Færslur: 2012 Febrúar

29.02.2012 02:57

Perla fyrir fimmtíukall

802. Mér finnst ákaflega gaman að gramsa svolítið og skoða gamalt dót. Vitandi að sumt af því á sér eflaust bæði langa og merka sögu sem er því miður í flestum tilfellum gleymd og týnd. Gamlir hlutir með sál sem fáir eða engir kannast lengur við heilla mig svolítið. Minningar sem búið er að yfirgefa vekja upp fortíðarþrá frá eigin brjósti og á eigin forsendum. Kitla mína innbyggðu tímavél. Þetta eru mismikið notaðir hlutir, velktir, lúnir, brotnir, beyglaðir, upplitaðir, máðir og slípaðir af tímans tönn og elli kerlingu. Þess vegna finnst mér í senn bæði skemmtilegt og fróðlegt að kíkja á nytjamarkaðina sem hefur farið fjölgandi síðustu árin. Kannski eftir að kreppan fór að bíta í rófubeinið á landsmönnum, að minnsta kosti suma þeirra og þá helst þá sem síst máttu við að harðnaði á dalnum. Markaðurinn brást þá við með því að bjóða þeim eitt og annað sem nýtilegt getur talist á afar sanngjörnu verði og viðbrögðin létu vissulega ekki á sér standa. Voru þetta þá kannski eðlileg viðbrögð hins frjálsa hagkerfis gæti einhver spurt eða var þetta eitthvað sem hefur hvort sem er alltaf vantað? Kannski einfaldur kapítalismi í umbreyttri og mun mýkri mynd en þekktist á bólutímabilinu? Kannski markaðurinn að svara kalli breyttra tíma? Jú líklega, því eftirspurnin var meiri en framboðið. Alla vega var það þannig fyrst í stað og nytjamörkuðunum hefur því farið talsvert fjölgandi síðustu misserin.

Góði Hirðirinn við Fellsmúla, Samhjálp við Stangarhyl, ABC barnahjálp við Skútuvog, Hjálpræðishersbúðirnar við Garðastræti og úti á Granda, Rauðakrossbúðirnar við Laugaveginn í Reykjavík og Strandgötu í Hafnarfirði er það sem kemur upp í hugann strax í fyrstu lotu.

Góðhjartað fólk og velviljuð fyrirtæki hafa verið sá bakhjarl sem hefur gert aðstandendum flestra þessara nytjamarkaða kleift að reka þá og fjármagna starfemi sína í leiðinni með því að fylla upp í hillurnar sem hafa oftar en ekki orðið svolítið tómlegar þegar annasamur dagur hefur verið að kvöldi kominn. Og það er vel því málstaðurinn er góður.

Fyrir nokkrum dögum átti ég leið upp í Stangarhyl og sá að það var útsala á bókum. Tíu bækur á fimmhundruðkall, og ég setti auðvitað upp gleraugum. Til gamans má geta þess að þar var líka mættur Gyrðir nokkur Elíasson stórskáld og handhafi Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2011, en ég rekst oft á hann á þessum stöðum sem ég nefndi hér að ofan.

Ég fann til einar tuttugu bækur sem ég greiddi fyrir lítinn þúsundkall og þóttist hafa gert hin ágætustu kaup sem urðu þó enn betri við nánari skoðun.
Ein bókanna heitir "HALLBJÖRG", undirtitill er "eftir sínu hjartans lagi" og hún er skráð af Stefáni Jökulssyni.

Þar er farið yfir magnað lífshlaup söngkonunnar Hallbjargar Bjarnadóttur, stúlkunnar með raddirnar þrjár, en hún hafði ótrúlegt raddsvið og söng jöfnum höndum bassa, tenór og alt. Hún var fyrsti Íslendingurinn sem steig á svið í Royal Albert Hall, lærði fyrst söng hjá Benedikt Elvar (sem var faðir Árna Elvar), sigldi á vit ævintýranna og sigraði heiminn, sigraði síðan Ísland þegar hún kom aftur heim. Hún söng í Gamla bíói í Reykjavík á stríðsárunum, Nýja bíói á Akureyri, hjá Tóra á Siglufirði á síldarárunum og alls staðar var hún sigurvegari. Eftir það fór hún utan, sigraði heiminn aftur og söng m.a. með ekki ófrægari manni en Nat King Cole.

