Færslur: 2014 Október

30.10.2014 22:02

Selaveisla 2014


963. Þá er komið að því enn eitt árið og til viðbótar öllum hinum sem á undan eru gengin, en næstkomandi laugardag verður haldin hin árlega Selaveisla í Haukahúsinu þar sem ég ætla að mæta eins og undanfarin hartnær 20 ár. Skýringin á nærveru minni er ekki sú að á mig leiti hungur þegar ég heyri minnst á sel og selaafurðir þrátt fyrir að kræsingarnar líti glæsilega út, heldur er komin hefð á að ég standi þarna á palli við hljómborð ýmist einn eða við annan mann frá því laust fyrir síðustu aldamót og leiki bæði gömlu og nýju dansana fyrir fótafima. Í ár verður það poppgúrúinn Axel Einarsson sem ætlar að standa þarna með mér, en Axel var á sínum tíma í hljómsveitum eins og Icecross, Tilveru, Deildarbungubræðrum, Haukum o.fl., en hann samdi líka lagið góðkunna "Hjálpum þeim" sem Jóhann G. Jóhannsson gerði texann við.
Að þessari samkomu standa annars núverandi og fyrrverandi eyjabændur úr Breiðafirðinum ásamt afkomendum sínum, en allt hráefni sem notað er til matargerðarinnar kemur frá Breiðafjarðareyjunum eða upp úr sjónum í kring um þær. Selur er fyrirferðamestur á matseðlinum, en þar má einnig finna hval, fugl, fisk og lamb.
Þrátt fyrir að félagsskapur eyjabænda sé skrifaður fyrir uppákomunni, er það er Guðmundur Ragnarsson fyrrverandi landsliðskokkur með meiru sem er maðurinn á bak við herlegheitin.
Það er að sjálfsögðu ekki sama hvernig fóðrið er framreitt, en Gummi er listakokkur og kann að gera veislumat úr öllu því hráefni sem hann kemur höndum yfir.
Hann hefur rekið eldhúsið í myndveri Latabæjar undanfarin ár auk þess að fylgja Saga-film í allar veigameiri kvikmyndatökur sem það fyrirtæki hefur komið að um árabil. Hann hefur því m.a. eldað fyrir James Bond við Jökulsárlón og Löru Croft upp á Vatnajökli svo eitthvað sé nefnt, en auk þessa tekur hann að sér að sjá um veislur af öllum stærðum og gerðum. Guðmundur er sonur Ragnars Guðmundssonar eiganda veitingastaðarins Lauga-ás.
Að þessu sögðu er tímabært að skella vinnugallanum niður í tösku ásamt nesti og "gömlum" skóm, því á morgun er meiningin að skella sér norður á Sigló.


26.10.2014 04:38

Afmælistónleikar Þorvaldur Halldórsson - Á sjó - 70 ára

Myndin var tekin á æfingu fyrir Bítlatónleika sem haldnir voru á Kaffi Rauðku á Síldarævintýrinu 2013.

 

962. Og af því tilefni ætlar hann að halda afmælistónleika í Grafarvogskirkju

miðvikudagskvöldið 29. október kl. 20.30

Þar mun hann rifja upp helstu lögin af ferli sínum, allt frá fyrsta laginu sem hann söng opinberlega, lögin með hljómsveit Ingimars Eydal og til laga sem hann hefur samið og sungið allt til dagsins í dag.

Hann hefur fengið valinkunna söngvara og hljóðfæraleikara til liðs við sig 

og skal þar fyrst nefna - Helenu Eyjólfsdóttur, 

en þau munu rifja upp nokkra dúetta og fleira.

Einnig syngja Þorvaldur sonur hans, Kristjana Stefáns, Gísli Magna og Alla Þorsteins. 

Þá munu Margret kona hans og Páll Magnússon líka taka lagið með honum.

