Færslur: 2011 Apríl

30.04.2011 13:56

Tónleikarnir í Bátahúsinu


Ljósmynd Steingrímur Kristinsson.

704. Það er líklega alveg hægt að kalla tónleikana á föstudeginum langa í Bátahúsinu á Sigló upplifun, a.m.k. fyrir okkur sem stóðum á þilfari Týs SK-33 fyrir framan sneisafulla bryggju af fólki. Að lokinni forsölu í Sigló-sport vikuna á undan, voru aðeins 9 miðar óseldir á Vana menn og Þuríði Sigurðardóttur. Þeir dugði skammt fyrir talsverðan hóp prúðbúinna manna og kvenna sem reiknuðu fastlega með að geta keypt miða við innganginn eins og tíðkast hefur. Það dóu þó ekki allir ráðalausir, heldur settu sig í samband við Félagsheimilið Tjarnarborg þar sem Leikfélag Ólafsfjarðar var að sýna stykkið  "Leika, alltaf leika" í leikstjórn Guðmundar Ólafssonar, einnig kl. 20.00 þetta sama kvöld. Sýningunni var seinkað um korter svo að þeir sem ekki komust á tónleikana í Bátahúsi náðu tímanlega í Tjarnarborg.

Þegar ég leit við hjá Sýslumanni fyrir nokkrum vikum til að forvitnast um hvort það væri einhverjum vandkvæðum bundið að fá samkomuleyfi þennan dag, fékkst svarið ekki samdægurs. En þegar það kom var mér bent á þrú atriði sem væru ófrávíkjanleg. Það má ekki spila bingó, ekki dansa og ekki veita áfengi á föstudaginn langa. Ég hafði því samband við Aðalbakarann í bænum sem tók að sér að sjá um veitingar í hléi. Eitthvað mun þó hafa verið um að gestir hefðu með sér hæfilega blautlegt nesti svo lítið bæri á, en ég held að hafi aðeins verið af hinu góða og aukið á gleðina.

Það er ekki einfalt mál að ætla sér að reyna að lýsa hinu magnaða umhverfi í Bátahúsinu og sérstöðu þess sem tónleikahúss. Þeir sem reynt hafa, vita og skilja vel hvað átt er við. Þeir sem eiga það enn eftir verða einfaldlega að upplifa það á eigin skinni, því það er tilgangslítið að reyna að lýsa því sem er ólýsanlegt. Þeir sem vita hvað Síldarævintýrið á síðustu öld stóð fyrir, hafa líklega mestan og bestan skilninginn, en verða jafnframt fyrir þessum þægilegu og svolítið hrollkenndu umhverfisáhrifum þarna inni. Allt það sem fyrir augu ber og hin yfirþyrmandi nálægð við liðna tíma, kallar fram nostalgíugæsahúðina sem læsist mjúklega utan um hryggjarsúluna og veldur einhverju sem líkist kitlandi en þó ákaflega notalegum náladofa.

Myndir frá tónleikunum og fleira þeim tengdum, er að finna á "Myndaalbúm" í möppu merktri "Tónleikar í Bátahúsi" en þær eru teknar af Steingrími Kristinssyni nema annað sé tekið fram

21.04.2011 01:41

Annir


703. Það hefur verið meira en nóg að starfa síðustu daga og vikur. Reyndar svo mikið að sárafáar stundir hafa verið afgangs til að kíkja í bloggheima, hvort heldur til að láta ljós sitt skína, eða rýna í færslur þeirra sárafáu sem enn hafa ekki yfirgefið þá veröld og annað hvort flúið eða snúið á vit fésbókarsíðna. Eftir gríðarmikinn endasprett tókst svona nokkurn vegin að ljúka langþráðum áfanga í endurbótavinnunni á Suðurgötunni á Siglufirði og var íbúðin afhent ekki nema viku á eftir áætlun. Hún Stína er nú flutt inn og segir að það sé góður andi í húsinu.


Þá beið næsta verkefni, en það fólst í stífum æfingum vegna fyrirhugaðra tónleika í Bátahúsi. Sá tími sem til stefnu var, hefði líklega reynst full knappur fyrir einhverjum árum, en reynslan hjálpar vissulega til og allt small saman undir lokin. Mér reiknast nefnilega til að samanlagt höfum við sem ætlum að troða þar upp, lagt hvorki meira né minna en u.þ.b. 200 ár að baki í spilamennsku.


En jafnframt hefur verið setið við skriftir einhverja klukkutíma á dag, því mikið stendur til á þeim vettvangi á næstunni. Líklega er þó ekki tímabært að gefa út neinar stóryrtar yfirlýsingar um þá hluti að sinni.


