Færslur: 2008 Júlí

20.07.2008 23:34

Dýrafjarðardagar.

7

488. Fyrstu helgina í júlí voru Dýrafjarðardagar haldnir svo sem hefð er að verða fyrir. Ég skal alveg viðurkenna að það varð vart svolítillar togstreitu einhvers staðar djúpt í hugarfylgsnunum því margt fleira togaði í. Það var auðvitað Þjóðlagahátíð á Siglufirði, Flæðareyrahátíð inni í Jökulfjörðum og svo reyndar Markaðsdagar í Bolungarvík. En þetta hafði verið ákveðið svo það var haldið á Þingeyri á fimmtudeginum fyrir umrædda helgi. Morguninn eftir var svo skroppið á Ísafjörð og þaðan út í Hnífsdal, en þar var myndin af örþreytta ökutækinu hér að ofan tekin skammt frá Heimabæ og gamla Kaupfélaginu.En tilgangur ferðarinnar út í Hnífsdal var að sjá hvernig framkvæmdum miðaði við Óshlíðargöngin eða Bolungarvíkurgöngin. Varðandi nafngift gangnanna gúgglaði ég eftirfarandi stubb úr Skutli.

Sl. þriðjudag voru opnuð tilboð í gerð Óshlíðarganga. Í tengslum við fréttaflutning af jarðgangagerðinni hefur komið fram að samgönguráðuneytið hefur kosið að kalla göngin Bolungarvíkurgöng og hefur það mælst misjafnlega fyrir meðal almennings. Telja sumir að nafngiftin sé góð og gild en aðrir að það nafn sem notað hefur verið hingað til, þ.e. Óshlíðargöng eigi að halda sér. Nú hefur umhverfisnefnd Ísafjarðarbæjar rætt málið og í gærmorgun komst nefndin að þeirri niðurstöðu að leggja til að nafnið Óshlíðargöng verði áfram notað.

Í útboðsgögnum Vegagerðarinnar hefur verið notað nafnið Óshlíðargöng en á fundi samgönguráðherra í Bolungarvík 8. janúar sl. kom fram að stefnt væri að því að nafn ganganna yrði Bolungarvíkurgöng. Ekki er þó að sjá að Vegagerðin hafi látið að stjórn ráðuneytis í málinu því að á vef Vegagerðarinnar er sagt frá opnun tilboða sl. þriðjudag og heita göngin þar enn Óshlíðargöng.

Telja verður viðeigandi að sveitarfélög hafi eitthvað um það að segja hvað opinber mannvirki í þeim heiti en svo er að sjá hvort bæjaryfirvöld í Bolungarvík hafa um málið að segja þar sem um helmingur ganganna liggur innan sveitarfélagamarka Bolungarvíkurkaupstaðar. Heppilegast verður þó að telja að samkomulag náist um að göngin heiti það sama báðum megin frá.
Þetta ku vera allra fyrsta kúluhús á Íslandi. Þar býr "málverjinn" Ásthildur Cesil og þarna var staldrað við um stund.Um kvöldið knúði ég dyra á Kirkjubóli og bað leyfis að fara yfir landareignina áleiðis inn Kirkjubólsdal og upp á Kaldbak og var það auðfengið. Sigrún á Kirkjubóli var spjallgóð og skemmtileg. Við möluðum í fullan klukkutíma áður en ég hélt af stað eftir vegslóðanum sem lá inn dalinn.Ég komst á Micrunni alla leið upp í Kvennaskarð, en þó munaði stundum ekki miklu að bílinn réði ekki við stórgrýttan og illfæran jeppaslóðan á köflum. En þaðan er best að ganga á Kaldbak sem gnæfir hér yfir önnur fjöll og dali.Vel sést fram Kirkjubólsdalinn og út á Dýrafjörðinn.Og nú var lagt af stað eftir fjallsöxlinni.

Skaginn eða fjallasalurinn milli Dýrfjarðar og Arnarfjarðar hefur oft verið kallaður Verstfirsku Alparnir er mér sagt og hann býður upp á mikla möguleika til gönguferða í fallegu umhverfi. Þessi mikli fjallasalur er ólíkur öðrum fjöllum á Vestfjörðum að því leyti að mun minna undirlendi er á fjallstoppunum, fjöllin almennt hærri, fjallseggin oft svo skörp að ekki er hægt að ganga hana og hreint ótrúleg formfegurð fjallanna minnir því um margt á Alpana. Kaldbakur  sem er 998 m. hár, er hæsta fjall Vestfjarða er miðpunktur þessa svæðis og gnæfir yfir umhverfi sitt. Fjallið er upp af Kirkjubólsdal, Meðaldal og Haukadal Dýrafjarðarmegin, en Fossdal og Stapadal Arnarfjarðarmegin.

