Færslur: 2008 Janúar

30.01.2008 18:53

Þykkvibær.



442. Ég átti leið austur í Þykkvabæ í vikunni. Áður en ég lagði af stað leit ég aðeins á veðrið í tölvunni og sá að samkvæmt því átti að vera glaða sólskin á suðurlandinu um hádegisbilið þann daginn. Ég hafði reyndar heyrt því fleygt deginum áður að þetta yrði besti dagur vikunnar svona veðurfarslega séð, en varla verður sagt að það hafi gengið eftir nema að litlu leyti. Auðvitað var myndavélin með í för og henni var líka beitt eftir því sem aðstæður gáfu tilefni til. Á leiðinni niður af þjóðvegi eitt til Þykkvabæjar sá ég svolítið skrýtin ský í austrinu og sólargeislana vera að reyna að brjótast í gegn um þau. Úr þessu varð skemmtilegt sjónarspil og svolítill leikur ljóss, skugga og skýja. Ég snaraðist því út úr bílnum, reyndi að finna heppilega stillingu á myndavélinni og byrjaði að skjóta.



Með hjálp aðdráttarlinsunnar færði ég mig nær, eða öllu heldur dró myndefnið nær mér.



Og ennþá nær.



Ég staldraði við til að taka mynd af kirkjunni, en eins og sjá má eru fjölmargir hvítir deplar inni á myndinni. Það eru snjókorn sem mér fannst vera risastór miðað við það sem ég á að venjast. Það gerði nefnilega allt í einu mjög skyndilega gríðarlega mikla ofankomu sem hætti líka jafn skjótt og hún byrjaði. 



Neðri myndin af kirkjunni er tekin nákvæmlega einni mínútu á eftir þeirri efri. - Allt búið.



"Það er svalt að vera hestur." - Allavega í kuldakastinu sem gengið hefur yfir síðustu daga.



Á leiðinni til baka veitti ég athygli þessum undarlegu mannvirkjum. Ég velti fyrir mér hvaða tilgangi þau þjónuðu en hef ekki enn komist að neinni niðurstöðu.



"Áður fyrr var Þykkvibær umflotinn vatni á alla vegu og kýr bændanna varð að reka á sund til að koma þeim á haga. Fólk varð að vaða upp í mitti eða dýpra til að komst á milli bæja og erfitt var að fást við heyskap. Auk þess brutu vötnin landið, en árið 1923 var öflug fyrirhleðsla byggð þvert yfir Djúpós og er nú akvegur eftir stíflugarðinum. Minnismerki var reist um þennan merka atburð í sögu þorpsins sem í raun breytti þar öllu mannlífi og búskap."
(Gúgglað af http://www.allseasonhotels.is/)



Hér stendur ritað...
"Verkið var unnið að frumkvæði heimamanna og var einn mesta þrekvirki sem þá var unnið á Íslandi. Stíflan var 340 m. löng og 15 m. breið. Um 4000 dagsverk þurfti til að ljúka verkinu. Verkið hófst 26. maí og straumurinn stöðvaður 4. júlí."



En hvaða klettar eru þarna niður við ströndina?
Rétt svar er Vestmannaeyjar í slæmu skyggni en með hjálp góðrar aðrdráttarlinsu.

29.01.2008 21:43

Home alone 2 - fyrri hluti.

441. Eins og kom fram fyrir margt löngu síðan þegar uppi voru aðstæður svipaðar þeim sem nú eru, er ég ekkert sérlega mikil húsmóðir í eðli mínu. Þegar mér er ætlað það krefjandi hlutverk að gæta bús og bara, á að sjá til þess að allir hafi í sig og á og að ganga í hefðbundin heimilisstörf, getur eitt og annað farið öðruvísi en til stóð. Það hefur svo sem gerst áður og það gerðist einnig nú, því miður. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki mjög sterkur á svellinu þegar kemur að eldamennskuþættinum og skyldum störfum, þó að ég hafi við illan leik lært að setja í þvottavél síðast þegar ég var staðgengill húsmóðurinnar vegna tímabundinnar fjarveru hennar. Ég vil samt ekki líta alfarið neikvætt á stöðu mála, af því að í því felast einnig sóknartækifæri ef vel er gáð. Ég fæ auðvitað tækifæri í leiðinni til að sanna mig og sýna fram á að ég er ekki jafn ósjálfbjarga og gefið hefur verið í skyn af ónefndum fjölskyldumeðlimum, þó svo að ég sé skilinn eftir til þess að gera eftirlitslítill í fáeina daga.

 



Til að afsanna fram komnar kenningar um takmarkaða hæfni mína á þessu sviði, fékk ég þá flugu í höfuðið að gera það sem mér hefur aldrei áður til hugar komið að reyna af framkvæma. Ég ætlaði að baka köku, þrátt fyrir að engar kröfur eða beiðni hafi komið fram um slíkan gjörning nema síður væri. Það er jú alltaf gaman að koma fólki á óvart og hver veit nema óvænt tiltæki eins og það gæti orðið til þess að ég fengi langþráð klapp á bakið.

En þar sem ég hef aldrei bakað köku, veit ég auðvitað mjög lítið um hvernig slíkt er gert. Ég hef þó séð eitt og annað uppi á eldhúsborðinu sem samheitið "bökunarvörur" er oftar en ekki notað um og veit svona nokkurn vegin hvað fellur undir þá skilgreiningu. Ég man að amma mín notaði gjarnan orðasambandið "að slumpa í köku" þegar hún tók til hendinni í þeim efnum. Ég skildi það svo að hún blessunin setti saman eitthvað eftir minni, eða jafnvel bara það sem væri til hverju sinni í stóra skál, hrærði eða hnoðaði síðan vel og vandlega en síðan tæki ofninn við. Út úr honum kæmi svo ilmandi kaka sem var undantekningalaust étin upp til agna á skammri stund. Þetta getur bara ekki verið mjög flókið ferli.

