Færslur: 2007 Júní

29.06.2007 12:08

Pönnukökukötturinn.

381. Það voru bakaðar pönnukökur á dögunum og þegar slíkur atburður á sér stað verður að fara varlega með afurðirnar. Það hefur nefnilega gerst allt of oft að þær hafa lent í klóm og kjafti kattarins, sem lævís og lipur spyr engan hvort hann megi fá eins og eina eða svo. Pönnukökur í stafla á diski uppi á eldhúsborði meðan heimilisfólkið er að horfa á sjónvarpið eiga sér litla von. Svo er komið að hnuplaranum hálfu belgmeiri en hann er vanur að vera við iðju sína, og hann skilur ekkert í öllum þessum pirring í mannfólkinu.



Það er því farið að gæta þess vel og vandlega að geyma afraksturinn bak við luktar dyr, en kisi vissi svo sem allt um það hvar hvað var. Og hann ætlast beinlínis til þess að þeim hinum sömu dyrum verði upp lokið fyrir honum svo hann geti boðið sjálfum sér til veislu. Hann settist niður og mjálmaði ámátlega, og ekki verður sagt að hljóðin hafi verið sérlega fögur. Í fyrstu var hann og hans óskir um fullan aðgang að krásunum algerlega hundsaðar, en hann sat sem fastast og gaf sig hvergi en öðru hvoru gaf hann frá sér alveg skelfileg hljóð.



Og auðvitað var gefið eftir að lokun og orðið við bón kattarins og hann eins og annað fólk á bænum fékk sinn skerf. Það var að þessu sinni fylgst vel með borðsiðum pönnukökuætunar sem voru reyndar svolítið áfergjulegir á köflum.



Og svo aðra til, og enn aðra til?
Hann heitir Tómas sem er eflaust algengasta kattanafn í heimi. Stundum hefur hann verið uppnefndur ýmist Tómhaus eða Taumús, en honum virðist standa nákvæmlega á sama um þess konar eineltistilburði mannanna. En hann á sér óskamatseðlil sem stundum er hafður lítillega til hliðsjónar á hátíðis og tyllidögum. Ofarlega á því blaði eru nefndar til sögunar réttir eins og pönnukökur, kleinur, maís, skonsur, ólífur, jólakaka og tebollur.

22.06.2007 00:39

Vestfjarðarreisan og heimkoman.

380. Hér að neðan svo og í nokkrum pistlum sem eru ýmist enn í smíðum eða þá mjög svo fyrirsjáanlegir vegna áætlaðra ferða um vegleysur og óbyggðir, er viðfangsefnið fjallgöngur og enn meiri og fleiri fjallgöngur. Reyndar er ég svolítið smeykur um að síðan geti orðið aðeins of einsleit fyrir þá sem engan áhuga hafa á slíku. En þetta er nú einu sinni sá tími sem slík ferðalög eru hvað mest iðkuð svo að eftir fáeinar vikur fer að draga úr þessu sporti og þá umfjölluninni í leiðinni.

Föstudagurinn 15. júní.
Þann dag var haldið í vestfjarðaleiðangur. Fyrst var ekið í Hólminn, síðan siglt með Baldri yfir Breiðafjörð á Brjánslæk og þaðan ekið til Þingeyrar við Dýrafjörð. Áætlað var að stoppa við vestra fram á þriðjudag, en fara þó nægilega snemma til að ná göngunni með Gámaþjónustuhópnum upp á Lág-Esjuna þá um kvöldið. Ég fékk svolítið klikkaða hugmynd. Hvernig væri að setja sér það markmið að fara eins og einn leiðangur upp á eitthvert fjallið vestra á hverjum degi meðan staldrað er við. Verst hvað öll fjöllin í þessum landshluta eru ofboðslega há og reisuleg. Það gæti því reynst mér ofraun að þurfa að standa við einhverjar heitstrengingar svo ég hugsaði mér að best væri að hafa þetta bara svolítið óformlegt, og ég þyrfti því engum að segja neitt fyrr en það kæmi í ljós hver framvindan yrði. Ég gæti fengið einhverja strengjasveit í heimsókn sem léki skrokksymfóníuna bæði í dúr og moll, frjálst og óhindrað í kálfum, lærum og jafnvel víðar. En hugmyndin var samt freistandi og mér fannst ég þurfa að skoða hana vandlega og með jákvæðu hugarfari.

Ofarlega í Hrafnseyrarheiðinni Dýrafjarðarmegin er mjög kröpp beygja sem nefnd hefur verið Sigurvinsnef. Sagt er að nefið á Sigurvin sem var verkstjóri þeirra vegagerðarmanna sem lögðu þennan hluta vegarins, hafi verið notað sem fyrirmynd að beygjunni.

Það var farið að líða á kvöldið og klukkan eitthvað gengin í tíu þegar ákveðið var að fara svolítinn kvöldrúnt. Ég settist undir stýri og ók af stað og rúnturinn endaði uppi á hæsta hluta Hrafnseyrarheiðar sem er 552 m. há. Þar steig ég út úr bílnum og lét þess getið að það væru nægilega margir bílstjórar í bílnum til að allir farþegarnir kæmust til byggða akandi, og lagði að því sögðu af stað gangandi upp á Hvammsfjall en það heitir fjallið norðan heiðarinnar.

Á korti sem gefið er út af landmælingum Íslands, er fjallið sunnan Dýrafjarðar sem Sandafellið er nokkurs konar framhald af og tekur við af Hvammsfjalli nefnt Breklathorn. Engir Dýrfirðingar sem ég talaði við könnuðust við þetta nafn, svo ekki er hægt að útiloka að um prentvillu að ræða. Mér fyndist t.d. ekkert óeðlilegt miðað við aðstæður að fjallið héti Brekkuhorn. En síðar þegar ég fór upp á Sandafellið skoðaði ég útsýnisskífu þar sem kemur fram að fjallið heiti Þríhnúkafjall og finnst mér það trúlegast. Við Gulli (Gunnlaugur Óli Leósson) gengum upp á fjallið árið 2004, þaðan inn eftir Hvammsfjalli og enduðum inni á Hrafnseyrarheiði. Ferðin tók rúma fjóra tíma og þangað vorum við sóttir því við vorum alveg búnir á því, uppþornaðir og gátum varla talað því tungan var orðin mörgum númerum of stór. Það má því segja að við kæmum aldrei niður af fjallinu með "eðlilegum hætti." Það var því komið að því að klára þennan þriggja ára gamla göngutúr, fara upp á fjallið og ljúka honum formlega. Og til þess að allt væri eins og það á að vera varð auðvitað að fara öfuga leið miðað við þá sem áður hafði verið farin.

Gangan eftir Hvammsfjallinu gekk mjög vel. Þarna uppi eru víðáttumiklar sléttur að mestu vaxnar mosa og lyngi, en að öðru leyti frekar gróðurlitlar. Eftir því sem vestar dró varð sléttlendið minna og mjórra og sums staðar var hægt að horfa fram af brúninni niður klettana, fyrst þegar gengið var fyrir Brekkuhvilft en síðan ofan í dalina sitt hvoru megin. Þegar komið var að sjálfu Þríhnjúkafjallinu sem er 625 m. hátt, (ef það er rétt nafn) var fjallseggin orðin svo skörp að hægt var að setjast klofvega á hana og má þá segja að annar fóturinn hafi þá verið í Brekkudal en hinn í Hvammsdal.

Göngunni (u.þ.b. 6-7 km.) var haldið viðstöðulaust áfram og aldrei stansað því það var engri mæði að kasta, en það var samt engu líkara en fjallið lengdist við hvert skref. Að lokum kom að því að það fór að halla undan fæti og ég var innan skamms kominn niður fjallshrygginn, eftir Brekkuhálsinum og alla leið niður á veg innan við Sandafellið. Ferðin hafði tekið tvo tíma og korter, og líklega er þetta í fyrsta sinn sem ég hef gengið á fjöll þar sem aðeins er gengið á sléttlendi eða niður í móti.



