Færslur: 2009 Mars

29.03.2009 00:37

Gulrótaraðferðin555. Hluta af marsmánuði hef ég verið að vinna að endurbótum á kjallaraíbúð við Njálsgötu í Reykjavík. Eitt og annað var alveg komið á tíma og sumt þó öllu meira en annað. Til dæmis var sturtubotninn orðinn verulega losaralegur að sjá og þegar ég reyndi að losa það sem laust var, varð minna en sáralítið eftir af honum svona efnislega séð. Undan kom annar eldri kantur og ég tók þá ákvörðun að leggja, skera og líma flísar yfir hann aftur.En erfitt reyndist að finna eitthvað sem líktist því sem áður var, en ég datt þó um nokkurt magn af rauðbrúnum flísum sem kostuðu næstum því ekki neitt, enda var eins konar rýmingar eða kannski frekar afgangasala í gangi í Múrbúðinni. Og nú á ég flísar til að leggja á allt gólfið þegar tækifæri gefst sem verður auðvitað bara "seinna" - eða þannig.Og svo var það eldhúsið...
Fyrir ofan vaskinn höfðu verið "heitt og kalt" sér plús utaáliggjandi rör að auki. Slíkt er auðvitað ekki beinlínis nútímalegt og því varð auðvitað að breyta svo ég galopnaði vegginn og undirbjó næsta leik.Ásgeir pípari kom næstum því hlaupandi þegar ég hringdi og gerði allt sem gera þurfti "med det samme" og fórst það vel ír hendi eins og við mátti búast.Svo var veggnum lokað aftur.Og flísað í samræmi við fortíðina.Að lokum voru komin blöndunartæki þar sem slík höfðu aldrei verið áður.Kipringur í gömlum maskínupappír eða raki sem hafði verið áður en skorsteininum hafði verið lokað að ofan með hatti.
Veit ekki, en þetta varð að laga, - sem var og gert.
Gamlir rofar og tenglar er nokkuð sem verður líka að koma í betra horf. Þá er kallað í Kalla rafvirkja sem kippir öllu í liðinn á mettíma.Hann er einn af þessum "ofvirku jarðýtum" sem ekkert stoppar.On eftir skamma stund var kominn nýr rofi og tengill að auki á vegginn. Ég var líka fljótlega búinn að loka sárinu og nú var aðeins eftir að pússa, spartla aftur, pússa aftur og mála síðan.En Kalli áttaði sig á að það var fleira sem þurfti endurnýjunar við, - og hann lagði á mettíma nýjan streng milli íbúðar og aðaltöflu í sameign."Þegar öllu þessu er lokið hellast átta eggjrauður..." segir á góðum stað, en ég var reyndar búinn að leggja þetta upp með öðrum hætti. Þegar framkvæmdum var lokið tóku þrifin við og ég nuddaði af lífs og sálar kröftum flís fyrir fís þar til þær urðu alveg skínandi hreinar.Ég lofaði sjálfum mér því að þegar þessum áfanga yrði lokið, skyldi ég í fyrsta lagi "þrífa" mig almennilega í framan og þá á ég við að fyrir utan þetta venjulega þ.e. með vatni og sápu. Nú skyldi ég bæði klippa mig og raka. Hmmmmmm.Ég var orðinn svolítið villimannslegur í útliti og í einhverjum tilfellum var "venjulegt" fólk farið að líta mig hornauga.Og hálfnað verk þá hafið er...
Athöfnin hófst með talsverðu magni af rennandi vatni, fjölmörgum rakvélarblöðum og verulega mikilli sápu.
Að lokum voru andlitshárin horfin og fyrrverandi eigandi þeirra og "berandi" var svolítið dasaður eftir hinar verklegu framkvæmdir.Morguninn eftir var svo litið við hjá honum Gísla Viðari sem er með stofu á horni Hverfisgötu og Snorrabrautar. En hann er ekki aðeins margfaldur Íslandsmeistari í hárskurði og Ólafsfirðingur að auki, heldur er konan hans Siglfirsk sem skiptir jú ekki svo litlu máli. Hún heitir Guðný og er dóttir Kollu Eggerts sem allir þekkja sem komnir eru til vits og ára.Hitt loforðið (eða gólrótin) sem ég gaf sjálfum mér var að þegar áfanganum yrði lokið og íbúðin komin í leigu á ný, þá skyldi ég skreppa heim á Sigló í fáeina daga.
Og þar sem öll skilyrði til þess eru hér með uppfyllt, er ég farinn HEIM. Og þar mun ég dvelja fram undir næstu helgi, en þá þarf ég að koma suður eftir til að spila á henni Catalinu.

En spáin er ljót og ég skal fúslega viðurkenna að ég er svolítið smeykur við þetta ferðalag að því leytinu til. Það er því ekki með öllu útilokað að einhvers staðar á leiðinni verði tekin U-beygja.

Víðbót 30. mars:

Komst norður í morgun kl. 11 f.h. Festist tvisvar í skafli á leiðinni, fór einusinni útaf og gisti að Vatni á Höfðaströnd, þar sem ég var í góðu yfirlæti nótt sem leið.

