Færslur: 2007 Apríl

29.04.2007 14:31

Hljómborðið sem dó...


368. Enginn veit sína ævina, allt er forgengilegt eða ekkert varir að eilífu. Eitthvað af þessu gæti átt við um hljómborðið sem hefur fylgt mér á ótal ferðalögum síðustu árin, jafnt stuttum sem löngum, óvæntum sleazy-uppákomum sem vel undirbúnum og dönnuðum mannamótum, ýmist þar sem allir eru í svart/hvítu eða gallbuxum og lopapeysu. Getur verið að hægt sé að tengjast tilfinningaböndum fjöldaframleiddum svörtum og ílöngum kassa, fullum af tæknidóti sem ég kann ekki einu sinni að nefna. Ég bara veit ekki.



Solton MS-60

Ég keypti Solton MS-60 af vini mínum Birgi J. Birgissyni fyrir nokkrum árum, og kaupverðið var hundarðþúsundkall. Þá hafði hann átt gripinn í nokkur ár og notað hann mikið, því hann hefur verið síspilandi síðan ég kynntist þessum ágæta dreng. Hann sagði mér að þetta hljómborð hefði líklega ferðast meira en allt annað hljóðfærakyns sem hann þekkti til. USA, Spánn, Frakkland, Luxemburg, Danmörk, Svíþjóð, Færeyjar og margt fleira sem ekki kæmi upp í hugann í augnablikinu. Auk þess hefur það farið marga hringi í kring um skerið okkar og staldrað við á flestum stærri þéttbýliskjörnum og mörgum hinna minni. En Birgir hefur sjálfur ekkert slegið af þessi 17 ár sem við höfum þekkst. Hann hefur spilað með Sálinni, Upplyftingu, Þúsund andlit, 8-villt auk óteljandi tríóa og dúóa ásamt því að hafa lengst af rekið hljóðver og staðið fyrir útgáfu á tónlist.

Fyrir nokkru fór tónninn að verða svolítið óhreinn í gömlu græjunni, rétt eins og einhver snúra næði ekki nægilega góðu sambandi eða eitthvað í þá áttina. Þetta var mjög lítið í fyrstu og allt að því illgreinanlegt, en suðið eða surgið færðist smátt og smátt í aukana. Svo fór að við svo búið varð auðvitað ekki unað, og ég fór með Solton MS60 á verkstæði. Reikningurinn var sautjánþúsundkall, en nokkrum helgum síðar fannst mér ég heyra þetta aukahljóð aftur og þá bankaði ég létt ofan á gripinn og það hvarf. Enn leið tíminn og surgið kom aftur og var nú greinilegra en nokkru sinni fyrr. En þess utan þurfti ég að kveikja og slökkva nokkrum sinnum til að fá allt til að virka, því hið skelfilega orð "error" átti það orðið til að birtast á skjánum í upphafi leiks. Það er vart hægt að lýsa því með orðum hvernig sú tilfinning virkar á spilarann þegar kveikt er á græjunum og salurinn er að fyllast af fólki sem vill fá að heyra hvað karlarnir á pallinum kunna og það strax. Hjartað slær örar og sleppir jafnvel eins og einu slagi úr, andlitið hitnar, litlar svitaperlur myndast á enninu og það er engu líkara en nýbúið sé að taka inn eitthvað mjög svo hægðalosandi. Það var því farið öðru sinni með borðið á verkstæði. Reikningurinn var fimmtánþúsunkall og þar virkaði aftur. Nú hlyti þetta að verða í lagi, en skömmu síðar var útséð um að sá draumur rættist. Surgið kom aftur, ég þurfti að kveikja og slökkva til skiptis mun oftar en áður til þess að "error-meldingin" hyrfi af skjánum og það kom nokkrum sinnum fyrir að í miðju lagi fraus einhver nótan þannig að hún hljómaði endalaust. Einnig fannst mér eins og hljómurinn væri allur að verða einhvern vegin horaðri eða þynnri. Ég hafði sett mér það sem markmið að láta þetta ágæta hljómborð duga mér meðan ég dugaði sjálfur, því óvíst er hversu miklu lengur karlar á mínum aldri eiga eftir að verða gjaldgengir í bransanum. En þar sem nokkur eftirspurn er enn fyrir hendi, var ég að þessu sinni óvenju sáttur við að játa mig sigraðan og fór að leita að arftakanum.


Tyrus-1

Ég nefndi þetta ólán við vin minn Birgi, en hann sagðist nú aldeilis kunna lausnina á vandræðum mínum.
"Ég var einmitt að fjárfesta í nýju hljómborði og þarf að selja gamla eins og síðast. Það er ekkert mjög mikið notað og þú færð það á fínu verði plús "námskeið" í kaupbæti." Kaupverðið var aftur hundraðþúsundkall og á fimmtudegi heimsótti ég hann og sat með honum yfir hljómborðinu í þrjá tíma samfleytt og braut heilann eins mikið og ég taldi hann þola. Hann fór yfir allt það sem ég varð að kunna til að geta byrjað að nota það af einhverju viti, því ég átti að spila á Gullöldinni kvöldið eftir.
"Allt hitt lærirðu bara svona smátt og smátt af reynslunni og sjálfum þér," bætti hann við og ég borgaði og fór heim með Tyrus-1.

Síðan hef ég notað Tyrusinn og er farinn að mynda ný tilfinningatengsl.



Birgir Jóhann Birgirsson í Hljóðverinu sínu.

26.04.2007 18:38

Saumaklúbburinn.