Þar sem ég vissi í hvaða skáp hrærivélin er geymd sem er auðvitað ekkert sjálfgefið, tók það skamma stund að gera hana tilbúna. Þá var komið að hveitinu sem ég veit að undantekningalaust notað þegar bakað er, - held ég.

"Ég er nú ekki svo vitlaus," hugsaði ég með sjálfum mér meðan ég leitaði að hveitinu sem ég gat hvergi fundið.

Ef ekkert slíkt er til verða menn bara að skreppa eftir því hið snarasta. Ég renndi niður í 10-11 og fann strax það sem ég taldi mig vanta.

"Nokkuð fleira?" Hún Anna litla sem á heima í næstu blokk var að afgreiða og brosti sínu blíðasta.

"Nei Anna mín, mig vantaði bara svolítið hveiti."

Andlitið á Önnu breyttist og varð eins hún hefði bitið í mjög súra sítrónu.

"En þetta er ekki hveiti, þetta er kartöflumjöl."

Kona fyrir aftan mig flissaði en Anna bjargaði mér frá frekari vandræðum með því að fara og sækja sjálf það sem mig vantaði.

"En þetta er Kornax hvað sem það nú annars er," sagði ég.

"Já, þetta er Kornax hveiti. Þú ert nú meiri brandarakarlinn."

Konan fyrir aftan mig flissaði aftur.

Þá sá ég að það stóð Kornax lárétt á pakkanum með svörtu letri, en hveiti lóðrétt með rauðu letri og annarri stafagerð.

"Rosalega eru þetta villandi merkingar" sagði ég í nöldurtón.

"Er fólk ekki alltaf að ruglast?"

Konan fyrir aftan mig hreinlega sprakk. Hún hló bæði á innsoginu og útsoginu og mér fannst hún hlægja á afar lítt þokkafullan hátt, en Anna laut höfði og horfði fast niður á fætur sér. Ég borgaði og flýtti mér heim með Kornax hveitið.

Sykur!

Ég veit líka að það á að nota sykur í bakstur, en hvar ætli sykurinn sé geymdur. Ég opnaði stóra skápinn við hliðina á ísskápnum sem stundum er kallaður "búrið." Við mér blasti talsvert magn af Kornax hveiti, en engan sykur var að finna. En þarna var flórsykur, púðursykur og molasykur, en engan strásykur. Sjitt, ég fer sko alls ekki aftur niður í 10-11 til að láta hlægja að mér. Ég velti fyrir mér hvort ég gæti ekki bjargað mér með það sem til væri. Er ekki sykur annars bara sykur eða hvað? Ég hélt leitinni áfram svolítið lengur en varð ekki var við neitt sem hét bara sykur eða strásykur. Ég tók því pakkann með molasykrinum og hellti honum í skál. Ég fann síðan eitthvað apparat í einni eldhússkúffunni og byrjaði að hnoða molasykurinn. Eftir svolítið hnoð höfðu molarnir brotnað í talsvert minni mola og fínan salla, en þar sem þetta var ekki sérlega mikið magn fannst mér það hlyti að vera í lagi að drýgja það með bæði púður og flór.

Smjörlíki!

Það á líka að vera með. Ég fann tæplega hálft smjörlíkisstykki inni í ísskáp, en ætli það sé alveg nóg? Létt & laggott er svipað í sjón svo ég skóf innan úr einni slíkri dollu og bætti við það sem fyrir var.

En það hlýtur að vera eitthvað fleira sem er notað í kökur eða hvað. Ég opnaði stóra skápinn aftur og fór yfir hillurnar.

Nupo-létt, íssósa, Ritzkex, fiskibollur í dós, tómatsósa, vanilludropar, grænar baunir og rúsínur var meðal þess sem þar var. Svolitlu af vanilludropum og vænni lúku af rúsínum sem reyndust vera súkkulaðirúsínur var bætt við í hrærivélarskálina.

En hvort notar maður vatn eða mjólk til að bleyta í öllu draslinu? Þar sem ég hafði ekki minnstu hugmynd um hvort væri réttara, eðlilegra eða betra, má segja að það hafi kannski verið svolítið diplómatísk lausn að fara bil beggja. Ég bætti því svolitlu vatni og svolítilli mjólk út í skálina.

Ég leit aftur inn í skápinn.

Kaffi, hrísgrjón, gular baunir og rauðkál. Ég hrukkaði ennið. Það er vissulega til t.d. kaffisúkkulaði sem er skrambi gott og það hlýtur af vera notað kaffi í það.

Nú gæti einhverjum dottið í hug að ég hefði sturtað út BKI pakkanum, en það gerði ég ekki. Ég var nú farinn að finna mig í kökugerðinni og smátt og smátt farinn að hafa svolitla trú á sjálfum mér í framtakinu. Ég hellti afganginum af gamla kaffinu síðan í gær út í hið verðandi kökudeig og hugsað með mér að það verði líka að sýna af sér svolitla nýtni og ráðdeildarsemi endrum og sinnum.

En gular baunir?

Ég veit alveg að gular baunir eru notaðar í "saltkjöt & baunir" á Sprengidaginn, en til hvers ætli þær séu notaðar þess á milli. Ég skoðaði þessar gulu baunir svolítið betur og sá að það var búið að kljúfa þær allar í miðju. Þetta voru því bara "hálfbaunir," en til hvers ætli þetta sé gert? Getur verið að það sé til að þær blotni betur upp og linist við hita? Verði jafnvel mjúkar og gefi því sem þær eru notaðar í skemmtilegan keim og/eða fyllingu? Endalausar spurningar um gular hálfbaunir vöknuðu í huga mér, en ég átti engin svör við neinni þeirra. Með hálfum huga og hikandi handarhreyfingum fór þó ein lúka eða svo út í með öllu hinu.

