23.06.2009 18:18
Norðurferð í Júní - fyrsti hluti.
573. Það var föstudaginn 29 maí að ég lagði af stað frá Hafnarfirði áleiðis til fyrirheitna fjarðarins, þangað sem stefnan er gjarnan tekin svo oft sem tækifæri gefst.
"Hvað á að stoppa lengi" var spurt en ég kunni engin svör við því. Ég var búinn að vera verklaus allt of lengi hérna syðra og varð að komast í annað umhverfi og finna mér eitthvað til dundurs. Það skipti ekki alveg öllu máli þó að kaupið væri lágt ef það gerði sálinni gott og það var vitað mál að verklegra framkvæmda var þörf nyrðra og hafði verið það um árabil. Ég lagði því upp með nauðsynlegt nesti þar sem uppistaðan var Diletto kaffi úr Bónus á kr. 298 kr. pakkinn, en að vísu var ég á afar gömlum og útúrslitnum skóm.
"Flutningabíllinn" sem er af gerðinni Nissan Micra var notaður til efnisflutninga þegar norður var komið og reyndist eins og ávallt, bæði rúmgóður og með ótrúlega mikla burðargetu. Þetta er líklega einn af þeim bílum sem eru miklum mun stærri að innan en utan.
Svo var farið að saga uppi á háalofti, en eins og sjá má var eitthvað bogið við annað hvort timbrið eða sögina. Það reyndist vera sitt lítið af hvoru, spýtan var sennilega lítillega blaut og sagarblaðið eiginlega búið á því. En þetta var nú ekkert sem ekki mátti kippa í liðinn sem var auðvitað gert, en síðan haldið áfram að saga. Svo var sótt meira 34x70 grindarefni og sagað enn meira, skrúfað, lektað o.s.frv.
Þar kom að búið var að ulla, plasta, lekta, og leggja fyrir rafmagni í þeim áfanga sem stefnt var að ljúka við í bili, þ.e. rými sem spannaði þrjá kvisti af fimm. Fyrir nokkrum árum þegar skipt var um þak var allt hreinsað burt og endurbyggt frá grunni, þ.e. járn, klæðning, sperrur og einnig milliveggir. Þetta rými hafði um árabil verið einn stór geimur en fyrir nokkru byrjaði ég að einangra þakið. Ullin hafði að mestu beðið í plastinu tilbúin til notkunar síðan 2005 og nú var komið að því að gera svolítið átak í þessum málaflokki.
Þá voru spónaplöturnar næsta atriði á listanum en mikið rosalega hefur allt byggingarefni hækkað síðan ég var að kaupa eitthvað verulegt af því á síðasta ári. Mig sveið í veskið og bölvaði kreppunni, útrásinni og gengi krónunnar í hljóði en lét það yfir mig ganga því ekkert annað var í boði.
Eina nóttina (eða kannski tvær) var ég að fram undir morgun og varð litið út um gluggann rétt undir lokin. Það varð auðvitað til þess að ég taldi alveg bráðnauðsynlegt að skreppa niður eftir myndavélinni og bætti í beinu framhaldi við enn einni myndinni í Hólshyrnumyndasafnið mitt sem er þó talsvert fyrir. Ég hef líklega ekki oft séð bæjarfjall Siglufjarðar svona rautt í skini miðnætursólarinnar úr norðri.
Þegar ég átti sem oftar leið upp í Samkaup einn daginn, rak ég augun í "auglýsingaskiltin" sem hanga þar uppi á veggjum og það var ekki laust við að ég slakaði brúnum í forundran.
"Betur sjá augu en möffins"...
Vááá maður, á hverju hefur hönnuðurinn verið þegar hann setti saman þessi mergjuðu slagorð?
Mig langaði helst til að æða um alla búð og mynda öll skiltin, en þá hefði líklega einhver viðstaddur farið að velta fyrir sér á hverju ÉG væri svo ég stillti mig a.m.k. um það í þetta skiptið.
En ég er hins vegar ekkert viss um að Siglfirðingar sem eiga daglega leið í Samkaup sem hét áður eitthvað annað, einu sinni KEA og þar áður KFS (Kaupfélag Siglufjarðar) hafi allir rekið augun í þessi ljóðrænu skilaboð. En þau glöddu vissulega mitt litla hjarta þarna inni á gólfinu, þrátt fyrir þær tölulegu upplýsingar sem lesa má af verðmiðunum á hillinum og heimfæra má upp á landlæga fákeppni í matvöruverslun, smæð markaðarins á klakanum, áðurnefndu gengi krónunnar, erfiða samkeppnisstöðu Samkaupa gagnvart Kaupás og Bónuskeðjunum og eflaust margs annars.
En það var búin að vera svo mikil blíða í svo marga daga samfleytt, að þetta gat hreinlega ekki haldið mikið lengur áfram því allt er jú forgengilegt. Meira að segja veðrið. Það sem blasti við syfjuðum augum mínum kom mér því lítið á óvart einn morguninn þegar ég leit út um gluggann.
Það hafði gránað í fjöll og dagatalið var langt gengið í júlí...
Ég átti leið upp á Háveg og þar sá ég nokkuð sem vakti athygli mína. Einhvers konar klifurplanta hefur tekið upp á því að fara sínar eigin leiðir upp úr blómabeðinu undir húsveggnum, fundið skjól undir Steni-klæðningunni á neðri hæðinni og þreifað sig upp milli plötu og steins. Þegar hún hefur verið komin á þriðja metra upp á við í kolniðamyrkri, hefur hana líklega verið farna að lengja eftir sólarglennu og því gægst út undan litaða bárustálinu.
Og þó að vegir hennar teljist ekki órannsakanlegir með öllu, verða þeir alla vega að teljast í það minnsta til þeirra óhefðbundnari.