367. Ég fór í "saumaklúbb" í gær. En í raun er líklega ekki um hefðbundinn saumaklúbb að ræða, heldur er frekar gert út á að viðhalda hinu góða sambandi sem stelpurnar í árganginum komu á eftir að hafa fluttst af heimaslóðum. Þannig er að flestar þeirra búa nú orðið á höfuðborgarsvæðinu, en strákarnir hafa miklu frekar orðið eftir fyrir norðan svo skrýtið sem það nú er. Kannski er það ekkert skrýtið því algengt bæði var og er enn að eftir að unglingar sem þurfa að fara úr fámenninu í framhaldsskóla, snúa þeir allt of sjaldan aftur þar sem markaður fyrir menntað fólk er víðast mjög takmarkaður. Og víst er að stelpurnar í okkar bekk voru yfirleitt sýnu betur gefnar en við strákarnir, og á því eru líklega engar undantekningar. Þær gengu því frekar menntaveginn, en við strákarnir sátum eftir. Skyldi annars eitthvað íblöndunarefni hafa verið sett í drykkjarvatn bæjarbúa árið 1955? "Klúbburinn" er haldinn til skiptis hjá meðlimum hans og nú var komið að Gunnu Sölva. En þar sem auðveldlega má flokka slíkt sem eins konar "afbrigði," þar sem Óttar Bjarna úr sama bekk er bóndi Gunnu. Var því farin sú leið að hóa í Þórð Þórðar og síðan mig til að "lita" stelpuklúbbinn svolítið. Hugmyndin þróaðist frekar því Þórður er listakokkur, Óttar er bakari eins og flestir vita, en ég er reyndar ekki neitt en það er nú annað mál. Ég mætti snemma á staðinn ef hugsast gæti að ég gæti orðið að liði við undirbúninginn, en það kom reyndar á daginn að ég reyndist ekki vera hæfur til neinna verka. Þórður eldaði dýrindis krásir; hreindýrabollur, skötusel og einhvern mega-saltfiskrétt sem er engan vegin hægt að lýsa með orðum. Óttar bakaði m.a. þá bestu súkkulaðiköku sem ég hef á ævinni bragðað, og hef þó goggað í eitt og annað í allnokkrum sætabrauðsbúðum. En ég gerði sem sagt fátt annað en að horfa á þá félaga undirbúa kvöldið og tefja fyrir þessum galdramönnum.



Álfhildur, Stella, Fríða Birna, Klara, Jóna, Óttar, Stína, Dóra, Ég, Gunna, Þórður og Oddfríður eru á hópmyndinni, en á hana vantaði Elenóru því einhver varð að fórna sér og taka myndina. Ég greip því til þess ráðs að galdra hana inn í hægra hornið neðan til, því við hin getum að sjálfsögðu ekki án hennar verið.

Samkvæmisljónið Óttar Bjarna horfði á mig með undarlegum svip eins og sést, og mér datt svona rétt í hug að hann vildi ekki að ég tæki mynd af honum með fullan munninn. En auðvitað var það bara tóm vitleysa svo ég smellti af og glotti aulalega.

Þórður Þórðar er óborganlegur kokkur, skemmtikraftur og vélstjóri á Mánaberginu í hjáverkum. Eiginlega get ég leyft mér að segja að á þessari mynd hafi ég fangað eitt lítið andartak og náð honum "fyrir nesið."

Því er svo við að bæta að 123.is kerfið liggur niðri að hluta laugardaginn 28. apríl, svo ekki er alveg víst að allir geti gert það sem hugurinn stendur til þann daginn. Var reyndar búinn að skrifa langan og mikinn pistil (Home alone 2) sem ég við nánari athugun þori ekki að birta af ótta við refsiaðgerðir. Ég ætlaði líka að skreppa norður á Sigló einhvern næstu daga, en hef frestað því fram yfir sauðburð vegna anna.

23.04.2007 02:37

Allt sem ég hef misst.



366. Talandi um hljómsveitina Sviðna jörð í síðasta pistli?

En það eðalband (sem er til í alvörunni fyrir þá sem ekki vita) skipa þeir Freyr Eyjólfsson, Magnús R. Einarsson, Hjörtur Howser, Ragnar Sigurjónsson og Einar Sigurðsson, en hljómsveitin gaf út plötuna "lög til að skjóta sig við" fyrir síðustu jól. Þarna er sem sagt valinn maður í hverju rúmi, en það er hins vegar gert út á undarlegri og óhefðbundnari tónlistarmið en tíðkast yfirleitt. Þessir "drengir" spila sveitatónlist, en aðeins með afar sorglegum textum. Við Axel tókum eitt lagið að okkur um nokkurra vikna skeið og spiluðum það talsvert á mannamótum, því okkur þótti textinn bæði sorglega fyndinn en með yndislega súrsætum undirtón.

Heimspekilegar vangaveltur um lífshlaup mannanna eru ekki alltaf eins stórkostlegar og glamúlkenndar og lesa má í glanstímaritum á læknabiðstofum. Betra væri að hinn einfaldi og oft á tíðum svolítið beiski sannleikur fengi að njóta sín svolítið hreinni og ómengaðri en hann er svo oft framreiddur. Það búa nefnilega ekki allir í glæstum höllum við endalausa hamingju í hvívetna, - því miður. Ég hef grun um að fleiri en þeir sem vilja gangast við því sjái sjálfa sig svolítið í ljóðlínunum hér að neðan eða a.m.k. á milli þeirra, - alla vega geri ég það.

Allt sem ég hef misst.