Lyftiduft!

Alveg rétt, en er þetta ekki að verða nóg? Ég hafði auðvitað ekki hugmynd um það en opnaði skápinn í þriðja sinn. Efsta hillan var full af kryddi, en skyldi krydd vera notað í kökur? Jú, það var sungið um það í piparkökusöngnum svo það hlaut að vera gert. Ég mundi líka eftir að hafa séð köku úti í búð sem hét Kryddkaka. Ég fór því létta umferð yfir kryddhilluna og valdi nokkur krydd sem ég taldi að gætu komið að gagni.

Whole black peppercorns,  white pepper, piparblanda - fjórar árstíðir, sítrónupipar, garlic pepper og cayennepipar og chilipipar. Ennfremur malað kúmen, en því miður datt lokið af bauknum svo innihaldið fór allt ofan í skálina. En það var reyndar innan við helmingurinn eftir í bauknum svo það hlaut að sleppa auk þess að t.d. kúmenbrauð er mjög gott brauð, en það er nú með alvag bullandi kúmenbragði.

Ég setti hrærivélina nú í gang og hún malaði um stund meðan ég horfði stoltur á innihaldið blandast saman, en útkoman var samt ekki mjög lík neinu kökudeigi eins og ég hef séð það til þessa. Þetta var miklu líkara blautri steypu sem er á leiðinni í mót. En hvað um það, það geta ekki allar kökur verið eins. Ég leitaði nú uppi kökuform sem ég fann að lokum og hellti innihaldinu í það. Þegar það var fullt var samt helmingurinn eftir í hrærivélarskálinni svo ég þurfti greinilega annað form. En til þess að auka á fjölbreytnina fannst mér upplagt að bæta einhverju út í afganginn af deiginu, því þá væri ég að bakstri loknum kominn með tvær sortir en ekki bara eina.

Ég veit ekki af hverju brauðtertur komu upp í hugann, en það varð alla vega til þess að ég opnaði dós af aspas sem ég fann og bætti út í ásamt svolitlu af skinkustrimlum og mayonnaise. Til áhersluauka einnig tveimur matskeiðum að marmelaði til að laða fram mjúkan appelsínukeim.

Ég fann annað form og hellti afganginum í það, kveikti á ofninum og nú var væntanlega ekki langt í veisluna.

Ég fylgdist með í gegn um glerið á ofnhurðinni, en mér fannst lítið gerast þarna inni. Áttu kökurnar að lyftast eða áttu þær kannski ekki að lyftast? Áttu þær ekki að taka á sig einhvern lit og yfirborð þeirra að breytast frá því að virka svona rennblautt og hráslagalegt? Átti ég ekki annars að kveikja á ofninum um leið og kökurnar fóru inn, eða átti að gera það annað hvort skömmu áður eða skömmu síðar?

Það leið heil eilífð áður en ég sá nokkuð fara að breytast, en það gerðist þó á endanum. Kökurnar urðu sællegri að sjá í gegn um glerið, stækkuðu og lyftu sér upp úr formunum. Þær stækkuðu reyndar svo mikið og hratt um tíma að mér var hætt að lítast á blikuna. En svo hættu þær að stækka og þar kom að ég slökkti á ofninum, náði mér í þar til gerða hanska og setti afurðirnar upp á bekk til kælingar.

Tíminn leið og ég átti svolítið erfitt með mig af spenningi, en kökur verða samt að fá að kólna aðeins - held ég. Ég hafði verið einn heima í þessu kökubrasi framan af degi, en nú fór að fjölga á heimilinu.

"Krakkar komiði í nýbakaða köku."

Þau komu bæði í eldhúsdyrnar og horfðu forviða á mig en síðan hvort á annað. Hver kom með þessa köku hingað og hvaða skrýtna lykt er þetta?

Ég svaraði engu en náði í diska og kökuhníf, skar væna sneið af báðum kökunum á hvern disk og rétti þeim.

Þau hikuðu enn, horfðu á mig svolítið hissa á svipinn og síðan aftur hvort á annað.

Minný beit í aðra kökuna, leit síðan snöggt upp og sagði síðan án þess að kyngja.

"Ég ætla að borða þetta inni í herbergi."

Hún var horfin á braut með það sama og ég heyrði dyrnar lokast en gluggann opnast með svolitlum rykk.

"Það hefur líklega verið hitamolla inni hjá henni" hugsaði ég með mér.

Gulli settist við eldhúsborðið, náði sér í mjólkurglas og fékk sér stóran bita, saup vel á mjólkinni og byrjaði að smjatta. Svo hætti hann því skyndilega og kinnarnar urðu eins og tvær litlar blöðrur til beggja hliða. Hann stóð upp og horfði fast á mig, hendur hans lyftust eins og hann ætlaði að blessa mig fyrir vel unnin störf, en settist síðan aftur og byrjaði að kyngja í áföngum.

"Ertu búinn að smakka þetta sjálfur?" Hann stóð upp og gekk út úr eldhúsinu.

"Á ekki að klára?"

"Nei takk, ég treysti mér alls ekki til þess" sagði hann alveg ákveðið og dyrnar á herbergi hans lokuðust.

Ég get ekki neitað því að á þessu augnabliki fylltist ég efasemdum um árangur verka minna og hæfileika á sviði brauð og kökugerðar, en auðvitað varð ég að kanna málið til hlítar. Ég lét mig hafa það að smakka á báðum gerðum og verð að viðurkenna þá nöturlegu staðreynd að önnur var sýnu verri en hin sem verður þó engu að síður að teljast með öllu óæt.

 

En ég skil bara ekki hvað klikkaði...