26.03.2009 04:47

Skrýtnir fuglar í Hafnarfirði554. Í vikunni sem er að líða fór ég svolítinn hring um Hafnarfjörð eins og ég geri stundum á góðviðrisdögum. Til að byrja með lá leiðin út með firðinum um Norðurbakkann og m.a. út að fjörunni fyrir neðan Hrafnistu. Þar er svolítið útsýnisstæði sem ágætt er að staldra við á, stíga út úr bílnum og virða fyrir sér það sem fyrir augu ber.Annað hvort að horfa inn til bæjarins, í áttina til Álftanessins eða bara út á sjóinn. En nærtækust er þó fjaran og þar var óvenjumikið líf að þessu sinni. Jónsi (sonur Tótu Jóns og Grétars sem ólst upp í húsi Rúdda Sæbys við Aðalgötuna á Sigló) var með mér í för og hann sagði mér að "fuglinn í fjörunni" væri Dílaskarfur. Um það veit ég fátt því ég er ekki glöggur á fiðurfénaðinn og þekki því miður allt of lítið til fugla.En þeir létu sér fátt um finnast þó ég færi á svolítið "skytterí" með myndavélinni og horfðu út á hafið eins og stúlkan í texta Bubba Mortens. Skarfarnir höfðu greinilega lítinn áhuga á mér sem var ágætt, en þess meiri athygli veittu þeir lognöldunni sem gjálfraði vinalega við þarabrúskana á steinunum þar sem þeir höfðu tyllt sér.Öðru hvoru reistu þeir sig þó upp og beiddu út vængina á móti golunni sem var þó ekki mikil, en ekki veit ég í hvaða tilgangi þar var gert. Ég myndaði lífið þarna í fjörunni um stund þrátt fyrir að ég gerði mér fulla grein fyrir því að fuglamyndir eru ekki það sem hentar mér best, því ég er bæði of óþolinmóður að bíða eftir rétta "mómentinu" og hef ekki þær græjur sem heppilegastar eru til slíkra hluta. Eftir svolitla stund var haldið heim á leið í kaffi og spjall og nokkru síðar kvaddi Jónsi og hélt heim á leið.Ekki sat ég þó lengi heima og skrapp niður að læk, því þar hafði ég séð að var líka talsvert líf og fjör. Annars er spurning hvort rétt er að kalla þetta svæði læk, því manngerði hluti hans er orðin hin myndarlegasta tjörn og helsta aðsetur "brauðandastofnsins" í firðinum.Og ég var aldeilis ekki einn á röltinu því þessar tvær þóttust greinilega hafa sama rétt og ég ef ekki meiri, til að spóka sig þarna á gangstéttinni og ég varð að stíga til hliðar svo ekki yrði "yfir mig gengið". Enda eiga þær heima þarna og hugsanlegt er að þær séu jafnvel skráðar þarna til heimilis.Þessi stillti sér upp í rólegheitunum og beið þess að ég smellti af, en rölti svo á braut að lokinni myndatökunni. Greinilega ekki óvön fyrirsætustörfunum þarna á bakkanum.Og hún (eða hann) var ekki ein(n) um það, því önnur (eða annar) kom kjagandi í áttina til mín og staldraði við meðan ég hleypti af. Hvernig á maður annars að vita hvort er um að ræða hann eða hana? Það sést bara alls ekki fyrir öllu þessu fiðri...Ég settist á hækjur mér og ætlaði að taka mynd eftir bakkabrúninni þegar það var hreinlega gengið fyrir skotlínuna og útkoman var eins og sjá má hér að ofan.Ég rölti áfram og nálgaðist hina gjarmildu brauðeigendur. Það gerðu líka fleiri því þessi Álft synti virðulega en þó mjög ákveðið að uppsprettu brauðmetisins.Úti í vatninu var stungið saman nefjum, en hvort nýjasta slúðrið í hinu fiðraða samfélagi hefur verið rætt þarna í trúnaði eða ástarorði hvíslað í eyra veit ég ekki.
 


Athygli flestra beindist þó í einu og sömu áttina.Og þangað var svamlað í hægðum sínum (og annarra).Ég hef oft velt því fyrir mér hvað Steingrími Thorsteinssyni hefur fundist svo fagurt við hljóð þessara fugla þegar hann orti "Svanasöngur á heiði" og Sigvaldi Kaldalóns gerði síðan ágætt lag við.
Eða þá Halla Eyjólfsdóttir frá Laugabóli um aldamótin 1900.
Svanurinn minn syngur,
sumarlangan daginn...
Líklega hefur það meira verið tignarleiki þessarra miklfenglegu fugla en raddfegurð þeirra sem hefur örvað og hvatt skáldagyðjuna til góðra verka í nefndum tilfellum.
Ég fæ það alltaf á tilfinninguna þegar ég heyri hljóðin í þeim að raddböndin séu ryðguð föst, það sé verið að reyna að liðka þau með öllum tiltækum ráðum og ekki sé útilokað með öllu að eðlilegt kvak geti hugsanlega farið að myndast innan tíðar.Það eyðist það sem af er tekið og allar uppsprettur þorna á endanum.Allt brauðið búið á þessum stað.Þá er bara að leita til næsta.Fram, fram fylking, eða fram og allir í röð.Smáfólkið var greinilega í essinu sínu.Hér sést vel hvað þessir fuglar eru stórir þegar þeir eru bornir saman við barnið sem er komið til að fóðra þá. Mér dettur í hug að hlutföllin séu ekki ósvipuð því ef við mættum Indverskum fíl koma þrammandi á móti okkur á förnum vegi. Ég yrði alla vega skíthræddur og myndi forða mér hið snarasta.En sú stutta undi sér hið besta þrátt fyrir nærveru þessarra risa.Enga feimni, bara væna brauðsneið úr Aðalbakaríi helst með miklu smjöri, gúrkum og tómötum takk, - sleppa skinkunni og ostinum..."Hvaseiru gott, hvernig er vatnsbúskapurinn"?Svarið fæst á torkennilegu fuglamáli sem þeir einir skilja sem nægilega fiðraðir eru og sú stutta hrekkur svolítið til baka þegar hr. "Hálslangur" teygir sig fram.En hinum megin við Tjarnarbrautina sem liggur meðfram fuglaparadísinni er kona að ganga úti með köttinn sinn í bandi. Kisi virtist una þessu fyrirkomulagi hið besta sem mér finnst hið undarlegasta mál. Svo er spurning hvort tjóðrið er hugsað til verndar fuglunum fyrir kettinum eða þá kettinum fyrir fuglunum sem eru svo margfallt, margfallt stærri en hann.

