Færslur: 2011 September

26.09.2011 08:15

Það haustar á heimaslóðum755. Fyrri hluta septembermánaðar var ég á Siglufirði. Á leiðinni þangað var staldrað við á nokkrum stöðum, en þó allra oftast og mest á Almenningunum og litið til berja. Lítið var að hafa, t.d. engin aðalbláber sem einna helst var verið að leita eftir, en eitthvað þó af krækiberjum. Síðasta stopp var á malarstæðinu skömmu áður en ekið var um Mánárskriðurnar. Þar var þó lítið skárra ástand en annars staðar, en þegar staðurinn var yfirgefinn mátti finna fyrir svoltitlum rigningarúða með þeim "afleiðingum" sem má sjá á myndinni hér fyrir ofan. Þegar ég kom í bæinn voru fjallatopparnir hvítir, en þeir dagar sem ég staldraði við voru mjög góðir. Hitamælirinn á Sparisjóðnum átti það til að skjótast upp í 15-16 stig einhverja dagsparta, og þegar ég fór voru þeir aftur orðnir rauðir.Fyrir nokkrum vikum gerði ég mér ferð spölkorn inn fyrir munna Héðinsfjarðargangna og myndaði fossana í lækjunum sem falla úr Hestskarðsskál. Ég var þó ekki alveg hættur á þeim slóðum, því enn átti ég eftir að líta á nokkur lítil og lagleg fatnsföll.

                     

Ég ók inn dalinn og upp að borholunum. Vestan þeirra rennur myndarlegur lækur úr hlíðum Hólsfjalls og sameinast Skútuánni. Eins og sést á myndinni hér að ofan, tekur hver fossinn við af öðrum í Djúpagili eins og lækjargilið heitir. Og svo við rifjum upp fleiri örnefni, þá er þar fyrir ofan skál sem ýmist hefur verið nefnd Ísaksskál eða Saurbæjarskál. Skútudalur var líka nefndur Saurbæjardalur vestan árinnar hér á árum áður eftir býlinu Saurbæ, sem stóð á ásnum skammt norðan við nýja kirkjugarðinn.Rétt fyrir ofan borholurnar er svo neðsti fossinn í sjálfri Skútuánni.Og það er örskammt í þann næsta.Og enn er genginn svolítill spölur að þeim þriðja.Þegar komið er upp fyrir hann, fer dalurinn að sveigjast lítillega til austurs.En þó er ekki langt í þann fjórða og síðasta. Þeir eru allir u.þ.b. 5-7 metra háir, eða svipaðir á hæðina og hinn fagri (og svolítið frægi) Leyningsfoss sem er í skógrægtinni. Þar fyrir ofan eru svo nokkrir talsvert minni. Það er að verða fastur liður að ganga út að rústum Evangerverksmiðjunnar í því sem næst hvert einasta skipti sem ég kem á heimaslóðir.Ég rakst á eftirfarandi frásögn á http://andvari.vedur.is/snjoflod/haettumat/si/si_annall.pdf þar sem sagt er frá atburðunum sem áttu sér stað í apríl 1919. 


Veturinn 1919 var einn af snjóþyngstu vetrum þessarar aldar. Mörg snjóflóð féllu í

mars og apríl í þremur landshlutum og mikið mann- og eignartjón hlaust af. Á

Siglufirði féll stórt snjóflóð úr Skollaskál í Staðarhólsfjalli, austan megin fjarðar á

verksmiðjur í eigu Olav Evangers. Í bók Ólafs Jónssonar (1957), Skriðuföll og

snjóflóð, er greinargóð lýsing á þessu flóði og frásögn hans birt orðrétt hér á eftir.