Þríhnjúkafjall stendur rétt innan við Þingeyri.



Ein af efstu beygjunum á veginum upp á Hrafnseyrarheiði Dýrafjarðarmegin sem nefnd er Sigurvinsnef.



Leiðin upp á heiðina.



Héðan skal gengið.



Frjálst er í fjallasal.



Horft af Hvammsfjalli fram á Þríhnjúkafjall.



Og til baka, því Hvammsfjallið er nánast rennislétt að ofan.



Svo er kíkt niður eftir einu og einu gili.



Þegar komið er upp á það ég hélt vera síðasta hnjúkinn, sést að fjallið er enn lengra og það er engu líkara en næsti hjúkur skjóti hreinlega upp kollinum.



Mikið klettagil er til hægri handar þegar gengið er fram fjallið.



En sandarnir upp af fjörunni fyrir miðri mynd.



Beint framundan Þríhnjúkafjalli er Sandafellið



Og loksins var komið að endimörkum Þríhnjúkafjalls. Það er ekki mikið mál eins og sjá má að setjast klofvega á fjallseggina og hafa annan fótinn í Brekkudal en hinn ofan í Hvammslandið.

Laugardagurinn 16. júní.
Eftir síðbúinn morgunverð sem samanstóð af talsverðu magni af kaffi, tveimur ristuðum brauðsneiðum með osti og einni blóðþrýstingspillu, taldi ég mig færan í flestan sjó. Eftir svolítið spjall og vangaveltur sagðist ég vera farinn út á rúntinn og myndi hugsanlega reyna að finna einhvern hól. Ég nefndi Sandafellið sem líklegan áfangastað og þeirri hugmynd var ágætlega tekið. En um leið og út úr húsinu kom skipti ég snarlega um skoðun og þeysti inn Dýrafjörðinn, yfir brúna og út eftir hinum megin. Ég ók svolítinn spotta upp á Gemlufallsheiðina og fann mér hentugt stæði þar sem ég ók út af veginum og lagði bílnum. Svo var gengið rösklega af stað.

Síðasti bærinn sem ekið er hjá áður en beygt er upp á heiðina heitir Gemlufall, en þar ólst Leó móðurafi minn upp hjá Valgeir bróður sínum eftir að hann hafði misst báða foreldra sína á þriðja áratug síðustu aldar. Hann var fæddur á Höfðaströnd í Jökulfjörðum en flutti ungur með föður sínum til Hnífsdals. Hann var yngstur 12 af systkinum og flutti til Siglufjarðar laust upp úr 1930 þar sem hann kynntist ömmu minni í síldinni í þeim óviðjafnanlega ævintýrabæ. Fyrir ofan bæinn stendur svo fjallið Gemlufell og þangað upp vildi ég, því mig langaði að ná eins konar loftmynd af Þingeyri og auðvitað líka bænum Gemlufalli sem ég heyrði svo mikið talað um á mínu æskuheimili. Ég gekk upp í hlíðar fells sem stendur örlítið innar og vestar en Gemlufell en virðist ekki bera neitt nafn svo ég viti, og þaðan inn í svokallaða Gemlufallshvilft. Eftir það var á brattan að sækja og uppi undir brún fellsins var svolítið klettabelti sem þurfti að klífa. En þegar upp var komið blasti við hin myndarlegasta háslétta. Ég gekk eftir henni og fram á brúnina sem vissi að Dýrafirðinum.

Mér varð litið aftur fyrir mig og þar sá ég annað fjall all nokkru hærra, en það virtist samt ekki vera svo ýkja langt í burtu. Ég vissi að það hét Tafla, það stendur upp af Gemlufelli og er 680 metra hátt. Ég hugsaði með mér að ef ég færi ekki þar upp núna, gæti svo farið að tækifærið kæmi ekki aftur í þessu lífi. Ég lagði því af stað eftir sléttunni miklu ofan á Gemlufelli í áttina til Töflu. Gangan varð lengri og meira lýjandi en ég hafði reiknað með, því eftir því sem nær dró breyttist landið. Þar sem áður hafði verið lyng, mosi, geitaskófir og fjallagrös, varð nú minni og minni gróður eftir því sem ofar dró en þess meira af grjóti, leir og snjó. Það má því segja að ljóðlínurnar "urð og grjót, upp í mót" hafi átt einkar vel við, og þá sér í lagi síðasta spölinn. Ég gekk meðfram brún fjallsins og horfði ofan í Litladal, en það heitir dalurinn sem gengur í suðaustur frá Gemlufallsheiðinni norðan við Töflu. Bjargið var því sem næst lóðrétt og mig sundlaði svolítið. Ég tók eftir sprungum í leirbornum jarðveginum sem náðu nokkra tugi metra frá brúninni og færði mig ósjálfrátt fjær. Eftir að hæsta hluta fjallsins hafði verið náð, var auðvitað mikið myndað því frá þeim stað er mjög víðsýnt. En eftir svolitla stund var lagt af stað til baka því degi farið að halla. Ég fór sömu leið til baka og fann að ég var orðinn all nokkuð uppþornaður. Ástandið fór nú hratt versnandi og ég greikkaði sporið að sama skapi. Það var því ekki sérlega leiðinlegt þegar ég kom loksins að ánni sem rann meðfram veginum þar sem litli blái bíllinn minn beið mín. Sennilega hefur áin orðið eitthvað vatnsminni um stundarsakir neðan við staðinn þar sem ég beygði mig niður að vatnsborðinu.

Ég var orðinn svangur, göngutúrinn hafði tekið heila 5 klukkutíma og nú skyldi haldið úr útilegumannaslóðum til mannabyggða. Ég byrjaði á að stoppa í sjoppunni og keypti fjóra lítra af gosi, malti og pilsner sem mér fannst mig sárvanta þá stundina. Þegar ég kom svo á Vallargötu 2 til hennar Sollu, sá ég að það hafði verið plokkfiskur á borðum. Ég skar mér því tommuogkvartþykka rúgbrauðssneið, makaði á hana yfirgengilegu magni af íslensku smjöri, jós talsverðu magni af plokkara yfir herlegheitin, slæmdi síðan nokkrum ostsneiðum yfir, mokaði kúfullri matskeið af vel möluðum svörtum pipar yfir ostinn og stakk svo öllu saman inn í örbylgjuna. Á meðan "fóðrið" hitnaði, lauk ég við u.þ.b. einn og hálfan lítra af ýmis konar vökva, og á meðan ég nærði mig var bleytt í með ennþá meiri vökva. Og eins og mönnum er gjarnt við slíkar aðstæður er gengið skrefi lengra en skynsamlegt er. Skyndilega var belgurinn orðinn svo fullur að miðframstykkið varð allt framstæðara og allar hreyfingar urðu einhvern vegin mun hægari. Samt varð að klára málið því heita baðið var eftir.

"Ef þið heyrið ekkert skvamp í hálftíma samfleytt, bankið þá á hurðina og vekið mig" sagði ég um leið og ég lokaði á eftir mér.



Fjallið heitir Gemlufall á korti landmælinga, en Gemlufell á skífunni á Sandafellinu. Talsvert upp af fjallinu efst hægra megin er svo hnjúkurinn Tafla. Fyrir neðan brún Töflu er langur snjóskafl sem kemur við sögu hér að neðan.



Ég gekk af Gemlufallsheiðinni og átti í fyrstu í svolitlum erfiðleikum með að komast yfir ána, því ekki vildi ég leggja upp með blauta fætur og koma svo angandi að táfýlu til mannheima að loknu labbinu. Það hafðist að lokum með því að fara yfir á snjóbrú sem ég var þó smeykastur um að héldi ekki, en það gekk.



Það var á brattann að sækja og ég þurfti oft að setjast niður og blása mæðinni eins og stórhveli sem hefur verið allt of lengi í kafi.



En upp á brúnina komst ég Gemlufallsheiðarmegin og gekk fram á fjallið þar til ekki varð komist lengra.



Bærinn Gemlufall ásamt útihúsum og fl. lá við fætur mér eins og lítil kubbahús.