23.03.2009 08:04

Veggjakrot eða veggjalist553. Það sýnir sig á þessum myndum
að alhæfingar geta verið í hæpnara lagi þegar þegar því er haldið fram að veggjakrot sé undantekningalítið alvondur sóðskapur af allra síðustu sort. Eins og þeir vita sem fylgst hafa með borgarpólitíkinni í Reykjavík var skorin upp mikil herör gegn veggjakroti og hreinlega engu eirt sem flokka mátti sem slíkt. Ég hef um nokkurt skeið verið að vinna að endurbótum á íbúð við Hallveigarstíg og átt leið fram hjá þessum húsum því sem næst daglega. Nú er þeirri vinnu lokið, ég fór að sinna öðrum verkefnum og á því ekki eins oft leið um þetta hverfi. Mér þótti því rétt að festa þessi verk í flöguna til varðveislu.   


19.03.2009 23:09

Um Íslensku bankana


Ljósmyndin er fengin "að láni" úr Viðskiptablaðinu

552. Það getur verið gaman að grúska í fortíðinni. Oft koma þá upp á yfirborðið hin skrýtnustu mál, eða í það minnsta líta þau oft undarlega út í augum þeirra sem ekki hafa upplifað þá. En það eru líka dæmi um að ekki þurfi að fara svo ýkja langt aftur í tímann til að rekast á eitt og annað sem virðist vera í litlu samræmi við nútímann eins og hann er orðinn í dag. Á netflakki mínu "datt" ég um frétt sem birtist í Mogganum þ. 14.04.2008 eða fyrir aðeins u.þ.b. ellefu mánuðum síðan. Ég verð að viðurkenna að mér fannst hún svolítið skondin þrátt fyrir alvarleika málsins og ég gat ekki setið á mér að skjóta henni hérna inn.

 

Bankarnir geta reitt sig á stuðning stjórnvalda

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, segir í viðtali við danska  blaðið Berlingske, að íslensku bankarnir geti allir reitt sig á stuðning frá íslenskum stjórnvöldum lendi þeir í erfiðleikum.

Í greininni segir að ráðherrann sé reiðubúinn til að sækja þann stuðning væri hægt að sækja bæði í ríkissjóð og gjaldeyrisvarasjóð Seðlabankans. Að sögn utanríkisráðuneytisins eru þessi ummæli túlkun blaðamannsins en ekki höfð eftir Ingibjörgu Sólrúnu.

Haft er eftir Ingibjörgu Sólrúnu, að stjórnvöld og bankarnir snúi bökum saman til að verjast þeim árásum, sem gerðar séu á íslenska efnahagskerfið. "Það er að sjálfsögðu ástæða til að hafa áhyggjur þegar vogunarsjóðir ráðast á íslenska banka. Það getur verið hættulegt bæði fyrir bankana og íslenska efnahagslífið. Með þessu fylgjumst við," segir Ingibjörg.

Hún segir, að umræðan að undanförnu hafi verið ósanngörn í garð Íslands. Ef íslensk stjórnvöld teldu að ef grundvöllur íslenskra banka væri verri en annarra svipaðra banka væri ekki víst að stuðningurinn væri jafn sjálfsagður. "En við höfum raunar séð, að íslenskir bankar hafa verið varkárari en aðrir á þeim sviðum, sem lánsfjárkreppan í Bandaríkjunum hefur einkum haft áhrif á. Þeir standa mjög traustum fótum," segir hún.

Ingibjörg Sólrún segir enga hættu á að íslensku bankarnir lendi í þroti áður en lánsfjárkreppunni linnir. Hún líkir gjaldeyrismálunum á Íslandi við lífið á sléttunni, þar sem þeir sterku ráðast á veikasta hlekkinn í hjörðinni.

"Við myndum ekki láta þá verða gjaldþrota, eins og staðan er í dag. Ef eitthvað væri að hjá bönkunum væri staðan kannski önnur."

16.03.2009 08:08

Kreppan bítur ekki alla jafn fast.