Fyrri hluti aprílmánaðar var mjög stirt tíðarfar um norðanvert landið. Vikuna 5-12.

apríl voru látlausar austanstórhríðar á Siglufirði, og var svo enn þann 12., að hríðin

var svo dimm, að eigi sá milli húsa í Siglufjarðarkaupstað, og hafði kyngt niður

feiknasnjó. Þeir, sem þennan morgun voru á ferli niður við höfnina á Siglufirði, urðu

þess varir, að þar höfðu gerst stórtíðindi um nóttina. Bátar, sem verið höfðu rammlega

bundnir við bryggjurnar, höfðu slitnað upp, sumir brotnað meira og minna. Niður á

Öldunni var hvert smáfar, er þar stóð á landi, brotið, og þilskip, er þar höfðu staðið

mörg ár í skorðum, höfðu færst til, oltið á hliðina og lagst þversum. Við Goosbryggju

lágu tvö þilskip, voru bæði mikið brotin, og annað hafði færst að hálfu upp á

bryggjuna, en þó runnið niður af henni aftur. Kraparöst og stór klakastykki lágu langt

upp á eyri.

Fyrst hugðu þeir, er þetta sáu, að brim hefði valdið þessu umróti, en sú skýring

reyndist ófullnægjandi, því bæði var um morguninn sjólítið og áttin svo austlæg, að

brim gat ekki hafa orðið inn á fiðri, og svo kunnu skipshafnir, sem legið höfðu í

skipunum um nóttina, frá því að segja, að klukkan fjögur um nóttina hefðu þær

vaknað við það, að skipin tóku ógurlega veltu, slitu af sér böndin og lömdust við

bryggjurnar, svo að allt ætlaði um koll að keyra, og gekk sjórinn hátt á land. Eftir

nokkra hríð tók að draga úr þessum ósköpum, og komst aftur kyrrð á. Eina skýringin á

þessu umróti gat því verið sú, að snjóflóð mikið hefði fallið austanmegin fjarðarins úr

Staðarhólsfjalli, og rifjuðust upp sagnir um það, að árið 1839, þ. 23. des., hefði

snjóflóð fallið sunnan Staðarhóls í Siglufirði og valdið miklum skemmdum handan

fjarðarins. Nú stóðu á því svæði, þar sem þetta snjóflóð hafði fallið, síldarverksmiðja

Evangers, tvö íbúðarhús, sem búið var í, og fleiri byggingar. Þá voru Skútubæirnir,

Efri- og Neðri-Skúta, í hættu og tómthús suður við Skútuána, Árbakki og Landmót.

Var nú þegar brugðið við og safnað liði, og fóru 12-15 röskir menn, undir forustu

Guðmundar Skarphéðinssonar, skólastjóra, á vettvang.Vatnslitamynd af Evangerverksmiðjunni eftir Örlyg Kristfinnsson sem er á skilti við rústirnar.


Þegar þangað var komið, fengu þeir grun sinn staðfestan. Snjóflóð mikið hafði

hlaupið niður úr svokallaðri Skollaskál í Staðarhólsfjalli. Hafði það sópað burtu

síldarverksmiðjunni, íbúðarhúsunum tveimur, sem búið var í, síldarhúsi Olav

Evangers, sem stóð nokkru sunnar með sjónum, bryggjum og söltunarpöllum. Eftir

stóð aðeins eitt hús, nyrsta byggingin, sem var mannlaus. Þá hafði flóðið farið yfir

Neðri-Skútu, brotið bæinn niður og fært á kaf og sópað burtu húsinu niður við sjóinn,

sem nefnt var "Bensabær". Hugðu leitamenn fyrst, að flóðið hefði sópað öllum

þessum byggingum burt og þeir, sem í þeim voru, hefðu allir farist. Grófu þeir nokkuð

þar, sem Skútubærinn átti að vera, en urðu einskis varir og sneru þá heim á leið. En er

þeir voru komir niður á Skútugrandann stakk einn þeirra, Björn Jóhannsson, við fót og

mælti: "Ég sný við. Það er óafsakanlegt að fara svona heim. Það er ekki búið að leita

nóg þarna á Skútu." Varð það úr, að fjórir menn sneru aftur, en flestir leitarmenn voru

komnir svo langt á undan, að þeir gátu eigi haft samband við þá. Með þessum fjórum,

er aftur sneru, fóru svo einhverjir frá Árbakka og Landmótum. Hófu þeir þegar að

grafa niður á baðstofuþekjuna og höfðu aðeins mokað í stutta stund, er þeir heyrðu að

barið í þekjuna innan frá. Var þá Sigfús Ólafsson á Árbakka þegar sendur yfir í

kaupstað til að sækja liðsauka og lækni. Var þá enn safnað liði í skyndi og tekinn

hver, sem í náðist, og sendur til hjálpar.

