Færslur: 2008 Mars

27.03.2008 09:00

Fyrir sléttum þrjátíu árum.

461. Um páskanna þegar ég staldraði við í heila viku á Sigló, gaf ég mér meðal annars góðan tíma til að gramsa í gömlu dóti sem hefur verið ofan í pappakössum í einn eða tvo áratugi. Margt af því sem í kössunum var kom skemmtilega á óvart, því það hefur verið meira og minna gleymt lengst af þeim tíma sem liðinn er síðan því var pakkað niður. T.a.m. koppurinn og snjóþotuöndin hans Ingvars, He-man dótið hans Leó Inga, Dagbók frá Maríönnu og Legokubbarnir hans Hauks. Þarna var líka mikið af gömlum myndum frá afa og ömmu síðan nokkru fyrir miðja síðustu öld, en einnig talsvert af misvelförnum ljósmyndum frá sjálfum mér. Það er ekki mikill vandi að gleyma sér yfir svona löguðu, en hér má sjá Rússajeppann sem kom alkeðjaður upp úr einum kassanum og ég átti fyrir sléttum þrjátíu árum í sérlega eðlilegu umhverfi. Á þessum tíma snjóaði mun meira á Siglufirði en gerist hin síðari ár, eða alla vega er það þannig í minningunni. Ég tel að myndin renni styrkum stoðum undir þá skoðun mína, en hún er tekin á nýruddri Hverfisgötunni eftir nokkurra daga samfellda snjókomu. Í neðra hægra horninu má svo sjá hvar slóðin liggur upp á Háveginn, en hún kom þar upp fyrir neðan "Lákahúsið" og á milli þar sem núna búa Magga Vals og Óli Kára.

27.03.2008 08:59

Fyrir þrjátíuogtveimur árum.



460. Og þó ekki væri nema bara svona rétt til að taka svolítið forskot á afurðir nýafstaðinnar Siglufjarðarsæluveðurblíðupáskaeggjaogafslöppunarreisu fannst mér tilvalið að skjóta inn þessari mynd sem ég fékk góðfúslegt leyfi Guðbrandar löggu til að afrita. Að vísu var ekkert minnst á birtingarrétt, en ég tek bara sénsinn og þá líka væntanlegum afleiðingum ef einhverjar verða. En hana tók Brandur um vorið 1976 á árshátíð Ísfélagsins í Vestmannaeyjum þar sem við unnum. Ég varð ekki svo lítið glaður þegar sá hvað myndaalbúmið hans hafði meðal annars að geyma og hreint ekki svo lítið ánægður með sjálfan mig. Þetta gat nefnilega verið miklu, miklu verra. En einhverra hluta vegna höfðu fáir áhuga á að festa mig á filmu um þetta leyti og ég man varla hvernig ég leit út á þessum árum. En nú er sem sagt svolítið að rofa til, -
þökk sé þér Brandur.

26.03.2008 11:57

Jepparnir fyrir framan Bónus.



459. Á tímum hraðlækkandi gengis
íslensku krónunnar og því mikilla verðhækkana á innfluttum nauðsynjum jafnt sem ónauðsynjum, má sjá að hegðunarmynstur landans virðist lítillega vera að byrja að breytast. En það eru ekki bara brýnustu nauðsynjar sem stíga nú ört í verði, heldur einnig og ekki síður neyslulánin sem tekin hafa verið í erlendri mynt.

Þegar ég kom í bæinn í gær, þurfti auðvitað að skreppa út í búð og versla inn í hálftóman ísskápinn sem heima beið "svangur" og kaldur. Athygli mín var vakin á samsetningu bílaflotans sem breiddi úr sér á stæðinu fyrir framan Bónus á Völlunum í Hafnarfirði. En Bónus sem margur maðurinn í sæmilegum efnum og "holdum" hefur hingað til litið á sem búð "litla mannsins," hefur auðvitað alltaf verið opin báðum þjóðunum sem búa í landinu. Ég held að ég treysti mér til að fullyrða að svona hátt hlutfall jeppa í dýrari kantinum hef ég aldrei séð á þessu tiltekna stæði. Nú hafa sem sagt erlendu myntkörfulánin hækkað upp úr öllu valdi, svo að a.m.k. sums staðar verður eitthvað undan að láta. Þeir sem hafa verið í þykjustuleik sýndarmennskunnar og keypt jeppa á 90 eða 100% láni, verða því margir hverjir að stíga ofan af loftkenndum stalli sínum og drepa eins og öðrum fætinum á jörðina. Þeir hinir sömu verða sem sagt að skera niður og versla eins ódýrt fóður og kostur er til að eiga fyrir afborgunum til SP, Lýsingar eða Glitnis.



Frá Bónus lá leið mín í Krónuna sem er líklega eina búðin sem veitir Bónusfeðgunum einhverja alvöru samkeppni. Þar var líka fullt út úr dyrum og farið að bera lítillega á vöruskorti í hillum því ekki hafðist undan að bera í þær. Þar sá ég hæstvirtan fjármálaráðherra vera að kaupa sér slátur og fleira fóður af þjóðlegra taginu þrátt fyrir að Þorrinn sé búinn og Góan tekin við. Ætli Árni hafi kannski keypt sér jeppa nýverið á vondu bílaláni eða er hann bara skynssamur maður. Ég hallast nú reyndar frekar að hinu síðara.

15.03.2008 23:28

Ævintýri í Eyjum - áttundi hluti.