Ég settist fram á klettabrún og lét fæturna dingla fram af. Það fór einhver fiðringur um iljar og tær sem læddist upp eftir fótunum. Eða kannski var það "hríslingur," en það skemmtilega orð er ég nýbúinn að læra.



En það var ekki komið að ferðalokum því ég varð líka að komast upp á Töflu. Hún virtist í órafjarlægð séð frá brúninni, en myndin er tekin þegar ég er kominn stæsta hluta leiðarinnar að henni.



Það var gott útsýni út fjörðinn, til Mýrafells og langleiðina að Núpi.



Svona var gróðurfarið ofan á Gemlufellinu.



En svona var landslagið uppi á Töflu, eða líkast leikmynd í vísindaskáldsögu.



Skaflinn fyrir neðan Töflubrún. 



Og hærra varð ekki komist á þessum slóðum.



En það þurfti ekki að kvarta yfir útsýninu þótt nokkrar rigningaskúrir bleyttu aðeins í mér.



Ég fór sömu leið til baka.



Litla fjallið norðvestan við Gemlufellið heitir svo ég viti ekki neitt. ég spurðist fyrir, skoðaði skífuna á Sandafellinu, rýndi í kortin en allt kom fyrir ekki. Samt er það alveg nægilega flott til að standa undir einhverju nafni, - eða hvað?



Þegar ég kom niður að ánni var ég orðinn svo þyrstur og skrælnaður, að ég er viss um að það hefur minnkað verulega í henni neðan við staðinn þar sem ég laut niður að vatnsborðinu.



Og litli blái bíllinn beið mín þar sem ég hafði skilið við hann. Ég settist inn og ók af stað inn Dýrafjörðinn þreyttur, svangur og alveg ógurlega þyrstur.



Mér fannst fjörðurinn vera með lygnara móti svo ég staldraði við og smellti af einni mynd. Ég átti þó eftir að komast að því að hann gat orðið miklu flottari.



Fyrir neðan Bræðratungu er þetta bátaskýli. Það er gert úr gömlum olíutanki sem skorinn hefur verið í sundur upp úr og niðr´úr, og helmingarnir síðan soðnir saman enda við enda.



Ég kom við í sjoppunni og keypti fjóra lítra af gosi, malti og pilsner. Svo mikil vatnslosandi áhrif hafði gangan haft á mig að ég sem yfirleitt kaupi aldrei slík drykkjarföng, réð ekki við mig. Þetta var sennilega eitthvað svipað því að fara langsoltinn inn í Hagkaup. En þegar í hús var komið tóku þeir Tinni og Trölli á móti mér og vildu fara að leika sér, en ég var einhvern veginn ekki alveg nægilega vel upprifinn að þessu sinni.



En þegar nennti ekki að leika við þá og reyndist ekki vera sá félagi sem þeir vonuðust eftir, settust þeir niður við svalahurðina og horfðu dreymandi út í kvöldblíðuna.

Sunnudagurinn 17. júní.
Alveg eins og í gær samanstóð morgunverðurinn af talsverðu magni af kaffi, tveimur ristuðum brauðsneiðum með osti og einni blóðþrýstingspillu. En í dag er þjóðhátíðadagur Íslendinga. Jón "forseti" Sigurðsson fæddist þennan dag árið 1811 að Hrafnseyri við Arnarfjörð. Ég skrapp yfir heiðina og renndi í hlaðið á þessum merka stað og staldraði við um stund. Prúðbúið fólk var að koma frá messu og þarna var með allra líflegasta móti um að litast af tilefni dagsins. En hjá mér heitir fjall dagsins Grandahorn (646 m) og stendur á milli Brekkudals og Galtardals. Þangað upp er mjög gott að komast frá veginum sem liggur upp á Hrafnseyrarheiðina Dýrafjarðarmegin. Ég stoppaði því í bakaleiðinni, opnaði skottið, sótti þangað stafi og vindjakka og gekk af stað. Gangan var ekki erfið því lagt var upp frá stað sem er í talsverðri hæð, en hins vegar hafði mælst 16 stiga hiti fyrr um daginn og þeir voru ófáir svitadroparnir sem féllu ofan í svörðinn. Einum og hálfum tíma síðar stóð ég á brún fjallsins og horfði yfir sandana sem breiddu úr sér fyrir neðan mig. Það er einmitt þarna sem nokkrir "framtaksamir athafnamenn" vilja sjá olíuhreinsunarstöð rísa. Ég staldraði við stundarkorn og tók nokkrar myndir, en gekk síðan af stað til baka. Ég var klukkutíma niður að bíl og ók af stað niður eftir, en þegar ég kom að Sandafellinu beygði ég inn á afleggjarann, ók veginn á enda og endaði upp við skífuna. Ég varð að vita vissu mína varðandi nokkur örnefni sem voru ekki alveg á hreinu. Að því loknu lá leiðin niður á Þingeyri þar sem biðu mín kjötbollur í brúnni sósu með baunum, kartöflum og rauðkáli.



Svona lítur sjálfur sautjándajúníbærinn út á sjálfan 17. júní.



Og svona ef sjónarhornið er víkkað örlítið.



Þetta fjall heitir Grandahorn og þangað var förinni heitið þennan sólríka dag, en vinstra megin við það liggur vegurinn upp á Hrafnseyrarheiði. Myndin er tekin af toppi Sandafells.



Lagt var á fjallið frá veginum upp á heiði heldur ofarlega. Þetta reyndist ekki vera erfið ganga en þó sýndist mér kletturinn sem virtist sitja á fjallsegginni geta orðið einhver farartálmi.



Þegar nær dró sá ég fjárgötu liggja framhjá honum og fylgdi þeim og málið var leyst.



Horft til baka eftir fjallshryggnum.



Það sást vel upp á heiði og jafnvel ofan í Arnarfjörð.



Fjöll og dalir skiptust á í norðvestur.



Horft fram af fremstu brún á Grandahorni. Héðan sést niður á Sandana þar sem framtakssöm ofurmenni í fjárfestingar og iðnaðargeiranum vilja reisa mikla olíuhreinsunarstöð.



Og síðan var fetuð sama leið til baka. Þegar ég fór fram hjá áðurnefndum kletti tók ég þessa mynd. Hann virðist allur vera að frostspringa og flagna niður, nema þarna sé um að ræða einhverja náttúrulega framleiðslu á íslenskum náttúrusteini.



Þessi mynd er tekin niður skriðuna fyrir neðan klettinn, og það virðist enginn hafa hirt um að sækja afurðirnar í langan tíma.



Áður en komið var niður á veg, gekk ég fram á þessi undarlegu mannvirki á mjög svo undarlegum stað að mér fannst. Svo voru fleiri slík ofar í fjallinu. Skyldu þetta vera leifar af frumstæðri skíðalyftu frá því á miðri síðustu öld eða hvað?



Ég ók upp á Sandafellið og skoðaði skífuna vel og vandlega. Það er ótalmargt sem þarna stendur sem passar alls ekki við kort útgefin af Landmælingum Íslands. Ég hallast að því að treysta skífunni betur.



Um miðnættið var farið út að labba og þá sást að einhver var greinilega að gleyma sér, því skv. fánalögum verður að vera búið að draga íslenska fánann niður í síðasta lagi kl. 20. Þessi var við tjaldstæðið og Íþróttahúsið.



Hér er flaggað við skólann laust eftir miðnætti.



Víkingasvæðið er á vestanverðum Þingeyraroddanum.
En eftir þessa kvöldgöngu var kominn háttatími.