Lengi hafði verið ætlunin að sigrast á Kaldbak, hæsta fjalli vestfjarða, og nú skyldi látið verða af því. Kaldbakur, sem er 998 m há eldstöð, er mun auðveldari að klífa en margan grunar. Hægt er að komast að honum upp eftir áðurnefndum dölum, en bestu og þægilegustu leiðirnar eru upp Kirkjubólsdal og Fossdal.Áfram er gengið og framundan er Meðaldalsskarð.Það styttist og styttist, smátt og smátt, skref fyrir skref.Sagt er að Dýrfirskir skátar hafi á síðustu öld gengið á fjallið í því skyni að hækka það. Þeir munu ekki hafa verið sáttir við að það mældist aðeins 998 metrar á hæð og hlóðu tveggja metra háa vörðu þar uppi. En sé þetta rétt hefur tímans tönn, váleg veður eða hið íslenska fjallaloft (oft á mikilli og hraðri hreyfingu) náð að lækka hana aftur umtalsvert.Og bara til að þetta sé á hreinu, ég var þarna...Það er fjall við fjall. Hægra megin á myndinni sést ofan í Arnarfjörðinn.Gláma á kafi í snjó lengst til vinstri á jaðri myndarinnar.Meðaldalur framundan og Dýrafjörður.Meðaldalur hægra megin en Haukadalur til vinstri.Fyrr um daginn þegar ég kom frá Ísafirði tók ég mynd af þessu fjalli sem virtist vera vægast sagt hrikalegt að sjá. Það heitir Koltruhorn og er fyrir botni Haukadals.Hér sést það af toppi Kaldbaks og er það sjónarhorn talsvert öðruvísi.
Ég var nokkra stund að átta mig á að þetta væri sama fjallið.Fjöllin austan Kirkjudals. Hrafnseyrarheiði er þarna "bak við fjöllin háu."Það var kominn tími til að skrifa í gestabókina og fá virðulegan stimpil í tilefni þesa áfanga.Stapadalur í Arnarfirði. Þarna er mjög bratt niður og illa kleift.Horft niður í Fossdal sem er einnig Arnarfjarðarmegin.Og svo var skotið í allar áttir.Og ég ætlaði aldrei að geta hætt.Mér var starsýnt á þessa beittu fjallsegg milli Meðaldals og Haukadals.Þetta er eiginlega bara næfurþunnur veggur.Ég byrjaði að feta mig til baka. Þarna langt fyrir neðan beið bláa Micran.En ég var ekkert að flýta mér of mikið.Útsýnið var líka óviðjafnanlegt.En þar kom að ég rölti af stað til baka sömu leið og ég hafði komið.Ég ók fram hjá Kirkjubóli laust eftir miðnætti, réttum fjórum tímum eftir að ég lagði upp þaðan.Í hádeginu daginn eftir var boðið upp á þessa orkuríku opg bragðgóðu Skötuselssúpu.Ég rakst á klausu í bb.is þar sem sagði að Dýrafjarðar
dagar hafi nú verið settir í sjöunda sinn sem ég gúgglaði auðvitað þegar heim var komið.

Dýrafjarðardagar verða settir í kvöld, sjöunda árið í röð. Að venju verður dagskrá hátíðarinnar fjölbreytt og skemmtileg, með áherslu á víkingatímann. Setning hátíðarinnar fer fram í Knapaskjóli, reiðskemmu hestamanna á Söndum, þar sem hestasýning fer fram. Í kvöld verður einnig opnuð myndlistarsýning Dagrúnar Matthíasdóttur í kaffisal sláturhússins á Þingeyrarodda og útgáfutónleikar sálmadisksins Lofgjörð til þín fara fram í Þingeyrarkirkju. Fyrir yngra fólkið verður boðið upp á sundlaugardiskó íþróttamiðstöðinni og er aldurstakmarkið er 12-17 ára.

Dagskráin á morgun hefst með morgungöngu í Haukadal, þar sem farið verður um söguslóðir Gísla Súrssonar. Rabarbaragrautur með rjóma bíður göngumanna að göngu lokinni. Því næst fer fram stigamót Blaksambands Íslands í strandblaki við íþróttamiðstöðina. Sú nýjung verður í ár, svokölluð að gestum og gangandi gefst kostur á að sækja íbúa heim í sérmerkt hús þar sem boðið verður upp á súpu. Gestir geta svo í leiðinni valið um fallegasta garðinn. Eftir hádegi verður komið upp sölutjöldum á víkingasvæðinu, þar sem andi víkinganna svífur yfir vötnum. Ýmislegt verður í boði til skemmtunar. Annað kvöld verður grillveisla á víkingasvæðinu, skemmtiatriði og hljómsveit, og dansleikur með hljómsveitinni Hunangi í félagsheimilinu.