26.01.2008 03:36

Óli & Villi



440. Ó, Reykjavík, ó, Reykjavík, þú yndisfagra borg... Það var hljómsveitin Vonbrigði sem flutti lagið í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík árið 1982. Þá var mikil gróska í tónlistarlífinu í höfuðborginni og segja má að enn sé veruleg gróska á sama stað, en kannski þó öllu meiri í pólitíkinni sem stendur. Og ljóst er að vonbrigði (þó ekki hljómsveitin) hafa enn og aftur komið við sögu hjá einhverjum, alla vega miðað við hasarinn í Ráðhúsinu á dögunum.

Ólafur er sagður hafa tekið "(metorða)rúllustigann eða jafnvel hraðlyftuna upp allar hæðirnar í einum áfanga," og því gæti leiðin ekki legið nema bara niður úr því sem komið væri. Ég var að gúggla svolítið og sá pistil þar sem pólitíkus nokkur er uppnefndur "Lánlausi Villi." Það er auðvitað ljótt að uppnefna fólk, en hver ætli það sé annars...? Það er greinilega heitt í kolunum í henni Reykjavík um þessar mundir og víst er að ekki er hægt að tala um gúrkutíð þessa síðustu daga fyrir Þorra.

Eftirfarandi "frétt" var að finna á baggalutur.is
Hlutirnir gerast hratt í ráðhúsi Reykjavíkur þessa stundina. Óstaðfestar heimildir herma að nýr borgarstjórnarmeirihluti hafi verið myndaður nú rétt í þessu.
Mun meirihlutinn skipaður sjálfstæðismönnum 40 ára og yngri, flakkaranum svonefnda auk auðra og ógildra.

Einn óháðasti armur F-lista og sjálfstæðisflokkur hafa náð saman um nýjan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, þann tólfta á þessu kjörtímabili.
Mun meirihlutinn starfa undir slagorðinu Bingi sökkar! og er meginmarkmið hans að "halda völdum frá kómúnistum og kellingum," eins og segir í málefnasamningi flokkanna.

Gert er ráð fyrir að meirihlutinn haldi eitthvað fram eftir vikunni, en fljótlega verður svo haldið áfram að reyna öll þau mögulegu mynstur sem koma til greina við stjórn borgarinnar, til að fullnægja vilja sem flestra kjósenda.

Vonandi fer þessi mynd ekki fyrir brjóstið á neinum, en ég veit samt ekki hvort þessi Ráðhúsfarsi er fyndinn mikið lengur.

19.01.2008 13:50

Janúarferð á Sigló.



439. Eins og áður hefur komið fram skrapp ég á Sigló á dögunum, eða nánar tiltekið þ. 11. - 14. jan. s.l. Að  þessu sinni gætti ég þess betur en í næstu ferð á undan að hafa kort í myndavélinni. Það er sagt að mistökin séu bæði til þess að læra af þeim svo og að gera þau aftur, en mér finnst fyrri kosturinn mun fýsilegri ef ég má velja. Ég hafði líka meðferðis þrífótinn góða sem ég fékk í jólagjöf í hitteðfyrra því ég var ákveðinn í að reyna að taka nokkrar "næturmyndir," sem eftir á að hyggja varð eins konar myndaþema ferðarinnar ásamt Siglufjarðarkirkju sem ég horfði sennilega oftar til en nokkru sinni áður. Ekki er víst að það hafi verið af trúarlegum ástæðum einum saman, heldur miklu frekar vegna þess að þarna stendur svipmikið og reisulegt hús afar vel á sínum stað. Það er fyrir löngu orðið tákn þeirrar bjartsýni og framsýni sem einkenndi manninn á bak við tilurð þess, en hann hét Bjarni Þorsteinsson eins og flestir vita og var réttnefndur faðir Siglufjarðar. Þetta mikla hús verður honum um alla framtíð sá minnisvarði sem hann á svo sannarlega skilið fyrir öll þau góðu verk sem hann vann fyrir bæinn og íbúa hans.



Hún stendur eins og klettur upp úr ljóshafinu. Ég fer oft "yfir á Ás" eins og Saurbæjarásinn var alltaf kallaður í mínu ungdæmi og horfi yfir til bæjarins.



Og við færum okkur nær með hjálp aðdráttarlinsunnar.



Þessi götumynd er algjört einsdæmi. Aðalgata kaupstaðarins þar sem eitt sinn allt iðaði af lífi. Þarna voru tugir verslana, en þegar íbúar voru flestir var Siglufjörður fimmti fjölmennasti kaupstaður landsins á Eftir Reykjavík, Akureyri, Hafnarfirði og Ísafirði ef ég man rétt. Á sínum tíma var hægt að standa á kirkjutröppunum og horfa í háaustur niður Aðalgötuna, og blöstu þá bæjarhúsin á Staðarhóli við beint á móti.



Horft til kirkjunnar ofan af snjóflóðavarnargarðinum. Þetta sjónarhorn hefur oft sést áður.



Kirkjan séð frá planinu fyrir sunnan Siglósíld.



Kirkjan frá planinu norðan við Olísbúðina.



Frá norðurenda gamla flugvallarins. Í forgrunni má sjá það sem eftir er af flaki tunnuflutningaskipsins Skoger sem kviknaði í við bryggju einhvern tíma upp úr 1930, en rak upp í fjöru austan megin fjarðar eftir að það var leyst frá bryggju alelda. Lítið er nú eftir annað en hluti byrðingsins bakborðsmegin. Gaman væri ef einhver vissi meira um þetta flak, kynni söguna um eldsvoðann, strandið og gæti sagt eitthvað frá atburðarrásinni.



Ég fór aftur upp undir snjóflóðavarnargarðinn, en að þessu sinni að degi til og í fljúgandi hálku á spariskónum upp brattann hólinn sem er fyrir ofan gamla kirkjugarðinn. Ferðin tók talsverðan tíma. 



