Færslur: 2009 Júlí

26.07.2009 04:03

Í hestaferð um Dali og Snæfellsnes


580. Í síðustu viku gerði ég nokkuð sem hefur hingað til ekki hvarflað að mér að ég ætti nokkurn tíma eftir að gera, en það var að fara í fimm daga ferð með hestamönnum um Dali og Snæfellsnes. Reyndar er ekki rétt að orða þetta alveg svona því segja má að aðeins eitt lítið skref hafi verið stigið af minni hálfu í átt til þessa bráðsmitandi áhugamáls sem hestar og hestamennska er. Og ég viðurkenni fúslega að ég er svolítið smeykur við að kíkja yfir brúnina á hinni forvitnilegu en dulúðugu sjónarrönd til þess að gá að því hvað gæti hugsanlega búið handan fjarskans í þessum málaflokki. Ég settist því að þessu sinni aðeins undir stýri á hinu átta manna trússjeppatrölli sem er með svolítið skott að auki og dró glæsilega fimm hesta kerru fulla af búnaði og vistum. Ferðin hófst að Melum í Hrútafirði en þaðan lagði hópurinn upp yfir Haukadalsskarð, niður Haukadalinn og að bænum Kringlu. Þaðan var síðan haldið út Skógarströndina, yfir Snæfellsnesið og komið niður í Hítardal.Einhvern tíma heyrði ég mætan mann segja að "engin synd væri stærri en sú að vera leiðinlegur að upplagi", en samkvæmt þeirri kenningu hafa líklega allir í þessum flokki verið eins fullkomlega syndlausir og verða má. Öðrum eins hópi fólks sem þarna var á ferð, hélt ég í einfeldni minni að væri ekki með nokkru móti hægt að koma saman. Engan "veikan hlekk" var að finna í honum og hver dagur reyndist öðrum betri með sínu glaða bragði og góða geði. Um ferðafélagana til næstu daga mátti bæði segja og standa fast á að þeir hafi verið góðir og gefandi, skapandi og skemmtilegir, vingjarnlegir og velviljaðir, uppbyggilegir og alþýðlegir og þá er aðeins fátt eitt sagt.
Stór hluti hópsins voru Blöndhlíðungar og hafa margir þeirra komið við í hinum víðfræga karlakór Heimi. Þarna voru því samankomnar margar mikilfenglegar hetjuraddir sem voru þandar til hins ítrasta á kvöldin eftir að menn höfðu skolað af sér ferðaryki dagsins, komið hinu innvortis rakastigi í eðlilegt horf og gerðust þá gjarnan söngvinnir, dansglaðir og fagnaðarsælir svo um munaði. En að morgni risu allir upp rétt eins og Einherjar Óðins í Valhöll forðum og héldu út á völlinn, tilbúnir til að mæta nýjum og dýrðlegum degi.Ofan úr Hítardal lá hluti leiðarinnar um Löngufjörur á Mýrum, en sú reiðleið hefur verið ein af þeim vinsælli hjá hestamönnum. Líklega skipta þeir sem þarna fara um allmörgum hundruðum ár hvert, en fara verður með gát og miklu skiptir að þekkja vel til eða hafa góða leiðsögn vegna sjávarfalla. Hópurinn fór niður í fjörurnar við Eldborg með reisn og þokka og kom upp við bæinn Kolviðarnes neðan við Laugagerðisskóla og var þá bæði sólhýr og svipléttur í meira lagi.

 

Ég rakst á skemmtilegt og mjög vel gert kvæði eftir Reyni Arngrímsson.

 

Löngufjörur

Er dagur rennur döggin sólu kyssir
þá dagbjört bíður sjónarrönd í hafi.
Á fjörum löngum fæðast sker úr kafi
og fyrirheit sem aðeins ein þú vissir.

Þar aldan gárar eilíf létt við fætur,
og öðuskel á fjörugrjótið leikur.
Þú aldrei aftur orðið getur smeykur,
ef undralagið heyrir baki nætur.

Nú daggarbjartur drösull svífur heiður,
í dýrlegri reið og engin orðin mælir,
er jórinn ber þig jökli nær og glaður.


Í eyjum fjarskans ernir búa hreiður,
og urta ein við fjöruborðið gælir,
þá hugsýn geymdu í hjarta þínu maður.
Eftir reiðina um Löngufjörur lá leiðin svolítinn hring um Hnappadalinn og næsta nágrenni, en svo norður yfir Heydal og þaðan svipaða leið til baka. Á myndinni hér að ofan má sjá upp að Haukadalsskarði, en vegurinn yfir það liggur niður í Hrútafjörðinn nokkurn veginn þar sem veitingaskálinn Brú stóð áður. Þarna er bráðskemmtileg, falleg og ágætlega jeppafær leið sem vert er að skoða, en vegurinn liggur m.a. um hlaðið á Eiríksstöðum þar sem Eiríkur Rauði bjó á landnámsöld.

