Færslur: 2009 Apríl

23.04.2009 20:35

Gengið í kring um Gufunes



562. Það eitt kann að vera lítt merkileg og frekar hversdagsleg aðgerð svona ein og sér að fara með bílinn sinn á verkstæði til aðhlynningar, en aðstæður geta engu að síður orðið til þess að sú ferð vex með sjálfri sér ef myndavél, nægur tími og gott veðurfar eru til staðar. Það var raunin á að þessu sinni svo mætti á tilsettum tíma til Gústa sem hefur séð um mín bílamál undanfarin ár og ákvað að fá mér vænan göngutúr meðan viðgerð stæði yfir, en vera svo mættur aftur á upphafsreit áður en vinnudegi lyki og hann lokaði og læsti á eftir sér.  



Þar sem Gústi er til húsa að Stórhöfðanum skammt fyrir ofan Gullinbrú, fannst mér upplagt að ganga fjörurnar fyrir Vog sem skilur að höfðann austan Ártúnsbrekku og Grafarvog. En þegar ég hafði gengið undir Gullinbrú snérist mér hugur og beygði til vinstri og út eftir fjörunni gegnt Sundahöfn. Hinum megin sjávar biðu þessi risavöxnu mannanna verk eftir því að næsta gámaskip legðist að Sundahöfn, tilbúnir í slaginn.



Ég leit til baka og sá að ég hafðio gengið drjúgan spöl en var strax farinn að velta fyrir mér hvað þessi göngutúr yrði langur. Ég hafði mætt með bílinn kl 15 en þurfti að vera komin aftur fyrir 18, en þá átti hann að vera tilbúinn og dagur að kvöldi kominn.



Framundan hlykkjaðist grófur vegarslóðinn meðfram fjöruborðinu og hvarf sjónum á bak við nef sem teygði sig aðeins utar en landið í kring. Svo birtist hann aftur lengra frá og aþr voru sýnilega einhverjar byggingar sem ég þurfti að vita nánari deili á.



Ég gekk fyrir "nefið" á landinu og hugsaði með mér að þetta væri fín æfing fyrir komandi sumar eftir gönguleysi liðinna vetrarmánaða. Alveg væri tímabært að fara að teygja úr sér og hreyfa skankana, því í næsta máuði væru fyrirhugaðar fyrstu ferðirnar m.a. með gönguhópnum okkar Magga Guðbrands (og auðvitað allra hinna).



Á stórgrýtinu fyrir ofan mig sá ég svolitla hreyfingu og hægði á mér. Nú er ég ekki góður að þekkja fuglana en sýnist þetta vera Tjaldur. Alla vega beið hann (eða hún) grafkyrr eftir að ég smellti af en flaug síðan á braut.



Ég nálgaðist þetta mannvirki og eins og það ber með sér mun það vera skólphreinsistöð. Ég velti fyrir mér hvort réttara sé að skrifa skolp eða skólpÉg vissi reyndar ekki af tilvist hennar fyrr en núna, en eftir svolitla athugun komst ég að því að sótt var um byggingaleyfi á árinu 2002 svo að ekki mun hún vera komin til ára sinna. 



Ég lít um öxl og sé að stóru kranarnir við Sundahöfn eru búnir að fá verðugt verkefni.



Ég er nú kominn á þann stað í fjörunni sem er u.þ.b. beint fyrir neðan gömlu öskuhaugana. Þarna var allt sorp höfuðborgarsvæðisins á árabilinu 1965-1984 urðað og þarna urðu til landfyllingar sem skiptu tugum hektara. Ekki veit ég hvort það sem hér sést eru einhverjar leifar frá því árabili sem gægist undan jarðveginum sem ætlað var að hylja það sem ekki mátti sjást eða eitthvað annað.



Ég nálgaðist þessa svörtu hrúgu og var svolítið hissa á að bílhlassi af sandi eða fínni grús hefði verið sturtað á þennan stað. Litlu munaði að ég sparkaði af rælni í hauginn en sá þó rétt nægilega tímanlega að þarna var um grjótharðan malbiksafgang að ræða. Eins gott, - ég segi nú ekki annað og upp í hugann kom sagan af fallbyssukúluboltanum.

Sagt er að eitt sinn hafi óprúttnir hrekkjalómar klætt stóreflis fallbyssukúlu í leðurtuðru sem hafði verið notuð utan um uppblásinn gúmmíbelg sem fótbolti. Kúlan í tuðruni var síðan skilin eftir á víðavangi þar sem hún hreinlega bað hvern þann sparkara sem átti leið hjá að sýna snilli sína og getu. Slíkt var að sjálfsögðu mikil freisting fyrir marga og sumir hverjir fylgdu auðvitað vel á eftir þrumusparki sínu og fengu verulega bágt fyrir en kúlan hreyfðist að sjálfsögðu hvergi.




Þeir kúlusparkarar hafa þá líklega lotið snarlega í gras fyrir viðfangsefni sínu, en þó ekki þessar rúllur sem hefðu betur mátt enda á öðrum stað og betri en þessum.



Og auðvitað varð ég að hlaupa upp grasi gróna veggi dælustöðvarinnar til að geta virt betur fyrir mér útsýnið.



En þarna ofan af þaki dælustöðvarinnar sást vel í lúinn húsakost gömlu Áburðarverksmiðjunnar sem eru þarna fyrir, en á Wikipedia má lesa eftirfarandi um þá niðurlögðu  starfsemi: Áburðarverksmiðjan í Gufunesi var vígð 22. maí 1954 en það ár hófst framleiðsla áburðar. Hún fékk rafmagn til framleiðslunnar úr Írafossvirkjun í Sogi. Á þeim tíma var ekki markaður fyrir alla þá raforku sem framleidd var nema til kæmi stóriðja. Sú stóriðja varð að áburðarverksmiðju í Gufunesi sem framleiddi köfnunarefnisáburð sem fékk nafnið Kjarni.
Bygging Írafossvirkjunar og Áburðarverksmiðjunnar var fjármögnuð með
Marshallaðstoðinni. Stofnað var fyrirtækið Áburðarsala ríkisins sem hafði einkarétt á innflutningi og sölu áburðar. Þetta fyrirtæki flutti inn steinefnaáburð, þrífosfat og kalí til að blanda með hinum íslenska Kjarna en köfnunarefnið í áburðinum var unnið úr andrúmsloftinu.

Rekstur Áburðarverksmiðjunnar og Áburðarsölunnar var fljótlega sameinaður og hafði verksmiðjan einkaleyfi á sölu á áburði á Íslandi til ársins 1995.

Framleiðsla tilbúins áburðar hjá Áburðarverksmiðjunni fór árið 1999 fram í þessum fimm einingum sem allar eru staðsettar í Gufunesi: vetnisverksmiðju, köfnunarefnisverksmiðju, ammoníaksverksmiðju, sýruverksmiðju og blöndun. Verksmiðjan seldi þá því nær eingöngu í heildsölu til kaupfélaga og verslunarfyrirtækja. Efnaframleiðsla í verksmiðjunni var lögð niður í október árið 2001 og var þá hráefni flutt inn í kornaformi og blandað saman í verksmiðjunni og áburðurinn sekkjaður.