Og ég sem hélt að jólin væru búin, en þau hafa greinilega lengst í annan endann á Siglufirði og er það vel. Það er ekkert að því að lýsa svolítið upp janúarmánuðinn sem í minningunni er talsvert drungalegri en bræður hans ellefu. Bæjarbúar virtust vera nokkuð samtaka um að vera ekkert að flýta sér að taka jólaljósin niður. Ekki veit ég hvort til þessa hefur verið mælst af einhverjum, en alveg gæti ég hugsað mér ljós í hverjum glugga út Mörsug (en það hét janúar áður samkvæmt gamla norræna tímatalinu) og fram í Þorrann.



Ég gat auðvitað ekki stillt mig um að taka mynd af sumar jafnt sem vetrarbústaðnum mínum.



Nú standa Sparisjóður eitt og Sparisjóður tvö við torgið, en allt bendir til þess að Sparisjóðurinn sé í þann veginn að verða stærsti vinnustaðurinn í bænum ef hann er ekki þegar orðinn það. - Öðruvísi mér áður brá.



Ég fékk vatn í munninnn nokkrum sinnum þegar ég gaut augunum á stafninn á þessu húsi. Reykt Egilssíld er góð, og takið eftir að þetta er sett fram sem fullyrðing.



Ráðhúsið ljósum prýtt er gott fordæmi fyrir alla sem vilja lengja í jólunum þrátt fyrir að vera löngu búnir að opna alla pakkana og klára alla afgangana af jólamatnum.



Þegar ég fór úr bænum var komið að kvöldi 14. jan, en jólatréð á Ráðhústorgi var enn með fullum ljósum. Fróðlegt væri að vita hvað það hefur lýst upp skamdegið í marga daga eftir það. Ég man þá tíð að það var slökkt stundvíslega við jólalok, eða strax daginn eftir Þrettándann.



Þetta hús var eins og klippt út úr einhverju jólaævintýri, en þarna búa þau Hafþór Rósmundsson og frænka mín Guðný Pálsdóttir.



Það verður að segjast að þessi lýsing er miklu flottari svona "læf" en hún virðist vera á ljósmyndinni. Veit ekki alveg hvers vegna mér tókst ekki að fanga "lúkkið," en það verður minna úr lýsingunni á girðingunni og jólasveinninum í stiganum en í raunveruleiknanum.



Takið eftir gamla sparksleðanum...!!! En hann eitthvað svo sjálfsagður og eðlilegur hluti af heildarmyndinni.



Jólastjarnan vísar veginn alveg heim að dyrum, en hvar eru vitringarnir?



Hér sjást fyrstu húsin norðan við kirkjugarðs, en þegar ég var lítill var að sjálfsögðu allt miðað við Brekkuna sem var miðdepill alheimsins og er sunnan hans. Ef við Brekkuguttarnir fórum yfir garðinn sem var nokkurs konar einskismannsland, var þetta útjaðar óvinasvæðisins. En í dag er ég ekkert smeykur við að fara þarna um...



Hvanneyrarkrókurinn var með allra lygnasta móti og endurspeglaði ljósin frá mannheimum



Á laugardagskvöldinu eftir myrkur datt mér í hug að rölta upp í fjall með myndavél og þrífót til að freista þess að ná góðri mynd af ljósunum í bænum. Auðvitað var þetta tóm steypa en ég fór nú samt inn í Skútudal og rétt áður en ég kom að gangnamunna Héðinsfjarðarganga nam ég staðar og rölti til fjalls. En þetta var auðvitað ekki mjög einfalt því að ekki var gott að sjá fyrir hvar væri heppilegast að drepa niður fæti. Ferðin sóttist því bæði seint og illa þar til ofar kom eða upp að snjólínu. Þar var mun bjartara og ferðin sóttist betur um stund eða allt þar til brattinn fór að aukast. Þar kom að lokum að ég sá að það var lítið vit í þessu ferðalagi og stillti upp þrífæti og festi myndavélina á hann. Eftir svolitlar pælingar var smellt af nokkrum frekar einsleitum skotum og haldið niður hlíðina.



Daginn eftir fór ég yfir á Ás, horfði upp í hlíðina og reyndi að gera mér grein fyrir hversu hátt ég hefði farið. Ég hafði brún Skollaskálar til viðmiðunar og giska á að ég hafi farið rúmlega hálfa leið í þá hæð. Rosalega getur maður nú verið vitlaus á köflum, en einhvern tíma skal ég nú samt gerast "vitlausari" en þetta og komast hærra.



Undir miðnættið sama kvöld ók ég en gekk síðan langleiðina upp í Hvanneyrarskál sem var ekki mjög gáfulegt, því eftir að ég yfirgaf bílinn kunni ég ekki fótum mínum forráð í bókstaflegri merkingu.



Langur sunnudagsbíltúr og og ekki spillti blíðan. Það voru margir á heilsubótargöngu bæði út á Strönd og inni í firði.



Ég kom við í nýja kirkjugarðinum og sótti ljósakrossinn af leiði afa og ömmu. Eins og sjá má ef vel er rýnt í myndina, eiga margir eftir að gera sér ferð á þessar slóðir í sömu erindagjörðum.



Þetta eru svo leifar gömlu sundlaugarinnar sem var aflögð um miðja síðustu öld, en svo fáránlega sem það kann að hljóma hef ég aldrei komið á þennan blett áður. Hún má vissulega muna sinn fífil fegri og auk hef ég orðið var við að margir af bæjarbúum viti jafnvel ekki einu sinni af tilvist hennar eða sögu.



Þessi mynd og myndin hér að neðan eru úr safni Jóns Dýrfjörð en þær birtust á vefnum "Lífið á Sigló" fyrir all nokkru síðan.



