Færslur: 2008 Nóvember

28.11.2008 21:24

Drossía



517. Sú var tíðin að allir flottir bílar voru kallaðir drossíur og hér getur að líta eina slíka. Myndin er tekin á Hverfisgötunni sem er sýnilega öllu þrengri en hún er í dag. Þetta straumlínulagaða ökutæki er beint fyrir framan Hverfisgötu 11, æskuheimili mitt þar sem Tryggvi Sigurjóns og fjölskylda hans býr í dag. Í húsinu sem næst er hægra megin bjó Sigga Gísla móðir Tona kennara, en hann býr þar enn í dag yfir sumarið. Vinstra megin er svo Aðventkirkjan sem nú er horfin fyrir margt löngu síðan og þar er nú komið bílastæði. Það vekur athygli mína að ekki sést í kirkjuturninn sem gæti bent til þess að myndin sé tekin fyrir 1932, en það ár var kirkjan byggð.

Veit annars nokkur hvaða árgerð bíllinn er eða þá tegund?

Ekki veit ég hver er þarna á ferð og ef einhver hefur nokkra hugmynd um það væru þær upplýsingar vel þegnar.

Myndin er úr safni afa og ömmu.

25.11.2008 12:12

Tunnuverksmiðjukarlar.



516. Ég er að skanna
talsvert af gömlum myndum þessa dagana sem ég fann uppi á háalofti norður á Siglufirði. Við fyrstu skoðum virðist fullljóst að þetta efni hefur bæði verið talsvert gleymt og þó nokkuð grafið um árabil. Þessar myndir eru ýmist frá sjálfum mér frá því á bilinu fyrir 20-40 árum síðan, eða úr fórum afa og ömmu og þá sumar hverjar teknar snemma á öldinni sem leið. Ég geri því ráð fyrir að einhver hluti þessarra endurfundnu heimilda úr fortíðinni komi til með að skreyta bloggsíðuna af og til a.m.k. næstu vikurnar. Myndin hér að ofan gæti verið tekin í tunnuverksmiðjunni einhvern tíman í kring um 1970, en þar unnu allir þessir ágætu menn.

 

Frá vinstri talið:
Óli (Ólafur Magnússon) eiginmaður Júllu Möggu og faðir Adda Óla rafvirkja og Siggu (Sigga Jóns og Ingu á Eyri.)
Leó móðurafi minn (Minný Leósdóttir 1934-2002) og einnig faðir Gunnars Leóssonar pípulagningamanns frá Bolungarvík (1933-1994). Jökulfirðingur að uppruna, en hitti ömmu (Sóley Gunnlaugsdóttir) í síldinni 1933 og umbreyttist í Siglfirðing í beinu framhaldi af því án þess þó að gleyma eða afneita uppruna sínum.
Jón á Nesi (eiginmaður Soffíu á Staðarhóli) ásamt fjölskyldu bjó eins lengi og ég man aftur í tímann, í litla húsinu við Hvanneyrarbrautarendann fyrir neðan brekkuna sem liggur upp í Gryfjur. Afkomendur hans eru Þórður fyrrv. verksmiðjustjóri, Margrét, Björn, Snorri, Ásmundur (bekkjarbróðir minn), Ingibjörg og Sigga. Í dag býr Ásmundur á Akureyri, Ingibjörg og Sigríður á Húsavík og Snorri á Seyðisfirði, en ekki veit ég um aðra.

Ekki veit ég hver ljósmyndarinn hefur verið og væru upplýsingar um það vel þegnar ef einhver býr yfir þeim.

24.11.2008 12:54

Gunni Rögg.



515. Ég rakst á þessa mynd fyrir allnokkru síðan í gömlum kassa uppi á háalofti á Aðalgötunni á Siglufirði og fór með hann og allt sem í honum var suður yfir heiðar. Ég gaf mér góðan tíma til að fara yfir innihaldið, henti síðan sumu en hirti annað og er núna búinn að skanna talsvert af myndum sem þar var að finna.
En þetta er Gunnar Rögnvaldsson eða Gunni Rögg (fæddur 1956) sem bjó á Siglufirði fram til 12 ára aldurs. Hann er sonur Rögnvalds Rögnvaldssonar vörubílstjóra og Guðrúnar Albertsdóttur og mig minnti að fjölskyldan hefði búið einhvers staðar á Hólaveginum, en nú hafa mér borist þær upplýsingar frá Magga Guðbrands að það hefði verið við Hlíðarveg 6.