Mánudagurinn 18. júní.
Sólin vakti mig með því að smeygja nokkrum geislum sínum gegn um litla rifu á gluggatjöldunum. Klukkan var ekki nema fimm og ég gat ekki með nokkru móti áttað mig á að ég ætti nokkurt erindi á fætur svo snemma. Ég reyndi að ná aðeins lengri tíma með takmarkaðri meðvitund, en gafst upp um sjöleytið og fór á fætur og settist við ferðatölvuna hennar Minnýjar og lauk "skýrslu" gærdagsins. Morgunmaturinn samanstóð að kaffi, grófri brauðsneið frá Bakaranum á Ísafirði með paprikuosti, blóðrauðum íslenskum tómat, þykkmjólk og einni blóðþrýstingspillu. Solla gægðist fljótlega fram svolítið "nývöknuð" í framan, en var samt ekki lengi að aðlagast nýjum degi. Hún var á leið í vinnu í frystihúsinu, en settist hjá mér við eldhúsborðið og sagði mér nýjustu "fiskisögurnar" um leið og hún fékk sér svolitla næringu.
"
Fyrir nokkru var sojapróteini ásamt pipar og salti blandað út i marninginn og hann frystur þannig í blokkum. Það var hundleiðinleg vinna og ekkert nema bölvað moj. En núna er marningurinn frystur en síðan skafinn niður með sérstakri vél. Honum er blandað saman við pækil, og úr öllu saman verður til nokkurs konar súpa sem er síðan sprautað í flökin með sértækri nálastunguaðferð."
"Ja hérna, þetta var ekki svona þegar ég vann í fiskinum fyrir hartnær 30 árum" sagði ég forviða. Maður hefur greinilega ekki fylgst með framþróun í fiskiðnaði.
"Jú, jú, og bráðum fara þeir eflaust að framleiða flök með blýkanti til að gera þau þyngri," sagði Solla og stóð upp.
Klukkan var alveg að verða átta en frystihúsið sem er eitt það fullkomnasta á landinu er aðeins í fárra metra fjarlægð frá heimili hennar.
Ég sat einn eftir og velti fyrir mér hvað ég ætti að gera af mér í dag. Sólin hellti geislum sínum yfir landið, himininn var skafheiður og hitamælirinn utan á húsinu sýndi mér heil 18 stig.

Ég settist upp í bílinn og renndi út úr þorpinu án þess að mér væri ljóst hver áfangastaðurinn ætti að vera. Ég ók fyrst upp á Sandafellið, en síðan yfir Gemlufallsheiðina og ofan í Önundarfjörðinn. Þegar ég horfði upp eftir Breiðadalnum og inn í myrkt augað í miðju fjallinu. Opið á Vestfjarðagöngunum horfði yfir allt og alla sem þarna áttu leið um í þögulli morgunkyrrðinni, Eitthvað gerði að að verkum að ég beygði inn á Flateyrarafleggjarann og eftir að hafa farið nokkra hringi í þorpinu gerði ég mér ferð upp fyrir snjóflóðavarnargarðinn utanverðan, tók nokkrar myndir yfir eyrina og virti fyrir mér hið rismikla fjall Þorfinn sem gnæfir yfir firðinum. Þangað upp þarf ég að fara einhvern tíma en ekki núna því ég fann að þetta var ekki fjall dagsins í dag, þetta var fjall einhvers annars dags. Ég renndi því til baka og tók vinstri beygju þegar Flateyrarafleggjarinn náði ekki lengra, og eftir skamma stund var ég horfinn inn í augað í fjallinu.

Það er eitthvað við Ísafjarðarkaupstað sem heillar mig. Líklegast er að gamlar þokukenndar minningar frá vetrinum 1973-74 þegar ég vann í Norðurtanganum, séu að banka létt ofan í kollinn á mér. Verst er að það verður sífellt lágskýjaðra í toppstykkinu og þessi skemmtilegi tími verður sífellt daufari eftir því sem árin líða.
En niðri á eyrinni fékk ég þá hugljómun sem ég beið eftir þennan daginn. Ég leit upp og sá fjallið Kubba gnæfa tignarlega yfir Skutulsfjörðinn. En til að einhverjir skilji mig betur, þá er staðsetning fjallsins og afstaða til nánasta umhverfis með svolítið keimlíku sniði og Hólshyrnunnar á Siglufirði. Ég ók gömlu leiðina áleiðis upp á Breiðadalsheiðina og var kominn góðan hluta leiðarinnar upp á fjallstopp, þegar ég ók inn á stæði við grjótnámu. Þarna skyldi gangan hefjast og ég fór að leita leiða til að komast þurrum fótum yfir ána sem rennur þarna rétt við vegkantinn. Rétt fyrir neðan námuna hafði stórgrýti verið rutt út í árfarveginn svo hægt var að stikla á því yfir hann. En það þurfti að gæta sín vel og kunna fótum sínum forráð, því margir steinarnir sátu illa og þurftu ekki mikið til að velta um eða hreyfast þegar stigið var á þá. Ég hélt upp í hlíðina sem reyndist brattari en ég hafði haldið. Ég þurfti að fara því sem næst beint upp til að byrja með til að komast upp fyrir klettabelti sem voru utar. Þarna þurfti að ganga talsverðar skriður sem voru bæði brattar og mjög lausar, svo segja má að ég hafi orsakað svolítið jarðrask sem vonandi flokkast þó ekki umhverfisspjöll. Eftir klukkutíma göngu hafði ég náð upp að vörðu sem mér sýndist vera hæsti hluti fjallsins. En þaðan sást ekki eins vel til kaupstaðarins og ég hafði vonað, því fjallið nær nokkuð langt til norðurs og lækkar þegar framar dregur. Ég varð auðvitað að ganga alveg fram á brúnina og sjá allt sem hægt var að sjá, því annars var varla hægt að segja að ferðin næði tilgangi sínum að fullu. Ég gekk aftur af stað, fyrst eftir sléttum kolli efri og innri hlutans og þarna var landslagið líkt því sem maður ímyndar sér að sé á fjarlægum reikistjörnum. Urð og meiri urð, steinarnir svolítið undarlegir í laginu og mosaþemburnar eins og kítti sem lokuðu öllum glufum. Þegar ég var kominn ofan á neðri hlutann var það lyngið, fjallagrösin, geitaskófir og einstaka puntstrá sem var sá gróður sem var ríkjandi. Allt í einu náði fjallið ekki lengra og ég stóð á klettabrúninni og horfði beint ofan á Holtahverfið sem er nánast undir fjallinu. Mér brá svolítið því þetta gerðist eitthvað svo snöggt og það virtist vera svo hátt niður, en þegar betur er að gáð er fjallið ekki nema 346 metra hátt á þessum stað sem er minna en ég hefði haldið. Eftir að hafa staldrað við um stund og horft nægju mína í allar áttir, gekk ég af stað sömu leið til baka. Það var skafheiður himinn, logn og geislar sólarinnar virtust vera heitari en nokkru sinni fyrr. Svitinn lak niður í augun og hárið var rennandi blautt eins og ég væri nýkominn úr sturtu.



Horft inn Dýrafjörðinn af Sandafellinu.



Svona lítur Sandafellið út að ofan sauðaustanvert. - Pínulítið speisað.



Þegar ég kom inn fyrir Hvamm varð ekki hjá komist að staldra við og festa fegurð augnabliksins í kísilflöguna.



Fyrir neðan Gemlufell er svolítil bryggja. Fyrir ofan hana liggja þessar öldruðu fleytur á hvolfi í grasinu. Fyrir miðri mynd gnæfir Kaldbakur yfir önnur fjöll, en hann er hæsta fjall á vestfjörðum 998 m. Fyrir einhverjum árum fór hópur manna upp á fjallið og hlóð tveggja metra háa vörðu á toppi þess svo að með hinni manngerðu viðbót er fjallið 1000 metra hátt. Fjallið er ókleift þeim megin sem snýr að Dýrafirði eins og sjá má, en hægt er að komast upp af Álftamýrarheiði sem er fjallvegur sem liggur upp úr Kirkjubólsdal og yfir í Arnarfjörðinn. Mig langaði mikið að leggja leið mína þarna upp en loforð var tekið af mér að gera það alla vega ekki einn.
Ég lofaði því hátíðlega.



Ég skrapp inn á Flateyri, en hinum megin Önundarfjarðarins gengt þorpinu rís fjallið Þorfinnur upp úr sjónum og gnæfir yfir umhverfið. Ég velti fyrir mér hvort það yrði fjall dagsins, en kaus að hugsa mig aðeins betur um.