Þær eru teknar á sundmóti skömmu fyrir miðja síðursu öld í þessari sömu gömlu sundlaug sem er nokkru fyrir neðan Stóra Bola.
Tímarnir breytast...



Lítil blá Nissan Micra í hæstu hæðum svolítið góð með sig og horfir niður á okkur hin. Ég hef aldrei áður skoðað grjótnámuna á Ströndinni, sem er auðvitað annað skrýtið mál.



Ég leit við hjá honum Steingrími og sníkti kaffi og með því eins og svo oft hefur gerst áður. Í leiðinni hlotnaðist mér sá heiður að setjast í sjálfan ritstjórastólinn í aðalstöðvum vefsins "Lífið á Sigló," og setja saman svolitla klausu sem síðan rataði beinustu leið inn á þennan ágæta vef. Ég geri mér að sjálfsögðu glögga grein fyrir því að þetta er hreint ekki svo lítil upphefð, og uppákoman mun að sjálfsögðu vaxa og dafna í huga mér um alla framtíð. Til að reyna að finna samlíkingu af einhverju tagi við þessa lífsreynslu þá kemur upp í hugann hending úr kvæðinu Fjallganga eftir Tómas Guðmundsson: "Sjáið tindinn! Þarna fór ég." Og þá er ég auðvitað að vísa til þeirrar ólýsanlegu andagiftar sem hver maður hlýtur að fyllast við það eitt að setjast í stólinn hans Steingríms og leggja fingur á lyklaborðið.
Ljósmyndina tók svo auðvitað sjálfur Steingrímur Kristinsson.



Þegar ég lagði af stað suður var engu líkara en ég væri að fara í vitlausa átt. Í stað þess sem ég á að venjast á þessari leið, bætti jafnt og þétt í vind og snjó eftir því sem sunnar dró en ekki öfugt eins og ég á að venjast. Það hvarflaði sem snöggvast að mér að pólskiptin sem spáð hefur verið um langa hríð hefðu orðið án þess að ég hefði frétt af því.

                                            

Fékk þessa sendingu frá góðum manni og kann honum auðvitað mínar bestu þakkir fyrir. Nú er bara að sjá hvort Grettir gagnast mér í mínum stífluvandamálum...

En mun fleiri myndir frá Siglufirði eru í möppu "Sigló 2008" í myndaalbúmi.

11.01.2008 18:01

Ritstífla og endurhleðsla.



438. Einu sinni þegar ég var í Gagganum á Sigló
áttum við nemendurnir að skrifa ritgerð um eitthvað tiltekið efni eins og gengur. Yfirleitt hafði ég ekki sérlega mikið fyrir slíku og fannst mjög gaman að geta nýtt mér þann lausa taum og það frelsi sem fylgir því að skrifa ritgerð. En Þar kom að það nákvæmlega sama gerðist og er að hrjá mig núna. Hugurinn er tómur, ímyndunaraflið vill ekki láta virkja sig og ég sit með hönd undir kinn og stari á skjáinn rétt eins og forðum þegar ég horfði ofan á autt blaðið. Ekkert kemur innan frá, sama hvað ég rembist við að hugsa. Og ég sem síðast í morgun vissi alveg nákvæmlega hvað...

En þá er um fátt annað að ræða taka sér pásu fram yfir helgi, því ég ætla að skjótast heim á Sigló í fáeina daga til endurhleðslu sálarrafhlaðanna, en þar eru mun betri skilyrði til slikra hluta en hér í Ergelsisborg og nágrannabæjum hennar.

07.01.2008 07:39

Jólin eru búin.

437. Já, jólin eru úti að sinni, en það má engu að síður alveg byrja að telja niður aftur, því það eru u.þ.b. 50 vikur til næstu jóla og þeir sem eru þannig þenkjandi geta strax byrjað að láta sig hlakka til.
Ég átti leið í Húsasmiðjuna í gær og þegar ég var kominn að kassanum veitti ég því athygli að kona á undan mér var að kaupa jólaskraut. Ég velti fyrir mér hvort ég væri kominn á eitthvað undarlegt tímaflakk, en komst að raun um eftir nokkra umhugsun að í dag væri 7. janúar og jólin væru því alveg örugglega búin. En svo fór ég að fylgjast betur með og þá áttaði ég mig á að þessi kona er það sem svo allt of mörg okkar eru ekki, þ.e. hagsýn. Það er nefnilega útsala á jólaskrauti víðast hvar dagana eftir jól, og hún var greinilega meðvituð um að þetta væri alveg hárrétti tíminn til að gera góðra hluti. Hún keypti jólaskraut fyrir u.þ.b. kr. 13.500 á 70% afslætti, og ef við reiknum töluna til fyrra verðs, þá hefur þetta sama jólaskraut kostað því sem næst kr. 45.000 fyrir fáeinum dögum síðan. Þetta gerði það að verkum að ég gat ekki látið hjá líða að kíkja aðeins á jólaskrautsrekkann og sá að sumt var á enn meiri afslætti. Ég horfði svolítið flóttalega í kring um mig en seildist síðan eftir stóru og alveg bráðfallegu jólahúsi og gekk aftur að kassanum með það undir hendinni, en horfði hikandi í kring um mig því það gæti verið að einhver sem ég þekkti væri þarna á staðnum og sæi til mín. Það væri þá viðbúið að viðkomandi teldi mig vera genginn af göflunum, því óneitanlega er það nú svolítið undarlegt að vera að kaupa jólaskraut í janúar þrátt fyrir áður fram komin rök. Jólahúsið kostaði kr. 598, en eldra verða var kr. 2.598 og þegar heim kom setti ég það beinustu leið inn í geymslu í hilluna þar sem jólaskrautið á heima ellefu mánuði ársins.