Á sunnudag verður markaðsstemmning á víkingasvæðinu fram eftir degi. Búlgarska leiksýningin Chick with a trick verður sýnd í félagsheimilinu á Þingeyri, en það er hluti af leiklistarhátíðinni Act alone. Þá verður keppt í kassabílarallý á heimatilbúnum kassabílum og boðið upp á kaffihlaðborð að Hótel Núpi. Myndlistarsýningarnar Vestfirskir einfarar og Gísla saga Súrssonar í myndum verða í Haukadal auk leiksýningarinnar Aðrir sálmar. Seinnipart sunnudags lýkur hátíðinni með því að fluttir verða söngvar fyrir börn í félagsheimilinu í Haukadal.
Hún var löng biðröðin að grillinu í Víkingaþorpinu.Enda margt um manninn á svæðinu.Í og við tjöldin var ýmislegt að gerast. Hér er glóandi járnið hamrað á steðjanumÉg fylgdist með þegar gömlum nagla var breytt í hring.Hér var leikið á heimasmíðuð hljóðfæri þess konar sem voru notuð um og eftir Landnámsöld og sagt frá þeim.Á sunnudagsmorgni var farið í göngu um þorpið og m.a. sögð saga margra gamalla húsa og íbúa þeirra. Í fyrstu heyrði enginn hvað sögumaðurinn Gunnlaugur Magnússon hafði að segja, en það lagaðist mikið þegar honum var fengið gjallarhorn.

Ljóst var að ekki hafði mikið verið lagt í undirbúning ferðarinnar og margar gloppur voru í heildarmyndinni, en samt var mjög gaman að henni svo langt sem hún náði. Hugmyndin er öldungis frábær og myndi án nokkurs vafa henta vel sem liður á Síldarævintýri, því ekki er svo litlu frá að segja á t.d. hringferð um eyrina.Fróðleiksþyrstur hópurinn lagði upp frá Íþróttahúsinu ásamt leiðsögumanni sínum.
Gömgutúrinn var farinn fyrir hádegi og því nokkuð ljóst var að þarna voru nær eingöngu mættir þeir sem sleppt höfðu dansiballinu kvöldinu áður.Kassabílarallý. Keppendur myndaðir frá hægri......og vinstri.Þessi mun hafa laskast í hamaganginum.En bílarnir voru að ýmsum gerðum......og stærðum.Það hafði greinilega verið nostrað alveg heilmikið við smíði sumra þeirra.Tveir menn með stórar myndavélar fylgdust með því sem fram fór. Auglýsingagúrúinn Jói Frank er hægra meginn, en slóðin á myndasíðuna hans er http://pbase.com/johannesfrank og þar er að finna margar alveg frábærar myndir.Þetta er Solla Snorra (til vinstri) og er hún jafnframt einn nefndarmanna Dýrafjarðardaga. Hún hafði mikið að gera og síminn var óspart notaður sem stjórntæki. En því miður veit ég ekki hver stendur hjá henni, en hún gegndi sýnilega veigamiklu hlutverki í kassabílarallinu og var gjarnan með gjallarhornið á lofti.Þegar kassabílarallýið var búið komu þessir mótorhjólatöffarar og stálu senunni.Það er örstutt út í Haukadal og þangað var haldið.Félagsheimili Haukadælinga er ekki stórt, en þar voru þó engu að síður haldin hin villtustu sveitaböll á árum áður. Nú var farið þangað til að skoða myndlistarsýningu. Það var annars komin þoka sem byrgði alla fjallasýn. Öðru hverju rofaði þó til sem kveikti í hvert sinn veika von um að nú færi að létta til. Ég hafði nefnilega hugsað mér að ganga á fleiri fjöll, en af því varð reyndar ekki.Það er ekki bara á Fáskrúðsfirði þar sem franskan grafreit er að finna. Þetta er franski grafreiturinn í Dýrafirði en um hann eru því miður allt of litlar upplýsingar að hafa.Á sunnudagskvöldið var haldið út í Svalvoga, en þeir eru yst á skaganum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Leiðin þangað er oftast á mörkum þess að geta talist fólksbílafær, enda kemur fram á skiltinu að svo sé ekki.En sumir taka lítið mark á slíku og leggja út í þokuna á Japanskri blikkdós.Það er ekki mikið um beinar og eggsléttar hraðbrautir á þessari leið, en þeim mun meira af holum og nýlega hrundu grjóti á veginum.Höfn er við mynni Dýrafjarðar, en þar hefur greinilega verið dyttað að húsakostinum.Ætli það komi nokkuð Hvítabjörn þrammandi út úr þokunni. Sá þriðji sem spáð hafði verið að ætti eftir að koma hefur nefnilega ekki látið sjá sig enn.Kannski á hann eftir að svamla að landi í þessari klettavík. En fyrir þá sem ekki vita, þá er ég haldinn bangsafóbíu. Oft slepp ég frá másandi bjarndýri sem er að elta mig með því að vakna kaldsveittur, lafmóður og með dúndrandi hjartslátt. Þessar martraðir hafa yfirleitt vitjað mín á nokkurra mánaða en stundum vikna fresti og þannig hefur það verið svo lengi sem ég man.En þarna var bara ungamamma með afkomendur sína svamlandi í fjöruborðinu.Það virðist vera erfitt að fá iðnaðarmenn út í Svalvoga og kannski það af því að vegurinn þangað er svo slæmur.Í þessu húsi bjuggu á tímabili 16 manns svo ljóst er að einhvern tíma hefur verið þröngt á þingi á þessum bæ.Og þó svo að framhliðin sé ögn reisulegri, vantar mikið upp á að ég gæti hugsað mér að deila þessum fáu fermetrum með 15 öðrum.Sama iðnaðarvandamálið hrjáir fjárhúsið, en þakið af því fauk á haf út að ég held s.l. vetur. Þá sögu heyrði ég að húsið hafi verið vel tryggt en tryggingafélagið neitað að bæta tjónið á þeirri forsendu að húsið hafi verið ónýtt fyrir og vísað á málsgrein í smáa letrinu í skilmálunum máli sínu til stuðnings. Ég klifraði upp á vitann í Svalvogum og gægðist inn í ljósahúsið.Þessi flotta og skjólgóða vík getur tekið talsverðum breytingum. Þarna er núna grýtt blágrýtisfjara en í fyrrasumar var hún þakin hvítum skeljasandi í ekta sólarlandastíl.Skógrækt í Keldudal virðist ætla að takast vel og þarna er að verða til sannkallaður sælureitur.Og ekki skemmir að annar gríður svo og hraunið setja skemmtilegan svip á heildarmyndina.Ég náði mynd af þessum hringhyrnda hrút áður en hann hvarf út í þokuna.Við vorum komnir inn undir Haukadal þegar við sáum til mannaferða og stöldruðum við. Finni (t.v.) þekkti þarna Óla Finnboga og tók hann tali. Óli sagði okkur frá vaðandi síld og í firðinum og stökkvandi laxi í fjöruborðinu. Reyndar urðum við vitni að því síðarnefnda þarna fyrir framan jeppann meðan á spjallinu stóð.Aðeins utar með firðinum mátti sjá menn sveiflandi stöng.Og innar líka.Hvaða skrýtni fugl er þetta nú eiginlega spurði Finni og stoppaði bílinn. Ég átti engin svör við því en náði þessari mynd af honum. Það var ekki fyrr en heim var komið að fyrsta kenningin var sett fram um málið og leitt líkum að því að þarna hefði verið Jaðrakan á ferð.Á mánudagsmorguninn vaknaði ég á undan öllum öðrum og smurði nokkrar brauðsneiðar með morgunkaffinu.Viðdvölinni var lokið að sinni og leiðin lá upp úr þorpinu og yfir hálsinn innan við Sandafellið. En áður en Dýrafjörðurinn var kominn í hvarf var staldrað við og tekin mynd af þessari vaðandi síldartorfu sem var þarna kominn inn fyrir Þingeyri. Fleiri sáu ástæðu til að staldra þarna við og virða torfuna fyrir sér. það hafði líka heyrst að krakkar hefðu veitt síld á öngul við bryggjuna deginum áður.Ferðin suður var hafin og landið hækkaði fljótlega, en fyrir aftan okkur grúfði þokan sig yfir láglendinu.

