Blogghistorik: 2008 Denna post är låst. Klicka för att öppna.

30.08.2008 05:47

Hænur kunna ekki að synda.



495. Eftirfarandi saga er sönn
þótt ótrúleg sé. Fáeinum atriðum hefur þó verið breytt, engum aðalatriðum þó og hún færð lítillega í stílinn til að gera hana skemmtilegri aflestrar.

Það var vor í lofti og ég hafði vaknað snemma þennan sunnudagsmorgun. Himinninn var eins blár og hann getur frekast orðið og sólin hellti geislum sínum yfir lönd og höf. Ég opnaði gluggann, horfði út á grasflötina fyrir framan húsið og heyrði að það voru fleiri vaknaðir en ég. Fuglasöngur rauf kyrrðina sem lá yfir bænum eins og silkimjúkt teppi. Innan dyra var hins vegar grafarþögn og engin hreyfing. Skyndilega heyrðist daufur dynkur við hliðina á mér þegar kötturinn stökk upp á borðið og teygði trýnið upp að opnum glugganum. Hann hafði heyrt fuglasönginn fyrir utan og sýndi þessum hljóðum talsverðan áhuga. Hann mjálmaði hljóðlaust og veiðihárin titruðu lítillega þegar hann skimaði eftir einhverri hreyfingu í trénu sem teygði sig upp með húsveggnum. Ég settist niður við eldhúsborðið og fékk mér meira kaffi. En fylgdist áfram með kisa sem gægðist út en fannst líklega of langt frá glugganum og niður til jarðar. Eftir að hafa notið útsýnisins um stund, stökk hann niður á gólfið og stillti sér upp við tóman dallinn sinn og mjálmaði aftur. En í þetta sinn varð það ekki hljóðlaust og hann horfði á mig eins og hann vildi koma einhverjum mikilvægum skilaboðum til mín. Ég skildi alveg inntakið og meininguna og beygði mig eftir fötunni með þurrfóðrinu og hellti svolitlu í matarílátið hans.

Á svona morgnum er ekki hægt að fara að sofa aftur því þeir eru einfaldlega of góðir til þess. Þeirra ber að njóta til hins ýtrasta og reyna að fá sem allra mest út úr þeim. Ég stóð upp og gekk til dyra. Á leiðinni út teygði ég mig eftir jakkanum og renndi mér í skóna á pallinum fyrir framan dyrnar. Fáum mínútum síðar var ég sestur undir stýri og lagður af stað eitthvað út í buskann. Ég vissi svo sem ekkert hvert ferðinni væri heitið, heldur ók bara beint af augum. Ég skrúfaði niður rúðuna og setti olnbogann út um gluggann. Ferskur blærinn lék um mig og toppurinn lyftist frá enninu.
Skyldi vera búið að opna nokkra ísbúð svona snemma?
Líklega var það nú ekki svo.
Ég var búinn að aka í heilar 10 mínútur þegar ég mætti loksins bíl.
Hann hlaut að vera á leiðinni suður á völl. Fyrir utan fólkið sem í honum var og virtist vera nývaknað og svolítið grámyglulegt að sjá, mátti greina nokkrar ferðatöskur sem hafði verið staflað hverri ofan á aðra í aftursætinu.
En að vera að fara héðan á svona góðum degi?

Eftir svolitla stund var ég kominn niður að gamla Iðnó. Svolítil kvak og skvamphljóð bárust inn um bílgluggann sem enn var galopinn, en síðan önnur hljóð sem mér fannst ekki falla alveg eins vel að morgunkyrrðinni. Ég gat ekki betur heyrt en einhver undarleg hróp og köll blönduðust inn í fuglakvakið og forvitni mín var vakin. Ég beygði inn á Lækjargötuna, lagði bílnum og gekk að tjörninni. Tvær ungar stúlkur voru greinilega eitthvað ósáttar við mann á miðjum aldri sem stóð úti í tjörninni og hélt á hænu.
Ég deplaði augunum nokkrum sinnum og velti fyrir mér hvort mér hefði virkilega ekki missýnst, en svo reyndist ekki vera.
Maðurinn sem virtist vera fastur í leðjunni á botni tjarnarinnar var greinilega eitthvað að skammast út í stelpurnar sem tóku því ekki vel og lásu honum pistilinn á móti.
"Andstyggilega blóðuga kjötætan þín, ætlarðu ekki að leyfa hænunni að njóta þess að vera frjáls innan um hina fuglana" hrópaði önnur stúlknanna.
"Ætlarðu kannski að éta hana á staðnum" bætti hin við.
"Fíflin ykkar, ætlið þið að drekkja hænunni" þrumaði maðurinn á móti.
"Réttast væri að rassskella ykkur" bætti hann við.
"Já, var það ekki. Þú ert þá líka perri karlpungurinn þinn." Sagði sú sem fyrr hafði talað.
Ég fikraði mig nær og sperrti eyrun, en reyndi samt að láta ekki mikið á mér bera. Þetta virtist vera hin undarlegasta uppákoma og ég vildi gjarnan vita meira um hvað hér væri á seyði.
En þær stöllur komu fljótlega auga á mig og snéru sér þá að mér. Þeim var mikið niðri fyrir og töluðu ýmist til skiptist eða báðar í kór.
"Viltu hjálpa okkur að láta klofblauta perrann þarna sleppa hænunni okkar?"
"Við ætluðum að frelsa hana og leyfa henni að synda á tjörninni með hinum fuglunum, en þá kom karlfíflið og óð út í og náði henni."
"Og hann vill ekki sleppa henni aftur."
"Það eiga öll dýr rétt á því að vera frjáls."
"Já, og það ætti aldrei að setja dýr í búr."
Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að bregðast við.
"Eigið þið þessa hænu" spurði ég svolítið hikandi.
Þær litu hvor á aðra og þögnuðu, en aðeins andartak.
"Nei sko, við fórum í nótt og hleyptum út helling af hænum út úr einhverjum hænsnakofa."
"Okkur finnst að það eigi ekki að loka dýr inni."
"En við náðum svo bara einni og settum hana í bílinn."
"Og slepptum henni hér."
"Reyndar skeit hún í aftursætið á bílnum."
"Við borðum heldur alls ekki kjöt."
"Eða við erum alla vega hættar því."
Ég velti fyrir mér hvort þær væru annað hvort drukknar eða á einhverjum lyfjum, en gat ekki séð að um neitt slíkt væri að ræða.
"Hentuð þið svo hænunni í tjörnina?" Ég gat ekki leynt undrun minni.
"Já auðvitað, þetta er miklu náttúrulegra umhverfi fyrir hana."
"Hérna fær hún að vera innan um sína líka, endur, gæsir, máva og svoleiðis."
"Og við erum ekki hættar, við erum eiginlega rétt að byrja."
"Byrja?" Ég komst ekki lengra því þær tóku strax af mér orðið.
"Já, við ætlum að halda áfram að frelsa dýr"
"Og fá fleiri með okkur."
Það hafði ekkert heyrst í manninum meðan þær létu dæluna ganga, en honum hafði nú tekist að brjótast upp úr leðjunni á tjarnarbotninum, stóð á bakkanum og talaði í gemsa.
Hænunni hafði nú tekist að losna úr fangi hans og tók sprettinn eftir brúnni rakleiðis að Ráðhúsinu. Hann hljóp á eftir henni en náði henni ekki fyrr en við aðaldyr hins reisulega og virðulega húss. Þetta var reyndar svolítið spaugilegt allt saman og ég gat ekki annað en flissað.
"Þetta er ekkert fyndið." Önnur stúlknanna hleypti í brýrnar.
"Hvað eruð þið eiginlega gamlar?" Ég gat ekki betur séð en að þær ættu báðar að vera komnar af óvitaaldrinum.
"Við erum báðar 17" svaraði önnur af bragði.
"Hvaða máli skiptir það. Ert þú kannski líka perri fíflið þitt?"
Nú fjölgaði í hópnum því tveir laganna verðir komu röltandi fyrir hornið á Iðnó.
Maðurinn kom í sama mund gangandi frá Ráðhúsinu, illa til reika en með hænuna í fanginu.
Hinir uppáklæddu opinberu starfsmenn horfðu furðu lostnir á hann og síðan stúlkurnar tvær.
Eftir að hafa spurt lítillega út í þessa undarlegu uppákomu, virtust þeir átta sig á helstu atriðum málsins.
"Stúlkur, viljiði ekki koma aðeins og spjalla við okkur?"
Og þær voru nú heldur betur til í að tala máli hænunnar og réttlætisins.
"Þið verðið líka að taka þessa tvo perrakarla og loka þá inni" var það síðasta sem ég heyrði frá þeim.
Annar "lögginn" spurði klofblauta manninn með hænuna hvort hann væri til í að hinkra með "sundfuglinn" í fáeinar mínútur þar til annar bíll kæmi.
Hann jánkaði því og við stóðum þarna þrjú eftir. Ég, blauti maðurinn og hænan.
"Vantar þig nokkuð svona hænu" spurði hann og glotti dauflega.
"Nei, ég á kött og læt það duga í bili" svaraði ég.
Svo gekk ég áleiðis að bílnum.
Þegar heim var komið fékk ég mér meira kaffi og brauðsneið með kjúklingaáleggi.

E.S. Bestu þakkir til Gullu fyrir innblásturinn.

25.08.2008 00:25

Um stórgítarleikarann Gest Guðnason



494. Einn af þeim efnilegri tónlistarmönnum sem Siglufjörður hefur alið er án efa Gestur Guðnason. Ekki veit ég hvað kveikti áhuga Gests á tónlist í upphafi, hvenær hann lærði fyrstu gripin eða byrjaði að spila í hljómsveitum. En ég man fyrst eftir honum árið 1969 þegar ég ásamt Þórhalli Ben, Vidda Jóhanns, Guðna Sveins og Óttari Bjarna höfðum stofnað unglingahljómsveitina Hendrix og æfðum í Vökuhúsinu að Gránugötu 14. Þá átti Gestur það til að birtast upp úr þurru, setjast niður með okkur litlu guttunum og kenna okkur nokkur ný grip eða jafnvel heilt lag sem við gátum þá bætt við prógrammið eftir að hafa hamrað svolítið á því. Á þessum árum þekkti ég Gest sem hreint ótrúlega ljúfan dreng og mikið prúðmenni í alla staði. Svo hvarf hann á braut, ákveðinn í að freista gæfunnar sunnan heiða með gítarinn og aðra mannkosti sína að vopni, en ég hef því miður lítið séð hann eða heyrt síðan þá. Fyrir nokkru datt mér í hug að "gúggla" feril hans af netinu, en fann minna en ég hefði kosið. Ég vil samt reyna að fara lauslega yfir það sem ég veit af, eða hef fundið út með ýmsum ráðum þegar skoða skal hvað þessi ágæti drengur hefur drepið niður fæti.
(LRÓ.)



Stormar - Ljósmynd úr safni Steingríms.

Hljómsveitin Stormar var án efa ein af vinsælustu unglingahljómsveit á Norðurlandi, um þær mundir er myndin var tekin árið 1966. Þarna eru Hallvarður Óskarsson - trommur, Theódór Júlíusson - söngur, Gestur Guðnason - gítar, Ómar Hauksson - bassi og Árni Jörgensen - gítar. Síðar komu við sögunnar Rafn Erlendsson - trommur, Jósep Blöndal - piano, og Friðbjörn Björnsson - gítar.
Sagt er að hljómsveitrir hætti aldrei, heldur hvíli sig bara mislengi. Á það líklega betur við um þessa hljómsveit ef eitthvað er en flestar aðrar, því fyrir nokkrum árum hrukku Stormar aftur í gírinn og hafa verið að síðan með mislöngum hléum. Núna síðast spiluðu þeir á Ketilási þ. 26. júlí sl. fyrir fullu húsi þar sem aldurstakmarkið var sagt vera 45 ár nema í fylgd með fullorðnum.
Hljómsveitin rekur líka menningarfélagið Storma sem fær í sinn hlut allar þær greiðslur sem koma til vegna tónlistarflutnings hin síðari ár. Fé þessu er síðan ráðstafað til ýmissa velferðarmála og annarra góðra málefna í Fjallabyggð skv. ákvörðun stjórnar hverju sinni.
(LRÓ.)



Hljómsveitin Hrím. - Ljósmynd fengin að láni hjá Kristjáni Jóhannssyni.

Kristján Jóhannsson myndlistarkennari kom eitt sinn í heimsókn til mín á Aðalgötuna þegar ég var á Siglufirði og sagði mér sögu hljómsveitarinnar Hrím.

