06.04.2008 17:13

Páskar á Sigló 2008.



464. Það var ekki amalegt að koma á heimaslóðir um síðast liðna páska frekar en venjulega. Það var bjart yfir bænum, allt undir mjallahvítu teppi og himininn heiður og blár. En það hefur hins vegar tekið lengri tíma en áætlað var að koma afurðunum inn á bloggið og hætt við að eitthvað hafi hreinlega fallið í gleymsku þá daga sem liðnir eru. Hætt er því við að það sem fréttnæmt gæti talist sé farið að úreldast svolítið, en því skal nú tjaldað til engu að síður. Meginástæðan er sú að farið var í uppfærslu á 123.is vefnum strax eftir páska og ekki hefur verið hægt að setja myndir inn á síðuna fyrr en nú. Lagt var af stað norður að kvöldi mánudagsins 17. mars og komið norður um hálffjögur leytið aðfararnótt þriðju dagsins18.

Morguninn eftir var ég vaknaður snemma og fljótlega kominn út á rúntinn, en það voru ekki margir á ferli í bænum. Þó sá ég í skottið á Möggu Steingríms þar sem hún var í þann veginn að hverfa inn um dyr gamla Videóvals.



Ég elti hana auðvitað inn og spurði hvað hún væri að sýsla þarna þessa dagana, en hún sagði mér að þetta væri vinnustofa hennar um páskana. Hún væri að vinna þrívíddarverk í ull fyrir sýningu sem yrði í Deiglunni á Akureyri í næsta mánuði.



Ég skoðaði og myndaði þessi mjög svo merkilegu verk, og  viðurkenni fúslega að ég hef aldrei séð neitt þessu líkt.



Við Magga, sem er bekkjarsystir mín áttum síðan langt og skemmtilegt spjall



Og hún þæfði á meðan.



Svo má líka bæta því við að hún er með ólæknandi bíladellu.



Ég hitti Sirrý sem vinnur hjá Metrosav (vona að það sé rétt skrifað) fyrir framan Bakaríið og fékk góðfúslegt leyfi hennar til að smella af einni mynd.



Þetta gamla skráningarnúmer vakti athygli mína á Aðalgötunni, en svona númer eru ekki orðin mjög algeng. Það mátti oft sjá bíl með þessu númeri fyrir framan barnaskólann hér í eina tíð þegar ég gekk þar um dyr, en þá var eigandi hans Helgi Sveinsson leikfimi og handavinnukennari sællar minningar.



Það var ekki fyrr en síðari hluta sama dags að ég frétti af snjóflóðinu sem hafði fallið vikunni áður úr gilinu fyrir norðan og neðan Skollaskál, eða á sömu slóðum og snjóflóð hreinsaði Evanger verksmiðjurnar af grunni sínum og út í sjó árið 1919. Þar sem allt land var skjannahvítt og mjög bjart yfir sást ekki mikið hvar flóðið hafði fallið, en með því að fikta svolítið í myndinni tókst mér að gera það greinanlegra.



Morguninn eftir var lagt af stað í svolitla skoðunarferð. Það var of mikill snjór á veginum fyrir litla Micru til þess að komast mætti yfir á gamla flugvöllinn svo ég gekk frá brúnni yfir Skútuá.



Skammt undan landi stakk þessi forvitni selur kollinum upp úr sjónum og fylgdist með mér um hríð.



Eftir því sem nær dró virtist flóðið verða stærra og meira að umfangi, þykkra og hærra.



Það var eins og stórvirkar vinnuvélar hefðu rutt þessum sköflum upp.



Sums staðar líktust ruðningarnir mánudagsmorgunverkum jarðýtu í götukanti, eftir að ekki nokkur maður hefur séð út úr augunum fyrir snjókomu alla helgina.



Snjórinn var blautur og þungur.



Og eitthvað svo undarlega blár.



Það er eins og hér séu för eftir eitthvert farartæki.



Sums staðar hefur hann náð ofan í jarðveginn á leiðinni niður hlíðina.



En þessi undarlegu för eru líklega eftir núning snjófyllunnar við það sem áður var hjarn.



Það liggur því beinn og breiður vegur í áttina til sjávar.