 

Á vefnum htp://www.847.is/ má lesa eftirfarandi:

Inn úr Haukadal liggur leið um Haukadalsskarð yfir að Melum í Hrútafirði. Leiðin um Haukadalsskarð hefur frá fyrstu tíð verið fjölfarin og er hennar víða getið m.a. í Njáls sögu og Sturlunga sögu. Í Sturlungu stendur eftirfarandi: "En er Sturla Þórðarson spurði, að Brandur var kominn í Miðfjörð með flokk og ætlaði vestur í sveitir, þá dró hann þegar lið saman. Kom þá til liðs við hann Þorgils Böðvarsson og Vigfúss Gunnsteinsson. Riðu þeir þá norður yfir Haukadalsskarð og höfðu nær tvö hundruð manna; tóku þeir þá áfanga fyrir norðan skarðið. Komu þá aftur njósnamenn þeirra Sturlu og segja, að Brandur var í Miðfirði og fór heldur óvarlega."
Um Haukadalsskarð segir hinn merki danski fræðimaður Kristian Kalund í bók sinni Íslenskir sögustaðir: ?Austasti bær Haukadals er Skarð, stendur hinum megin ár. Rétt austan við bæinn er alfaravegur sem liggur um Haukadalsskarð upp á fjallheiðina, sem tengir austurenda Haukadals við Hrútafjörð (Melar).? Svo segir hann frá því að Gunnar á Hlíðarenda hafi stefnt Hrúti um fé Unnar, er við hann hafði skilið. Gunnar reið síðan úr Laxárdal og yfir í Haukadal og svo fyrir austan Skarð til Holtavörðuheiðar og heim.?
Fróðlegt væri að vita hvaða leið Gunnar hefur farið austur í Fljótshlíð. Er ekki hugsanlegt að hann hafi farið þvert á Holtavörðuheiði og komið einhvers staðar hjá Hólmavatni og þaðan í Hvítársíðu? Síðan yfir Hvítá á vaði og Kaldadal eða Okveg. Því næst Skessubásaveg hjá Skjaldbreið og Klukkuskarð niður í Laugardal nema hann hafi farið Hellisskarðsleið og komið niður hjá Úthlíð í Biskupstungum. Frá Úthlíð á vaði á Hvítá hjá Bræðratungu, en yfir Þjórsá á Nautavaði. Yfir Ytri-Rangá hefur hann farið á vaði hjá Svínhaga og síðan Kotveg að Keldum og þaðan heim. Þetta eru auðvitað getgátur einar. Gaman gæti verið að fá uppástungu um það hvaða önnur leið kæmi til greina.

Fleiri leiðir liggja úr Haukadal. Ein liggur upp hjá Litla-Vatnshorni upp með Prestagili yfir Kvennabrekkuháls að Kvennabrekku í Náhlíð, Prestagötur svonefndar. Prestarnir á Kvennabrekku munu hafa farið ríðandi þessa leið enda var útkirkja að Stóra-Vatnshorni. Frá Litla-Vatnshorni liggur líka leið að Kirkjuskógi og eins frá Saurstöðum um Saurstaðaháls yfir að Kringlu í Náhlíð.
Hér skal þess getið að sá eljusami handritasafnari Árni Magnússon fæddist að Kvennabrekku en ólst upp að Hvammi í Dölum. Líka hitt að skammt fyrir innan Saurstaði í Haukadal er bærinn Jörfi þar sem Jörfagleði var haldin fyrrum. Það var mikil skemmtun og vinsæl af alþýðunni og fékkst margt vinnufólk ekki til að ráða sig í kaupavinnu nema með því skilyrði, að það fengi að sækja Jörfagleðina.
Stundum gerðist Jörfagleðin full blautleg og eftir eina slíka fæddust 18 eða 19 lausaleiksbörn. Tók Jón Magnússon bróðir Árna Magnússonar þá á sig rögg og bannaði þennan gleðskap.

 

Eitt kvöldið var ég hvattur til að koma á bak og sjá veröldina af hestbaki, en áður en ég gæti svarað fyrir mig heyrðust hávær andmæli frá einum ónefndum félaga.

"Það er ekki til umræðu að hleypa honum á nokkurn hest og taka séns á að hann fái bakteríuna. Hver á þá að keyra á næsta ári"? 

 

Og nú hefur aftur og enn verið lagt upp í ferð, en að þessu sinni er stefnt á Síldarævintýrið á Siglufirði. - Nema hvað.