Bjarnafjörður, Barmahlíð, Búðir, Lómagnúpur,
Dynjandi og Dimmuborgir, Djúpavík og Núpur.
Arnarstapi og Ólafsvíkurenni,
og allir þessir staðir sem ég heimsótti með henni.
Kátt var á hjalla, - er ég kom til ykkar fyrst,
allt minnir mig þá mest á, - allt sem ég hef misst.

Að vakna að morgni, malla kaffi, mogganum hennar fletta,
sjá það þarf að taka til tár á blöðin detta.
Skæla svo eins og skrúfað væri frá krana,
jafnvel myndin í speglinum minnir á hana.
Andavaka um nætur, - með enga matarlist,
það eina sem ég hugsa um, - er allt sem ég hef misst.

Að ráfa um í reiðuleysi rétt eins og dæmdur maður,
finnast íbúðin auð og tóm og andstyggilegur staður.
Særður og lúinn og samviskubitinn,
en er far við vaskinn eftir varalitinn.
Þær yndislegu varir, - fæ ég aldrei framar kysst,
og ekkert var eins dýmætt, - og allt sem ég hef misst.

Bjarnafjörður, Barmahlíð, Búðir, Lómagnúpur,
Dynjandi og Dyrhólaey, Dritvík og Núpur.
Arnarstapi og Ólafsvíkurenni,
ég heimsæki ykkur aldrei aftur með henni.
Hjarta mitt er soltið, og sál mín er þyrst,
og alls staðar eru minningar um, - allt sem ég hef misst.

Það er engu líkara en að lofthugarnir Magnþóra og Ketilbjörn sem felldu hugi saman þegar þau voru bæði á erfiðum aldri og langaði til að verða þjóðlegir "framtíðartreflar" þessa lands og tilheyra "lopapeysuliðinu," hafi raðað saman þessum ljóðrænu línum sameiginlegum minningum sínum til dýrðar og vegsemdar. En það átti því miður ekki fyrir þeim að liggja að upplifa drauminn saman. Þau tóku einhvers staðar vitlausa beygju á lífsins göngu, settu sig niður í sitt hvorn landsfjórðunginn, áttu börn og buru og árin liðu hjá. Þegar fór svo að síga á seinni hlutann, vaknaði gamli draumurinn aftur hjá þeim báðum svo að segja samtímis. En aðstæður þeirra buðu ekki lengur upp á að þau höndluðu hamingjuna saman og þau gerðust því einmanna "skúffuskáld" með eirðarlítið blik í auga það sem eftir var þessarar jarðvistar. Sagt er að þau hafi aldrei náð saman og eða gengið í eina sæng, en upplifðu nostalgíuna upp aftur og aftur sitt í hvoru lagi. En þegar æfikvöldið nálgaðist eignuðust þau bæði gsm og lærðu að senda sms. Þau skiptust síðan á smáskilaboðum af sitt hvoru elliheimilinu allt fram undir þann sorglega tíma þegar allir hafa gleymt öllu.

19.04.2007 00:25

Bruni í miðbæ Reykjavíkur.



365. Ég átti leið um miðbæ Reykjavíkur um svipað leiti og fréttir bárust af brunanum á horni Lækjargötu og Austurstrætis. Ég staldraði við og smellti af þó nokkrum myndum sem eru komnar í myndaalbúm. Rétt áðan fékk ég svo sent eftirfarandi sms sem ég sendi áfram til nokkurra útvalinna.

Hljómsveitin "Sviðin jörð" leikur fyrir dansi í kvöld á veitingastaðnum "Pravda."
Logandi heitur kebab og orkudrykkurinn BURN fylgja hverjum miða.
Eldheit stemming.
Athugið að staðurinn er ekki reyklaus.

Svo mörg voru þau orð...

18.04.2007 00:08

Ferðin upp í Hafnarfjall.

364. Eins og fram hefur komið var ég á Siglufirði um páskana og labbaði á spariskónum upp í Skollaskál á Skírdeginum. Það varð að sjálfsögðu til þess að daginn eftir eða á Föstudaginn langa vaknaði ég með svo gríðarlega strengi um allan skrokkinn, að óhætt væri að tala um heila strengjasveit en nokkuð minna. Dagurinn var því mjög erfiður framan af en ég velti fyrir mér gömlu húsráði sem ég hafði heyrt af fyrir margt löngu, þ.e. að hægt væri hreinlega að ganga strengina úr sér. Eftir því sem á daginn leið varð mér ljósara að eitthvað þyrfti ég að gera í mínum málum, og ákvað að láta reyna á hvort eitthvert sannleikskorn væri í sögunni um "úrgöngu strengja." Ég hafði sem fyrr hjálpar og fylgdarhundinn Aríu með í ferðinni, og hélt sem leið lá suður að Stóra-Bola þar sem hann endar syðst á Suðurgötunni. Það var með talsverðum erfiðismunum að ég gekk upp sneiðinginn við rætur hans og sóttist ferðin seint að mér fannst.



Ég rölti hægt af stað upp slóðann sem liggur upp eftir garðinum, og eftir svolitla stund varð ég að setjast niður og hvíla mig svolítið. Ég smellti þá mynd af þessum hluta snjóflóðavarnargarðanna, því ég taldi þarna vera verðugt myndefni sökum stærðar sinnar og mikils jarðrasks sem þarna hefur átt sér stað. Þar sem áður hafði mátt sjá aflíðandi gróna hlíðina, var komið lítið fell sem skyggði örlítið á bæinn þaðan sem ég sat.
Eftir svolitla stund stóð ég upp og hélt áfram.