Þessar gömlu minjar gleðja augað alltaf jafn mikið. Ég hélt frá Flateyri og yfir til Skutulsfjarðar.



Það var alveg glampandi sól og sannkallað bongóblíðuveður. Ég byrjaði á að rúnta svolítið um Ísafjarðarkaupstað og endaði niður á höfn.  Togarinn sem myndin er af heitir greinilega Gunnbjörn IS 307. Fyrst í stað fannst mér ekkert athugavert við það.



En fyrir framan hann var þessi togari bundinn. Samkvæmt merkingum var hann líka Gunnbjörn frá Bolungarvík, en var skráður IS 302.



Ég varð að eignast mynd af Sundstræti 29, en þar voru haldin nokkur verulega villt partý veturinn 1973-74 meðan tveir ónefndir siglfirðingar bjuggu þar. En við förum ekki nánar út í það á þessum vettvangi.



En þegar ég kom fyrst til Ísafjarðar var mér komið fyrir á hernum. Herkastalinn hefur nokkuð látið á sjá og ég sá alls engin merki um Benna og Mánakaffi hinum megin við götuna.



Minn gamli vinnustaður er eins og minnisvarði um liðna tíð. Það virðist vera unnið að því að breyta húsnæðinu svo það geti tekið að sér nýtt hlutverk á nýjum tímum.



Ég fékk mér bleikan ís með lúxusdýfu í Hamraborg sem var á sínum tíma og er ennþá aðalsjoppan í bænum. En það hafa orðið miklar breytingar á henni frá þeim tíma sem maður hljóp þangað úr vinnu í kaffi eða matarhléi. Ég hitti Gísla, annan eigandann sem ég kannast ágætlega við og við fórum saman yfir breytingaferlið sl. 33 ár.



Ég heimsótti Guðbjart í nýju búðina sína sem heitir Bergkristall. Guðbjartur Jónsson rak lengi vel veitingastaðinn Vagninn á Flateyri, og varð frægur fyrir ambögur sínar og tilsvör sem mörg hver urðu landsfleyg.
"Maður á undan sinni framtíð."



En þar sem ég var á ferðinni um Ísafjarðarkaupstað varð mér allt í einu litið upp og fjall dagsins blasti við. Það heitir Kubbi og stendur fyrir botni Skutulsfjarðar, en það heitir fjörðurinn sem Ísafjarðarkaupstaður stendur við. Uppi á fjallinu má lesa að það sé 346 m. hátt, en á vestfjarðavefnum er það sagt 376 metra hátt. En þá er verið að mæla fremsta hlutann sem er mun lægri en sá hærri sem innar stendur.



Ég ók áleiðis upp á Breiðadalsheiði og lagði hjá grjótnámu sem þar er. Héðan ætti að vera gott að skáa fjallið upp fyrir klettabeltið og síðan upp á toppinn.



Það þurfti oft að stoppa og blása mæðinni því hlíðin þarna er mjög brött og hana varð að ganga næstum því beint upp til að komast upp fyrir klettana. En þarna er ég kominn upp á hæsta hlutann (giska á 500 m.) og veðrið var alveg ólýsanlega gott. Það var hvergi ský á lofti, stafalogn og sólin hellti brennheitum geislum sínum yfir löðursveittan göngumanninn.



Og þar sem enginn var þarna til að taka mynd af mér með þennan glæsilega bakgrunn, varð ég að gera það sjálfur.



Ekkert nema urð og mosi. Þannig er umhorfs uppi á efri hlutanum.



Þar sem ég stóð og virti fyrir mér útsýnið varð ég allt í einu var við einhverja hreyfingu í ekki meira en 10 metra fjarlægð. Ég leit upp og við horfðumst stutta stund í augu, ég og einn af íbúum fjallsins. Líklega vorum við báðir jafn hissa, en hann var fljótari að hugsa og tók á sprett, en ég þreifaði í ofboði eftir myndavélinni. Hann stoppaði og leit við og þá náði ég þessu skoti áður en hann hvarf alveg á braut. Hann var enn svolítið sneplóttur ofan í bakið, því hann var greinilega ekki alveg genginn úr vetrarhárunum.



Eftir langa göngu frá toppnum var eins og fjallið væri allt í einu búið og ég snarstoppaði við brúnina. Útsýnið var heldur ekkert slor í þessu veðri.
 


Holtahverfið kúrir undir fjallinu.



Það er ekki alveg laust við að örlaði á svolítilli lofthræðslu. Fyrsta flugferðin vestur rifjaðist upp og ég man vel hvað ég sat stífur af hræðslu við gluggann þegar flugvélin snéri við inni í firðinum og ég sá fjöllin nálgast á ógnarhraða.



Ísafjarðarkaupstaður við Skutulsfjörð á góðum degi. Er þetta ekki rosalega flott.



Horft frá brúninni upp að efsta hluta fjallsins.



En nú var kominn tími til að halda til baka.



Ég leitaði að stað þar sem ég kæmist þurrum fótum yfir ána. Hér hafði stórgrýti verið rutt út í árfarveginn svo hægt var að "stikla á stóru" í orðsins fyllstu merkingu.

Þriðjudagurinn 19 júní.
Morgunverðurinn var að þessu sinni marsípankaka, (þori varla að segja frá því) kaffi og blóðþrýstingspilla. Fljótlega var lagt af stað suður yfir vestfjarðakjálkaheiðarnar, því það var einlægur ásetningur minn að ná í skottið á Gámaþjónustuhópnum sem hugðist rölta sér upp á svolítinn Esjupart þá um kvöldið. Á leiðinni yfir Breiðafjörðinn með Baldri pantaði ég mér hamborgara með mikilli sósu öllu því jukki sem hugsast gat. Það var haft á orði við mig að "fóðrið" væri í talsverðu ósamræmi við hegðunina undanfarna daga. Ég spurði á móti hvort málshefjandi hefði ekki heyrt auglýsingarnar undanfarið um að kolefnisjafna þyrfti bíla, ferðalög og ég veit ekki hvað.
"Jú, jú," var svarið.
"Ég er að kalróríujafna" svaraði ég, og þar með var þeirri umræðu lokið.
Það gekk allt saman eftir og mér tókst með naumindum að ná hópnum áður en hann lagði af stað upp frá eftirlitsstæðinu rétt sunnan Hvalfjarðaganga. Margar og mismunandi leiðir liggja upp eftir Esjuhlíðum, og mörg eru kennileitin, markmiðin og örnefnin. Það er ekki eins og Esjan sé bara eitt fjall sem rís upp af jafnsléttunni og heiti bara Esja. Nei, málið er miklu mun flóknara en svo. Þetta er því sem næst nyrsti hluti fjallgarðsins og hugmyndin var að ganga upp á það sem kallað er Smáþúfur. Ekki var veðrið að leika við okkur í þetta skiptið frekar en stundum áður, því nokkuð þétt þokuslæða lá á fjallinu og huldi að mestu fyrir ofan miðjar hlíðar. En ekki þýddi að láta það á sig fá og af stað var haldið. Ekki er hægt að eyða mörgum "dálksentímetrum" á umfjöllun um útsýnið, því það var að langmestu leyti ekki neitt. En þetta er góður hópur og skemmtilegur, gangan var hressandi og verður að teljast heilsusamleg, auk þess sem nú er hægt að benda upp á fjallið þegar ekið er um vesturlandsveginn og segja: Þarna fór ég. En reyndar rofaði svolítið til annað slagið eins og sést á meðfylgjandi myndum. Látum hér með þessari fimm fjalla og fimm daga umfjöllun lokið og ljúkum við að skoða myndirnar hér að neðan.



Gámaþjónustuhópurinn sem beið við Esjurætur var heldur fjölmennari en oft áður.



Lagt var upp skammt sunnan við Hvalfjarðargöngin og ferðinni heitið upp á svokallaðar Smáþúfur.



