Færslur: 2013 Janúar

30.01.2013 10:14

"Miklihvellur"



857. Það má líklega vel halda því fram og það með góðum og gildum rökum að sannkallaður "Miklihvellur" hafi gengið yfir Siglufjörð síðustu dagana með heilmiklu brauki og bramli. Stundum er komist þannig að orði að elstu menn muni vart annað eins og gæti það eflaust átt við um það sem gengið hefur á í bænum. Sú kenning hefur verið sett fram að snjóflóðavarnargarðarnir gætu hugsanlega haft áhrif á vindstýringu og hnútamyndum sem er kannski ekkert verri kenning en aðrar. Alla vega virðist vera talsvert um tjón á húsum efst í bænum, við fjallsræturnar rétt neðan við garðana, en reyndar einnig neðst á eyrinni.
Mér bárust þau frekar fúlu tíðindi að Kári hefði komið við í híbýlum mínum nyrðra og gert þar talsverðan usla. 



Suðurgata 46 stendur hátt og út um stofugluggann er hreint ótrúlegt útsýni yfir bæinn og höfnina. Verulegar endurbætur hafa verið gerðar á húsinu og enn meiri slíkar voru fyrirhugaðar.



En á vetrum getur þurft að hafa svolítið fyrir hlutunum.



Húsið séð ofan frá. - Það var efsti hluti þaksins sem hreinlega lyftist ofan af veggjunum. Það var í októbermánuði sem við Óli Kára trömpuðum þarna á þakinu, spegúleruðum mikið og áformuðum að fara í einhverjar endurbætur á því með vorinu.



Svona leit eitt herbergjanna út eftir að hvellurinn ógurlegi hafði gert þar usla.



Og svona var umhorfs inni á baði.
En nú þýðir líklega lítið annað en að spýta í lófana og taka á sínum málum eins og það er kallað.



En því er við að bæta að gott er að eiga góða að þegar þörf er á.
Nokkrir vaskir piltar úr björgunarsveitinni Strákum svöruðu kalli íbúanna sem búa á neðri hæðinni, mættu á staðinn og björguðu því sem bjargað varð. Böndum var komið yfir þakið og þau fest í fiskikör sem síðan voru fyllt af vatni. 
Einfalt trix sem alveg svínvirkaði. Ég kann þeim mínar mestu og bestu þakkir fyrir.

En ef einhver eða einhverjir skyldu vilja skoða fleiri myndir af Suðurgötu 46 og því sem þar hefur verið að gerast, gerjast og breytast, þá er slóðin að myndasafni því tengdu http://leor.123.is/photoalbums/173804/ 

15.01.2013 09:22

F-1



856. Fyrir daga núverandi skráningakerfis tilheyrði þetta virðulega bílnúmer yfirvaldinu á Siglufirði, þ.e. bæjarfógeta og síðar sýslumanni. Embættismennirnir komu og fóru eins og gengur, en númerið færðist þá á milli einkabíla þeirra. Ekki veit ég hvort það hefur myndast einhvers konar hefð um millifærslu þess, eða hvort það hefur á einhvern hátt tilheyrt embættinu frekar en starfsmanni þess. Nú hin síðari ár bregður því hins vegar stundum fyrir hér á höfuðborgarsvæðinu og þá er ekki laust við að burtfluttir Siglfirðingar eins og ég snúi höfðinu í hálfan til heilan hring, því slíkar plötur jafn kunnuglegar og þessar, sjást ekki á hverju götuhorni. Þá kviknar líka jafnframt á forvitnisperunni sem er líklega staðsett einhvers staðar undir hvirflinum eða í grenndinni við hann þegar svona nokkuð ber fyrir augu.
Hver ætli eigi F-1 í dag?

09.01.2013 09:16

WC til meiri dægurgleði, breiðara bross og betri skapa.


855. Menn koma víða við á ferðum sínum um víðan völl í ýmis konar erindagjörðum, þegar hinu daglega þrasi og brasi er fylgt eftir í dagsins önn og amstri, rétt eins og gerist og gengur. Ég átti einmitt erindi í fyrirtæki nokkurt á höfuðborgarsvæðinu á síðasta ári akkúrat í einni slíkri ferð, þegar upp kom sú staða að ég þurfti nauðsynlega að bregða mér afsíðis í litla afslappaða rýmið þar sem friðurinn ríkir alla jafna og finna má í sérhverju húsi. Þegar þangað var komið sá ég þó ég vissi það nú reyndar fyrir, að húsráðendur á þessum bæ eru greinilega hinir ágætustu húmoristar eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Ég laumaðist því til að documenta speisið..



