09.08.2014 01:27

Eyja-bylgjan, dagur þrjú



Íslenska útvarpsfélagið sem rak Bylgjuna hóf starfsemi sína á efri hæðinni í þessu húsi þar sem Osta og smörsalan hafði eitt sinn aðsetur. Á neðri hæðinni var verslun ÁTVR og tískufataverslunin Herraríkið. Síðar myndbandaleigan Ríkið ásamt málningarverslun frá Hörpu. Ég man að eitt sinn hringdi ég í beina útsendingu Bylgjunnar og rukkaði þáttagerðarmann (konu) um ógreiddar videóspólur sem fengust greiddar mjög fljótt og vel. 

947. Síðbúnum endalokum á umfjölluninni sem Bylgjan boðaði um útihátíðir verslunnarmannahelgarinnar lýkur hér með af minni hálfu og með all nokkuð færri orðum en ég hugði í fyrstu að myndi verða.

Það að dagskrárgerðarmenn Bylgjunnar yrðu á ferð og flugi alla Verslunarmannahelgina og tækju stöðuna á flestum útihátíðunum reyndist bara prump og plat þriðja daginn í röð.

Strax í hádegisfréttunum var gefinn sá tónn sem entist allan daginn, því lítið var fjallað um hvað hafði gerst annars staðar en á Þjóðhátíð í Eyjum. Jú annars, lítillega var minnst á Mýrarboltann á Ísafirði, við skulum alls ekki gleyma honum.

En tjöld fuku í Eyjum þegar líða tók á nótt og upp komu ein 50 fíkniefnamál. Síðan var spáð í umferðarþungann frá Landeyjahöfn, bílastæðin eða öllu heldur bílastæðaleysið við höfnina og talað við lögguna á Selfossi plús nokkur orð svona almennt um umferðina.

Málið í hnotskurn. - Það sem á eftir kom og allt til enda dags var á sömu eða svipuðum nótum.


En það er ekkert nýtt að Bylgjan fari sínar eigin leiðir og sunar jafnvel nokkuð sérstakar þegar kemur að tónlistarstefnu, fréttaflutningi og umfjöllun ýmis konar. Sumt er gott en annað síðra eins og gengur. Það geta til dæmis varla talist meðmæli með útvarpsstöð sem hefur þá stefnu að spila ekki Bítlana vegna þess að þeir væru orðnir "svolítið gamaldags", en þannig var það um árabil.

Eitt sinn fór þekktur stórpoppari í viðtal á Bylgjuna og tilefnið var að hann ásamt fleirum stóð að útgáfu gospeldisks. Svo óheppilega vildi til að einn af starfsmönnum sömu útvarpsstöðvar stóð einnig að útgáfu svipaðs efnis um líkt leyti. En okkar maður fór í viðtalið eins og fyrr segir sem gekk með miklum ágætum, enda maðurinn vel máli farinn og hafði heilmikið að segja. En í lokin þótti auðvitað tilhlýðilegt að spila eins og eitt lag af umræddum diski, en þá brá svo við að hann reyndist með öllu ófinnanlegur. Var gerð talsverð leit, en án nokkurs árangurs. Það var engu líkara en þau eintök sem höfðu verið send inn á tónlistardeildina hefður hreinlega gufað upp, - eða kannski verið látin hverfa.


Þegar ég gaf út fyrri diskinn af "Svona var á Sigló" árið 1999, kom upp mjög svipuð staða. Lengi vel var ekki eitt einasta lag spilað á Bylgjunni þrátt fyrir að ég hefði sent þangað 10 eintök.

En eitt kvöldið þegar ég var að afgreiða á Laugarásvideó birtist þar maður í lopapeysu og Álafossúlpu sem spurði um mig. Sá sagðist heita Sigurður Pétur og kvaðst starfa á Bylgjunni. Hann vildi vita af hverju diskurinn með lögunum sem svo mikið væri beðið um í óskalagaþættinum sínum hefði ekki borist útvarpsstöðinni.

Sami Sigurður Pétur varð síðar einn helsti aðstoðarmaður Sophiu Hansen í forræðisdeilu hennar við fyrrum eiginmann sinn Halim Al og umsjónarmaður söfnunarinnar "Börnin heim", var með gríðarlega vinsælan þátt á laugardagskvöldum upp úr 1990 þar sem aðeins var spiluð tónlist með íslenskum textum. Þetta var á sínum tíma algjört stílbrot á tónlistarstefnu Bylgjunnar, en það svínvirkaði.

Sigurður Pétur fékk að sjálfsögðu ellefta eintakið sem segja má að gengið hafi þar með óbeint til Bylgjunnar og ég spurði hann hvernig hin tíu hefður getað horfið á svo dularfullan hátt, en lítið var um svör þó mig gruni að viðmælandi minn hafi engu að síður kunnað þau.

Á þessum tíma voru Bylgjan, Stöð 2 og Skífan eitt og hið sama fyrirtæki. - Skífan seldi geisladiska.


En nú er komið nóg af neikveiðum "bylgjum" í bili og tímabært að hugsa fram á við.

Tölum um eitthvað annað og skemmtilegra næst.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 402
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 383
Samtals flettingar: 481119
Samtals gestir: 53319
Tölur uppfærðar: 5.12.2024 11:40:44
clockhere

Tenglar

Eldra efni