13.03.2007 13:06

Græðgisvæðing á fasteignamarkaði.



352. Ég hef undanfarin misseri
þurft starfs míns vegna að fylgjast vel með hræringum á fasteignamarkaðinum hér á suðvesturhorninu, og því er ýmislegt honum tengt sem sett hefur mark sitt á þjóðfélagsumræðuna mér ekki að öllu leiti ókunnugt um. Í því þensluástandi sem einkennt hefur hann undanfarið hefur ekki farið hjá því að margt skrýtið hafi borið fyrir augu, en eftirfarandi dæmi þó líklega verið nálægt því að vera enn skrýtnari en önnur.

Þann 13. des. 2006 var skráð til sölu eign að Baldursgötu 36. Ásett verð var kr. 11.500.000 og hún seldist bæði fljótt og vel.

En þann 5. febr. 2007 er hún aftur komin á sölu, en hafði þá lítillega "hækkað í hafi" eins og það var kallað hér í eina tíð. Ásett verð er nú kr.19.900.000.

Skyldi gólfið hafa verið lagt marmara og loftið gulli skreytt á rúmum sex vikum, og ætli erlendir verkamenn á undirprís hafa lagt nótt við dag til að ljúka verkinu á svo stuttum tíma? Við nánari athugun kom þó í ljós að svo var ekki, því aðeins virtist eldra gólfefni hafa verið fjarlægt og gólfið málað svo og veggir og loft. En það virðast vera komnar sterkari ljósaperur í stæði svo allt virtist hreinna, nýrra og "endurbættara" en áður var. Ferlið minnir óneitanlega á aðferðarfræði bílabraskara hér í eina tíð sem voru margir hverjir afbragðsgóðir bónarar.

Og það fer ekki hjá því að á hugann leiti spurningar um heilbrigði fasteignamarkaðarins. Brást fasteignasali hinum fyrri seljendum og mat eignina of lágt, eða stuðlar hinn síðari að aukinni verðbólgu í landinu með því að sprengja upp markaðinn með okri í samráði við nýjan eiganda?

Ég taldi mér því allt að því skylt að senda þetta til prentmiðlanna ásamt þeim gögnum sem tilheyrðu málinu. En þar sem þeir geta hvorki leyft sér að vera frjálsir né óháðir þrátt fyrir yfirlýsingar í þá átt, geta þeir auðvitað ekki birt fréttir þar sem hallað gæti á fasteignasölur. Þær auglýsa nefnilega fyrir óheyrilegt fé hjá þeim og hlýtur því að teljast afar óskynsamlegt að gagnrýna þær á einhvern hátt. Auðvitað verður peningavaldið alltaf skoðanafrelsinu yfirsterkara á þeim bæjunum, og það er minna en ekkert í spilunum sem bendir til þess að einhverjar breytingar séu í vændum.



Annað dæmi er líka svolítið lýsandi fyrir þá Davíð og Golíat í hinu nýíslenska rekstrarumhverfi þar sem sumir virðast hafa óendanlega mikið fjármagn að spila úr.

Meðalstórt fyrirtæki í örum vexti vildi finna sér stærra húsnæði undir starfsemi sína og eftir nokkra leit fannst hentugt iðnaðarhúsnæði á Höfðanum. Á það var settur verðmiði upp á 81 milljón, en tilboð fyrirtækisins hljóðaði upp á 79 m. Ekki kom þó til þess að seljandinn þyrfti að taka afstöðu til þess því stórfyrirtæki nokkuð hafði fregnir af málinu, en þar á bæ höfðu menn einnig hugsað sér að kaupa en voru bara ekki búnir að koma því í verk. Gert var tilboð upp á 82 m, og meðalstóra fyrirtækið hækkaði í 83 m. Til þess að vera ekki að standa í einhverju þrasi og mjatli um smáaura, hækkaði stóra fyrirtækið tilboðið í 115 millur og málið var afgreitt á þeim nótum.

Greinilega alvörumenn á ferðinni.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 174
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496670
Samtals gestir: 54802
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 04:28:03
clockhere

Tenglar

Eldra efni