Færslur: 2013 Apríl

28.04.2013 09:24

Þór og vagninn hans


866. Í hinum norrænu goðafræðum er þrumuguðinn Þór sem einnig er kallaður Ása-Þór eða Öku-Þór, sagður eiga nokkra dýrgripi sem einkenna hann. Fyrst má nefna vagn sem hann ferðaðist á, en hann var dreginn af tveimur höfrum sem hétu Tanngrisnir og Tanngnjóstur. Á ferðum sínum hafði Þór þá oft til kvöldverðar, en safnaði svo beinum þeirra saman eftir matinn og vígði þá síðan til lífs á ný með hamri sínum. Vagninum ók hann um himininn og það fylgdu honum þá bæði þrumur og eldingar.

-

Ekki veit ég hvort verk það sem myndin er hér að ofan hefur verið orðið fyrir niðurskurðarhníf Jóhönnu Sig. og Steingríms J., en ég fæ ekki betur séð að hafurinn sé nú aðeins einn. Það er svo annað mál að það vekur örugglega eftirtekt þeirra sem fram hjá fara og hefur eflaust einnig alla burði til að lífga upp á umhverfið þar sem mér þykir líklegt að því verði komið fyrir.

Og eins og einnig má sjá, þá stendur það við vélaverkstæði í Hafnarfirði á vagni sem merktur er "Straumsvík" sem hlýtur því að gefa ákveðna vísbendingu um hver gæti tengst gerð þess, og miðað við áferð þess gæti það vel verið gert úr áli.


21.04.2013 08:24

Til hamingju Ásdís María


865. Hún Ásdís María Viðarsdóttir fór með sigur af hólmi í Söngkeppni framhaldsskólanna í gærkvöldi ásamt Oddi Inga Kristjánssyni, en þau kepptu fyrir MH. Þannig heyrði ég fréttina í útvarpinu í gærkvöldi, en var ekki alveg viss um að ég hafi heyrt rétt. Ég kveikti því á sjónvarpinu, notaði "I"  takkann til að galdra keppnina upp á skjáinn, og viti menn; þarna mátti sjá svo að ekki varð um villst að ég hafði heyrt rétt. Ásdís söng lagið Pink matter eftir Frank Ocean sem mér finnst reyndar ákaflega skrýtið lag og alls ekki það árennilegasta fyrir söngkonur sem eru að feta sín fyrstu spor.

-

Um Ásdísi er það að segja að hún vinnur með skólanum í Spúútnik í Kringlunni, en föt og fatatíska virðist tengjast genunum rétt eins og tónlistin, því Anna Sóley systir hennar rekur fataverslun við Stefansgade í Kóngsins Köben ásamt vinkonu sinni sem er fatahönnuður. Þá er ekki hægt annað en að minnast á bróðir hennar Arnar Inga Viðarsson sem spilaði með hljómsveitinni Moðhaus í músiktilraunum með ágætum árangri hérna um árið. Eftir nám í Tónlistarskóla FÍH þótti hann með efnilegri trommurum og er það reyndar enn, en undanfarið hefur hann verið við nám í Barcelona í grafískri hönnun. Ég prófaði að gúggla hann að gamni mínu og fékk 8.660 "results" sem segir auðvitað heilmikið.

En ástæðan fyrir þessum skrifum mínum um hana Ásdísi er að hún er frænka mín sem ég er ákaflega stoltur af. Reyndar er hún og hefur alltaf verið mjög mikil og góð frænka, dóttir Sæunnar systur minnar og Viðars Daníelssonar sem er Eyfirðingur innan "Akureyris". Um hana verður ekki annað sagt en að hún hefur alltaf verið uppátækjasöm, með ólíkindum ákveðin og stendur alltaf fast á sínu, hugmyndarík, listfeng, og svo mætti lengi telja og allt í plús. Hún hefur verið í tónlistrnámi um margra ára skeið, spilar m.a. á Celló og kassagítar, en hefur ofan á þetta allt saman englarödd sem á það þó til að breytast í eitthvað allt, allt annað og öðruvísi eins og kom svo glöggt fram í nýafstaðinni keppni.

Hún hljómaði eiginlega rétt eins og íslenska veðrið á umhleypingasömum degi.

-

Ásdís María, - rosalega er ég góður með mig núna fyrir að vera frændi þinn.

18.04.2013 01:36

Í Skarðdalsskógi864. Þegar ég staldraði við á Siglufirði um páskana, datt mér í hug að kíkja inn í skógrækt sem ég vil þó eftir að trén hafa stækkað og meira land lagt undir, kalla Skarðdalsskóg sem er talsvert virðulegri nafngift. 
Heitir hann það kannski í dag? Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan ég var að bora græðlingum niður í jörðina á þessum slóðum, aðeins innan við fermingu og undir handleiðslu Jóhanns Þorvaldssonar og gaman að sjá hvað áunnist hefur. Þökk sé þeim framsýna manni sem fékk ekkert allt of mikið þakklæti á sínum tíma. Það er ekki mikil umferð manna í skóginum núna, aðeins ein spor liggja frá hliðinu og upp að Leyningsfossi.
Leyningsfoss er auðvitað í klakaböndum þessa dagana......og hann er ekkert síður flottur í vetrarbúningnum.En rebbi hefur greinilega verið meira á ferðinni en mannfólkið í þessari náttúruparadís, því það voru alls staðar slóðir eftir hann. 