En nú eru flestir búnir að koma sínum "lifandi" jólatrjám sem eru í rauninni auðvitað alveg steindauð, út að lóðarmörkum þangað sem hirðusamir bæjarstarfsmenn hafa boðist til að sækja þau fyrstu dagana eftir þrettándann. Þau eru hvort sem er hætt að vera jafn fersk á að líta og í upphafi, farin að drita nálum sínum um stofugólfið sem berast um alla íbúð og barrilmurinn sem fitlaði við nasir okkar er orðinn daufur og alveg hættur að skemmta þefskyninu. Þau eru því best komin í kurlgræjunum þar sem þau geta öðlast sitt annað framhaldslíf. En nú vantar bara svolítið hressilega golu eða léttan storm til þess að þau geti rúllað fram og til baka um stræti og torg svo sem eins og einn eða tvo daga, nuddað sér vel og vandlega utan í rándýra lúxusbíla nokkurra nýríkra íslendinga og orðið jafnvel svolítið meira atvinnuskapandi en þau eru þegar orðin.

Ferli "lifandi" jólatrjáa er örugglega meira, lengra og flóknara en velflest okkar velta fyrir okkur yfir blá-hátíðarnar. Frá u.þ.b. 10 ára aldri og fram undir fermingu var ég ásamt hópi jafnaldra minna að planta trjám í skógræktinni heima á Siglufirði sumarlangt, og ég geri fastlega ráð fyrir því að það sama hafi verið uppi á teningnum víða um land allt frá því snemma á síðustu öld og til dagsins í dag.
Þetta eru sjálfsagt svo mörg handtök í það heila, að ef allt yrði talið yrði samtalan svo stjarnfræðileg að við myndum ekkert botna í þeim tölulegu upplýsingum sem hún fæli í sér. Vissulega er því hægt að halda því fram með réttu að ungmenni þjóðarinnar hafi í áratugi haft atvinnu af að stuðla að skógrækt á okkar ísa köldu landi.
Samt erum við ekki enn eftir öll þessi ár farin að geta framleitt öll þau jólatré sem þessi fámenna þjóð þarf á að halda ár hvert, því talsvert er einnig flutt inn af þessum græna barrvarningi. Og þess vegna leynast kannski einhvers staðar einhverjir jólatrésheildsalar sem hafa þá auðvitað atvinnu af að kaupa umræddan varning ytra og sjá til þess að hann komist heilu og höldnu yfir hafið og í hendur milliliða sem síðan selja hann áfram.
Svo má ekki gleyma flutningsaðilunum sjálfum, því það þarf því ýmist að flytja þau til byggða eða til landsins og koma þeim fyrir á sölustöðum. Einhver þarf sem sagt að annast flutninginn og það er vissulega atvinnuskapandi.
Þá er komið að einu af stóru málunum í ferlinu, þ.e. að sala trjánna vegur talsvert í fjáröflun skáta, björgunarsveita og annarra góðra og vel meinandi aðila og hjálpar drjúgt til við að halda starfsemi þeira gangandi. Það er líka atvinnusköpun en kannski svolítið óbeinni, því það kostar heilmikið að halda úti þessum sveitum ásamt búnaði þeirra og á endanum rennur ágóðinn af sölunni til þjónustuaðila svo sem olíufélaga og varahlutaverslana.
Þá er komið að því að safna saman öllu timbrinu, kurla það og framleiða afurðir sem nýtast munu á öðrum vettvangi og einhverjir fá auðvitað vinnu við það. Ja hérna, þetta er aldeilis ferli í lagi og sjálfsagt gleymi ég einhverju.

Jú annars... væri kannski bara best að eiga gervi-jólatré eins og Emil Páll og fleiri góðir menn...

Ég tæmdi nýju myndavélina í þriðja sinn á þessu ári og kom afurðunum fyrir í möppu merktri janúar 2008. Og vel á minnst, mér finnst mjög skrýtið að rita 2008 í stað 2007 eins og ég var nýlega orðinn vanur að gera. Það hefur líklega eitthvað með að gera hvað tíminn er farinn að líða miklu hraðar en hann gerði áður. En eftir að vera búinn að skoða jóla og áramótamyndirnar í krók og kring, datt mér í hug að hnýta einni léttri syrpu hér fyrir neðan og segja síðan frekari umfjöllun um þessa hátíð ljóss og friðar lokið að sinni.



Vigfús Bjarki aðstoðaði við piparkökubakstur í aðdraganda jóla. Mun betur útlítandi en afi hans (ég) var á hans aldri og jafnvel er til í dæminu að hann skáki líka hinum afanum (Gulla Sínu) og er þá mikið sagt.



Þóra Sóley stóra systir sem kann piparkökusönginn bæði afturábak og áfram, veit alveg hvernig á að búa til piparkökur og setur ekki kíló í staðin fyrir teskeið.



Á meðan piparkökur bakast getur að bíða ansi lengi að manni finnst eftir að fyrstu afurðirnar verði teknar til dóms og tilbúnar til smökkunar. Ég veit ekki hvor er spenntari sonurinn eða sonarsonurinn.



Minný tók virkan þátt í "eldamennskunni" og sá um liðinn "eftirréttir" yfir hátíðarnar með ágætum árangri. 



Það sem annars einkenndi jólin í ár öðru fremur voru helst og mest, myndir, myndatökur, myndaútprentanir, myndainnrammanir og flest það sem að úrvinnslu ljósmynda kom. Ég fékk Gunna Binnu til að prenta nokkrar valdar myndir frá Siglufirði og Dýrafirði í yfirstærð og allnokkrum eintökum, en þær voru síðan ýmist nýttar til jólagjafa, eigin þarfa og nota, en sumar seldar áhugasömum og burtfluttum sveitungum hér syðra.



Ingvar og Arna voru líka fjölfölduð og dreift til valins hóps sem samanstóð af öfum og ömmum. En það er nú stundum ekki einfalt mál að finna út hvaða jólagjafir hennta þeim sem fátt vantar eða þannig.