-

En um sama leyti og þessi Vestfjarðapistill er loksins "útskrifaður" eftir talsvert langa meðgöngu, er verið að leggja af stað á Síldarævintýri á Siglufirði. Það er nefnilega alltaf jafn gaman að vitja rótanna og sjá og hitta alla sveitungana sem á vegi manns verða á Ráðhústorginu, Aðalgötunni eða bara hvar sem er.

20.07.2008 23:22

Náttúruperlur og salerni.


(Grein sem birtist í Fréttablaðinu þ. 14. júlí.)

487. Mikil og þörf umræða hefur verið í gangi undanfarið um salernisaðstöðu við helstu náttúruperlur okkar Frónbúa og þá heldur á neikvæðu nótunum sem ekki ætti að koma þeim sem þekkja ósómann svo mjög á óvart. Það ber að fagna því að einhver skyldi hefja máls á þessu og fylgja því eftir í ræðu og riti því það er fyrir löngu tímabært, enda hin megnasta skítalykt af öllu málinu í orðsins fyllstu merkingu. Ég á mjög auðvelt með að taka undir umræðuna því ég upplifði ástandið af eigin raun, meira að segja í hinum ýmsu litum eins og sjá má hér að neðan þegar ég fór fyrir Reykjanesið á síðasta ári. Á þeim tíma hélt ég að þarna hefði verið um að kenna óheppilegri tímasetningu á ferðalagin mínu, einstakt og einangrað tilfelli, eða tilkomið vegna nýlegrar hópferðar samtaka magaveikra.
En nú er mér orðið löngu ljóst að þannig var málum ekki háttað. Það virðist bara enginn vilja taka að sér þann þó nauðsynlega þátt að vinna eftirvinnuna sem þó verður með engu móti komist hjá. Það er engu líkara en að einhverjir vanhugsandi og vanhæfir ferðamálamógúlar virðast halda að nóg sé að koma skíthúsunum fyrir á víð og dreif um fjölfarnar slóðir og þar með sé málið endanlega í höfn. En svo virðist sem hugsunin nái bara einfaldlega ekki lengra. Ef þau eru notuð þá fyllast þau auðvitað af kúk og pissi alveg upp undir setu og er á endanum virðist svo eina lausnin vera að skella í lás frekar en að þrífa þau. Enginn vill semsé setja á sig gúmmíhanskana sem ná upp fyrir olnboga fyrir lágmarkslaun plús óþrifaálag og taka til hendinni, hræra, moka og kafa eins og væntanlega þarf að gera til að koma hreyfingu á hlutina.
Börkur Hrólfsson leiðsögumaður kallar þetta "sumar hinna biluðu salerna," en ef heldur fram sem horfir virðist stefna í að þetta verði bara eitt af mörgum slíkum.
Hver á að sjá um að þessir hlutir séu í lagi?
Enginn eða fáir vilja kannast við heitt, menn benda jafnvel hver á annan og upp í hugann kemur gömul speki sem hefur öðlast enn dýpri merkingu en þegar ég las hana fyrst.
Kötturinn sagði ekki ég, hundurinn sagði ekki ég og svínið sagði ekki ég.