Við vorum miklir vinir Gestur og ég, og einu sinni spurði hann mig hvort ég vildi ekki reyna að spila á bassa. Það var sennilega árið 1967 en ég var ekkert allt of viss, því í fyrsta lagi lá það í sjálfu sér ekkert fyrir að ég myndi geta spilað yfirleitt á hljóðfæri. Í öðru lagi átti ég alls engar græjur, en fékk samt lánaðan bassa og prófaði. Þetta lukkaðist merkilega vel og ég var þar með kominn í hljómsveit. Gestur Guðna og Árni Jör komu úr hljómsveitinni Stormum og voru alveg þrælsjóaðir. Rúnar Egils var svo trommarinn, en ég man ekki til þess að hann hafi mikið spilað fyrir þennan tíma. Maggi Þormar bróðir Jómba í Gautum var með fyrsta árið og spilaði á orgel, en síðan hætti hann og enginn var ráðinn í stað hans.

Við æfðum fyrst í stað í húsnæði verkalýðsfélagsins Vöku við Gránugötu, en síðar meir í Allanum þar sem við spiluðum oftast enda stóðu hljóðfærin yfirleitt þar. Æfingarnar voru nokkuð skipulagðar, t.d. æfðu gítararnir fyrst saman sér, trommur og bassi sér og síðan söngur og raddir sér. Eftir þetta var allt æft saman, og þessi aðferð reyndist okkur ágætlega.
Við spiluðum áfram fjórir og það gekk bara vel. Við höfðum merkilega mikið að gera og þetta var mjög skemmtilegur tími. Gestur fór vestur um haf seint á árinu 1967 í heimsókn til föðurbróður síns, en hann kom til baka með fullt af forvitnilegri tónlist á splunkunýjum vinyl. Þar á meðal var fyrsta plata hljómsveitarinnar "The Doors" sem enginn á Íslandi hafði þá heyrt getið um.
Ég var ballöðukarlinn í bandinu og söng m.a. bítlalagið Hey Jude svo og nokkur Bee Gees lög.

Árið 1969 ákvað ég að reyna að komast inn í "Mynd og hand," og fór í inntökupróf um vorið ásamt Örlygi núverandi safnverði.Við komumst báðir inn og stefndum því að hefja skólagönguna þá um haustið. Ég þurfti því að huga að fjármögnun námsins því engin fékk ég námslánin, og þegar leið á sumarið seldi ég hljóðfærin og varð því að hætta að spila.
Um verslunarmannahelgina ákvað ég að skella mér í Húsafell og það gerðu hinir Hrímararnir líka. Þetta átti í upphafi bara að vera til skemmtunar, en það fór svolítið á annan veg. Þeir spurðu mig hvort ég væri ekki til í að vera með þó svo að ég væri eiginleg hættur, því það væri hljómsveitarkeppni í Húsafelli. Auðvitað var það í góðu lagi, en ég átti bara engan bassa lengur. Þeir fullvissuðu mig um það væri ekkert mál að fá lánaðan bassa, og svo var unglingahljómsveitin Hrím frá Siglufirði skráð til þátttöku. Það var ákaflega vænn og prúður piltur sem lánaði mér bassann sinn. Hann hét Pétur Kristjánsson, síðar m.a. í Pops, Svanfríði, Pelican, Paradís og Póker. Blessuð sé minning hans. Við spiluðum þrjú eða fjögur lög og það var mjög gaman og ég hugsaði síðan eiginlega ekki mikið meira út í það. Það var síðan Rúnar Egils sem kom og tilkynnti mér að við hefðum verið kosnir "Besta unglingahljómsveitin ´69." Þessu fylgdi ýmislegt sem ég átti ekki von á þegar lagt var upp í ferðina, en gerði hana vissulega að meira ævintýri. Við urðum núna að spila á stóra sviðinu, og þá var komið upp sama vandamálið og áður þ.e. bassaleysið. Í þetta skiptið var mér bjargað af Rúnari Júlíussyni, en hin nýstofnaða Trúbrot var aðalhljómsveitin í Húsafelli 1969. Við fengum þarna nýjan og virðulegan titil, einhver peningaverðlaun og hljómplötuverðlaun frá SG.
"Hrím er fyrsta og eina hljómsveitin sem ég hef verið í og reyndar hef ég aldrei snert bassa síðan þarna á stóra sviðinu í Húsafelli," bætti Kristján við.

Guðmundur Ragnarsson tók svo við bassanum í stuttan tíma, eða þar til Gestur sem var næstur til að yfirgefa þetta eðalband hélt suður á vit ævintýranna ef svo mætti segja. Gummi sem er að mínu mati mjög liðtækur á tónlistarsviðinu varð svolítið fórnarlamb aðstæðna.
Um framhaldið er svo það að segja að við Ölli vorum í bekk með Áskeli Mássyni sem síðar varð m.a. slagverksleikari í Náttúru. Hann spurði mig hvort ég vissi um einhvern góðan gítarleikara, því það vantaði þá svoleiðis mann í hljómsveitina Tatara. Sú sveit hafði þá nýverið gefið út smáskífu með lögunum "Sandkastalar" og "Dimmar rósir" sem hafði fengið talsverða spilun. Ég benti honum á Gest Guðnason og það varð líklega til þess að Gestur fór suður, því Tatarar höfðu samband við hann og hann gekk síðan til liðs við þá.

Um Kristján er það að segja að eftir að hafa lokið námi í Myndlista og handíðaskólanum, kenndi hann í sjö ár við Garðaskóla. Hann flutti til Akureyrar 1982 og kenndi síðan þar þangað til hann flutti aftur til Siglufjarðar fyrir tæpum tveimur árum og lokaði þar með hringnum ef svo mætti segja. Eplið fellur heldur ekki alltaf svo langt frá eikinni, því að dóttir hans Alma Rut er ein þeirra sem mynda söngflokkinn Heitar lummur. Það gerir hún ásamt Arndísi Ólöfu Víkingsdóttir, Helga Þór Arasyndi og Kalla Bjarna, en þau hafa öll komið við sögu í Idol stjörnuleitinni.

Því er svo við að bæta að hljómsveitin Hrím var ekki alveg öll, því hún var endurreist snemma árs 1970. Þá flutti Magnús Guðbrandsson aftur til Siglufjarðar, en hann hafði þá nýverið lokið námi í bifvélavirkjun í Heklu en einnig keypt sér forláta Yamaha orgel. Sverrir Elefsen var kominn á bassann, en hann hafði spilað með danshljómsveitinni Max hinni eldri í nokkur ár, ásamt þeim Óla Ægis, Rabba Erlends, Sjána Hauks og um tíma Hjálmari Jóns. Þeir Magnús og Sverrir ásamt Árna Jör og Rúnari Egils sem hafði þá vaxið mjög sem söngvari, æfðu stíft fyrir vorið og spiluðu síðan nánast um hverja helgi fram á vetur. Þessi síðari útgáfa af bandinu lagði mikla áherslu á vandaðar og vel unnar raddsetningar ekki síður en sú fyrri. En í árslok 1970 leystist hópurinn endanlega upp og hefur ekki verið endurreistur enn sem komið er. En minningin um þessa frábæru hljómsveit lifir í hugum margra þeirra sem í dag eru komnir af því allra léttasta.
(LRÓ.)



Tatarar.

Músiklífið í Gagnfræðaskólanum í Kópavogi var í góðum gír á bítlatímanum. Strákarnir í Ríó tríó göntuðust og bræddu hjörtu með léttri þjóðlagatónlist en hljómsveitin Tacton sá um bítlið. Meðal meðlima var riþma-gítarleikarinn Árni Blandon. Tacton vann sér það helst til frægðar að spila í Kópavogsbíói og var m.a. með Dúmbó-lagið "Angelina" á efnisskránni.
Eftir landspróf fóru flestir úr Kópavoginum í MH og þar var Árni í nokkrum böndum, m.a. í Bláa bandinu og Dýrlingunum, en trommari þeirrar sveitar var á tímabili Árni blaðamaður Þórarinsson. Eftir allskyns mannabreytingar og endurskýringar varð hljómsveitin Tatarar til um vorið 1968. Með Árna Blandon voru Magnús Magnússon trommari, Þorsteinn Hauksson á gítar og 200 kílóa Hammond-orgel og Stefán Eggertsson söngvari, en Jón Ólafsson bassaleikari úr Zoo kom síðastur og var yngstur, 16 ára.

SG finnur nýjan gullkálf.
Strákarnir voru með á nótunum og tóku sér Jimi Hendrix og hans menn sér til fyrirmyndar. Fyrsta giggið var í hljómsveitarkeppninni í Húsafelli '68. Flutningur Tatara á "Manic Depression" eftir Hendrix var nóg til að fleyta þeim í 2. sæti, á eftir Mods. Næsta gigg var í Breiðfirðingabúð, sem þá hét reyndar Club de Paris eftir að Jörmundur Ingi Hansen hafði tekið við rekstri staðarins. Það hafði spurst út að Tatararnir væru þéttir og margir þungaviktarpælarar mættu því til að sjá þá, m.a. Óttar Felix Hauksson. Magnús þótti ná Mitch Mitchell trommara í Hendrix-bandinu fyrnavel, en enn nær þótti Þorsteinn komast snilldinni; gítarleikur hans þótti nánast alveg eins og hjá Jimi sjálfum. 
Á þessum árum var málið að "herma" sem best. "Þegar við spiluðum "Lady Madonna" einu sinni í Casa Nova get ég svarið að mér fannst sjálfur Paul McCartney vera að syngja," segir Árni Blandon um Stefán söngvara. 
Svavar Gests tók Töturum vel þegar þeir mættu á fund hjá honum. SG hafði misst gullkálfinn Hljóma og reyndi að fylla tómið með Töturum. Ákveðið var að gefa út 2 lög. Strákarnir höfðu nýlega byrjað að fíla hljómsveitina Family, svo Svavar fékk vin sinn Matthías Jóhannesson til að búa til texta við lag þeirrar sveitar og úr varð "Sandkastalar". Mogga-ritstjórinn vildi þó ekki hafa hátt um rokkævintýri sitt og bað Svavar um að segja strákunum að þeir mættu ekki segja neinum hver þessi "m" væri.
Það vantaði lag á hina hliðina og Árni, sem ekki hafði samið lag áður, samdi lag yfir nótt í æfingarhúsnæðinu.
"Ég byrjaði á E-moll, því það er auðveldast," segir hann hæverskur um frumraun sína. "Ég hafði lært smá á nikku hjá Karli Jónatanssyni og kunni fimmunda hringinn, vissi því að G-dúr væri fínn þarna líka."
Um morguninn var Árni tilbúinn með lag sem hinum strákunum leist vel á. Næstu nótt stóðu Jón og Magnús vaktina og sömdu sitt hvorn textann við nýja lagið. 
Árni: "Jón samdi texta um krakka að leika sér í sandkassa og við völdum það því það var ekki eins væmið og það sem Magnús hafði samið. Þá reis hann upp á afturlappirnar og heimtaði að við notuðum hans texta."
Úr varð "Dimmar rósir", sem varð vinsælasta íslenska lagið árið 1969. SG lagði mikið undir, setti mikla peninga í auglýsingar og otaði sínum Tatara-tota hvar sem færi gafst. Plötuumslagið var fullt af myndum af hinum hlédrægu liðsmönnum og stofnaður var sérstakur Tatara-klúbbur, sem "nokkrar stelpur" skráðu sig í.

Hvers vegna? Hvers vegna?
Þrátt fyrir auglýsingaherferðina voru Tatarar skynsemdar strákar og byggðu sér enga sandkastala um rokkaða framtíð. Í byrjun árs 1970 ákváðu aðalmennirnir, Árni, Magnús og Þorsteinn, að leggja bandið niður til að einbeita sér að lærdómi fyrir yfirvofandi stúdentspróf. Magnús sá þó einhvern neista í rokkinu, hætti við stúdentinn og endurvakti Tatara með nýjum mannskap, Árna ekki alveg að sársaukalausu. Hann hafði reyndar lýst því yfir sjálfur í viðtali að veikasti hlekkur bandsins yrði alltaf að víkja. Á þessum tíma voru riþma-gítarleikarar í mikilli útrýmingarhættu svo viðtalið sem Svavar Gests tók við hann 1969 var með spádómslegri fyrirsögn -- "Kannski verð ég bara rekinn næst".
Magnús fékk Þorstein og Jón aftur til liðs við sig og tók Jón að sér að syngja. Siglfirðingur nýfluttur í bæinn kom inn á gítar. Þetta var Gestur Guðnason, sem hafði m.a. verið í bítlaböndunum Stormum og Hrím fyrir norðan. Hrím hafði helst unnið sér til frægðar að vera kosin "táningahljómsveit árið 1969" á bindindismóti í Húsafelli. Tatarar lögðust nú í enn þyngri pælingar og sömdu lög í samvinnu á æfingum að undangengnum miklum og löngum "djömmum". Bandið var á samningi hjá SG, sem gaf út aðra smáskífu í sumarbyrjun 1970. Þyngra og tormeltara stöff hafði varla heyrst á plötu áður. Lögin hétu "Gljúfrabarn" og "Fimmta boðorðið", sem var með miklum friðarboðskap og viðeigandi vélbyssuskothríð, sprengingum og söngli 11 ára stelpu, Valgerðar Jónsdóttur, sem spurði sorgmædd, "Ég ligg hér ein, í kaldri gröf. Hvers vegna? Hvers vegna?"
Ómar á Vikunni hitti í mark í gagnrýni sinni. Lokaorðin voru: "Þessi plata er það góð, að hún slær örugglega ekki í gegn og selst áreiðanlega lítið."