25.07.2009 13:28

Nokkur orð um lítinn bláan bíl og eiganda hans

579. Það hefur komið nokkrum sinnum fram hér á síðunni að ég á lítinn bláan bíl sem er til ýmissa hluta nytsamlegur og er þá ekki tekið mjög djúpt í árinni eða kveðið verulega fast að orði. Fyrir utan það sem yfirleitt flokkast undir að vera hefðbundið hlutverk slíkra og sambærilegra bíla, þ.e. að vera nýttur sem fjölskyldubíll og til fólksflutninga eins og gengur, er þessu eintaki ætlað mun veigameiri og fjölþættari verkefni en t.d. hönnun ökutækisins hefur væntanlega gert ráð fyrir í upphafi. Hann er nefnilega líka notaður sem vinnubíll og oft er hreint ótrúlega mikið á hann lagt í því hlutverki. Hann hefur verið notaður sem flutningatæki fyrir mold, sand, sement, múrbrot, verkfæri, timbur, spónaplötur, heimilistæki og margt, margt fleira. Svo má einnig geta þess að í honum var flutt "innvolsið" sem var rifið innan úr tveimur tveggja herbergja íbúðum svo sem gólfefni, loftaklæðningar, innveggir með grind og öllu saman, gömlu rafmagns og pípulagnirnar ásamt innréttingum og "hreinlætistækjum" innan gæsalappa. Þá þykir mér einnig við hæfi að geta þess að um helgar er hann stundum hljómsveitarbíll og þykir mörgum oft komast alveg óheyrilega mikið inn í hann. Reyndar er það stundum svo að meðspilarinn þarf að sitja með farþegasætið í fremstu stöðu, ennið klesst út í framrúðuna og gítarinn í fanginu til þess að snúrutaskan komist það vel inn um afturhlerann að hægt sé að loka honum. En góður vilji er líka ein af undirstöðum þess að ná árangri í skipulagsfræðum af þeim toga sem hér um ræðir. Við höfum átt samleið u.þ.b. þrjú síðustu árin og ríflega 100.000 kílómetrana og mætti því ætla að ég væri farinn að þekkja sæmilega til hans, en með mér hafa nýverið vaknað verulegar efasemdir um það.
Á dögunum kom ég að húsi þar sem ég þurfti að erinda svolítið og staldraði þar við stutta stund. Þegar ég hafði lokið því gekk ég til baka og að bílnum, en að þessi sinni virtist lykillinn ekki ganga að skránni og mér gekk bölvanlega að opna. Reyndar gafst ég að lokum upp á því og tók þá eftir manni sem stóð hálffalinn á bak við gardínur eins gluggans á neðstu hæðinni og talaði í síma. Ég fékk það sterklega á tilfinninguna að hann hefði fylgst vel með mér og tilraunum mínum til að komast inn í bílinn. Mér virtist hann vera býsna þungur á brún og þrátt fyrir að ég kinkaði kolli til hans var ekki gleðivott að sjá í allt að því steinrunnu andlitinu.

Þá tók ég eftir alveg eins bíl við hliðina á þeim sem ég hafði reynt að komast inn í.Í gærmorgun (föstudag) fór ég með bílinn á verkstæði Friðriks Ólafssonar sem er við Smiðjuveg í Kópavogi því það var ekki hægt að fá nokkra ljóstýru á afturljósin og dagljósabúnaðurinn virkaði ekki lengur á framljósin. Tíminn hafði verið pantaður fyrir 15 dögum síðan því þarna var langur biðlisti og greinilega talsvert að gera.

Ég var búinn að fara á það verkstæði sem ég er vanur að leita til og þar var búið að leita bilunnarinnar, m.a. að mæla öryggi, athuga hvort sambandsleysi væri að finna einhvers staðar í raflögn og meira að segja leita að sjálfum dagljósabúnaðinum í bílnum en án nokkurs árangurs.

"Þú verður því miður að fara á eitthvað Nissan verkstæði" var sagt við mig þar á bæ sem ég og gerði.

Og þar sem ég hef ekki gengið mikið á fjöll allra síðustu daga fannst mér alveg tilvalið að rölta heim í góða veðrinu í morgunsárinu.

Ég gekk sem sagt heim frá Smiðjuveginum í Kópavoginu og í suðurbæinn í Hafnarfirði á einum tíma og 40 min., en komst að því fljótlega eftir gönguna að það er sitthvað að rölta um úti í náttúrunni eða þramma á hörðu malbikinu. Ég staulaðist því eins og spýtukarl milli herbergja það sem eftir lifði dags, en þó aðeins ef bráð nauðsyn krafði. Nokkru eftir hádegi var hringt í mig og mér sagt að bíllinn væri tilbúinn. Ég fékk að þessu sinni skutl á staðinn og gekki inn á verkstæðið með debetkortið á undan mér. Afgreiðslumaðurinn rétti mér lyklana nokkuð glottaralegur á svipinn og ég spurði hvað heildartjónið væri stórt.