Ólöf Ýrr ferðamálastjóri segir að Róm hafi ekki verið byggð á einum degi. Hún virðist því hafa þá hjákátlegu og að mér finnst lítt ígrunduðu skoðun að tilurð eins af voldugustu borgríkjum veraldar á sínum tíma sé á einhvern hátt sambærilegt við að þjónusta nokkra tugi færibandaframleiddra Íslenskra "Saurbæja" þar sem nú á tímum býr ein ríkasta þjóð í heimi. 

Menn verða því frá að hverfa ef náttúran kallar á óheppilegum stundum og ganga í hægðum sínum (og einnig annarra) út í guðsgræna náttúruna til að gera stykkin sín á mörgum af fegurstu stöðum landsins.Kamrarnir við plötuskilin virðast vera ósköp venjulegir á að líta, en þegar betur er að gáð kemur annað í ljós..Svona var öðrum megin...Og svona var hinum megin...
Er nokkuð skrýtið þó einhverjum bregði illa við slíka aðkomu, hverfi frá með gubbuna í hálsinum, rölti jafnvel reikulir í spori með sviða í augum og suð fyrir eyrum á bak við næsta hól og setjist þar á hækjur sér.Skýr ábending til ferðamanna um að ganga snyrtilega um eða hvað? En aðrir hafa greinilega fulla þörf fyrir ábendingar um það sem betur má fara.

Heill þér fagra Ísland með þinn ört vaxandi ferðamannastraum.
Hina nýju stóriðju sem mengar bara allt öðruvísi en t.d. álver, stálver eða olíuhreinsistöð.
Þurfum við ekki að fá Björk og Sigurrós til að endurtaka síðustu tónleika með breyttum formerkjum og nýjum og ferskari áherslum?
"Saurgerlana í rotþrærnar, skíthúsin hrein!" gæti yfirskrift þeirra verið.
Því eins og sagt út úr berginu í Drangey forðum.
"Einhvers staðar verða vondir að vera."

20.07.2008 23:16

Flugan í skálinni.486. Fyrir nokkru átti ég erindi á Kringlukrána og sá þá það merkilega fyrirbæri sem ég hafði fram að því aðeins heyrt af að væri til. Nokkuð sem ég hafði lengst af haldið að væri í rauninni aðeins skemmtileg skröksaga, kenning sett fram með yfirmáta kómísku hugarfari, skopleg skrumskæling á raunveruleikanum eða jafnvel hið fullkomna rugl í samfélagi sífullra. 

Ástæðan fyrir því að ég uppgötvaði stóra sannleikann í þessu búkhreinsunarmáli, var að ég þurfti að skjótast frá og/eða aðeins til hliðar eins og gengur. Á prívatið, heimsækja hið karllæga samfélag sem jafnvel gallharðir fenínistar vilja ekki brjóta upp, skvetta úr skinnsokknum, vinda reiðtygin, eða hvað sem menn vilja kalla það og rifjaði í leiðinni upp valið textabrot úr smiðju Megasar.
"Gulir eru straumar þínir hland mitt í skálinni."

Og þar sem ég stóð við iðju mína á "tvöfaltvaffséinu" tók ég eftir því að ég vandaði mig óvenjulega mikið og miðaði á fluguna af öllum lífs og sálarkröftum, algjörlega ómeðvitað og án nokkurrar hugsunar.
Þetta var þá satt eftir allt saman.

Síðar frétti ég eftir svolitlum krókaleiðum (en rétt er einnig að taka það fram að það mun ekki fást formlega staðfest,) að eftir að flugunni var komið fyrir í skálinni fækkaði gulum pollum á gólfinu verulega og álagið á hreinsitæknum staðarins minnkaði að miklum mun.