Ég skal fúslega viðurkenna að ég settist oft niður á leiðinni upp Stóra-Bola. En fyrir þá sem ekki vita þá er það nafnið á snjóflóðavarnargarðinum sem sést svo vel á myndinni hér að ofan, nefndur eftir samnefndum skíðastökkpalli sem var á svipuðum slóðum á árum áður. Litli boli var og er svolítið sunnar í hlíðinni.



Það eru liðin heil 40 ár síðan ég kom síðast upp í Fífladali sem eru í raun engir dalir, heldur svolítill slakki inn í fjallið fyrir ofan bæinn. Þessi "dæld" í fjallið er nægilega stór til þess að frá efri hluta bæjarins er sjáanleg svolítil brún, sem hefur fengið margan manninn til að trúa því að þarna væri eitthvert undirlendi en ekki bara aðeins minni halli eins og raunin er. En fyrir ofan og sunnan Fífladali má sjá tígullega kletta bera við himinn frá réttu sjónarhorni. Þegar ég var lítill strákur á brekkunni voru þeir oft kallaðir Tröllakirkja, hvort sem sú nafngift er einhvers staðar að finna yfir skráð örnefni.



Þarna uppi var miklu kaldara en niður í bæ. Allt var gaddfrosið og hvergi markaði í jarðveginn þar sem farið var um. Ég komst fljótlega að því að aðstæður þarna voru miklum mun erfiðari en í Skollaskálinni, enda var ég ásamt fylgdarhundinum Aríu kominn í miklu meiri hæð en þar.


Sums staðar þurfti ég að krækja upp eða niður fyrir harðfennið á giljum og lautum, því það var beinlínis lífshættulegt að leggja út á það. Það var hart eins og gler, flughált og svo var hallinn orðinn alveg ótrúlega mikill. Ef ég reyndi að ganga melinn, þá var jarðvegurinn þar lítið skárri við að eiga. Engin leið var að sparka far ofan í hann vegna frostsins, og ef ég reyndi að drepa niður fæti var nokkuð öruggt að ég rann af stað. Mér flaug í hug að líkast væri að ég reyndi að ganga á óteljandi mörgum kúlulegum, en eins og allir hljóta að skilja getur slíkt vart talist skynsamlegt.



Sums staðar þurfti ég að klífa í klettabeltinu rétt fyrir neðan fjallstoppinn til að krækja fyrir ófærurnar. Myndin hér að ofan er tekin næstum því beint niður og sjónarhornið sýnir engan veginn hve bratt er þarna. Það var einmitt þarna í klettunum að úrið slitnaði af mér og lenti á lítilli syllu svolítið neðar. Og eftir talsvert klifur niður og síðan aftur upp, var úrið sem ég fékk í 25 ára afmælisgjöf frá afa mínum og nafna í vasanum.



Ferðin gekk seint og tíminn leið. Ég hafði ætlað mér að fara svolítið lengra upp og mun utar í fjallið, en degi var tekið að halla og ljóst var að tímaáætlunin gat tæpast gengið upp úr því sem komið var. Á myndinni hér að ofan er efsti hluti bæjarins í hvarfi við brún Fífladala, en það vakti athygli mína hvað sjórinn var undarlega grænblár.



Ég var kominn út og upp að snjóflóðavarnargirðingunni sem er talsvert fyrir ofan miðja Fífladali og skammt fyrir neðan fjallsbrúnina. Þarna hef ég heldur aldrei komið en nú áttaði ég mig á stærð þessara mannvirkja sem virðast vera frekar lítilsigld séð neðan úr bænum. Það sem sýnast vera venjulegir girðingarstaurar eru kannski eins og einhvers konar girðingarstaurar, nema að þá eru þeir alveg örugglega af stærðinni XXL. Ég sá að nú yrði ég að snúa við, því tíminn var alveg hlaupinn frá mér og svo var gilið framundan ófært með öllu. En nú fór málið að vandast. Bæði var að ég gætti þess ekki að fara sömu leið til baka, og svo er bara mun verra að fara niður en upp við þessar aðstæður. Ég fetaði mig í áttina suður frá girðingunni og gilinu. En eftir skamma stund komst ég hvorki ekki lengra í þá áttina, upp eða niður fjallið. Ég reyndi að snúa við en það gekk alls ekki.