Í hljómsveitinni verða: 

Gunnar Gunnarsson, píanó, hljómborð;Jón Rafnsson, bassi; Sigurður Flosason, sax, klarinett; Jón Elvar Hafsteinsson, gítar og Hannes Friðbjarnarson, trommur.

 

Sjáið endilega frábært viðtal Eddu Andrésardóttur frá árinu 1992 við þá félaga Ólaf Ragnarsson höfund textans "Á sjó" og Þorvald Halldórsson.

Slóðin þangað er: https://www.youtube.com/watch?v=XlAJ0mTVgp0

23.10.2014 14:20

Svolitlar vangaveltur um ljótan mat og flotta ketti961. Því er líklega þannig farið hjá fleirum en mér að afgangarnir frá deginum áður rata gjarnan ofan í nestisboxið þegar haldið er til vinnu. Að sýna nýtni og aðhaldssemi í þeim efnum tel ég að sé mjög skynsamlegt burtséð frá efnahag, og að hafa miklu frekar og meira með lífsstíl og jákvæða innrætingu að gera en bein sparnaðarsjónarmið. Við bara hendum ekki mat.

Og þannig var það einmitt einn daginn í vikunni sem leið þegar ég hafði með mér afgang af pastarétti sem varð tilefni vanganeltna sem mig langar að deila með ykkur sem hingað kunna að rata.

Þegar þar kom að ég fékk minn hálftíma í mat á um það bil miðri vaktinni, var ég farinn að finn til svengdar og var þess vegna kannski svolítið stórstígur þegar ég gekk yfir á kaffistofuna okkar í Hamraborginni, skellti innihaldinu úr boxinu á disk og opnaði dyr örbylgjuofnsins. En á því augnabliki þegar fóðrið var á leið inn í kjarnorkuna, varð mér litið á það sem ég hugðist setja ofan í mig og staldraði við svolítið andartak, virti "kræsingarnar" fyrir mér og nokkrar undarlegar hugsanir flugu í gegn um hugann.Það eru engar ýkjur að það hafi verið verulegur dagamunur á hve góðir vinir sambýlingarnir voru í lifanda lífi þrátt fyrir að þær mættu stundum ekki af hvor öðrum sjá, en þeir náðu báðir sautján mannára aldri sem telst vera ágætt þegar kettir eru annars vegar.


Fyrsta hugsunin var; skyldi ég hafa tekið kattamatinn í misgripum fyrir nesti dagsins? Nei, það getur tæpast verið því það eru liðin nokkur ár síðan heimiliskettirnir tveir hurfu á vit forfeðra sinna og mæðra og alla leið til andalands kattanna hvar sem það nú er. En ef svo hefði verið, hvað þá? Jú líklega væru þeir félagarnir þá akkúrat núna að skófla í sig samloku gerða úr Bónusbrauði, skinku, osti, sterku pepperoni, tómötum og súrum gúrkum. Og auðvitað með dásamlega sinnepinu sem fæst bara í Krónunni. - Namm.!

Kettirnir væru þá orðnir grænmetisætur og auk þess hallir undir sterkan mat

Neeeei, þeir voru það reyndar aldrei í lifanda lífi og verða það varla úr þessu og hættum nú að steypa svona.

En það er af þessari torkennilegu "slettu" á myndinni að segja að maður á ekki altaf að dæma eftir útlitinu, - hún var nefnilega (afsakið orðbragðið) alveg drullugóð.

09.10.2014 04:29

Nú leggjum við land undir dekk og fáum ORÐ í eyra960. Fyrir nýliðna helgi sá ég fram á svolítla glufu í dagatalið þar sem ekki var gert ráð fyrir vaktafríi og ekkert benti til þess að mann vantaði á aukavakt hjá Kynnisferðum. Þetta kom mér allt að því skemmtilega óvænt því þriggja daga frí hefur ekki komið til síðan í vor ef frá eru taldar tvær vikur af sumarfríinu sem ég náði að berja út með mánaðar millibili og sex dagar þegar ég eiginlega laumaðist norður og fékk kollega til að hafa vaktaskipti við mig í tvo daga. Trixið virkaði því þegar ég átti eftir þá tveggja daga vaktafrí, var ég kominn norður þegar hringt var og ég beðinn um að taka aukavaktir þá daga.