Og nú er ég er farinn að trúa því...
...að flugur geti verið hið mesta þarfaþing og vel brúklegar til ólíklegustu nákvæmnisverka.

19.07.2008 04:52

Miðaldamenn, Erla & Kristín.


(Miðaldamenn 1980. - Ljósmynd Steingrímur.)

485. Á dögunum veitti ég því alveg sérstaka athygli þegar ég tæmdi póstkassann að þar var umslag sem var handskrifað utan á og með frímerki upp á gamla mátann, en  ekki nein vélstipluð leiðindi frá einhverjum bankanum, skattinum eða Sýsla. Ég varð auðvitað forvitinn og viti menn, þetta var vissulega skemmtilega sortin. Upp úr umslaginu komu nokkrar ljósmyndir ásamt gulum miða sem á stóð...

Sæll Leó.
Hér koma loksins myndirnar, held að ég eigi einhvers staðar fleiri, en þær koma þá seinna.
Kær kveðja... - Stína Bjarna.

Þetta var góð sending því þarna voru nokkrar myndir frá árinu 1980 þegar ég, Biggi og Sturlaugur fengum til liðs við okkur eðalvinkonurnar Erlu Guðfinns og Stínu Bjarna í Miðaldamenn þess tíma. Þriggja manna hljómsveit plús tvær söngkonur var eitthvað sem var allt öðruvísi en það sem aðrir voru að gera. Upphaflega stóð til að Bjössi Sveins yrði líka í söngvarahópnum, en hann guggnaði því miður á síðustu metrunum. En fyrst og fremst var þetta skemmtilegur tími sem mun aldrei gleymast.

Hér að neðan eru svolítil sýnishorn, en allar myndirnar eru komnar í möppu í myndaalbúmi merktar Miðaldamenn 1980. Einnig eru þar fleiri myndir teknar af Steingrími (Lífið á Sigló) fyrir framan "Fúsa Bald brakkann" sem var æfingarhúsnæði okkar á þessum árum.


(Söngkonurnar Erla & Kristín.)


(Söngkonan og bassaleikarinn.)


(Gummi Ragnars og ég, báðir sýnilega alveg bláedrú.)


(Trommarinn, prentarinn og auglýsingagúrúinn ómissandi með Freddie Mercury mottuna.)

Þetta var vissulega óvænt sending og það tók mig nokkra stund að rifja upp aðdragandann og hugsanlegrar ástæðu hennar, en það hafðist með svolitlum heilabrotum. Á Síldarævintýrinu í fyrra (frekar en hitteðfyrra) hitti ég Stínu (ásamt Erlu auðvitað) á torginu fyrir framan stóra sviðið á Ráðhústorginu og við áttum spjall saman. En hana hef ég ekki hitt síðan ég rakst á hana fyrir ótal mörgum árum á Ísafirði þar sem hún býr. Ég spurði þær stöllur hvort verið gæti að einhverjar gamlar myndir væru til frá þessum frábæra tíma og nú eru þær komnar.

19.07.2008 04:15

Paul Simon.

484. Um mánaðarmótin síðustu hélt stórtónlistarmaðurinn Paul Simon tónleika í Laugardalshöllinni. Ég kann í sjálfu sér litlar eða engar skýringar hvers vegna ég hafði ekki tryggt mér miða í tíma, Því ég hafði á einhverjum tímapunkti vrið ákveðinn í að berja þetta stórmenni á sínu sviði augum eða eiginlega frekar eyrum hvernig sem það er nú gert. Daginn sem tónleikarnir skyldu haldnir hafði ég enn ekkert aðhafst og var eiginlega búinn að sætta mig við eigin athafnaleysi. Þá hringdi síminn sem gerist svo sem oft án þess að það hafi nein sérstök áhrif á hið daglega líf mitt eða raski þeirri dagskrá sem fyrirhuguð var, en að þessu sinni gerðist það. Í símanum var stórvinur minn Birgir Jóhann Birgisson tónlistarmaður með meiru sem spurði mig hvort ég væri búinn að ráðstafa kvöldinu. Þegar ég kvað svo ekki vera spurði hann mig hvort ég vildi ekki koma með honum á tónleika í kvöld því það væri alltaf minna gaman að vera einn á ferð og svo ætti hann líka aukamiða. Ég spurði þá hvað væri að gerast í bænum og hvaða tónleikar megnuðu að draga hann út úr hýði sínu.
"Það er einhver karl sem kallar sig Palla Símonar og ég er svolítið forvitinn um hann."
"Hver er Palli Símonar" spurði ég án umhugsunar.
Þegar ég uppskar ekkert skellihlátur með spurningunni áttaði ég mig og varð svolítið kindarlegur.
"Af hverju fer ekki konan með þér" spurði ég aftur.
"Sko henni finnst þetta eiginlega meira tónlist fyrir gamalt fólk og telur sig ekki tilheyra þeim hópi."
Biggi hló aftur en núna mun lægra. Ég fékk á tilfinninguna að hann horfði flóttalega í kring um sig í leiðinni, rétt eins og hann vildi fullvissa sig að enginn hefði ekki heyrt þessa skýringu hans á áhugaleysi frúarinnar.
Ég lýsti efasemdum mínum um að nokkur gæti haft slíka skoðun á tónlist Paul Simon, en hver sem ástæðan var í rauninni þáði ég boðið og við Biggi urðum samferða í Höllina um kvöldið.