                                  


551. Ég hitti mann um helgina
og við tókum tal saman. Umræðuefnið var eins og svo algengt er á allra síðustu tímum, ástandið í landinu og möguleg viðbrögð við því. Viðmælandi minn sagðist í sjálfu sér hvorki vera að fara neitt sérlega vel eða illa út úr þeim efnahagslegu hamförum sem yfir þjóðina ganga um þessar mundir. Hann hefði reyndar lækkað talsvert í launum, en þau hefðu verið ágæt fyrir og eftir stæði alveg nóg til að komast bærilega af. Það hefði reyndar þurft að grípa til nauðsynlegra aðhaldsaðgerða og niðurskurðar, en eftir stæði hann og hans fólk með nægt fé til framfærslu og hann mætti auðvitað vera þakklátur fyrir það. Alla vega þegar litið væri til þess sem væri að gerast hjá allt of mörgum. Hann sagðist hafa verið svo heppinn að skulda frekar lítið og hreinlega dottið í þann lukkupott að hafa fyrir sakir framtaksleysis frestað fyrirhuguðum bílakaupum á síðasta ári. Ég spurði hann þá í hverju aðhaldið og niðurskurðurinn hefði aðallega verið fólginn og þá kom svarið sem varð kveikjan að þessum pistli...

 

Honum sagðist svo frá:

Ég sagði upp Stöð 2 og Mogganum en samanlagt áskriftargjald er 9.500 kr. á mán.

Ég sagði mig úr öllum félögum og samtökum þar sem þurfti að greiða félagsgjöld eða árgjöld. Mér reiknast til að sú tala sé um 4.500 kr. á mánuði

Ég hætti að spila í happdrættunum þremur, þ.e. Háskólanum, SÍBS og DAS, þar sem ég hafði verið í áskrift um árabil. Það hafði kostað mig 9.000 kr. á mánuði undir það síðasta og ég hef fengið 15.000 til baka að meðaltali þriðja hvert ár í formi vinninga.

Ég sagði upp öllum tryggingum sem eru ekki skyldutryggingar, þ.m.t. kaskó á bílnum, heimilis, húseigenda og margt, margt fleira. Mér reiknast til að sá niðurskurður svari til um 18.000 kr. á mánuði. Ýmsir sögðu mér að þarna væri ég að gera stór mistök og eiginlega leika mér að eldinum. Ég benti á að ég væri búinn að vera mjög vel tryggðir í tæpa tvo áratugi og aldrei fengið svo mikið sem eina krónu til baka vegna tjóns. Ég beitti fyrir mig því reiknilíkani sem ég taldi duga sem rök, bæði gagnvart sjálfum mér og þeim sem ekki voru mér sammála. Tryggingafélög þurfa að innheimta iðgjöld til að standa undir öllum rekstri sínum svo sem launum, sköttum og öðrum gjöldum, rekstri fasteigna o.fl. Þau leggja einnig til hliðar hluta af veltunni í sérstakan bótasjóð sem hefur vaxið talsvert undanfarin ár og svo vilja eigendurnir auðvitað fá arð af fyrirtæki sínu. Ég veit ekki hvað stór hluti veltunnar er að lokum greiddur aftur út sem bætur, en leyfi mér að skjóta á svona 20 - 25% Sé svo, þá segir það mér að það borgar sig alls ekki að tryggja.

Það verður engin utanlandsferð í ár, en slíkt hefur verið árvisst s.l. einn og hálfan áratug. Þar gæti niðurskurðurinn (þegar tekið er tillit til gjaldeyriskaupa á núverandi gengi og eðlileg dagleg neysla og/eða eyðsla dregin frá) numið a.m.k. 25.000 kr. á mánuði sé upphæðinni deilt niður á allt árið.

Samtals lækkuðu þessar aðgerðir hin mánaðarlegu útgjöld um heilar 66.000 kr. og það getur hver maður séð að það hlýtur að muna um minna.

 

Ég hætti ekki að fara í bíó eða á videoleigur sem ég hef alltaf verið nokkuð duglegur við, það hefur líka verið því sem næst regla að fara einu sinni í mánuði út að borða og eitthvað út á lífið á eftir og síðan hefur ekki verið sparað mikið í mat eða öðru slíku. Ég hætti ekki að borga flesta happdrættismiða eða gíróseðla sem berast inn um lúguna eins og ég hef alla tíð reynt að gera. Ég lagði því áfram lið samtökum eins og Vímulausri æsku, SEM, Skátum, Blindrafélaginu, MS, Götusmiðjunni, S.Á.Á, Krabbameinsfélaginu og fleirum og fleirum.

Það er því ennþá rými fyrir frekari niðurskurð haldi áfram að harðna á dalnum.

 

Svo bætti þessi ágæti maður því við að hann hefði aldrei séð neina sérstaka ástæðu til að fara niður á Austurvöll á laugardögum.

13.03.2009 08:05

Ýkjumyndir frá Hafnarfirði

550. Ljósmyndirnar hér að neðan eiga það sameiginlegt að vera teknar á undanförnum vikum í Hafnarfirði og allra næsta nágrenni. En þær eiga það líka sameiginlegt að sá sem tók þær og ritar þessi orð, missti sig alveg í tölvunni og fór offari við vinnslu þeirra. Líklega eru einhverjar þeirra þó að komast merkilega vel frá meðferðinni sem þær hlutu, en um aðrar má segja það sama og maðurinn sagði hérna um árið...