458. Lífið er saltfiskur - minnist ég að hafa heyrt einhvern segja einhvern tíma. Og það átti alveg ágætlega við í Vestmannaeyjum á áttunda áratugnum. Við sem tilheyrðum aðgerðarteyminu byrjuðum yfirleitt vinnudaginn á því að mæta til Torfa verkstjóra í salfisknum. Þar var svo bæði saltað, umsaltað og allt það sem gera þurfti til að framleiða sem hvítastan og fallegastan saltfisk. Þegar bátarnir fóru síðan að tínast inn, fórum við að tínast yfir götuna og tókum okkur stöðu hver í sínum aðgerðarbás hjá Bassa Möller. Eftir því sem líða tók á daginn urðum við yfirleitt eftirvæntingafyllri, því okkur þótti ekki slæmt að komast í hasarinn og bullandi akkorðið. Saltfiskurinn var því eins konar upphitun fyrir lætin sem voru hápunktur hvers einasta dags sem gaf á sjó, og auðvitað einn þátturinn í hinni fjölbreyttu Íshúsfélagsframleiðsluflóru.Fljótlega eftir gos var hafist handa við að byggja salthúsið hinum megin við götuna. Hér fyrir neðan eru myndir af byggingu þess.







































































Og eins og sjá má þá eru þeir og þær sem að framkvæmdinni komu eru á ýmsum aldri.


Torfi og frú á árshátíð Ísfélagsins...

En það má bæta við svolitlum fróðleik um Torfa verkstjóra sem ég heyrði fyrst af u.þ.b. tveimur áratugum eftir Eyjadvölina. Nokkuð sem ég man ekki eftir að hafi verið nokkru sinni í umræðunni á sínum tíma. Ágætur sameiginlegur kunningi okkar er Siglfirðingurinn Snorri Jónsson (elsti sonur Jóns Kr. Og Ólínu Hjálmars.) sem sagði mér að Torfi hefði verið talinn mjög liðtækur saxofónleikari hér í eina tíð. En dag einn ákvað hann að leggja fóninn á hilluna eða réttara sagt í pressuna og hætta að spila. Hljóðfærið var sem sagt lagt í pressu og þaðan kom það útflatt og aðeins nokkrir millimetrar á þykktina. Eftir meðferðina var það innrammað og hangir gripurinn síðan uppi á stofuvegg Torfa.




Jonni, Palli og Jón Hjálmarsson.



Steini lyftaramaður býr núna á Selfossi og er ekki mikið viðloðandi saltfisk.



Torfi kemur með salt.



Kóngurinn í ríki sínu, sjálfur Bassi Möller



En þar sem ég þekki fæsta þá með nafni eru af hér að neðan, leyfi ég bara myndunum að "fljóta" og ef einhver hefur einhverju við að bæta þá eru allar upplýsingar vel þegnar. En það er svo annað mál að saltfiskur er góður...









































Eins og sjá má voru það ekki bara einhverjir krakkar sem unnu við saltfiskinn.
Hér eru tveir góðir með mikla reynslu.

Og því má bæta við að Bassi Möller tók allar myndirnar hér að ofan og eru þær birtar með góðfúslegu leyfi hans.

15.03.2008 05:37

Reiðhestamannarassakeppni.

457. Sðast liðið fimmtudagskvöld þegar sól var gengin til viðar og rökkrið hafði lagst yfir lönd og höf, stefndum við Axel vel græjaðir upp í Borgarfjörð. Það stóð til að gera tilraun sem mér fannst reyndar vera eilítið undarleg og skaraðist á við þær viðteknu hefðir og venjur í skemmtanahaldi sem ég hafði lengst af átt að venjast. En hvað veit ég svo sem um hvernig aðrir hugsa þegar kemur að hinu svæðistengda djammi verðandi bænda og búaliðs sem sækir Landbúnaðarháskólann að Hvanneyri, býr á staðnum og nýtir Kollubar sem eins konar félagsmiðstöð. Fimmtudagsball í eins konar félagsmiðstöð  með bjórdælu, þar sem þema kvöldsins skyldi vera reiðhestamannarassar. Var nokkuð skrýtið að það gætti ofurlítillar vantrúar.
"Er í alvöru hægt að halda ball á fimmtudagskvöldi" spurði ég Betu hugmyndasmið að reiðhestamannarassakeppninni.
"Jú, jú" svaraði hún án þess að blikna.
"Það er langbest á fimmtudögum því á morgun fara allir til síns heima og koma ekki aftur fyrr en seint á sunnudegi."
Þetta voru vissulega rök, en samt...

Húsið opnaði klukkan níu en klukkan hálf ellefu voru þrír mættir og ég var í þann vegin að glata trúnni á gjörninginn. Keppnin sjálf átti nefnilega að fara að hefjast en það bólaði ekki einu sinni á keppendunum, hvað þá klappliðinu og öðrum gestum.
"Við verðum bara að fara að hringja og reka fólkið úr partýunum" var sagt og svo var sest við símann og hringt á nokkra staði.
"Þið verðir að fara að drífa ykkur, þetta er að byrja" var innihald samtalanna í hnotskurn.
Það fór að fjölga hratt í salnum og eftir skamma stund má orða það svo að hann hafi verið fullsetinn, en samt hélt áfram að fjölga. Við töldum í fyrsta lagið og spiluðum stanslaust í um klukkutíma eða svo. Þá var gert hlé og keppnin kynnt til sögunnar, en ég seildist þá ofan í vasann og dró upp myndavélina sem er orðin eins og eitt af líffærunum, en maður skilur þau nú ógjarnan við sig og alls ekki ótilneyddur.
Ég hóf síðan þá gerðina af "skotgrafarhernaði" sem einkenndist að mestu af lágværum smellum og blossum sem lýstu upp salinn og reyndi að festa eitthvað af þeim skemmtilegu augnablikum sem aldrei verða endurtekin í stafrænt form. En þau voru bara svo mörg þetta kvöldið og það var svo margt gerðist á ótrúlega stuttum tíma að það reyndist ekki gerlegt nema að litlu leyti. Öll flikkflakkin, óborganlegu gólfæfingarnar og uppádómaraborðsferðirnar gerðust svo snöggt og fyrirvaralaust að engin leið var að festa þær í flögu. Þá var vélinni stundum beint að einhverju og einhverjum sem var í raun utan þess upplýsta radíuss sem afmarkast af drægi blossans og eru því nokkrar myndir hér að neðan eiginlega ónothæfar svona strangt til tekið þess vegna. Samt læt ég þær fljóta með og skítt með það þó slæm listræn krídik hljótist af.