Ég finn ekki snúruna milli myndavélarinnar og tölvunnar. Kannski gleymdist hún fyrir norðan og kannski er hún endanlega týnd. Ef hún er fyrir norðan leysist málið á morgun, en ef ekki þá þarf að komast í lesara sem ég á ekki. Á meðan er eitthvað á annað myndir í gíslingu inni á kortinu, myndir sem ég hefði gjarnan viljað vera búinn að birta hérna á síðunni jafnvel leggja svolítið út af. Það er þó ekki öll sagan því myndavélin sem hefur reynst mér svo vel undanfarin ár er alveg að verða "búin á því". Það þýðir að mig fer að sárvanta myndavél og það frekar fljótlega. Hingað til hefur Leó júníor lóðsað mig um allar svoleiðis slóðir sem geta reynst amatörum eins og mér hreint út sagt hálfgert torleiði, en nú eru aðstæður hans aðrar en áður var. Ég er ekkert allt of viss um hvað hentar mínum sérþörfum í dag, því nokkrar kynslóðir myndavéla hafa komið og farið síðan ég fjárfesti síðast í einni slíkri.
(Allar ábendingar eru vel þegnar.)


En talandi um að hafa nóg að gera og sjá helst ekki fram úr verkefnunum, kemur gamla spakmælið "vinnan göfgar manninn" stundum upp í hugann. Einnig ágæt saga sem ég heyrði um ýtumann á Siglufirði á árum áður þegar snjóaði mun meira en nú gerir á vetrum. Sá sagði að það væri ekkert dásamlegra en að vakna þreyttur að morgni og líta út um gluggann. Sjá þá að það hefði snjóað alla liðlanga nóttina og dagurinn myndi engan veginn endast til þeirra verka sem fram undan væru.

17.04.2011 06:29

Áframhaldandi Icesave umræða.

                                    

702. Eitt af því sem er nokkuð örugglega fylgifiskur úrslita kosninganna um Icesave samninginn, er að umræðan getur ekki annað en haldið áfram næstu tvö árin eða svo. Það er sá tími sem málið mun hið minnsta velkjast í dómskerfinu hérlendis og erlendis og þeir sem voru búnir að fá meira en nóg af henni munu því fá ennþá meira.

Rétt fyrir kosningarnar átti ég spjall við einn af NEI-mönnum.
"Jæja er búið að taka lokaákvörðun í stóra málinu"?
"Já ég er nú hræddur um það. Ég ætla sko að segja NEI því ég er ekki sáttur við að borga annarra manna skuldir".
"En nú er ekkert verið að kjósa um hvort menn vilji borga eða ekki, eflaust vilja allir þeir sem segja já vera lausir við að borga".
"Nú, það þykir mér skrýtið, um hvað er þá verið að kjósa"?
"Líklega um hvort við viljum samþykkja samninginn eða fara dómstólaleiðina".
Viðmælandinn horfið svolítið hugsi á mig um stund og virtist vera pínulítið ringlaður.
"Ég segi NEI af því að ég vil ekki borga þennan fj... reikning sem ég stofnaði ekki til".
Og þetta var ekki eina tilfellið sömu gerðar sem ég rakst á og mér sýnist nokkuð ljóst er að NEI-menn hafa fengið fullt af atkvæðum þeirra sem voru að kjósa um eitthvað allt annað en spurningin á kjörseðlinum gekk út á.

Ég hitti líka fyrir gallharðan JÁ-mann og hann fór ekkert í launkofa með skoðanir sínar.
"Lýðræðið er ekkert að gera annað en að þvælast fyrir okkur í þessu máli. Það á auðvitað ekkert að halda leynilegar kosningar í svona málum. Þeir sem vilja kjósa eiga bara að mæta á kjörstað og segja skoðun sína, síðan á einfaldlega að merkja við og halda upplýsingunum til haga. Þegar verður búið að klára þetta mál hvernig og hvenær sem það verður og meta hve miklu tjóni NEI-menn hafa valdið, á einfaldlega að senda þeim persónulega reikninginn fyrir mismuninum á niðurstöðunni og því sem samningsleiðin hefði þýtt. Varla vilja þeir að aðrir borgi fyrir þá fyrst þeir vilja ekki borga fyrir aðra".

Mér sýnist fátt benda til þess að sérlega friðvænlega horfi milli fylkinga og sátt sé á næsta leiti þó dómur þjóðarinnar liggji nú fyrir.


  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 315
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 415
Gestir í gær: 117
Samtals flettingar: 344674
Samtals gestir: 38297
Tölur uppfærðar: 24.5.2024 15:48:50
clockhere

Tenglar

Eldra efni