01.01.2013 16:04

Það er komið nýtt ár




854. "Hvernig fannst þér Áramótaskaupið"  verður eflaust ein af algengari spurningum næstu daga eins þegar menn taka tal saman, og hún var líka eitt af því allra fyrsta sem birtist á netútgáfu DV. Það gæti auðvitað verið vegna þess hve kommentakerfi miðilsins kom þar mikið við sögu og líklega ekki alveg að ástæðulausu. Kannski hafa þeir DV menn orðið eitthvað órólegir vegna málsins og eru einfaldlega að þreifa á því hvort einhverja bandamenn og hjálparhellur sé að finna meðal fólksins í landinu sem leggi þeim lið með því að flíka skoðunum sínum enn frekar í hinum umrædda kommentakerfi. Annars er bæði skrautlegt að vanda, en líka svolítið skemmtilegt að renna yfir innleggin sem þar getur að líta eins og búast mátti við.

"Alveg skelfilegt, held að það sé komin tími á að hleypa einhverjum öðrum að. - Mér fannst skaupið að mestu gott. - Ósmekklegt og gamlar lummur ljótt orðbragð, ekki fyrir fjölskylduna samasem hundleiðinlegt. - Hefði átt að banna það innan 16 ára held ég. - Já því 14-15 ára krakkar hafa aldrei heyrt ljótt orðbragð. - Það versta sem ég man eftir. - Með þeim betri sem ég man eftir. Versta skaup sem ég man eftir að hafa séð og orðbragðið ótrúlegt, ekki fyrir börn. - Eitt besta skaup fyrr og síðar, held að þetta fólk sem er að segja að skaupið hafi verið lélegt eru ekkert búin að vera að fylgjast með eða eru bara að tala með rassgatinu! - Aldrei hægt að gera öllum til geðs, snilldarskaup að mínu mati, takk kærlega allir sem að því stóðu :) - Algjör hneisa,og sóun á almannafé. Til hvers að borga fyrir svona orðbragð... - Versta áramótaskaup síðan 1987. - Handritið þunnt og mikið um endurtekningar, en viðurkenni að hafa flissað á köflum. - Snilldarskaup, gróft og gott að fokking Sjallarnir fengu á baukinn sem og Grísinn (líka hinir, en tók bara ekki eins eftir því). -  Svona á að gera þetta. - Fannst skaupið mjög skemmtilegt. - Hreifst af þeim hluta skaupsins þar sem gert var grín að ummælakerfi DV. "Vertu virkur á kommentakerfinu" - tær snilld. - Ég get ekki klárað að skrifa þennan status, ég hlæ svo mikið. Vantaði samt meira Gangnam Style. - Skaupið hafði meiri áhrif á suma en aðra. "Ég er hættur við að djamma í kvöld útaf þessu. - Gott að einhverjum líkaði. Kannski er þetta svona að horfa á skaupið edrú."

En það er svo sem ekkert nýtt að það séu verulega skiptar skoðanirnar um Áramótaskaupið. Í DV sem gerði sérstaka könnun um skoðanir áhorfenda kemur fram að 27,6 prósent lesenda segja að skaupið hafi verið afleitt, en 12,9 prósent segja það hafa verið frábært. Sé spurt um í verri eða betri kantinum breytist svarhlutföllin. Alls eru þá 871 neikvæðir gagnvart því, en 705 jákvæðari sem gerir muninn talsvert minni.

-

En að ofansögðu að allt öðru máli og miklu jákvæðara. - Gleðilegt nýtt ár og bestu óskir um farsæld um ókomna tíð.

  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 375
Gestir í dag: 97
Flettingar í gær: 291
Gestir í gær: 64
Samtals flettingar: 468897
Samtals gestir: 51443
Tölur uppfærðar: 6.11.2024 14:22:20
clockhere

Tenglar

Eldra efni