Þetta er nú "tú möts"!


Verslunarmiðstöðin Fjörður.


"Svífur yfir Esjuni", "Máninn hátt á himni skín" og "Ó, þú hýri Hafnarfjörður"...
Allt í einum pakka eða þrír fyrir einn.


Setberg.


Kirkjan í miðbænum.


Garðabær, Kópavogur, Reykjavík, Esjan.


Við lækinn í Hafnarfirði.


Hvaleyrarvatn.


Sólsetur og Klaustrið við Klausturhvamm.

10.03.2009 06:46

Svon´er á síld549. Enn er ég að grufla í gömlum myndum sem ég rakst á síðast liðið ár og er úr fórum afa mína og ömmu. Þegar afi kom fyrst til Siglufjarðar frá Hnífsdal upp úr 1930, var það eins og hjá flestum sem áttu leið í Síldarbæinn í atvinnuleit. Hann var lengi á bátunum Villa og Snarfara sem gerðir voru út á síld og sáu Gránu að miklu leyti fyrir hráefni til bræðslu. Eftir að hann tók svokallað pungapróf, varð hann stýrimaður og einnig skipstjóri í afleysingum á áður nefndum bátum. Ég tel að myndirnar hér að neðan hafi hann tekið á fyrsta áratug veru sinnar á Siglufirði, en hann fór þaðan aldrei aftur og varð meiri og meiri Siglfirðingur eftir því sem árin liðu án þess þó að gleyma hinum Verstfirska uppruna sínum.Þetta var löngu fyrir daga asdictækja, kraftblakka og radars. Menn notuðust við handaflið öðru fremur og víst er að sjómennskan hefur verið með öðrum brag en nútímamaðurinn þekkir. Þrátt fyrir vosbúð og volk, vinnuhörku og langar vökur, vantaði ekkert upp á að síldveiðarnar, vinnsla hennar, verbúðalífið í brökkunum og bryggjuböllin væru sveipuð draumkenndum dýrðarljóma. Rómantíkin lá í loftinu og bærinn var langstærsti hjónabandsmarkaður sem nokkru sinni hafði verið til staðar á landinu. Þarna voru á sumrin samankomin þúsundir af kraftmiklu, ungu og lífsglöðu fólki sem framtíðin beið eftir.
Ég var svo heppinn að upplifa allra síðustu ár Síldarævintýrisins og er afar þakklátur fyrir það, því þess vegna tel ég mig geta leyft mér með réttu að upplifa svolitla fortíðarþrá þegar svo ber undir.

Árið 1965 gaf skemmtikrafturinn, fréttamaðurinn, flugmaðurinn, rithöfundurinn, laga og textasmiðurinn og nú síðast pólitíkusinn Ómar Ragnarsson út fjögurra laga 45 snúninga plötu. Þar mátti m.a. finna sönginn "Svona er á síld" sem hann gerði við "King of the road", huð frábæra og allt að því tímalausa og töffaralega lag Roger Miller. Þar má segja að ranghverfan á rómantíkinni komi betur fram en í mörgum öðrum síldarsöngvum.

 

Veltingur, slor og salt,

sjóveiki og alltaf kalt.

Eldavélin apparat,

ó, ekki tala um mat.

Mér er flökurt og kitlar í kok

og nú er komin súld og norðan rok.

Best er koju að bæla í brælu.

Svona er á síld.

 

Í blíðu brjálað at

barningur og handapat.

Síld spriklar, springur nót,

spáin er aftur ljót.

Ég er í fyrsta sinn á sjó,

svefn er enginn, aldrei ró.

Best er koju að bæla í brælu.

Svona er á síld.

 

Með viku gamalt skegg ég síðan vind mér í land,

í villtri landlegu ég bregð mér á rand.

Ég hafði næstum gleymt því hvernig kvenfólk leit út

nú kemst ég að raun um það og gleymi allri sút...Haukur Mortens sem sótti sér konuefnið til Siglufjarðar söng á sjöunda áratugnum lag Núma Þorbergssonar sem byrjaði á textabroti sem allflestir þekkja.

Forðum var verandi á vertíð í Eyjunum...

En síðan lá leið ljóðsins til Siglufjarðar.

Sjómönnum þótti á Siglufjörð farandi
síldinni landað var.
Ekki er spurningum öllum svarandi
um það, sem skeði þar.
Þar voru indælar andvökunæturnar
upp í Hvanneyrarskál.
Þar Adamssynirnir og Evudæturnar
Áttu sín leyndarmál.
Ég fann mjög skemmtilegt viðtal sem Hjörtur Gíslason átti við Gunnar Flóvenz í Morgunblaðinu frá 2001 þar sem sá síðarnefndi kom víða við, þar á meðal um upphaf síldveiða, þróun og stofnun Síldarútvegsnefndar. Þar segir m.a.

Síldveiðar við Ísland hófust árið 1868 en það ár veiddi norskur leiðangur frá Mandal rúmlega 2.000 tunnur sem saltaðar voru á Seyðisfirði og fluttar út til Stokkhólms þá um haustið. Óverulegt magn hafði þó áður verið saltað og flutt út í tilraunaskyni.

