Færslur: 2011 Júní

27.06.2011 22:50

Til hamingju með daginn félagi


725. Ég fékk ábendingu um að þessa stórfrétt væri að finna í Mogganum og ég hnuplaði henni auðvitað með það sama, enda get ég stundum verið talsvert mikill "hnyppill" ef eitthvað þessu líkt freistar.

23.06.2011 00:19

Tónleikar að baki, ættarmót framundan


724. Það verður vart annað sagt en að tónleikarnir í Salnum í Kópavogi hafi tekist alveg ljómandi vel, og það jafnvel þó ég segi sjálfur frá. Það seldist upp fyrr í vikunni og myndaðist langur biðlisti að sögn forstöðumanns hússins. Það hefur því verið ákveðið að endurtaka leikinn, en þó ekki fyrr en að liðnu sumri því Salurinn verður lokaður vegna sumarleyfa næstu vikurnar. Það var óneitanlega gaman að sjá "stráka" eins og GunnarTrausta hafandi náð sæti á fremsta bekk rétt eins og í þrjúbíói hjá Oddi Tóra fyrir hálfri öld eða svo, og Ómar Ragnarsson skella sér á lær nokkrum sætaröðum aftar í hvert skipti sem Þuríður lét eitthvert gullkornið vaða.


Það var líka mjög skemmtilegt og ekki síður áhrifamikið að hlusta á Jóhann Vilhjálmsson syngja lagið "Lítill drengur" sem faðir hans, stórsöngvarinn Vilhjálmur Vilhjálmsson söng til hans fyrir hartnær fjórum áratugum. Viðtökurnar sem hann fékk voru líka frábærar, hver einasti maður í salnum reis úr sæti sínu, það var klappað og stappað bæði vel og lengi og þó nokkur tími leið þar til við gátum byrjað á næsta lagi. Svarfdælingurinn Júlli sem var hljóðmaðurinn okkar, sagði svo við okkur eftir tónleikana að hann hefi ekki betur séð en að einhverjir hefðu verið að reyna að klifra upp á sætisbökin þegar mest gekk á. En það er rétt að taka það fram að tónleikagestir virtust vera með allra dannaðasta móti, - alla vega svona framan af. Og svo var meðalaldurinn... - eigum við ekki bara að segja að fólkið í salnum hafi velflest verið búið að taka út fullan þroska. Það voru sem sagt allir í firna góðum fíling.


En með morgninum skal haldið norður yfir heiðar þar sem svolítið ættarmót verður haldið á Aðalgötunni um helgina. 

13.06.2011 20:23

Frumlegur ferðamáti


723. Fyrir þó nokkru síðan átti ég leið um Strandgötuna í Hafnarfirði um föstudagssíðdegi. Það var farið frekar hægt yfir eins og svo oft á slíkum dögum, og ágætur tími gafst því til að fylgjast með mannlífinu á gangstéttunum beggja vegna. Þegar ég fór fram hjá Sparisjóðnum sá ég hvar lítil fjölskylda var að spássera úti í góða veðrinu, en eitt var þó í óhefðbundnara lagi eins og myndin hér að ofan ber glöggt með sér. Bíllinn fyrir framan mig stoppaði og ég gerði það þá líka. Litla fjölskyldan hélt áfram för sinni, en ég dró myndavélina upp úr vasanum, skrúfaði niður rúðuna og hugsaði með mér að þarna væri hið skemmtilegasta myndefni á ferð sem vert væri að festa í flögu. Bíllinn á undan mér ók aftur af stað og ég smellti af þegar ég ók fram hjá Bæjarskrifstofunum. Þetta hlýtur að vera hinn skemmtilegasti ferðamáti fyrir ungu stúlkuna sem situr í kerrunni, en það er líklega ekki verra að hafa nokkra plastpoka af stærri gerðinni upp á vasann þegar farið í svona labbitúr og dráttardýrið skilar af sér afurðum sínum.

10.06.2011 13:06

Tónleikar í Salnum


Birgir Ingimarsson trommari á heiðurinn af þessu blómlega plakati.

722. Þroskuðu tónlistarmennirnir og konan sem tróðu upp í Bátahúsinu um páskana og á Græna hattinum nýverið, eru ekki alveg búin að leggja árar í bát. Það hafa borist þó nokkrar fyrirspurnir héðan og þaðan af landinu, um hvort ekki sé inni myndinni að troða upp hér og þar o.s.frv. Við getum auðvitað ekki annað en verið hæstánægð með viðbrögðin og höfum í framhaldinu velt fyrir okkur hvað sé raunhæft og hvað sé vænlegt. Upphaflega var þó hugmyndin að stofna til aðeins einna tónleika í Bátahúsi þar sem fléttað yrði saman nokkrum siglfirskum "slögurum" og uppáhaldslögunum hennar Þuríðar, en málið er sem sagt farið að vinda svolítið upp á sig.