Eða a.m.k. langleiðina niður í fjöru.



Það verður til nýtt landslag.



Ég horfi hér upp eftir hlíðinni og gilinu í áttina að Skollaskál, en þaðan kom allt efnið sem notað var í breytingarnar.



Að vísu mun það færast aftur til fyrra horfs með tímanum.



Það eritthvað svo undarlega stutt yfir á Hafnarbryggjuna.



Og líka þessa manngerðu eyri sem var ekki þarna þegar ég var lítill. 



Alla vega þegar aðdráttarlinsan er notuð.



Hæstu ruðningarnir voru tæpir þrír metrar á hæð.



Sumir voru undarega lagskiptir.



Og þrátt fyrir að það væri búin að vera talsverð hláka nokkra af þeim dögum sem liðnir voru frá því að flóðið féll.



Ég færði mig svolítið ofar í hlíðina



Þar var flóðið mun mjórra en það var nú samt alveg nóg af snjó fyrir því.



Þetta leit út eins og snjóeyja í snjóhafinu þarna á bakkanum rétt fyrir ofan ströndina.



Þegar leið á fór bæði að rigna og bæta hressilega í vindinn.



Næstu myndir voru sumar hverjar lítillega hreyfðar, því ég var greinilega ekki nógu vel klæddur og var orðinn svolítið skjálfhenntur af kulda.



Það blés af suðri eða suðaustri.



Ég staldraði við um stund í skjóli undir hæsta hrauknum með hendur djúpt í vösum áður en ég manna mig upp í gönguna að bílnum.



En þetta er eins og skúlptúr.



Hann er orðinn ansi dökkur til hafsins.



Örfáar myndir í viðbót og síðan að drífa sig til mannheima.



Ef ég vissi ekki betur héldi ég að hér væru för eftir jarðýtutönn.



"Siglufjörður skafla á milli."



En að lokum kvaddi ég Snjóflóðasvæðið fyrir ofan rústir Evangerverksmiðjunnar og gekk til baka. Það var komin hellirigning og ég orðinn hundblautur.



Eftir svolitla þurrkun var ég fljótlega kominn aftur á stjá. Ég fylgdist með hvernig snjónum sem kyngt hafði niður nokkru fyrir páska og lagst yfir bæinn eins og teppi, var komið fyrir. Ég hef aldrei séð svona aðfarir á suðvesturhorninu, en þessi aðferð er víðast hvar notuð á landsbyggðinni.



Snjónum er mokað upp í hauga til að byrja með, en síðan þegar tækifæri gefst er honum ekið í burtu sem hlýtur að vera verulega búbót fyrir vörubílaeigendur.



Svo er honum sturtað út í sjó þar sem hann bráðnar. Einhvers staðar sunnar á jarðarkringlunni mun hann að öllum líkindum í fyllingu tímans gufa upp og mynda ský. Þau fylgja svo e.t.v. lægðunum sem leggja leið sína upp að Íslandsströndum og inn á landið. Skyldi þá aldrei vera að eitthvert snjókornið á pallinum hjá Árna hafi komið þar við áður? En þetta fer að verða fullmikil og djúp speki, meira að segja á minn mælikvarða. 



Gæti verið að það leynist einhver ætur biti ættaður af Hvanneyrarbrautinni þarna í sjónum fyrir framan Óskarsbryggju?



Gamli fótboltavöllurinn hefur líklega verið mest notaða snjógeymslusvæðið árum og áratugum saman. Þessi aðferð er sennilega alveg einstaklega hversdagsleg og óeftirtektarverð fyrir þann sem hefur vanist þeim sem sjálfsögðum og eðlilegum, en annað gildir um þann sem kemur úr öðru umhverfi.



Daginn eftir eða þann 20. var ekki bara hellirigning, heldur líka alveg bálhvasst. Það sást vel á öldurótinu í fjörunni fyrir neðan munna Strákaganganna Siglufjarðarmegin.



Og ef horft var yfir fjörðinn virtist oddinn á Siglunesinu vera á kafi í hvítfyssandi og brotnandi haföldunni. En ef betur var að gáð braut á grynningum langt út af nesinu sem sést því miður ekki vel á myndinni vegna þess hve lágskýjað var.