Ég notaði linsuna til að nálgast þessi gömlu hús betur og vitna enn og aftur í alfræðivefinn Wikipedia.

Eldur kom upp í ammoníaksgeymi í verksmiðjunni 15. apríl 1990. Í kjölfar þess lýstu íbúar í Grafarvogi áhyggjum sínum á staðsetningu verksmiðjunnar svo nálægt íbúðarhverfi. Borgarráð samþykkti í apríl 1990 að krefjast þess að rekstri verksmiðjunnar yrði hætt. Öflug sprenging varð í verksmiðjunni 1. október 2001. Fimm starfsmenn verksmiðjunnar voru að störfum en engan sakaði. Allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu var sent á staðinn og greiðlega gekk að slökkva eldinn. Sagt var "að hús í Grafarvogi hafi nötrað og margir íbúar fundið loftþrýstibylgju". Þetta varð til þess að framleiðslu þar var hætt fyrr en ella.

 

Áburðarverksmiðjan var seld í mars 1999 fyrir 1.257 milljónir króna til einkaaðila. Fyrirtækið velti miklum fjármunum og verðmæti birgða var metið á 750 milljónir. Því var haldið fram að innan við 500 milljónir hafi verið greiddar fyrir sjálfa verksmiðjuna og aðstöðuna. Reykjavíkurborg samdi árið 2002 við hluthafa Áburðarverksmiðjunnar hf. um stöðvun efnaframleiðslu og kaup borgarinnar á fasteignum og aðstöðu fyrirtækisins fyrir 1.280 milljónir króna. Áburðarverksmiðjan hafði starfsleyfi til ársins 2019 og var lóðin sem hún leigði af Reykjavíkurborg 20 hektarar. Í aðalskipulagi Reykjavíkur er gert ráð fyrir íbúðarbyggð í framtíðinni á þessu svæði og landfyllingum út í sjó.



Ágætt útsýni var ofan af dælustöðinni til Viðeyjar sem er um margt merkileg og er talin hafa risið úr sæ fyrir u.þ.b. 10.000 árum ásamt næstum öllu því svæði þar sem Reykjavík stendur nú. Þar hafa fundist merki um byggð allt frá landnámi, Viðeyjarstofa er fyrsta steinhús sem byggt er á Íslandi, þar var um tíma virðulegasti embættismannabústaður landsins um tíma og þar var einnig byggð fyrsta höfnin fyrir millilandaskip hérlendis. Nú lýsir hin alþjóðlega eða kannski margþjóðlega friðarsúla upp haustmyrkrið frá þessari smáeyju öllum heiminum og boðskap Bítlahjónanna John´s og Yoko til dýrðar.



Áður en ég fetaði mig aftur niður af þessum ágæta útsýnispalli leit ég um öxl og sá að það var komið skip undir risakranana. Þetta eru auðvitað alvöru græjur og það ekkert smá...



Ég nálgaðist nú Áburðarverksmiðjuhúsin og fyrir neðan þau kenndi ýmissa grasa en þó í óeiginlegum skilningi þess orðs. Ekki veit ég tegundaheiti þessa vörubíls eða neitt sem hægt er að velta sér upp úr og hafa einhver orð um. Ég auglýsi því bara eftir slíku, en víst er að hann hefur einhvern tíma verið í betra formi.



Þessi geymir stóð uppi á bakkanum og virtist vera að horfa út á hafið fullur af angurværð og eftirsjá, rétt eins og gamall sjóari sem er kominn í land eftir að hafa siglt um höfin sjö alla sína hunds og kattartíð.



Rosalega er mikið af drasli hérna, bæði fyrir innan og utan hliðið sem lokar veginum. En þar sem greið leið var um fjöruna fór ég þá leiðina og ályktaði sem svo að ökutækjum væri ekki ætlað að vera hér á flækingi en um gangandi gilti allt annað regluverk. Ég rölti því niður fyrir endann á girðingunni og hélt áfram ferð minni.



Og hvað ætli sé svo í öllum þessum gámum? Kannski bara enn meira handónýtt drasl, hættulegur eiturefnaúrgangur sem stökkbreytir öllum þeim sem nálgast þá eða e.t.v. aðsetur geimvera? Ég hafði farið aftur upp á bakkann en leiðin var nánast lokuð af gámunum og fleira dóti svo ég fór aftur niður í fjöru og hélt áfram.



Fyrir neðan verksmiðjuhúsin er útskipunarbryggjan og þar liggur þetta sannkallaða draugaskip. Eins og sjá má gæti það tekið sig vel út í hrollvekju af bestu og vönduðustu gerð útlitsins vegna. Ég var auðvitað forvitinn um þetta fley sem siglir varla mikið meira um höfin blaut og blá úr því sem orðið er.



Ég gekk því út á bryggjuna og sá þá hið vel læsilega nafn HREFNA RE 11. Það var eins og hvíta málningin sem notuð hafði verið til merkingarinnar hefði verið annað hvort af betri gerð eða mun seinna á ferðinni en sú á skrokknum. Mér fannst þetta eitthvað skrýtið svo ég gúgglaði henni Hrefnu sem átti að vera númer ellefu frá Reykjavík. Þá kemur í ljós hinn stóri sannleikur í málinu því hún Hrefna er nefnilega hann Þór þegar betur er að gáð. Þarna er nefnilega komið hið fornfræga varðskip Þór sem búið er að dulbúa og var "látið leika" hvalveiðiskip í kvikmyndinni Reykjavík Whale Whatsing Massacre sem var tekin upp s.l. sumar. Þessi gamli harðjaxl sem siglt hefur um norðurhöf í illskulegum ólgusjó og mögnuðu gjörningaveðri, klofið brotöldur og löðurfalda eins og riddari sem vinnur drekann og frelsar kóngsdóttur, mætt sjálfum Ægi í sínum alversta ham og tekið virkan þátt í þrem þorskastríðum og haft sigur, má muna sinn fífil öllu fegri en hann er í dag



Eftir að hafa vurt fyrir mér um stund þessa gömlu hafsins hetju úti við aflóga bryggju sem var auk þess að hruni komin, snéri ég við og þá bar fyrir augu þessi forkunnarfögru og tignarlegu fley sem greinilegt var að meira og betur var hugsað um.



Og það var þá sem ég sá þessa orðsendingu sem færa mátti rök fyrir að gætu alveg átt við ferðalanga og röltara eins og mig. En það sem mér þótti athyglisvert var að skiltið snéri öfugt, þ.e. það varð ekki séð fyrr en í bakaleiðinni þegar búið var að "fremja glæpinn". Mér fannst þess vegna skipta litlu hvort ég snéri við eða héldi áfram því ég var staddur því sem næst á miðju bannsvæðinu - og ég hélt auðvitað áfram.