Hann minnir lítillega á Michael Jackson eða hvað???




Fyrsti keppandinnm hefur "framsögu" sína.



Og hin sjálfskipaða dómnefnd fylgdist vel með.



Og fleiri keppendur hristu rassa sína og skóku.



"Og hvað viltu svo segja að lokum?"



Það hófust auðvitað umræður um reiðmannarassana.



Og salurinn var eiginlega undirlagður í heimspeklilegum umræðum um málefni líðandi stundar.



Meira, meira. Það ríkti auðvitað endalaus eftirvænting eftir næsta atriði eins og glöggt má sjá í hverju auga...



...Sem ekki lét á sér standa.



Hér vill einn dómaranna (nefnum engin nöfn) greinilega þreifa og þukla á reiðmannarassi eins keppandans.
Er þetta alveg ekta???



Salurinn hélt niðri í sér andanum og fylgdist vel með meðan þreifingarnar áttu sér stað.



"Næsti takk" sagði dómarinn að loknum athugunum á botni keppandans á undan. En sá næsti var svolítið óframfærinn eftir að hafa horft upp á aðfarir þess sem hafði völdin...



En fólkið fagnaði, enda var það ekki að velta sér upp úr einhverjum smáatriðum



"On we go..." Kannski svolítið kántrýlegur, en vissulega staður og stund til þess.



Gaman, gaman í salnum.



Gaman, gaman á barnum.



Klapp, klapp, klapp...



Einn keppandinn (eins og flestir hinna) klifrar upp á dómaraborðið til að "þær" geti grandskoðað matshlutann sem allt snýst um í kvöld.



Og svo.



þarf að sýna...



Og dilla bossa bæði fyrir dómarana, kjósendur...



...og jafnvel ljósmyndarann.



Næsti gerir sig kláran.



Rétt er að látta þess getið að flestir fækkuðu fötum að  einhverju marki.



Neðri fækkunarmörk var þó svokallaðuir beltisstaður.



Og drengjunum var óspart klappað lof í lófa.



Týpísk ftráhnepping skyrtu í byrjunaratriði.



Týpískt klapp aðdáenda.



Og týpísk framhaldsaðgerð samkvæmt hinni heimatilbúnu formúlu.



Sumir eiga svo meira erindi en aðrir upp á hljómsveitarpallinn var mér tjáð.



En aðrir eiga frekar heima á dansgólfinu.



Uss... Átti annars nokkur að sjá þetta?



En sumir gerðu það og leiddist það ekki...



Svo var farið að dansa.



Og skömmu síðar var komið að  verðlaunaafhendingunni.



Keppendum var svikalaust fagnað.



Og það var fylgst vel með
.


Eins og hér sést.



Og líka hér.



Og úrslitin eru kynnt.



Hér er svo handhafi nafnbótarinnar Reiðhestamannarassakeppnissvinningshafi árið 2008 með einn aðdáanda sinn í fanginu.
Svo var haldið áfram að dansa og gömlu mennirnir sem léku fyrir dansi fóru kannski aðeins fram úr sér í rokkinu og hækkuðu nokkrum sinnum smávegis og hækkuðus svo smá aftur, - og aftur. Á endanum gat hljóðkerfið ekki meira, það steinþagnaði og þurfti að restarta því til að geta haldið áfram.



En allt tekur enda...

12.03.2008 09:23

Alveg nógu gott...


Það er ekki alltaf aðlaðandi að skreppa á "snyrtinguna."

456. Eins og áður hefur komið fram, þá hef ég gert nokkuð af því að "búa mér til vinnu" undanfarin misseri með því að kaupa gamlar íbúðir sem hafa þarfnast verulegra endurbóta. Síðan ýmist selt þær aftur eða leigt út eftir að rifið þær í frumeindir og byggt aftur upp nánast frá grunni. Það má einnig segja að því verra ástandi sem þær hafa verið í, því meiri áhuga hef ég sýnt þeim og því álitlegri kost hef ég yfirleitt talið þær vera. Sumt af því sem ég hef kynnst undanfarin misseri á fasteignamarkaðinum hefur reyndar verið með svo miklum ólíkindum að óvíst er að allir teldu mig segja alveg ýkjulaust frá einstaka uppákomum. Sumt af því sem ég hef séð hefur líka verið með ótrúlegra móti og stundum virðist vera alveg út í hött að á sumum stöðum hafi búið fólk nýverið. En töluð orð eru eitt en það sem augað sér er annað. Hið síðarnefnda má yfirleitt festa í flögu svo ekki verði það hrakið með góðu móti og slíkt hefur líka oftar en ekki verið gert.


Skápapláss sem þarfnast aðhlynningar.