Þegar hjálparliðið kom á vettvang, var þegar búið að rjúfa þiljuna og bjarga

sumu af fólkinu, og var það flutt jafnharðan að Árbakka. Þegar liðsauki barst, tókst

bráðlega að ná öllu fólkinu. Ekkert af því var stórslasað, en allt aðþrengt af loftleysi

og meira og minna marið. Þessum var bjargað þarna: Einari bónda Hermannssyni og

konu hans, Kristínu Gísladóttur, ásamt börnum þeirra Hermanni, Ólöfu og Septínu.

Hermann var verst farinn og fékk ekki meðvitund fyrr en um kvöldið. Hann var á

tvítugsaldri. Þá var bjargað fósturdóttur hjónanna, Þorbjörgu Guðmundsdóttur, og

Hólmfríði Jónsdóttur, ekkju Jóakims Jónssonar á Skútu. Hún var vinnukona.

Frásögn þessa fólks bar saman við það, er áður var vitað. Flóðið hafði fallið um

kl. fjögur um nóttina. Einar bóndi hafði heyrt klukkuna slá rétt áður. Það hafði að

nokkru hlíft baðstofunni, því ofan við hana stóð töðuhey. Var torf freðið og

endinn sem vissi að fjallinu, lágur. Flóðið hafði farið yfir heyið og skollið niður á

mæni baðstofunnar, brotið sperrurnar, sem voru grannar, lagt mænisásinn niður á gólfið

endilagt, en sperrubrotin höfðu lagst skáhallir af lausholtunum inn á gólfið og haldið

uppi að nokkru súðinni yfir rúmunum, sem voru meðfram veggjunum, og hafði það

bjargað fólkinu. Stafninn hafði fallið suður. Sperrukjálki yfir rúmi Einars bónda hafði

þó brotnað þannig, að þekjan lá á brotunum yfir brjósti hans. Hafði bringubeinið

marist mjög og gengið inn, og varð hann aldrei jafngóður. Framhús, með þilvegg fram

á hlaðið, hafði sópast burt og langt niður á mýri. Flest bæjarhús önnur voru brotin

niður, þar á meðal fjósið. Í því voru þrír nautgripir, er höfðu kafnað. Þegar búið var að

bjarga fólkinu, var gengið að því að rjúfa fjósrústirnar. Var það illt verk, því að hríðin

var svo mikil, að oft fyllti jafnharðan það, sem mokað var. Þó tókst um síðir að ná upp

hinum dauðu gripum. Einhverju var einnig bjargað af búsmunum og fatnaði úr bað-

stofurústunum, en allt var það stórskemmt og illa útleikið. Ekki var snjóþekjan mjög

þykk ofan á rústum af Skútubænum, því að hann var í suðurjaðri hlaupsins. Fólkið í

baðstofurústunum hafði heyrt, er Siglfirðingarnir komu fyrst á staðinn og hófu

mokstur, en hættu svo aftur og hurfu frá. Olli það því hins mesta angurs, því að það

hugði alla von um björgun úti.

Ekki tókst að koma lækni á staðinn sama dag og fólkið var grafið upp. Læknir

var þá Guðmundur T. Hallgrímsson, var hann lítt fær til gangs, en ófærð geysileg. Var

reynt að fara leirurnar og bera lækninn, en krapaelgur var svo mikill, einkum er austar

dró, að leiðangurinn varð að snúa aftur og komast til sama lands við illan leik. Sendi

læknirinn meðul og fyrirmæli um, hversu með skyldi fara. Næsta dag var veður betra,

og gat hann farið á skíðum að vitja fólksins. Þegar lokið var að grafa upp fólkið á

Skútu, var leitað vandlega í rústum annarra mannabústaða, sem snjóflóðið hafði fallið

á. Af Bensabæ var ekki urmull eftir, aðeins kjallarahola, sem verið hafði undir

bænum, en í henni fannst ekkert.