Ég skrapp  norður um miðjan desember eins og ég hef gert um árabil, en að þessu sinni með gylltu rammana sem ég hafði leitað svo lengi að. Ástæða númer eitt fyrir þessari árvissu ferð er eins og í gegn um tíðina að koma fyrir ljósakrossi á leiði afa og ömmu. Ástæða númer tvö er auðvitað að vitja sjálfra rótanna, hlaða batteríin og allt það. Ástæða númer þrjú voru síðan hinir nýfundnu gylltu rammar frá Europris og nokkrar hljómsveitarmyndir sem biðu þess að komast upp á vegg í stofunni. Rammana þurfti ég auðvitað til að þær hljómsveitir sem bæst höfðu við síðan síðast, tækju sig út með svipuðum hætti og þær sem fyrir voru.



Þar með eru raðirnar fyrir ofan sófann í stofunni orðnar þrjár, og ég er alltaf að rekast á fleiri sem ég vildi gjarnan koma fyrir á þessum vegg. Þarna eru myndir af Siglfirskum hljómsveitum svo og öðrum sveitum sem mannaðar hafa verið Siglfirðingum.
Einn ágætur vinur minn kom í heimsókn í des s.l. og gaf sér góðan tíma til að skoða hljómsveitarvegginn vel og vandlega án þess að mæla orð frá vörum.
En loksins þega hann talaði á ný sagði hann...
"Þú ert með mynd af honum Sturlaugi vini þínum í stofunni hjá þér."
Ég játti því en gat þess í leiðinni að ég teldi hins vegar hverfandi líkur á að hann væri með mynd af mér í stofunni hjá sér. Minn ágæti gestur horfði á mig, hnyklaði brýrnar og gerði sig hreint ótrúlega alvarlegan í framan.
"Vertu nú ekki of viss um það, ég held alveg örugglega að hann sé meira að segja með mynd af þér á náttborðinu hjá sér."
Ég velti fyrir mér hvort ég, hann eða við báðir værum allsgáðir, hreinsaði snöggvast úr eyrunum og hváði með stóru Há-i.
"Nei, kannski hefur hún verið Fanneyjar megin" bætti hann við, hrukkaði hátt ennið og skotraði til mín augunum. 
Hann þakkaði því næst fyrir sig og sagðist þurfa að hraða sér, en ég sá að flírulegt glott færðist yfir andlit hans á leiðinni niður stigann.
 



En ég fann alveg bráðfallega jólastelpu í tölvuheimum sem ég tók miklu ástfóstri við, eins og sjá má bæði á eldri pistlum svo og bannernum hér að ofan sem eðli málsins samkvæmt hlýtur að fara að víkja innan tíðar. Hún hefur heillað mig svo upp úr skónum, að ég hleyp bara um á sokkaleistunum út um allar jarðir án þess að kunna fótum mínum nokkurt forráð.
Eins og sjá má er hún búin að koma sér fyrir í "word" og tilbúin til útprentunnar.



Og eins og sjá má, rennur hún ljúflega út úr prentaranum á "photo paper plus glossy" frá Canon sem var keyptur í Griffli fyrir eigi svo margt löngu síðan.



Það þarf að skera, mæla, skera aftur og snurfusa hina útprentuðu mynd í bak og fyrir.



Og skera kannski pínulítið meira...
 



Og hún er hér útskrifuð til innrömmunar.



Varast skal að skilja fingraför sín eftir á henni í bókstaflegri merkingu.



Og þar sem allt passar er kominn tími til að loka rammanum og þar með viðfangsefninu að sinni.



Og svo er jólastelpan komin upp í efstu hillu fyrir miðri stofunni.
En henni mun samt verða pakkað niður með öðru skrauti og geymd til næstu jóla, en þá mun hún upp rísa úr kassa sínum og gleðja augu mín og annarra.

En fleiri myndir er að finna á myndasíðu í möppu merktri jól og áramót 2007.

04.01.2008 11:24

Að sameina draum og veruleika.



436. Svona gerum við á mótorsláttuvél...
... Seint á sunnudagskvöldi.

02.01.2008 10:37

Gleðilegt árið 2008



435. Þrátt fyrir slæma veðurspá og að brennum hafi verið frestað alls staðar á höfuðborgarsvæðinu, virtust engin sérstök vandkvæði vera á því að skjóta upp flugeldunum á miðnætti þegar nýtt ár gekk í garð. Þeir rötuðu að venju sína leið, næstum því þráðbeint upp í loftið þar sem þeir sprungu með miklum ljósagangi alveg eins og til er ætlast. - Nema hvað.



Þegar sprengingum, blossum, sólgosum og ýlfri ragettanna fór að linna utandyra, var farið að sinna innri málum og málaflokkum. Laust upp úr miðnætti hringdi síminn og kunnugleg rödd bauð "árið" og bætti síðan við.
"Heyrðu, ég var að kaupa mér hljómborð og á alveg eftir að læra á það. Ertu ekki til í að líta aðeins við og prófa gripinn?"
Ég skildi alveg hvað klukkan sló og við feðgarnir og nafnarnir röltum niður á neðstu hæð með gítarinn hennar Minnýar. Þar safnaðist síðan smátt og smátt saman verulegur hluti íbúa stigagangsins og rúmlega það, og þar var spilað, sungnir nokkrir dúettar og trallað um stund. En ekki of lengi því hinir sem ekki mættu vilja kannski fá að halla sér, jafnvel þó það sé Nýjársnótt.

Ég ætlaði annars bara að segja GLEÐILEGT ÁRIÐ!   
  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 402
Gestir í dag: 72
Flettingar í gær: 575
Gestir í gær: 91
Samtals flettingar: 303199
Samtals gestir: 32802
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 06:32:08
clockhere

Tenglar

Eldra efni