En það sem ég vildi sagt hafa er að ýmsir hafa fundið á síðustu tímum alveg nýja gullnámu á Íslandinu góða, þ.e. innflytjendur sem hingað koma í atvinnuleit. Allir þurfa þak yfir höfuðið hvers lenskir sem þeir eru og því hafa líka bæði margir og misjafnir áttað sig á. Með auknum straumi innflytjenda hefur eftirspurn að eðlilegum ástæðum farið vaxandi og leiguverð því rokið upp. En gæðakröfur til húsnæðisins hafa hins vegar farið minnkandi í réttu hlutfalli við það sem kalla mætti vaxandi "framboðsþurrð." Þetta er auðvitað bara gamla lögmálið um framboðið og eftirspurnina sem síðan ræður verðinu. En fleiri og fleiri dæmi koma upp þar sem augljóst er að græðgisjónamið eru ríkjandi, menn fara fram úr sjálfum sér og misnota sér ástandið oft með óbilgjörnum hætti. Og í þessu gullgrafaraæði hefur smátt og smátt orðið hugarfarsbreyting hjá vissum hópi. Ótrúlegasta fólk verður samdauna hugsunarhætti þrælakistueigandans og fer að finnast misnotkunin hið eðlilegasta mál.


Dæmi um ástand rafkerfis.

Og það sem ég vildi líka sagt hafa er meðal annars eftirfarandi. Ég var staddur á húsfundi húsfélags í miðbænum í Reykjavík og gaf mig á tal við einn fundarmanna. Hann sagði mér að hann leigði einungis Tælendingum herbergi "eða þannig."
Ég spurði hann hver væri prísinn á eins og einu herbergi "eða þannig."
"Ja, ég leigi eiginlega kojuna á þrjátíu kall."
Ég komst síðar á snoðir um að hvert herbergi er um 8 - 12 fermetrar og undantekningalítið er tvímennt í hvert þeirra. Ræður síðan sá leigutaki sem á undan er engu um hver verður hans eða hennar herbergisfélagi.


Séð inn í eldhússkáp.

Og svo vildi ég bæta því við að ég var að gera tilboð í íbúð sem lýst hafði verið sem allt að því ónýtri.
"Og hvað ætlarðu svo að gera við slotið" spurði fasteignasalinn.
Ég sagði honum að ég myndi líklega rífa allt og tæta og endurbyggja hana síðan að mestu.
"Viltu ekki skella þessu beint í leigu?"
Ég hélt fyrst að hann væri að gera grín að mér en hann hélt áfram grafalvarlegur í bragði.
"Þetta er alveg nógu gott fyrir Pólverja."

08.03.2008 13:10

Aftur um ruslabílinn.

455. Þegar ég átti leið um stæðið fyrir framan Laugarásvideó á dögunum rifjaðist upp þessi gamla saga um ruslabílinn og ég endurbirti hana því hér að neðan. Það er reyndar ekki alveg að ástæðulausu því henni var greinilega ekki lokið á sínum tíma þrátt fyrir að ég hefði talið svo vera.

333. Ég er núna búinn að komast yfir nægilega mörg sögubrot, og hef nú raðað þeim saman í svo heilstæða mynd til að tími telst kominn á svolitla sögustund. Ritari tekur sér svolítið skáldaleyfi rétt til að gera aflesturinn "meira líðandi," en við "sögulegum staðreyndum" er ekki hróflað. Heimildamenn mínir eru allnokkrir, auk þess sem ég kom sjálfur lítillega að atburðarásinni. En aðal söguhetjan er eins og svo oft og svo víða, Gunnar Jósefsson, (G.J.) fyrrverandi meðeigandi minn að Laugarásvideó. Hann hefur oft komið mér rækilega á óvart með óvæntum og ólíkindalegum útspilum sínum í áranna rás, en segja má að nú taki steininn alveg úr. Stundum er eitt og annað sagt um menn þegar uppátækjasemi þeirra keyrir um þverbak, svo sem að þeir hafi tekið vitlausa beygju, farið öfugt fram úr rúminu þá um morguninn eða eitthvað í þeim dúr. Í beinu framhaldi af slíkum vangaveltum vil ég segja eftir að hafa áttað mig á atburðarrásinni, að mérvafðist eiginlega tunga um höfuð þegar ég fattaði djókið.
Látum þennan inngang nægja og hefjum nú söguna.



                                        Ruslabíllinn og G.J. hinn nýji og stolti eigandi hans.