Sama var uppi á teningnum í Selvíkinni og næsta nágrenni hennar.



Þegar ég kom af ströndinni og aftur í bæinn ók ég niður Eyrargötuna og sá að dyr stóðu galopnar á húsi sem ég taldi eiga að vera mannlaust. Annað hvort var veðrinu um að kenna eða einhver hafði lagt leið sína þangað og hver veit í hvaða tilgangi. Ég hringdi í 460-3950 og Brandur var kominn að vörmu spori til að kanna málið. Ég sá að hann hrukkaði ennið aðeins meira en venjulega og virtist svolítið ábúðarfyllri en venjulega. Kannski var hann bara ekkert allt of ánægður með að láta draga sig út í kuldann frá rjúkandi kaffibollanum sem hann hafði hugsanlega þurft að standa upp frá neðarlega á Gránugötunni. En auðvitað var þetta tóm vitleysa og eftir að Brandur hafði fullvissað sig um að þarna hafi ekkert misjafnt átt sér stað bauð hann mér í svolitla vinnustaðaheimsókn sem ég þáði auðvitað. Þegar ég var svo kominn á stöðina sagði hann: Viltu kannski kaffi???



21. mars fannst mér vera kominn tími á svolitla smíðavinnu uppi á háalofti sem ég er að skipta niður í þrjú svefnherbergi, geymslu og smíðaherbergi. Þennan dag kláruðust að mestu þær birgðir sem til voru af spýtum, plötum, nöglum og skrúfum. Og þegar leið á fann ég í nokkrum pappakössum merki um mannvistarleifar sem tími var kominn á að rifja upp, bæði frá upphafsárum mínum í húsinu og þaðan af eldri. Auk þess mikið af skemmtilegum ljósmyndum frá árunum upp úr að ég held 1930. Þær fóru með suður og verða teknar til sérstakrar skoðunar innan tíðar.



Laugardaginn 22. mars átti ég svolítið spjall við Ómar Möller. (Skiptir svo sem ekki máli hvar.) En skömmu eftir að ég kom frá honum sá ég þykkan og svartan reyk leggja til himins einhvers staðar neðarlega á eyrinni. Ég varð auðvitað að svala minni eðlislægu forvitni og komst þá að því að eldur var laus í netum sem geymd voru í gámi norðan við Sigló-síld. Þá rifjaðist upp skemmtilegt samtal sem ég hafði átt við Ámunda slökkviliðsstjóra um hádegisbilið þann dag, en það var efnislega eitthvað á þessa leið.
"Neiiii komdu margblessaður Ámundi"
"Sæll veru sjálfur, hvernig hafiði það sunnlendingarnir?"
"Ha, ha, ha... Er ég nú orðið eitthvað Reykjavíkurpakk."
"Nei, nei. En ég vissi bara að þú tækir því ekkert allt of vel. Það er bara skemmtilegra þannig"
"Hvað er annars að frétta af svæðinu?"
"Af svæðinu? Ekki nokkur skapaður hlutur. Hér brennur aldrei neitt."



En það brann nú samt og bíll frá Olíudreifingu stóð meira að segja við hliðina á bálinu sem gaus upp úr gámnum með miklum látum.



En innan tíðar mættu vinnumennirnir hans Ámunda á rauðum bíl.



Þegar ég var lítill var mér sagt að það væri bannað að teika, en ég gerði það nú samt í þá daga. Ég er hins vegar fyrir löngu vaxinn upp úr því en það eru greinilega ekki allir.



Hvers konar slökkviliðsbíll er nú þetta? 
Var atburðurinn kannski auglýstur og er þetta þá sætaferðin?
Vegir hins nútímalega túrisma eru svo sannarlega órannsakanlegir.



Og fær hann ekki meira fram úr en þetta?
Þetta er náttlega bara utanaðkomandi rúðupiss.



Menn hlaupa til því það vill greinilega vill enginn missa af fjörinu.



"Þýtur í laufi bálið brennur..."
Að vísu vantar alveg laufið því það er auðvitað hávetur, en bálið er á staðnum.



Og svo hefst atlagan.



Það dökknar yfir öllu.



Eldur og reykur fitla við þakskeggið á Sigló-síld.