En nú var ég kominn að svolítilli hindrun. Ég kom þarna gangandi á syllu utan á steinveggnum (sem sést betur á myndinni hér fyrir neðan). Við endann á veggnum er svo nokkuð djúpur skurður þar sem mér sýndist renna um heil ósköp af kælivatni frá stóru húsi þarna skammt fyrir ofan. Mér virtist því eina leiðin vera að ganga eftir rörunum og yfir á hólinn hinum megin við skurðinn ef ég ætlaði að halda áfram. Ég hóf að feta mig eftir rörinu en það gekk frekar hægt. Þegar ég var hálfnaður yfir sá ég hvar var betra að komast yfir og ég fetaði mig til baka. Eftir á að hyggja var það bara svipað og að klára málið og fara alla leið yfir á rörinu. En ég gekk sem sagt fyrst rörið og síðan sylluna til baka, eftir fjörugrjótinu og upp með kælivatnslæknum. Ég fór yfir hann á spýtu sem lá bakkanna á milli eins og brú og klifraði síðan upp klettinn.



Ég var mjög feginn að vera kominn yfir, en það er svo ekki fyrr en núna að ég veit til hvers þessi rör eru. Þau flytja metangasið sem unnið er úr hauggasi frá urðunarsvæði Sorpu í Álfsnesi um 10 km. leið að áfyllingarstöðinni við Bíldshöfða. Það má svo lesa á vef Orkuveitu Reykjavíkur sem á og rekur leiðsluna að uppsetning hennar hafi kostað ríflega 100 millur.



En nú var engin fjara lengur til að ganga eftir heldur aðeins bakkar sem slúttu í sjó fram.



Þetta finnst mér ekki mjög fallegt og svona á ekki að gera.



En ég var nú kominn út af hinu afgirta svæði þar sem óviðkomandi var bannaðir aðgangur og ég fann að mér létti svolítið. Veit ekki af hverju nema ef vera skyldi að minn innri maður er heldur löghlýðnari og meira fyrir að fara að fyrirmælum en "sá ytri". Og mig langar til að gera svolítla athugasemd við þetta síðasta, því ef það er til einhver innri maður sem svo oft er vitnað til, hlýtur sú nafngift þá ekki að vera til komin til að aðgreina hann frá þeim ytri sem að vísu er ekki nærri eins mikið talað um?



Og hér í Gufunesi eru bókstaflega allar hugsanlegar tegundir og útgáfur af sorpi og rusli í gríðarlegu magni. Samt hafa hvorki meira né minna en 1.5 milljón tonna verið urðuð í Álfsnesi. 



Ég gekk nú áfram meðfram ströndinni og nú lá leiðin aftur í áttina inn til landsins. Það var farið að styttast í að hringurinn lokaðist.



En mýri neyddi mig aftur upp að girðingunni og nú var það stærðarinnar kurlhaugur sem blasti við.



Ég var kominn upp að aðalhliði og þar virtist vera búið að leggja þessum vagni fullim af brotajárni. Greinilegt var að hann hafði staðið þarna lengi og mér fannst staðsetningin ansi undarleg, eða rétt fyrir utan hliðið þar sem mesta umferðin var. Út frá fagurfræðilegum þáttum hefði ég talið eðlilegra að koma honum fyrir í meira skjóli.



Og þetta eru sem sagt fyrirtækin sem eru með starfsemi sína á hinum afgirta og ysta hluta Gufuness.



Næsti áfangi fólst svo í því að rölta upp á veg sem reyndist heldur lengri spölur en mig minnti.



Og áfram gakk, og fljótlega var ég kominn að Olís stöðinni í Grafarvogi.











Þegar ég lagði af stað hugsaði ég mér að taka nokkrar myndir af Gullinbrú, mannvirkinu sem tengir Grafarvoginn við Höfðann. Ekki veit ég af hverju hún dregur gullnafn sitt því fátt er við hana sem minnir í einhverju á þann eðalmálm. En hún er hins vegar hið mesta þarfaþing því um hana fara að meðaltali um 45.000 bílar á degi hverjum.



Skyldu "skreytilistamenn" ekki hafa þurft að hafa býsna mikið fyrir upsetningu þessara verka sinna. Aðstæður hafa eflaust ekki verið upp á það besta því þarna er nánast alltaf gríðarlega mikill straumur ýmist út eða inn í Voginn og "verkin" ná það hátt upp á stöplana að "listamaðurinn" hefur eflaust þurft að standa í tuðru eða bátskel sinni.



Þegar betur var að gáð sást að allir stöplar voru merktir með sama hætti og í öllum tilfellum beggja megin.



En göngubrúin er hið mesta þarfaþing. Þarna eru líka göngustígara sem liggja í allar áttir og nokkuð var um hljólandi, gangandi og skiokkandi umferð.



Og nú var bara brekkan upp að Stórhöfðanum eftir. Ég fann að það voru byrjaðar einhverjar strengjamyndanir í lærum og kálfum eftir þennan tæplega þriggja tíma labbitúr. En skyldi litla bláa Micran vera tilbúin?



Hún var svona næstum því alveg búin var mér sagt við komuna. Farðu bara inn og fáðu þér kaffi...



Og auðvitað þáði ég það því enginn fær staðist kaffið á þessum stað.



Þeir félagarnir Gústi (t.h.) og Hjörtur pósuðu síðan fyrir mig. Nokkrum dögum síðar átti ég leið um Höfðan og var þá búinn að prenta myndina út og skella henni í ramma. Nú hangir hún uppi á áberandi stað í kaffistofunni.



"Sestu inn, vertu þar og stígðu á bremsurnar". Ég gerði það auðvitað og fékk þá svolitla upplyftingu með það sama. Ég var um tíma "geymdur" alveg fast upp við loftið og nokkur bið var á því áð mér væri skilað til jarðarinnar aftur. En þar kom að lokum að horfið var til þess konar "slökunarstefnu" sem gerði mig frjálsan á ný og ég bakkaði út.

Að skreppa með bílinn á verkstæði til minni háttar lagfæringar var þegar allt var saman reiknað hið besta mál og hin skemmtilegasta ferð.

23.04.2009 09:02

Gleðilegt sumar


(LRÓ á toppi Hólshyrnu)

561. Í dag er Sumardagurinn fyrsti sem er fyrsti dagur Hörpu, en hann er (eða öllu heldur hún) fyrsti sumarmánuðurinn af sex samkvæmt hinu gamla norræna tímatali.


(Sól úr norðri)

Íslensk þjóðtrú segir að ef sumar og vetur frjósi saman boði það gott sumar, en með því er átt við að hiti fari niður fyrir frostmark aðfararnótt sumardagsins fyrsta. Í Sögu daganna - hátíðir og merkisdagar eftir Árna Björnsson, þjóðháttafræðing, segir um sumardaginn fyrsta:

Hvarvetna var fylgst með því, hvort frost væri aðfararnótt sumardagsins fyrsta, þ.e. hvort saman frysti sumar og vetur. Yfirleitt var það talið góðs viti og jafnvel álitið að rjóminn ofan á mjólkurtrogunum yrði jafn þykkur og ísskánin á vatninu þessa nótt. Í því skyni settu menn skál eða skel með vatni út um kvöldið og vitjuðu svo eldsnemma morguns.