Brattinn var hreint ótrúlegur og ég fylgdist með Aríu sem fór um allt og fannst sá gamli vera full rólegur. Ég öfundaði hana svolítið af því að hafa helmingi fleiri fætur en ég, því það var alveg greinilegt að fleiri og hlutfallslega stærri snertifletir við jörðina skiptu höfuðmáli á þessum slóðum. Ég fékk þá snjöllu hugmynd að taka hana til fyrirmyndar, reyndi að loka öllum vösum vel og vandlega og lagðist síðan á fjóra fætur. Ég varð að finna heppilegan stein eða steinnibbu sem stóð upp úr freðinni jörðinni til að stíga eða hafa tak á. Síðan varð ég að þreifa fyrir mér ýmist með höndum og fótum eftir einhverju sem var bæði þurrt og frosið fast. Þannig gat ég komist svolítið áleiðis til baka. Þá hringdi síminn og ég svaraði standandi á tveimur fótum og hvílandi á annarri hendinni.
"Jú, jú, ég fer alveg að koma í mat. Ég er hérna uppi í fjalli að rölta með hundinn og fer bara að drífa mig."
"Krúnk, krúnk," heyrðist rétt hjá mér og ég leit upp.
Hljóðið var óhugnanlegt þarna í kyrrðinni og ég fann ískaldann hroll skríða upp hryggsúluna.
Krummi sveif nánast við hliðina á mér og mér sýndist hann vera eitthvað að skoða mig. Það var engu líkara en hann væri kyrr í loftinu, eða kannski brá mér bara svo mikið að tíminn stöðvaðist svolitla stund. Hvað mundi krummi gera ef ég rúllaði af stað niður hlíðina og þó ekki væri nema rotaðist um stund, en ég vissi svo sem allt um það. Ég fann fyrir svolitlum skjálfta í hnjánum, en verra var að ég var eiginlega hættur að finna fyrir höndunum vegna kulda. Ég heyrði meira krúnk og sá að tveir hrafnar höfðu bæst til viðbótar í áhorfendahópinn. Mér fannst rannsakandi augnaráð þeirra stinga mig í augun, og ég hugsaði mér að ef nokkurn tíma væri staður og stund til að vanda sig þá væri það líklega núna. Mér sóttist ferðin alveg ofurhægt og eftir skamma stund hringdi síminn aftur.
"Ég er á leiðinni. Ég er kominn svona 10 metra síðan áðan. Já, já, ég veit að það er liðinn hálftími síðan, en við erum samt á leiðinni en ég er bara með svo mikla strengi síðan úr skollans Skollaskálarferðinni í gær."
Næsta lota hófst og ég þreifaði mig áfram. Ferðin sóttist jafn hægt og áður og ég var orðinn ansi mikið blóðrisa á höndunum sem ég var löngu hættur að finna fyrir. Nú var ég kominn að hæfilega stórum steini til að setjast á og ég var rétt sestur þegar síminn hringdi rétt einu sinni.
"Við erum á leiðinni. Þetta tekur allt sinn tíma. Heyrumst eftir korter."
Eftir korter var það allra versta afstaðið og hrafnarnir flognir á braut, væntanlega til að leita að einhverju sem var vænlegra til átu. Síminn hringdi rétt þegar ég gat tyllt mér niður á næsta stein.
"Ég er kominn eina 30 metra frá því að þú hringdir fyrst. Ég lenti í nokkurs konar sjálfheldu. Nei láttu björgunarsveitina eiga sig, þetta er alveg komið núna."
Ég hafði verið tæpa tvo tíma að komast þessa 30 metra, en hallinn var núna miklu minni og ég var kominn niður úr klettunum. Eftir að hafa haft hendur í vösum í dágóða stund var blóðið farið að renna aftur og ég hélt af stað, neðar og neðar. Ég hljóp yfir harðfenni í gili þar sem brattinn var hverfandi og mun minna frost en uppi undir toppi fjallsins.



Ég var kominn fram á brúnina og sá uppspretturnar sem ég var búinn að gleyma að væru þarna. En heilmikið magn tærasta lindarvatns sprettur upp undan steinunum í urðinni á Fífladalsbrúninni.



Og auðvitað varð ég að stilla myndavélina á "self portrait" áður en neðar yrði haldið því ég var um það bil búinn að jafna mig eftir skelfinguna sem greip mig svolítið ofar. Svo gott sem alveg búinn á því eins og sjá má. Ég skal viðurkenna það fyrir hverjum sem vita vilja að ég varð í alvörunni alveg skíthræddur þegar verst horfði. Nú fann ég mun meira fyrir strengjunum en áður, og sóttist nú ferðin seint þeirra vegna, því sennilega hef ég alveg gleymt þeim tímabundið skömmu áður.



Græna línan sýnir leiðina sem farin var á spariskónum Föstudaginn langa, daginn eftir ferðina upp í Skollaskál til að ganga úr sér strengina.
Rauður hringur merktur 1, er Tröllakirkja.
Rauður hringur merktur 2, er snjóflóðavarnargirðingin.
Rauður hringur merktur 3, er þar sem ég lenti í sjálfheldunni.
Rauður hringur merktur 4, eru uppspretturnar í Fífladölunum.
Þegar ég var svo kominn niður á veg, lá næst fyrir að ganga að stæðinu við rætur Stóra-bola þar sem bíllinn var. Það tók ótrúlega langan tíma því ég virtist vera orðinn eitthvað svo stuttur til hnésins. Reyndar lögðust strengirnir frá deginum áður og þreytan frá göngunni upp í Hafnarfjall, á eitt með að gera mér lífið erfitt og göngulagið með undarlegra móti. Þegar ég var svo kominn á Aðalgötuna neita ég því ekki að ég þurfti eiginlega að notast við bæði hendur og fætur til að skreiðast upp stigann.
"Þú ert nú meiri vitleysingurinn" var sagt við mig þegar upp var komið, sem var náttúrulega alveg hárrétt.

Fleiri myndir frá þessu fráleita ferðalagi eru í möppu í myndaalbúmi merkt "Páskar á Sigló."

16.04.2007 00:38

Svolítið dapurlegur skúr.



363. Mér finnst yfirbragð skúrsins eiginlega vera svolítið dapurlegt. Það er kannski bara eðlilegt í þessu tilfelli og ætti ekki að vera neitt öðru vísi, því hann stendur á planinu við nýja kirkjugarðinn.