Svo sat hún fyrir hjá Kjarval sem fáar konur hafa líklega gert.

Hallbjörg var fædd í Hjallabúð á Brimisvöllum sem eru í Fróðárhreppi á Snæfellsnesi en ólst upp á Brunnastöðum á Akranesi. Hún fór ung utan og bjó lengst af í Danmörku en einnig í Bandarríkjunum um nokkurra ára skeið. Hún flutti aftur heim til Íslands árið 1992. Hallbjörg átti tvær systur, Kristbjörgu sem var reyndar tvíburasystir Hallbjargar og Steinunni sem var nokkrum árum yngri. Og allar urðu þær ýmist söng og/eða leikkonur.

Hallbjörg var fædd þ. 11. apríl árið 1915 og andaðist á Íslandi þ. 28. September árið 1997.


Einnig má geta þess að revíusöngkonan og leikkonan Steinka Bjarna söng með Stuðmönnum á plötunni Sumar á Sýrlandi lagið "Strax í dag".

Ég var með Badda á bjúkkanum í gær.

Ég var með Lilla á lettanum í dag.

Og heitasta óskin er sú.

Að hann Kalli komi kagganum í lag,

strax í dag.


 


Þegar heim var komið opnaði ég eina bókina og sá þá að eitthvað var ritað á saurblaðið. Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum þegar ég áttaði mig á hvernig í pottinn var búið. 


Ef farið er er inn á slóðina http://www.youtube.com/watch?feature=endscreen&NR=1&v=hZ4BODQe1RA má sjá Hallbjörgu á hressilegu spjalli hjá Hemma Gunn þar sem hún tekur einnig lagið, þá orðin 75 ára gömul.

23.02.2012 19:25

Gramsað í gömlum málum


801. í nýliðinni viku réðist ég í talsvert stórvirki sem lengi hefur verið ofarlega á listanum yfir það sem bráðnauðsynlegt hefur verið talið að hrinda í framkvæmd. En það var að taka til í geymslunni, henda öllu því sem var hægt að henda með þokkalegri samvisku og ganga síðan frá því sem eftir væri á sæmilega snyrtilegan hátt. Sem sagt allt í röð og reglu eða þannig. Það er vægt til orða tekið að það hafi kennt ýmissa grasa í öllu því sem farið var höndum (og augum) um og margt var þarna sem teljast verður stórskemmtilegt. Í það minnsta afar fróðlegt og oft vel til þess fallið að vekja upp gamlar og hálfgleymdar minningar um löngu liðna tíð.

Meðal annars rakst ég á heilmikinn bunka af notuðum ávísanaheftum sem ég blaðaði lengi í og vöktu talsverða kátínu hjá afkomendum mínum, en sumir þeirra hafa aldrei á ævinni notað þessa aðferð við að greiða fyrir vörur og/eða þjónustu.

 

Með lestri á svuntum ávísanaheftanna sá ég að ég hafði á árinu 1986 greitt kr. 7.200 í júní fyrir þýðingu á heimildamyndinni Bermúda þríhyrningnum sem við hjá Videóbirninum gáfum síðan út og heilar 27.000 kr. fyrir prentun í Sólnaprenti á fjórum videókápum. Það hefur verið talsvert flandur á mér í ágústmánuði, því ég tek bensín á Hellu fyrir 560 kr. til að komast í bæinn, kaupi dekk á Akureyri fyrir 2.170 kr., annað í Stykkishólmi á 2.240 kr. í vikunni á eftir og tek bensín í Ólafsvík fyrir 900 kr., en á þessum tíma vann ég fyrir mér sem sölumaður og fór þá gjarnan einn hring um landið í hverjum mánuði allan ársins hring. Ég keypti mér bíl fyrir 75.000 í október og borgaði Jonna tannlækni með 10.000 ávísun fram í tímann og annari upp á rúman 7.000 sem mátti fara inn strax, dekkjagang sem kostaði kominn undir 12.840 í nóvember.