"Viðgerðin tók heilar þrjár mínútur og kannski nokkrum sekúndum betur og það tekur því ekki að rukka fyrir eitt öryggi" svaraði hann og glotti enn meira.

18.07.2009 17:56

Vinnuferð á Sigló578. Föstudaginn 10. júlí var Micran notuð sem "hljómsveitarbíll" og það var alveg merkilegt hvað hún tók vel við öllu því sem inn í hana var sett. Það var meira að segja talsvert pláss eftir þegar græjurnar voru allar komnar á sinn stað auk annars farangurs. Síðan var ekið sem leið lá norður yfir heiðar og ekkert staldrað fyrr fyrr en á Dýrfinnustöðum í Blönduhlíð þar sem mikið stóð til.Þar hélt Ingólfur bóndi upp á stórafmæli sitt í hlöðunni sem var búið að breyta í hinn flottasta veislusal.Á laugardeginum eftir að menn höfðu komið sér í gírinn, var svo rennt á Sigló. Himinninn var svo heiður og blár að undrum sætti, en fyrir ofan Haganesvíkina blöstu Siglufjarðarfjöllin við svo skemmtilega snjólétt að ég sá fyrir mér að göngustafirnir yrði að öllum líklindum notaðir í þessari ferð. Þó fór ekki fram hjá mér að þykkur skýjabakki lá fyrir utan landið og stóð lágt.Sunnudaginn þ. 12. fór ég svolitla skoðunarferð upp í Siglufjarðarskarð til að athuga snjóalögin því ég hafði hug á að ganga frá skarðinu, upp á Illviðrishnjúk, niður á Snók og norður Hafnarfjall. Upp á Hafnarhyrnu, fyrir Hvanneyrarskálina yfir Strákana og út á Skrámu, en bara ekki í dagÉg komst með góðu móti upp undir efstu beygjuna og þarna höfðu greinilega einhverjir fleiri ferið á ferðinni og komist u.þ.b. jafnlangt.En fyrir neðan klettana undir Afglapaskarði var allt í fönn og lengra varð ekki komist.
Úr þessari hæð yrði gangan létt og ég hugsaði mér gott til glóðarinnar.Á leiðinni niður sá ég að hauskúpunan sem Eddi Páll málaði fyrir margt löngu síðan hefur fengið "andlitslyftingu" ef svo má að orði komast. Hún var orðin ansi máð og ógreinileg þarna á steininum fyri fáeinum árum síðan ef ég man rétt.En auðvitað átti ég að stökkva á stað í blíðunni því skýjabakkinn sem beðið hafði fyrir utan læddist inn og gerði út um allar mínar fyrirætlanir. Það er nefnilega lítið gaman að fara í fjallgöngu í þoku. Ég hélt mig því að mestu uppi á háalofti þessa viku sem ég staldraði við og sagaði, negldi, skrúfaði, spartlaði, pússaði og málaði.Á Hverfisgötunni við hliðina á æskuheimilinu býr Ranna og sem benti mér á "blómstrið eina" í skorsteininum hjá sér.Allt bendir til þess að þamgað hafi borist fræ úr garðinum frá Tryggva og Reynitrésgræðlingur hafi skotið þarna rótum, en hvort það á fyrir honum að liggja að verða myndarlegt tré í fyllingu tímans á hins vegar eftir að koma í ljós.Ég leit aðeins yfir garðinn þar sem ég lék mér sem strákur og sá að hann hefur tekið gríðarmiklum breytingum. Fá tré standa nú eftir til að klifra í, en umhirðan er góð eins og sjá má.Ég get ekki sleppt því að láta fylgja mynd af mjólkurflöskunum og grindinni sem voru í eina tíð hluti af hinu daglega lífi, því yfirleitt var farið daglega í "mjólkurbúðina" með tómu flöskurnar og komið til baka með aðrar fullar. Líklega finnst þeim sem yngri eru skondið að það skuli hafa verið til búðir sem seldu aðeins mjólk og mjólkurafurðir og ekkert annað, en þannig var þetta hér í denn. Eftir að Hólsbúið var aflagt og hætt var að fara með álbrúsana og dæla í þá á staðnum, kom mjólkin frá Akureyri í svona flöskum og var þeim lokað með tappa úr álpappír sem mig minnir að hafi verið svolítið þykkri en sá sem er jafnan notaður í dag. "Tapparnir" voru litaðir til að aðgreina innihaldið, þ.e. grænn táknaði súrmjólk, gulur rjóma og mig minnir að undanrennan hafi verið með einhvern vegin daufbláum tappa.
Flöskurnar voru í þremur stærðum, heill lítir svo og hálfur sem voru yfirleitt notaðir undir nýmjólk, súrmjólk og undanrennu, en þriðjungur (þ.e. minnsta glerið) undir rjóma.
Þetta er líka eitt af því sem var bráðnauðsynlegur hluti af bernskunni, en ég man ekki til þess að það hafi verið til nein önnur tegund af djús eða appelsínuþykkni á sjöunda áratugnum. Mér þótti mikill fengur í þessum umbúðum þegar ég rakst á þær í gömlu dóti fyrir nokkru síðar og þær kveiktu svo sannarlega á fjöldanum öllum af perum í nostalgíuljósaseríunni rétt eins og grindin og brúnu flöskurnar hér fyrir ofan.