Hann hefur búið í Danmörku s.l. tvo og hálfan áratug eða svo, en segist stefna á að flytja aftur heim innan tíðar. Hann stundaði nám í hagfræði við háskólann í Árósum en hefur undanfarin ár starfrækt eigið ráðgjafafyrirtæki þar ytra.

En Gunni Rögg hefur mjög ákveðnar skoðanir á ESB og skefur ekkert utan af því þegar hann skrifar um Evrópubandalagið og Evrusvæðið. 

 

Og fyrir þá sem vilja kíkja á skrif hans er slóðin http://tilveran-i-esb.blog.is/blog/tilveran-i-esb/

23.11.2008 03:39

Hagfræði fyrir byrjendur.



514. Smásaga sem datt inn í pósthólfið
á dögunum og á ágætlega við á þessum síðustu tímum þegar allra bjargráða er þörf. 


Í þorpi einu birtist maður og kvaðst vilja kaupa apa af þorpsbúum á 1000 krónur stykkið. Þar sem mikið var um apa í nágrenni þorpsins fóru þorpsbúar að veiða apana og selja manninum þá. Maðurinn keypti þúsundir apa af þorpsbúum á 1000 krónur. Þegar framboðið fór að minnka bauðst maðurinn til að borga 2000 krónur fyrir apann. Aftur jókst framboðið um tíma, en síðan minnkaði það enn frekar og hætti loks alveg þar sem erfiðara var fyrir þorpsbúa að finna fleiri apa til að selja. Maðurinn tilkynnti þá að hann mundi borga 5000 krónur fyrir hvern apa sem hann fengi, en hann þyrfti að skreppa frá í smá tíma og aðstoðarmaður hans mundi sjá um kaupin á meðan. Eftir að maðurinn var farin hóaði aðstoðarmaðurinn þorpsbúum saman og bauðst til að selja þeim apana, sem voru geymdir í búrum, á 3500 krónur stykkið. Fólkið gæti svo þegar maðurinn kæmi aftur selt honum apana á 5000 krónur. Þorpsbúar söfnuðu saman öllu sínu sparifé og keyptu apana af aðstoðarmanninum. Síðan hefur ekkert spurst til mannsins eða aðstoðarmannsins.

20.11.2008 08:33

Vinur minn Guðmundur Skoti og skórnir hans.

513. Eftirfarandi saga er af vini mínum Guðmundi Skota. Og þó að Guðmundur heiti í rauninni ekki Guðmundur svona í alvörunni, þá fékk hann samt viðurnefnið "Skotinn" fljótlega eftir landsleikinn við Skota á liðnu hausti og það verður ekki af honum skafið að hann stendur alveg fyllilega undir því. En eins og flestir vita þá gengu Skotasögurnar hér á árum áður út á hreint ótrúlega sparsemi þessara nágranna okkar og vinur minn Guðmundur sem er um margt líkur þarlendum. Hann hefur engu að síður alveg ágætan húmor fyrir sjálfum sér og er á heildina litið hinn vænsti félagi í alla staði. Og þrátt fyrir alla sparsemina sem oftast ber mest á í fari hans, verður það líka að koma fram, að hann getur einnig verið hinn mesti höfðingi heim að sækja.

 

En ástæða þess að ég settist niður til að rita þessar línur, var að fyrir fáeinum dögum átti ég erindi til hans. Ég hitti hann úti við þar sem hann var að mála svalahurðina hjá sér skjannahvíta. Í fyrstu var það málningardósin sem dró að sér athygli mína, en svona dós minntist ég ekki að hafa séð áður. Ég kastaði á hann kveðju en spurði hann síðan upp úr hvers konar málningu hann væri að mála.