Dag einn á leigunni sagði G.J. við afgreiðslumennina tvo nánast upp úr þurru.
"Ég er búinn að finna út úr þessu með ruslið."
Fyrir þá sem ekki vita, þá er forsaga málsins sú að fyrir nokkrum árum hætti Sorpa alveg og endanlega að hirða rusl frá fyrirtækjum jafnt smáum sem stórum. Laugarásvideó var eitt þeirra fjölmörgu smáfyrirtækja sem sömdu þá við Gámaþjónustuna um vikulega tæmingu sorpíláts. Að vísu var farið fram á greiðslu fyrir þjónustuna, og það var eitthvað sem G.J. átti erfitt með að sætta sig við. Hann fór ekki leynt með þá skoðun sína að þessi þjónusta ætti að vera "ókeypis" hér eftir sem hingað til, og hann hélt langar og miklar einræður um ósanngirnina sem hann og hans starfsemi yrði sífelt fyrir. Auðvitað hafði hann alltaf greitt fyrir þjónustuna, en bara aldrei almennilega gert sér grein fyrir greiðslufyrirkomulaginu. Sorphirðugjaldið var innheimt með fasteignagjöldunum sem hann taldi líka afar ósanngjörn. Með þeim var verið að refsa mönnum fyrir að hafa eignast eitthvað um dagana. Holræsagjaldið var að hans mati svívirðilegur skítaskattur, og vatnsskatturinn var hreint rán. Því það var fyrir löngu síðan búið að borga þessi ryðguðu rör sem höfðu verið grafin ofan í jörðina fyrir margt löngu. En hann fékk alltaf þennan leiðinda miða í pósti snemma á árinu, en stakk honum bara ofan í í skúffu án þess að lesa hann og þess vegna vissi hann ekki fyrir víst hvað stóð á blaðinu. Að hans mati var þetta listi yfir skatta sem hétu alls konar nöfnum, og áttu það eitt sameiginlegt að greiðandinn fékk nákvæmlega ekkert fyrir peningana sem hann innti af hendi. En ruslabíllinn kom alltaf eldsnemma á þriðjudagsmorgnum og karlarnir drógu tunnurnar að bílnum. Þær voru tæmdar og þeim síðan skutlað aftur upp að húsveggnum, en reyndar með allt of miklum hávaða. Hann hafði nokkrum sinnum hringt og kvartað yfir látunum í körlunum sem komu "eldsnemma fyrir hádegi" eins og hann orðaði það, en án nokkurs árangurs. Það var svo ekki fyrr en Sýslumaður var farinn að hafa í hótunum og Stefnuvotturinn var búinn að koma í heimsókn, að G.J. greiddi skuld sína við samfélagið en með miklum semingi og eftirsjá.



                                        Afgreiðslumennirnir Steinþór og Hörður.

En nú var hann sem sagt búinn að finna út úr þessu með ruslið. Þessi yfirlýsing hafði komið svo alveg upp úr þurru að nærstaddir afgreiðslumenn litu ósjálfrátt upp. Svipur þeirra lýsti svolítilli undrun og þeir biðu eftir framhaldinu.
"Ég segi bara upp þessum samningi við Gámaþjónustuna og fer með ruslið heim." G.J. leit hróðugur á félagana sem fannst ennþá vanta botninn í frásögnina.
"Er ekki nóg af rusli heima hjá þér?"
"Ég set það náttúrulega bara í ruslatunnuna heima og spara mér þannig tuttuguogfimmþúsundkall á ári."
Og G.J. lét ekki sitja við orðin tóm, heldur sagði samningnum við Gámaþjónustuna upp, því hann var sem sagt alveg búinn að upphugsa hvernig hann gæti sparað sér tuttuguogfimmþúsundkall á ári. Dagarnir liðu og Gámaþjónustan hætti að þjónusta þetta litla fyrirtæki og tók tunnuna sína. En einhver vanhöld urðu á áætluninni um að fara með ruslapokana heim að loknum vinnudegi, og þeim fjölgaði smátt og smátt á myndbandaleigunni Laugarásvideó ehf. Til þess að þeir væru ekki að flækjast fyrir fótum manna, voru þeir stæðaðir á bak við snakkvegginn.
"
Bráðum fæst líka snakk með sorpbragði" sagði annar afgreiðslumannanna glottuleitur á svip, dag einn þegar lofið var farið að þykkna vegna fnyksins frá úrganginum. En hann uppskar ekkert nema augngotur eigandans yfir risastór gleraugun og þrúgandi þögn í dágóða stund.

Dagarnir liðu og anganin varð bæði fyllri og dýpri.
"Þetta er að verða svolítið mettað hérna." Einn af föstu viðskiptavinunum blakaði hendinni fyrir framan vit sér með miklum leikrænum tilburðum og lét eins og það ætlaði að líða yfir hann. Annar afgreiðslumaðurinn leit á hinn, en eigandinn hleypti brúnum og sagði ekki neitt.
Seinna sama dag tók hann annan afgreiðslumanninn tali rétt eins og af tilviljun.
"Heyrðu, þú átt sendibíl er það ekki?"
"Jú, og hann er til sölu."
"Ertu ekki til í að lána mér hann svona rétt hérna á milli húsa. Ég þarf að skjótast aðeins í Sorpu."
Og hann fékk bílinn lánaðan, ók honum upp að dyrum leigunnar og fyllti hann af rusli. Og þegar ég segi fyllti, þá meina ég það því farþegasætið við hlið ökumannsins G.J. var líka svo fullt að ruslapokarnir þrýstust fram í sjálfa framrúðuna.
"Aktu varlega svo rúðan springi ekki út," sagði eigandi bílsins.
Hann fékk ekkert svar við þessari athugasemd aðrar en hinar frægu augngotur yfir risastór gleraugun.
G.J. gaf þær skýringar á gámastöð Sorpu að þetta væri bara heimilissorp, og þrátt fyrir að starfsmenn þar á bæ væru vantrúaðir á þá sögu slapp hann við að borga.
Hann snéri því ánægður til baka að losun lokinni.

