sem kraftblakkirnar sáu til þess að átakið margfaldaðist, gekk drátturinn að sama skapi afar hægt fyrir sig. Muni ég rétt gat það tekið góðan hálftíma að draga sleðann með bátnum á úr sjó og á sinn stað eða svolítið upp fyrir fjöruborðið, en vegalengdin hefur varla verið mikið meira en 30-40 metrar. Oft voru 2 - 3 bátar uppi á sama tíma og þá þurfti að koma fyrir heljarmiklu kraftblakkakerfi til að draga bátana til hliðar, af sleðanum og yfir á búkkana sem eru við hlið sleðans. Það var mikið víravirki sem greindist út úr spilhúsinu, að næstu blökk og síðan til suðurs og út að enda búkkanna við götuna niður að Hafnarbryggju. Þar snéri það við og endaði við festingu í undirstöðu bátsins á sleðanum. Búkkarnir og sleðabitarnir höfðu verið smurðir vandlega með grút sem var sleipiefni þess tíma og nýttist það vel til verklegra framkvæmda af þessu tagi, en flestir myndu líklega fúlsa við því í dag til hvers kyns notkunnar. En hann gerði það að verkum að skipið mjakaðist fyrirstöðulítið þótt hægt færi til hliðar og sleðinn varð brátt tilbúinn í næsta verkefni.
Báturinn siglir að sleðanum.
Sleðinn mjakast upp fyrir fjöruborðið.
Allt að verða klárt og verið að ganga frá festingum.
Nú er hún Snorrabúð stekkur.
Síðan ég sætti færi á sínum tíma og laumaðist niður í slipp við hvert tækifæri eru liðin mörg ár og ég á ekki oft erindi þangað lengur. Sleðinn hefur líklega runnið sitt skeið, mölin sem brimið leikur sér að þegar það er í þeim hamnum hefur fært teinana á kaf og einn af síðustu bátunum sem dreginn var upp er þar enn og grotnar niður á búkkunum.
Viðbót. - En vissulega var nú mesta fjörið í því þegar sleðanum var hleypt fram með gríðarlegum gusugangi og bátarnir sjósettir eins og Gunnar Th. nefnir í kommenti sínu. Yfirleitt var ég látinn vita af slíku heima með hæfilegum fyrirvara og ég lét mig þá ekki vanta til að fylgjast með atburðinum. En helsti gallinn við þau skemmtilegheitin var hvað þau tók fljótt af. Mig minnir að yfirleitt eftir að bátur var kominn niður og að bryggju, hafi oft myndast eins konar kyrrðarstund á litlu kaffistofunni. Eitt verkefni var nú frá og menn virtust vera svolítið dasaðir og slökuðu á áður en byrjað var á því næsta. Við slíkar aðstæðu var mjög líklegt að ef ég var nálægur sem ég reyndni auðvitað að vera, var ég því sem næst undantekningalaust sendur upp í bæ eftir þremur pilsnerum og einni malt. - Og maltið var handa mér.
26.02.2009 08:14
Um Kjarnabúð ehf.
(Hugmynd Vagnssystkinanna í Bolungarvík um útfærslu hinnar framsæknu ferðaþjónustu við ósa Hólsár)
545. Ég rakst nýverið á frétt í bb.is sem er frá miðjum sept. sl. eða frá því fyrir bankahrun. Þar var málefni Kjarnabúðar ehf. til umræðu, en það hafði þá ratað talsvert í fréttir um nokkurra mánaða skeið. Þar kom fram að bæði Strandabyggð og Fjallabyggð hefðu sýnt málinu áhuga.
Forsaga málsins er sú að þegar Soffía Vagnsdóttir og systkini hennar sem eiga fyrirtækið Kjarnabúð ehf. gerðu 400 milljón króna samning við þýsku ferðaskrifstofuna Kingfischer Reisen í maí 2008, sprakk meirihlutinn í Bolungarvík, en Soffía sem var fulltrúi K-listans hafði verið forseti bæjarstjórnar. Hugmyndirnar voru nokkuð stórar í sniðum því stefnt var að byggingu 20 húsa í gömlum íslenskum burstastíl og einnig að kaupa jafnmarga báta til sjóstangaveiðinnar, en kostnaðurinn var áætlaður litlar 300 milljónir. Nýr meirihluti virtist ekki vera jafn áhugasamur um þessa uppbyggingu og sá gamli undir forsæti Soffíu og því var borið við að langan talsverðan tíma tæki að breyta deiliskipulagi til að hægt væri að úthluta umbeðnum lóðum. Afgreiðsla málsins dróst í 6 mánuði og í nóv. 2008 ákvað bæjarstjórn að Kjarnabúð ehf. fengi ekki lóðirnar, því skv. breytingartillögu um deiliskipulag væri ekki gert ráð fyrir neinni starfsemi þar næstu átta árin. Á fréttavef ruv. frá 12. nóv. Kemur fram að sveitarstjórn Strandabyggðar óskaði eftir formlegum viðræðum við Kjarnabúð ehf. eftir að ljóst var hver niðurstaða í Bolungarvík varð.