13.04.2007 20:49

Allt nema lækurinn



362. Við fyrstu sýn gæti það vafist fyrir einhverjum að átta sig á hvað þetta gæti eiginlega verið.



Myndin er tekin inn um ræsið sem er í tiltölulega lítilli notkun enn sem komið er. Staðsetningin vakti athygli okkar sem áttum leið þarna framhjá, en það er rétt fyrir austan nýju brúna yfir Hólsá sem heitir reyndar Fjarðará fyrir þá sem ekki vita. Það vantar eiginlega ekkert nema lækinn.

11.04.2007 04:31

Ferðin upp í Skollaskál.

361. Þegar ég fyrir síðustu áramót horfði svolítið til baka sá ég að ferðirnar norður á Sigló höfðu verið með færra móti á því herrans ári 2006. Sérstaklega þegar málið er skoðað út frá þeirri staðreynd að áhugann hefur aldrei skort nema síður sé, húsnæði er vissulega fyrir hendi og svo er að ég held mannskepnunni eðlislægt að vitja róta sinna og uppruna. Ég hugsaði mér að bæta úr þessu og setti mér það markmið að vera á ferðinni nyrðra að jafnaði a.m.k. einu sinni í mánuði þetta árið. Þessi síðasta ferð á heimaslóðir um páskana er fjórða ferðin í ár, og virðist því flest benda til þess að áætlunin gæti alveg átt það til að standast, eða eins og ein vinur minn segir gjarnan: Það er ekkert víst að það klikki.

Að þessu sinni var tíkin Aría með í ferð, en hún hefur áður valhoppað um Siglfirskar grundir og virðist kunna því afar vel. Það var því við hæfi að þegar ég sagðist síðdegis s.l. fimmtudag sem var reyndar Skírdagur, ætla að fá mér svolítinn bíltúr og kannski labbitúr í ofanálag, að hún kæmi með mér. Hún brást vel við þessari hugmynd og faðmaði mig að sér á sinn einstaka hátt. Við fórum yfir á gamla flugvöllinn og staðnæmdust á norðurenda hans. Þar stigum við út úr bílnum, ég á tveimur jafnfljótum en hún á fjórum og gengum af stað eftir bakkanum í áttina að Evanger rústunum. En þó fórum við ekki langt í þá áttina, því ég var búinn að skipuleggja ferðalagið með sjálfum mér og engum öðrum, og hafði gætt þess vandlega að segja ekki nokkrum frá því áður en lagt var af stað. Það hefði vísast verið ávísun á skoðanaskipti sem ég taldi óþörf og ónauðsynleg með öllu, en nú skyldi nefnilega endurtaka leikinn síðan í október og halda upp í Skollaskál. Í þetta skipti skyldi þó halda markvisst og rakleiðis alveg þráðbeinustu leið upp melana fyrir norðan Ráeyri og koma upp á sunnanverða brúnina, eða fara sem sagt stystu leið að settu marki en ekkert vera að dóla fram og aftur fjallið án sýnilegs tilgangs. Snjóföl var á allri hlíðinni alveg niður í fjöru, en melarnir voru nokkurn vegin auðir.

Aría kunni þessari algerlega "taumlausu" gönguferð vel og það virtist ekki há henni eins mikið og mér að leiðin væri öll á brattann. Í hvert sinn sem ég settist á stein til að kasta mæðinni sem var nokkuð oft, fór hún í stuttar könnunarferðir um næsta nágrenni. Hún kunni sér ekki læti og velti sér upp úr snjónum svo hann festist við feldinn og gerði hana óneitanlega svolítið vetrarlega í framan.



Núna veit ég líka hvernig orðið "kald-RANI" hefur líklega upphaflega orðið til, og þá lýsingarorðið "kaldranalegur" sem getur vart annað en verið dregið af því. Hún átti það nefnilega til að stinga snoppunni í taumlausri gleði sinni undir kragann og að hálsi mér þar sem ég taldi mig ekkert endilega þurfa á svo mikilli kælingu að halda.



Eftir því sem ofar dró breyttust útlínur fjallahringsins og nýir toppar, brekkur, gil og lautir ýmist komu í ljós, urðu sýnilegri eða tóku jafnvel á sig nýja og áður óséða lögun. Mér finnst alltaf jafn skrýtið að sjá að Hólshyrnan er í raun allt allt öðru vísi í laginu en hún virðist vera þegar horft er á hana frá bænum. Á sumri komanda er ég búinn að setja mér það markmið að ganga á hana og ná góðum skotum af bænum og firðinum. Ágætt að láta sem flesta vita af því svo ég geti vart annað en staðið við stóru orðin.



Ferðin upp tók skemmri tíma en ég hafði þorað að vona, þrátt fyrir að ég væri á spariskónum eins og svo oft áður. Þegar ég stóð þarna á brúninni fannst mér enn og aftur svolítið undarlegt hvað alltaf er miklu minni snjór í fjöllunum vestan megin fjarðar. Kannski hefði ég frekar átt að klifra upp eftir hlíðunum þeim megin að þessu sinni. En hér stóð ég og útsýnið var frábært, þrátt fyrir svolítinn hríðarhraglanda annað veifið.



Við gengum aðeins inn eftir skálinni og meðfram læknum sem hvarf inn í snjógöng þegar innar dró. Þetta er bara nokkuð myndarlegur lækur sem sprettur þarna út undan rótum hnjúkanna tveggja sem gnæfa yfir fjörðinn. Þessi skál getur ekki verið neitt annað en hreint út sagt alveg ótrúlegur staður heim að sækja að sumarlagi þegar sól skín í heiði, lækurinn hjalar og blómin anga, en þetta er um það bil að verða full dramatísk lýsing inn í ímyndaða og óupplifaða framtíðina.



