Færslur: 2012 Apríl

25.04.2012 05:39

A-týpan


  

813. Að vera A-týpa eða B-týpa er víst ekki það sama. Sú skilgreining sem skaut rótum í kollinum á mér fyrir margt löngu síðan, gengur út á að A-týpan vakni snemma að morgni, fjallhress og upptendruð. Afkasti miklu fyrir hádegi dag hvern, sé jákvæð, áreiðanleg og útsjónarsöm, með mikið frumkvæði og eigi gott með að starfa sjálfstætt. En þegar dagur er að kvöldi kominn, er líklegt að A-týpan taki nóttina jafn snemma og daginn, vel meðvituð um að svefn fyrir miðnætti er eða á að vera mun meira endurnærandi en svefn t.d. í morgunsárið.

B-týpan var samkvæmt sömu skilgreiningu aftur á móti sú lata sem nennir ekki á fætur á morgnana, heldur dúrar og dormar eins lengi og hún kemst upp með. Drattast þó á fætur að lokum, en auðvitað alltaf of seint. Verður síðan lítið úr verki yfir daginn, en er hins vegar orðin verulega virk þegar degi tekur að halla. Kvöldin og nóttin eru hennar tími.

-

Í einni af kennslubókunum sem ég er að glugga í þessa dagana, birtist mér svo alveg splunkuný og talsvert framandi sýn miðað við hina gömlu og ég vildi segja rótgrónu og jákvæðu greiningu sem hefur verið skilningur minn í áranna rás, en þar segir meðal annars:

 

Atferliseinkenni A-týpu eru að:

Hugsa og framkvæma fleira en tvennt í einu.

Reyna að gera meira og meira á skemmri og skemmri tíma.

Hætta að taka eftir og hafa áhuga á umhverfi sínu svo og fögrum hlutum.

Fyllast óþolinmæði þegar aðrir tala.

Fyllast tilgangslausu óþoli í biðröðum eða í akstri á eftir bifreið sem henni þykir fara of hægt.

Telja að ef gera þurfi eitthvað vel, þurfi hún að gera það sjálf.

Pata mikið með höndunum þegar talað er.

Sveifla mikið fótum eða smella fingurgómunum í borð.

Vera óðamála og nota mikið blótsyrði.

Leggja ofuráherslu á stundvísi.

Eiga erfitt með að sitja aðgerðarlaus.

Reyna alltaf að leika til sigurs, líka þegar börn eiga í hlut.

Mæla árangur sinn og annarra ávallt í tölum.

Smjatta, hrista höfuðið, kreppa hnefana, berja í borð og jafnvel gleypa loft þegar talað er.

Verða óþolinmóð þegar fylgst er með öðrum gera hluti sem hún teur sig geta gert betur.

Depla gjarnan augunum og lyfta augabrúnunum oft og mikið.

Venjur A-týpunnar eru svo rótgrónar að það er oft ekki fyrr en við hjartaáfall að henni verða ljós tengsl lífstíls sins við sjúkdóminn. Margir breyta þá um lífsstíl, en sýnt þykir þó að hægt er að kenna fólki B-atferli áður en í óefni er komið.

-

Ég verð að segja að þetta kom mér ekki svo lítið á óvart, en svo mörg voru þau orð...

12.04.2012 00:08

Aftur í "skóla"


812. Í gær settist ég á skólabekk eftir langt, langt, langt hlé, svo að á næstunni mun koma í ljós hve alvarleg áhrif teflonlagið hefur á geymslumöguleika upplýsinga. En þar sem ég er ekkert allt of öruggur með mig í þessu næstum því steingleymda umhverfi, er líklega best að geyma frekari umræðu um málið þar til á síðari stigum þess, því kannski guggna menn bara og pakka, - hver veit?

05.04.2012 00:13

Teflon heilkennið



811. "Það er lítið að gerast á þessari síðu nú orðið".
"Já, skrifarinn er orðinn ansi gamall og þreytulegur".
"Og svolítið grár og gugginn að sjá".
"Kannski er hann farinn í páskafrí á heimaslóðir".
"Nei, nei, hann á líklega ekki fyrir bensíni norður á Sigló, það gerir kreppan, Hahaha".
"Kannski er hann alveg þurrausinn innan frá, eða þjáist af ritstíflu"?
"Jú, jú, jafnvel slæmu tilfelli og búinn að segja allt sem hann hefur að segja um dagana og sumt meira að segja tvisvar eða þrisvar".
"Bara 70 gestir í gær"
"Já, fámennt en góðmennt. Alla vega erum við hér".
"Sumir verða nú svolítið tæpir í kollinum með aldrinum".
"Já og það er eins og heilinn teflonhúðist".
"Hvað er teflon"?
"Það er eitthvað sem ekkert tollir við".
"Nú já, svoleiðis".
"Um hvað varstu annast að spyrja"?
"Teflon".
  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 37
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 403
Gestir í gær: 101
Samtals flettingar: 318064
Samtals gestir: 34889
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 03:20:00
clockhere

Tenglar

Eldra efni