Færslur: 2012 Mars

28.03.2012 11:26

Nokkur orð um þjónustufyrirtækið Bílaraf810. Undanfarið hef ég ítrekað orðið var við einhverjar leiðinda rafmagnstruflanir í bílnum mínum sem hafa ágerst með tímanum og ég fór því með hann á verkstæði. Eftir að hafa lýst vandræðum mínum (og bílsins) fyrir eiganda verkstæðisins, klóraði hann sér svolítið vandræðalega í hnakkanum og það mynduðust fíngerðar áhyggjuhrukkur á enninu.

"Sko við hérna erum svolítið mikið af gamla skólanum og erum helv. góðir í að gera við bremsur, skipta um legur, stýrisenda og nefndu það bara. En þessi bíll er með fullt af skynjurum og alls konar þannig drasli, tölvu eða eitthvað svoleiðis sem flækir nú aldeilis ekki lítið málið fyrir köllum eins og okkur".

Ég skildi svo sem alveg afstöðu hans til verkefnisins, veit vel að rafmagnsbilanir og slit snertiflata úr málmi eru í eðli sínu gjörólík mál, þakkaði fyrir spjallið og fór á næsta verkstæði. Þar voru svörin á mjög svipuðum nótum, en þó var fallist á með semingi að kíkja í það minnsta aðeins á málið eftir svolítla ýtni af minni hálfu. Daginn eftir var hringt í mig.

"Þú mátt sækja bílinn, ég er búinn að liggja í honum í allan morgun og finn ekki neitt. Þú verður að fara með hann á verkstæði þar sem menn eru aðallega að fást við bílarafmagn. Prófaðu Bíljöfur eða Bílaraf".

Ég fór með bílinn í Bílaraf sem er í göngufæri frá heimili mínu. Þar var mér ágætlega tekið og mér fannst einhvern vegin á manninum á bak við deskinn, að þetta gæti varla verið svo mjög flókið mál. Daginn eftir heyrði ég ekkert frá Bílaraf, en daginn þar á eftir var hringt.

"Þú mátt endilega sækja bílinn þinn. Við erum búnir að kíkja á þetta og okkur líst ekkert á þessa bilun. Við viljum alls ekki taka þetta verkefni að okkur. Þú þarft ekkert að borga, komdu bara, náðu í hann og farðu með hann".

Ég varð svo klumsa að ég vissi eiginlega ekki hverju ég ætti að svara manninum í símanum. En ég náði í bílinn og í gær birtist ég aftur hjá bifvélavirkja númer tvö. Hann leit upp, glotti út í annað og spurði:

"Og sit ég þá uppi með þig"?

24.03.2012 22:25

Hver er þessi gamli kall?


809. Ég vissi satt best að segja ekki alveg hvernig ég ætti að svara spurningunni sem einn afkomandi minn varpaði fram meðan á sýningu þáttarins "Hljómsklálans" stóð.

"Hvaða gamli kall er að spila þarna með Jet Black Joe"?

"Þetta er hann Maggi Kjartans" svaraði ég eftir að ég hafði jafnað mig svolítið.

Ég velti fyrir mér hvort þessi þekkingarskortur væri einungis bundinn við Júdasarforingjann.

"Kannastu ekki við hljómsveitina Júdas"?

"Aldrei heyrt hana nefnda" var svarið.

"Trúbrot"?

"Kannast við nafnið".

"Shady Owens"?

"Ekki viss".

"Haukar"?

"Ekki séns".

"Flowers"?

"Aldrei".

"Dátar"?

"Glætan".

"Ævintýri"?

"Hvað er nú það"?

Nú liggur fyrir að á heimilinu verði haldið a.m.k. þriggja vikna námskeið til að byrja með í hagnýtum poppfræðum og eftir á að hyggja...

...þá er þetta líklega allt saman mér að kenna.

20.03.2012 14:11

"Vanir Menn" á ferð

808. Ég gat ekki annað en brosað út í bæði þegar ég heyrði fyrstu fréttina á Bylgjunni í hádeginu í dag. 
"Öflug sprengja sem var límd á rúðu skartgripaverslunar við Bankastræti sprakk í nótt. Eigandinn taldi að VANIR MENN hefðu verið þarna á ferð..." 


Hljómsveitin Vanir Menn árið 2011

18.03.2012 04:23

Lísa spjallar við Axel Einars

Axel á Icecross árunum.