Og tímans hjól hélt áfram að snúast, og áður en langt var um liðið var ástandið orðið engu betra en daginn sem ruslaferðin var farin. Viðskiptavinir voru farnir að kvarta yfir ólyktinni, og það hafði jafnvel verið varpað fram þeirri ósvífnu spurningu hvort starfsmenn færu aldrei í bað. G.J. bað því aftur um að fá bílinn lánaðan, en eigandi hans spurði hvort hann vildi ekki bara kaupa hann því það vantaði greinilega fyrirtækisbíl í svona "minni háttar snúninga."
G.J. horfði stutta stund á viðmælanda sinn rannsakandi augnaráði.
"Nei, það er miklu ódýrara fyrir mig að fá hann bara lánaðan hjá þér þegar ég þarf að nota hann."
Það var svo í þriðja skipti sem þurfti að fara með rusl, að sagan tók svolítið nýja og óvænta stefnu.
"Ég er eiginlega búinn að selja hann," svaraði afgreiðslumaðurinn og eigandi bílsins þegar G.J. bað um að fá hann lánaðann.
"Væntanlegur kaupandi er með hann til reynslu, og ég veit ekki hvort ég fæ hann aftur."
Þetta kom svolítið flatt upp á G.J. og "yfir til þín greiðslan" aflagaðist lítillega þegar hann strauk hendinni yfir hátt og gáfulegt ennið.
"Ég skal bara kaupa hann ef þú nærð í hann strax," sagði hann svolítið fljótmæltur.
Það var auðvitað ekki mikið mál að sækja sendibílinn, en eftir að ruslaferðin hafði verið farin, var ekkert minnst frekar á kaupin þann daginn. Eftir að umræðu um bílasölumálið hafði verið komið alloft af stað en eytt jafnoft, fór þó svo að lokum að það var samþykkt með miklum semingi að ganga frá sölunni.

Það var einmitt daginn sem afhending og greiðsla fór fram að ég fékk upphringingu.
"Ertu nokkuð staddur í Reykjavík?"
"Já," svaraði ég því ég var einmitt staddur í Reykjavík.
"Ertu nokkuð á leiðinni til Hafnarfjarðar?"
"Já," svaraði ég aftur því ég var einmitt á leiðinni til Hafnarfjarðar.
"Fæ ég nokkuð far?" Sá sem hringdi sagði mér þá að hann hefði loksins verið að afhenda sendibílinn endanlega sem hann hafði lengi reynt að selja, og vantaði nú far heim.
"Já, já," svaraði ég.
"Og þú veist hvar ég er er það ekki"
"Mig grunar það sterklega. Ég renni bara við og flauta fyrir utan."
"Neeeiii, ertu brjálaður. Þú veist að það er samskiptabann í gangi, það má enginn sem vinnur hérna þekkja þig. Leggðu bara við endann á húsinu og ég kem út þegar ég er búinn að ganga frá mínum málum eftir smástund."
Skömmu síðar var ég búinn að leggja í stæði við enda hússins sem hýsir Laugarásvideó og beið eftir væntanlegum farþega. Eftir nokkra stund sé ég hvar kunnuglegur grænn bíll ekur inn á stæðið. Ökumanninum virðist fastast stjórn ökutækisins þegar hann sér mig og mér sýnist nærvera mín koma honum í svolitla geðshræringu. Hann tekur vinkilbeygju fyrir horn hússins og ég heyri að bílhurð er skellt aftur. Þarna var á ferðinni hinn afgreiðslumaðurinn og sá þeirra sem engan hafði átt sendibílinn. Ekki leið á löngu þar til farþeginn væntanlegi kemur gangandi fyrir húshornið og ég sé að hann er óvenju brosmildur á svipinn og sýndist jafnvel eiga erfitt með að skella ekki upp úr.
"Hörður sá þig og kom inn og klagaði. Húsbóndi minn bannar mér að þiggja far hjá þér og segist sjálfur ætla að keyra mér til Hafnarfjarðar."
"Ókey," svaraði ég og glotti svolítið líka, því þetta var auðvitað alveg bráðfyndið.

Og vissulega þarf hinn framsýni og útsjónasami G.J. ekki lengur að sjá af tuttuguogfimmþúsundkalli á ársgrundvelli til afætufyrirtækisins Gámaþjónustunnar hf. Hann keypti sér nefnilega sinn eigin ruslabíl. Nú getur hann látið hann standa á stæðinu fyrir framan húsið og notað hann sem ruslagám. Á 2 - 4 vikum er hann orðinn svo fullur að ökumaðurinn kemst naumlega fyrir í honum, og þá er skroppið í Sorpuferð og hann losaður. Síðan er ekið aftur á heimaslóðir og sagan endurtekur sig.

Ofanritað birtist á gömlu síðunni í janúar á síðasta ári og  svo mörg voru þau orð í það skiptið, en hverfum aftur til dagsins í dag...



Og svona lítur þá ruslabíllinn út í dag. Hann gegnir núorðið tvíþættu hlutverki sem eigandi hans lítur væntanlega á sem tvöfaldan gróða ef ég þekki hann rétt. Hann er annars vegar eins konar söfnunargámur fyrir sorp frá leigunni, en hins vegar þar sem hann er gjarnan staðsettur á áberandi stað á stæðinu við gatnamót Dalbrautar og Kleppsvegar er hann líka auglýsingaskilti á fjórum hjólum. Og þegar ég átti leið þarna um á dögunum sá ég að engin skráningarnúmer voru lengur á bílnum og ákvað að kanna málið frekar.



Og þegar betur var að gáð kom í ljós að gamlir taktar gleymast ei, eða kannski er réttara að tala um gen í þessu tilfelli. Auðvitað er mun erfiðara að koma hlutunum í verk þegar t.d. opinberar stofnanir, skoðunarstöðvar bifreiða og fjöldi annarra fyrirtækja loka eins snemma og raun ber vitni, eða þegar vinnudagur "sumra" er eiginlega rétt að hefjast. Það er bókstaflega ekkert tillit er tekið til þeirra sem vaka meðan aðrir sofa og öfugt. Það má því segja að það sé vissulega enginn skortur á ósanngirni í þessum heimi.



Samkvæmt mínum heimildum var bíllinn tæmdur um miðjan des 2007, en í febrúarlok er hann löngu orðinn fullur og svo er engu minna magn af tómum pappakössum, mataleifum og ýmsum öðrum úrgangi inni á myndbandaleigunni, bæði á sælgætislagernum og á bak við snakkstæðurnar. Andrúmsloftið er líka farið að þykkna lítillega og torkennilegur keimur fitlar við vit þeirra sem inn koma.