Um tónleikana má það segja að þeir voru vissulega góðir, en þeir voru samt allt, allt öðruvísi en ég bjóst við. Paul Simon er greinilega ekki ræðinn maður að eðlisfari, alla vega ekki í fjölmenni. Ég giska á að hann hafi ekki sagt mikið meira en á bilinu sex til átta setningar til áheyrenda meðan á tónleikunum stóð. Framsóknarguðni Ágústson myndi því líklega flokka hann sem einn af daufgerðu mönnunum í tilverunni. En þó að Paul Simon sé ekki besti söngvari í heimi komst hann ágætlega frá þeim þætti með smávægilegum undantekningum. Ég hef nefnilega alltaf haldið að hann væri alveg rosalega mikill og góður söngvari, en komst að því að það er eiginlega ekki þannig. Hann er jú mjög fínn til brúks sinna eigin laga sem hann semur auðvitað fyrir sjálfan sig og eru því sniðin að hans raddlegu getu og framsetningu. Og nú skil ég enn betur en áður hvað Art Garfunkel gegndi miklu hlutverki í dúettnum forðum þó svo hann hafi staðið félaga sínum langt að baki þegar kom að lagasmíðunum. Paul tók nokkur lög frá tíma dúettsins og söng þau einn. Ég sá að sumum fannst það greinilega hið besta mál en mér fannst eitthvað vanta í pakkann. Eitthvað sem ég tók inn á mig á sínum tíma að ætti og yrði að vera til staðar. Og þetta eitthvað er auðvitað hin háa, silkimjúka, kórrétta og eyrnavæna rödd hans fyrrum félaga í dúettnum Simon & Garfunkel.

 

Tónleikarnir fóru rólega af stað. Það verður ekki annað sagt en að mjúku lágstemmdu nóturnar svo og einfaldleikinn hafi verið alls ráðandi. Ég leit á Bigga sem sat í sætinu við hliðina á mér og sá að hann var búinn að loka augunum. Höfuðið seig fram á við og það var engu líkara en hann væri að gogga ofan í bringuna á sér eins og syfjaður lítill fugl á sólríkum sumardegi.
"Þú ert greinilega í banastuði" sagði ég og hann hnykkti til höfðinu.
"Hvað eru búin mörg lög" spurði hann á móti.
Svona á þetta ekki að vera á tónleikum eða hvað hugsaði ég með mér.

Ég man að ég sá haft eftir eftir Grammyverðlaunahafanum Paul Simon að hann færi sjálfur aldrei á tónleika hjá öðrum. Til þess væri hann einfaldlega of eirðarlaus og myndi eflaust í flestum eða öllum tilfellum fara snemma heim. En hann ætti kannski samt að gera eitthvað eða meira af því vegna þess að þá gæti hann lært heilmikið um hvernig má koma sínu til skila með líflegri framsetningu og markvissari uppbyggingu. Þegar á leið var að mestu leyti tekið fyrir efni af sólóferlinum og þá helst efni af Graceland plötunni. Þá kom best í ljós hvað hljómsveitin var góð auk þess sem hljóðfæraleikararnir sýndu mikil og góð tilþrif í bakröddunum.

Ég hafði fyrir tónleikana kynnt mér hvað myndavélin gat komist upp í mörg ISO sem mér skilst að sé mæling á hraða ljóssins inn um linsuna. Það varð til þess að ég gat tekið myndir af goðinu ásamt meðspilurunum yfir salinn alla leið aftan úr stúkusætinu þar sem ég sat framan af. En auðvitað varð ég að færa mig niður á gólf Hallarinnar þegar á leið og reyna að nálgast sviðið svolítið meira auk þess sem hljómburðurinn var mun betri niðri á gólfi.

Að tónleikunum loknum er ég ekkert frekar ákveðnari í því en áður að eignast disk með tónlistarmanninum Paul Simon frá sólóferli hans, en mig langar því meira að komast yfir þennan eina sem mig vantar í Simon & Garfunkel tímabilið