Þar höfðu farist: Benedikt Gabríel Jónsson, ættaður af Vestfjörðum, kona hans,

Guðrún Guðmundsdóttir frá Bakka í Austur-fljótum, og tvær dætur þeirra á

barnsaldri.

Verksmiðjunni og öllu tilheyrandi hafði sópað burt, nema nyrsta húsinu og

tveimur vanhúsum . Þar hafði kraftur flóðsins verið svo mikill, að handleggsgildir

járnbjálkar í verksmiðjunni höfðu kubbast sundur, eins og þeir væru hrífusköft, og

múrveggjum og steyptum undirstöðum véla hafði flóðið velt, eins og það væri

spilaborg, en sópað burtu geysiþungum vélabáknum. Hafði þetta ýmist farið fram af

bakkanum í sjóinn eða niður í geypi stóra síldarþró. Bæði húsin, sem búið var í, voru

þurrkuð burt. Af öðru húsinu, sem var mjög rammgjört, var aðeins eftir gólfið, að

mestu óbrotið. Þarna fórust tvær fjölskyldur: Lars Sæther og kona hans Luise. Sæther

hafði umsjón með verksmiðjunni og hafði búið þarna nokkur ár í skrifstofuhúsi norður

af verksmiðjunni, og Friðbjörn Jónsson, ásamt konu sinni, Guðrúnu Jónsdóttur,

Dagssonar, og fóstursyni, Alfreð Alfreðssyni, átta ára. Þau bjuggu í húsi, er reist hafði

verið úr tvíplægðum plönkum fyrir verkafólk. Það var austan við verksmiðjuna. Alls

höfðu farist þarna níu manns.

Tjónið af snjóflóði þessu var afar mikið. Auk verksmiðjunnar og þeirra húsa,

sem þegar eru talin, eyðilögðust tvö stór geymsluhús, síldarplan, bryggjur, mikið af

tunnum, mörg hundruð föt af lýsi, og höfðu þau brotnað í hundraðatali í síldarþró

verksmiðjunnar innan um vélarbrakið. Síldarþrærnar voru tvær úr járnbendri

steinsteypu. Framveggur syðri þróarinnar hafði sópast í sjóinn, en sú nyrðri var

sprunginn. Aðaleigandi verksmiðjunnar var Gustav Evanger, en bróðir hans, Olav, átti

stóra síldarstöð spölkorn sunnan við verksmiðjuna. Þar hafði allt sópast burt, pallar,

bryggjur og tvö eða þrjú pakkhús full af tómum síldartunnum. Þá hafði öll búslóð og

matvæli eyðilagst í húsunum þeim er flóðið tók. Á Neðri-Skútu björguðust þó nokkrar

kindur, er voru í húsi suður og niður við sjóinn. Hér við bættist svo tjón það, er varð á

skipum og mannvirkjum handan fjarðarins. Meðal annars er sagt, að eftirtaldar

bryggjur hafi eyðilagst að meira eða minna leyti: Bakkevigs, Henriksens,

Íslandsfélagsins, Jakobsens og Tuliníusar, en margar aðrar skemmst. Fjöldi árabáta og

uppskipunarbáta stórskemmdust. Vélbáturinn Georg mölbrotnaði og sökk, og ýmsir

aðrir vélbátar skemmdust. Talið var, að eignartjón af þessu eina snjóflóði hafði numið

hálfri annarri milljón króna.

Þegar upp birti hríðina, var svo mikið af braki við fjarðarbotninn, að kalla mátti

að hægt væri að ganga þar þurrum fótum á timbri þvert yfir fjörðinn. Var þar meðal

annars í heilu lagi rishæðin af einu húsi O. Evangers, og var hún full af nýjum

síldartunnum. Rekaldi þessu skolaði að mestu út aftur, og var því bjargað á land út á

Siglunesi og víðar við fjörðinn, og það selt á uppboði.

Óðar og upp rofaði, var hafin leit að líkum þeirra, er farist höfðu, og leitað á

hverri fjöru dag og nótt af mörgum mönnum í nærri hálfan mánuð. Á pálmasunnudag,

13. apríl, fannst lík Sæthers sunnan við "Anlæg" timburhólma suður á leirum. Lá hann

í rúmi sínu eins og hann svæfi, með hendur á brjósti, og sáust á honum engir áverkar,

utan lítið gat á enninu. Taldi læknir, að hann hefði andast snögglega í svefni. Næsta

morgun fannst lík Benedikts og annarrar dóttur hans, og síðar lík Guðrúnar konu hans.