Söltunin og útflutningurinn á síldinni var næstu áratugina að mestu í höndum Norðmanna og sömuleiðis eftir að hið eiginlega síldarævintýri hófst skömmu eftir aldamótin með tilkomu herpinóta- og reknetaveiðanna en Svíar og Danir bættust síðar í hópinn og urðu Svíar langstærstu kaupendurnir.
Greinina er að finna í heild sinni á...
http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2001/04/12/silfur_hafsins_og_samskiptin_vid_austur_evropu/
Ég rakst líka á greinarkorn eftir Ingibjörgu Jónsdóttir, en hún var nemi í  PhD (hvað sem það þýðir) fiskifræði við Háskóla Íslands.
Hún segir m.a: Hringnót er einnig nefnd herpinót eða snurpunót. Hún er netgirðing sem lögð er hringinn í kringum fiskitorfu. Hringnætur eru notaðar við loðnu- og síldarveiðar við Ísland. Hringnót samanstendur úr aflöngum netstykkjum úr næloni sem eru saumaðar saman lóðrétt og mynda mjög stórt net. Meðalsíldarnót er 550m löng og 180m djúp. Á efri brún netsins eru flot sem halda netinu á floti og við neðri brún netsins er teinn sem á eru festar blýsökkur til að þyngja netið. Einnig eru snurpuhringir festir á neðri brún netsins og í gegnum þá þræddur snurpuvír. Netið er lagt utan um torfuna og neðri teinninn látinn síga til að komast niður fyrir torfuna. Nótinni er lokað að neðan með því að hífa snurpuvírinn inn. Því næst er annar endi nótarinnar dreginn inn í skipið og minnkar þá nethringurinn þar til aðeins lítill netpoki er við hliðina á skipinu og í honum liggur fiskurinn. Fisknum er svo dælt upp í skipið. Hringnót er stærsta veiðarfærið sem notað er við Ísland og vegur meðalsíldarnót um 40 tonn. Hringnótin er einnig afkastamesta veiðarfærið við Ísland, þ.e.a.s. tekur mestan afla. T.d. getur kolmunnatroll tekið allt að 200 tonnum í einum drætti.Eitt af því sem var fylgifiskur alls þess sem var að gerast í norðrinu rétt innan við Grímseyjarsundið, var að tónlistarmenn streymdu norður í upphafi hverrar vertíðar því þarna var einnig atvinnu að hafa fyrir þá. Það þótti ekkert tiltökumál þó að dansað væri á fjórum eða sex stöðum í einu og alls staðar fullt út úr dyrum. Dragspilið þanið til hins ýtrasta og valsar, rælar, skottísar, polkar, vínarkrusar og marsúrkar dunuðu þar til nýr dagur reis. Vikan var líka sjö dagar rétt eins og nú, en þá fór aðsóknin ekki síst eftir því hvort var landlega og strákarnir í landi, eða kannski saltað á hverju plani og stelpurnar uppteknar við annað en dans og dufl.

 

Þetta mikla ævintýri sem stóð í meira en hálfa öld veitti líka "poppskáldum" þess tíma allt að því óendanlegan og ótæmandi innblástur. Það var sungið um síldina ef ekki var verið að vinna við hana og dansað við síldarslagarana ef ekki var verið að kasta á torfu úti fyrir landi eða staðið yfir tunnunni á planinu.

Árni Björnsson átti einn af lífseigari textum þar sem "síldarmenningunni" var gerð skil.


Ég sá hann í dag og ég sá hann í gær,

hann söng er hann hélt frá landi.

Og við honum brosti hinn víðfeðmi sær

er vindurinn seglin þandi.

Hæ, hæ, hó, hó, allt er í ani

Hæ, hæ, hó, hó, allir á spani.

Þeir síldina veiða og sigla svo inn,

hún skal söltuð uppi á plani.

Þeir slógu upp balli á bryggjunni eitt sinn

meðan báturinn lá í aðgerð.

Og Nikulás kokkur og nótabassinn

þöndu nikkuna með sinni aðferð.

Hæ, hæ, hó hó, allt var í ani

Hæ, hæ, hó, hó, allir á spani.

Við söltum á daginn en syngjum í kvöld

og svífum í dans á plani.

Svo sigldi hann bátnum víst suður um land

í Sandgerði og Vestmannaeyjar.

Og haustbáran fellur við fjörunnar sand

meðan faðmar hann sunnlenskar meyjar.

Æ, æ, ó, ó allt er í ani.

Æ, æ, ó, ó, enginn á spani.

