Færslur: 2013 Júní

24.06.2013 14:43

Söfnun stafrænna bílnúmera

871. Það er ekki öll vitleysan eins, eða ættum við kannski að tala um áráttutengt hegðunarmynstur í tilfellinu sem hér er nefnt til sögunnar? Reyndar myndi það líklega teljast vera af tiltölulega jákvæðum stofni, frekar meinlitlum og ekki líklegt til að raska sálarró þess sem því er haldinn þannig að hann eða hún þyrfti að leita sér aðstoðar. Alla vega meðan það fer ekki meira úr böndunum en þegar er orðið.

-

Fyrir nokkrum misserum sá ég stutt viðtal við sérvitring (rétt eins og mig) á RÚV og man ekki betur en það hafi verið í Kastljósi, en hann sagði frá sérstakri söfunaráráttu sinni. Hún fólst í því að viðkomandi safnaði bílnúmerum (reyndar stafrænt), en hjálpartækið og veiðigræjan sem hann notaðist við, var lítil myndvél sem var ávalt innan seilingar. Viðmælandinn sagðist vera kominn með yfir 200 myndir af bílnúmerum í möppu og virtist hinn hreyknasti af safni sínu. Mér þykir ástæða til að taka það fram að viðkomandi bar ekki með sér að vera þroskaskertur á neinn hátt. Mér þótti hins vegar minna til um þetta safn og var eiginlega svolítið móðgaður, því þá þegar hafði ég stundað sambærilega söfnun um skeið og kominn með miklu, miklu stærra safn og meira að vöxtum en hann.

-

En nóg um slíkt útúrdúratal, mér datt þessi skemmtilega vitleysa í hug einhvern tíma fyrir margt löngu og stundaði þá söfnunina grimmt um skeið. En þar kom að aðstæður breyttust, tímaleysistímabil tók við og mappan með bílnúmerunum "var sett upp á hillu" og gleymdist. Alla vega þar til nú, því á dögunum var ég að taka til í tölvunni og rakst þá á umrætt. safn. Á sínum tíma var ekki endilega mikiö lagt upp úr myndgæðum, því oft var mynd smellt af þegar stöðvað var á rauðu ljósi og ekki þótti ástæða til að mynda númer sem voru ekkert skemmtileg. En það voru líka dæmi um að bílar voru eltir þar til þeir komust í gott færi og stundum voru slíkir leiðangrar lengri en góðu hófi gegndi og skynsemin jafnvel ekki alltaf höfð með í ráðum. Ég man eftir að ég elti "OZZY" á sínum tíma frá Hafnarfirði og lengst inn í Grafarvog. Þar lagði bílstjórinn í stæði (líklega heima hjá sér) en ég beið eftir að hann færi af svæðinu og laumaðist þá að bílunum með myndavélina á lofti.

-

Hér að neðan eru nokkur sýnishorn úr safninu.

Og svo mætti lengi telja...


13.06.2013 09:21

Og fleiri tveggja hæða


870. Og fyrst við erum farin að tala um tveggja hæða strætó á annað borð, er viðbót sem mér finnst reyndar svolítið merkileg. Hopparinn sem segir frá í blogginu hér að neðan, á sína heimahöfn á planinu hjá Kynnisferðum í Vesturvörinni í Kópavogi þó hann sé staðsettur við BSÍ sumarlangt. Við sömu götu og örskammt frá, á einnig heima þessa vígalegi tveggja hæða strætó sem er svo kyrfilega merktur Tal. En ég hef reyndar aldrei séð hann á ferðinni þrátt fyrir að útlitið bendi ekki til þess að hann sé úr sér genginn eða aflagður.Örlítið lengra frá og einnig við Vesturvörina í Kópavogi, má svo berja þennan tveggja hæða strætó augum. Á bláa borðanum á hliðinni hefur staðið "ER EKKI LÍFIÐ DÁSAMLEGT", en eitthvað er sú merking farin að láta á sjá og kannski hefur líka líf þessa ökutækis verið dásamlegra einhvern tíma á árum áður. Framan á honum ofan til sést móta fyrir merkingu sem hefur verið fjarlægð, en þar hefur staðið; "Veislu Miðlun Árskógssandi". Mér var sagt að hann hafi um tíma verið gerður út frá þeim stað sem einhvers konar partýbíll fyrir hópa af ýmsum stærðum og gerðum og veitingar þá verið seldar um borð, en þær upplýsingar eru þó allar frekar óljósar. Og þrátt fyrir að vera á númerum, hef ég aldrei séð neina hreyfingu á bílnum frekar en Tal strætónum og ef rýnt er í myndina og hún stækkuð verulega, má sjá að hann er með 2012 skoðun.
-
Og þar sem "Hoppararnir" eru tveir, hafa alls fjórir tveggja hæða strætóar aðsetur sitt við Vesturvörina í Kópavogi, og það af alls fjórum slíkum sem ég veit um á landinu öllu.

09.06.2013 03:21

Hopparinn

869. Í síðasta mánuði var ég ræstur út frekar fyrirvaralítið á stutta aukavakt hjá Strætó, sem gerist endrum og sinnum og er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi. Ástæðan var sú að vinnufélagi minn Dylan, (hinn viðkunnanlegi Englendingur sem gerðist Íslendingur fyrir mörgum árum) var eiginlega pantaður á "Hopparann" af hópi ferðamanna. Og hvað er nú "Hopparinn" kynni einhver að spyrja. Jú, það skemmtilega fyrirbæri er tveggja hæða strætisvagn sem ekur með erlenda ferðamenn um Reykjavík sem fá í leiðinni svolitla sögu og fróðleiksmola í eyra um merka staði sem ekið er fram hjá, ásamt öðru góðmeti í formi ýmis konar upplýsinga um land og þjóð. Kerfið sem notast er við býður upp á að neytandinn (í þessu tilfelli farþeginn) geti valið milli m.a. ensku, frönsku, þýsku, spænsku og íslensku í headphones. Verulega sniðugt, ákaflega túristavænt og hið ágætasta framtak í alla staði hjá Kynnisferðum sem gera þessa vagna út og er reyndar það fyrirtæki sem ég starfa hjá um þessar mundir. - En nóg um það.