 

Í janúarmánuði 1987 heimsótti mig virðulegur kvikmyndagerðarmaður sem kynnti sig og sagðist heita Reynir Oddsson. Ég man að við tókum langt og mikið tal saman sem endaði með því að ég keypti af honum óseldan lager af íslensku myndinni "Morðsaga" sem hann framleiddi og leikstýrði. En þar sem svuntan á ávísanaheftinu hefur blotnað og blekið runnið svo kyrfilega til að það er með öllu ólæsilegt sem á henni stendur, sé ég ekki hvað sú fjárfesting hefur verið stór.

Þá sé ég að ég hef greitt út laun til "Frikka" upp á heilar 6.015 krónur, en umræddur "Frikki" er athafnamaðurinn þekkti Friðrik Weisshappel sem þá var nýorðinn 17 ára og tók eina og eina kvöldvakt með skólanum.

Þá keypti ég nokkuð öflugan tjakk upp á 1.000 kall í febrúar, fáeinum dögum síðar fór 300 kall í taxa og í ágúst fór ég með fötin mín í hreinsun og borgaði fyrir það 265 krónur.

Þann 16. nóvember hef ég verið staddur á Akureyri og líst greinilega ekki betur en svo á færðina, að ég fjárfesti í rándýrum keðjum upp á heilar 4.050 kr. Tveimur dögum síðar verður dekk ónýtt á Ísafirði svo það verður að kaupa nýtt sem kostar 3.373 kr. komið undir bílinn. Í desember gerði ég mér ferð upp í Bíóhöll til Árna Sam og verslaði stórt, því þar hef ég gefið út ávísanaröð upp á hvorki meira né minna hálfa milljón og allt fram í tímann og fimm hundraðþúsundkallar duttu inn á næstu fimm vikunum. Þarna var ég að versla bæði fyrir Videóbjörninn sem ég rak ásamt Guðnýju Reimarsdóttur endurskoðanda og þó heldur meira fyrir þá félaga Jóstein Kristjánsson og Björn (faðir Selmu Björns söngkonu) sem ráku á þessum tíma Sesarvideo við Grensásveg og Neróvideó við Austurberg, en þeir munu þá hafa verið í viðskiptabanni hjá Árna.

 

Í janúar 1988 hófst árið á því að tekið var bensín fyrir 200 krónur, ég greiddi Bjarna Harðar hluta af kaupverði íbúðarinnar að Suðurgötu 24 á Sigló í febrúar upp á heilar 30.000 krónur og ég gerðist helmingseigandi að Laugarásvideó í maí.

 

Og svo mætti lengi telja.

14.02.2012 08:43

Smalað með súrum hval, hákarli og brennivíni


800. Á dögunum var ég að spila á afar vel heppnuðu þorrablóti austur í Mýrdal. Það var dansað til klukkan 3 eins og reglugerðin segir til um, en þá var ennþá svo mikið stuð á gólfinu að það þótti full ástæða að bæta við nokkrum aukalögum. Fyrst var framlengt um korter, en sagan endurtók sig og aftur var framlengt um korter. Þegar klukkan var orðin 3.30 var útlit fyrir að enn yrði haldið áfram örlítið lengur, en þá fengum við skýrar meldingar frá húsráðanda um að nú væri nóg komið að sinni. Eftir að við höfðum pakkað saman og tilbúnir til heimferðar, var sest inn í eldhús yfir svolítinn aukaþorrabita og spjall fyrir brottförina. Við fengum þá m.a. að heyra söguna um hina úrræðagóðu nefndarmenn og smölunina sem fór fram síðustu dagana fyrir blót sem verður væntanlega lengi í minnum höfð.

Mannamótið hafði verið auglýst með venjubundnum hætti og boð látin út ganga meðal íbúa sveitarinnar, þar sem óskað eftir að þeir sem hyggðust taka þátt í gleðinni tilkynntu þáttöku eigi síðar en þann 28. jan. Dagarnir liðu, nefndin fundaði stíft og safnaði í skemmtiatriðasarpinn, en fimmtudaginn 26. jan. eða tveimur dögum áður en fresturinn rann út var útlitið allt annan gott, því aðeins einn hafði lýst áhuga sínum á að mæta. Það leit því ekki sérlega vel út með blótið og einhverjir höfðu á orði að þetta yrði líklega svanasöngur þessarar gömlu hefðar. Nú voru góð ráð dýr, en dugandi fólk drepst ekki ráðalaust. Nefndin skipti liði og hélt af stað í húsvitjanir, nestuð súrum hval, hákarli og íslensku brennivíni. Bankað var upp á á hverjum bæ í sveitinni, boðskapurinn kynntur og safnað liði. Árangurinn varð fjölmennasta þorrablót í áraraðir.