En hin vaska sveit gefur engin grið.



Það verður sko drepið í honum þessum.



Það er sótt fast að gámnum og því sem í honum er eða var.



Og hér er hægt að segja að menn vaði reyk í bókstaflegri merkingu.  



Þetta er eiginlega eins og flott sena úr Backdraft eða Towering inferno.



Og myndaveiðimenn voru auðvitað mættir í löngum bunum.



Það vantaði bara að þeir tækju myndir hver af öðrum.



Og allar og alls konar græjur voru á lofti.



BÁS var svo eina fyrirtækið sem hafði vit á að nýta sé auglýsingahléð.



En eldurinn blossaði svolítið upp aftur.



En fékk þá bara myndarlega gusu og var slökktur á ný.



Þessi gæti alveg ratað upp á stofuvegg hjá Ámunda í gylltum ramma...



En þessu fór senn að ljúka.



Og þar kom að menn luku verkinu og það á ágætum tíma en útræsið gerði fjóra tíma á kjaft, en ég veit ekki hvaða launaflokki þessir vösku menn tilheyra.



Þegar hvorki var eldur né reykur lengur til staðar var ekki mikið fútt í að hanga yfir engu. Ég gekk til bíls en hitti þá Bjössa og Álfhildi bekkjarsystur mína.

Anna Lára, Bryndís, Bára frænka mín og Lalli Blöndal.
Anna Lára, Bryndís, Bára frænka mín og Lalli. - Ó Lalli.

Bjössi leit upp þegar hann heyrði þessa gamalkunnu rullu.
Hva segirði gott? - Og svo stóðum við og mösuðum í tvo tíma.



Ég lagði leið mína inn að Síldarminjasafni, en rétt áður en ég var kominn þangað tók ég eftir því að það var háfjara. Gamlir bryggjustaurar sem sjaldan sjást stóðu upp úr haffletinum. Líklega eru þetta leifar af Þóroddarblaninu.



Þegar ég var kominn inn að flugvelli gat að líta "auðan sjó" ef svo mætti að orði komast. Þ.e.a.s. það var enginn sjór í innsta hluta fjarðarins sem við köllum Leirurnar, heldur aðeins svartur sandbotninn alveg fram fyrir stálþil.



Á bakaleiðinni stoppaði ég svo aftur og virti fyrir mér landslagsbreytinguna sem hefur orðið þegar horft er til fjallsins eftir að snjóflóðavarnargarðarnir komu til.



Daginn eftir eða Páskadag var alveg brakandi blíða þó svo það væri lengst af sólarlítið. Ég fór upp á einn af betri útsýnispöllunum á leiðigörðunum eða þann nyrsta, sem er fyrir ofan fjárhúsin hans Hafsteins Hólm og virti fyrir mér bæinn og næsta nágrenni. Ég horfði inn Hólsdalinn og hugsaði með mér að þetta væri líklega dagurinn til að klífa svolítið upp eftir hlíðum Hólshyrnunnar og ná góðri vetrarmynd. Ég lagði leið mína því næst inn eftir og þegar ég var kominn þar sem Andabúið hans Halla Þór var eitt sinn, var farið að verða erfiðara að komast leiðar sinnar. Þarna voru einhver jeppaför í snjónum sem var samt ekki mjög djúpur, en allt var svo yfirþyrmandi hvítt að erfitt var að greina þau. Það bætti svo ekki út skák að þarna voru einnig för eftir vélsleða sem lágu að mestu leyti samhliða veginum en þó ekki alveg alltaf. Þar kom því að ég komst ekki lengra. Snjóskurnin gaf eftir og annað framhjólið sökk niður. Ég hafði látið platast, elt vitlaust far og nú alveg pikkfastur. Eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir gafst ég upp og rölti af stað til bæjar og það var svo sem ekkert að því að spássera þarna í blíðunni.



Ég var kominn að hesthúsunum þegar ég heyrði mikinn undirgang að baki mér og sá þetta ökutæki nálgast. Það væri auðvitað miklu gáfulegra að vera á svona ökutæki en Nissan Micru. Ég pírði augun eins og ég er farinn að gera svo oft nú í seinni tíð og mér sýndist þetta vera hann Áki Vals sem sat undir stýri.