Hvað átt er við með góðu sumri í þjóðtrúnni er nokkuð á reiki, en hugsanlega er einkum átt við að nyt búpenings verði góð, sem verður þegar taðan er kjarnmikil. Ef engjar og tún eru seinsprottin verða hey oft kjarngóð og því ætti nytin einnig að verða góð. Slíkt gerist þegar svalt er og vott framan af sumri, en síðan hlýrra og þurrt og kann þjóðtrúin að vísa til þess að þegar vorið er kalt þá er oftast frost á sumardaginn fyrsta sem leiðir líkum að því að sumarið verði seinna á ferðinni. Þá er allur gróður einnig seinni að taka við sér, en það gerir grösin kjarnbetri og bætir nyt búpenings.

(Gúgglað af Wikipedia)

 

 

(Heitt og kalt mætast) 


Áður en rómverska tímatalið barst hingað með kirkjunni höfðu Íslendingar komið sér upp eigin tímatali sem ekki virðist hafa verið til annars staðar. Sennilega hefur Íslendingum þótt nauðsynlegt að hafa eitthvert sameiginlegt tímaviðmið eftir að þeir settu sér eigin samfélagsreglur með stofnun Alþingis snemma á 10. öld.

Rómverska tímatalið varð virkt eftir að föst skipan komst á kirkjuna með stofnun biskupsstóls eftir miðja 11. öld. Íslendingar köstuðu samt gamla tímatalinu ekki fyrir róða heldur löguðu það til svo að það lifði góðu lífi við hlið hins kirkjulega tímatals og gerir enn í vönduðum almanökum.

Í stærstu dráttum var árinu skipt í tvö nær jafnlöng misseri: Vetur og sumar. Vetrarmisserið byrjaði alltaf á laugardegi og sumarmisserið á fimmtudegi. Fram til ársins 1700 var það fimmtudagurinn á bilinu 9.-15. apríl en eftir 1700 á bilinu 19.- 25. apríl

(Gúgglað af vísindavef HÍ)



(Miðnætursól)
 

Sumardagurinn fyrsti er í almanakinu talinn annar fimmtudagur eftir Leonisdag sem er 11. apríl hvert ár, eða með öðrum orðum fyrsti fimmtudagur eftir þann 18. Hann er því aldrei fyrr en 19. apríl og ekki síðar en þann 25. Á þessum tíma er hlýnun á vori komin vel í gang, meðalhiti 25. apríl er 0,3 stigum hærri en 19. apríl.

Þó að svalt sé í veðri á þessum tíma er dagurinn vel valinn af forfeðrunum því um þetta leyti skiptir á milli kaldari og hlýrri hluta ársins. Sömuleiðis verða á þessum tíma árviss fjörbrot vetrarins í háloftunum yfir landinu og sumarið tekur við, þá dregur að jafnaði mjög úr afli veðurkerfa.

(Gúgglað af vef Veðurstofu Íslands)



(Síldarminjasafnið á Sigló)

En þessi dagur sem hefur svo lengi verið haldinn hátíðlegur á hér á Fróni, virðist vera nokkuð séríslenskt en mjög svo vel til fundið fyrirbæri. Líklega meðal annars vegna þess að forfeður okkar hafa haft meiri þörf fyrir slíkan dag en t.d. þeir sem búa þar sem veðurfar er mildara.


(Hólshyrnan)

Ég vil óska þeim sem eiga það til að rekast hingað inn sem og öllum öðrum Gleðilegs sumars.


(Lengst inni í Skútudal.)

Og í tilefni dagsins er tilvalið að skreppa út í góða veðrið og fá sér súkkulaði eða jafnvel ís.

20.04.2009 23:45

Ashley Flores, CSI, sundurlyndi í Samfylkingunni og gamlir popparar sem toppa.

560. Ég fékk þennan póst sendann áðan og eitthvað sagði mér að koma honum fyrir hér á síðunni.
                    
Þessi póstur kemur frá Frakklandi. Sendu þetta til allra sem þú þekkir...maður veit aldrei.
Viltu vera svo væn / vænn að skoða myndina vel, lesa skilaboðið frá móður hennar og

áframsenda þetta til allra sem þú þekkir, eða hefur e-mail hjá.;

Dóttir mín er 13 ára og heitir  Ashley Flores, hún hefur verið týnd í tvær vikur. Ef þið sendið þetta til allra sem þið

þekkið þá gæti einhver þekkt hana af myndinni. Ég veit í dag að bæði börn og fullorðið fólk hefur fundist eftir svona
myndum. Internetið fer um allan heim og heimsálfur.
Viljiði vera svo væn að senda þetta til allra sem þið þekkið. Með ykkar og Guðs hjálp gæti ég fundið dóttur mína.
Ég bið ykkur,  ég grátðbið ykkur að senda þessa mynd áfram til allra sem þið mögulega getið.
Það er aldrei of seint.................
ÉG BIÐ YKKUR HJÁLPIÐ MÉR.!!!!!!!!!
Hafirðu einvherjar upplýsingar um hana, þá vinsamlega hafið samband við :

HelpfindAshleyFlores@yahoo.com
Það gæti í mesta lagi tekið þig 2 mínútur að senda þetta áfram
.
Ef þetta væri dóttir þín.....þá myndirðu gera allt sem í þínu valdi stendur....
    BÆÐI MÖGULEGT OG ÓMÖGULEGT TIL AÐ FINNA HANA!!!


Ég var að horfa á CSI í kvöld sem ég geri yfirleitt, því þessir þættir eru að mínu mati hið ágætasta afþreyingarefni (þó ekki Miami afbrigðið) og heldur gáfulegri afurð en margt annað Hollywoodþunnildið. En núna eins og ég hef reyndar séð gerast nokkrum sinnum áður, var verið að dæma í máli sem þó var enn verið að rannsaka. Svona einfeldningslegur galli gerir mig svolítið pirraðan (eins og allir hljóta að átta sig á sem þetta lesa) og ég trúi ekki að réttarkerfið í henni Ameríku sé svona ófullkomið eða skyldi það kannski vera þannig? Eða er kannski enginn að spá í þessa hlið málsins nema sérvitringar eins og ég, og tilgangur "gerðarmanna" var aðeins að fara frjálslega með formið, byggja upp spennu af ódýru gerðinni og þeir fór því stuttu leiðina vegna þess að handritshöfundurinn var kominn í mikið tímahrak?

Æ, æ...



Eftirfarandi frétt má lesa á visir.is.
í dag 20. apríl."Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, útilokar samstarf við Vinstri hreyfinguna - grænt framboð nema að ágreiningur um aðildarviðræður við Evrópusambandið verði til lykta leiddur. Hann segir að Samfylkingin muni ekki selja frá sér aðildarviðræður við ESB við stjórnarmyndun. Þetta kom fram í máli Björgvins á borgarafundi sem sjónvarpað var beint á Ríkissjónvarpinu í kvöld."