Lík Guðrúnar Jónsdóttur fannst á þriðjudag og enn síðar lík hinnar dóttur Benedikts,

en lík frú Sæther fannst eigi fyrr en eftir eina viku. Lík Friðbjarnar og fóstursonar

hans fundust aldrei.Þessa mynd er einnig að sjá á skilti við rústir Evangerverksmiðjurnar og ég þykist vita að Örlygur Kristfinnsson eigi mestan heiður af. Bæir og hús sem eru merkt inn á myndina eru frá vinstri talið; Staðarhólsbærinn, Evangerverksmiðjan, Söltunarstöð Olavs Evanger, Bensabær og Neðri Skúta.


Jón Jóhannesson segir að breidd snjóflóðsins, að norðurjaðar þess hafi verið 15-

20 föðmum sunnan við Rjómalækinn, en syðri jaðar þess hafi verið fimm föðmum

sunnan við suðurgafl baðstofunnar að Neðri-Skútu. Á öllu þessu svæði hafi flóðið

ekki aðeins sópað öllum snjó niður á beran jarðveg, heldur einnig rifið upp gjót og

harðfreðin þúfnabörð. Bar það mikið grjót bæði á tún og engi. Var nokkuð hreinsað

burtu, en sumt voru óhreyfanleg stórbjörg. Kvísl úr hlaupinu hafði farið sunnan við

Staðarhólstúnið, en mörg smærri hlaup höfðu orðið norðan á Staðarhólsströndinni,

það syðsta rétt norðan við Staðarhólsbæinn. Af ótta við ný snjóflóð, þorði fólkið ekki

að haldast við á bæjunum austan fjarðarins, Staðarhóli og Efri-Skútu, en flutti yfir í

kaupstaðinn. Neðri-Skútufólkið var flutt þangað óðar og það var flutningsfært og fékk

þar íbúð.

Snjóflóðin komu víðar við í Siglufjarðarhreppi að þessu sinni. Á pálmasunnudag, 13. apríl,

 féll allbreitt snjóflóð úr Siglunesnúpi yfir túnið á Siglunesi sunnanvert,132

bar með sér mikið grjót og eyðilagði stóran hluta af túninu. Munaði litlu, að hlaup

þetta, sem var kraftmikið, ylli slysi. Það féll á fjórða tímanum um daginn, og voru þá

sumir karlmenn frá Nesi að bjarga reka og enginn á leiðinni milli þeirra og bæjar, en

hundur, sem með þeim hafði farið og líklega verið á heimleið aftur, lenti í flóðinu.

Kom hann þó heim, að Nesi aftur seint um daginn, ólemstraður, en ruglaður og illa til

reika.

Auk þessara flóða féllu nokkur flóð í nágrenni Siglufjarðar. Auk flóðsins á

Siglunesi og í hlíðinni norður af slysstaðnum féllu tvö flóð í Héðinsfirði og létust þar

tveir menn. Einnig féll flóð í Engidal, vestan við Siglufjörð, á bæinn Engidal sem var

ystur Dalabæjanna. Þar fórust allir sem í bænum voru eða alls sjö manns. Í þessari

snjóflóðahrinu fórust alls átján manns í Hvanneyrarhreppi".

-

Í frásögn eftir Sveinbjörn Sigurðsson er sagt frá tildrögum þess að tveir menn fórust í Héðinsfirði.