Raddbandabólga.
Þrátt fyrir slakt gengi plötunnar var hugur í Töturum. Ingibergur Þorkelsson tók að sér umboðsmennsku og brugðið var á það ráð að fá "hina íslensku Shandie Shaw", Janis Carol í bandið, því söngur Jóns þótti veikasti hlekkurinn. Tatarar með Janis innanborðs þótti ákaflega efnilegt band. Janis þótti fylli gatið sem Shady Owens skyldi eftir sig, var með túberað hár og söng berfætt -- "Það hefur liðið langur tími síðan maður sat jafn dolfallinn og það kvöld," skrifaði Ómar eftir að hafa farið á æfingu. 
Sælan stóð stutt því eftir mánuð þurfti Janis að hætta samkvæmt læknisráði. "Þetta hafa sennilega verið of snögg viðbrigði fyrir mig," sagði Janis með hvínandi raddbandabólgu, "enda er þetta viðfangsefni það erfiðasta sem ég hef glímt við".
Þegar Óðmenn hættu í söngleiknum Óla komu Tararar í staðinn og Jóhann G söng með þeim á sýningunni. Hljómsveitin var í dauðakippunum fram eftir vori 1972, kom m.a. fram í Sjónvarpinu og "impróvíséraði": "Ég heyrði ýmsar raddir sem voru lítt hagstæðar okkur, en það var yfirleitt frá fólki sem ekkert er inn í þessari músik," sagði Þorsteinn í viðtali 1972, sem bar fyrirsögnina "Hvað varð um Tatara" -- "Maggi ætlaði að fara að hella sér í stúdentsprófið og var hættur, og eftir að við höfðum prófað nokkra trommuleikara gáfumst við alveg upp".
Af Töturum er það að frétta að Gestur og Jón héldu áfram í rokkinu; Gestur stofnaði Eik og var m.a. í Orghestunum, en Jón fór í Pelican og þaðan í ótal sveitir. Aðrar Tatarar snéru sér að öðru. 
Lagið "Dimmar rósir" reis upp á ný þegar tónlist hippanna gekk aftur í byrjun 10. áratugarins. Þá sigraði Þóranna Jónbjörnsdóttir með laginu í Söngvakeppni framhaldsskólanna og lagið hefur lifað ágætu lífi síðan, Árna Blandon til lúmskrar ánægju -- "Það er vandi að semja góð lög, en ekkert mál að semja fullt af vondum," segir hann. 
Árni Blandon yrði fyrir valinu ef gera ætti einhvern einn einstakling ábyrgan fyrir stofnun Tatara. Um tilurð sveitarinnar segir hann sjálfur: "Við byrjuðum saman tveir kunningjar, sem báðir vorum að læra á gítar, bættum síðan við bassa og komun fram á skóladansæfingum. Upp úr því bættist við trommuleikari og við skírðum hópinn Tacton, ég man ekki hvort við fengum nafnið úr erlendri auglýsingu um þvottaduft eða magabelti. Engin okkar söng, svo við fengum okkur fljótelga söngvara. Við héldur hópin lengi, eða þar til að tveir okkar fóru í Menntaskóla, bassaleikarinn og ég. Þar stofnuðum við hljómsveit sem við skírðum Bláa bandið, og þar með leið Tacton útaf. Vegna nafnsins Bláa bandið fengum við lítið að gera og skiptum þá um nafn og kölluðum okkur Dýrlingana og nú var Stefán byrjaður með okkur. Síðan breyttist hljómsveitin smá saman". Þorsteinn bættist við "og síðan Maggi á trommurnar og nýjasta breytingin var svo þegar Jón kom á bassann. Hafði hljómsveitin reyndar fengið heitið Tatarar nokkrum mánuðum áður"
Það var sumarið 1968 sem þeir tóku upp Tatara nafnið. Þeir sem þá skipuðu sveitina voru Árni Blandon, gítar, Stefán Eggertsson, söngur, Þorsteinn Hauksson, orgel, Magnús S. Magnússon, trommur bættist síðan í hópinn og fullskipuð var sveitin þegar Jón Ólafsson, söngvari og bassaleikari úr Zoo gekk til liðs við þá félaga árið 1968.
Þetta voru metnaðarfullir piltar sem æfðu stíft, en komu sjaldan fram opinberlega  og ári síðar eða 1969, um svipað leyti og fyrsta Trúbrots platan kom út sendu Tatarar frá sér sína fyrstu smáskífu sem kom út á merki SG hljómplatna sem eins og kunnugt er var í eigu Svavars Gests. Skífan þótti gefa góð fyrirheit um framhaldið og fékk sveitin nóg að gera og vinsældir hennar jukust til muna. Það var ekki síst fyrir þær vinsældir að sveitin var fengin til að taka við af Óðmönnum haustið 1970 við tónlistarflutningi í Poppleiknum Óla, en Óðmenn héldu þá til Danmerkur til upptöku á tvöfalda albúminu sínu sem m.a. innihélt efni úr poppleiknum.
Danmerkurdvölin olli því að Óðmenn hættu störfum skömmu seinna. Jóhann G. Jóhannsson, bassi og söngur, gekk þá í Tatara og starfaði með þeim þar til sýningum poppleiksins lauk. Á sama tíma hættu Stefán og Árni til að stunda háskólanám og gítarleikarinn Gestur Guðnason tók við af Árna. Hljómsveitin þótti enn framsæknari en áður og hljóðritaði um þessar mundir tvö lög sem komu út á smáskífu 1970. Ekki féll platan í frjóan jarðveg hjá plötukaupendum. Var því brugðið á það ráð að kalla á söngkonuna Janis Carol og hún fengin til starfa í þeirri von að endurheimta fyrri vinsældir og var hljómsveitinni enn á ný spáð miklum frama en fljótlega dró að endalokum Tatara sem hættu áður en árið leið í aldanna skaut.
(Bárður Örn Bárðarson - Tónlist.is)

Til gamans má alveg láta það fljóta með að söngvarinn Stefán Eggertsson sem söng Dimmar rósir með Töturum forðum daga, starfar í dag sem háls, nef og eyrnalæknir í Glæsibæ. Og hann er faðir Ólafs Stefánssonar fyrirliða íslenska landsliðsins í handbolta.
(LRÓ.)

Um vor árið 1972 var hljómsveitin Eik stofnuð og hóf æfingar. Í upphafi voru meðlimir aðeins þrír. Gestur Guðnason - Gítar, Haraldur Þorsteinsson - Bassi, og Ólafur Sigurðsson - trommusett.
Siglfirska gítarhetjan Gestur Guðnason hafði áður leikið með hljómsveitunum Ecco, Stormum og Hrím heima á Siglufirði. Ecco og Stormar voru dæmigerðar "beat" hljómsveitir og léku mikið á dansleikjum þar nyrðra, Stormar áttu góða og eftirminnilega senu í Ríkissjónvarpinu þegar sjónvarpsmenn hljóðrituðu og kvikmynduðu hljómsveitina í góðri sveiflu á bryggjudansleik á Siglufirði og sýnt var að sjálfsögðu í svart/hvítu. Stormar fóru hamförum, söngvari Storma, Theódór Júlíusson sýndi mikil tilþrif í sviðsframkomu og söng af mjög mikilli innlifum. Hrím var meira "heavi" hljómsveit og vann sér það til frægðar að vera kosin "bjartasta vonin" á útihátíð í Húsafellsskógi um Verslunarmannahelgina árið 1969. Hrím var skammlíf hljómsveit og hætti nokkuru síðar.
Þegar Gestur flutti búferlum til Reykjavíkur, þá gekk hann til liðs við hljómsveitina Tatara og tók við gítarleik af Árna Blandon. Í Töturum var bassaleikarinn og söngvarinn Jón "Klettur" Ólafsson. Einnig lék Gestur með Kombói Þórðar Hall. Tatarar með Gest innanborðs leystu hljómsveitina Óðmenn 2 af í Poppleiknum Óla sem sýndur var í Tjarnarbíói, vegna þess að Óðmenn 2 héldu til Danmerkur, nánar tiltekið til Kaupmannahafnar og hljóðrituðu "stóra tvöfalda albúmið" árið 1970, sem var allra fyrsta stóra tvöfalda hljómplata/albúm hljómsveitar hér á landi. Albúmið hét einfaldlega Óðmenn, útgefandi var Fálkinn h.f. Óðmenn 2 hættu starfsemi stuttu síðar. Tatarar ásamt Jóhanni Georg Jóhannssyni úr Óðmönnum 2, kláruðu þær sýningar sem eftir voru af Poppleiknum Óla í Tjarnarbíói.
Tatarar með Gest Guðnason gítarleikara innanborðs, sendu frá sér sína seinni litlu tveggja laga hljómplötu árið 1970. Hljómplatan innihélt lögin Gljúfurbarn og Fimmta boðorðið. Lögin voru mjög þungar og þróaðar lagasmíðar með innihaldsríkum textum, auk mikilla áhrifahljóða. Hljómplatan hlaut misjafnar undirtektir á meðal almennings og þótti ekki mjög hlustunarvæn í Ríkisútvarpinu, en margir tóku hljómplötunni fegins hendi. Útgefandi var S.G hljómplötur h.f. 
Og Gestur lék einnig með Kombói Þórðar Hall. Í Kombói Þórðar Hall voru: Áskell Másson, Egill Eðvarðsson, Ómar Skúlason og Þórður Hall. Gestur Guðnason kom nokkuru síðar til liðs við kombóið. Kombó Þórðar Hall var órafmögnuð spunahljómsveit sem lék á allt sem hægt var að leika á. Kombóið byggði uppákomur sínar upp á frjálsum tónlistarspuna sem gat tekið óvænta stefnu, bæði tónlistarlega og leikrænt séð, engin uppákoma var nákvæmlega eins. Kombó Þórðar Hall var mjög sérstök hljómsveit sem fór óhefðbundnar eigin leiðir í einu og öllu, ferskleiki og frelsi var aðalatriðið í þann stutta tíma sem Kombó Þórðar Hall starfaði. Hljómsveit á borð við Kombó Þórðar Hall hafði aldrei áður heyrst eða sést sem atriði eða upphitun á dansleikjum hér á landi á þessum árum. Þannig að Kombó Þórðar Hall markaði ákveðin tímamót og var tímamótahljómsveit hér á landi, eftir að Kombó Þórðar Hall hætti starfsemi var langt í það að svipuð hljómsveit ætti eftir að koma fram á sviði hér á landi.
(Steinn Skaptason.)

Og þess má geta að Steinn Skaptason er sonur söngvarans og trommuleikarans góðkunna Skapta Ólafssonar og hann heldur úti stórskemmtilegri síðu þar sem hann fer yfir feril margra þekktra Íslendskra hljómsveita.
Slóðin þangað er 
http://steinnskaptason.blog.is/blog/steinnskaptason/ og þar er mikill og góður fróðleikur samankominn fyrir þá sem vilja kynna sér Íslenska rokksögu.
(LRÓ.)