En fréttin bb.is var svohljóðandi.
Soffía Vagnsdóttir einn af forsvarsmönnum Kjarnabúðar ehf. í Bolungarvík sagði í Kastljósi síðastliðinn fimmtudag að fjögur sveitarfélög hefðu haft formlega samband við fyrirtækið til að bjóða lóð undir starfsemi fyrirtækisins. Soffía nefndi tvö bæjarfélög þeirra, Hólmavík og Ólafsfjörð. Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri Strandabyggðar segir að það hafi aldrei farið svo langt að Strandabyggð hafi haft formlegt samband við Kjarnabúð og boðið þeim lóð. "Á síðasta fjórðungsþingi fór á milli manna frá Strandabyggð og Soffíu að þau væru velkomin til Hólmavíkur með sitt fyrirtæki. Ég var ekki í þeim umræðum og hefur þetta því ekki komið frá sveitarfélaginu sjálfu. Þetta var meira í líki stuðningsyfirlýsingar við hana og hennar fyrirtæki tel ég," segir Ásdís. Ásdísi kemur ekki á óvart lengd afgreiðslutímans á lóðunum sem Kjarnabúð sótti um í Bolungarvík. "Nei, í rauninni ekki og veit ég til þess að svona mál geta tekið allt upp í tvö ár. Þetta er mismunandi auðvitað eftir svæðum en þegar þarf að gera nýtt deiliskipulag þá getur sú vinna tekið langan tíma," segir Ásdís.
Þórir Kristinn Þórisson bæjarstjóri Fjallabyggðar segir að ekki hafi verið formlega haft samband við Kjarnabúð og þeim boðið lóð af þeirra hálfu. " Ég held að það hafi verið einhverjir einstaklingar í sveitarfélaginu sem hafi haft samband við hana, en sveitarstjórn Fjallabyggðar hefur ekki haft formlegt samband við Kjarnabúð og boðið þeim lóð," segir Þórir.
Ég velti fyrir mér hvort hugmyndin sé enn á lífi og þá einnig hvað af henni hafi orðið. Hvort hún hafi orðið lánsfjárkreppunni að bráð eða unnið sé að framgangi hennar og þá hvar...
25.02.2009 08:59
Fyrir hunda og manna fótum
544. Þessi "hlutur" blasti við mér í nýföllnum snjónum þegar ég fór á stjá einn morguninn á dögunum. Ég var eiginlega alveg furðu lostinn, því ég átti satt að segja ekki von á því að rekast hluti eins og þessa þar sem ég gerði það. Nú var ekki um það að ræða að það væri á víðavangi, þ.e. einhvers staðar þar sem umgengni er lítil a.m.k. eftir að skyggja tekur, heldur rakst ég á "hlutinn" á lóðinni og undir gluggum við blokkarinnar þar sem ég bý. Það liggur því nokkuð beint við að ætla að einhver hafi losað sig við græjuna með því að henda henni út um glugga, en auðvitað getur verið að skýringin sé önnur og öðru vísi. Eðlilegast hefði auðvitað verið að taka þetta fyrrum drykkjarílát upp og henda því út í tunnu og það hefði ég að öllu jöfnu gert, en mér datt annað í hug í þetta skiptið. Ég myndaði "hlutinn" og gekk síðan mina leið. Síðan hef ég talið dagana sem hann "hluturinn" hefur legið óhreyfður við hlið gangstéttarinnar þar sem allir íbúar blokkarinnar ganga um.
Dagarnir uðu 10...