"Sama dag og snjóflóðin féllu í Siglufirði, féllu tvö snjóflóð í Héðinsfirði. Þar fórust tveir

 menn. Á Sandvöllum vestan óss voru beitarhús frá Vík. Þar voru þrír menn að sinna

 gegningum sauðfjár. Einn af þeim var afi minn, Stefán Björnsson bóndi í Vík. Páll

 Þorsteinsson, sem var einnig bóndi í Vík, hafði farið nokkuð á undan hinum með heypoka

 á baki. Þeir voru að leggja af stað, er snjóflóð kom fram af svokölluðum Kleifum sem eru

 Víkurmegin austan fjarðar. Varð Páll fyrir því, barst með því fram á sjó og fórst þar. Einnig

 féll snjóflóð á Ámá sem er framar í firðinum þennan dag. Þar fórst Ásgrímur Erlendsson,

 mágur Páls. Í þessari páskaviku árið 1919 fórust alls átján manns í snjóflóðum í þessum

 byggðum á Tröllaskaga".

-

Einnig er talið að þann hinn sama dag hafi fallið flóð á bæinn í Engidal sem er annar Úlfsdala austan við Siglufjörrð. Þar fórust allir á bænum eða alls sjö manns, mest konur og börn því karlmennirnir voru við útróðra. Slysið í Engidal uppgötvaðist þegar póstbáturinn sem sigldi milli Siglufjarðar og Hofsóss sigldi hjá. Þar mun Skapti á Nöf hafa verið skipstjóri og til er ítarleg frásögn af þessum vofeiflegu atburðum sem birtist í septemberhefti "Heima er best" árið 2003. Tóku skipsverjar eftir því að ekki rauk úr Engidal. Þeim fannst þeim það undarlegt í slíkum kulda sem þá var, en þess utan gátu þeir heldur ekki séð bæinn. Það var því ekki fyrr en þ. 16. apríl, eða miðvikudaginn fyrir páska sem tíðindin bárust til Siglufjarðar. Voru menn þá sendir í skyndi til að athuga hvernig umhorfs væri og reyndist aðkoman ömurleg. Þegar grafið var niður að baðstofunni kom í ljós að hún hafði fallið niður undan snjóþunganum og allir heimilismenn látist. Eina lifandi veran sem slapp úr snjóflóðinu var heimilishundurinn Skoppa.
Eftir standa rústir einnar fyrstu síldarmjölsverksmiðju á Íslandi, eins og minnismerki um horfna tíma, æskunnar sem hló mót framtið sinni á iðandi síldarplönum og í mjölreyksspúandi verksmiðjum, að ógleymdum bræðrunum sem lögðu af stað frá gamla landinu með nesti og nýja skó rétt eins og karlssynirnir í ævintýrinu forðum.


En ég var að ryksuga bílinn þegar þessi trukkur renndi inn á þvottaplanið. Það var ekki laust við að maður finndi til vanmáttarkenndar við hliðina á þessu fjalla og torfærutæki. Ég gekk að einu afturhjólinu og mátaði mig við það. Það náði mér upp á miðjan brjóstkassa. Hvað ætli stykkið kosti?
Ökumaðurinn kvaðst koma frá Hollandi og hafa verið á ferðinni undanfarið með landa sína uppi á hálendinu sem honum fannst stórkostlegt í alla staði.Skömmu síðar bættist annar við, ekki síður vígalegur þó ekkert bæri hann fjórhjólið. Ökumennirnir ásamt þriðja manni sem gæti hafa verið aðstoðarökumaður, þvoðu síðan báða bílana hátt og lágt, af miklum myndarskap og gáfu sér góðan tíma til verksins.Í byrjun mánaðarins gerði svolítið hret eins og fram hefur komið, og fjöllin urðu því hvít niður í miðjar hlíðar. Ég sá að það hafði fallið skriða úr Pallahnjúk og akkúrat yfir þar sem ég hafði gengið fyrir nokkrum dögum. Það kom mér ekki á óvart, því þarna er mjög bratt og bergið mjög laust í sér. Í öll þau skipti sem ég hef gengið upp í Hestsskarð, hefur mátt heyra í grjót hrynja úr klettunum og velta niður skriðuna.Þegar leið fram í mánuðinn var farið að huga að heimferð, en auðvitað lá beint við að koma við á Bifröst þar sem Leóarnir tveir búa. Eftir frábæran viðurgjörning hjá henni Erlu var ferðinni síðan haldið áfram. Á leiðinni út á þjóðveginn gat ég ekki ekið fram hjá haustlitunum í hrauninu án þess að staldra við og smella af eins og einni.22.09.2011 17:48