"Þetta er nú bara frá henni Hörpu," svaraði hann og virtist svolítið undrandi á spurningunni.

"Þú meinar Hörpu sem síðar varð Harpa-Sjöfn og enn síðar Flugger?"

"Já, ég er búinn að eiga þessa dós lengi, hún hefur bæði verið drjúg og reynst mér vel  í alla staði."

Hann glotti lítillega út í annað eins og hann gerir stundum og ég vissi alveg hvað hann var að hugsa. Hann er nefnilega pínulítið hreykinn af sparseminni í sér og fer ekkert í felur með það.

"Manstu nokkuð hvaða ár hún var keypt?"

Ég gat ekki annað en kímt svolítið með sjálfum mér og renndi augunum til dósarinnar.

"Hún var ekki keypt, heldur fékk ég hana gefins af því það átti að henda henni."

Þetta svar kom mér alls ekki á óvart.

"Hún kostaði sem sagt ekki krónu," svaraði hann hreykinn og það var eins og það hlakkaði í honum.

Guðmundur sem hafði setið á hækjum sér stóð nú upp og dæsti. Breitt bros færðist yfir andlitið á þessum litla manni sem var óvenju rauðleitt þessa stundina, en greinilegt var að það kætti hann að rifja upp sögu málningardósarinnar.

Þá tók ég eftir skónum hans og gat ekki orða bundist.

"Hvers konar fótabúnaður er nú þetta?"

"Já þetta," sagði hann og leit niður á fætur sér.

"Þetta er nú bara sparsemi og ráðdeild á krepputímum," svaraði hann og brosti nú enn breiðara en áður.

Ég gat ekki betur séð en að hann væri mjög hreykinn af skónum sem hann var í.

Ég þreifaði í vasann og fann að myndavélin var á sínum stað.

"Má ég nokkuð taka mynd af þessum merkilegu skóm?"

Og Guðmundur Skoti var nú aldeilis hræddur um það.

Hann fór úr skónum og lagði þá á grasið fyrir framan pallinn við hurðina og ég myndaði þá.

"Og sjáðu svo þessa fínu sóla," sagði hann og snéri skónum við.

"Menn nýta nú ekki hlutina mikið betur en þetta," bætti hann við og ég gat ekki annað en verið honum fyllilega sammála.

Mér fannst þetta ansi sérstakt skópar vægt til orða tekið og var eiginlega svolítið kjaftstopp, en nú fór Guðmundur að segja mér sögu þess og það leyndi sér ekki að hann var greinilega svolítið montinn af þeim.

 

Þannig var að árið sem Þjóðarsáttin var gerð keypti ég mér nýja skó beint úr kassanum. Það er nú ekki oft sem maður fer út í slíkar fjárfestingar, en ég var bara orðinn alveg skólaus og það var alveg bullandi útsala í Hagkaupum. Ég flæktist þarna um innan um fullt af kerlingum, bæði úr Vesturbænum og svo auðvitað alls konar öðrum kerlingum líka og þær rifu svo skóna úr hillunum að mér blöskraði hamagangurinn í þeim. Þetta var eins og að vera kominn í fuglabjarg þar sem allir fuglarnir voru gersamlega ofvirkir og sárvantaði rítalín. Ég leitaði að besta verðinu þarna og ég man ennþá að ég var næstum því búinn að kaupa sandala á tvöhundruðkall. En þá fór ég að hugsa um að það var svolítið slabb úti og stutt í veturinn, svo ég hugsaði mér að ég yrði líklega að spreða svolítið. Ég fann þá þessar fínu mokkasíur á vel innan við þúsundkallinn sem líka smellpössuðu og skellti mér á þær. Ég man líka að ég reyndi að fá smá aukaafslátt af því að kassinn utan um skóna fannst ekki, en það gekk nú ekki. Á þessum skóm gekk ég svo í þrjú ár samfleytt, enda ekki aðrir til skiptanna. Þá var nú annar eiginlega alveg búinn á því en hinn átti kannski svolítið eftir eins og sést. Það var svo þegar móðurbróðir minn andaðist um það leyti, að ég eignaðist hitt parið sem þetta er samansett úr. Hann notaði nefnilega sama númer og ég eða svona rétt rúmlega barnastærð. Það lá því beint við að ég fengi skóna hans, því enginn annar í fjölskyldunni gat notað þá smæðarinnar vegna og maður horfir ekki upp á að verðmætum sé fargað að óþörfu. Ég gekk í nokkur ár á þeim en svo fór nú að lokum að annar skórinn var orðinn botnlaus með öllu, en hinn mátti með góðum vilja nýta eitthvað lengur eins og þú sérð. Og það sem var svo heppilegt í báðum þessum tilfellum, að í annað skiptið var það sá hægri sem reyndist heldur seigari en í hinu sá vinstri. Þess vegna lá það svo beint við að sameina það sem eftir lifði af hvoru parinu. Og eins og þú sérð, þá er kannski svolítill sjónarmunur á þeim en þeir gera nú sama gagn fyrir það.