Ég ók sem sagt strætó (leið 28) fyrir Dylan sem skrapp yfir á "Hopparann", en þegar ég var staddur á stoppistöðinni í Mjódd, var hringt í mig.

"Endar þú ekki vaktina í Hamraborg"?

"Jú" svaraði ég.

"Og er ekki bíllinn þinn í Vesturvörinni"?

"Jú" svaraði ég aftur.

"Á ég ekki að skutla þér af því að ég á leið um báða staði í réttri röð og á sama tíma"?

"Jú takk," og þar með kom þriðja júið.

"Okay, ég verð þarna í stæðinu, þú kemst ekki hjá því að sjá mig."

Það var Dylan sem hringdi.Og það reyndist rétt vera, ég gat alls ekki komist hjá því að sjá hann.Og Dylan, hinn geðþekki enski íslendingur sat við stýrið og beið eftir eina farþeganum sem var væntanlegur í þessa ferð.Ég varð auðvitað að skoða gripinn í leiðinni. Ég hafði ekki komið inn í tveggja hæða strætó síðan á því herrans ári 1984 sem túristi til London. Ég rölti upp hringstigann sem liggur upp á efri hæðina og tók mynd aftur eftir bílnum.Ég gekk aftur eftir vagninum á efri hæðinni, settist í aftasta bekk og tók aðra mynd í átt til framendans. Hér var sko lágt undir loft, en allt etthvað svo undarlega útlenskt eða þannig...


                             

Svona lítur hringstiginn milli hæða út. Ég fæ það óneitanlega svolítið á tilfinninguna að ég sé að fara niður í ósamþykkt rými í kjallara eða upp á háaloft sem væri að mestu undir súð, í einhverri borulegri smáíbúð á hundraðogeinum svæðinu sem var einhvern tíma útbúin úr aukaherbergi og geymslunni í sameigninni fyrir hinn vaxandi leigumarkað, svona rétt til að drýgja tekjurnar örlítið.Ökumaður notast við ákaflega frumstætt speglakerfi til að fylgjast með því sem gerist á efri hæðinni, þó það byggi reyndar á sömu grunnhugmynd og þeirri sem notast var við í sjónpípum þýsku kafbátanna í seinni heimstyrjöldinni þegar þeir gægðust upp fyrir sjávarborðið án þess þó að koma úr kafi.Þetta er óneitanlega svolítið gamaldags. Sjáiði bara mælaborðið...!En það sem kom mér svo rækilega á óvart var að allar áletranir inni í vagninum eru á þýsku, og ég sem hélt að tveggja hæða strætisvagnar væru svo innilega gegnum breskir í húð og hár eða kannski frekar grind og boddý og heimaborg þeirra langflestra væri London. En nú veit ég að svo er ekki, því þessi er alveg rammþýskur, er af gerðinni "Man", ók um götur Berlínar áður en hann fluttist á skerið og hefur aldrei til Englands komið.

Ég vil endilega hvetja sem flesta (og þá meina ég íslendinga) til að kynna sér, já og  taka sér far á góðum degi með svona vagni svo sem eins og einn hring, sem mun örugglega reynast flestum bæði fróðlegur og bráðskemmtilegur í senn. Svo er auðvitað ekki spurning um að ef erlenda gesti ber að garði, þá býður "Hopparinn" upp á svar við mörgum spurningum auk þess að vera í leiðinni hin skemmtilegasta afþeying og óvænt og skemmtileg upplifun í alla staði. Og fyrir þá sem vilja kynna sér málið nánar, er slóðin http://www.re.is/CitySightseeing/ 


Og það er eitthvað við þessa bíla hvar sem þeir eru í heiminum...

01.06.2013 09:06

Siggi Konn

868. Ég átti leið um miðbæ Reykjavíkur í gær (föstudag) og rakst þá á sjálfan Sigga Konn fyrir utan Tollhúsið, en í því húsi hefur hann starfað sem húsvörður lengst af frá því að hann flutti suður. Við tókum tal saman og hann sagði mér að hann væri að reyna að finna heppilegt stæði fyrir hann Magga múr þar sem yrði friður fyrir stöðumælavörðunum, en Maggi var að vinna að viðhaldi innan dyra.

"Þú þekkir Magga er það ekki"? spurði Siggi. 

"Hann er að norðan" bætti hann við.

Ég vissi auðvitað að það voru talsverðar líkur á að svo hlyti að vera.

"Það er nú það, og hverra manna er hann Maggi" spurði ég þá á móti."

"Hann er sonur hennar Gunnu í sjoppunni" svaraði Siggi og brosti sínu breiðasta.

Þar vissum við það og ég fékk í framhaldinu að skjóta nokkrum myndum að húsverðinum, svona rétt til að sýna þeim sem til þekkja að maðurinn hefur ekkert breyst í einhverja áratugi...

  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 228
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 415
Gestir í gær: 117
Samtals flettingar: 344587
Samtals gestir: 38294
Tölur uppfærðar: 24.5.2024 14:44:50
clockhere

Tenglar

Eldra efni