Hér má því sjá bíl sem eigandinn hefur vanrækt að færa til skoðunar og hann þess vegna verið sviptur réttinum til að aka meðal annarra sjálfrennireiða á götum bæjarins. Ennfremur er hann fullur af sorpi sem sumt er aldurs síns vegna í þann veginn að komast leiðar sinnar án þess að því sé ekið. Og spurningin sem vaknar þegar litið er til gulu borðanna sem límdir eru utan á hann og málið er skoðað í heild sinni hlýtur því að vera: Er þetta góð auglýsing?

07.03.2008 21:54

Klemma.



454. Þegar ég átti leið um stigagang í fjölbýlishúsi þar sem ég kem alloft, rak mig í rogastans í eitt skiptið þegar ég sá það sem ég hélt í fyrstu vera stórslys. Ég tók andköf og ætlaði að hlaupa til og leggja þeim lið sem í hanskanum var, en áttaði mig þá á staðreyndum málsins. Einhver mun hafa verið að flýta sé um of og hreinlega gengið í gegn um dyrnar án þess að hafa fyrir því að opna. Við það sprakk út úr karminum ein og við var að búast, en einhverjum mun hafa komið í hug það snjallræði að taka upp hanskann hurðarinnar vegna. Og hanskinn reyndist mjög vel í þessu nýja hlutverki sínu. Svo vel að hann "ílentist í starfi" ef svo mætti segja og sinnti því með mikilli prýði í talsverðan tíma, og það má svo auðvitað læða því inn á milli línanna að það er jú smiður sem býr á staðnum. En því er ekki að neita að mér brá svolítið ónotalega í fyrsta skipti þegar sá þessa lokunartækni.

04.03.2008 11:32

Brakandi blíða.

453. Síðast liðinn laugardag var hreint út sagt alveg ótrúlega gott veður. En þrátt fyrir það var ég á leið til Reykjavíkur um hádegisbilið og meira að segja tiltölulega nývaknaður því ég hafði verið að spila á Catalinu kvöldið áður. Ferðinni var heitið á Bergþórugötu númer 51 til að undirbúa og hefja lagningu hæfilega dökkra keramikflísa. Þær hafði ég keypt í Múrbúðinni hjá honum Baldri frænda mínum sem er aldrei með nein tilboð, heldur aðeins alveg ótrúlega góð verð sem engir aðrir geta með nokkru móti toppað. Það var reyndar alveg eitthundrað prósent hárrétt í þessu tilfelli svo og eflaust mörgum öðrum, því að fermetrinn kostaði ekki nema lítinn tólfhundraðkall og flísarnar eru bara ansans ári smekklegar.

En sólin hellti geislum sínum ofan af risastórum bláhimni sem endaði út við sjóndeildarhringinn þar sem hann annað hvort hvarf ofan í hafið eða á bak við fjöllin. Hvít mjöllin þekur landið eins og mjúkt teppi sem móðir Náttúra hefur breitt yfir það af mikilli alúð og endalausri umhyggju. Ef hinn blíði blær hefði getað bært nokkurt strá af sinni fádæma nostursamlegu nærfærni, hefði hann eflaust gert það. En eins og ástatt var kúrði allur gróður landsins sig undir hinu mjallhvíta teppi. Þetta var engan veginn dagurinn til að skríða ofan í einhverja kjallaraholu til að fara að sópa gólf, ryksuga út í öll horn, koma réttskeiðinni fyrir á sínum stað, hræra lím, leggja flísarnar, stilla þær af í krossunum, miðla, fela skekkju upp á einn eða tvo millimetra í næstu röð, jafnvel saga svolítið í keramikið í einhverjum tilfellum og svo mætti lengi telja.

Ég tók vitlausa beygju (hugsanlega viljandi) og stefndi til Krýsuvíkur, beygði þaðan inn á Bláfjallaafleggjarann og velti fyrir mér hvort ég ætti að skrópa svolítið í dag og gerast helst til kærulaus. Þegar ég kom að vegamótunum þar sem ég gat annað hvort beygt til hægri upp að skálunum og skíðasvæðinu, eða til vinstri niður eftir til Reykjavíkur staldraði ég lengi við og hugsaði ráð mitt. Ég gaf fyrst stefnuljós til vinstri og beið svolitla stund þó svo að engin umferð væri um veginn. Ég tók stefnuljósið af en beið samt svolítið lengur án þess að átta mig fullkomlega á tilganginum. Skyndilega var eins og ég vaknaði, ég steig þéttingsfast á bensíngjöfina og tók hægri beygju, en að þessu sinni án þess að gefa nokkuð stefnuljós. Teningunum var þar með kastað og ég var búinn að ákveða að vera latur í bili, en njóta heldur veðurblíðunnar og alls þess sem þessi dýrðlegi dagur bauð upp á.