10.02.2012 11:06

Bréf (eða erindisbréf)799. Mér hefur alltaf þótt frekar skemmtilegt að fá bréf, og þá meina ég svona alvöru bréf frá einhverjum sem maður þekkir en ekki t.d. einhvern súran og þurran gluggapóst eða því um líkt. Því miður hefur sá góði siður að mestu lagst af eins og svo margt úr fortíðinni sem veruleg eftirsjá er í. En þegar eitt hverfur, þá kemur alltaf eitthvað annað og fyllir skarðið, en hvort það er svo verra eða betra er umdeilanlegt. Við erum vissulega ennþá alltaf að fá bréf og mikið af þeim, þó þau séu orðin í rafrænu formi í samræmi við nútímann og samskiptin manna á millum hafa örugglega aldrei verið meiri. Er þá nokkur ástæða til að kvarta og er nokkurs að sakna?

Ég fékk bréf síðast í gær. Það var mjög einlægt, vinalegt, fullt af kærleika og með ólíkindum persónulegt þó ég muni ekki eftir sendandanum í augnablikinu, en líklega hefur hann eða réttara sagt hún bara liðið mér úr minni um stundarsakir og ástæðan hlýtur að vera andleg hrörnum og elliglöp. En mér finnst andinn í bréfinu svo innilega jákvæður og hugarfarið sem að baki býr svo þrungið velvilja og væntumþykju í minn garð, að það er engu líkara en sendandinn sé af englum kominn en ekki mönnum. Ég er ekki enn búinn að svara bréfinu og veit eiginlega ekki hvernig ég á að gera það, því að í hvert sinn sem ég les það yfir og reyni að finna til einhver orð sem hæfa, fæ ég sting í hjartað, hugur minn tæmist og tilfinningasemin tekur öll völd.

Ég get ekki setið á mér að birta þetta fallega bréf þó ég viti vel að það eigi að vera bæði einkamál og í leiðinni leyndarmál mitt og hennar Zianab sem ég man því miður ekki eftir í augnablikinu eins og áður segir, en það gæti auðvitað rofað til á góðum degi...

-

"Halló minn kæri þú fengið nudd.

Halló mín kærust vin. Ánægja mín að hitta þig, og hvernig ert þú að gera í dag? Mitt nafn er Zianab Omar Nkaje, einn ung stúlka á 23 ára. Ég er auðvelt að fara, heiðarlegur, umhyggju, kurteis, auðmjúkur, elskandi, rólegt og leita að þroska mann með góða kímnigáfu og kærleika fremur sjá það sem leið til gaman, sá ég uppsetningu á síðuna á meðan vafrað er og ákveðið að hafa samband við þig. Ég mun eins og okkur að vera vinir. Vinsamlegast hafðu samband við mig með ofangreindum netfang, mun ég upplýsingar meira um sjálfan mig til þín á næsta svari mínu til þín líka. vona að heyra frá þér fljótlega. Takk þér og hafa a ágætur dagur.

Kveðja. Zianab........."

08.02.2012 15:47

Fálkaorða til sölu


798. Mig rak í rogastans þegar ég sá fálkaorðu auglýsta til sölu á smáauglýsingavefnum bland.is. Eftirfarandi úrdrátt úr reglugerð um Hina íslensku fálkaorðu er að finna á vefnum http://www.forseti.is

"Tillögur með tilnefningum verða að berast með formlegum hætti, skriflegar og undirritaðar. Þar skal rekja æviatriði þess sem tilnefndur er og greina frá því starfi eða framlagi til samfélagsins sem talið er að sé þess eðlis að heiðra beri viðkomandi fyrir það með fálkaorðunni. Fleiri en einn geta undirritað tilnefningarbréf en aðalreglan er að undirskrift eins nægir. Orðunefnd berast á hverju ári um 80-100 tilnefningar. Við andlát þess er fálkaorðuna hefur hlotið ber erfingjum hans að skila orðuritara orðunni aftur".