06.04.2013 02:34

Nokkrar myndir frá Bítlamessu
863. Það var mikið stuð í Bátahúsi og ánægjulegt að sjá hvað gömlu bítlalögin áttu greiða leið að huga og hjörtum viðstaddra. Slíkt fer ekkert á milli mála þegar virðulegir borgarar á enn virðulegri aldri, þekktir að hlæglæti og yfirvegun, standa upp og stappa og klappa í takt, syngja með og taka létt dansspor í kring um stólana á bryggjunni. Ég vil þakka þeim sem heiðruðu okkur með nærveru sinni fyrir komuna og einnig samstarfsaðilunum sem voru okkur hjálplegir um eitt og annað sem laut að undirbúningi; Vörumerking, Siglósport, Litróf, Egils síld og Ali.  
Birgir trommari og frændi hans Sindri Helgason koma fyrir myndvarpanum sem gegndi óvenju veigamiklu hlutverki á tónleikunum.Og Bítla"strákarnir" voru þarna mættir, bæði á tjaldi og á dekki.Danni sem var einn af róturunum kannar hvaða myndefni verður boðið upp á.Gulli (Leósson og líka rótari) grípur í gítarinn eftir að hafa tekið þátt í að bera hljóðfærin inn, en hann kann alveg fullt af gripum og skemmtilegum lykkum.Hann klifraði líka upp í möstrin til að festa stögin sem héldu tjaldinu, enda liðugur eins og apaköttur.Ég (skreyttur marsmottu í ýmsum tónum haustlitaskalans) klifraði ekki neitt, en hélt mig sem fastast við jörðina, bryggjuna eða bátadekkið. Hér þurfti að festa tunnuna vel og vandlega sem myndvarpinn sat á.Birgir var ekki lengi að koma gamla Ludwig settinu sem hann keypti á sínum tíma fyrir fermingarpeningana sína í stand, enda hefur hann gert það nokkur hundruð sinnum í gegn um tíðina.Grímur mundar gítarinn, en þessi ágæti gítarleikari og tónlistarlegi reynslubolti spilaði með Ingimar Eydal síðustu árin og síðar með Ragga Bjarna eftir að hann flutti suður.Hann var líka sérlegur tengingameistar......og mixermaður.
Ari og Magnús líta yfir dekkið. Allt er komið á sinn stað á mettíma og kominn tími á soundtest.Magnús var með pínulítinn bassamagnara sem var síðan "línaður" inn á kerfið, en það var splunkunýtt og þarna að þreyta sína "jómfrúartónleika".Ari laumaðist í hljómborðið og jú, það heyrðist alveg fullt, fullt af hljóði. Ari var hins vegar upphaflega fyrst og fremst trommuleikari og aðalsöngvari gullaldarhljómsveitarinnar Roof Tops. Hann sest nú orðið ekki eins oft við settið og áður, en kemur oftast fram sem söngvari enda firnagóður og hefur vaxið sem slíkur með árunum. Hann er líka mjög liðtækur munnhörpuleikari sem kom sér vel í bítlalögunum.Og það er talið í, myndskreyttir textar laganna í blómabarnastíl birtast jafn óðum á tjaldinu og áheyrendur syngja með.Fram yfir hlé voru gömlu lögin frá fyrri hluta ferils Bítlanna alls ráðandi Svo kom hlé og (bakara)meistari Jakob bauð upp á kaffi og ástarpunga, en það reyndist ekki unnt að fá leyfi til veitingu sterkari veiga en kaffis á þessum svo mjög heilaga degi. Það kom þó ekki í veg fyrir að margir gestanna hefðu með sér nesti, rétt eins og gert var á sveitaböllunum í denn.Minný (Leósdóttir) sem var líka ein af róturunum aðstoðaði bakarann í hléinu.Svo var haldið áfram......og boðið upp á bítlaepli á tjaldi.Þegar á leið var farið að syngja og spila síðari tíma verkin þar sem hippar og blóm, ýmis konar "snefilefni" og indverskur gúrú settu mark sitt á tónlist Bítlanna.Eftir rúma tvo tíma lauk svo tónleikunum og þá var farið að pakka saman. Hákon, Minný og Ásgeir Rúnar voru mjög liðtæk þegar koma að hljóðværaburði og síðar frágangi stóla og bekkja.Það átti líka við um þær Gullu og Birnu Dís, en sú síðari rataði því miður aldrei inn á myndflötinn hjá Danna sem sá að mestu um að "dokjúmenta" atburði kvöldsins.Það er alltaf svolítill handleggur að koma stólum og bekkjum á sinn stað, bæði fyrir og á eftir. Hér sýnist mér Aníta og Hákon vera að rogast með einn bekkinn eftir bryggjunni.(Gulli Aníta og Danni).
Og eins og alltaf, þá kemur fyrr eða síðar að kveðjustundi. Við þökkum aðstandendum hins stórkostlega Bátahúss og Síldarminjasafns fyrir ánægjulega samvinnu.
  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 228
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 415
Gestir í gær: 117
Samtals flettingar: 344587
Samtals gestir: 38294
Tölur uppfærðar: 24.5.2024 14:44:50
clockhere

Tenglar

Eldra efni