23.02.2009 22:27
Nýr bloggari
(Ljósynd: Annað hvort Birgir Ingimarsson eða Stebbi Sigmars)
543. Fyrir þá sem hafa lent í þeim skelfilegheitum að missa vinnu vegna hins mikla samdráttar á þessum síðustu og verstu tímum, er líklega alveg meinhollt að opna bloggsíðu og láta gamminn geysa þar sem mest þeir meiga. Ég er alveg sannfærður um að það hlýtur að hafa aðeins bætandi og græðandi áhrif á sálarástandið, dofann og þá neikvæðu upplifun sem slíku hlýtur að fylgja.
Og gerast þannig meðlimur í samfélagi hugsandi manna og kvenna og hefja sjálfan sig þannig e.t.v. upp úr hugsanaletinni sem getur með tíð og tíma framkallað tómleikatilfinningu í höfðinu og það til frambúðar.
Ferðast um bloggheima þvera og endilanga í leit sinni að svarinu eina og hafa alla möguleika á að gerast maður augnabliksins á þeim bænum.
Gerast landkönnuður og drepa niður fæti sem víðast í hinu fjölbreytta skoðanalandslagi ritvallarins. Þar sem er að finna víðfeðmar andlegar flatneskjur jafnt sem hástefnt vitsmunalíf djúpvitra hugsuða sem virðast hafa ráðið sjálfa lífsgátuna.
Að geta haft bætandi áhrif á náungann en þó einnig beitt pennavopninu fyrir sig sem rýtingur væri þegar það á við.
Klífa hinn þrítuga hamar innihalds og safaríkra skoðanna sinna og sannfæringar, staldra þar við og líta um öxl niður í fjöruborðið þar sem smáar og rislitlar öldur orðagjálfurs brotna hávaðalítið við ströndina.
Dansa línudans á leikvellinum þar sem orðin vega salt en hafa samt bæði vit á að þegja og segja, allt eftir því sem við á hverju sinni.
Skoða sig rækilega en gætilega um og fara í senn mikinn en engu að síður varlega í þessu margbreytilega samfélagi sýnilegra jafnt sem ósýnilegra, siðbætandi jafnt sem siðblindra og vera sinn eigin mótorkútter í hverju því sem gert er og sagt.
Dvelja þar sem skúffuskáldum býðst að opna hirslur sínar, þar sem ekkert þykir að því að skilja eftir loppufar hjá öðrum, þar sem arfi er oftlega reyttur í annarra manna görðum og þar sem hægt er að taka þátt í loftkenndri umræðu til að tæma og hvíla hugann.
Ég mæli með því að þeir sem hafa tíma aflögu svo ekki sé talað um þá sem hafa góðan tíma aflögu, finni sig í blogginu sem getur verið sé rétt að staðið, nærandi, styrkjandi, gefur hraustlegt og gott útlit og bætir meltinguna rétt eins og maltið, eða bætir, hressir, kætir eins og opalið.
Ég var annars að bæta við einum tengli í safnið, en hann leiðir til Guðmundar Ingólfssonar.
22.02.2009 10:38
Æskó
(Æskó á Siglufirði. - Úr ljósmyndasafni Siglufjarðar)
542. Á einu af ferðalögum mínum um netheima sem eru hreint ekki svo óalgengir, rakst ég á litla klausu þar sem farið er í örfáum orðum um sögu félagsmiðstöðva á Íslandi. Þar kemur fram að Siglfirðingar voru fyrstir landsbyggðarmanna til að stíga skref í þá áttina og þar með hefja þá þróun sem síðar leiddi til opnunar fjölmargra félagsmiðstöðva eins og við þekkjum þær í dag. Sú spurning vaknar hvort Siglfirðingar hafi verið að einhverju leyti framsýnni en aðrir utan Reykjavíkur, eða hvort einhverjar aðrar skýringar eru finnanlegar. Ég neita því ekki að mig grunar að svörin gætu litast lítillega af því hvort sá eða sú sem svarar er Siglfirðingur eður ei. Og ég neita því ekki heldur að ég finn ofurlítinn fiðring í "montgeninu" við lesturinn, svo og að sjá að t.m.a. Akureyringar hafa verið heilum áratug síðar á ferðinni þegar þeir opnuðu Dynheima. Á mínum Æskó-árum var þar starfandi Anna Magnúsdóttir en síðar Kristján L. Möller.