En í fyrramálið verður lagst í enn eitt ferðalagið og það er þess konar sem ég hefði alla mína daga til þessa, talið útilokað að ég ætti nokkurn tíma eftir að taka mér fyrir hendur. Ég ætla nefnilega að aka trússbíl um Snæfellsnesið fram undir næstu helgi og blanda geði við Skagfirska hestamenn og fleira gott fólk.
Það er með ólíkindum hvað hann Ingimar á Flugumýri getur fengið gamla hunda eins og mig til að gera og ég er jafnvel ekki frá því að hann sé nokkuð ákveðinn í að koma mér á hestbak.
Hvort það tekst á svo eftir að koma í ljós en við gerum því máli nánari skil um næstu helgi, en þá þarf ég að koma í bæinn til að spila á Catalinu.

10.07.2009 07:13

Á Þjóðlagahátíð577. Það var auðvitað stormað á Þjóðlagahátíð strax og hún hófst miðvikudaginn 1. júlí. Margt var um manninn á Aðalgötunni sem er skemmtileg tilbreyting frá því sem stundum er. Sumir á þeim bæ þræddu nánast allt sem hægt var að komast yfir af dagskránni meðan aðrir voru rólegri í tíðinni og völdu sér eina og eina uppákomu til að kíkja á.

Ég hitti Ægi Eysteinsson fréttamann RUV uppi á torgi þar sem hann var að taka viðtal og átti við hann langt og skemmtilegt spjall, en Ægir var hér í eina tíð nágranni minn og því sem næst daglegur gestur á Laugarásvideó. Þess má einnig geta að hann er af Siglfirsku bergi brotinn, en móðurafi hans var Siglfirðingur, hét Viktor og var aðstoðarlyfsali hjá Schiöth.
Ég sá að þessi "drátthaga" mær dró flottar línur á blað þegar ég gægðist yfir öxlina á henni. Hún var að teikna steininn og baksvið hans, en þar var Sparisjóðurinn við Túngötu fyrirferðarmestur.Ég hef stundum velt því fyrir mér að það hljóti að vera einstakt hvað svo margt er á svo til alveg sama stað á Siglufirði og hvað samþjöppunin er hreint ótrúlega mikil í kring um torgið. Það er ekki nóg með að nánast öll verslun og þjónusta sé þarna til staðar og raði sér í kring um þennan græna ferning sem Ráðhústorg er, heldur er tjaldstæðið og smábátahöfnin eiginlega þarna líka.
Smábátahöfnin við torgið... - Hljómar það ekki svolítið skondið?
Þegar ég fór að skoða myndirnar sem ég tók í þessari ferð sá ég að þær voru svo sem margar og margvíslegar eins og svo oft áður, en mér fannst samt óvenju lítill hluti þeirra eiga erindi í pistil eins og þennan og því verður hann í styttra lagi.
En vangaveltur um hversu langt er milli Siglufjarðar og Reykjavíkur eiga hins vegar fullt erindi hingað. Lengi vel hef ég talið að vegalengdin sé u.þ.b. 400 km., en hún hafi hugsanlega farið eitthvað niður fyrir 390 km. með tilkomu vegarins um Þverárfjall þar sem ekið er á ísbjarnarslóðum.En að þessu sinni var gerð fagleg úttekt á málinu við vegamótin þar sem Þverárfjallsvegur kemur niður á Skagastrandarveg og niðurstöður skráðar eins og sjá má. En þaðan eru 133 km. til Siglufjarðar og 252 km. til Reykjavíkur. Og þá vitum við að það eru samtals 385 km. milli þessara staða og margra ára vangaveltur eru þar með úr sögunni, a.m.k. þangað við fáum göng milli Bjarnagils og Siglufjarðar.Á laugardeginum 5. júlí varð ég því miður að yfirgefa staðinn því ég átti að spila í Árbæjarsafni um kvöldið. Nú eru menn sem sagt búnir að vera það lengi í bransanum að þeir eru komnir á safn í orðsins fyllstu merkingu. En hvað sem því líður þá var ég að spila í Skagafirðinum um helgina sem leið og er því núna aftur kominn á Sigló þar sem ég ætla að vera fram eftir vikunni. En svo þarf auðvitað að mæta aftur syðra um næstu helgi því það verður að halda sig að hljómborðinu um hábjargræðistímann.