Eik 1972-1978
Haraldur Þorsteinsson - Bassi 1972-1978
Ólafur Sigurðsson - Trommur 1972-1976
Lárus Halldór Grímsson - Hljómborð og flauta 1972-1978
Gestur Guðnason - Gítar 1972-1973
Þorsteinn Magnússon - Gítar 1972-1978
Árni Jónsson Sigurðsson - Söngur 1973-1974
Herbert Guðmundsson - Söngur 1974-1975
Sigurður Kristmann Sigurðsson (Siggi Píka) - Söngur 1975-1976
Ólafur Kolbeinsson - Trommur 1976-1977
Magnús Finnur Jóhannsson - Söngur 1976-1978
Tryggvi Júlíus Hübner - Gítar 1976-1978
Ásgeir Óskarsson - Trommur 1977-1978
Pétur Hjaltested - Hljómborð 1977-1978

Hljómsveitin Eik varð til skömmu fyrir páska árið 1972. Gestur Guðnason sem áður hafði leikið með Töturum, Haraldur Þorsteinsson bassaleikari sem spilað hafði með ýmsum sveitum m.a. Pops, og trommuleikarinn Ólafur Sigurðsson sem komið hafði við í Zoo, Pops og Tilveru, teljast frumstofnendur Eikarinnar. Þeir hófu að æfa saman undir bílaþvottastöðinni í Sigtúni. Um það bil hálfu ári síðar bættist gítarleikarinn Þorsteinn Magnússon í hópinn en hann hafði áður spila með nokkrum líttþekktum bílskúrshljómsveitum. Ári eftir stofnun Eikarinnar kom Lárus Grímsson til leiks með flautuna sína og síðar hljómborðið. Hann hafði áður spilað með Haraldi í hljómsveit sem nefndi sig Litli matjurtargarðurinn.
Þessi liðskipan sat á löngum og þungum djammsessionum og samdi eigið efni og gaf sköpunargleðinni að öllu lausan tauminn. Um tíma æfðu tveir blökkumenn með bandinu og komu þeir meðal annars fram með hljómsveitinni á tónleikum í Klúbbnum sem var veitingastaður við Borgartún. Þar vöktu þeir athygli, voru reyndar púaðir niður ef tveim hálfdrukknum kynþáttafordómabolum og var reyndar vísað úr landi í nokkru síðar. Gestur hætti með Eikinni í kjölfarið en nokkru síðar gekk söngvarinn Árni Sigurðsson í hljómsveitina. Með þessa skipan lék Eikin fram á árið 1974 en aðalvígstöðvar bandsins voru í Tjarnarbúð. Það háði sveitinni verulega að vera aðeins með frumsamið efni á þessum tíma og gerði það Eikinni erfitt um vik hvað peninga fyrir ballspilamennsku varðaði.
Nokkru fyrir áramótin urðu söngvaraskipti þegar Herbert Guðmundsson kom í stað Árna, en dvaldi þó ekki lengi því honum var boðin staða Péturs Kristjánssonar í framlínu rokkhljómsveitarinnar Pelican, þegar sú sveit rak söngvarann og hugði á frægð og frama í útlöndum. Vinsældir sveitarinnar jukust talsvert við þessar mannabreytingar og enn frekar þegar Sigurður Kristmann Sigurðsson bættist í hópinn, áður hafði hann verið með líttþekktum sveitum. Eftir þessar mannabreytingar og liðsflutninga héldu þeir Eikarmenn í hljóðver og tóku upp efni á litla plötu sem gefin var út af Demant útgáfunni. Axel Einarsson, þekktur tónlistarmaður og síðar útgefandi tók að sér umboðsmennsku fyrir Eikina.
Á þessum tíma hafði Eikin sakapað sér orð fyrir frumsamdar lagasmíðar í þungum fönktakti og þótti ein vandaðasta sveitin á markaðnum. Axel bókaði sveitina um land allt. En Eikin gekk ekki sem ballhljómsveit þar sem coverstuðlögin voru ekki fyrir hendi. Því tóku þeir, að áeggjan umboðsmannsins, upp á því að búa til hljómsveitina Deildarbungubræður. Þar rugluðu menn hljóðfærum og var allur mannskapurinn, nema sumir úr sveitinni, nýttur. Bílstjóri Eikarinnar; Bragi var fenginn á bassa,  Þorsteinn trommaði, Lárus og umboðsmaðurinn Axel spiluðu á gítar. Þessi hópur kom fram í pásum hjá Eikinni og gerði þvílíka lukku að Eikin varð aufúsugestur í félagsheimilum landsins ef Deildarbungubræður kæmu með þeim.
Enn urðu mannabreytingar þegar Ólafur trommari lét nafna sínum Kolbeins eftir trommukjuðana. Axel hafði hug á að fá sveitina í að gera LP plötu. Vorið 1976 var Hljóðriti í Hafnarfirði tekinn herskildi af sveitarmeðlimum og aðstandendum. Fyrst var ráðist í að taka upp sólóplötu Axels sem fékk heitið Acting like fool, þá tóku Deildarbungubræður upp fyrri plötu sína Saga til næsta bæjar og loks var plata Eikarinnar, Speglun, sett á band. Plata Deildarbungubræðra fékk ekki háa einkunnir hjá poppskríbentum sem töldu plötuna eina þá lélegustu sem komið hefði út þrátt fyrir stuðið. Plata Eikarinnar innihélt þann anda sem sveitin hafði skapað sér allt frá fyrstu tíð, löng ósungin og þung danstónlist, og virtist hún ganga í tónlistarspegulerantana og varð til þess að Eik var valin hljómsveit ársins af lesendum Dagblaðsins. Þessi niðurstaða kom öllum nokkuð á óvart því flestir höfðu búist við að sjá hljómsveitir eins og Stuðmenn, Ðe lónlý blú bojs eða Paradís með þennan titil. Að auki var svo hljómsveitin valin næst bjartasta vonin, en hljómsveitin Celsíus hreppti þann titil.
Sem Deildarbungubræður seldu þeir fleiri plötur en Eikin sem leiddi til þess að Axel hætti sem umboðsmaður og snéri sér að Deildarbungubræðrum. Í kjölfar þess urðu miklar mannabreytingar á Eikinni. Trommarinn Ásgeir Óskarsson og hljómborðsleikarinn Pétur Hjaltested munstruðu sig inn en báðir höfðu áður verið í Paradís Péturs Kristjánssonar, auk þess sem fyrrum meðlimir Cabaret þeir Tryggvi Hübner á gítar og söngvarinn Finnur Jóhannsson komu inn. Þessir fjórir meðlimir auk Haralds, Lárusar og Þorsteins voru síðar kallaðir stóra Eikin, til aðgreiningar frá upphaflegri liðskipan. Saman tóku þeir félagar upp seinni LP plötu hljómsveitarinnar, Hríslan og straumurinn, ólíkt fyrri plötum sveitarinnar voru lögin nú með íslensku heiti. En að öðru leiti var svipuð uppbygging á plötunni og þeirri fyrri þar sem helmingur laganna var ósunginn. Steinar gaf plötuna út níu mánuðum eftir að fyrri platan hafði komið og bauð árs ábyrgð á plötunni sem þó fáir nýttu sér að gagnrýnendum undanskildum sem hentu gaman að uppátækinu.
Fyrir jólin 1977 var ljóst að áhugi fyrir sveitinni var þverrandi meðal hljómsveitarmeðlima, sem flestir voru komnir til annarra starfa þar sem þessi sjö manna sveit náði ekki að skila þeim tekjum sem þurfti til þess að lifa á spilamennskunni, og var því ákveðið að bera Eikina til grafar.
Í lok aldarinnar blómgaðist hún þó eitt andartak á ný með breyttri liðskipan en markaði þó engin ný spor, hvorki í sögu sveitarinnar né tónlistarsöguna.
(
Bárður Örn Bárðarson - Tónlist.is)

-

Árið 1981 var Birgir Ingimarsson trommari með meiru við nám í Reykjavík. Það var að líða að helgi og Biggi ætlaði sér norður að spila á Hótel Höfn með hljómsveitinni  Miðaldamönnum, en við spiluðum þá saman í þeirri sveit. Hann hitti Gest á röltinu fyrir sunnan skömmu áður en hann lagði af stað og þeir tóku tal saman. Áður en samtalinu lauk spurði Biggi Gest hvort hann væri ekki til í að skreppa norður í heimahagana um helgina og taka með okkur eins og eitt gigg á Höfninni svona til gamans og Gestur var alveg til í það. Þegar Biggi kom norður sagði hann okkur frá samtali sínu við stórgítarleikarann en við tókum fréttunum um það bil hæfilega alvarlega. Á laugardagskvöldinu byrjuðum við að spila á tilsettum tíma og vorum eiginlega búnir að gleyma því sem hafði verið til umræðu, en laust upp úr miðnætti birtist Gestur í andyrinu með gítarinn á bakinu. Það var troðfullt hús og Gestur þurfti að heilsa mörgum og gekk hægt að komast í gegn um salinn áleiðis að senunni. Við fylgdumst með honum mjakast áfram í gegn um salinn, en alltaf þurftu einhverjir sem á vegi hans urðu að eiga við hann orð og hann tók öllum vel. Það leið á dansleikinn og Gestur nálgaðist okkur hægt og hægt, eða eiginlega skref fyrir skref. Þegar komið var að lokalaginu átti Gestur enn fáeina metra ófarna upp að pallinum, en löggan var komin í dyrnar til að gæta þess að allt færi vel fram, ýtrustu reglum væri fylgt í hvívetna og einnig að hætt yrði á tilsettum tíma. Það var ekki fyrr en um það bil stundarfjórðungi eftir að dansleik lauk að Gestur var loksins kominn alla leið til okkar og tilbúinn að tengja hljóðfærið. Það var ekki laust við að við yrðum svolítið vandræðalegir og vissum ekki alveg hvernig bæri að bregðast við, en Gestur hafði fullan skilning á málinu og fannst þetta ekkert stórmál.
(LRÓ.)

19.08.2008 22:54

Í tilefni dagsins.

493. Þegar þetta er ritað er kominn 19. ágúst og því liðin eitthundrað á frá því að Sóley amma fæddist að Klaufabrekkum í Svarfaðardal. Hún var elst sex alsystkina, en fyrir átti hún tvö hálfsystkin. Hún ólst upp hjá foreldrum sínum sem voru lengst af í húsmennsku á nokkrum bæjum í dalnum eða allt þar til hún var á fimmtánda ári, en þá missti hún móður sína úr berklum. Eftir það leystist heimilið upp og hún var um tíma í Hrísey og á Akureyri við vinnu, en settist að lokum að á Siglufirði og vildi aldrei fara þaðan aftur.

Ekki mun lífið hafa verið neinn dans á rósum hjá foreldrunum og börnunum sex, því oft mun kosturinn hafa verið rýr og litlu úr að spila. Lífið mun því ekki hafa farið um hana sérlega mjúkum höndum faman af æfinni og oft hefur hún mátt þola mikið mótlæti á sínum uppvaxtarárum. En það breyttist mikið til batnaðar eftir að komið var í Síldarbæinn.

Sóley amma leit alltaf á Siglufjörð sem sinn heimabæ. Hún lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar á Gamlársdag árið 1994 og hvílir í nýja kirkjugarðinum á Siglufirði austan fjarðar við hlið afa.



Föstudaginn 15. ág. fórum við norður og tókum daginn nokkuð snemma. Því við vildum ekki þurfa að flýta okkur ef veðrið tæki nú upp á því að bjóða upp á eins og svolítinn útúrdúr eða frávik frá fyrirhugaðri dagskrá. Og þannig varð það og því var staldrað við í Borgarfirðinum þar sem heitir Grábrók.
Gígurinn Gábrók er til hægri á myndinni hér að ofan, en ég gat ekki fundið út hvað fjallið vinstra megin heitir. Á vef Fosshótela er það kallað "Bifröst mountains" en það þykir mér frekar fráleit nafngift. Og svo er hún Baula auðvitað í miðjunni.



Við ókum inn á stæðið neðan við gíginn og gengum af stað upp tröppurnar sem liggja upp hlíðar hinnar 173ja metra háu Grábrókar.



Rétt ofan við stæðið er hliðið sem afmarkar hið friðaða svæði, en svo liggja tröppurnar áfram.



Og áfram...



Og áfram...



Þegar upp á brúnina var komið tók ég fyrst eftir réttinni.



En þaðan blasti líka miðja gígsins við.



Næsta fjall fyrir ofan heitir Grábrókarfell en er einnig nefnt Rauðbrók.



Af brúninni er gott útsýni yfir Háskólasvæðið að Bifröst og Hreðavatn.



Og Hreðavatnsskáli er því sem næst beint undir fótuim manns.



Það sést ekki til Borgarness fyrir mistri og Hafnarfjallið er litað blámóðu fjarskans.



Þegar ég var búinn að dvelja þarna um tíma, búinn að ganga hringinn og var á niðurleið, kom full rúta af ferðamönnum sem horfðu yfir sig hissa í kring um sig á þetta undur náttúrunnar.



Að lokum varð ég að festa samlíkinguna milli Baulu og vörðunnar á Grábrók í kubbinn.



Hún María sem er að verða tólf ára var með okkur í för. Hún varð auðvitað að pósa í þessu flotta umhverfi.



"Sjáið tindinn þarna fór ég" orti skáldið og líklega er María að hugsa eitthvað á svipuðum nótum.