Sýnishorn frá Blomma


754. Blommi er einn þeirra sem er skráður í flokk bloggara hérna hægra megin á síðunni. Hann er þó eiginlega meiri brandarakarl og brandarasafnari en eiginleur bloggari. Það hefur reynst mér og eflaust mörgum fleirum hið ágætasta ráð að kíkja inn hjá honum, ef eitthvað hefur vantað upp á bros á vör eða jafnvel lítið aulaglott út í annað. Hér eru nokkur sýnishorn...20.09.2011 07:21

Rauður himinn á Vatnsskarði
753. Í byrjun mánaðarins var ég á leiðinni norður. Áfangastaðirnir voru í raun þrír, þ.e. Flugumýri þar sem skyldi farið í smölun inn á Flugumýrardal, Akureyri þar sem ég ég vildi fylgja góðum dreng síðasta spölinn, og síðan var hugmyndin að dvelja viku eða svo á Siglufirði.
Uppi á Vatnsskarði gat ég ekki annað en staldrað við og stigið út úr bílnum, því litadýrð himinsins kallaði hástöfum á athygli mína. Nóttin hafði á sinn einstæða hátt breitt úr voðum sínar yfir landið, en dagurinn lifði aðeins lengur í loftunum.Ég seildist eftir myndavélinni og stillti ISO-ið í botn. Svo tók ég nokkrar myndir á "sunset" stillingunni og nokkrar á "night scenery". Eins og sést er áferðarmunur á nærhimninum þar sem roðans gætir lítið sem ekkert.En augnablikið leið hratt hjá og þessi óviðjafnanlega sýning ljósa og lita stóð styttra við en ég hefði kosið. Þá var fátt annað til ráða en að setjast aftur inn í bíl og aka af stað. En svolítið sýnishorn af litagleðinni í verkum meistarans hafði þó verið fönguð í kísilflöguna og fylgdi mér heim. 


14.09.2011 01:40

Fossarnir í Skútudal

752. Þær eru fleiri náttúruperlurnar í firðinum okkar en allt of margir gerir sér grein fyrir, og meira að segja eru þær margar hverjar "right under our nose" eins og það er sagt á "erlensku". Fyrir nokkru lagði ég leið mina upp í Hestskarð til að kanna uppgönguleið á Pallahnjúk, en á niðurleiðinni myndaði ég ótrúlega fallega fossa sem eru í öðrum læknum sem renna úr Hestskarðsskálinni. Og þó þeir hafi sést áður hér á síðunni og það ekki fyrir svo löngu síðan, finnst mér ekkert að því að rifja flottheitin upp.
Ég gerði mér svo ferð skömmu síðar til að skoða hinn lækinn sem rennur úr sömu skál, en í honum eru líka nokkrir mjög athyglisverðir fossar. Leiðin lá fyrst að munna Héðinsfjarðargangna, en þegar þangað var komið beygði ég til hægri inn Skútudalinn og áleiðis að Borholunum. Rétt fyrir sunnan munnann er komið að báðum lækjunum. Þar sem ég hafði þegar myndað þann nyrðri, hélt ég áfram og staldraði við þann syðri.
Og þá er enn eftir að skoða fjölmarga litla fossa sem eru ofarlega í Skútuánni.

08.09.2011 13:39

Hjálpum þeim


751. Axel Einarsson fyrrum meðspilari minn í Vönum Mönnum, sendi mér póst í gær þar sem meðal annars var vísað á splunkunýtt myndband af lagi hans við texta Jóhanns G. Jóhannssonar, "Hjálpum þeim". Textanum hefur verið snúið á ensku og lagið heitir núna "Help them".  Í fréttatilkynningu frá Hjálparstofnun kirkjunnar segir að lagið sé  "hvatningarrödd frá Íslandi til heimsbyggðarinnar um að bregðast hratt við til bjargar sveltandi fólki á hörmungarsvæðum A-Afríku." Samkvæmt mínum upplýsingum eru söngvararnir Bjarni Arason, Ellen Kristjánsdóttir, Friðrik Ómar, Eyþór Ingi, Magnús og Jóhann, Selma Björns, Jóhanna Guðrún, Páll Rósinkranz, Sigga Beinteins, Jogvan, Garðar Thór Cortes, Lára Rúnarsdóttir og Margrét Eir meðal flytjenda, en upptökum stjórnaði Pétur Hjaltested. 

