26.10.2013 03:03
Skráma
891. Í bókinni "Siglfirskar
þjóðsögur og sagnir" sem Þ. Ragnar Jónasson skrifaði og Vaka - Helgafell gaf út
árið 1996 segir: "Gil eitt mikið og djúpt er milli bæjanna Dalabæjar og
Engidals í Úlfsdölum er Herkonugil heitir. Eru það gömul munnmæli að tröllskessa
ein hafi stigið fram gilið til þess að
Líkamsleifar tröllkonunnar fundnar.
Upp undir brúnum
Hvanneyrarskálarinnar en þó Engidalsmegin liggja þessir steinar sem myndin hér að ofan sýnir, en
eru þó farnir að sökkva nokkuð í jarðveginn eins og sjá má. Með hæfilega
frjóu ímyndunarafli má sjá fyrir sér að líkamsleifar skessunnar Skrámu séu nú
loksins fundnar og í leiðinni geta sér til um endalok hennar. Þarna virðist hún
hafa sest niður og horft yfir búsvæði sitt, en ekki gætt að því hve stutt var í
sólarupprás. Kannski hefur hún dormað svolítið í blíðviðri síns síðasta
morguns, eða þá að hún hefur verið orðin svo gömul og sjóndöpur að hún hefur
ekki séð að hverju stefndi. En eins og fjölmargar "heimildir" herma, þá þoldu
tröllkarlar og kerlingar alls ekki sólarljósið. Við slíka uppákomu steinrunnu
þau, en nærtækt dæmi um slíkt er auðvitað tröllaparið sem ekki náði að reka
naut sitt yfir Skagafjörð meðan nótt var á. Á meðfylgjandi mynd virðist Skráma
hafa setið á svolitlu barði þegar hún mætti örlögum sínum, en sigið við það
aftur fyrir sig og lagst síðan út af. Fremst má vel sjá steingerða og digra
lærleggi hennar ásamt sköflungsbeinum, en neðarlega til vinstri eru þrír fingur
hennar vel greinanlegir og nokkuð krepptir. Þá má greina brjóst hennar og
höfuðbein uppi í horninu til hægri. Þar er eins og hún hafi snúið höfði sínu og
horft í átt að helli sínum í andarslitrunum.
Voru tröllin marsbúar?
Og því er svo við bæta að komið hefur fram stórskemmtileg kenning um upphaf og tilkomu tröllanna í fjöllunum. Hún gengur út á að um það leyti sem plánetan Mars var orðin óbyggileg, hafi íbúar hennar flutt sig um set og siglt á himinfleyi sínu til jarðarinnar þar sem það hafi brotlent og í kjölfarið hafi háþróuð tækni þeirra glatast. Þar sem aðdráttarafl rauðu plánetunnar er mun minni en jarðarinnar, hafi það haft þau áhrif að íbúarnir hafi fyrir flutning þróast í þá átt að þeir urðu mun stórvaxnari en hér gerðist. Einnig hafi sú staðreynd að þar er mun svalara en á móður jörð, vegið þungt þegar kom að vali ferðalanganna á búsetusvæði. Ísland hafi virst þeim einstaklega heppilegt, en einnig benda fjölmargar sagnir um Snjómanninn ógurlega í Asíu og Stórfót í Ameríku til þess að marsbúarnir hafi dreifst nokkuð víða um jarðarkringluna. En allt hefur sinn vitjunartíma og lítið hefur sést til tröllanna í fjöllunum síðustu árhundruðin. Líklega hefur þessi stofn dáið út og sennilegast er að hann hafi aldrei aðlagast hinum nýju heimkynnum sínum nægilega vel og því verið í bráðri útrýmingarhættu frá upphafi.