Grábrók er fagurmyndaður gíghóll, 173 m, rétt norðaustan við Hreðavatn. Úr Grábrók, Grábrókarfelli (Rauðbrók) og Litlubrók (Smábrók) rann Grábrókarhraun fyrir um 3000 árum. Hraunið stíflaði Norðurárdal og myndaðist stöðuvatn þar fyrir ofan sem síðar hvarf og skildi eftir rennisléttan botn þar sem er dalbotninn nú. Göngustígar eru upp á Grábrók og bílastæði undir fellinu enda er útsýni af fellinu frábært um Norðurárdal. Herðavatnsskáli stendir undir fellinu sunnanverðu og Bifröst er mitt á milli þess og Hreðavatns.
(Gúgglað af netinu)

Síðan var haldið aftur af stað og norður yfir Holtavörðuheiði.



Það er löng hefð fyrir hinu klassíska pylsu og kók eða kaffi og með því og pissustoppi í Staðarskála, en senn munu leiðir um sveitina liggja með öðrum hætti. Nýr Staðarskáli er í byggingu niðri á sléttunni upp af Hrútafjarðarbotni og er áætlað að nýja leiðin verði tekin í notkun jafnvel í næsta mánuði. Reynist það rétt er þetta líklega í síðasta skipti sem ég kem við í Staðarskála (innan tíðar hinum eldri) sem hefur vakað við veginn síðan ég man eftir mér.



Eftir að hafa ekið um Ísbjarnarslóðir á Þverárfjalli og staldrað þar við í berjamó um stund án þess að þora langt frá bílnum, lá leiðin niður í Skagafjörð og í gegn um Sauðárkrók. Ég varð auðvitað að smella mynd af Kaffi-Krók sem staðið hefur þarna heldur óásjálegur síðan þ. 18. jan sl. þegar eldur kom þar upp. Ekki veit ég hvort stendur til að endurbyggja þetta hús eða rífa það.

Húsið var byggt 1887 af Vigfúsi Guðmundssyni Melsteð. Þar bjuggu fjórir sýslumenn Skagfirðinga. Fyrstur Jóhannes Ólafsson, faðir Alexanders háskólarektors, þess sem flugvöllur Skagfirðinga sækir nafn til. Þar bjó einnig, og verslaði, J. Franch Michelsen, úrsmiður, og var æskuheimili Michelsenbræðranna í þessu húsi.
Undanfarin ár hefur veitingahúsið Kaffi krókur verið þarna til húsa, Jón Daníel Jónsson veitngamaður þar, segir að aðkoman hafi verið ófögur eftir brunann. Það standi varla steinn yfir steini. Jón Daníel segir að húsið sé ekki fallið en búið sé að rjúfa þakið þannig að öll efri hæðin er ónýt og brunnin. Þá séu töluverðar skemmdir eftir reyk og vatn. Hann segir óvíst á þessari stundu hvort hægt sé að endurbyggja húsið.
Slökkviliðsmaður slasaðist á vettvangi þegar þakbiti féll á hann, en meiðsl hans reyndust minniháttar.

Og eðlislæg forvitni mín rak mig auðvitað til að "gúggla" þennan mola um þetta hús.



Ég var kominn eldsnemma á ról á laugardeginum og út á rúntinn. Ég skrapp út í Hvanneyrarkrók að líta á hina verðandi baðströnd bæjarbúa sem mig minnir að hafi verið öllu grýttari hér í eina tíð.



Ég fór líka inn í kirkjugarð og gjóaði augunum upp í Skarðdal. Þarna uppi á fjallsbrúninni er Siglufjarðarskarð, hin gamla leið sem er reyndar ekki svo gömul ef betur er að gáð. Siglufjarðarskarð var gert akfært árið 1946 en Strákagöng voru formlega tekin í notkun 1. september 1968. Skarðið var því ekki í notkun sem aðalleið nema 22 ár sem er öllu minna en ég hef nokkru sinni hugsað út í.
 
Eftirfarandi má lesa á vef Fjallabyggðar.
Mjög kvað að illum anda í Skarðinu sem ásótti menn á fyrri tíð svo að leitað var liðsinnis sr. Þorleifs Skaftasonar í Múla árið 1735. Hinn andheiti guðsmaður hlóð þar altari úr grjóti, vígði staðinn og stefndi öllu illu í Afglapaskarð þar litlu austar. Síðan hefur fararheill fylgt flestum þeim sem á annað borð rötuðu rétta leið og gerðu bæn sína við altarið.  Árið 1946 var bílvegur lagður yfir Siglufjarðarskarð. Fram að því höfðu allir meiriháttar flutningar á fólki og varningi farið um sjóveg til og frá Siglufirði. Mikil samgöngubót var að Skarðsveginum þótt fær væri aðeins fáa máuði á ári. Óhöpp eða slys á hinum nýja vegi eru ekki í frásögur færandi. Reynt er að halda leiðinni opinni fyrir jeppa flest sumur.



Á leiðinni í bæinn mátti sjá að Hestadagar Glæsis, Gnýfara og Svaða stóðu yfir.



Fjöldi hesta í bænum var langt yfir því sem venjulegt er.



Nú voru fleiri vaknaðir og María var alveg til í að kíkja á skógræktina.



Þær María og Magga fóru því með svolítið plastbox með sér þangað, en eftir að hafa gengið um þennen frábæra stað fóru þær upp fyrir girðingu og suður yfir ána í leit að berjum. Ég hafði hins vegar allt annað á prjónunum.



Frá Skógræktinni lá leiðin upp á við. Hærra og hærra.



Vegurinn upp í skarðið var með allra besta móti.



Og þegar komið var í háskarðið var auðvitað rölt um og horft inn Skagafjörðinn og litið til fjallahringsins.



Þessar fjallseggjar, Skarðshnjúkurinn og Afglapaskarðið togaði í mig. Ég hafði ekki tekið með mér neina skó til að ganga á fjöll, en það var nú kannski í lagi að fara bara eitthvað mjög stutt. Stafirnir frá þeim skólasystrum mínum Friðu Birnu, Klöru, Oddfríði og Stínu o.etv. fleirum voru í skottinu sem skipti jú stóru máli.



Ég klifraði því upp á brúnina austan skarðsins.



Svo var gengið af stað eftir egginni og ekki hvikað frá henni. Það var klifrað yfir björg en ekki krækt fyrir þau og enginn afslattur gefinn af markmiðinu.



Sums staðar var alveg þokkalega greiðfært.



Ég gekk fram á þessi tvö lömb sem voru að næra sig nokkuð neðan við brúnina. Ég skil ekki alveg hvernig þau hafa komist þangað því bæði ofan og neðan við þau er mikið þverhnípi.



Samkvæmt upplýsingum sem finna má a www.snokur.is er það Skarðshnjúkurinn sem er framundan. Á sama vef er að finna eftirfarandi:
Sunnan Skarðshnjúks og norðan eru eggþunnir hryggir sem tengja saman háfjöllin og skilja botna Skarðsdals og Hraunadals (að vestan). Norðan hnjúksins er Siglufjarðarskarð en að sunnan Afglapaskarð. Er ýmsum hætt að villast í það er að vestan kemur þá dimmt er og fannir því líkar. Eru þar uppgöngur en afglöp þykja það ill, því lítt fært er að austan.



Hann er nokkuð klettóttur í toppinn en ekki þýðir að fást um það. Því eins og áður sagði skal enginn afsláttur gefinn og því verður farið beint yfir en ekki á "skjön" við hann. Skipun dagsins er "beint af augum..."



Og stundum var horft um öxl yfir farinn veg.



Fyrir neðan breiddi Skarðdalurinn úr sér og fjörðurinn virtist heldur lítill. Það er nú yfirleitt alltaf svolítið gaman að vera "hátt uppi."



En áfram var haldið.



Efsta beygjan á veginum siglufjarðarmegin virtist vera langt fyrir neðan.



Nú var aðeins svolítill spölur eftir.



Og loksins var komið ofan í hið óttalega Afglapaskarð.



Leiðin upp úr því hinum megin var bæði klettótt og brött.



Það stóð ekki til að fara lengra og eiginlega var þetta hæfilegur áfangi í bili, enda bauð útbúnaðirinn tæplega upp á frekari göngu.



Skyggni var með besta móti og Grímsey sást ótrúlega vel ofan af fjallinu.



Í Afglapaskarði.
Þessi staður hefur alla tíð verið svolítið forboðinn í huganum, enda nær eingöngu tengdur gömlum sögnum um ill öfl og mannskaða. ég er þó þeirrar skoðunnar að hann sé stórlega vanmetinn sem áfangastaður göngumanna. Úr skarðinu er frábært útsýni og þarna hefur vissulega hluti sögunnar orðið til þó hann sé  kannski ekki sá gleðilegasti a.m.k. í samgöngumálum.

Á öldum áður villtust menn sem komu úr Skagafirði og Fljótum stunduim í vondum veðrum eða þéttri þoku og töldu þetta vera Siglufjarðarskarð. Sæmilega greiðfært er upp að skarðinu vestan megin frá, en þverhnípi mikið að austan. Hröpuðu þeir því oft í björgunum sem fóru þessar villur.



Þetta skemmtilega lagaða bjarg stendur rétt neðan við brúnina og bendir eins og fingur til himins.



Ég heyrði skíðamann á Siglufirði kalla þetta "skítuga skaflinn."



Og þetta skemmtilega sjónarhorn varð að festa í flögu.



"Undir stórum steini" eru nokkur ágæt sæti fyrir lítinn hóp ferðalanga sem vilja kasta mæðinni.



Mér virðist sem ekki leggi margir leið sína á þessar slóðir og þykir mér það heldur miður. Ummerki um mannferðir eru ekki sjáanlegar. Væri ekki ráð að safna saman þeim heimildum og munnmælum sem til eru um þennan stað því þær munu vera einhverjar, og gera hann síðan "ofurlítið frægan" og þá í leiðinni forvitnilegri? Ef það gæti orðið til þess að draga eitthvert "sófadýrið" í svolitla heilsubótargöngu væri vissulega betur af stað farið en ekki. Hins vegar tel ég þennan stað vera eina perluna í hinni miklu fjallafesti sem umlykur okkar ágæta bæ. Fjöllin eru nefnilega vannýtt auðlind sem vert er að huga betur að þrátt fyrir svolitla vakningu í þeim efnum að undanförnu.



Ef þessi mynd er borin saman við myndina fyrir ofan sést að hún er tekin á sama stað en er nokkuð breytt. Í staðin fyrir stafina er komin svolítil varða þarna í mitt skarðið. Von mín er sú að sem flestir eigi eftir að leggja stein í hana á leið sinni um hin Siglfirsku fjöll.



Hún er ekki mjög stór, en nóg er af grjótinu þarna og mjór er mikils vísir.



Eftir dágóða dvöl var kominn tími til að ganga af fjallinu, eða alla vega þessum hluta þess. Ég valdi að fara sömu leið niður og þeir ógæfumenn fetuðu upp fyrir nokkrum árhundruðum sem ekki auðnaðist að ná á áfangastað. Sú leið er létt til göngu og liggur niður að Skarðsveginum Hraundalsmegin.



Hún er hins vegar svolítið grýtt, en vel er hægt að sneiða hjá því versta.



Þegar niður á veginn er komið er örstuttur spölur upp í Siglufjarðarskarð.



Ég var nú búinn að loka hringnum og kominn aftur á byrjunarreit ef svo mætti segja.



Horft til Afglapaskarðs frá Siglufjarðarskarði. -
Eins og sjá má getur leiðin líka verið bæði stutt og létt ef menn vilja og heppilegt er þá að ganga upp frá miðri brekkunni austan skarðs.



En það var ekki hægt að yfirgefa Skarðið öðruvísi en að kíkja líka aðeins upp norðan þess. Þar er greinilega talsvert gengið og myndast hefur slóð upp á brúnina. Héðan er ekki langt í Illviðrishnjúk, en milli hans og skarðs er fjall eins og sjá má á myndinni. Ég er búinn að leita talsvert og spyrjast fyrir um hvað þetta fjall heiti, en ekkert fundið enn og enginn hefur getað svalað forvitni minni.
Ég er að vísu ekki enn búinn að spyrja Hannes Bald, Palla Helga eða Örlyg.



Hraunadalur.



Skarðdalur.



Héðan sést vel yfir eggirnar sem er mjög skemmtilegt að fara þó ég mæli alls ekki með þeim fyrir lofthrædda.



Á leiðinn niður á láglendið staldraði ég við og horfði til Afglapaskarðs. Þetta er síður en svo árennilegt hérna megin frá.
En nú var kominn tími til að vitja berjatínslufólksins og ferja það heim. 