 

Ég hlustaði hljóður á ræðu Guðmundar sem er eflaust ein af þeim lengri sem hann hefur haldið hin síðari ár og mig setti hljóðan. Hann andaði djúpt og dæsti eins og hann væri að kasta mæðinni, en ég sá að hann var ekki alveg hættur ennþá.

"En ég er búinn að kaupa aðra útsöluskó sem ég nota ef ég fer út á meðal fólks. Þessir eru nefnilega farnir að verða svolítið lasnir."

Og Guðmundur Skoti horfði á þetta vel nýtta skópar sitt og það mátti greina söknuð og eftirsjá í svip hans.

15.11.2008 22:06

Bruni að Baldursgötu

512. Í dag var ég að ljúka við að setja upp innihurð á Hallveigarstíg þegar ég heyrði í fréttum klukkan fjögur að eldur væri laus í húsi við Baldursgötu í Reykjavík. Þar sem Baldursgatan er rétt handan við hornið stökk ég út og þreifaði í leiðinni í vasann eftir myndavélinni sem þar á alltaf að vera. Jú, hún var þar og ég gekk eða kannski frekar skokkaði af stað. Að þessu sinni var það ekki einungis eðlislæg forvitni sem rak mig áfram, því ég á litla íbúð í húsi við umrædda götu. En eftir svolítinn spöl sá ég að eldurinn logaði ekki þar, heldur í húsi þar sem útigangsfólk hefur oft haldið til. Ég leitaði því að heppilegustu stillingunni á myndavélinni og skaut nokkrum "flassandi" skotum í áttina að hinu brennandi húsi, en það var reyndar farið að dimma nokkuð svo myndirnar bera þess lítillega merki. 
Og hér eru nokkrar þeirra...










Á visir.is mátti svo sjá eftirfarandi klausu.

Slökkviliðið hefur ráðið niðurlögum eldsins á Baldursgötu en þar kviknaði í yfirgefnu húsi. Töluverðan tíma tók að ráða niðurlögum eldsins en engin hætta var á því að hann læsti sig í önnur hús í hverfinu. Að sögn lögreglu er verið að rannskaka eldsupptök. Ekkert rafmagn var í húsinu og því beinist grunur að því að kveikt hafi verið í því.

10.11.2008 09:09

Selaveisla



511. Síðast liðinn laugardag var haldin hin árlega Selaveisla í Haukahúsinu og voru þar mættir vel á þriðja hundrað manns. Skýringin á nærveru minni var fyrst og fremst sú að ég spilaði þarna undir borðum og Vanir Menn léku síðan að borðhaldi loknu gömlu og nýju dansana eins og það var orðað upp á gamla mátann fram á nótt. Að þessari samkomu standa núverandi og fyrrverandi eyjabændur úr Breiðafirði ásamt afkomendum og er þetta 16. árið sem þessi viðburður á sér stað. Hér að ofan er Árni sem er einn helsti áhuga og hvatamaðurinn að viðburðinum setja samkomuna.