Orðunni er því samkvæmt ofansögðu ekki ætlað að fara á flakk þegar fram líða stundir, en auglýsingin var orðuð með eftirfarandi hætti akkúrat og nákvæmlega:

"Er með til sölu fákaorðu, hún er einhverra áratuga gömul og veit ekki uppruna hennar. Óska eftir tilboði og sendist það á mail verdlaunagripir@simnet.is

Ég keypti hana á uppboði í London og ræð þar af leiðandi hvað ég geri við hana, ég held samt að þeir sem fái úthlutað slíkum orðum megi ekki selja".

-

Svo mörg voru þau orð...

04.02.2012 08:39

Þorrablót797. Nú er þorra blótað um hverja helgi og því víða kátt sé til sveita um þessar mundir. Ég hef eins og undanfarin ár verið að spila talsvert á þessari tegund mannamóta ef þannig mætti að orði komast, og í ár kom meðspilarann Axel Einarsson sem nú er fluttur af landi brott, sérstaklega frá Svíaríki til að taka þátt í gleðinni. Ég segi "þessari tegund mannamóta", því hin þjóðlegu þorrablót eru talsvert frábrugðin öðrum samkomum þó til sveita séu, svo ég tali nú ekki um þegar slegið er upp skralli í þéttbýlinu. Það er eins gott að vera þokkalega vel heima í bæði gömlum dönsum sem og nýjum. Og nýju dansarnir sem svo eru kallaðir, geta jafnvel verið nokkuð komnir til ára sinna, t.d. verið úr smiðju Bítlanna eða Ragga Bjarna, Hljóma eða Stones, Elvis eða Lúdó.
Á þorrablótum er oft engu líkara en margir hverjir sem eru jafnvel komnir vel til vits og ára, gangi hreinlega í endurnýjun lífdaga á dansgólfinu, meðan aðrir og þá oft yngri menn og konur endast mun skemur. Um síðustu helgi vorum við að spila fyrir Átthagafélag Sléttuhrepps á Stöndum. Ég veitti athygli manni sem gæti vel hafa verið um sextugt sem virtist vera búinn að dansa sína skyldudansa laust upp úr miðnætti. Honum þótti þá greinilega nóg að gert þetta kvöldið, seildist eftir jakka sínum á stólbakinu og skömmu síðar var hann horfinn af vettvangi ásamt spúsu sinni. Annar sem ég er sannfærðir um að hefur ekki verið deginum yngri en áttatíu, fór allt öðru vísi að. Við fyrsta lag spratt hann á fætur og ég man ekki til þess að hafa séð hann setjast að minnsta kosti næstu tvo tímana. Hann var maður kvöldsins í mínum augum. Og ágætlega fótmenntaðir vestfirðingarnir halda fast í gamla siði og venjur, því það var mikið beðið um skottís, ræl, marsurka, vínarkrus og að sjálfsögðu valsa í löngum bunum. Mér fannst gaman að þeirri upprifjun, því gömlu dansarnir hafa því miður verið á talsverðu undanhaldi undanfarin ár. Ég spilaði því allt sem ég kunni af þeirri tegundinni sem er all nokkuð að magninu til.

Helgina á undan vorum við meðal Borgfirðinga, þá var meðalaldurinn nokkuð lægri og tjúttkynslóðin réð lögum og lofum á dansgólfinu. Þar kom maður til mín, líklega ekki mikið sjaldnar en tíu sinnum og bað um meira Prestley stöff.

Í dag verður lagt land undir dekk og ekið alla leið austur í Mýrdal þar sem þorranum verður blótað á Hótel Dyrhólaey. Ég neita því ekki að þetta talsverður spölur að fara og það verður líklega ekki alveg átakalaust að aka til baka á sunnudagsmorgni. En ég fór á þennan frábæra stað í fyrra ásamt félögum mínum þeim Magga Guðbrands og Bigga Inga, og veit því að þarna austur frá býr skemmtilegt fólk sem gaman er að sækja heim sem gerir auðvitað gæfumuninn. Og ef ég man rétt þá voru menn nokkuð hallir undir gamla diskóið þarna austur frá.

  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 257
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 415
Gestir í gær: 117
Samtals flettingar: 344616
Samtals gestir: 38295
Tölur uppfærðar: 24.5.2024 15:06:17
clockhere

Tenglar

Eldra efni