Eftirfarandi er tekið af vef Samfés: Í kringum 1955 fer mönnum að verða ljóst að einhverskonar afdrep fyrir unglinga vantaði. Í kjölfarið var Æskulýðsráð Reykjavíkur stofnað árið 1956 og útfrá því Tómstundarheimilið við Lindargötu sama ár. Starfseminni sem þar fór fram má líkja við það starf sem fram fer í félagsmiðstöðvum í dag. Þar var það þó aðeins starfandi til ársins 1964 eða þar til það flutti að Fríkirkjuvegi 11 þar sem það starfaði í kjallara hússins til ársins 1971. Árið 1962 stofnuðu Siglfirðingar æskulýðsheimili þar í bæ sem gegndi svipuðu hlutverki og félagsmiðstöð gerir í dag. Tónabær hóf síðan starfsemi sína árið 1969, Æskulýðsheimilið að Flatahrauni í Hafnarfirði var einnig sett á laggirnar sama ár. Árið 1972 stofnuðu Akureyringar Dynheima, 1974 tók Fellahellir til starfa, 1975 hóf félagsmiðstöð Selfyssinga starfssemi sína og uppúr því byrjar blómaskeið félagsmiðstöðvanna þar sem þær spruttu upp hver á fætur annarri t.d. í Keflavík, Garðabæ, Vestmannaeyjum og á Sauðárkróki.
21.02.2009 01:12
Svikahrappar
541. Nú þegar góðærið og gervivelsældin er liðin tíð, hafa ýmsir þurft að breyta sínum lífsstíl og taka upp nýja siði. Á meðan byggingariðnaðurinn var á sínu mesta þensluskeiði í manna minnum, var oft með lagni og lempni hægt að fá t.d. smiði, múrara, rafvirkja, málara o.fl. til ýmissa minni verka. En um píparar virtust gilda önnur lögmál, því þá var því sem næst útilokað að eiga við. Almennt var talið að þessi grein iðnaðarmanna væri stórlega undirmönnuð og var ýmsu kennt um.
Nokkrir ungir pípulagningamenn nýttu sér þennan gríðarlegan skort og auglýstu eftir verkefnum. Viðbrögðin urðu auðvitað það sem kalla mætti stórfengleg, því símar hreinlega loguðu jafnt daga sem nætur. Næsta skref í plottinu var að taka út verkið, en til að það mætti gerast þurfti að greiða sérstakt skoðunargjald kr. 15.000 á staðnum við mætingu. Nær undantekningalaust var það innt af hendi án þess að reikningur veri gefinn út á móti og tekið var sérstaklega fram að það væri ekki endilega sjálfgefið að sá sem skoðaði tæki verkið að sér. Á annað ár gerðu þessir menn sem ég vil kalla svikahrappa ekkert annað en að kíkja við hjá grandalausu fólki sem bráðvantaði pípara til minni hátta viðhaldsverka, og var algengt að hvert innlit tæki u.þ.b. klukkutíma. Þeir innheimtu uppsett skoðunargjald og gerðu nánast ekkert annað mánuðum saman. Einn þeirra lýsti því yfir að tvö til fjögur innlit á dag fimm daga vikunnar gæfu sér u.þ.b. milljónkall á mánuði - svart, þetta væri bara fínt svona og vonandi entist þetta ástand sem lengst. En það voru þeir sem á endanum komu og unnu sína vinnu, sem fengu gjarnan á undan öllu öðru spurninguna um hvort þeir tækju skoðunargjald án fyrirheits um að taka að sér verkið. Dæmi voru um að sami aðili hefði oftar en einu sinni greitt slíkum hröppum fyrir skoðun á verki sem aldrei stóð til að taka að sér af þeirra hálfu, áður en "alvöru" pípari vann verkið.
Nú eru þessir vafasömu ævintýramenn án atvinnu og skyldi engan undra...
19.02.2009 23:11
Opinberun Jóhannesar Georgs
540. Ég fékk sendan tölvupóst áðan og innihaldið fer hér á eftir. Ekki er hægt að segja að hann hafi verið uppbyggilegur fyrir sálina og andann, en ég kópí/peistaði boðskapinn rakleiðis hingað yfir á bloggið því ef þetta er það sem koma skal er líklega óhætt að fara að finna til ferðatöskurnar og pakka niður með hraði.