 

807. Einu sinni enn er vinur minn Axel Einarsson hér til umfjöllunar, en hann var nýverið staddur hérna uppi á klakanum. Axel sem á sér nokkuð litríkan og afar athyglisverðan feril sem tónlistarmaður, sat fyrir svörum hjá Lísu Páls í þættinum "Okkar á milli" þann 14. mars s.l.. Eins og vænta mátti var viðtalið allt hið skemmtilegasta og mér datt því í hug að benda áhugasömum á tengilinn http://www.ruv.is/sarpurinn/okkar-a-milli/14032012

13.03.2012 23:44

2007


806. Ég hélt að bæði klukkan og dagatalið hefðu hökt svolítið eða jafnvel hrokkið upp úr fari sínu þegar ég átti leið um Vellina í Hafnarfirði um sexleytið í dag. Ég væri nú orðinn fimm árum yngri og árið 2007 aftur gengið í garð með öllum þeim ósköpum sem því fylgdi. Á undan mér skreið hvít og ógnarlöng glæsikerra eftir malbikinu í ólýsanlegum virðuleik, en eitthvað sagði mér að farþegarnir hefðu ekki greitt fyrir aksturinn úr eigin vasa. Getur verið að þarna hafi verið á ferðinni nokkrir strákar um fermingu á leið í "barnaafmæli" og einhver þeirra ætti hugsanlega ríkan pabba, - eða hvað? Ég hélt að það sem fyrir augu bar væri nokkuð sem heyrði sögunni til og ætlaði varla að trúa mínum eigin augum, en þá mundi ég eftir að sagan endurtekur sig víst alltaf. Það sem einu sinni hefur gerst, mun nokkurn vegin örugglega gerast aftur. Limmóinn leið yfir Vellina eins og fjórmöstruð skonnorta með öll segl uppi, en farþegarnir stóðu hins vegar bæði upp úr þaki hennar svo og út úr öllum gluggum. Það var eitthvað ósamræmi í öllum herlegheitunum og ég seildist eftir myndavélinni og tók nokkrar myndir út um framrúðuna. Mér var greinilega veitt athygli því strákarnir veifuðu og bílstjórinn hægði ferðina og beygði síðan inn á bílastæði þar sem hann beið þar til ég var komninn framhjá.
Hann ók þá aftur af stað og drengjahöfuðin hurfu eitt af öðru inn í eðalvagninn. 

08.03.2012 21:52

Vafasöm umboðssala


805. Á enn einu flakkinu um netheima rakst ritari þessa greinarstúfs á eftirfarandi auglýsingu:

"Umboðssalan husgogn.net er netverslun sem hefur vöruhúsnæði í Miðhrauni 15. 210 Garðabæ, þar sem hægt er að nálgast þær vörur sem eru á heimasíðu verslunarinnar.

Til að koma með vöru í sölu hjá okkur biðjum við um að eigandi þeirra sendi myndir og ítarlegar upplýsingar um vöruna á netfangið husgogn@husgogn.net einnig eru skilmálarnirnir sem hér segja:

Umboðslaun eru 25% af söluverðmæti vörunnar að viðbættum 25,5% virðisaukaskatti. Söluandvirði vörunnar að frádregnum sköttum og kostnaði legst inn á reikning eiganda vörunnar.

Umboðssalan skuldbindur sig til að hafa vöruna í umboðssölu og skráða á heimasíðunni husgogn.net í 7 vikur. Seljist varan á því tímabili skal umboðssalan greiða andvirði hennar inn á reikning eiganda vörunnar.

Seljist varan ekki innan tiltekins tíma skal umboðssalan tilkynna eiganda með tölvupósti um endanlok samnings þessa og eigandi vörunnar sækja hana innan 4 daga eftir að samningi lýkur. Ef varan er ekki sótt innan tiltekins tíma telst umboðssalan eigandi vörunnar og getur ráðstafað henni að vild.

Umboðssalan ber enga ábyrgð á hugsanlegum göllum á vörunni né skemmdum sem varan getur orðið fyrir.

Umboðssalan skuldbindur sig til að vera með vöruna til sýnis á heimasíðuni husgogn.net meðan að þessi samningur er í gildi.

Eigandi getur ekki rift samningi þessum á ofangreindum gildistíma en óski eigandi að taka vöruna úr umboðssölu innan tímaramma samningsins skal hann greiða 15% af söluandvirði vörunnar að viðbættum virðisaukaskatti til seljanda".

Eftir að hafa lesið auglýsinguna vel og vandlega yfir og sumar málsgreinar hennar reyndar oftar en einu sinni, var ekki laust við að svolítill pirringur gerði vart við sig vegna þess sem þar bar fyrir augu. Tökum nokkur dæmi.

"Umboðslaun eru 25% af söluverðmæti vörunnar að viðbættum 25,5% virðisaukaskatti".

Seljandi heldur því eftir 68.625% af andvirði hins selda. Það má auðvitað hafa mismunandi skoðanir á því hvað sé sanngjarnt og hvað ekki, en kannski er þarna um að ræða þokkalega útkomu fyrir seljandann ef varan selst á annað borð, því varla er hægt að halda því fram með góðri samvisku að ásett verð sé á lægri nótunum.

Svo er sett fram áætlun um söluferli sem miðað er við að standi í sjö vikur. Það er auðvitað ágætt að vera skipulagður og hnitmiðaður í athöfnum sínum, en böggull fylgir skammrifi og skemmda rúsínan í pylsuendanum lætur sig ekki vanta.

"Seljist varan ekki innan tiltekins tíma skal umboðssalan tilkynna eiganda með tölvupósti um endanlok samnings þessa og eigandi vörunnar sækja hana innan 4 daga eftir að samningi lýkur. Ef varan er ekki sótt innan tiltekins tíma telst umboðssalan eigandi vörunnar og getur ráðstafað henni að vild".