Eftir svolítið sýnishorn af bláberjaskyri með óblönduðum rjóma var kominn tími á svolítið rölt um bæinn. Við smábátabryggjuna eða Bátabryggjuna eins og hún hefur alltaf verið kölluð gat að líta þetta forláta skilti. Þarna er lýst á myndrænan hátt og með talsverðri litagleði fyrirætlunum þeirra stórhuga sem standa að Rauðku ehf, en það eru þeir Róbert Guðfinnsson og Hörður Júlíusson. Eftir því sem mér skilst er hugmyndin m.a. eða kannski aðallega sú að gera út á sjóstöng og flytja þá inn viðskiptavini sem hafa efni á þeim lúxus sem boðið verður upp á. Þá hafa þeir félagar einnig fest kaup á 6 íbúðum í bænum vegna fyrirhugaðrar starfsemi. Ef þessar hugmyndir ganga eftir er hér verið að gera mikið átak í atvinnumálum bæjarins í langan tíma og vona ég bara að draumar þeirra félaga rætist til hins ítrasta.



Það er að verða miklil breyting á þessum gömlu húsum þar sem áður var aðstaða trillukarla, veiðarværageymslur, salthús o.fl.



Og ekki skemmir umhverfið.



Hér var áður vegur sem lá frá Suðurgötu og niður á Snorragötuna. Þegar sú fyrrnefnda var breikkuð breyttist vegurinn í stíg. Mér finnst ekki mjög langt síðan að ég gekk upp þessa brekku frá KEA síldarplaninu þar sem Sóley amma saltaði. Þá mætti ég vörubíl ekki ósvipuðum þeim sem ekur gjarnan um götur bæjarins meðan Síldarævintýrið stendur yfir. 



Þetta hús hafa Veraldarvinir eignast, en þeir hafa verið iðnir við að fegra og snyrta bæinn og umhverfi hans undanfarin ár. En þegar litið er til húss kemur gamalt máltæki upp í hugann þar sem talað er um að "sumum fari betur að reita arfa í annarra manna görðum en sínum eigin." Rétt er að taka það fram að þetta innskot er síður en svo illa meint...



Ég hitti minn ágæta sveitunga Steingrím (Lífið á Sigló) á nýju vespunni sinni niðri í bæ.



Þegar ég fór með rusl í Seyru var ekki hjá því komist að taka eftir hvað allt gámasvæðið var orðið yfirmáta snyrtilegt. En ég sá þetta varadekk í dekkjastafla og við svolitla athugun mátti greinilega sjá að það hafði aldrei nokkurn tíma farið undir bíl.



Það var farið að fjölga á Aðalgötunni. Sæunn systir mín var komin í bæinn og við röltum einn hring um eyrina í blíðunni. "Þessi bátur var á Skaganum" sagði hún en þar þekkir hún vel til. Það var því ekki úr vegi að mynda þau saman.



Slippurinn hefur alltaf haft mikið aðdráttarafl á mig, en hann er eitt af þeim "kennileitum" á þessum slóðum sem hvað minnst hafa breyst síðustu hálfu öldina eða rúmlega það. Þangað fór ég að leggja leið mína um svipað leyti og ég byrjaði í Barnaskólanum, eða að "heimsækja afa í vinnuna" eins og ég kallaði það. Eftir á að hyggja er það alveg furðulegt hvað þeir Siggi Björns, Jón Páls svo og Halli Þór og fleiri á Rauðkuverkstæðinu hinum megin götunnar þoldu guttann.  



En sleðinn hefur ekki runnið niður teina sína um langt skeið eins og sjá má.



Út við Öldubrjót liggur þetta fley sem "misst hefur ofan af sér."
Flest bendir til þess að hér sé komið Hegranes SK 2.



Og þessi lyftari sem lokið hefur því hlutverki að þjóna herrum sínum og létta þeim störfin. 



Sæunn var hrifin af sandströndinni og var fljót að bregða sér úr skónum.
En það fjölgaði enn í húsi því Magnús frændi minn var einnig kominn í bæinn.



Daginn eftir var kominn tími á aðra skógarferð og það var jafnvel enn betra veður en daginn áður. það kunnu allir vel að meta Leyningsána og fossinn.



Og Maggi mundaði myndavélina í þessu frábæra umhverfi.



Svo var tekin hópmynd af öllum og engan vantaði því myndavélin beið meðan ég "bætti mér í hópinn."



Sæunn litla systir, Ásdís dóttir hennar, Dagný vinkona Ásdísar og litla frænkan María.



Meðan við stöldruðum við í Skógræktinni fóru hestamenn hjá á leið sinni yfir skarðið að loknum Hestadögum.



Við fórum hins vegar hvergi. - Ekki næri því strax.



Þegar heim var komið var sest að "kaffiogmeððí." Frönsk súkkulaðikaka með nýtíndum bláberjum og þeyttum rjóma, mikil og skrautleg rjómaterta, dularfull kryddkaka gerð eftir leyniuppskrift sem geymd er í bankahólfi, pönnukökur með jarðarberjasultu og rjóma og svo mætti lengi telja. Til að kóróna herlegheitin hafði Sæunn tínt ýmis konar blóm og grös úti í hinni guðsgrænu náttúru og gerði úr fallegan vönd sem hún kom fyrir í gömlu kaffikönnunni hennar ömmu. Og auðvitað voru nokkrar skærgular Sóleyjar í honum.
Svo hófst afmælisveislan.



Eftir síðustu ferð inn að leiði afa og ömmu var lagt af stað suður á bóginn. 
Þegar ekið var fram hjá tjaldstæðinu mátti sjá þennan listamann vera að mála mynd af bátadokkinni, Sunnuplaninu, pollinum, Stálþilinu og öllu öðru sem fyrir augu bar með Hólshyrnuna í forgrunni.



Áður en ekið var inn í Hvalfjarðargöngin var staldrað við því himinninn var orðinn óvenju rauður og gulur, kyrrð næturinnar hafði nú færst yfir og þessi mávur sat sem fastast á þaki bíls sem hafði verið lagt á stæðinu fyrir ofan gatnamótin út á Akranes.

18.08.2008 16:33

Af hinum pólitíska vettvangi.



492. Það er eins og við fullorðna fólkið segjum... Ekki má maður bregða sér af bæ, þá er hreinlega allt orðið vitlaust, krakkarnir gera ekkert af viti og eru í endalausum sandkassaleik og auðvitað er svo hver höndin upp á móti annarri.

15.08.2008 08:24

Amma Sóley - 100 ára ártíð.



491. Núna um helgina ætlum við Sæunn systir mín að skreppa á Sigló sem við höfum reyndar gert alloft áður. En að þessu sinni er ferðin farin sérstaklega af því að Sóley amma okkar hefði orðið 100 ára n.k. þriðjudag eða þ. 19. ágúst. Ekki eru líkur á að margt verði um manninn, enda var amma ekki mjög veisluglöð og unndi sér best í hæfilega miklu fámenni og helst þá einhverja úr fjölskyldunni. Við ætlum því að halda okkur í þeim gírnum og hafa þetta á lágstemmdu og notalegu nótunum.



Amma og afi á Hverfisgötunni líklega um 1980



Æskuheimilið Hverfisgata 11, en þar bjuggu þau mest alla sína búskapartíð.
Fyrst á neðri hæðinni, en eftir nokkur ágæt síldarsumur festu þau kaup á efri hæðinni.
Vinstra megin á myndinni sést í tröppurnar og hliðið fyrir framan Aðventistakirkjuna.



Ég rakst á þessa skemmtilegu mynd í myndaalbúmi sem er komið frá móður minni, en hún er tekin í garðinum á Hverfisgötunni rétt erftir 1950.
Á myndinni eru (frá vinstri talið)
Anna Gunnlaugsdóttir systir hennar sem hefur búið alla tíð í Reykjavík, er enn á lífi og verður 98 ára í þessum mánuði.
Gunnlaugur Daníelsson faðir hennar og langafi minn. Hann bjó á Hverfisgötunni síðustu tvö æfiár sín og andaðist þar 12. júlí 1952.
Litla stúlkan á myndinni heitir Margrét Guðmundsdóttir og er dóttir Jóhönnu sem einnig er systir ömmu. Hún býr á Akureyri og er gift Kristni Hólm frá Siglufirði. (Bróðir Hafsteins Hólm.)
Jóhanna Gunnlaugsdóttir systir ömmu bjó á Akureyri alla sína búskapartíð.
Lengst til hægri er svo Sóley amma Gunnlaugsdóttir.

Síðari viðbót: Konan sem sést að er að ganga inn í garðinn mun vera Ingibjörg Jónsdóttir frænka mín, en hún var gift Guðmundi Þorleifssyni sem Guðmundartúnið er kennt við og bjó að Hávegi 12b. 



Við systkinin 1962 Ég 6 ára og sæunn 3ja ára.



Sæunn 10 ára og ég 13. Milli okkar situr móðir okkar Minný Leósdóttir sem var eina barn ömmu. Við erum svo einu barnabörn hennar.



Amma dvaldi oft í garðinum á góðum dögum. Á bak við hana má sjá geymsluskúrinn "hans afa" og fjárhúsið hans stóra-Tona á næstu lóð fyrir neðan.

10.08.2008 15:52

Pasta og antipasta.

490. Það er orðið langt síðan ég hef dottið inn á Vísindavefinn góða og þá ekki síður þann hluta hans sem kallast "föstudagssvörin." Á döprum degi þegar andinn svífur í lágflugi yfir hinu áþreifanlega raunveruveruleikalandi og nær ekki neinum hæðum vegna áunninnar tómleikakenndar og hinni andlegu hyldýpistilfinningu sem stundum þjakar.

Og rétt eins og það er eitthundraðprósent öruggt að dauðinn er arfgengur, er alveg jafn öruggt að inntit á umrætt vefsvæði getur ekki gert neitt annað en gott eitt. Ég velti því stundum fyrir mér hvort þeir snillingar sem þarna láta ljós sitt skína svari þeim spurningum sem inn koma hver með sínu nefi, eða hreinlega setja saman skemmtileg svör sem þarfnast síðan undarlegra spurninga. En mér má svo sem vera nokkuð sama því lesturinn hefur undantekningalítið verulega mikið skemmtanagildi eins og dæmið hér að neðan sýnir svo glöggt.



Spyrjandi veit sem er að ekkert efni verður eftir þegar efni (matter) og andefni (antimatter) koma saman í jafnstórum skömmtum. Spurningin er því fullkomlega eðlileg og má búast við að hún hafi valdið spyrjanda miklum áhyggjum og kannski minnkandi matarlyst. Honum hefur þó líklega ekki dottið í hug að gera einfalda tilraun og prófa þetta á sjálfum sér.

En starfsmenn Vísindavefsins eru fúsir að leggja ýmislegt á sig fyrir lesendur sína. Þeir hafa því gert slíka tilraun með þeim árangri að þeir skreppa nú óðum saman og er tvísýnt um framhald vefsins af þeim sökum. Við framkvæmd tilraunarinnar höfum við jafnframt komist að því að það er miklu hollara (skárra) upp á blóðsykur, kólesteról og fleira að borða antipastað á undan pastanu, eins og Ítalir gera líka yfirleitt.

Í grófum dráttum getum við lýst því, sem gerist þegar efni og andefni koma saman, með eftirfarandi ferli sem við sýnum á þremur tungumálum:
n g af efni + n g af andefni --> 0 g af efni (eða andefni) + heilmikið af orku.
n grams of matter + n grams of antimatter --> 0 grams of matter (or antimatter) + lots of energy.
n g materia + n g antimateria --> 0 g materia (o antimateria) + molto di energia.
Þetta má síðan alhæfa sem hér segir:
tiltekið magn af x + jafnmikið af and-x --> ekkert af x + ef til vill eitthvað annað.

Lesandinn getur til dæmis prófað að setja orðið 'pasta' inn fyrir x í þessu síðasta ferli en þá er 'eitthvað annað' = orka því að pasta er efni hvað sem öðru líður. Einnig getur x til dæmis verið 'bára' því að engin bára verður eftir þegar bára og andbára koma saman. Vel heppnuð andbylting verður til þess að byltingin misheppnast, byr og andbyr skapa engan vind, kommúnisti og andkommúnisti gera samtals engan kommúnista, Skoti og andskoti eru enginn Skoti, streymi og andstreymi gerir ekkert streymi, styggð og andstyggð eyða hvor annarri og þannig mætti lengi telja.

Nú gæti virst sem hagur Ítala kynni að vænkast af því að það er einmitt orka sem myndast þegar efni og andefni (pasta og antipasta) koma saman, og það er líka meðal annars orka sem við erum að sækjast eftir þegar við borðum. En orkan sem myndast úr efni og andefni er yfirleitt í formi svokallaðra ljóseinda sem eru bæði massalausar og hafa tiltölulega mjög mikla orku. Ljóseindir sem verða til á þennan hátt í meltingarfærum okkar þjóta því með ógnarhraða í burt án þess að skilja eftir sig nokkra orku í líkamanum.