Þetta er opinberun Jóhannesar Georgs, sem réttu nafni heitir Johanes George Lee og er skoskur sjáandi sem hefur séð marga atburði fyrir, t.d. forsetakjör Obama, skógareldana í Ástralíu, og efnahagshrunið á Íslandi.
Hér á eftir er lausleg þýðing úr ensku á sýn hans á framtíð Íslands á næstu árum.
2009: Forsætisráðherra nýju ríkisstjórnarinnar, Jóhanna, er heiðarleg og dugleg, en því miður fær ríkkistjórn hennar fáu áorkað til góðs. Orsök þess er mikil ringulreið og óeining í þinginu og stjórnkerfinu. Fátt gengur í haginn. Það tekst að koma Davíð úr Seðlabankanum og skipa einn Seðlabankastjóra, en það breytir litlu um efnahagsöngþveitið. Atvinnuleysi eykst, fólk missir eignir sínar. Þúsundir fólks flytja úr landi á þessu ári, mest til Noregs og Kanada, en einnig til fleiri landa.
Seinast í Apríl verða kosningar til þings. Nokkur ný framboð taka þátt í kosningum, en ekkert þeirra fær mann á þing, heldur taka þau fylgi frá Samfylkingu og Vinstri grænum. Framsóknarflokkurinn vinnur góðan kosningasigur og Sjálfstæðisflokkurinn fær frekar slaka útkomu. Þessir flokkar fá nauman meirihluta saman, og mynda ríkisstjórn að loknum kosningum, við lítinn fögnuð þjóðarinnar. Verðbólga minnkar á fyrri hluta ársins, en stígur í yfir 30% í árslok 2009.
2010:
2011:
2012:
2013:
2014:
Á þessum tíma er íbúafjöldi Reykjavíkur um 50.000 og alls landsins um 200.000 í stað 320.000, árið 2008. Þriðjungur þjóðarinnar er fluttur úr landi.
Svo mörg voru þau orð.
12.02.2009 01:08
Um fjögur skörð og fjallafjöld
(Ljósmynd af snokur.is)
Fyrst er ekið upp í Siglufjarðarskarð (630m.) en með því að gera það verður hækkun á gönguleiðinni ekki svo mjög mikil og líklega má hún þess vegna vera heldur lengri fyrir vikið, en síðan gengið eftir fjallsegginni að Afglapaskarði. Það er stuttur spölur og tiltölulega auðfarin fyrir þokkalega gönguvana.
Horft til Siglufjarðarskarðs þegar gengið er í átt að Afglapaskarði.
Skarðshnjúkur er u.þ.b. mitt á milli Skarðanna.
Í Afglapaskarði.
Á snokur.is má lesa eftirfarandi:
Ofan við upptök Þvergils gengur hæðatangi nokkur frá Úlfsdalafjöllum lækkandi og hverfandi suður í dalinn. Verður því botn hans sem hvarf eður afvik nokkurt ofan þessa hæðatagls er nefnist Siglufjarðarháls (61); er suður frá enda hans við veginn steinn allstór nefndur Kirkjusteinn (62). Nokkuð vestar við veginn niður frá Siglu-fjarðarskarði er Skarðshóll (63). Austan Þvergilsalda kemur aðalkvísl Skarðsdalsár sunnan úr hvolfi því er syðst gengur af dalnum og nefnist Skarðsdalsvik (64). Er það hinn syðri botn hans og skilja þá hæðir nokkrar og fjallshnjúkur sá er Skarðshnjúkur (65) nefnist, en sunnan hans og norðan eru eggþunnir hryggir sem saman tengja háfjöllin og skilja botna Skarðsdals og Hraunadals (að vestan); er norðan hnjúksins Siglufjarðarskarð en sunnan Afglapaskarð (66). Er ýmsum hætt að villast í það er að vestan kemur þá dimmt er og fannir því líkar. Eru þar uppgöngur en afglöp þykja það ill, því lítt fært er að austan. Uppi á ytri hryggnum, sunnan götu, er klettabrík ein að norðan hnjúksins er nú nefnist Altari (67). Mun nafn þetta hafa færst á brík þessa nýlega þá hrunið var og horfið "grjótaltari" það er þar var "byggt" 1735, þá fram fór hin fræga athöfn hér, bænir og vígsla, sakir hræðslu íbúa þessara byggða við ofsóknir hulinna vætta á leið þessari og víðar, er þá gekk svo úr hófi að heftar voru samgöngur að mestu. Varð hér þá til óheyrðra ráða að taka og var fjölmenni hér saman stefnt enda trúðu menn því hér að nokkuð væri óhættara síðan. Lifði þó enn í þeim kolum og bænir voru hér fluttar svo lengi, að vel muna það miðaldra menn.