Þegar ég kom upp að skíðasvæðinu voru brekkurnar og allt umhverfi skálanna eins og iðandi mauraþúfur. Mér fannst með ólíkindum hve margt fólk var þarna saman komið. Ég horfði forviða á allt það sem þarna var að gerast og gleymdi næstum því að taka myndir. Og svona eftir á að hyggja, þá sé ég enn fyrir mér öll skemmtilegu og skondnu skotin sem ég missti af. Bara af því að ég hafði ekki undan að drekka inn í meðvitund mína allt þar sem var að gerast umhverfis mig. Ég dvaldi þarna á svæðinu í mun lengri tíma en ég gerði mér grein fyrir allt þar til ég leit á klukkuna. Það var líklega kominn tími til að halda af stað heim á leið, en samt vildi ég fara lengri leiðina. Ég fór niður úr Bláfjöllunum, ofan á Suðurlandsveg og hélt eftir honum í átt til Reykjavíkur. Ég staldraði þó tvisvar við til að taka nokkrar myndir en næsti áfangastaður var Grafarholtið. Þar var líka tekið talsvert af myndum út yfir sundin, Viðey og niður eftir borginni í vesturátt. Aftur var haldið af stað og nú á svæðið umhverfis Kópavogskirkju. Þaðan var farið út á Álftanes, en eftir það upp í Ásland þar sem segja má að dagurinn hafi runnið saman við nóttina. En ég skaut síðasta skotinu þennan daginn þegar ég ók fram hjá kirkjugarðinum í Hafnarfirði sem er reyndar aðeins í nokkurra skrefa fjarlægð frá heimili mínu.





































































































En mun fleiri myndir eru frá þessum ágæta degi í myndaalbúmi og möppu sem er merkt  1. mars.

01.03.2008 04:52

Á Catalinu.



452. Við Axel erum að spila á Catalinu þessa helgina og reyndar þá næstu líka. Í gærkvöldi (föstudag) var fullt út úr dyrum því húsbílafélagið var með einhverja uppákomu. Og eins og svo oft gerist þá þurftu einhverjir órabelgir að klessa sér því sem næst alveg upp að hátölurunum hjá okkur og vildu sitja þar í næði og spjalla. Það var ekki að sökum að spyrja að þegar fyrstu tónarnir liðu út í salinn spruttu viðkomandi snarlega á fætur og heimtuðu að við lækkuðum það mikið að þeir gætu talað saman fyrir framan hátalaraboxið. Ég benti þeim á setustofan hentaði þeim örugglega betur eins og sakir stæðu en orð mín fengu lítinn hljómgrunn hjá þeim.
Við skyldum bara gera eins og okkur væri sagt. En okkur tókst þó að lokum að hrekja þá inn í setustofuna þar sem hefur vonandi farið betur um þá. Þegar nokkuð var liðið á kvöldið kom Portúgali með tvo þrefalda Teqila upp á pallinn. En þar sem ég er bara í kaffinu á slíkum kvöldum og Axel er ekki fyrir sterka drykki, fór það svo að mjöðurinn stóð enn eftir á pallinum ódrukkinn í glösum sínum þegar við fórum heim fljótlega eftir síðasta lag. En sá gjafmildi kom svo til okkar þegar talsvert var liðið á dansleikinn og vildi fá að syngja Portúgalskt þjóðlag fyrir dansgesti sem við áttum að sjálfsögðu að kunna. Hann var ekki sáttur við hvað við færðumst mikið undan sanngjarnri beiðni hans því því hann taldi sig hafa lagt inn fyrir uppákomunni. Óvenju margir komu og báðu um óskalög af ýmsum toga, allt frá gömlum íslenskum singalongslögurum og skátasöngvum til dauðarokks. Það er svo skrýtið að í þeim tilfellum sem við teljum einhver vandkvæði vera á að verða við slíkum óskum, þá fer "beiðarinn" undantekningalítið að kyrja lagið á staðnum og við eigum auðvitað að hlusta andaktugir. Oftar en ekki er viðkomandi bæði sauðdrukkinn og alveg óralangt frá hinum einna sanna tón ef svo mætti segja. Að flutningi loknum er síðan fastlega reiknað með að við höfum lært bæði lag og texta og sé nú fátt að vanbúnaði. En við höfum þróað með okkur varnartækni sem dugar yfirleitt í slíkum tilfellum. Ég beini straumnum sem til mín fellur til Axels sem heyrir síðan ekki neitt í neinum og hristir bara höfuðið í sífellu með uppgerðan vandræðasvip, því ég er þá þegar byrjaður á næsta lagi. Og þegar svo er komið er fátt annað hægt að gera en að halda þræðinum og sá eða sú sem vill fá skrýtna lagið sem við kunnum ekki bíður yfirleitt ekki lengi eftir næsta tækifæri til spjalls. Svo er vissulega vert að geta þess að maður sem er greinilega kominn örlítið yfir miðjan aldur og svolítið frjálslega vaxinn um miðstykkið, var kominn úr að ofan og upp á borð þar sem hann tók virkan þátt í dansinum. En það er nú svo algeng sjón að það tekur því varla að minnast á slíka smámuni. Að vísu var illa hægt að verjast því að brosa lítillega út í annað því að svona atriði hafa jú ótvírætt skemmtanagildi. En fulltrúi Stöðfirðinga sem var eins og alltaf í fantagóðu stuði. var ekki seinn á sér að grípa inn í þegar Axel skrapp frá eftir meira kaffi en ég naut liðsinnis hans á meðan. Eftir þrjú lög þakkaði ég svo listamanninum fyrir framlag hans og Axel komst aftur í stæðið sitt.
En svona eiga skröll að vera eða hvað?





Það heyrir eflaust til undantekninga að menn komi akandi á ball á svona bíl, en þannig var það nú samt. Og í ofanálag kom ökumaðurinn og ballgesturinn alla leið frá Akureyri. Mér þykir þó ekki með öllu útilokað að hann hafi átt einhver fleiri erindi suður yfir heiðar - svona í leiðinni.

(based on a true story.)

  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 500
Gestir í dag: 85
Flettingar í gær: 575
Gestir í gær: 91
Samtals flettingar: 303297
Samtals gestir: 32815
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 07:37:16
clockhere

Tenglar

Eldra efni