Þetta er auðvitað ekki í fyrsta sinn sem ýmsir framámenn í Samfylkingunni tala ekki einum rómi eða ganga ekki alveg í takt og sýna það og sanna að flokkurinn er í raun samsafn margra minni flokka sem enn hafa ekki runnið saman í eina heild. Væri ekki eðlilegt að láta formanninum það eftir að gefa út yfirlýsingu af þessari stærðargráðu? 
Mín tilfinning er sú að þarna sé Björgvin að leika af fingrum fram (en þó ekki án feilnótna) svolítinn sólókafla í forleiknum að væntanlegum kosningum og eiginlega stilla VG upp við vegg, en sá flokkur hefur svo aftur fyrirfram útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Maður spyr sig hverjir aðrir möguleikar séu fyrir hendi að kosningum loknum ef Steingrímur J. "lýtur ekki í gras" fyrir Björgvin og fær út töluna 1.
Sá kostur hlýtur að teljast fullreyndur í bili (Sjálfstæðisflokkur / Samfylking), enda brýtur þar ekki síður á Evrópumálum. Við eigum þá kannski það í vændum sem okkur vantar síst af öllu, þ.e. (stjórnar)kreppu á kreppu ofan.

En að öðru en þó ekki endilega alveg óskyldu... 
Sem kunnugt er hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn seinkað greiðslu á öðrum hluta lánsins til okkar Frónbúa og ber við pólitískum óróleika.
Kannski ekkert skrýtið.



Seint á áttunda áratugnum
var starfandi fjögurra manna hljómsveit á Siglufirði sem gerði það þokkalega gott. Ég fékk ábendingu um að á þessari mynd kæmi það glögglega fram að þrír fjórðu hennar hefðu þarna komist á toppinn. Og mikið rétt, þegar að er gáð stenst sú fullyrðing líklega alveg fyllilega en eitthvert afbrigði af tvíræðni er þarna vissulega til staðar. Myndin er tekin þegar gönguhópur stóð á toppi einum af Móskarðshnjúkum sem eru innsti og næst hæsti hluti Esjunnar. Ég læt svo öðrum eftir að reyna að átta sig á hver það var sem fór EKKI "á toppinn".

17.04.2009 15:39

Bátamyndir frá Siglufirði

559. Enn er gramsað í gömlum myndum sem fundust uppi á háalofi á Sigló fyrir allnokkru síðan. Í bunkanum er talsvert af misjafnlega góðum skipamyndum. Sumar voru orðnar mjög máðar og óskýrar en öðrum mátti alveg bjarga fyrir horn. Þær sem sjá má hér að neðan eiga það flestar sameiginlegt að auðkennisstafir bátanna eru sýnilegir og vonandi hafa einhverjir gaman af.








Með því að stækka myndina mjög mikið upp sýndist mér þetta vera IS-29





Að vísu er hvorki komið nafn né númer á þetta fley en mér fannst rétt að láta þessa mynd fljóta með.

14.04.2009 12:09

Siglfirðingahittingur 2009

558. Nú er öðru sinni hafinn undirbúningur undir Siglfirðingahitting á Catalinu við Hamraborg, en til stendur að endurtaka leikinn frá því í fyrra og helst auðvitað að gera enn betur. Stefnan er sett á 23. maí, en þá helgi er haldið upp á afmæli Síldarbæjarins mikla og verður hið árlega Siglfirðingakaffi t.a.m. daginn eftir þ. 24. í Grafarvogskirkju. Í fyrra hittist myndarlegur hópur á staðnum og stigu þar á svið nokkrir sveitungar vorir, en myndirnar hér að neðan eru síðan þá.


Selma Hauks.


Maggi Guðbrands.


Leó Ingi.


Kristbjörn Bjarna.

Nánari umfjöllun um ballið í fyrra er að finna á slóðinni http://leor.123.is/blog/record/247658/ 
ásamt heilmiklu af myndum.


Byrjað er að raða saman svolítilli dagskrá og eru allar ábendingar vel þegnar, annað hvort sem kommentum, í síma 863-9776 eða á
leor@simnet.is
Eins og í fyrra er hér á ferðinni 100% sjálfboðavinna unnin af fórnfúsum höndum, jákvæðu hugarfari og þöndum raddböndum, en það er m.a. forsenda þess að frítt verður inn á staðinn og mæting að öllum líkindum betri á þessum síðustu tímum.
Nánar verður svo fjallað um málið í fréttablaði Siglfirðingafélagsins og víðar.

04.04.2009 17:24

Í snjónum á Sigló



557. Um s.l. mánaðarmót skrapp ég á heimaslóðir, enda var það orðið fyrir löngu síðan miklu meira en tímabært. Ég get ekki neitað því að vitneskjan um að snjó hefði kyngt niður undanfarna daga dró síður en svo úr eftirvæntingunni. Mér hefur nefnilega fundist undanfarin ár að ég hafi ekki séð almennilegan snjó allt, allt of lengi. Ég hafi farið farið á mis við að endurlifa það sem hefur búið í undirmeðvitundinni allt frá því í barnæskunni, rétt eins og leiftur frá liðinni tíð sem annað slagið hefur þó gægst upp á yfirborð hinnar líðandi stundar og minnt á það sem einu sinni var. Þegar heilu snjókastlarnir eða jafnvel lítil þorp voru byggð á brekkunni og byggingarefnið virtist ótakmarkað. Einhverra hluta vegna var alltaf meiri snjór í minningunni en síðar varð. Hann kom líka fyrr á haustin og fór ekki aftur fyrr búið var að halda Skarðsmótið um Hvítasunnuna. Það var svo oft ekki fyrr en í júnímánuði sem var farið að huga að því að opna landleiðina um Siglufjarðarskarð, en um það var síðan ekki alltaf fært nema u.þ.b. 4-5 mánuði á ári. En þess utan var póstbáturinn Drangur aðal samgöngutækið og þjónaði byggðarlaginu.

Spáin var síður en svo góð, en ýmislegt fannst mér benda til þess að hún væri ekki að ganga eftir á þeim tíma sem ráð var fyrir gert. Vonandi verður lægðin eitthvað á eftir áætlun að þessu sinni og ég næ "fyrir hornið" á veðrinu eins og stundum hefur gerst.
Eitthvað á þessa leið var þankagangur minn þegar ég kom upp úr Hvalfjarðargöngunum og horfði yfir Skipaskagann í áttuna að Snæfellsnesinu. Jú, það voru vissulega farnir að myndast einhverjir skýjabólstrar þarna, en skyldu þeir vera farnir að ná eitthvað inn á vesturlandið...?




Þegar horft var inn Borgarfjörðinn sunnanverðan í áttina að Hvanneyri, var vont veður eitthvað sem virtist frekar fjarlægt. Himinninn var blár og sólin skein yfir snævi þakið landið.



En í norðrinu fór hann þó þykknandi, um það varð ekki deilt.



Fátt bar síðan til tíðinda fyrr en komið var upp á Holtavörðuheiði. Eins og sjá má er þetta fullkominn staður fyrir spennulosun fyrir adrealínfíkla, en það var ekki það sem ég var að sækjast eftir á þessari stundu. Í mínum huga var framundan fátt annað en kapphlaup við veðraskilin sem færðust hratt inn yfir landið.



Og stundum er þetta það sem fyrir augu bar þegar rýnt var út um framrúðuna.



Það var ekið á 30-40 km. hraða frá Bifröst, norður yfir heiði og langleiðina í Vatnsdalinn, en þar birti skyndilega og ég var greinilega kominn í annað og mun betra veður.