(Ljósmynd af snokur.is)
Gengið upp úr Afglapaskarði og á fjallið fyrir ofan Skarðdalsvík og þaðan um Hákamba. (847m.)
(Ljósmynd af snokur.is)
Síðan á Selfjall, yfir Blekkilsbarn og fram á sjálfan Blekkil.
Blekkill (776 m.) er myndarlegt fjall fyrir botni Hólsdals. Ég hef oft horft til þess, langað að ganga á það og hugsað með mér að það væri á vissan hátt vanmetið. Það ætti skilið að vera sett á hærri stall sem kennileiti og víst er að margir þeir sem búa á staðnum hafa ekki minnstu hugmynd um nafn þess eða staðsetningu.
(Ljósmynd af snokur.is)
Þaðan á Almenningshnakka (915 m.) sem er hæsta fjall við Siglufjörð.
Eftir að hafa farið um Hólsskarð er freistandi að koma við á Presthnjúk (769 m.) sem er lítið eitt hærri en Hólshyrnan.
Hér sést stór hluti leiðarinnar, eða frá Skarðshnjúk og rétt austur fyrir Presthnjúk. Myndin er tekin ofan af Hestskarðshnjúk og héðan sýnist hún vera þægileg og auðfarin yfirferðar ef marka má mjúkar útlínur fjallanna. En hætt er við að annað og örðuvísi landslag komi í ljós þegar á hólminn er komið.
Presthnjúkur í baksýn. Um haustið 1007 gengum við Maggi Guðbrands á Hólshyrnuna og fleiri fjöll, en slepptum Presthnjúknum einhverra hluta vegna. Næst liggur fyrir að ganga þaðan, hjá Hólsskarði fyrir vestan verðan botn Skútudals á Móskógarhnjúk.
Leiðin fyrir vestanverðan Skútudal upp á Móskógarhnjúk. Myndin er tekin ofan af hnjúknum og þegar gengið er eftir fjallsegginni er horft ofan í Héðinsfjörð til annarrar handar en niður eftir Skútudal og til Siglufjarðar til hinnar.
Almenningshnakki vinstra megin við miðju og Presthnjúkur hægra megin. Myndin er tekin af Móskógarhnjúk.
(Ljósmynd Magnús Guðbrandsson)
Af Móskógarhnjúk er alveg frábært útsýni til flestra átta.
Næsta fjall er austanvert í dalnum og heitir Dísin, en hér má sjá leiðina þangað frá Móskógarhnjúk.
(Ljósmynd af snokur.is)
Norðan við Dísina er svo Pallahnjúkur. Mér er reyndar ekki kunnugt um hvernig er að ganga um þessi fjöll, en ég geri ráð fyrir að þar sem aðrir hafa gert það áður og landslagið ekki breyst nýverið hljóti það að bjargast.
(Ljósmynd af snokur.is)
Eystri hluti leiðarinnar liggur bak við Hólshyrnuna, fyrir Skútudalinn og niður úr Hestskarði.
Leiðina niður af Pallahnjúk og ofan í Hestskarð verður að fara fetið eins og sagt er, því hún er bæði klettótt, laus í sér og brött.
Úr Hestskarði liggur svo leiðin ofan í Hestskarðsskál, en þaðan niður hlíðina og að gangnamunna Héðinsfjarðarganga sem marka ferðalok.
Ég er þeirrar trúar að hægt sé að komast alla þessa leið á góðum degi, en auðvitað getur verið óvitlaust að skipta henni t.d. við Hólsskarð. Líklega er skynsamlegt að fara síðsumars þegar snjóa hefur leyst að mestu og flestir eru komnir í heldur skárra líkamlegt form.
En hvers vegna að vera að lýsa fyrirhuguðum landvinningum? Væri ekki skynsamlegra að þegja þunnu hljóði og láta frekar frá sér heyra eftir á, þegar og ef góð áform hafa orðið að veruleika? Líklega er það svo, en þessa leið stóð til að fra s.l. sumar en varð ekki af. Þetta er því hvort tveggja, aðferð til að byggja upp pressu á aðgerðir, varna því að bakkað verði út úr fyrirhuguðum hugmyndum í skjóli þagnarinnar og eins er varpað fram spurningu um hvort einhverjir hafa áhuga á að slást í för...
