06.09.2008 09:01
Einelti eða viðtekin venja
498. Þrátt fyrir að ég hafi mikið til haldið mig á "hundraðogeitt" svæðinu að deginum til síðustu misserin, hef ég verið svo heppinn að hafa ekki fengið mikið af þess konar pósti sem garnan er handskrifaður á staðnum og síðan smeygt undir þurrkublöð ökutækja. Eiginlega hef ég oftlega furðað mig á því hve lítið hefur verið um slíkar sendingar, þrátt fyrir að ég hafi einstaka sinnum gleymt mér stund og stund. Það skal nefnilega viðurkennt að það hefur komið fyrir að ég hef hreinlega gleymt mér við iðju mína, en skyndilega áttað mig á að síðasti miði rann út fyrir svo og svo mörgum mínútum síðan. Þá hefur undantekningalítið verið stokkið af stað og fundið til eitthvað fékyns á hlaupunum til að mata hina sísvöngu þverrifu á málmhausnum sem stendur á stólpa sínum við gangstéttarbrúnina utan við húsið. En nú virðist lánsemi mín til langs tíma hreinlega hafa snúist upp í andhverfu sína og það svo um munar. Þrátt fyrir að ég hafi matað hina að því er virðist óseðjandi gjaldmæla Bílastæðasjóðs af klinki í kílóavís, hafa einkennisklæddir starfsmenn hans sem rölta um hin steinlögðu stræti miðborgarinnar talið sig hafa ástæðu til að gauka að mér smávægilegum athugasemdum undir blaðið undanfarið, mér til lítillar stemmtunnar, ánægju eða yndisauka.
Á tiltölulega stuttu tímabili nýverið má segja að hinir bláklæddu starfsmenn með derhúfurnar og pennana á lofti hafi skorað eins konar þrennu hjá mér. En þegar ég rýndi súr á svipinn í síðasta blaðið, sá ég nokkuð sem mér fannst í meira lagi undarlegt og fékk mig til að fitja örlítið upp á trýnið.
"Skyld'ann eða hún hafa tekið sér stöðu við bílgarminn og beðið eftir að miðinn rynni út, skrifað sektarmiða í grænum hvelli og hlaupið svo í burtu með skotti á milli fótanna, skíthrædd(ur) um að einhver hefði séð til hans eða hennar."
Þetta var svona nokkurn vegin fyrsta hugsun, en hugsun númer tvö fylgdi síðan í kjölfarið og var eilítið yfirvegaðri. Ég leitaði uppi hin tvö skilaboðin frá sömu stofnun og sá mér til mikillar furðu að það sem þarna gat að líta var ekkert einsdæmi.
Eins og sjá má á efsta sektarmiðanum rennur tíminn út kl. 14.27 og stöðumælavörðurinn skrifar miðann á sömu stundu þ.e. kl. 14.27 (strikað undir með rauðu.) Hann gæti því allt eins hafa þurft að leggja það á sig að bíða í einhvern tíma í þeirri "von" að geta neglt þann á litla bláa bílnum og síðan uppskorið árangur erfiðis síns. Sama gildir um þann næsta, tíminn rennur út kl. 16.59 og miðinn er hraðritaður kl. 16.59 eftir venjulegum boðleiðum. Í þriðja skiptið er allt eins og fyrr, klukkan 14.31 er tíminn úti og gæslumaður minn skellir pappírsvinnunni undir þurrkublaðið kl. 14.31.
Það vakti athygli mína við þessa skjalaskoðunina að það er aldrei sami vörður sem á í hlut sem bendir til þess að þarna séu um samantekin ráð að ræða eða hvað. Að manninn eða konuna með blokkina og pennann beri að í sama mund og tíminn er úti, er eflaust ekkert einsdæmi, en þrisvar í röð hlýtur að teljast vera það.
Nú er ég ekki maður samsæriskenninga að upplagi en hér virðast alveg einstakir hlutir vera að eiga sér stað og spurning vaknar um hvort gæti verið um einhvers konar afbrigði af einelti að ræða.
Mér var bent á að líklega gæti þetta bara verið viðtekin venja að skrifa tímann sem miðinn rennur út þó svo að skrifarann hafi borið að nokkru síðar. En hinn smámunasami "ég" bendi þá á að það hlýtur að flokkast undir skjalafals svona tæknilega séð að skrifa rangar upplýsingar á eyðublað. Opinberir starfsmenn verða nefnilega að gæta sín alveg sérlega vel á slíku því stundum hafa ómerkilegustu smáatriði haft tilhneygingu til að vaxa úr sér og endað sem risastór vandamál. Og ef þeir geta skrifað tímasetningu aftur í tímann, geta þeir þá ekki alveg eins skrifað hana fram í tímann eða skömmu áður en hann er útrunninn?
Mig minnir að ég hafi heyrt af því að laun stöðumælavarða væru árangurstengd að einhverju leyti, þ.e. þeir fengju bónus fyrir að vera harðir í skrifum sínum. Nú er ég ekki alveg viss um hvort svo er, en slíkt getur auðvitað freistað þeirra sem ístöðuminni eru til að fara lítillega fram úr sér í von um fjárhagslegan ávinning.
Í vor upplifði ég það að fá stöðumælasekt þrátt fyrir að vera réttu megin við tímalínuna. Miðinn var vel sýnilegur í glugganum en það dugði ekki til eins og sjá má hér að ofan. Tími minn rann út kl. 14.12, en sektarmiðinn var skrifaður kl. 13.47. Ég gat auðvitað ekki setið á strák mínum, hafði fyrir því að fara í höfuðstöðvarnar og leggja fram skriflega kvörtun og uppskar í framhaldinu niðurfellingu sem mér var tilkynnt bréflega nokkrum mánuðum síðar eftir að málið hafði verið tekið fyrir á fundi.
En nú er nóg komið af morgunnöldrinu að sinni og ég er vonandi tæmdur af því í bili. Ég stefni nú að því að vera alveg sérlega jákvæður það sem eftir lifir dags.