07.07.2009 21:44

Systkinabarnamót 2009576. Hið árlega systkinabarnamót var haldið dagana 26. til 28. júní sl., en þar er um að ræða börn Sóleyjar ömmu minnar sem bjó á Siglufirði og systkina hennar. Og þar sem eini afkomandi hennar er ekki lengur meðal vor, framlengist "mætingarrétturinn" til afkomenda móður minnar þ.e. til mín og Sæunnar systur minnar.

Á leiðinni vestur var staldrað við í Borgarnesi og þar sá ég þá stærstu hunda sem ég hef nokkru sinni séð. Ég spurði hvort ég mætti mynda þá og reyndist það auðsótt mál af eigendanna hálfu, en þeir eru annað hvort ekki mikil efni í fyrirsætur eða á einhverju mótþróaskeiði. Það var sama hvað reynt var, ómögulegt reyndist að fá þá til að samþykkja neitt þeirra sjónarhorna sem maðurinn með myndavélina reyndi að ná fram.
Við mættum í sumarhús sem er í landi Elliða á sunnarverðu Snæfellsnesi í miklu blíðskaparveðri, en það skyldi vera miðstöð samkomunnar.Á laugardeginum var lagt upp frá Elliða norður yfir Vatnaskarð til Stykkishólms þess fallega bæjar, því áformað var að sigla milli nokkurra Breiðafjarðareyja. Ferjan Særún beið okkar og annarra ferðalanga við bryggju en á vef Sæferða sem gerir hana út má lesa eftirfarandi.
"
Ævintýrasigling Breiðafjarðar er vinsælasta ferðin okkar. Þar er siglt um eyjarnar óteljandi, skyggnst inn í ævintýraheim Breiðafjarðar, skoðaðar fjölbreytilegar bergmyndanir, sögulegar slóðir og sterkustu sjávarfallastraumar við Íslandsstrendur.
Á sumrin iðar svæðið af
fuglalífi og þá má meðal annars sjá toppskarfa, lunda, ritu, kríu, fýl, æðarkollu og stundum jafnvel haförninn, konung íslenskra fugla.
Hápunktur ferðarinnar er þegar plógur er settur út og upp koma ýmis skeldýr af botni sjávar. Gestir okkar fá tækifæri til að skoða gersemarnar en einnig smakka á hörpuskel og ígulkerjahrognum."Kortið sýnir leiðina sem farin var um Breiðafjarðareyjar fyrir utan Stykkishólm og í mynni Hvammsfjarðar.Ég undraðist hvað við sigldum nálægt Þórishólma sem var fyrsti "viðkomustaðurinn" en okkur var sagt að þarna væri mjög aðdjúpt sem og að mörgum eyjum á þessum slóðum.Ég varð auðvitað að mynda þennan myndarlega krossfisk sem hafði fest sig við þarann utan í klettunum.Ekki man ég hvað þessi klettur heitir en hann er fyrir norðan Bíldseyna.En þetta er Bíldsey að norðanverðu þar sem er mikið fuglalíf og athyglisverðar stuðlabergsmyndanir.Á næsta "stoppistað" sáum við arnarpar (rétt hægra megin við miðja mynd) sem lét sér fátt um finnast þó athygli ferðalanganna beindist að því.Ég notaði aðdráttarlinsuna eins og hægt var og stækkaði síðan myndina heilmikið eftir að heim var komið, en okkur var sagt að þetta Hafarnarpar hafi haldið sig á svipuðum slóðum árum saman.Næst lá leiðin inn til Dímonarklakka sem eru eiginlega tvö lítil fell sem setja mikinn svip á eyjaklasann fyrir mynni Hvammsfjarðar.Undir þeim var lagst fast upp að hamraveggnum og Toppskarfaurinn sem er mjög algengur þar skoðaður.Skipstýran sagði okkur að ferðir sem þessar væru farnar flesta daga sumarsins og stundum tvisvar og jafnvel þrisvar suma daga, hann væri því greinilega orðinn vanur mannaferðunum.Nokkuð er einnig af Lunda þarna á eynni, en þessi fugl fylgdist með okkur um stund.Síðan stikaði hann af stað að því er virðtist þungt hugsandi fram hjá Fýl sem lá á eggjum sínum og fór að sinna öðrum og eflaust merkilegri málum.Á bak við Dímonarklakka er vogur en um hann er nokkuð fjallað í Eyrbyggju.