10.02.2009 20:21
Nokkrar hálsæfingar með meiru...
538. Prófaðu að horfa fast á svarta punktinn í miðri myndinni og hafðu augun vel á honum. Hallaðu síðan undir flatt til hægri en gættu þess að sleppa ekki augunum af punktinum. Hallaðu síðan jafnmikið undir flatt til vinstri og horfðu alltaf á jafn fast á hann. Afur til hægri, síðan vinstri o.s.frv.
...Hvað gerist?
Fann þennan á Húnahorninu af öllum stöðum...
Blindur maður villist inn á kvennabar, finnur sér stól við barborðið og pantar sér glas.
Þegar hann er búinn að sitja nokkra stund kallar hann á barþjóninn.
"Heyrðu, á ég að segja þér ljóskubrandara?"
Á sömu stundu dettur allt í dúnalogn á barnum, þar til konan við hlið blinda mannsins segir við hann með lágri og dimmri rödd.
"Áður en þú segir þennan brandara, góði
Barþjónninn er ljóshærð kona.
Útkastarinn er ljóshærð kona.
Ég er 1,85 á hæð, 100 kíló, með svarta beltið í karate og ég er ljóshærð.
Konan við hliðina á mér er ljóshærð og Íslandsmeistari í lyftingum.
Konan sem situr hinum megin við þig er líka ljóshærð og er Íslandsmeistari í vaxtarækt.
Hugsaðu þig vel um, vinur. Langar þig enn að segja þennan brandara þinn?"
Blindi maðurinn hugsar sig um andartak, hristir svo höfuðið.
"Nei, ætli það", segir blindi maðurinn, "Ekki ef ég þarf svo að útskýra hann fimm sinnum."
Til að auðvelda skilning svokallaðra nörda á því hvernig þessi græja virkar, þá var þessi skýringarmynd gerð og yfirfærð á það sem kallast skiljanlegt mál fyrir þennan hóp manna.
Áformað var að Bítlarnir gengju aftur yfir Abbey road mörgum, mörgum árum síðar. Að þessu sinni sáu John og George sér ekki fært að mæta og sendu sameiginlegan fulltrúa sinn.
Ljóskan fer auðvitað eftir því sem stendur á skiltinu, enda er boðskapurinn alveg skýr og ótvíræður. Aðrar mættu gjarnan taka sér hana til fyrirmyndar.
Gas, gas, gas... Eitthvað fyrir lögguna...
Vér sem klífum fjöll af kappi fremur en forsjá...
Dönsum fugladansinn,
dýrum gefum brauð.
Látum fuglafansinn,
á frera landsins ekki líða nauð...
Lykilorðið takk - ef þú vilt komast inn...
07.02.2009 11:06
Blár opal.
537. Nokkuð langt um liðið síðan hægt var að skreppa út í sjoppu og kaupa bláan opal, en það var um haustið 2005 sem framleiðslunni var endanlega hætt. Ásæðan var sú að aðal bragðefnið fékkst ekki lengur þar sem það innihélt örlítinn vott af klór og hafði því verið bannað.
Það var svo á dögunum að tveir pakkar voru boðnir til kaups á selt.is sem er nokkurn vegin hin íslenska og allmikið smækkuð útgáfa af E-bay og hún Minný lét það tækifæri ekki fram hjá sér fara og keypti þá. Verðið var öllu hærra en áður en þeir voru komnir fram yfir síðasta söludag, eða aðeins 5.500 kr.
06.02.2009 00:56
Óttar Bjarnason - minning.
(Óttar Bjarnason - Úr ljósmyndasafni Siglufjarðar.)
536. Snemma á sjöunda áratugnum hófum við sem fædd erum árið 1955 norður á Siglufirði, skólagöngu okkar í barnaskólanum niðri á eyrinni. Einn af þeim sem þar mætti til að nema fræðin og gerast ferðafélagi okkar hinna á lífsins braut var Óttar Bjarnason. Til að byrja með fór ekki mikið fyrir honum, en eftir á að hyggja erum við ekki frá því að hann hafi verið feimnari inn við beinið en margur hugði þegar frá leið. En það átti eftir að breytast því með tíð og tíma óx hann af kerskni sinni og grallaraskap okkur krökkunum oftar en ekki til óblandinnar ánægju, en kennurum okkar öllu minna.