Og nú reikar einmana og eirðarlaus sál

í örvinglan niðri á plani.Í landlegum þyrptust sjómenn gjarnan upp á Póst & Síma til að hringja heim og var þá fullt út úr dyrum þar á bæ. Á þessum árum var aðeins ein lína milli Siglufjarðar og Reykjavíkur og mínar heimildir segja að þannig hafi það verið allt fram yfir 1960. Þá var ekki óalgengt að bið eftir símtali væri löng og ef menn náðu að panta fyrir hádegi gátu þeir vænst þess að komast að fyrir miðnætti. Sumir sem þarna voru höfðu þó meiri áhuga á póstinum en símanum, því oft var beðið eftir að báturinn kæmi frá Akureyri og brennivínssendingarnar sem pantaðar höfðu verið í hús. En algengt var að Ríkinu á Siglufirði væri lokað snarlega þegar sást til margra skipa í fjarðarkjaftinum, veðurútlit var slæmt og stefndi í fjölmenna landlegu. Þó sáu margir útsjónarsamir sjóarar við þessu og áttu oftar en ekki a.m.k. eina póstkröfu sem beið þeirra á pósthúsinu.
Á heimasíðu Fjölbrautaskóla Suðurnesja er þessar skýringamyndir sem hér eru að finna, en þær eru fleiri þar og skýringarnar ýtarlegri. Slóðin að síðunni er

http://kennarar.fss.is/netagerd/not.htm
Hér er verið að kasta nót utan um fiskitorfu, eins og örin sýnir eru undankomuleiðir fisksins nokkrar þar til nótin lokast.Hér sést hvernig nótin lokast. Ís­lendingar hófu síld­veiðar í hring­nót árið 1904 og kom verk­kunnátta í nótum að­al­lega frá Norð­mönnum og eru flest fag­orð í nótum af skandinavískum upp­runa. Í hringnót er veidd loðna og síld.  Stærstu næturnar geta verið um 600m langar og um 200m djúpar.
Síðan er aflanum dælt niður í lest.

06.03.2009 22:16

Að skeggræða við sjálfan sig548. Það er líklega komin tími á klippingu og rakstur
, en þess utan...
Þá var ég að gúgglast á netinu og rakst á frétt úr Degi frá 20. jan 2008 þar sem farið var yfir nokkrar mannfjöldatölur af Eyjafjarðarsvæðinu og staða Fallabyggðar skoðuð sérstaklega. 

Íbúum Akureyrar fjögaði mest - mest fækkun í Fjallabyggð

Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands og varða íbúafjölda í sveitarfélögum við Eyjafjörð 1. desember sl. þá er staðan svona:

                                                          2007     2006

Akureyri                                      17.253   16.822             +431
Eyjafjarðarsveit                            1.009       998                +11
Hörgárbyggð                                   416        411                 +5
Grímseyjarhreppur                         103          99                 +4
Svalbarðsstrandarhreppur            385        381                 +4
Arnarneshreppur                            171        176                  -5
Grýtubakkahreppur                        357        368                -11
Dalvíkurbyggð                             1.951     1.966                -15
Fjallabyggð                                  2.188     2.261               -73

Fjallabyggð: Styrkur og veikleikar:

Í skýrslu Byggðastofnunar um byggðarlög með viðvarandi fólksfækkun segir að styrkleikar Fjallabyggðar felist meðal annars í góðum hafnarskilyrðum á Siglufirði, legu svæðisins gagnvart ferðamannaiðnaði og frumkvöðlastarfsemi og iðnaði á Ólafsfirði.

Veikleikarnir liggja hinsvegar að hluta til í staðsetningu svæðisins, flug- og vegasamgöngur eru slæmar og flugvöllurinn í Fjallabyggð liggur undir skemmdum. Lágt menntunarstig og hár meðalaldur eru veikleikar, einhæfni atvinnulífs og samdráttur í fiskvinnslu og veiðum.

Íbúum í Fjallabyggð hefur fækkað um 23,1% á fimmtán árum og aldurshóparnir 25-34 ára eru fámennir miðað við landið allt.

Í skýrslu Byggðastofnuar segir að þegar til lengri tíma er litið eru ýmis tækifæri á blómlegu mannlífi í Fjallabyggð. Fjarvinnsla á Siglufirði gengur vel og frekari möguleikar þar fyrir hendi. Mörg tækifæri eru í ferðaþjónustu, svo sem Síldarminjasafnið og sjóstangveiði í Ólafsfirði og ný tækifæri skapast með bættum samgöngum með tilkomu Héðinsfjarðarganga. Þar má nefna framhaldsskóla, uppskipunarhöfn fyrir Norðurland, aukna nýtingu sjúkrastofnana, samþættingu ferðaþjónustu og aukna þjónustu við smábátaútgerð.

En skyldi þetta vera að breytast eitthvað í kreppunni sem hrellir íbúa höfuðborgarsvæðisins fremur en landsbyggðarbúa.


Þ. 23. febr. s.l. birtist í Fréttblaðinu viðtal við Elliða Vignisson bæjarstjóra í Vestmannaeyjum og fleiri ágæta sveitarstjórnarmenn undir fyrirsögninni: "Segir fólk í átthagafjörtum í borginni" Það er veruleg breyting frá því sem áður var og nú heyrist það reyndar oft að straumurinn hafi snúist við, þ.e. fólksflóttinn liggi frá suðvesturhorninu og út á landsbyggðina. Ég veit vel að þetta er raunveruleikinn og nú hefur það gerst að höfuðborgarbúar eru að upplifa það í fyrsta sinn a.m.k. í mjög langan tíma að þeri geta t.a.m. ekki selt eignir sínar og komast því hvergi þess vegna. Það er nokkuð sem hefur hingað til aðeins verið þekkt sem "landsbyggðarlægt" vandamál. Þeir sem töluðu digurbarkalega um að réttast væri að sópa þessum vesalingum í krummaskuðunum úti á landi saman og flytja í eina eða tvær blokkir í Breiðholtinu, virðast vera steinþagnaðir og er það vel. Þrátt fyrir að slíkir talsmenn hafi í raun oft á tíðum aðeins opinberað heimsku sína með því að tjá sig í stað þess að hafa vit á að þegja, var þetta bull þeirra oft á tíðum verulega hvimleitt og jafnvel niðrandi á köflum. Nú hittir því einhver sjálfan sig illa fyrir og er tími til kominn þó ekki sé víst að umræddur hafi einhverja möguleika á að vitkast.