Dímon sem þýðir Tvífjall, og er heitið talið vera komið úr keltnesku. Í Dímonarvogi  leyndi Eyjólfur Æsuson Eiríki rauða áður en hann sigldi til Grænlands eftir að hann hraktist úr Haukadal vegna vígaferla. Þarna mun hafa verið gott að leynast því á þeim tíma var eyjan öll svo skógi vaxin að báta mátti auðveldlega draga upp úr fjöruborði og inn í kjarrið. Álitið er að Eiríkur hafði einnig haft varðmenn uppi á klökkunum svo ekki yrði komið honum að óvörum
Hann
bjó þó áður nokkur ár í Öxney við Eiríksvog, en lenti þar einnig í vígaferlum og var dæmdur sekur og réttdræpur á Þórsnesþingi.
Fór hann þá að leita landa í vestri, en eftir þrjá vetur kom hann aftur sagðist hafa fundið land mikið sem hann kallaði Grænland og "kvað menn það mjög mundu fýsa þangað ef landið héti vel" .Í voginum í eynni bjó hann skip til Grænlands, árið 985 eða 986 og fluttist síðan alfarinn vestur og fjöldi manns á hæla honum. Eiríkur bjó í Brattahlíð og varð höfðingi í Íslendingabyggð á Grænlandi. Hann hélt við heiðinn sið en Þjóðhildur gerðist kristin og lét reisa sér kirkju í Brattahlíð.
Skammt frá er Purkey, en þar eru mjög sérkennilegar stuðlabergsmyndanir. Sagt er að í árdaga þegar Almættið hafi verið að byggja jörðina hafi hann gjarnan notað mótatimbur við bygginga kletta og hamra. En þegar kom að Purkey hafi timbrið verið þrotið og hann hafi því orðið að notast við bárujárn, enda sjáist það glöggt á áferð klettaveggja eyjarinnar.Á Purkey er Gálgagjá (fyrir miðri mynd), en þar voru sakamenn til forna gjarnan hengdir. Sagt er að sá siður hafi tíðkast á þessum stað að þeir væru ekki teknir niður að aftöku lokinni, heldur látnir "veðrast" úr snörunni.Og við liðum fram hjá þessum glæsilega stuðlabergsvegg og spölkorn út frá eynni. Þar var plógur setur út og dregið stutta stund, en síðan var aflinn innbyrtur og ferðamannahópurinn fylgdist vel með.Innihaldi pokans var sturtað á aðgerðarborðið og nú hófst veisla.Ekki voru allir tilbúnir að opna Hörpudisk eða Ígulker og sporðrenna innihaldinu beint upp úr sjónum, en þeir áræðnustu riðu á vaðið.Smám saman urðu þeir fleiri sem vildu skoða málið.Og vera ekki minni menn (eða konur) en hinir sem á undan reyndu.Ég reyndi að sjá hvaða sjáfardýr maðurinn væri að gæða sér á en hef ekki komist að niðurstöðu. Mér sýnist þó einhvers konar fálmarar standa þarna út úr hnefa.Hann steini frændi prófaði bæði Ígulkerjahrogn og Hörpudisk.Og fannst það greinilega hið mesta lostæti.Þessi kona sem talaði ensku með gelískum hreim var hreint út sagt óstöðvandi.Hún stóð lengst af við enda "veisluborðsins" og hreinlega raðaði í sig krásunum.Ég hafði staðið og myndað, en að endingu gat ég ekki annað en reynt þetta líka.Ég skal viðurkenna að ég var eins og pínulítið hikandi fyrst......en Hörpudiskur sem gerist ekki "nýveiddari" en í þessu tilfelli er bara skrambi góður.Þeir voru forvitnir þessir tveir ungu piltar og fannst mikið um að vera þarna á borðinu.Enda kenndi þarna margra grasa, eða öllu heldur krabba, skrápdýra, kuðunga, krossfiska og ýmis konar skelja.Ekki veit ég hvað þetta rauða furðudýr heitir, en mér sýnist það hafa þrettán fætur.
Ætli það sé ætt???
En eitt af því sem einkennir Breiðafjörðinn er að þar gætir sjáfarfalla meira en annars staðar á landinu. Það var engu líkara en beljandi fljót streymdi á milli þessara tveggja eyja.Og það var eins og óhugnanlegir svelgir sem helst ættu heima í fornum og drungalegum ævintýraheimum mynduðust í sjónum.En ferðin var senn á enda og við nálguðumst Stykkishólm á ný.Ég þakkaði skipstýrunni sem hafði svo mjög miðlað af þekkingu sinni gegn um hátalarakerfi skipsins fyrir ferðina og fékk að smella einni mynd af henni.Og eins og í fyrra var komið við í brugghúsi, en að þessu sinni er það Mjöður ehf. sem framleiðir bæði ljósan og dökkan "Jökul".Við fengum að vita ýmislegt um stutta sögu fyrirtækisins sem var stofnað árið 2007 og að fyrsti bjórinn kom á markað í október 2008 í sömu viku og bankahrunið átti sér stað.Og svo heilmargt um framleiðsluferlið sem ég treysti mér ekki til að hafa eftir nema að litlu leyti.Og svo var smakkað... - Nema hvað.Eftir bjórsmökkun og fróðlegan fyrirlestur var ekið um Berserkjahraun að enda Berserkjagötu sem munu vera elstu minjar samgöngumannvirkis á landinu.