Nú eru fyrirhugaðir tónleikar í Salnum í Kópavogi miðvikudaginn 22. júni nk., og verður sérstakur gestur þar Jóhann Vilhjálmsson, en hann er sonur Vilhjálms heitins Vilhjálmssonar stórsöngvara. Þau Þuríður og Villi störfuðu lengi saman, m.a. á Röðli, og nú ætlar Jóhann að syngja með Þuríði þekktan dúett frá tíma föður síns. Það er óhætt að segja að miðasala hafi farið vel af stað, því áður en sólarhringur var liðinn frá því að hún hófst, voru 46 miðar seldir og þó ekkert farið að auglýsa. Nú eru sólarhringarnir orðnir tveir, seldir miðar eru 87 og enn er ekkert farið að auglýsa nema á Facebook. Ekki laust við að menn séu svolítið "ligeglad" yfir þessu öllu saman.

Sölukerfið hjá Salurinn.is er mjög öflugt. Það sýnir m.a. vel hvaða sæti eru seld og hver eru enn laus, og er ein einfaldasta útgáfa á lögmálinu "fyrstur kemur fyrstur fær".

09.06.2011 07:42

Óþolandi umhverfissóðar


721. Maður verður alltaf jafn pirraður við að sjá svona lagað. Eiginlega verður maður alveg drullufúll og hugsar gerandanum jafnvel gott betur og heldur meira en þegjandi þörfina. Mér fannst hins vegar frábær sagan sem ég heyrði af öryggisverði í Kringlunni, sem horfði á bílstjóra lauma ruslapoka út á stæði og búa sig undir að aka í burtu. Hann var að vonum ekki sáttur, gekk í veg fyrir bílinn og skipaði bílsjóranum að hirða rusl sitt. Sá reif auðvitað kjaft eins og búast mátti við af manni á því þroskastigi sem gjörðir hans benda til og sagði öryggisverðinum og troða ruslapokanum */-#-+*'!. Sá kunni hins vegar ekki að meta húmorinn, heldur tók pokann og sendi hann af heilmiklu öryggi og nákvæmni inn um opinn gluggann á bínum. Pokinn rifnaði, innhaldið dreifðist um bílinn ruslið var þannig séð aftur komið á sinn byrjunarreit. Sem sagt, glæsileg sending og sanngjörn. Bílstjóranum fannst hins vegar gróflega að sér vegið, snaraðist út með miklum bægslagangi og formælingum og gerði sig líklegan til að veita öryggisverðinum ráðningu. Hann hætti þó mjög fljótlega við það, snautaði aftur inni í bíl sinn og hvarf á braut, því hann sá ekki fram á að hann myndi komast vel frá slíkri viðureign. Þetta fannst mér góður endir á sögunni og virkilega gott á FÍFLIÐ.

Ung og svo stórglæsileg stúlka að eftir var tekið, stöðvaði bíl sinn á rauðu ljósi á Dalveginum fyrir nokkru. Meðan hún beið eftir grænu, nýtti hún tímann og dundaði hún sér við tiltekt í honum. Þegar hún ók síðan af stað, stóðu nokkrar flöskur (bæði plast og gler), ásamt ruslapoka í þráðbeinni röð, nákvæmlega á miðri götunni. Þarna sannaðist gamla máltækið rétt einu sinni enn: Oft er flagð undir fögru skinni.

Jú, maður getur orðið ansi pirraður yfir þessum heilaprumpurum sem trampa greinilega ekki í vitinu, virðast helst hafa afsalað sér dómgreindinni og hafa forpokun í fyrirrúmi.

Sagði ég nokkuð of mikið?

06.06.2011 22:06

Hvur skyldi eiga ammæli í dag?

720. Í dag er mánudagurinn 6. júni, það fer ekkert á milli mála að Bubbi Mortens á afmæli í dag og ég kæmist líklega ekki hjá að vita af því þó ég reyndi heilmikið til þess. Hann á plötu vikunnar á rás 2 og mun því fá verulega spilun næstu daga ofan á það sem venjulega gerist. Hann fékk að sjálfsögðu væna sneið af Katljósinu þar sem hann trúði landsmönnum fyrir því að nýja platan sem var að koma út í dag, væri að hans mati ein sú besta á ferlinum. Reyndar hef ég heyrt útgefendur hans nota orðatiltækið "ein sú besta til þessa" í hvert einasta skipti sem Bubbi gefur út plötu. En svo er dagurinn toppaður í "Færibandinu" þætti Bubba Morteins, þar sem Bubbi verður sjálfur gestur þáttarins. Það er vinur hans Óli Palli sem ætlar að leysa hann af sem spyril og stjórnanda, en hann hefur löngum reynst Bubba betri en enginn og haldið merki hans duglega á lofti í gegn um tíðina. 