Það er svolítið undarleg tilfinning að ganga spölkorn inn í skálina, setjast niður og horfa á vesturfjöllin gægjast upp fyrir brúnina en sjá hvorki bæinn né bláan fjörðinn. Það er ekki alveg laust við að kyrrðin verði svolítið afgerandi og vart verði við örlítinn skammt af angurværri einsemd eða einhverri náskyldri kennd í huga þess sem hefur alið mestallan sinn aldur í þéttbýli, þar sem ysinn og þysinn eru órjúfanlegur hluta af tilverunni og margbreytilegu mannlífinu.



En það var ekki ætlunin að stoppa mjög lengi að þessu sinni, heldur var ferðin fyrst og fremst farin til að viðhalda tilfinningunni hvernig er að stelast í svolitlu leyfisleysi og allt að því banni. Ég ætla að koma hérna aftur síðsumars þegar himininn verður blár, snjórinn farinn og sólin er komin hátt á loft. Þá verður líka jafnvel farið eitthvað lengra til eða hærra upp, - hver veit. Nú skal hins vegar halda sömu leið niður og upp var farið, og síðan rakleiðis heim því það er farið að styttast í kvöldmat og ég er að verða svangur.

"Sjáðu tindinn þarna fór ég" segir í kvæðinu, en ég fór reyndar bara upp í Skollaskál að þessu sinni. Kannski verður það tindurinn næst, hver veit. En línan sem er á myndinni sýnir leiðina eins og hún var farin að þessu sinni. Ferðin tók tvo tíma og þrjár mínútur sem ég er alveg sáttur við miðað við aldur, líkamlegt ástand, fótabúnað og að það var svo sem ekkert verið að flýta sér neitt verulega.

En páskaævintýrið var síður en svo úti, því þessi ferð var aðeins forsmekkurinn að því sem á eftir fylgdi. Eiginlega bara pínulítil æfing fyrir það sem gerðist næst, en ég ætla að fara nánar yfir þann hluta málsins einhvern næstu daga.

En ég er búinn að setja talsvert af myndum í myndaalbúm í möppu merkta "Páskar á Sigló," og von á mun fleirum.

04.04.2007 19:50

Reimleikar á Aðalgötunni



                                             Aðalgata 28.

360. Það var um mitt sumarið 1981 að ég fékk næturgesti á Aðalgötu 28 þar sem ég bjó á því herrans ári.

Forsaga þess máls var sú að ég hafði haustið áður sent inn lag í Söngvakeppni sjónvarpsins sem komst alla leið í 10 laga undanúrslitin. Ég var að vonum hæstánægður því það hafði spurst út að alls hefðu borist 550 lög. Lagið hét "Eftir ballið" og við "Miðaldamennirnir" höfðum tekið það upp í hljóðveri árið 1978 þegar Selma söng með okkur. Og þar sem til var upptaka af því síðan þá, þótti okkur alveg gráupplagt að stinga kassettu í umslag og setja í póst. Ekki komust menn á toppinn með framlag sitt að þessu sinni því lag sem heitir "Af litlum neista" vann keppnina með glæsibrag, en árangurinn var engu að síður vel viðunandi. Að keppninni lokinni þótti okkur rétt að láta reyna á hvort hægt væri að fylgja málinu eitthvað eftir og fórum til Akureyrar það sem lagið var tekið upp á ný, en Erla Stefánsdóttir sem hafði sungið með hljómsveitinni Póló féllst á að vera gestasöngkona. Það var svo um sumarið að hún kom frá Akureyri ásamt Leó Torfasyni gítarleikara og Viðari Eðvarðssyni saxófónleikara og söng með okkur á Hótel Höfn. Stækkuðu Miðaldamenn því talsvert að mannafla, gæðum og umfangi, en hljómsveitin var um þetta leiti aðeins tríó. Fleiri voru með í för, þar á meðal vinkona Erlu. Um nóttina var svo mannskapnum skipt niður á bæina til að gista, og kom það í minn hlut að hýsa m.a. vinkonuna. Hún gisti í litlu herbergi í austurenda íbúðarinnar og urðum við ábúendur ekki vör við neitt óeðlilegt fyrr en um morguninn, en þá kom vinkonan fram ósofin með öllu og illa til reika. Við spurðum forviða hverju sætti, en hún sagði okkur þá að hún hefði ekki fest blund vegna mannsins sem var að ganga upp og niður stigann sem lá upp við vegginn á herberginu í alla nótt. Hún skildi ekki hvað þessum manni hafði getað gengið til með svo undarlegu háttarlagi, og vildi fá skýringar á þessu fáránlega framferði hans. Það varð svolítið vandræðaleg þögn en svo fór ég að segja henni frá stiganum sem hafði einu sinni legið upp á loft einmitt þar sem herbergisveggurinn stóð núna. Viðbrögðin voru mestmegnis skelfingarsvipur og undarleg hljóð sem bárust frá hinum syfjaða næturgesti sem sat við eldhúsborðið. Þegar nokkuð hafði slegið á mesta eftirskjálftann vegna upplýsinganna um að ónæðið væri annars heims, vildi hún koma sér út úr húsinu sem allra, allra fyrst. Við horfðum því á eftir henni hálf hlaupa við fót niður stigann og út á götu. Útidyrnar lokuðust með svolitlum skelli og síðan hef ég engar spurnir haft af stúlkunni þeirri arna.



                                   1981 útgáfan af Miðaldamönnum.