13.07.2008 03:59

Tómas Brjánn Margrétarson allur.483. Laust eftir miðnætti
og þegar lítilega var liðið á aðfararnótt hins 11. júlí s.l. var Tómas Brjánn Margrétarson borinn til grafar. Jarðarförin fór fram í kyrrþey og voru aðeins hans "nánustu ættingjar" viðstaddir. Hann var ekki nema fárra vikna gamall þegar hann gerðist fjölskyldumeðlimur fyrir fullt og fast fyrir rúmum fimmtán árum síðan. Hann var einn af þeim sem kom í þennan heim án þess að óskað væri eftir því af þeim húsráðendum sem fóðruðu móður hans. Ég segi ekki eigendum því að þeir sem vita eitthvað um ketti eru meðvitaðir um að enginn getur slegið eign sinni á þá og þeir fara gjarnan sínar eigin leiðir eins og sagt er. Ótrulega oft er að þeir velja sér frekar "húsbónda" en láta gjarnan þann hinn sama standa í þeirri trú að það sé hann sem ráði öllu þó önnur sé raunin. Algengt er að kettir taki t.d. upp á því að hafa vistaskipti án nokkurs samráðs við einhverja þá sem telja sig málið varða, en svo var ekki raunin með T.B.M.Hann var á sínum kettlingsárum á leið til dýralæknis aðeins átta vkna gamall þar sem átti að svæfa hann svefninum langa þegar leiðir okkar lágu óvart saman og segja má að hann hafi hreinlega rekið á fjörur okkar. Eftir stutta en skemmtilega viðkynningu á stofugólfinu og næsta nágrenni þess, höfðu framtíðarhorfur hans tekið eins konar vinkilbeygju frá því sem útlit hafði verið fyrir stundu áður. Örlög hans voru þarna ráðin og hann bjó með okkur og hjá okkur alla sína kattartíð, nánast frá upphafi eins og áður segir og allt þar til yfir lauk.Ég held að við höfum stundum fundið til einhvers konar undarlegrar samkenndar því við vorum ótrúlega líkir ef vel var að gáð og grannt skoðað. Við vorum í senn uppivöðslusamir óróabelgir en samt róleg og afslöppuð letidýr þess á milli. Sprelligosar og spraðbassar á góðum stundum, en ótrúlega þreytandi, verulega pirraðir og óþolandi fúllyndir í annan tíma. Saman vorum við því köttur og maður andstæðna og öfga en samt djúprar einlægni og þrá eftir hinum eina sanna vin sem við fundum í hvorum öðrum. Ófá eru þau skipti sem við skriðum saman til sófa og dormuðum samanfléttaðir og að því er virtist í ógreiðanlegri bendu eða flækju  yfir fréttunum og Kastljósinu.Á síðasta ári fékk hann Hjartaáfall en náði sér smám saman aftur eftir að hafa fengið viðeigandi lyfjameðferð hjá dýralækni. Fyrir nokkru fór svo aftur að bera á krankleika hjá honum og hann fór aftur til læknis. Að þessu sinni kom í ljós að lungun voru full af vatni sem talið var að orsakaðist af hjartveikinni, en því var tappað af honum og hann var settur á hjartalyf og vatnslosandi lyf til frambúðar. Það nægði til að hægja á ferlinu en ekki að stöðva það, svo aftur varð hann að fara í aftöppun og svo enn og aftur hið þriðja sinni. En að lokum fór svo að baráttan tapaðist og ekkert var til ráða annað en svefninn langi.Ég sló saman lítilli kistu úr óhefluðum borðviði og málaði hana hvíta. Þar var hann lagður til ásamt svolitlu nesti til landsins hinum megin, einni dós af ORA túnfiski sem alla tíð var í miklu uppáhaldi hjá honum. Það var breidd yfir hann þunn sæng en eftir það var lokið neglt á. Hann var síðan grafinn undir fallegu grenitré á friðsælum staðskammt frá Hvaleyrarvatni.En við sem stöndum eftir þurfum að huga að sorginni sem býr í hjarta okkar allra, gefa okkur tíma fyrir hana og finna svolítið til þegar slíkar stundir verða til. En jafnframt horfa fram eftir veginum, þeirri lífsins leið sem okkur er öllum gert að feta skref fyrir skref allt þar til ferðinni lýkur.Þó að ljós augna þinna hafi nú slokknað mun minningin lifa.

10.07.2008 13:06

Gulli tvítugur.482. Þau tímamót urðu á dögunum að Gunnlaugur Óli Leósson (skammstafað GÓL) varð tvítugur. Nánar tiltekið átti þessi merki atburður sér stað þann 8. júlí kl. 09.45. En vegna mikillar fjarveru minnar undanfarið og einnig hversu netið hefur verið hægfara og illviðráðanlegt hér á bæ síðustu daga, komst þessi áríðandi tilkynning ekki út á alheimsvefinn á réttum tíma.Á sínum yngri árum átti hann það til að fikta í dóti föðurs síns.Og máta gleraugu móður sinnar.

En langt er um liðið hann var lítill og nú er hann orðinn stór strákur og meira að segja trúlofaður. Það hefur því í kjölfarið fjölgað um einn (eina) á heimilinu og er það vel. Til hamingju með áfangann hr. G.Ó.L.

  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 345
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 415
Gestir í gær: 117
Samtals flettingar: 344704
Samtals gestir: 38297
Tölur uppfærðar: 24.5.2024 16:10:34
clockhere

Tenglar

Eldra efni