Með þessum rökum höfum við í hyggju að skrifa Manneldisráði Íslands og leggja til að það skrifi systurstofnun sinni á Ítalíu til að benda á þessar afleiðingar þess að borða efni og andefni í sömu máltíð. En með því að meltingarfæri Ítala kunna að hafa lagað sig að þessum sið í aldanna rás er þó enn meiri ástæða til að vara aðrar þjóðir við því að fara að fikta við þetta.

Eftir að við höfðum samið þetta svar komumst við að því að í ítölskum orðabókum er ekki talað um antipasta heldur antipasto sem er þýtt sem 'forréttur'. Við höllumst einna helst að því að þetta sé prentvilla í orðabókunum og viljum í öllu falli vara fólk við ítölskum forréttum, að minnsta kosti ef pasta er í síðari réttum.

Vettvangsathugun hefur einnig leitt í ljós að hætturnar leynast víða því að í íslenskum búðum má finna vöru sem kallast andpaté eða eitthvað álíka. Við mælum ekki með því að slíkt sé borðað í sömu máltíð og paté.

Svo viljum við að lokum minna á að þetta er föstudagssvar við spurningu sem er í föstudagsflokki. Svarið má ekki taka með meiri alvöru en býr að baki spurningarinnar. Lesandinn verður sjálfur að taka ábyrgð á því hverju hann vill trúa í spurningu og svari.
(Gúgglað af Vísindavefnum.)

04.08.2008 13:53

Síldarævintýrishelgin.



489. Á leiðinni norður þegar ekið var um Vatnsdalinn í Húnavatnssýslu mátti sjá þokuslykjuna leka fram af fjallsbrúnunum, niður gil og skorninga og verða síðan af engu. Rétt eins og dularfull hvít frostgufa í tilraunaglösum léttgeggjaðra vísindamanna úr einhverri drungalegri Hollýwoodmynd sem eru í þann veginn að finna eitthvað upp sem breyta mun lífinu á jörðinni til frambúðar.



Þar sem nægur var tíminn að þessu sinni, þótti ekki fráleit hugmynd að staldra við hér og þar og virða fyrir sér landið og lífið í sveitunum norðan heiða. Þessi mynd er samansett úr tveimur myndum þar sem ég hef ekki yfir gleiðlinsu að ráða og er tekin frá frekar óalgengu sjónarhorni. Ég geri því ekki ráð fyrir að allir þekki þetta þorp en rétt svar er Blönduós.



Þessi hestur kom röltandi og horfði rannsakandi á okkur eins og hann væri að reyna að átta sig á því hvort hann gæti hugsanlega þekkt þetta fólk. Hann fékk eina brauðsneið (ósmurða) fyrir það eitt að láta sjá sig.



Honum líkaði greinilega sneiðin því hann ætlaði aldrei að hætta að sleikja út um. Hann er ekki að ulla á okkur ef einhver skyldi halda það.



Skammt þarna frá stóð yfir heyskapur og það upp á gamla mátann sem er ekki mjög algengt núorðið.



Þegar ekið var eftir Hnjúkabyggðinni á Blönduósi mátti sjá þess grasbíta ganga fylktu liði eftir flötinni fyrir norðan einu blokkina í bænum og úða í sig grængresinu. Sumir vilja kalla þessa fugla "fljúgandi steikur" eða jafnvel "jólasteikur" en mér finnst það svolítið kikindislegt.



Og rétt fyrir ofan bæinn voru þessi hross í hólfi og sýnilega hvíldarstund hjá ungviðinu.



Eftir að hafa ekið yfir Þverárfjall og um þekktar ísbjarnarslóðir, var beygt inn á Reykjarströnd rétt fyrir norðan Sauðárkrók. Vegurinn endar við bæinn Reyki skammt sunnan Glerhallavíkur, en glerhalli er því sem næst það sama og silfurberg (held ég) og var eitt sinn í miklu magni í víkinni. Í miklu brimi sem gerði fyrir allmörgum árum mun veruleg breyting hafa orðið þar og er þessi bergtegund ekki eins áberandi þar nú orðið.

Drangey er u.þ.b 700.000 ára, þverhníptur móbergsklettur í Skagafirði. Hæst er hún 180 m og flatarmálið er 0,2 km². Hún er aðeins kleif á einum stað, í Uppgöngu fyrir ofan Uppgönguvík. Hún var forðabúr Skagfirðinga um aldir. Þangað var sóttur fugl og egg. Allt að 200.000 fuglar voru veiddir þar fyrrum og veiði er stunduð þar enn þá. Fé var beitt á eyjunni, því hún er mjög grösug efst.

Þjóðsagan segir, að tvö tröll, karl og kerling, hafi verið að leiða kvígu yfir fjörðinn til nauts en orðið að steinum. Sunnan eyjar stendur Kerlingin enn þá en Karlinn, sem var norðan eyjar er horfinn í hafið. Eyjan sjálf er kvígan. Vegna tíðra slysa við sig í Drangey var Guðmundur biskup góði fenginn til að vígja hana. Hann gerði það úr sigvaði og þegar hann kom að Heiðnabergi, vinstra megin Uppgöngu, þar sem er náttúrulegt krossmark í þverhnípinu, kom loðin hönd með hníf út úr berginu og skar sundur tvo þætti kaðalsins. Hinn þriðja hafði Guðmundur vígt, þannig að hnífurinn vann ekki á honum. Þá heyrðist djúp rödd úr bjarginu segja Guðmundi að láta þar við sitja, því einhvers staðar yrðu vondir að vera.

Í Uppgöngu er Gvendaraltari, þar sem farið er með Faðirvorið áður en lengra er haldið. Drangey var öldum saman í eigu Hólastóls. Í Grettissögu segir frá dvöl og dauða Grettis og Illuga bróður hans í Drangey. Það er ógleymanlegt að sigla út í Drangey og ganga upp á hana.
(Gúgglað af nat.is.)




Niður undir flæðarmálinu er Grettislaug og þar hafði þessi Svisslendingur burslað framan af degi milli þess sem hann óð út í sjó til að kæla sig niður en fór síðan aftur í 36 gráðu heita laugina.

Grettissaga segir frá því, að eldur hafi slokknað í Drangey hjá þeim bræðrum Gretti og Illuga vegna slælegrar gæzlu þrælsins Glaums.  Þá bjó Grettir sig til sunds í land og synti "sjö vikur" sjávar til Reykja á Reykjaströnd norðan Sauðárkróks.  Honum var kalt, þegar hann kom í land og yljaði sér í heitri laug sem myndaðist þar vegna jarðhita.  Síðan gekk hann í hús, þar sem allir voru í svefni, lagði sig og steinsofnaði allsnakinn.  Hann vaknaði við tvær konur í stofunni hjá sér um morguninn.  Þar voru komnar griðkona og dóttir bóndans.  Þær þekktu Gretti og undruðust, hve lítið væri undir svona stórum manni.  Griðkonan gekk nær til að skoða tólin og hljóp skellihlæjandi til bóndadóttur.  Grettir reis upp, greip til griðkonunnar og fór með vísur, sem fjölluðu um gagnsemi þessara tóla, þótt þau væru ekki af metstærð.  Síðan staðfesti hann orð sín með skrækjandi griðkunni, sem fór hin ánægðasta að því loknu.  Grettir fór síðan til Þorvalds bónda og bað hann flytja sig til baka með eldinn.

Grettislaug hvarf í hafróti árið 1934.  Hún var grafin upp árið 1992 og endurgerð.  Þá var hlaðinn skjól- og varnarveggur úr fjörugrjóti norðan við hana.  Margir láta vel af baði í Grettislaug.
(Gúgglað af nat.is.)




Jón Eiríksson frá Fagranesi (t.v.) er gjarnan nefndur Drangeyjarjarlinn. Hann hefur í mörg ár siglt með ferðamenn út í Drangey, unnið ötullega að uppbyggingu Grettislaugar svo og aðstöðu fyrir ferðamenn á Reykjaströndinni. Hann var nýlega útnefndur ferðafrömuður ársins 2008 fyrir starf sitt og er eflaust vel að því kominn. Ég hitti Jón þar sem hann var að bjástra við að koma rafstöð sinni í gang, en hún er í skúrnum fyrir aftan þá félaga. Hann sagðist hafa virkjað bæjarlækinn fyrir ekki svo löngu síðan og virkjunin væri samkvæmt sínum útreikningum u.þ.b. 20 sinnum stærri en Kárahnjúkavirkjun miðað við höfðatölu neytenda, en hann væri þarna oftast einn og svo hló hann við. Hjá Jóni stendur frændi hans sem var í heimsókn nyrðra en ekki man ég hvað hann heitir hafi hann á annað borð kynnt sig með nafni. Ég man þó að hann sagðist vera krabbameinslæknir, búa í Kópavogi og vera nágranni Kristjáns L. Möller.

Svolítil en afar kærkomin viðbót barst mér frá Mána Sigurjónssyni fyrrverandi útvarpsmanni.

Það er rétt, frændinn er læknir og hann heitir Baldur Sigfússon og þeir eru bræðrasynir Jón og hann. Feður þeirra fæddust og ólust upp í fæðingasveit minni austur í Tungu. þ.e. í Gunnhildargerði í Hróarstungu austur á Fljótsdalshéraði, (Feðurnir fæddust að vísu allmörgum árum áður en ég fæddist). 

Ég vil þakka Mána kærlega fyrir og betur væri ef fleiri sæu ástæðu til að miðla af viskubrunni sínum þegar mig þrýtur þekkingu eða næ ekki að "gúggla" mig áfram.



Reykjarströnd var kvödd og ég hét því að einhvern tíma skyldi ég fara með Jóni Drangeyjarjarli út í hina sögufrægu eyju, en slíkt er nú alltaf skemmtilegra í góðum hópi. Hinum megin Skagafjarðar var þó tekin ein mynd af Drangey til viðbótar og nú var kvöldsólin farin að lita hana og skýjabakkann á bak við hana með geislum sínum.



Það voru margir mættir á Sigló strax á fimmtudagskvöldið. Svona var umhorfs á tjaldstæðinu um níuleytið og það streymdu bílarnir í bæinn.



Á föstudeginum um hádegisbilið datt mér í hug að fá mér svolítinn labbitúr. Ég vissi svo sem ekki hvert ég ætlaði en ég hef aldrei komið upp í Hestskarð. Það var því stefnt þangað upp í veðurblíðunni. Geta má þess að hitamælirinn á Sparisjóðnum sýndi 23 gráður klukkan 11 um morguninn.

Ég heyrði skemmtilega sögu á dögunum sem mér finnst full ástæða að fái að fljóta með...
Góður og gegn Siglfirðingur gekk yfir Hestskarð á dögunum ásamt sonarsyni sínum. Veður var gott og gangan gekk vel. Þeir félagar komu niður í Héðinsfjörð og dvöldu þar hluta úr degi, en þegar þeir hugðu að heimferð var komin þétt þoka í skarðið. Afanum sagðist svo frá að honum hefði hreint ekki litist á að fara þarna upp með sonarsoninn svo ungan að aldri og því horfið frá þeirri fyrirætlan.
Hann var þá spurður að því hvað hann hefði tekið til bragðs og ekki stóð á svarinu.
"Ég tók bara steypubílinn til baka."

Og fyrir þá sem ekki þekkja staðhætti, þá liggja Héðinsfjarðargöng því sem næst undir Hestskarði.



Eftir nokkra stund stóð ég á brúninni og horfði til baka ofan í Siglufjörð eða það sem sést af honum úr skarðinu.



Fyrir neðan Héðinsfjarðarmegin er vatnið.

Til suðurs lá leiðin upp á Pallahnjúk, klettótt og brött. Meðan ég var á leiðinni upp í Hestskarðið heyrði ég látlaust í grjóti sem hrundi úr hlíðum og klettabeltum þessa fjalls og valt niður skriðurnar. Það varð aldrei hlé á þessu hruni og á tímabili var ég alveg viss um að þarna væri einhver á ferð. En hvernig sem ég rýndi og pírði augun, sá ég ekkert nema nokkrar rykslóðir eftir veltandi grjót.



En til norðurs liggur skörp fjallseggin upp á Hestskarðshnjúk sem eitt sinn hét Staðarhólshnjúkur-syðri skv. upplýsingum af nýja örnefnavefnum snokur.is. Mér fannst þessi leið auðvitað mest spennandi og ákvað að halda á toppinn.



Ég gekk eftir fjallsegginni sem var á köflum mjög skörp, en varð að láta mig hafa það að krækja fyrir einn og einn klett sem virtist heldur óárennilegur.



U.þ.b. hálfnaður upp og það styttist í takmarkið. Hér er svolítill slakki í brúninni og tilvalið að staldra við og taka eina eða tvær myndir, fá sér svolítið súkkulaði og kristal-plús.



