21.02.2009 01:12
Svikahrappar
541. Nú þegar góðærið og gervivelsældin er liðin tíð, hafa ýmsir þurft að breyta sínum lífsstíl og taka upp nýja siði. Á meðan byggingariðnaðurinn var á sínu mesta þensluskeiði í manna minnum, var oft með lagni og lempni hægt að fá t.d. smiði, múrara, rafvirkja, málara o.fl. til ýmissa minni verka. En um píparar virtust gilda önnur lögmál, því þá var því sem næst útilokað að eiga við. Almennt var talið að þessi grein iðnaðarmanna væri stórlega undirmönnuð og var ýmsu kennt um.
Nokkrir ungir pípulagningamenn nýttu sér þennan gríðarlegan skort og auglýstu eftir verkefnum. Viðbrögðin urðu auðvitað það sem kalla mætti stórfengleg, því símar hreinlega loguðu jafnt daga sem nætur. Næsta skref í plottinu var að taka út verkið, en til að það mætti gerast þurfti að greiða sérstakt skoðunargjald kr. 15.000 á staðnum við mætingu. Nær undantekningalaust var það innt af hendi án þess að reikningur veri gefinn út á móti og tekið var sérstaklega fram að það væri ekki endilega sjálfgefið að sá sem skoðaði tæki verkið að sér. Á annað ár gerðu þessir menn sem ég vil kalla svikahrappa ekkert annað en að kíkja við hjá grandalausu fólki sem bráðvantaði pípara til minni hátta viðhaldsverka, og var algengt að hvert innlit tæki u.þ.b. klukkutíma. Þeir innheimtu uppsett skoðunargjald og gerðu nánast ekkert annað mánuðum saman. Einn þeirra lýsti því yfir að tvö til fjögur innlit á dag fimm daga vikunnar gæfu sér u.þ.b. milljónkall á mánuði - svart, þetta væri bara fínt svona og vonandi entist þetta ástand sem lengst. En það voru þeir sem á endanum komu og unnu sína vinnu, sem fengu gjarnan á undan öllu öðru spurninguna um hvort þeir tækju skoðunargjald án fyrirheits um að taka að sér verkið. Dæmi voru um að sami aðili hefði oftar en einu sinni greitt slíkum hröppum fyrir skoðun á verki sem aldrei stóð til að taka að sér af þeirra hálfu, áður en "alvöru" pípari vann verkið.
Nú eru þessir vafasömu ævintýramenn án atvinnu og skyldi engan undra...