Veislustjórinn Tryggvi átti marga góða spretti í ræðupúltinu.



Guðmundur stjórðnaði fjöldasöng af mikilli röggsemi.



Aðstoðarkokkarnir voru enn að vinna að undirbúningi eftir að gestir voru allir mættir, sestir inn í sal og hlýddu á ræðumenn.



Gummi og Binni lögðu síðan blessun sína að lokum yfir krásum hlaðið borðið.



Þetta rétt slapp til og Gummi hljóp frá borðinu og upp í púlt þar sem hann útlistaði matseðilinn í smáatriðum og bað síðan fólk að gera svo vel. En þrátt fyrir að félagsskapur eyjabænda sé skrifaður fyrir uppákomunni, er það er Guðmundur Ragnarsson fyrrverandi landsliðskokkur með meiru sem er maðurinn á bak við allt. En Guðmudur hefur rekið eldhúsið í myndveri Latabæjar undanfarin ár auk þess að fylgja Saga-film í allar veigameiri kvikmyndatökur sem það fyrirtæki stendur að. Hann hefur því m.a. eldað fyrir James Bond við Jökulsárlón og Löru Croft upp á Vatnajökli. Auk þessa tekur hann að sér að sjá um veislur af öllum stærðum og gerðum. Guðmundur er sonur Ragnars Guðmundssonar eiganda veitingastaðarins Lauga-ás.



En allt hráefni kemur frá Breiðafjarðareyjum eða upp úr sjónum í kring um þær.



Selur er fyrirferðamestur á matseðlinum, en þar má einnig finna fugl, fisk, lamb og fleira.



Flest af því sem þarna var sést sjaldan eða jafnvel aldrei á borðum á venjulegu Íslensku heimili.



Það er auðvitað ekki sama hvernig fóðrið er framreitt. Gummi er listakokkur og kann að gera veislumat úr öllu því hráefni sem hann kemur höndum yfir.



Marinerað, kryddlegið, súrt og þurrkað selkjöt ásamt alls konar meðlæti.



Og svo er bara að bíða fram að næstu Selaveislu sem verður samkvæmt hefðinni annan laugardag í nóvember árið 2009.

04.11.2008 20:55

Aftur og meira um kreppuna.



510. Við erum farin að nærast á kreppunni
á vissan hátt, tölum í sífellu um kreppuna, segjum kreppubrandara í tíma og ótíma, leitum að sökudólgum og kreppuvöldum, veltum fyrir okkur orsökum og afleiðingum kreppunnar og svo erum við farin að syngja um kreppuna. Eftirfrandi var stungið að mér í dag, en þarna er greinilega á ferð að upplagi hið ljúfsára ljóð sem Villi Vill söng á sínum tíma. Nú er hins vegar búið að aðlaga það nýjum og breyttum aðstæðum sem eru orðnar þær ríkjandi í þjóðfélaginu.

Skuldugur
 
(Lag - Söknuður)

 

Mér finnst ég varla heill né hálfur maður

Og heldur blankur, því er verr

Ef væri aur hjá mér, væri ég glaður

Betur settur en ég er

 

Eitt sinn verða allir menn að borga

Eftir bjartan daginn kemur nótt.

Ég harma það, en samt verð ég að segja,

að lánið fellur allt of fljótt.

 

Við gátum spreðað, gengið um,

gleymt okkur í búðunum.

Engin svör eru við stjórnarráð

Gengið saman hönd í hönd,

Saman flogið niður á strönd.

Fundið stað, sameinað beggja lán.

 

Horfið er nú hlutabréf og lánsfé

Í veski mínu hefur eymdin völd

Í dag ræður bara sultarólin

Nú einn ég sit um skuldavönd

 

Eitt sinn verða allir menn að borga

Eftir bjartan daginn kemur nótt.

Ég harma það, en samt verð ég að segja,

að lánið fellur allt of fljótt.

 

Ég horfi yfir bankann minn

Hugsi hvort hann hleypi mér inn

Ég alltaf gat treyst á þig

Í að fjármagna mig

Ég reyndar skulda allstaðar

Þá napurt er, það næðir hér

og nístir mig.