Kristjana sagði okkur frá stað sem nefnist Kjötfönn og er skammt frá, en þar áttu útilegumenn að hafa grafið kjöt í snjó til geymslu.



Hærra, hærra.



Við vorum farin að nálgast þokuna sem grúfði yfir fjallinu ofanverðu.



Áfram er gengið.



Fyrirsæta dagsins.



Búnaðurinn er nútímalegur og hentugur, en hvaða vökva skyldi hann hafa að geyma. 



Horft yfir þann hluta Kjalarness og nánasta umhverfis sem þokan hylur ekki.



Þetta er auðvitað mjög þokukennd mynd.



Ég fékk sms frá Ásgeir pípara rétt um það bil sem ég tók þessa mynd uppi á annarri smáþúfunni, en hann hefur verið mér innan handar við lagnavinnu í íbúð sem ég er að gera upp. Eitthvað hef ég verið annars hugar þegar ég reyndi að fá alla til að horfa í myndavélina en Snorri (í bláu úlpunni) snéri hnakkanum í mig.
"Ásgeir, lofaðu mér að sjá framan í þig" hrópaði ég en enginn sinnti kalli mínu.
"Ásgeir, snúðu hnakkanum til suðurs" kallaði ég aftur.
Þá leit allur hópurinn samtímis upp, horfði á mig undarlegu og fjarrænu augnaráði og ég fann að eitthvað var að.
Eftir svolitla þögn hóf einhver upp raust sína og spurði.
"Hver er Ásgeir?"



Ein mynd bara af stelpunum í tilefni þess að það er 19. júní.



Það er áð í mosavaxinni lautu og tekið upp nesti.



Það var líka keppt í óvenjulegri íþróttagrein, - bananahýðiskasti.



Svo er haldið til baka.



Snorri (Ásgeir) kíkir fram af.
"Það vex Lúpína hérna utan á brúninni" sagði einhver.



En nú var þessum þriggja tíma labbitúr í þann veginn að ljúka og ég hafði komist að því að það var hægt að taka myndir í þoku.

Eftir stendur: Fimm fjöll á fimm dögum og 228 myndir. Einnig 6-7 tíma vinna við að raða saman myndum og setja saman texa fyrir aðeins eina bloggfærslu. Eins gott að ég fái einhver "komment" á pistilinn.
Sérstakar þakkir fær Minný fyrir að lána ferðatölvuna sína meðan hún er í Búlgaríu. Hún nýttist einkar vel fyrir vestan við að skrá niður minnispunkta í lok hvers dags. Einnig allir þeir sem nenna að lesa þessa langloku og alveg sér í lagi og sérstaklega þeir sem setja inn nokkur orð undir "...álit, skrifaðu líka." Svo er rétt að benda á að í gestabókinni eru enn margar óskrifaðar síður.

En það má sjá miklu, miklu fleiri myndir frá þessum göngutúrum ef farið er inn á Myndaalbúm og í möppur merktar Vestfjarðarreisan og Esjan.

14.06.2007 11:11

Lögguhasar.

379. Við Bjarni (tengdasonur) vorum á leiðinni frá Hafnarfirði til Reykjavíkur í gær og ókum Bústaðaveginn frá Kringlumýrarbraut í áttina að miðbæ Reykjavíkur.
"Sérðu hvernig þessi sendibíll ekur?" Bjarni horfði í baksýnisspegilinn og ég sá að það var undrunarsvipur í andlitinu. Ég sá hvítan sendibíl nálgast okkur nokkuð hratt og hann rásaði undarlega milli hægri og vinstri akreinar. Þegar hann tók fram úr okkur var ekki um annað að ræða en að hægja ferðina, því hann var skyndilega kominn á miðjan veginn og ók beint yfir miðlínunni eins og hann ætti götuna. Nokkru síðar sveigði hann til hægri og upp á kantstein og svo aftur út á miðju.
"Þessi maður er dauðadrukkinn" sagði Bjarni og teygði sig eftir símanum. Hann hringdi á 112 og bað um að fá samband við lögregluna. Þegar sambandið var komið á lýsti hann atburðarrásinni ásamt því að gefa þeim upp skráningarnúmer bílsins. Meðan á samtalinu stóð hélt sá hvíti áfram för sinni og varð ökulagið jafnvel enn skrautlegra en áður. Við eltum bílinn og Bjarni lýsti ökuleiðinni meðan stjórnstöð lét boð út ganga til þeirra sem gætu verið nærstaddir. Sendibíllinn flakkaði á milli akreina og negldi svo skyndilega niður þegar hann var aðeins hársbreidd frá því að aka aftan á grænan smábíl. Þar næst fór hann upp á umferðareyju, aftur út á veginn og svona mætti lengi halda áfram. Á móts við slökkvistöðina sáum við að lögreglubíll kom á móti okkur og stöðvaði á rauðu ljósi. Það gerði sá hvíti líka eins og aðrir sem voru þarna á ferð. Þegar kom grænt ljós óku síðan allar af stað, en skyndilega tók lögreglubíllinn U-beygju og það blikkuðu ljós. Þeir virtust hafa fengið einhverja skyndilega hugljómun, en auðvitað hafa þeir verið að fá boðin í tetra-tækinu sínu. Sá hvíti ók áfram eins og ekkert væri í áttina að gatnamótum Snorrabrautar og beygði til hægri inn í slaufuna sem beinir umferðinni vestur Hringbraut. Annar lögreglubíll bættist við svo og mótorhjól, en sá hvíti hélt áfram eins og hann væri einn í heiminum. Það var svo ekki fyrr en lögreglubílarnir króuðu hann af að hann staðnæmdist. Við stöðvuðum líka skammt fyrir aftan alveg að springa af forvitni og sáum að einn "lögginn" opnaði bílstjórahurðina á þeim hvíta, en ástand ökumannsins hefur líklega ekkert farið milli mála því hann gaf félaga sínum bendingu og manninum var "hjálpað" undan stýrinu og hann leiddur til (aftur)sætis í lögreglubílnum fyrir aftan. Ég gat auðvitað ekki setið á mér og þreifaði eftir myndavélinni og smellti nokkrum af, en þær eru þó heldur í óskýrara lagi vegna þess að þær eru flestar teknar í gegn um framrúðuna.



Bjarni er ættaður frá Siglufirði. Afi hans var bróði Úbbu sem var kona Bjarna frænda míns í Visnesi.



Ökumaður sendibílsins sinnti engum stöðvunarmerkjum og hélt sínu striki.



Annar lögreglubíllinn tekur fram úr sendibílnum og keyrir í veg fyrir hann.



"Haft tal" af ökumanni, en hann hefur líklega ekki farið á milli mála að hann var ekki í ástandi til að halda uppi skynsamlegum samræðum.




Honum var því hjálpað niður úr sætinu og leiddur inn í næsta bíl. Hann var svo valtur á fótunum að þeir sem leiddu hann áttu fullt í fangi með að detta ekki með honum.

Ég leit á klukkuna og sá að hún var ekki nema 19.03. Einhver hefur tekið kvöldskemmtunina snemma að þessu sinni.

En nú er ég farinn í helgarferð til Vestfjarða sem stendur reyndar alveg fram á þriðjudag...

10.06.2007 04:10

Amma í afneitun.



378. Er hún ekki slank og flott, búin að "taka á því" til að passa í "strandardresssið." Hún getur því sýnt sig, ekki bara blygðunarlaust heldur yfir sig stolt af útliti sínu sem gerir auðvitað aðrar og mun yngri kynsystur hennar grænar af öfund.

Frábær árangur hjá "ömmu í afneitun."

07.06.2007 00:58

Jónsi & Jói.

377. Nýlega setti ég "linka" á þá Jónsa og Jóa Frank undir flokknum "Ljósmyndasíður." Ég hef þekkt Jóa um nokkurra ára bil, en Jónsa nánast frá því ég man eftir mér á Siglufirði. Það var svo fyrir tiltölulega stuttu síðan að ég vissi að þeir höfðu báðir brennandi áhuga á ljósmyndun. Mig langar til að kynna þá aðeins betur.