Æ, æ, var sagt í símann og aftur æ, æ, þegar ég bað um tvo daga í viðbót af því sem ég ætti eftir af sumarfríinu. Það var samþykkt með svolitlum tregatón, en sá ágæti maður sem sér um að manna þau skörð sem myndast í skipuritinu vegna margvíslegra ástæðna eins og gengur, hefur fullan skilning á að þeir sem komnir eru svolítið til ára sinna þurfa að hvíla lúin bein annað slagið.

En það var reyndar alls ekki þetta sem ég ætlaði að minnast á að þessu sinni.Hljómar 1966, Hljómar 1968, Hljómar 2003 og Hljómar 2004


Það var ekki haft mikið fyrir því að ferðbúast, enda lítil ástæða til að gera einfalda hluti flókna. Föt til skiptanna ofan í einn bónuspoka og vinnuföt í annan, svolítið nesti úti í búð á leiðinni út úr bænum og auðvitað eyrnafóðriðí geislaspilarann í bílnum. Að þessu sinni urðu hinir íslensku bítlar eða Hljómarnir frá Keflavík fyrir valinu. Fjórir diskar af fimm sem komu út undir merkjum sveitarinnar meðan hún starfaði, en einn sat eftir heima því satt best að segja finnst mér bara eitt lag skemmtilegt á honum. Það er að sjálfsögðu "Tasko tostada" eftir eðalrokkarann Rúnna Júll. Svo finnst mér heldur engan vegin ekki passa að Bjöggi hafi verið að troða sér í Hljómana þarna um árið. Hann er bara einhver allt önnur sort en frumkvöðlarnir, ef þannig mætti að orði komast og ætti þess vegna að halda sig þar sem hann fittar inn í félagsskapinn.

En það var reyndar alls ekki þetta sem ég ætlaði að minnast á að þessu sinni."ORÐ" þeirra Guðmundar, Róberts og félaga.


Aðal málið er að ég fór á tónleika fyrir norðan meðan ég staldraði þar við. Þeir voru haldnir í hinni glæsilegu Rauðku og þar stigu á pall góðir gestir ofan af Krók. Það er þó tæplega hægt að kalla alla þá sem þar komu fram gesti, því tveir þeirra eru bornir og barnfæddir Siglfirðingar. Guðmundur Ragnarsson og Róbert Óttarsson voru að gefa út geisladiskinn "Orð" þar sem Gummi semur öll lögin en Róbert syngur, og var það tilefni heimsóknar þeirra á heimaslóðirnar að þessu sinni. Full ástæða er til að nefna til sögunnar Fljótamanninn og kirkjuorganistann á Króknum, Rögnvald Valbersson sem er eins nálægt því að vera Siglfirðingur og hægt er að vera án þess að hann sé það með formlegum hætti.

En hljómsveitin var annars nokkuð fjölmenn og taldi alls níu manns, ákaflega vel spilandi og skilaði sínu með miklum sóma.

Þegar þar kom að halda skyldi suður fengu Hljómarnir að dúsa í hanskahólfinu, en diskur þeirra félaga var spilaður alla leiðina á suðvesturhornið, aftur og aftur og aftur og..

Róbert hefur fyllta og ákaflega þægilega rödd og það er eiginlega bráðfyndið hvað hann getur verið því sem næst óþekkjanlegur frá frænda sínum "Stubba" eða Kristbirni Bjarnasyni á köflum. Lögin hans Gumma falla vel að rödd Róberts eða er það kannski öfugt? Alla vega flísfalla þeir félagar saman í sköpun sinni á því sem fyrir eyru bar og mega vera stoltir af afurðinni. Þá má ekki gleyma að minnast á textana á disknum, en þar er bókstaflega hvergi veikan hlekk að finna.