Þegar heim var komið hringdi ég í Hauk Þór, en ég hugsaði með mér að hann yrði ekki í miklum vandræðum með að kippa litla bláa dúkkubílnum upp á kantinn á nýja jeppanum, en hann var þá á leið til Ólafsfjarðar. Ég var þá bara ekkert að velta þessu máli fyrir mér í bili því það voru komnar fréttir, kvöldmatur og ég var orðinn latur. Það var svo ekki fyrr en daginn eftir sem ég hringdi í Gulla Sínu og spurði hann hvort ég mætti betla svolítið á honum. Það var auðsótt mál og við héldum inn á fjörð á jeppanum hans með spotta í skottinu. Ekki tókst betur til en að Gulli lenti í sömu gildru og ég og sat alveg pikkfastur og komst hvergi. Við höfðum auðvitað ekki talið neina þörf á skóflu og það var sama hvað við spörkuðum snjónum frá hjólunum, hann varð bara enn fastari við hverja tilraun. Þetta leit hreint ekki vel út þegar við sáum heljarmikinn tröllajeppa nálgast okkur. Það reyndist vera Guðbjörn Haralds og reyndist hann vera sá bjargvættur sem við þurftum nú báðir á að halda. Það reyndist ekki mikið mál fyrir hann að koma okkur upp á veginn. Ég hafði þá á orði að fúlt væri að myndavélin hefði aldrei þessu vant gleymst í bænum.
"Ertu þá ekki með myndavélina" sagði Gulli og virtist allur hressast við þau tíðindi.
"Djö.. var það gott. Maður verður þá ekki notaður til skrauts á einhverri síðu."
Það var engu líkara en að gleymskan í mér hefði hreinlega bjargað deginum hjá Gulla sem kættist verulega.
Svo lögðum við allir af stað áleiðis til bæjar.



Óli Símon, Bjarni Kristjáns og Elli Ísfjörð jr. heiðruðu okkur með nærveru sinni um stund. Þeir eru eins og allir vita hinir bestu drengir og er þá heldur lítið sagt.



Katrín gerði það líka en hún er hreint út sagt alveg frábær stelpa, og það vita líka allir.



Á leiðinni suður fékk ég svar við spurningu sem hefur beðið og vakað með mér síðan leiðin yfir Þverárfjall var gerð að heilsársvegi.
Hvað styttir þetta leiðina mikið?
Og þá vitum við það svart á gulu.
27 km. aðra leiðina sem gerir 54. km báðar leiðir.
Ég fer einu sinni í mánuði til Siglufjarðar þannig að ef ég fer alltaf Þverárfjallið er styttingin 648 km. á ársgrundvelli, eða 1.109589041 ferð Reykjavík - Siglufjörður - Reykjavík. Það gerir sem sagt rétt rúmlega þrettándu hverja ferð fría.



En við vorum ekki alveg ein á leiðinni suður. Arna Rut fylgdi í humáttina á eftir okkur með afabörnin tvö. Hérna er Vigfús Bjarki í pylsuogkókstoppi í Staðarskála.



Þóra Sóley stóra systir hefur mjög keimlíkan smekk á því hvað telst álitlegt til fóðrunar á svona ferðalögum.



Það var líka staldrað ögn við í Borgarnesi og þá sá ég að mikill fjöldi ísnála hafði tekið sé far með okkur og héngu utan á bílnum rétt eins og einhver sníkjudýr. - Skrýtið. En þetta hefur víst eitthvað með að gera hita og rakastig niður við jörð.



En þegar heim var komið tók hún Aría á móti mér og skreið upp í sófann þar sem ég hafði tekið mér bólfestu því það voru byrjaðar fréttir og ég er algjör fréttafíkill.



En það var ekki pláss fyrir fleiri í sófanum svo að hún Káta sem er alíslensk lét sér nægja að brosa breitt framan í myndavélina.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 349
Gestir í dag: 111
Flettingar í gær: 835
Gestir í gær: 148
Samtals flettingar: 477243
Samtals gestir: 52735
Tölur uppfærðar: 3.12.2024 05:38:59
clockhere

Tenglar

Eldra efni