Jónsi.

Jónsi eða Jón Magnús Björnsson fæddist á Siglufirði árið 1955 er sonur Björns Grétars og Tótu Jóns. Hann bjó ásamt foreldrum sínum og yngri bróðir sínum Óla, að Aðalgötu 22 (á neðri hæðinni hjá Rúdolf Sæby) þar til fjölskyldan flutti til Innri-Njarðvíkur þegar hann var 10 ára gamall. En hann kom líka oft á "brekkuna," þegar hann var að heimsækja ömmu sína og afa, þau Jón og Oddnýju Nikódemusar, en þau bjuggu að Hávegi 8. Og þar sem stutt var á milli þeirra og æskuheimilis míns, lágu leiðir okkar oft saman. Og því má svo bæta við að mæður okkar voru mikar vinkonur allt frá þær hittust fyrst í svolitlum drullupolli fyrir framan Hverfisgötu 11 umlíkt leyti og skólaganga þeirra skyldi hefjast í Barnaskóla Siglufjarðar.

En hér að neðan getur að líta örlítið sýnishorn mynda sem Jóns hefur tekið.










Jóhannes Frank Jóhannessyni eða bara Jóa kynntist ég upphaflega yfir afgreiðsluborðið á Laugarásvideó, en þangað kom hann oft á árum áður. Hann er fæddur og uppalinn á Þingeyri við Dýrafjörð, en fluttist þaðan fyrir allmörgum árum. Hann hefur m.a. staðið að rekstri auglýsingastofunnar Frank & Jói og að mestu unnið störf tengd auglýsingum og markaðsmálum hér syðra.













02.06.2007 13:42

Maíferðin á Sigló.

376. Klukkan var orðin hálf ellefu að kvöldi þriðjudagsins 22. maí þegar ég lagði af stað norður á Sigló. Auðvitað hafði verið farið fram á að ég frestaði ferðinni til morguns, en það var einfaldlega ekki boðið upp á þann valkost í stöðunni því slíkur var spenningurinn að komast af stað. Það sem gerist í tilfellum sem þessum, er að væntingar hafa verið að byggjast upp smátt og smátt og einhver undirliggjandi spenna vaxið jafnt og þétt. Það varð því ekkert bakkað með það, ekki seinna en í dag fer ég norður og skítt með alla skynsemi.



Þegar ég var um það bil að stíga upp í bílinn á Öldugötunni leit ég upp og sá hvar leiðin undir regnbogann myndi liggja og hvar væri nú líklegast að hitta fyrir hina vandfundnu óskastund.



Eftir að lagt hafði verið af stað var hvergi áð og fyrsta teygjustoppið ekki á dagskrá fyrr en Siglufjarðarfjöllin blöstu við úr Fljótunum.



Og svo aftur þegar nýr dagur var sjáanlega að rísa í norðrinu yfir nesinu.



Þá var bara síðasti áfanginn eftir og það var mjög þreyttur maður sem lagðist til svefns á Aðalgötunni um nóttina skömmu eftir að þessi mynd var tekin.



En það verður ekki sagt að sól hafi skinið í heiði þá daga sem staldrað var við, enda ekki endilega verið að eltast við veðursældina sem oft samt verið mikil nyrðra eins og við vitum.



Ekki laust við að fjöllin og skýjaður himininn rynnu saman í eitt, því jörð hafði orðið alhvít um nóttina.



Það er eiginlega reykhúsið á Steinaflötum sem mér finnst alveg einstaklega flott, því það er gamalt mjölsíló á hvolfi sem mig minnir að sé úr Rauðku. En sumarið 1972 var ég ásamt mörgum góðum drengjum að vinna hjá hjá Páli frá Ljósstöðum við að rífa Gránu og Rauðku til að rýma fyrir nýju frystihúsi Þormóðs Ramma sem rísa skyldi á lóðunum. Þá minnir mig endilega að þeir bræður Gestur og Sigurbjörn Frímannssynir hafi fengið silóíð til að koma upp reykhúsinu.



Gömlu réttirnar eru ekki nema brotabrot að því sem áður var, þegar hátt í helmingur bæjarbúa var þarna samankominn á góðum haustdegi og fjárstraumarnir liðuðust niður úr fjallinu og inn í almenninginn.



Umhverfið í kring um Bakkatjörnina er afar sérstætt eftir að snjóflóðavarnargarðurinn var kominn í það horf sem hann er nú. En eftir því sem leið á daginn fór að hlána og undir kvöldið var allur snjór horfinn af götum bæjarins og víðar. Sama sagan endurtók sig svo næstu tvo daga á eftir. Það snjóaði um nóttina, stytti upp með morgninum, nokkur slydduél komu yfir daginn en um kvöldið voru allar götur orðnar auðar.



Þessar trillur sem eru fyrir sunnan síldarminjasafnið hafa lokið upphaflegu hlutverki sínu, en nú bíður þeirra nýtt, þ.e. að verða safngripir eftir að búið verður að fegra þær svolítið. Þetta eru frá vinstri talið Hafdís, Bæringur og Snarfari. Ég man eftir Svenna Björns á Snarfara þegar ég var um fermingu en ég hitti þann ágæta mann og hann sagði mér afar merkilega sögu af Bæringi sem ég þarf sennilega að rifja aðeins betur upp áður en ég treysti mér til að hafa hana eftir.



Snurpubátur á hvolfi. Það er ekki algeng sjón í dag en þegar ég var "lítill" var oft farið suður á Langeyrina og leikið sér, en þá höfðu tugir slíkra báta verið dregnir þar á land og þeir endanlega afskrifaðir. Lengi vel var svo hefð fyrir því að taka a.m.k. einn bát á ári, saga hann í sundur þvert yfir miðjuna, reisa hlutana upp á endann, snúa þeim saman og nota sem aðaluppistöðu í áramótabrennuna.



Litli og Stóri. Ég varð að leggja við hliðina á þessum sem var að koma úr Héðinsfjarðargöngum og skjóta einni. Miðað við það sem fyrir augu ber má svo hverjum manni vera það fullkomlega ljóst að ég hlýt að teljast mjög hófsamur í kröfum mínum um þægindi og fyrirferð þegar kemur að bílamálum.


Ég kíkti í kaffi og með því til hennar Guðnýjar og hins eina sanna Steingríms "útgefanda Lífsins." Ég fékk svo þessa stórskemmtilegu danssýningu í "gradís" og það verður að segjast að nýjasti íbúinn á heimilinu komst bara vel frá sínu.



Framkvæmdirnar við nýju álmuna á Sjúkrahúsinu eru greinilega komnar á fullt skrið og svo skrýtið sem það nú er, þá finnst mér stundum eins og það sé unnið að því að endurreisa það gamla sem stóð á nákvæmlega sama stað.



En menn eru reyndar ekki enn komnir alveg upp úr moldinni eins og stundum er sagt, þó greinilega styttist í að þeim áfanga fari senn að ljúka.



Það þurfti að loka göngunum hinum megin frá meðan beltagrafan var á leiðinni í gegn, en hún er allt of "hávaxin" fyrir aðstæður þegar hún er farmur á vagni.



Ég gekk fram á brúnina og leit niður í fjöru þarna við enda Strákaganganna Siglufjarðarmegin. Það var talsvert brim þótt veðurhæðin væri ekki mikil.



Ég leit líka upp til fjallanna fyrir utan gangamunnann. Það fór svolítill kuldahrollur um mig.



Bærinn er alltaf fallegur á einhvern hátt, og skiptir litlu hvernig t.d. veðrið er. Jafnvel í svona kalsa og einhver mundi segja leiðindaveðri er hægt að finna flottan flöt. Það er búið að breiða hvítt og hreint teppi yfir þá sem þarna hvíla.



Þegar ég fór fram í skógræktina til að sjá hvernig hún liti út í svona veðurfari fannst mér eins og það gætu alveg eins verið komin jól.
Upp í hugann komu eftirfarandi línur:
Í skóginum stóð kofi einn, sat við gluggann jólasveinn...