Mínar mestu og bestu hamingjuóskir Guðmundur, Róbert og þið öll sem að málinu komu.

05.10.2014 09:51

Nokkur orð um flugvöllinn

Ljósmynd SPÓ.


959. Fyrr á árinu upplýsti Isavia að til standi að loka Siglufjarðarflugvelli ásamt flugvöllunum á Kaldármelum og Sprengisandi á árinu, en áður mun alls sjö flugvöllum hafa verið lokað frá árinu 2007.

Þeir sem fylgst hafa með umræðunni vegna flugvallarlokunarinnar, hafa eflaust tekið eftir að ekki eru allir fullkomlega sáttir við þær aðgerðir.

Isavia annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla á Íslandi og samkvæmt heimasíðu þess eru flugvellir og lendingarstaðir á landinu um fimmtíu talsins.

Friðþór Eydal talsmaður Isavia segir þetta gert vegna hagræðingar þar sem takmörkuðu fé sé ætlað til viðhalds og rekstrar flugvalla.

"Ríkisvaldið hefur kosið að veita frekar fé til að viðhalda áætlunarflugvöllum og sjúkraflugvöllum og Isavia gerir náttúrulega ekkert annað það sem ríkisvaldið felur félaginu í þessu efni," segir Friðþór ennfremur.


Talið er að lokunin geti haft neikvæð áhrif á ferðaþjónustu í bænum, en miklum fjármunum hefur verið varið í slíka uppbyggingu síðustu árin.

Orri Vigfússon og félagar sem eru að reisa 1.500 fermetra veiði og skíðahús í Fljótunum, hefur velt upp þeirri hugmynd að fá að yfirtaka völlinn og annast rekstur hans.

Athyglisverð hugmynd sem hlýtur að verða skoðuð vandlega.

Róbert Guðfinnsson sem stendur fyrir byggingu glæsihótels ásamt því að reka tvo verulega flotta veitingastaði, segir "skondið að fá þessa sendingu ofan í 17. júní ræðu forsætisráðherra þar sem hann hvatti til fjárfestinga og eflingu landsbyggðarinnar".

Góður punktur Róbert.


Árið 2008 kom upp talsvert umræða um að loka flugvellinum, en Kristján L. Möller þáverandi samgönguráðherra sagði að ekki stæði til að leggja niður Siglufjarðarflugvöll. Í ályktun Framsóknarfélaganna á Siglufirði var því einnig harðlega mótmælt að flugvöllurinn verði lagður niður því hann gegni mikilvægu öryggismáli fyrir íbúa Fjallabyggðar.


Eins og kom fram á siglo.is þ. 1. okt. sl., spurði Snæfríður Ingadóttir hjá sjónvarpsstöðinni N4 íbúa Fjallabyggðar út í lokun flugvallarins á Siglufirði og skiptust skoðanir svarenda alveg í tvö horn eftir því hvorum megin Héðinsfjarðar þeir bjuggu.

Sjá: http://www.n4.is/is/thaettir/file/flugvollur-a-siglo-tharf-hann-ad-vera-

 

                                    

Myndin var fengin úr safni Steingríms Kristinssonar, en þar má sjá flugvellina tvo í þeirri mynd sem þeir voru notaðir um og eftir miðja síðustu öld.


Nú þegar lokunin er komin til framkvæmda hittir svolítið einkennilega á, - mér liggur kannski frekar við að segja óskemmtilega á, því að í ár hefði verið full ástæða til að minnast "afmælis" flugvallarins og einnig tímamóta í flugsögu Siglufjarðar.