En á vefnum er búið að setja upp síðu þar sem okkur Íslendingum geftst tækifæri til að þakka frændum okkar Færeyingum höfðinglega aðstoð sem þeir hafa boðið í formi láns upp á 6.1 milljarð íslenskar krónur sem eru milir peningar frá þjóð sem telur aðeins 50.000 manns eða einn sjötta hluta Íslendinga.
En þar segir meðal annars.

Telja má víst að öllum Íslendingum hafi hlýnað verulega um hjartarætur þegar fregnir bárust af því Færeyingar ætluðu að lána okkur 300 milljónir danskar krónur, jafnvirði um 6,1 milljarðs króna til nota í erfiðleikum okkar. Algjör pólitísk sátt var um þetta í Færeyjum og segir sú staðreynd okkur meira en nokkuð annað hversu einhuga Færeyingar eru í að bjóða fram aðstoð sína. Við Íslendingar köllum Færeyinga oftast frændur okkar, en eftir þetta tökum við ekki annað í mál en að kalla þá bræður okkar og systur. Íslendingar! sýnum bræðrum okkar og systrum í Færeyjum hversu mikils við metum framlag þeirra og hlýjan hug. Skrifum nöfn okkar á þakkarlistann hér á þessum vef - allir sem einn. Tugir þúsunda Íslendinga hafa skrifað nöfn sín á vefnum indefence.is til að mótmæla fjandskap Breta til okkar. Nú skulum við sýna fram á það að við kunnum líka að þakka fyrir vinskap í okkar garð.


Hvet ég alla til að fara inn á slóðina http://faroe.auglysing.is/ og rita þar nafn sitt og sýna þannig þakklæti þeim sem hafa e.t.v. sýnt okkur meiri frændsemi og hlýhug á erfiðum stundum en við þeim. Gott dæmi um það er söfnun sem þeir stóðu fyrir eftir snjóflóðin á Flateyri og í Súðavík þrátt fyrir að þá væri kreppa í Færeyjum.
Sú staðreynd að í þeirri kreppu var talið að u.þ.b. 10% þjóðarinnar hefði hrakist úr landi og ekki komið aftur, hlýtur að vekja okkur til umhugsunar. Það þýðir einfaldlega að samsvarandi blóðtaka hér uppi á Fróni þýddi að við myndum sjá á eftir 30.000 manns alförnum úr landi. Það samsvarar u.þ.b. öllum íbúum Hafnarfjarðar og t.d. Akraness. Eða þá öllum íbúum Hvammstanga, Blönduóss, Skagastrandar, Sauðárkróks, Siglufjarðar, Ólafsfjarðar, Dalvíkur, Akureyrar og Húsavíkur.

Það kom hins vegar fram í þættinum "Í mótbyr" sem er á rás 2 kl. 13, að íslensku kreppunni svipar mun meira til þeirrar Finnsku fyrir einum og hálfum áratug síðan. Þá fór atvinnuleysi upp í 30% að meðaltali en náði þó 50% í Lapplandi um tíma. Þeir sem áður höfðu verið taldir þokkalega efnaðir t.d. bankamenn, sáust gjarnan leita matar í ruslatunnum nágranna. Það sem varð til bjargar börnum og unglingum á þessum tíma var að tíðkast hafði að gefa eina heita máltíð í skólum. En reynsla þeirra sem á þessum tíma voru á vikvæmum aldri var vissulega beisk, hún brenndi sig inn í vitund þeirra og olli m.a. aukinni áfengis og eiturlyfjaneyslu og í glæpum. Það er síðan umhugsunarvert að næsta kynsóð þ.e. afkomendur þeirra, sem eru að mæta í skólana á okkar tímum vopnaðir byssum. 

  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 385
Gestir í dag: 98
Flettingar í gær: 291
Gestir í gær: 64
Samtals flettingar: 468907
Samtals gestir: 51444
Tölur uppfærðar: 6.11.2024 14:44:05
clockhere

Tenglar

Eldra efni