Þarna er seljanda og eiganda sett frekar þröng tímamörk. Reyndar svo þröng að telja verður líklegt að margir sofni á verðinum og vakni síðan upp við vondan draum á fimmta degi eða enn síðar. En ef þeir þekktu réttarstöðu sína þyrftu þeir ekkert að óttast, því að einhliða sett regluverk eins og þau sem fela í sér eignaupptöku í einhverri mynd eru kolólögleg. Reynt hefur á slíkt m.a. í sambærilegum málum þar sem verkstæði í ýmsum geirum, innrömmunarfyrirtæki og fatahreinsanir hafa átt í hlut, en þeir aðilar tapað svoleiðis málarekstri í öllum tilfellum. Enginn getur tekið sér rétt til að leysa til sín ósóttar eigur annarra nema að undangengnu opinberu uppboði. En það eru alltaf til einhverjir óprúttnir aðilar sem eru tilbúnir að nýta sér vankunnáttu fólks og svo er auðvitað hugsanlegt er að þeir viti ekki betur sjálfir í mörgum tilfellum.

"Umboðssalan ber enga ábyrgð á hugsanlegum göllum á vörunni né skemmdum sem varan getur orðið fyrir".

Jafnvel ekki einu sinni ef hún skemmist í hennar vörslu eða af völdum starfsmanna hennar?

".óski eigandi að taka vöruna úr umboðssölu innan tímaramma samningsins skal hann greiða 15% af söluandvirði vörunnar að viðbættum virðisaukaskatti."

Allt er á eina bókina lært og fært. Annar aðilinn seilist ansi langt í að tryggja sig og ber alltaf eitthvað úr býtum nánast sama hvernig málum lyktar, axlar enga ábyrgð og hefur í hótunum um eignaupptöku, en hinum eru settir þröngir kostir og ber allan þann skaða og/eða kostnað sem fallið getur til. Ekki beint sanngjarnt.

Ég mæli með því að fólk hugsi sig tvisvar um áður en það nýtir sér þjónustu af þessu tagi.

05.03.2012 16:58

Allir eru að hlaupa804. Sagt er að öll hreyfing sé alveg meinholl og líklega er verulega mikið til í því. Ég rakst á nokkur stórskemmtileg dæmi um hvað fær fólk í hinum ýmsu heimshlutum helst til að taka sprettinn, en þar hafa mjög mismunandi hefðir og venjur greinilega mikið vægi.

04.03.2012 03:02

Myndavélaleysi803. Stundum er alveg hábölvað að hafa gleymt myndavélinni heima, því myndefnið hreinlega raðast upp fyrir framan nefið á manni. Ég átti leið um Tryggvagötuna í dag, en komst lítið áfram því Kolaportið hafði verið að loka og þeir sem þaðan komu fylltu allar götur og öll stæði í nágrenni við þann merka stað. Ég dólaði áfram stutta vegalengd og stoppaði, tók aftur af stað, komst nokkrar bíllengdir og var svo aftur stopp.

Ég veitti athygli gamalli konu sem stóð á gangstéttarbrún og studdist við einfalda göngugrind sem leit út eins og tvöföld hækja. "Skildi hún vera á leið yfir götuna" hugsaði ég með mér og stoppaði. Sú gamla sem ég áætlaði við fyrstu sýn að gæti vel verið eitthvað á níræðisaldri, lagði af stað milli bílanna og staldraði við þegar hún var komin upp að bílstjórahurð á stórum húsbíl. Hún lagði þá frá sér grindina, teygði sig upp og opnaði. Því næst klifraði hún upp og inn í hann með nokkrum erfiðismunum. Þegar hún hafði komið sér fyrir í ökumannssætinu sá ég hvar grindin hvarf á eftir henni upp í bílinn og hurðin lokaðist. Þetta þótti mér allt með miklum ólíkindum og ekki minnkaði undrun mín þegar ég var kominn fram fyrir bíl þeirrar öldruðu og ég sá hann var með einkanúmerið SEX 666. Það var aldeilis. Skyldi sú gamla vera að reyna að koma einhverjum skilaboðum til nærstaddra? Ég var svo öldungis hlessa og það var ekki laust við að svolitlar brosviprur mynduðust í kring um munnvikin.

Umferðin þokaðist áfram, ég tók eftir því að bíllinn næst á undan mér var líkbíll og ég velti fyrir mér hvort það væri einhver farþegi um borð. Bílaröðin mjakaðist löturhægt áfram og þegar ég er að nálgast "Bæjarins bestu" beygir líkbíllinn úr úr röðinni, Hemmi Jónasar snarast út og smellir sér í "pylsuröðina".

Líklega hefur hann verið einn í bílnum eða hvað veit ég annars. Ég sá ekki hvort hann keypti eina pylsu eða tvær...

  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 257
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 415
Gestir í gær: 117
Samtals flettingar: 344616
Samtals gestir: 38295
Tölur uppfærðar: 24.5.2024 15:06:17
clockhere

Tenglar

Eldra efni