Ég stoppaði svolitla stund, smellti þá af  þessari mynd af hlöðnu ökutækinu og hugsaði í leiðinni með mér að það væri alveg merkilegt hvað kæmist af dóti inn í svona lítinn bíl. Ferðin var m.a. notuð til að ferja hluta úr búslóð norður á heimaslóðir.



Eftir svolítið kóf á Vatnsskarðinu tók Skagafjörðurinn á móti mér með ágætu skyggni, a.m.k. til að byrja með. En þegar komið var norður fyrir Hofsós var engu líkara en tjöld hefðu verið dregin fyrir framhaldið. 
hvað býr í kófinu? Það mun enginn fá að vita nema sá sem að gætir.




Fyrir neðan bæinn Vatn á Höfðaströnd ók ég inn í fyrsta alvöru snjóskaflinn á leiðinni. Hann var svo sem hvorki þykkur né langur og þéttleikinn var ekki verulegur. En hann dugði alveg til að hindra för smábíla og ökumenn þeirra sem haldnir eru óraunsærri bjartsýni. Þetta ástand hef ég ekki upplifað í mörg ár og ég sat um stund og rifjaði upp hvernig réttast sé og eðlilegast að bregðast við á slíkri stundu.
Eftir svoltilar vangaveltur teygði ég mig í plastpoka sem innihélt ullarhúfu, peysu, trefil og vettlinga. Þegar áðurnefndar flíkur voru allar komnar á sinn stað, var farið út og sparkað frá dekkjum, ýmsar aðrar hundakúnstir viðhafðar sem gætu orðið til þess að bíllinn losnaði og ég gæti haldið áfram för. En allt kom fyrir ekki og mér kom sem snöggvast í hug að ganga upp að bænum og fá lánaða skóflu, en ég vildi nú fyrst láta reyna á hvort ég gæti ekki bjargað mér á eigin spýtur. Fyrst ég var skóflulaus varð ég að notast við eitthvað annað verkfæri sem gerði svipað gagn. Ég opnaði afturhlerann og dró út langt og mikið hallamál sem ég notaði síðan til að "kraka" snjóinn undan bílnum og viti menn, eftir tæp þrjú korter var Micran laus úr skaflinum og ég bakkaði út úr honum. Ég hafði verið í símasambandi við Leó Inga rétt áður en ósköpin dundu yfir og hann sagði mér að vísbendingar væru um að versti kaflinn á allri leiðinni væri líklega milli Ketiláss og Siglufjarðar. Ég horfði út í sortann um stund og tók síðan að mér fannst þá skynsamlegu ákvörðun að snúa við. Líklega væri bara vel til fundið að aka svolítinn spöl til baka og banka upp á hjá "litlu systir" á Flugumýri og setjast þar upp yfir nóttina.
Mér tókst ágætlega að snúa við þrátt fyrir lítið sem ekkert skyggni og ók af stað. Ég var akkúrat að nudda lítil grýlukerti úr augabrúnunum í sama mund og mikill kófstrókur gekk inn á veginn og byrgði sýn. Ég sá glitta í vegstiku og gætti þess vel að fara réttu megin við hana (að ég taldi). En dómgreind mín var greinilega ekki upp á það allra besta, aðstæður voru líka á móti mér og ég fann að bíllinn hallaði skyndilega óeðlilega mikið. Ég hékk þarna utan í vegbrúninni og komst hvorki aftur á bak né áfram. Það var því ekki um annað að ræða en að ganga upp að bænum og leita eftir aðstoð við að komast aftur upp á veginn. Valgeir bóndi tók vel á móti hinum hrakta ferðalangi og bauð til stofu. Eftir svolitla stund var orðinn til hinn ágætasti uppáhellingur sem ásamt meðlæti rann ljúflega niður og veðurbarinn "Eyjólfur" tók að hressast eftir volkið.
"Ég held þú farir ekkert mikið lengra í bili" sagði hann og kímdi svolítið.
"Við búum bara um þig og í fyrramálið ferðu svo bara í plógfarið á eftir ruðningstækjunum".
Þetta varð úr, enda skynsamlegasti kosturinn.
Morguninn eftir var svo bíllinn dreginn upp á veginn og ég hélt áfram för minni.




Þessi mynd er tekin á Almenningunum, en þarna var aftur orðið ófært með öllu fyrir smábíla þrátt fyrir að búið væri að að "stinga í gegn" einu sinni eða tvisvar um morguninn. Ég beið því eftir næstu opnun og hélt þá áfram. Snjógöngin voru víða mun hærri en bíllinn og á ströndinni Siglufjarðar megin við Strákagöng hafði þá þegar fallið a.m.k. eitt snjóflóð.



Ekki var um annað að ræða en "fara fetið" og aka á 30-40 km. allt frá Fljótum og á leiðarenda. Það var eftir hádegið mánudaginn 30. mars að ég komst í hús, og að þessu sinni mitt eigið hús í síldarbænum og snjóakistunni Siglufirði. Þegar leið á daginn létti svolítið til og ég tók þessa vetrarlegu mynd í gegn um glerið út um eldhúsgluggann.



Og þessa einnig, en svo var farið að tæma bílinn



Skömmu síðar opnaði ég gluggann götumegin og leit út. Undir glugganum við innganginn í Bakaríið beið þessi bráðfallegi Siberian Hursky og virtist feginn athyglinni sem ég veitti honum



"Snjókorn falla á allt og alla" og ljósastaurinn fyrir utan stofugluggann var orðinn ansi "jólalegur".



Húsið sem hýsti Höllusjoppu, Lillusjoppu, Gunnusjoppu o.s.frv. hefur oft verið aðgengilegra en núna.
Í eina tíð kvað Bjössi nokkur Birgis...
Anna lára, Bryndís, Bára frænka mín og Lalli Blöndal,
Anna Lára Bryndís, Bára frænka mín og Lalli.
...Ó Lalli, ég ætla að fá mér blað,
ó Lalli ég ætla að lesa það,
ó Lalli ég ætla að fá mér bók,
svo skrepp ég yfir til Höllu og fæ mér eina kók...

Margir halda að þarna sé á ferðinni meiningarlítill slarktexti sem sé fátt annað en sniðugur og skemmtilegur samansetningur, en þeir sem eru komnir til vits og ára eru mun meðvitaðri um yrkisefnið. Það var akkúrat þarna á horninu sem Bjössi og fleiri góðir drengir gengu gjarnan (ekki þó alltaf beint) yfir götuna frá Aðalbúðinni þeirra Lalla, Óla, Bryndísar og Báru þar sem seld voru blöð og bækur og yfir í sjoppuna til Höllu.




Daginn eftir var farið á svolitlar myndaveiðar. Nú skyldi taka nokkrar "snjómyndir" og það var alveg víst að hráefnið í þær var síður en svo af skornum skammti. Á bak við skaflinn eru Örlygsstaðir hinur nýju, eða hús Stjána Sæby frá því á fyrri hluta síðustu aldar.



Sami skafl og sama hús á bak við hann, bara örlítið neðar og breytt sjónarhorn.



Jeppinn er á kafi, enda best að halda sig innan dyra í þessari færð eða öllu heldur ófærð. Neðsta hæð hússins er líka alveg á kafi.



