21.09.2008 21:34
Í gær.
501. Eitt af því sem gerðist í gær var að ég fékk tölvupóst frá Birnu Björg, en hún tilheyrir harða kjarnanum sem mætir flestar helgar á Catalinu og er orðin mjög svo spjallkunnug okkur spilurunum. Ég sé að pósturinn hefur farið hratt yfir og komið víða við, en ég hef ekki heyrt af þessum vírus annars staðar frá.
VÍRUS, VÍRUS.
Viðvörun til allra sem þú þekkir. Ef þið fáið Powerpoint tölvupóst sem heitir 'Welcome to the matri ps..' þá megið þið alls ekki opna hann.
Þar kemur fram mynd í 10 sek. og síðan birtist texti 'You're harddrive is over' og þá er það bara of seint, allt er horfið úr tölvunni.
Þetta er nýtt vírus prógram sem var hannað af frönskum aðila sem kallar sig Nwin
Í gær eignaðist ég mín fyrstu lesgleraugu. Fyrir þremur árum gat ég lesið smæsta letur sem mörgum öðrum var þá með öllu ósýnilegt. En svo kom að tímamótum hvað þetta varðaði og ég hætti smátt og smátt að lesa. Undanfarið má segja að ég hafi bara lesið fyrirsagnirnar og skoðað myndirnar í blöðunum, en ekki opnað bók a.m.k. síðustu tvö árin. Oft þegar ég hef kíkt á bloggheima hefur ekki annað dugað til en copy/paste aðferðin. Ég kópíera pistlana og peista í word, stækka síðan letrið og les, eyði að lokum skjalinu og sæki þann næsta o.s.frv.
Í gær var ég svolítið kvikindi þegar ég sendi góðum manni 21 lag með "söngkonunni" Mrs. Miller, vitandi að hann myndi að öllum líkindum spila eitthvað af sendingunni í heyranda hljóði. Ég komst yfir herlegheitin fyrir nokkrum árum og spilaði þessi furðuverk á tímabili bæði aftur á bak og áfram við litla hrifningu annars heimilisfólks. Ég sat alveg dolfallinn yfir þeim, hlustaði furðu lostinn á þessi undarlegu hljóð og tók ekki eftir hve andrúmsloftið í kring um mig hafði farið hratt kólnandi eftir að ég greindi sjálfan mig með Millerheilkennið.
Skrifað af LRÓ.