Laust fyrir kl. 15 laugardaginn 18. September 1954 lenti tveggja sæta flugvél á túninu sunnan við Hól. Þetta mun vera hafa verið fyrsta landflugvélin sem lenti á Siglufirði ef frá er talin bandarísk herþyrla sem lenti á íþróttavellinum 1952

Árið 1984 var flugvöllurinn lengdur úr 700 í 1100 metra. Skútuánni var þá veitt nýjan farveg og neðri hluta Ráeyrar lækkaður verulega. Þetta var því talsverð framkvæmd.Ljósmynd Steingrímur


Á árinu 1965 var byrjað að dæla sandi í nýtt flugvarllarstæði neðst í landi Saurbæjar og ári síðar var nýr flugvöllur tekinn í notkun.

Sá viðburður átti sér þar stað að flugvél af gerðinni Douglas DC3 Dakota eða "Þristur" eins og slíkar velar eru oftast nefndar, lenti á hinum nýja velli og mun lendingin hafa tekist með ágætum.

Fyrir þann tíma hafði stutt flugbraut á Ráeyri sinnt þeim þörfum bæjarbúa sem tengdust samgöngum í lofti. Aðeins litlar tveggja til fjögurra sæta flugvélar gátu lent þar og hún hafði þá sérstöðu að vera vera sú eina á landinu þar sem ekki sást milli enda vallarins.

Sjá: http://157.157.96.74/gamli/morgunbl-6711.htm

Heimildir: Mbl.is, Siglfirðingur, Norðanfari, Rúv.is, sksiglo.is, siglo.is, Siglfirskur annáll / Þ. Ragnar Jónasson.

03.10.2014 09:56

Fyrir ofan eða neðan mynd?

958. Í fyrradag leit ég sem oftar inn á siglo.is og sá þar m.a. frásögn Finns Yngva um heimsókn í kirkjuskólann þar sem viðfangsefnið var sköpun heimsins og alls þess sem honum fylgir og fylgja ber. Því var auðvitað einnig minnst á þann hluta sköpunarverksins sem lýtur að tilurð mannsins í heildarmyndinni.

Sjá http://www.siglo.is/is/frettir/skopun-heimsins-raedd-i-sunnudagsskolanum


Ég "skrollaði" niður síðuna og skoðaði myndirnar hverja af annarri ásamt meðfylgjandi texta, en nam að lokum staðar við neðstu myndina þar sem ég ruglaðist aðeins í ríminu.

Ég hafði skömmu áður verið að kíkja inn á síðu sem haldið er úti af góðum dreng að vestan, en hann hefur þann háttinn á að textinn sem á við myndirnar er alltaf staðsettur fyrir ofan þær. Sjálfur hef ég lagt í vana minn að hafa textann undir myndinni.

Eitthvað gerði það að verkum að ég staldraði við í lestrinum, hrukkaði ennið og velti fyrir mér hvort ætti betur við í þessu tilfelli.Myndin er fengin "að láni" á siglo.is og hugmyndinni er velt upp í fullvissu um að hlutaðeigendur hafi húmor fyrir pælingunni.


Fyrir ofan myndina stóð "Á sjöunda degi skapaði guð manninn í sinni mynd."

Getur það verið hugsaði ég með mér. Skyldi guð hafa litið svona út?

Þær myndir sem ég hef séð af honum sýna miklu eldri mann með lítið hár en mikið grátt skegg og svipar mun miklu meira til sr. Sigurðar en Hrólfs.

En kannski leit guð svona út á sínum yngri árum. Hvað veit ég sosum?

En fyrir neðan myndina stóð svo "Sumir voru mjög ánægðir að heyra af vöfflunum sem biðu á kirkjuloftinu." Kannski sá myndatexti falli betur að þankagangi þess sem er í forgrunni myndarinnar. - Hver veit?

  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 257
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 415
Gestir í gær: 117
Samtals flettingar: 344616
Samtals gestir: 38295
Tölur uppfærðar: 24.5.2024 15:06:17
clockhere

Tenglar

Eldra efni