Slóðin á myndbandið er: http://www.youtube.com/watch?v=HkbvEyIACog
 

03.09.2011 16:30

Rígmontinn afi


Unga daman er aðeins 18 klukkustunda gömul á myndinni.

750. Föstudaginn 2. sept. sl. varð ég enn ríkari en ég hafði verið áður, eða "þannig lagað". Þess utan er ég líka rígmontinn, því ég eignaðist alveg splunkunýja afastelpu sem er númer 6 í röðinni af afabörnunum. Sú stutta var tæpar 12 merkur og 51 cm., allt gekk hratt og vel fyrir sig og hinir nýbökuðu foreldrar Minný og Hákon Varmar voru komin heim sólarhring síðar.  

01.09.2011 00:50

Haustið er komið

749. Sumri er greinilega tekið að halla, dagurinn hefur verið að styttast og nóttin að lengjast smátt og smátt án þess að allir hafi endilega tekið eftir því. Skuggarnir eru byrjaðir að gægjast yfir lönd og höf þegar það er orðið kvöldsett og svo mætti lengi halda áfram. Hér norður á Siglufirði hefur ferðafólki fækkað ört á tjaldstæðinu síðustu dagana, en þar hefur oft verið ansi þéttbýlt í sumar. Það styttist líka í að skólar opni dyr sínar fyrir nemendum sínum á komandi haustönn og um sama leyti breytist takturinn í mynstri svo marga okkar. Einum kaflanum er að ljúka rétt einu sinni enn, annar að hefjast og vetrardagskráin byrjuð að mótast.Eitt af því sem ótvíræð vísbending um að haustið sé á næsta leyti, er þegar sviðið við Ráðhústorgið er tekið níður spýtu fyrir spýtu.Tjaldstæðið er alveg autt.Það situr enginn í flottu stólunum fyrir sunnan Rauðku.Og síðustu menjar Njarðarplansins sem svo mikið hafa verið myndaðir í sumar með smábátahöfnina í baksýn, hafa misst spón úr aski sínum eða öllu heldur nokkra staura úr svipmóti sínu vegna færslu Snorrabrautar.

Ég held að ég fari líka að pakka saman og þetta mun því vera síðasta bloggið sem póstað er frá Siglufirði í bili.


01.09.2011 00:48

BILAÐ


748. Teljarinn sem mælir fjölda heimsókna inn á síður þeirra sem notast við 123.is mun vera bilaður. Mér fannst skrýtið þegar heimsóknum hingað inn fækkaði um helming milli daga, og síðan helmingaðist helmingurinn aftur skömmu síðar. Ég var ekkert að velta þessu fyrir mér fyrr en nokkrum dögum síðar og fór þá að skoða aðrar 123.is síður sem ég þekkti eitthvað til. Þessi breyting er alveg á línuna og til dæmis eru vinsælustu síðurnar hjá þessu fyrirtæki sem alla jafna voru með 500 - 700 heimsóknir á sólarhring, nú aðeins með á bilinu 100 - 200. Ég sendi inn fyrirspurn, en henni hefur ekki verið svarað. Alla vega ekki enn þá, en yfirleitt berast svör frá vefstjóra því sem næst um hæl. Mér reiknast svo til að eins og staðan er núna, sé ekki langt frá lagi að margfalda sýnilega tölu á teljara með 4. Þá var erfitt að koma inn myndum um tíma, blogg birtust ekki fyrr en einhverjum klukkustundum eftir að þau voru vistuð og öll vinnsla varð mun hægari.

En þetta á eflaust sínar skýringar. Nýlega hófust endurbætur á kerfinu og líklega er enn verið að vinna úr einhverjum hnökrum sem svona breytingum fylgja gjarnan.


  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 345
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 415
Gestir í gær: 117
Samtals flettingar: 344704
Samtals gestir: 38297
Tölur uppfærðar: 24.5.2024 16:10:34
clockhere

Tenglar

Eldra efni