Á Vetrarbrautinni er heilmikill snjóruðningur fyrir framan gamla S.R. frystihúsið þar sem ég vann í fiski sem unglingur. Þó má sjá í toppinn á S.R. 46.



Það fýkur yfir hæðir, en ekki síður yfir húsin í bænum og skaflamyndanirnar taka á sig ýmis konar form.



Sums staðar mótast þó strengir og straumar vindanna m.a. af legu húsanna og mynda óvænt eins konar "vin í eyðimörkinni" eða alveg frábært stæði fyrir bílinn mitt í allri niðurkomunni.



Myndarlegur hóll fyrir neðan pósthúsið.



ég leit upp á þakið hjá mér og sá að þar var talsverður snjór sem myndi væntanlega koma niður með miklum látum og hamagangi um leið og hlýnaði.



Eitt af verkefnunum í ferðinni var að koma nokkrum gömlum fjölskyldumyndum upp á vegg, en þær voru flestar ættaðar frá föðurfólki mínu á Ásfelli sem er við suðurjaðar Akraneskaupstaðar. Ég hafði komist í talsverða námu af skemmtilegu myndefni, fengið að skanna að vild og var núna búinn að vinna svolítið við þær og laga til, prenta út og ramma inn.



Og þarna voru þær komnar á sinn stað.
En nú var komið kvöld og tímabært að slafra í sig eins og einum 1944 og leggjast síðan í sjónvarpsgláp.




Daginn eftir var svo haldið áfram á myndaveiðum. - Undir snjónum er Ráðhústorg.



Græna húsið á mótum Eyrargötu og Lækjargötu.



"Frystihús" Þormóðs Ramma sem er þó  alls ekki frystihús lengur. Að sunnanverðu var það alveg á kafi og enga misfellu að sjá hvort sem hús var undir skaflinum eða ekki.



Annað sjónarhorn frá svo til sama stað...
Og nú stendur til að setja upp nýja rækjuverksmiðju í húsinu, því þær tvær sem lokað hefur verið þykja ekki uppfylla nútímakröfur lengur og vera óhagknæmar í rekstri.




Þegar ég var á leið frá hafnarsvæðinu mætti ég Gulla Sínu á lyftaranum og við tókum tal saman. Eftir að ný starfsemi verður komin til í húsnæði Rammans fær Gulli e.t.v. nýtt starfsheiti, en hann hefur eiginlega verið nokkurs konar húsvörður þar á bæ undanfarið.



Óhætt að segja að gatan sem hér er horft eftir standi undir nafni þessa dagana, en fyrir þá sem ekki vita þá heitir hún Vetrarbraut.



Og ruðningurinn hérna norðarlega á Vetrarbreutinni er næstum þrisvar sinnum hærri en bíllinn.



Og snjóskaflarnir taka á sig ýmsar myndir.



Hér er nýlega búið að moka Eyrargötuna eftir síðasta hvell, en þegar snjóaði mikið á stuttum tíma fyrir nokkrum dögum voru helstu götur opnaðar þannig til að byrja með að þær voru aðeins einbreiðar. Ekki var því hægt að mætast hvar sem var og eins gott að fara gætilega.



Gamla áhaldahúsið við Norðurgötu.



Bæjarstarfsmenn voru að moka ofan af sambýlinu, en það hafði safnast fyrir mikill snjór.



Á brekkunni var auðvitað mikill snjór rétt eins og í eina tíð. Ég gerði nokkuð af því að stilla litla bláa bílnum upp við snjóruðninga til að sýna hæð þeirra.



Þessi mynd er tekin til austurs á brún Lindargötu við lóðina þar sem Hólar stóðu áður.



Og þessi á sama stað nema hún er tekin til norðurs.



Þarna sést hússtæði Hóla betur en lóðin gegnir greinilega hlutverki snjógeymslu, enda ekki vanþörf á plássi undir öll ósköpin.



Og enn á sama stað.



Ég hélt áfram og upp á Hverfisgötu en þegar þangað kom sá ég að sjónvarpsmenn voru að taka myndir yfir bæinn. Þegar myndavélin beindist að mér smellti ég af á móti en vélinni var þá snúið snarlega í aðra átt. En ég vissi þar með að það yrðu fréttir af snjónum á Siglufirði í kvöldfréttatímanum sem gekk eftir.



Og eftir að leið á daginn varð sífellt greiðfærara.



Óli Bjarna sagðist bæði hafa þurft að moka sig út á morgnana og inn á kvöldin upp á síðkastið.



Það dugar víst skammt að sérmerkja eins og hér sést stæði þegar það er fullt af snjó.



Það hefur yfirleitt þótt hið besta mál að hafa suðursvalir á húsum sínum, en akkúrat núna gegna þær líklega frekar óhefðbundnu hlutverki.



Ekki verður annað sagt en að þetta sé mjög lögulegur skafl. Í þetta hús kom ég oft hér í eina tíð en þá bjó þar Palli Magg ástamt Auði konu sinni, börnunum Magga (bekkjarbróðir mínum) og Guðnýju kennara.



Og yngri kynslóðin kunni greinilega betur að meta snjóinn en sú eldri.



Horft niður "Bæjarbrekkuna" á allan snjóinn á Ráðhústorginu.



Og enn er sá blái mátaður við snjóruðningana.



Á bak við þennan skafl sést í efsta hlutann á Bólsturgerðinni sem nú er að verða aðsetur Einingar/Iðju. 



Eyrargatan er ekki nefnd eftir Gvendi á Eyrinni sem lúin hvílir bein þó að leiði hans sé týnt, en hún er vissulega nokkuð kuldaleg á að líta.



Ég heyrði af því að fleiri flóð hefðu fallið á ströndinni og varð auðvitað að skoða málið.



Og það höfðu greinilega fallið nokkrar myndarlegar spýjur úr Strákafjalli og yfir veginn, en þar hafði verið opnað aftur.



Þarna hafði farið nokkuð þykkt flóð og ég varð auðvitað að slá á það máli með minni aðferð.



Og hér sést hvaðan það hefur komið.



Áfram var skafið...



...en mér fannst nóg skoðað norðan bæjarins og snéri heim á leið...



...og hélt áfram að taka mynir af snjó.



Skaflinn norðan við "Hótel Höfn" náði vel upp á aðra hæðina.



Og þessi "afstöðumynd" segir líka sitt.



Nýjasta húsið í bænum ásamt nýjasta snjónum.



Ofarlega á Ránargötunni er hús í felum á bak við þennan myndarlega snjóskafl.



Og nú var farið síðasta hringinn um bæinn þennan daginn og reyndar síðasta hringinn fyrir suðurferð, en það var í sjálfu sér litlu við að bæta því alls staðar var það sama í boði. Snjór og enn meiri snjór.
Ég ók eftir Norðurgötunni, inn á fjörð og aftur til baka.
  



Á bakaleiðinni gerði all nokkra hryðju svo skyggni versnaði til muna.



En þegar ég kom inn í bæinn hafði stytt upp og öll tiltæk moksturstæki unnu að því að hreinsa bæinn og nokkuð sýnt að þannig yrði það í allmarga daga.