 

Þar segir: Stjórnvöld gerðu vel ef þau hættu að ögra stöðugleikanum í sjávarútvegi.

Nú í kreppunni hefur áhugi fólks á því að búa á landsbyggðinni stóraukist og nú þegar fjölgar ungu fólki í nokkrum byggðum þar sem slíku hefur ekki verið að fagna í áraraðir.

Þetta segja Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, Ólafur Hr. Sigurðsson, starfsbróðir hans frá Seyðisfirði, og Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.

Öryggi og fjölskylduvænt samfélag er eitt það helsta sem fólkið leitar eftir, segja þeir, auk þess sem margir vilja snúa baki við þeim gildum sem ráðið hafa ríkjum á suðvesturhorninu.

"Ég held að það felist ákveðin tækifæri fyrir fólk í því undarlega umhverfi sem við búum við einmitt núna," segir Ómar Már. "Og það felst í því að hér [á landsbyggðinni] eru mannlífs- og atvinnulífshættir reistir á betri grunni heldur en það sem hefur verið að byggjast upp á svokölluðum þenslusvæðum."

En ekki geta allir sem vilja flust út á landsbyggðina; Elliði segir fjölmarga sitja í átthagafjötrum í borginni. "Fólkið hefur elt fjármagnið og atvinnuna sem öll hefur verið á höfuðborgarsvæðinu en nú þegar bólan er sprungin situr það uppi með ofurskuldsetta eign svo að það er í raun í átthagafjötrum í borginni."

Ómar segir að ríkið þurfi að styðja betur við bakið á sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum á landsbyggðinni. "Við höfum heyrt mikla umræðu um nýsköpun en því miður virðast orð og æði ekki fara þar saman," segir hann.

Elliði og Ólafur hafa hins vegar hug á öðruvísi stuðningi. "Veigamesti stuðningurinn sem við gætum fengið frá ríkinu væri að fá frið til að byggja upp okkar atvinnuvegi án þess að eiga það sífellt á hættu að fótunum verði kippt undan því," segir Elliði. "Það er óþolandi að vinna í sjávar­útvegi þegar sífellt er verið að ögra þeim forsendum sem fyrir honum eru." Á hann þá meðal annars við umræður um eignarupptöku á kvóta og veiðileyfagjöldum.

"Stundum er aðgerðarleysi af hálfu ríkisins það skásta," segir Ólafur. "Það sést vel á fyrirtækjum sem eru alfarið í eigu ríkisins, eins og RARIK og Pósturinn. Þar gilda græðgissjónarmið sem reytt hafa af landsbyggðinni út í það óendanlega í nafni óeðlilega mikillar arðsemi. En það sjá allir hvernig þess háttar græðgi hefur reynst þjóðinni."

 

Svo sá ég umfjöllun um Siglufjörð og þar stóð m.a. orðrétt:

Siglufjörður er þekktastur fyrir Síldarævintýrið.

Þar sem ég þekki þokkalega til sögu staðarins a.m.k. rúma öld aftur í tímann gat ég tæplega varist brosi.En að lokum langar mig að skjóta þessari ekki alveg splunkunýju mynd hérna inn  til að botna pistilinn. Hún á fátt eða reyndar miklu heldur ekkert sameiginlegt með því sem hér fyrir ofan stendur skrifað. Hún mun vera tekin á Kanarí sennilega það frábæra ár 1976 sem ég mun aldrei gleyma, en þarna eru Siglfirðingarnir Gummi Ingólfs, Stebbi Sigmars og Biggi Inga í góðum gír.

05.03.2009 12:39

Ískalt

547. Ég fékk sendar nokkrar af þessum ísköldu og eiginlega allt að því hrollvekjandi myndum með stafræna morgunpóstinum. Eftir að hafa gúgglað mig aðeins inn í málið komst ég að því að bærinn Versoix er í Sviss, stendur við Genfarvatn og þar mun vera framleitt talsvert af súkkulaði. Það var í janúar árið 2005 að veðurskilyrðin voru með þeim hætti sem sjá má afleiðingarnar af á myndunum hér að neðan. Eftir nokkurra daga stífa norðanátt og talsvert frost hafði vatnsíringurinn fokið inn yfir bæinn og fraus með það sama hvar sem hann bar niður. Þetta mun samt ekki vera algengt þar um slóðir og reyndar er þetta ein mesta ísing sem vitað er til að hafi myndast í þessum annars ágæta bæ.


  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 285
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 415
Gestir í gær: 117
Samtals flettingar: 344644
Samtals gestir: 38295
Tölur uppfærðar: 24.5.2024 15:27:32
clockhere

Tenglar

Eldra efni