04.04.2008 18:31

Engillinn hún Nína.

463. Á hverjum einasta degi og meira að segja oft á dag upp á það allra síðasta, hef ég staðið í glímu við að koma myndum inn á síðuna mína en án nokkurs árangurs. Ég hlóð skv. ábendingu frá 123.is niður einhverri deluxe útgáfu af galdramegaturboforriti sem átti að leysa allan minn vanda, en allt kom fyrir ekki. Ekkert myndefni vildi setjast að í pistlum mínum og í framhaldi af því opinberast á síðunni. Og síðustu myndir sem ég hafði þó náð að koma fyrir í albúmi fyrir fáeinum dögum, virðast nú alveg vera gufaðar upp. Þar er um að ræða myndir sem teknar voru um páskana á Sigló, og til stóð að nota í Siglufjarðarpáskablogg. Ég gerði þó eina tilraun áðan sem mér sýnist hafa heppnast, en hún fólst í því að sækja "url" á netið og setja slóðina inn sem "mynd af netinu." Myndin sem varð fyrir valinu er af engli sem blakar vængjum sínum í sífellu eins og sjá má. Ég hef ákveðið að gefa englinum nafnið Nína en ástæður þess eru m.a. eftirfarandi.

Nína númer eitt er auðvitað persónan úr hinum mjög svo skemmtilega dægurlagatexta sem Jón heitinn Sigurðsson bankamaður þýddi af stakri snilld, en þar spilar mannvesalingurinn hann Geiri einnig stóra rullu. Lag og ljóð sem lifað hefur með þjóðinni í hartnær þrjá áratugi. En þetta lag hefur stundum átt það til að límast við heilasellurnar í mér tímabundið, ég hef á verið meira eða minna á valdi þess, sönglað það og trallað í tíma og ótíma og lítið sem ekkert fengið að gert. Nú finn ég að það hefur sest að til frambúðar þó með nokkuð öðrum hætti sé. Ég finn fyrir því vegna þess að það tekur sitt rými og hefur nú skotið rótum inni í höfðinu á mér rétt fyrir framan litla heilann. Ég skynja nálægðina við það og boðskap þess alla daga, allt frá því að ég vakna að morgni og þar til ég svíf inn í það sem ætti að vera meðvitundarleysi næturinnar. Og þegar nóttin kemur þá vitjar það mín í draumi.
Það er ekkert annað.

Nína númer tvö er svo önnur persóna sem hefur lagt mig í einelti að undanförnu. Hún virðist hafa bitið það í sig að það sé hennar köllun að gera mér lífið leitt. Sú Nína þykir mér mun síðri að öllu upplagi, en hún er gjaldkeri í húsfélagi þar sem ég á íbúðarrými og hef verið að vinna að endurbótum á undanfarið. Til allrar ólukku var brotist inn í húsið á dögunum og leið innbrotsþjófanna lá í gegn um minn hluta húseignarinnar.
Morguninn eftir hringdi Nína í mig og upphafsorð samtalsins voru eitthvað á þessa leið: "Nú þarftu sko að fara að gera eitthvað í þínum málum karlinn minn."
Ég var enn hálfsofandi og hváði.
"Þú berð sko alla ábyrgð á þessu" bætti hún við.
"Það var brotist inn og þetta þjófalið komst inn um glugga í þínu plássi og þú berð ábyrgð á því að þetta hafi getað gerst."
Ég komst smátt og smátt til meðvitundar meðan Nína talaði í bæði niður til mín og skammaði mig í leiðinni eins og hund sem hefur pissað í skó húsbónda síns. Ég spurði hana hvort innbrotsþjófurinn væri ekki sá seki í málinu en hún gaf ekki mikið fyrir slíkan málflutning.
Þetta var mér að kenna þó svo að ég hafi verið víðs fjarri og misst af öllu fjörinu. Það skal viðurkennt að það er vissulega bæði gardínulaust og engin blóm í gluggum og það fer því ekkert á milli mála að þarna býr ekki nokkur maður. Ég bauð þess vegna öllum þeim sem viðsjárverðir geta talist og bera enga virðingu fyrir eignarétti annarra til veislu á kostnað annarra íbúa. Ég hélt í fyrstu að verulegar skemmdir hefðu verið unnar, miklu stolið eða jafnvel einhver orðið fyrir slysi. En þegar ég kom á staðinn skömmu síðar kom í ljós að þarna hafði ógæfufólk sennilega aðallega verið að leita sér að húsaskjóli eftir svall og neyslu næturinnar, en reynt að hafa með sér frosin matvæli úr frystikistu eins íbúans en verið truflað og stökkt á flótta.
Ég veit satt að segja ekki hvort Nína hin síð(a)ri trampar hreinlega ekki í vitinu eða þyrfti að fara í einhvers konar hugarfarslega og sálarlega niðurtröppun og afeitrun, en ég vona nú samt að henni batni.
Ef til vill ætti hún að fá nokkur heillaráð frá lífsstílshönnuði sínum en kannski þarf hún bara að borða meira af trefjum.
Mér finnst hins vegar Nína mjög fallegt nafn og lít því að nokkru leiti á nafngift engilmyndarinnar hér að ofan sem eins konar mótvægisaðgerð gegn þessari hundfúlu uppákomu.

Nína númer þrjú heitir reyndar Jónína og seldi mér áðurnefnda fasteign í umboði bróður síns sem flutti af landi brott í miklum flýti. Ég komst að því eftir á að ekki hefur verið hirt um að greiða húsfélagsgjöldin síðustu mánuðina fyrir sölu, og þar sem slíkt telst vera lögveð á eigninni kemur líklega í minn hlut að leysa úr þeim vanda. Jó-Nína hefur síðan ég minntist á þetta vandamál í fyrstu, ekki viljað svara gemsanum sínum þegar ég hef hringt í hana því hún veit alveg hvað ég ætla að segja. En málið er ekki mikið að umfangi svo vandinn telst ekki stór. Það síðasta sem ég heyrði svo af henni var að hún væri týnd og ákaft leitað af alls konar fólki. En hvað sumir eru gjarnir að lenda í ævintýrum meðan hreinlega ekkert gerist hjá öðrum. Sendi Nínu hinni þriðju mínar bestu óskir bæði um fjör og farsæld hvar sem hún er niðurkomin.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 40
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 318
Gestir í gær: 45
Samtals flettingar: 316007
Samtals gestir: 34439
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 03:07:31
clockhere

Tenglar

Eldra efni