Eftir að samveruárin voru að baki og skólagöngu okkar á Siglufirði var lokið, þynntist hópurinn á heimslóðunum eins og gengur og mörg okkar héldu á braut, ýmist til starfa eða náms. Óttar fór ekki langt, heldur settist að á Sauðárkróki sem var svo mjög í leiðinni fyrir okkur sem bjuggum á suðvesturhorninu. Ósjaldan kom það því fyrir að eitthvert okkar rak inn nefið hjá honum og Gunnu þegar við áttum leið hjá og það er ekki ofsagt að þau hafi verið hinir mestu höfðingjar heim að sækja.
Árið 1995 hittist hópurinn á Sigló. Mæting var með ólíkindum góð og við sem stóðum þá á fertugu eyddum saman einni helgi, rifjuðum upp horfnar stundir og gamlar prakkarasögur. Ekki er ég frá því að nafn Óttars hafi oftar verið nefnt til sögunnar í þeirri upprifjun en margra annarra. Og þegar farið var yfir þessar gömlu skólasögur, er óhætt að fullyrða að sá hluti þeirra sem að honum snéri hafi vakið einna mestu kátínuna, verið uppspretta mestrar gleði og hlátraskalla og brosin í augnkrókunum eftir þær hafi lifað lengur. Af þessum toga voru bernskuminningarnar sem tengdust bekkjarbróður okkar og samferðarfélaga á uppvaxtarárunum. Þarna var líka hljómsveitin okkar frá Gaggaárunum endurvakin, en í henni gegndi Óttar veigamiklu hlutverki. Hápunktur tónleikanna sem hún hélt okkur var án efa þegar Óttar söng "Sem lindin tær" fullum hálsi og fór létt með það, en það var eitt af hans uppáhaldslögum alla tíð.
Tíu árum síðar kom hópurinn svo aftur saman og að þessu sinni í sumarbústaðnum þeirra Óttars og Gunnu. Í þessari gróðursælu vin sem er eins og lítið herrasetur, þessu skjóli frá erli dagsins sem er byggt upp af svo mikilli eljusemi og fagurlega blómum skrýtt. Þá komumst við að því hversu græna fingur Óttar hafði sem var alveg nýtt fyrir okkur. Við horfðum í kring um okkur á alla dýrðina sem við blasti og mörg okkar uppgötvuðu þarna nýja hlið á okkar manni sem sífellt gat átt það til að koma á óvart. Í þessari litlu Paradís áttum við svo góða stund og þegar leið á nóttina mátti heyra glaðan söng bergmála í fjöllunum í kring, en mest og best heyrðist þó í forsöngvaranum og herra staðarins.
Eftir að þau Óttar og Gunna fluttu suður urðu þau auðvitað strax ómissandi þegar kom að starfsemi saumaklúbbs árgangsins, en hann hefur starfað óslitið áratugum saman. Þannig hlaut það líka að verða, því þessi heiðurshjón voru svo drífandi og félagslynd í eðli sínu. Þegar árgangurinn kom saman fyrir fáeinum dögum, var rifjaður upp "hittingur" fyrir tveimur árum á heimili þeirra í Kópavoginum. Það var auðvitað góður og skemmtilegur dagur eins og allir aðrir slíkir þegar þessi ágæti hópur hittist, en Óttar hafði bakað risastóra súkkulaðiköku sem hann bar á borð fyrir okkur. Þegar horft er til baka var ekkert okkar í hinum minnsta vafa um að þarna hafði verið framreidd sú besta súkkulaðikaka sem nokkurt okkar hafði á æfinni smakkað. Já, honum var margt til lista lagt honum Óttari Bjarnasyni.
Óttar er fimmti bekkjarbróðirinn sem hefur nú kvatt okkur og flutt sig um set yfir á annað tilverustig. Við munum sakna hans sárt og getum illa fengið skilið ástæður þess að sumir eru kvaddir til svona allt of snemma. Svo fyrirvaralaust og óvænt þegar lífskrafturinn svellur og á gleðinni yfir því að vera til er engan bilbug að finna. Við kveðjum vin okkar og bekkjarfélaga, vottum Gunnu og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúðarkveðjur.
Árgangur 1955 Siglufirði.
- 1