01.10.2013 06:43

Videóheimar loka


887. Og enn fækkar í videóbransanum. Í ársbyrjun lokaði hin gamalgróna myndbandaleiga Grensásvideó, og nú er komin röðin að Videóheimum sem Siglfirðingurinn Árdís Þórðardóttir (Dísa Þórðar í Hrímnir) hefur rekið með miklum myndarbrag í á þriðja áratug.

Breytt neysluhegðun hefur þrengt mjög að myndbandaleigunum á síðustu árum og þeim hefur þess vegna fækkað jafnt og þétt. Það er af sem áður var að þær voru næstum því jafn óteljandi og Breiðafjarðareyjarnar, vötnin á Arnarvatnsheiðinni eða hólarnir í Vatnsdalnum. Sú var tíðin að hvorki fleiri né færri en fimm aðilar leigðu út VHS spólur á Siglufirði á sama tíma svo nærtækt dæmi sé tekið og Bónusvideóleigurnar voru um eða yfir 30 talsins, þó sá sem þetta skrifar harmi endalok þeirrar keðju ekki svo mjög, frómt frá sagt.

Ég hitti Dísu á dögunum sem sagði mér að hafin væri rýmingarsala á myndefni leigunnar og hún gengi vonum framar. Um helmingurinn af lagernum væri þegar seldur og hún stefndi á að selja megnið af honum áður en hún skellti endanlega í lás.

Það er ekki laust við að maður spyrji sig hver loki næst.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 110
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 403
Gestir í gær: 101
Samtals flettingar: 318137
Samtals gestir: 34906
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 09:15:34
clockhere

Tenglar

Eldra efni