Það var lítið í ánni og fossinn hefur oftast nær verið mun tilkomumeiri. Það var samt eitthvað notalegt við þetta umhverfi, og ekkert síður þegar það gerði svolitla snjódrífu eins og glöggt sést á myndinni.



Þetta kallast að skilja eftir sig spor. Ég gekk til baka og reyndi að ganga í sömu sporunum sem urðu til þegar ég kom. Það var greinilegt að þarna höfðu ekki margir farið um þennan dag.



Ég fór niður að smábátahöfn og myndaði flest alla þá báta sem þar voru þá stundina. Ég man að Ísfirðingurinn Gunnar var líka einhvern tíma búinn að benda á að myndir af bátum væru alltaf vel þegnar. Það má því segja að næstu sentímetrar hér að neðan séu sérhannaðar fyrir hann.















Gústi er nefndur eftir Gústa guðsmanni og fylgdi björgunarskipinu Sigurvin þegar það kom til Siglufjarðar. Svona bátar sem rista ekki nema 40 - 50 cm voru mikið notaðir undan ströndum Hollands og Þýskalands vestan Jótlands, en þar er víðast hvar mjög aðgrunnt og munur flóðs og fjöru mun meiri en við þekkjum hér uppi á Fróni. Þar henta slíkir bátar vel því þeir geta m.a. siglt um grunnar lænur sem myndast milli sandflákanna þegar hefur fjarað. Til eru sögur um að fólk sem hefur gengið úr á sandinn á fjöru sérstaklega þó í grennd við Frísnesku eyjarnar, á enga von um að komast undan flóðinu á hlaupum þegar það kemur. Það nýjasta sem ég hef heyrt að væntanlegum afdrifum Gústa er að hann hafi verið seldur Þýskum bátasafnara.



Þetta er svo björgunarskipið Sigurvin, en það er nefnt eftir trillu Gústa guðmanns.




Ég átti leið á gámaslóðir og þar hitti ég fyrir feðgana Gauta ofurbloggara og Svenna Björns. Það var komið föstudagseftirmiðdegi og matseðill kvöldsins var sýnishornaveisla. Nú skyldi reynda að klára sem flesta afganga úr ísskápnum því á morgun ætlaði ég suður.



Ketilás sá gamli sveitaballsstaður sveipaður sínum draumkennda fortíðarljóma í hugum þeirra sem í dag eru komnir af léttasta skeiði. Þar sem bekkir voru enn meðfram veggjunum síðast þegar ég vissi. Þar sem mín kynslóð hafði á sínum bestu árum mætt á sín fyrstu alvöru böll. Og þar sem ég og eflaust margir fleiri höfðu komið á góðum degi og ætlað sér stóra hluti, en sofnað úti á túni og vaknað í skítakulda þegar ballið var búið og allir löngu farnir heim.



Ég stoppaði aðeins fyrir ofan Haganesvíkina og horfði út á Almenningana þar sem Kóngsnefið ber við himinn.



Það er engu líkara en þrjú veðurfarsleg tímabil séu inni á myndinni. Túnin eru farin að grænka næst okkur og það er svolítil föl í fjöllunum vinstra megin upp af Sleitubjarnarstöðum. En ef horft er inn í dalinn þar sem leiðin liggur til Hóla í Hjaltadal, er engu líkara en Vetur konungur eigi eftir að ráða þar ríkjum enn um sinn.



Ég staldraði við fyrir neðan afleggjarann að Flugumýri þar sem ein af litlu systrum mínum býr og velti fyrir mér hvort það væri á könnunni eða hvort heimilisfólkið væri farið í fjósið að mjólka. Og þegar enginn svaraði símanum lét ég nægja að hleypa af myndavélinni í átt að bænum og hugsaði með mér að hún slyppi ekki svona ódýrt næst.



Sólargeislarnir brotnuðu á fönnunum í fjöllunum fyrir ofan Varmahlíð.



Blönduóslöggan hefur þótt nokkuð skeinuhætt með hraðamyndavélar sínar. Ýmsir hafa sagt mér að þeir telji alltaf löggubílana fyrir framan stöðina á Blönduósi þegar ekið er fram hjá. Þeir eigi að vera þrír, og ef þeir séu þar allir sem sjaldan gerist, sé lítil hætta á ferðum á vegunum í sýslunni. Ekki veit ég hvort hvort það er alveg öruggt, enda hef ég ekki miklar áhyggjur af því á Micru með 1300 vél.



Ég fer stundum einn hring í þorpinu um leið og ég renni þar í gegn og yfirleitt sleppi ég því ekki að skreppa einn runt niður að "höfninni."



"Jón forseti." Lítill bátur með stórt nafn.



Alveg rétt, Vilko súpurnar eru fluttar á Blönduós. Nokkuð sem Íslendingar hafa sopið í áratugi og þótt bara ansi gott.



Þær röltu í "hægðum sínum" eftir götunni og höfðu svolítið truflandi áhrif á þá litlu umferð sem þarna var, en svo beygðu þær út af malbikinu og allt komst í eðlilegt horf.



Ég var kominn suður í Borgarfjörðinn og þegar ég kom að Grábrók við Hreðavatnsskála mundi ég eftir því að ég hafði ætlað að skreppa upp á þennan hól á suðurleiðinni ef ekki yrði alveg hundleiðinlegt veður. Ég beygði inn á stæðið, læsti bílnum og gekk af stað upp á þessa lögulegu vikurhrúgu. Þegar upp var komið sem tók ekki langan tíma reyndist fleira vera að sjá og meira myndefni bera fyrir augu en ég hafði búist við.



Bifröst blasti þarna við mér svo og Hreðavatnið, Norðurárdalurinn, Skarðshamarsleiðin, Baulan, Hafnarfjallið svo og allur sá fjallgarður sem það tilheyrir. Ég tók eina mynd af gamla Samvinnuskólanum og aðra til vara, en þá kom óvænt melding á myndavélarskjáinn.
"Memorycard full." Þá vissi ég að ég ætti eftir að ganga þarna fljótlega upp aftur, því það að vera myndavélarlaus á stað sem þessum gerði ekki nema í mesta lagi hálft gagn.



Þegar ég ók svo yfir Borgarfjarðarbrúna fann ég hjá mér sterka löngun til að skjóta einu skoti á Hafnarfjallið þar sem það speglaðist í firðinum. Ég valdi því einhverja mynd sem ég taldi að mætti missa sín og eyddi henni til að hafa pláss fyrir Hafnarfjallið í myndavélinni. En Hafnarfjallið er á óskalista sumarsins 2007 yfir þau fjöll sem mig langar til að klífa.

Margt af því sem má sjá hér að ofan kann að virðast ofur hversdagslegt og í sjálfu sér varla nokkur ástæða til að hafa um það mörg orð og hvað þá að taka af því myndir. Sérstaklega er það líklegt til að vera skoðun þeirra sem hafa þetta stórkostlega umhverfi fyrir augum sér alla daga og verða því samdauna því svo ég leyfi mér að nota það orð. En fyrir þann sem kemur á staðinn úr allt öðru umhverfi, beinlínis til að sjá hvað hefur gerst frá því síðast þar sem ræturnar liggja, hljóta að gilda allt, allt önnur lögmál. Fyrir mér er Bakkatjörnin enn hálfgerð nýlunda og endurfundir við gömlu réttirnar fyrir ofan hesthúsahverfið talsverð upplifun. Í hvert einasta sinn sem ég ek fram hjá Ketilásnum rifjast upp einhverjar löngu liðnar stundir og minningarbrot af dansgólfinu, sviðinu eða túninu sem liggur að staðnum. Það er sagt að hver peningur hafi tvær hliðar, en mannlífið í öllum sínum margbreytileika hefur svo miklu, miklu fleiri.

  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 429
Gestir í dag: 76
Flettingar í gær: 575
Gestir í gær: 91
Samtals flettingar: 303226
Samtals gestir: 32806
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 06:53:41
clockhere

Tenglar

Eldra efni