On ú styttist í toppinn. Síðasti spölurinn er lítið hallandi melur sem þægilegt er að ganga.



Þegar upp er komið hlýtur göngumaðurinn umbun sína fyrir það sem hann hefur lagt á sig til að ná takmarkinu. Ægifagurt útsýni til allra átta.
Á toppnum er talsvert traðk sem segir mér að hér sé mun gestkvæmara en ég hélt.



Ég leit fram af berginu og niður í Skollaskál sem virðist vera langt, langt fyrir neðan og reyndar rétt eins og hluti af undirlendinu héðan frá séð.



Austan megin er svo botn Nesdals sem stundum heitir Reyðarárdalur. Veit ekki hvort er réttara nema hvoru tveggja sé. Vinstra megin við miðju myndarinnar grillir svo í slóðina sem liggur upp úr Kálfsdalsskarði og yfir í Nesdal (eða Reyðarárdal.)



Eitt af því sem mér fannst undarlegt var þessi undarlega blanda af ólíkum smásteinum bæði að lit og lögun í einum og sama melnum.



En hvort skyldi nú halda áfram eftir fjallgarðinum eða halda til baka og segja þetta gott í bili. Hestskarðshnjúkur er 850 metra hár og því með hæstu fjöllum við Siglufjörð. Hann verður að teljast hæfileg ganga á einum degi fyrir þá sem eru ekki nema í meðalgóðu formi og nokkuð yfir kjörþyngd. En ef maður er á annað borð kominn hingað upp og hægt að slá "sömu fluguna í bæði höfuðin" í svo gott sem einu höggi þarf bæði að íhuga málið og meta stöðuna.

Það eru ekki miklar líkur á að ég sé tilbúinn að fara sérferð hingað upp á næstunni til þess eins að klífa Staðarhólshnjúk sem er þó ofarlega á óskalistanum. Ég gat því ekki betur séð en að minnsta málið væri að láta til skarar skríða hér og nú, því aðstæður gátu varla orðið betri. Staðarhólshnjúkur á myndinni hér að ofan er 778 metra hár, og saman eru þessir hnjúkar eins og tveir risar sem vaka yfir og við sitt hvorn enda Skollaskálarinnar.



En áður en lagt var af stað þurfti að taka nokkrar myndir.



Á leiðinni niður eftir brúninni þurfti líka að krækja fyrir kletta og klungur, gil og skorninga.



Gamalt þykkt lag af rauðamöl varð á vegi mínum, en þetta sést víðar í austurfjöllunum.



Ég var nú kominn í miðja lægðina milli hnjúkanna yfir miðri Skollaskál og horfði upp eftir næstu fjallsegg. Þetta leit ekki út fyrir að vera svo mikið mál og var það raunar ekki þegar á reyndi. Sennilega hef ég verið fljótari upp á Staðarhólshnjúk en niður af Hestskarðshnjúk.



Toppnum var náð og ég tók eftir því að hér voru mun minni merki um mannaferðir og vörðurnar tvær báru þess líka merki. Þær voru bæði lægri og efnisminni þó nóg væri af grjótinu þarna uppi. En þarna uppi var logn svo mikið og hiti, að það lak af mér svitinn í stríðum straumum.



Annars er toppurinn klofinn og ekki má á milli sjá hvor er hærri.



Ég varð auðvitað að fá mynd af sjálfum mér í hnjúka og tindasafnið hér eins og annars staðar þar sem leiðin hefur legið. (Sérhannað safnmynstur fyrir hégómagirndina.)



Ég gægðist norður af fjallinu og þarna langt niðri mátti sjá Kálfsdalsvatn og auðvitað ofan á kollinn á Hinrikshnjúk. Auðvitað var einn hnjúkur enn eftir þó hann sé mun minni og ekki eins áberandi í fjallahringnum. Ekki veit ég við hvaða Hinrik hann er kenndur og því miður hefur enginn getað sagt mér það enn sem komið er. Það var auðvitað fátt annað í stöðunni en að klára pakkann, en mikið rosalega var bratt þarna niður.



En niður var farið eftir nokkrum krókaleiðum, því ókleift er með öllu eftir brúninni sem er eiginlega ekki nein brún heldur skiptast á skriður, gilskorningar og klettabelti.



Ein enn í safnið og sennilega toppar hún hégómlegu hliðina á því. En Hinrikshnjúkur er 563 metra hár og efsti hlutinn er löguleg klettaborg. Það er mikið um holrúm milli stórra steina sem gerir hann talsvert frábrugðinn hinum tveimur.



Þessi hluti er nú að baki...



...en næsti áfangi framundan. - Ég klöngraðist niður austurhlíð Hinrikshnjúks og niður í innanverðan Kálfsdalinn. Þetta var ansi bratt en ekkert stórmál væri gætilega farið.



Þegar ég koma niður að læknum sem rennur niður að vatninu var hreinlega lagst yfir hann því allar Kristal-plúsbirgðir voru þrotnar fyrir nokkru.



Síðan var gengið niður í átt að vatninu.



Skömmu áður en þangað er komið hverfur lækurinn ofan í jörðina og  eftir stendur þurr farvegur sem hann rennur sennilega eftir aðeins í mestu leysingum..



En Kálfsdalur er hinn mesti unaðsreitur og kyrrðarinnar Paradís.



Ekkert affall er heldur úr vatninu, en miklu neðar í dalnum sprettur áin út úr fjallinu og rennur til sjávar við Selvíkina.



Það var farið að skyggja og sólin sigin niður fyrir brún Hafnarfjallsins. Því var ekki úr vegi að smella af einni sólarlagsmynd áður en hún léti ljós sitt skína á ný og gægðist fram fyrir norðurenda Strákafjalls hinum megin fjarðar.

Þegar ég kom neðar í dalinn var kyrrðin fyrir bý. Ég heyrði að það var verið að spila gamla og svolítið þreytta slagara á torginu. Syrpa sem samanstóð af "Anna í Hlíð" sem breyttist í annan slagara og eftir það í "Oft á vorin haldin eru Héraðsmót" kom kunnuglega fyrir eyru. Ég man ekki betur en að ég hafi heyrt þessa sömu syrpu í fyrra og einnig árið þar áður.



Selvíkurviti er greinilega farinn að þarfnast aðhlynningar, orðinn "feiskinn og fúinn, farinn og lúinn." Ég leitaði heilmikið á netinu að upplýsingum um hvenær hann var reistur en fann ekkert. Nýlega fréttist svo að hann væri til sölu því hann mun vera aflagður sem það öryggistæki sem hann var lengst af.



Lokaáfanginn var eftir. Bakkarnir í Staðarhólslandinu alla leið inn á Ráeyri. En þessi leið er blautleg mjög vegna mýrlendis og sums staðar ógreiðfær vagna kargaþýfis.



Mér fannst löng leið að baki þegar ég kom loksins að Evangerrústunum. Nú var aðeins smáspölur eftir að bílnum sem stóð uppi á Saurbæjarás nokkuð fyrir sunnan frístundabyggðina, en þegar þangað var komið leit ég á klukkuna. Gangan hafði staðið í átta og hálfan tíma og það var farið að líða að miðnætti.



Og fyrir þá sem rata hingað inn á síðuna, eru ekki staðkunnugir og vilja átta sig betur á staðháttum.

Örvarnar benda á eftirfarandi staði.
1. Hestskarð (í hvarfi).
2. Hestskarðshnjúkur sem skv. heimildum úr snokur.is hét Staðarhólshnjúkur syðri.
3. Staðarhólshnjúkur.
4. Hinrikshnjúkur.
5. Kálfsdalsvatn (í hvarfi).
6. Selvíkurviti sem heitir Selnesviti skv. heimildum frá snokur.is.



Eitt af því sem stendur eftir þegar helgin verður liðin, gestir farnir heim og kyrrð farin að færast yfir sjávarþorpið, verður líkanið af Hafliða sem togarajaxlarnir frá árum áður stóðu fyrir að gert yrði. Þessir ágætu menn sem að verkinu stóðu eiga miklar þakkir skildar fyrir framtakið og ég mæli með að sem flestir kíki inn á vefinn http://www.si2.is þar sem er að finna mikinn fróðleik. Bæði af sögu skipsins, skipverjum, nokkrar gamlar sjóarasögur gamlar myndir frá mektardögum þess og margt fleira. á myndinni fyrir ofan sitja nokkrir fyrrverandi sjóarar á á palli og kyrja slagara rétt fyrir formlega afhendingu líkansins.


(Ljósmynd - Steingrímur.)

Annað sem stendur eftir er örnefnavefurinn http://snokur.is/ sem ég er búinn að liggja yfir klukkutímum saman og grandskoða í bak og fyrir. Af öðrum ólöstuðum hefur Hannes Baldvinsson lagt ómælda og óeigingjarna vinnu og í undirbúninginn, en einnig hafa þarna komið við sögu þeir Páll Helgason og Örlygur Kristfinnssson ásamt Magnúsi Sveini Jónssyni. Vefurinn er að miklu leyti byggður á handritum Helga Guðmundssonar sem bjó á Siglufirði frá því laust fyrir 1930 og fram til ársins 1944 þegar hann lést. Helgi tók saman örnefni í hinum forna Siglufjarðarhreppi sem náði frá Úlfsdölum til Hvanndala og þá voru í þann mund að falla í gleymsku og þökk sé honum (ásamt Hannsi Bald og fleirum góðum mönnum) að vér núlifandi Siglfirðingar getum gengið að þessum fróðleik vísum þar sem hann nú er.



Síldarsöltunin vekur alltaf verðskuldaða athygli allra. Bæði þeirra sem tóku þátt í ævintýrinu á sínum tíma og muna það í ljósrauðum dýrðarljóma, en einnig og ekki síður hinna sem eru handtökin, verklagið og stemningin vægast sagt framandi. Það verður að segjast að það er glæsilegt Síldarminjasafnið og við bæði meigum og eigum að vera þeim framtakssömu brautryðjendum ævarandi þakklát sem unnið hafa að tilurð og framgangi þess.



Ýmsir tónlistarmenn heiðruðu Síldarævintýrið með nærveru sinni og fyrir mitt leyti þykir mér einkar vel til fundið að fá þá félaga Gylfa Ægisson og Þorvald Halldórsson til að troða upp. Þetta eru frábærir karlar sem eiga sér glæstan feril, við höfum þekkt þá að góðu einu áratugum saman og þeir gerðu líka hinu ágæta sjómanna og Síldarævintýrislagi sr. Sigurðar Ægissonar verulega góð skil. En það var hins vegar Eyþór Ingi sem kom mér svo rækilega á óvart að ég stóð hreinlega sem steini lostinn og átti engin orð til að lýsa hrifningu minni á þessari rísandi stjörnu sem getur ekki annað en átt eftir að gera stóra hluti í framtíðinni. -  Annað væri hið argasta klúður.



Ég hef verið á Síldarævintýrinu hvert einasta ár frá upphafi þess nema eitt og ég man ekki eftir flugeldasýningu og brennu fyrr en núna. Frábært að fá þennan lið "lánaðan" hjá Vestmannaeyingum og vonandi er hann kominn til að vera. Ég vil líka ítreka það sem ég hef áður sagt að það væri góð hugmynd að fá annan lið "lánaðan" og þá frá Dýrafjarðardögum. Sá gæti heitið "Gengið um söguslóðir í miðbænum með leiðsögumanni búnum gjallarhorni." Sá liður gæti verið snemma á dagskránni eða eftir að hreinsun hefur farið fram, nokkru eftir að þeir síðustu eru sofnaður og löngu áður en þeir hinir sömu vakna á ný.



Á sunnudeginum mátti sjá Mávana raða sér á mæni Bátahússins, sjón sem ég hef aldrei áður augum litið. Það vakti athygli mína að þeir snúa allir goggnum í norður í átt að tjaldstæðinu, en þar gæti verið matarbita að finna þegar tjaldbúar taka að yfirgefa svæðið.



Ég sá líka þennan bíl í stæðinu fyrir norðan Aðalbúðina með athyglisverða merkingu í glugganum.



Ef við rýnum aðeins í hana sést að þar stendur "KONUNGUR STRUMPANNA."
Hmmmmmmmmmmmmmm..........



Á leiðinni suður mátti sjá kvöldroðann lita fjallatoppana í Húnavatnssýslu.

  • 1

Namn:

Leó R. Ólason

Plats:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Antal sidvisningar idag: 748
Antal unika besökare idag: 132
Antal sidvisningar igår: 1391
Antal unika besökare igår: 279
Totalt antal sidvisningar: 496125
Antal unika besökare totalt: 54750
Uppdaterat antal: 26.12.2024 20:45:01
clockhere

Länkar