Á ferðavefnum nat.is er að finna eftirfarandi upplýsingar um tilurð Berserkjagötu.

"Eyrbyggja segir, að Vermundur mjóvi í Bjarnarhöfn hafi flutt berserkina, Halla og Leikni, sem voru af sænskum ættum, með sér til landsins árið 982 frá Noregi.  Hans bróðir var Víga-Styr, sem bjó undir Hrauni á bænum, sem síðast hét Berserkjahraun.  Vermundur vildi ekki búa undir oki ofstopamannsins, bróður sins.  Honum láðist þó að láta berserkina hafa nóg fyrir stafni og þeir fóru að ókyrrast.  Þá snéri Vermundur sér til bróður sins og bað hann taka við þeim, sem hann gerði óviljugur.  Hann hafði þá til aðstoðar við að vega menn en verkefnin voru ekki næg, þótt mikið blóð flyti.  Halli vildi að Styr gæfi honum dóttur sína, Ásdísi, eða missa vináttu hans ella.
Víga-Styr ráðgaðist við Snorra goða á Helgafelli heilan dag vegna þessa vanda og fór heim með góð ráð.  Þegar heim kom, var hann jákvæður í garð Halla, en sagði, að þeir yrðu að leysa nokkrar þrautir áður en af ráðahagnum yrði.  Síðan sagði hann þeim að þeir yrðu að ryðja götu í gegnum hraunið til Bjarnarhafnar, leggja hagagarð yfir það og byrgi fyrir innan það.  Það rann á þá berserksgangur og þeir luku þessum verkum á tiltölulega skömmum tíma.  Á meðan hafði Styr látið grafa baðstofu í jörð niður heima við með glugga yfir ofninum, þannig að hella mátti vatni þar í gegn.  Hann bauð berserkjunum til baðhússins, þegar þeir komu heim frá verkinu móðir mjög.  Síðan lét Styr bera stórgrýti á hlemminn yfir innganginum og hellti sjóðandi vatni á ofninn.  Þótt mikið væri dregið af berserkjunum, brutust þeir út en Styr tókst að leggja þá í gegn með sverði sínu.  Skrokkarnir voru fluttir út á hraunið og dysjaðir í hraunlaut við sjálfa götuna."
Á Breiðafjarðarfléttunni má lesa eftirfarandi:

"Berserkjahraun í Helgafellssveit er eitt þekktasta hraunið á Snæfellsnesi. Það rann úr eldstöðvakerfi Ljósufjalla til sjávar suðvestan og suðaustan Bjarnarhafnarfjalls. Hraunið er erfitt yfirferðar og lítt gróið og snemma var hafist handa við að ryðja vegi í gegnum það. Leiðin milli bæjanna Berserkjahrauns og Kothrauns yfir hraunið er kölluð Skollagata. Frægasta leiðin er þó Berserkjagata, hún liggur til Bjarnarhafnar skammt ofan Hraunsvíkur. Hún er líklega elsta mannvirki sinnar gerðar á landinu. Hún og Berserkjadys eru friðlýst náttúruvætti. Söguna um berserkina er að finna í Eyrbyggju. Þeir voru af sænskum ættum og nefndir Halli og Leiknir og komu til landsins 982 frá Noregi á vegum Vermundur í Bjrnarhöfn. Þeir voru látnir ryðja götu í gegnum hraunið til Bjarnarhafnar og luku þeir þessum verkum á tiltölulega skömmum tíma, en að því loknu voru þeir vegnir og dysjaðir í hraunlaut við sjálfa götuna því erfitt þótti að tjónka við þá."Og Berserkjahraun er vissulega úfið og erfitt yfirferðar. Það fékk ég að reyna þegar ég var búinn að klöngrast upp undir brún á jaðri þess og vildi flýta mér til baka þegar ég tók allt í einu eftir því að hópurinn var á förum.En dagur var að kvöldi kominn og ég þurfti að yfirgefa Elliða á laugardagskvöldinu á undan öllum öðrum. Ástæðan var eins og svo oft að ég þurfti að mæta til spilamennsku um kvöldið.
Ég hefði sko alveg verið til í að vera þarna aðeins lengur...

En því má svo bæta við að það eru miklu, miklu fleiri myndir frá ferðinni í möppu í myndaalbúmi merkt Systkinabarnamót 2009, en bein slóð þangað er

http://leor.123.is/album/default.aspx?aid=151299

  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 315
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 415
Gestir í gær: 117
Samtals flettingar: 344674
Samtals gestir: 38297
Tölur uppfærðar: 24.5.2024 15:48:50
clockhere

Tenglar

Eldra efni