Sunnubrakkinn sem hefur nánast verið eins og hluti af hinu Siglfirska bæjarlandslagi frá því ég man eftir mér, mun eiga að hverfa einhvern tíma með vorinu. En eitthvað mun eiga að rísa þarna í staðinn frétti ég og það innan einhvers tiltekins tíma sem ég veit reyndar ekki hver er. Mér kom því svolítið undarlega fyrir sjónir að einhverjar viðgerðir væri að fara fram á húsi sem á að rífa eftir nokkrar vikur. En þegar betur var að gáð sá ég að þetta voru líklega ekki beinlínis viðgerðir í þeim skilningi, heldur var þarna miklu frekar um að ræða einhvers konar varúðarráðstafanir. Þegar betur var að gáð sýndist mér sem veggir hússins væru hreinlega spengdir saman með plönkum og þeir svo líklega boltaðir í eitthvað sem er innan veggja. Reyndar er þetta að mestu leyti tilgáta hjá mér og hafi einhver réttara og betra svar, er sá hinn sami beðinn um að láta ljós sitt skína.



En ekki mátti koma og fara aftur án þess að taka eitthvað til hendinni á loftinu. Það hefur yfirleitt verið gert í hverri ferð undanfarin misseri þó ekki sé nema lítið eitt í senn. Þá miðar þá alla vega svolítið áfram en ekki aftur á bak.



Ég er u.þ.b. hálfnaður að einangra þakið, en betur má ef duga skal. Það er í það minnsta nóg af ullinni þarna uppi sem enn er í plastinu og bíður þess að komast á sinn framtíðarstað.



Mér hefur alltaf fundist þessi ullarhnífur vera hið ógurlegasta vopn.



En fimmtudaginn 2. apríl var kominn heimferðartími. Ég hefði gjarnan viljað vera lengur en þar sem átti að spila kvöldið eftir og sinna einu og öðru smálegu fyrir helgina, var rétt að vera tímanlega á ferðinni. Það var svolítið kóf á bökkunum fyrir neðan Mánarhyrnu.



Þegar ég ók fram hjá vegamótunum þar sem farið er upp í Siglufjarðarskarð, hugsaði ég bara "einu sinni var" þakklátur fyrir það sem ég hef. Samt er þessi "túrhestavegur" alveg ómissandi með öllu á sumrin, frægur að endemum. 



Rétt áður en ég kom að Lambanesreykjum sá ég hvar flutningabíll hafði fokið út af veginum í hálkunni. Já, það er sennilega rétt að geta þess að þennan dag var mjög mikil hálka og mikill hliðarvindur, því þurfti að halda vel í stýrið og fara ekki of geyst. Annars lagaðist færðin eftir að komið var í Sléttuhlíðina eins og svo oft.



Það var bara á Holtavörðuheiðinni sem var talsverð blinda. En ég var bæði að fara heim og einnig að koma að heiman, búinn að safna svolítilli orku og ágætlega endurnærður á sálinni. Hvað geta hlutirnir orðið miklu betri?

04.04.2009 17:24

Nýfarin Siglóferð, afmæli sem næstum gleymdist og fólk með englaraddir.

556. Þá hefur ferðin á heimaslóðirnar verið farin og ferðalangurinn er kominn til baka. Þessi mynd segir nokkuð um skyggni og veðurfar meðan á ferðalaginu stóð. Nánari upplýsingar eru svo á leiðinni.

En eitthvað gengur fæðingin á Siglufjarðarpistlinum erfiðlega, en vonandi hefst þetta fyrir sumarmál.


Viðbót 07.04.09.



"Fjandinn fjarri mér" hugsaði ég með mér í dag þegar ég áttaði mig á að mér hafði alveg liðið úr minni afmælisdagur míns fyrrverandi samherja um áratuga skeið.
Já, mikill lúðalags auli getur maður verið nú á hinum síðari árum þegar feyskinn hugurinn hreinlega lekur út slíkum merkisupplýsingum, rétt eins og harður diskur í útjaskaðri 286 tölvu sem hefði með réttu átt að vera búið að fara með í endurvinnslugáminn fyrir margt löngu síðan. Það bendir því flest til þess að kominn sé tími til að taka til í hausnum á sjálfum sér og "rístora" búnaðinum í toppstykkinu, eða alla vega því sem enn er virkt þar uppi.
En þessi sólhýri og sviplétti maður sem á "góðum" dögum hefur stundum verið nefndur "miðaldra dökkblá jakkaföt" af nokkrum einstaklega ófyndnum "húmoristum", átti nefnilega afmæli í vikunni. Nú er hann farinn að nálgast sextugt (kannski meira en góðu hófi gegnir að hans mati) og verður því að öllum líkindum kominn lítillega á sjötugsaldurinn um það leyti sem kreppunni fer að linna, svo gefin sé svolítil vísbending umstöðu mála án þess þó að leggja fram fullkoma aldursgreiningu.
Ég geri ráð fyrir að mikið hafi verið um dýrðir og dagurinn viðburðarríkur framan af og fram eftir. En afmælis"barnið" hafi að lokum eins og honum er svo tamt og lagið, látið sig líða inn í annan heim eftir að rökkva tók, honum horfið þar með hið veraldlega amstur og hann staðið utan líðandi stundar um nokkurt skeið.
Mikið er gott að vera slíkum kostum og hæfileikum búinn, ég segi nú ekkert annað en það.

Ég óska Gunnari Jósefssyni til hamingju með afmælið og veit að kveðjan kemst til skila af því að ég hef "sannfrétt" að hann er einn af dyggum lesendum bloggsíðunnar þó í laumi sé.


Viðbót 09.04.09.



Ég má til með að koma á framfæri við þá sem ekki þekkja einu því magnaðasta tónlistaratriði sem ég hef séð í langan, langan tíma. The Voca people er söngflokkur sem notar aðeins það mannlega hlóðfæri sem við fæðumst með og gerir það á undraverðan hátt. Þessi hópur fremur hálfgerða hljóðgjörninga án hjálpar nokkurra hljóðfæra eða effekta og maður situr gersamlega dolfallinn yfir því sem fyrir eyrum hljómar. Ég mæli með að þið smellið á slóðina http://www.youtube.com/watch?v=N6EYrqIn0yI og hækkið vel í hátölurunum.

Annars nálgast páskanir eins og "óð fluga" og sá sem þetta ritar verður "home alone" fram yfir alla dagana sem merktir eru rauðir á dagatalinu. Ástæðan er sú að það er verið að spila um hátíðarnar og ég kemst því ekki með vestur á firði eins og "hinn hlutinn". Svo má geta þess að ég keypti ekkert páskaegg í ár, en þessi í stað sex lítra af ís sem verður alveg örugglega allur búinn áður en fjölgar aftur á heimilinu og kannski hef ég það af að klára "stóra Siglufjarðarbloggið" á meðan, - hver veit.

  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 237
Gestir í dag: 42
Flettingar í gær: 575
Gestir í gær: 91
Samtals flettingar: 303034
Samtals gestir: 32772
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 04:20:06
clockhere

Tenglar

Eldra efni