Það var svo heilum tveimur áratugum síðar að Birgir Schiöth heimsótti mig þegar hann var staddur í bænum. Við gengum um húsið og hann benti mér á hvar hann hafði fæðst, hverju hefði verið breytt og einnig hvar hefðu verið tveir stigar sem ætlaðir voru þjónustufólkinu sem bjó á loftinu. Ég sagði honum frá áðurnefndu atviki og hann hló við og kinkaði ákaft kolli. Maðurinn sem gekk upp og niður stigann hafði verið þarna frá því að húsið var byggt, en enginn vissi nein deili á honum. Aldrei hafði neinn látist innan veggja hússins frá því að það var byggt árið 1930, en hann bætti því ekkert væri að óttast því gesturinn sem enginn sá eða þekkti hið minnsta til, væri í raun hinn besti karl.

02.04.2007 10:54

Nýtt skjaldarmerki Hafnarfjarðar



359. Ekki tel ég neitt ofsagt
þó talað sé um mikil tímamót byggðar og mannlífs í Hafnarfirði eftir nýyfirstaðnar kosningar um deiliskipulag í suðurbænum. Deiliskipulag var það vissulega og ekkert annað sem íbúarnir kusu um, og hlýtur það að teljast einsdæmi hvað Hafnarfirðingar eru orðnir áhugasamir um skipulagsmál. Þeir eru svo innilega áhugasamir um skipulagsmálin að það jaðrar við trúarofstæki. En því miður bera þeir ekki gæfu til að fagna nýfengnu ofuríbúalýðræði sem hrundi nýverið beint ofan í hausinn á þeim nánast af himnum ofan. Nokkuð sem svo einstætt í sinni röð hérlendis og einnig víðast hvar erlendis, að það á sér varla nokkra hliðstæðu í hinum vestræna, frjálsa og kapítalíska heimi. Alltaf þurfa einhverjir svartir (í þessu tilfelli grænir) sauðir að rjúfa friðinn og skera upp herör gegn rödd skynseminnar. Ekki hafa þeir vitsmuni til að lifa í sátt við framfarasinnað, vel upplýst og friðsamt fólk og stuðlað með því að betri nýtingu og beislun náttúrunnar, heldur misnota nýfengið og dýrðlegt frelsið af vankunnáttu og vanþakklæti til að kljúfa samfélagið í herðar niður.

En eftir storminn lifir aldan og nú er svo komið að sundraðar fjölskyldur, fjölgun hjónaskilnaða, vinslit margra aldavina, nágrannaerjur og ýmis konar huglægur terrorismi er það sem setur hvað mestan svip á þetta áður fyrr fyrirmyndar bæjarfélag. Allt þeim að kenna sem voru á móti þeim úrslitum sem gert var ráð fyrir að fengjust. En til allrar hamingju var kosningin svo háleynileg, að þó ég sé með einhverjar léttvægar vangaveltur um málið getur að sjálfsögðu engan rennt hinn minnsta grun í hvað ég kaus.

En hvað um það, þetta er búið og gert í fyrstu lotu og það verður þess vegna bara að kjósa aftur síðar með von um heppilegri niðurstöðu. Víst er að betra er að fara á kostum en taugum eins og sagt er, og allt skynsama og fordómalausa fólkið lætur að sjálfsögðu ekki einhver misheppnuð skúffuskáld, trefla og annað lopapeysulið rugla sig í ríminu með því að hafa uppi einhverjum smávægilegan goluþeytingi vegna málsins. ?Forpokun í fyrirrúmi? getur í sjálfu sér aldrei verið markmið, og þess vegna hlýtur það að vera hin glæsta framtíðarsýn allra skynsamra manna og kvenna að hafa það að yfirskini um hríð að græða sárin og halda áfram að tala fyrir málinu og beita markvissri innrætingu og áunninni þekkingarstjórnun í því skyni. En það verður að hafa nærgætnina og yfirvegunina bæði í hávegum og fyrirrúmi, og sá á afar lævísan hátt fræjum efasemda í huga þeirra félagslegu nátttrölla sem hafa meðvitaðar kosningamisgjörðir á samviskunni. Eiginlega verður að gera það þannig að þeir sem við er rætt hafi ekki hinu minnstu hugmynd um að verið sé að heyja aðra kosningabaráttu. Og þegar svo kemur að kosningunum með litlum sem engum fyrirvara, hlýtur niðurstaðan að stuðla að auknu góðæri, farsæld og uppgangi, jafnt fyrir bæjarbúa, aðra Íslendinga svo ég tali ekki um stórvini okkar Ameríkanana. Það hefur nefnilega enginn klifið þrítugan hamarinn svo vit sé í nema það hafi verið gert í Hafnarfirði. Máltækið ?ef þú ert ekki sammála mér þá ertu óvinur minn,? á ekki við í okkar siðmenntaða samfélagi, heldur er mun vænlegra að vera einlægur í málflutningi sínum og röksemdafærslu þó maður meini ekkert með því.

Þess vegna hef ég hannað nýtt skjaldamerki Hafnarfjarðar til nota á hinum síðari og væntanlega betri tímum í þeirri von að það verði til að auka á samhygð bæjarbúa, vinarþel þeirra í garð hvors annars og sem tákn heilbrigðri skynsemi til framtíðar.

Og því er við að bæta að sá sem síðast hlær.... hugsar hægast.

  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 720
Gestir í dag: 104
Flettingar í gær: 575
Gestir í gær: 91
Samtals flettingar: 303517
Samtals gestir: 32834
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 10:08:54
clockhere

Tenglar

Eldra efni