Er nokkur möguleiki á að um mismunun af einhverju tagi sé að ræða, þegar kemur að aðgengi íslenskra tónlistarmanna að útvarpi allra landsmanna? Ég skal ekki segja.

04.06.2011 19:46

Stólar með karakter719. Þegar Tequilatunnuhúsgögnin sem skreyta Hannes boy komu á sínum tíma, vöktu þau að vonum verðskuldaða athygli. Reyndar mun gámurinn sem þau komu með, strax hafa fangað athygli tollvarðanna sem afgreiddu sendinguna, því þegar hann var opnaður lagði gríðarlega mikinn áfengisilm úr honum.

Það hefur svo komið fram að lengi hafi verið leitað að húsgögnum í Kaffi Rauðku sem væru jafn sérstæð og tunnuhúsgögn Hannesar Boy. Þau fundust eftir nokkra leit í Thaílandi og munu vera úr endurunnum hestvögnum. Þau skreyta nú sali Rauðku sem verður formlega opnuð í dag.

Enn vantar þó húsgögn með einhverjum sterkum og skemmtilegum karakter í bláa húsið. Ég er þó ekki frá því að ég hafi dottið niður á skemmtilega lausn á því máli.

03.06.2011 20:04

Þeir fiska sem róa


718. Í gær uppstigningardag tók talsverður slæðingur ferðafólks daginn snemma hérna á Sigló, og skömmu fyrir hádegi var komin rúta á stæðið fyrir framan Síldarminjasafnið sem opnaði kl. 10 f.h. Ég heyrði nokkrum sinnum tekið í hurðina á Aðalbakaríinu undir opnum stofuglugganum hjá mér, en þar var allt í lás og ég sá að sama gilti um Samkaup. Svolítið bæjarrölt varð til þess að ég komst að því að eini veitingastaðurinn sem var opinn í hádeginu og einhvern matarbita var að fá, var Allinn. Jú og auðvitað bensínstöðin sem opnaði eldsnemma, en þar var setið við hvert borð yfir hamborgurum með frönskum. Eigum við kannski að telja bensínstöðina með veitingastöðum staðarins? Er kannski alveg nóg að hafa bara Allann og bensínstöðina, - eða hvað? Nei, líklega finnst okkur það ekki eftir að hafa reynt og upplifað annað, þó báðir þessir staðir séu vissulega ágætir til sins brúks. En það rættist reyndar eitthvað úr þegar leið fram á dag, því Samkaup opnaði á slaginu 13.oo og Torgið á svipuðum tíma, en þá er reyndar hinum hefðbundna matartíma lokið. Annað er líka það sem er ekki í nægilega góðu lagi. Mikið vantar upp á að upplýsingar um opnunartíma séu nægjanlega vel sýnilegar eða þær sjást jafnvel alls ekki. Á einum af áður nefndu stöðunum hékk þó myndarleg auglýsing úti í glugga um opnunartíma skíðasvæðisins í Skarðsdal. - Ekki seinna vænna.

Nokkuð bar á því síðast liðið sumar en einnig um páskana í ár, að ferðafólk kæmi að lokuðum dyrum veitingastaða. En væru þeir opnir, mátti allt eins búast við að þeir sem á undan komu væru búnir að tæma búrið svo rækilega að sáralítið ef þá nokkuð matarkyns væri eftir. Vonandi verða þannig uppákomur þjónustuaðilunum svo góð kennslustund í "hagnýtum fræðum" um alla framtíð, að þær endurtaka sig ekki. Hér getur ferðamannaiðnaðurinn allt eins orðið að hinu nýja "síldarævintýri" ef rétt er á haldið. En sá bransi er viðkvæmur ekkert síður en síldarfarmur var á leið af fjarlægum miðum, í steikjandi sól og án nokkurrar kælingar hér í eina tíð. Spegúlant nútímans þarf því að vera á varðbergi ekkert síður en sá sem tilheyrði hinum liðnu tímum sem enn er þó verið að höndla með.

Júnímánuður er byrjaður, ferðasumarið er hafið og sumarið 2011 gæti hæglega orðið það langbesta og glæsilegasta til þessa. Einhvern tíma var sagt að ekkert þýddi annað en að vaka eins og eina vertíð ef þörf krefði, því nægur tími yrði til þess að sofa þegar maður væri dauður. En burtséð frá því, þá fiska þeir sem róa en hinir ekki.


02.06.2011 01:36

Varnaðarorð úr fortíðinni


717. Ég rakst á þessa litlu klausu á netflakki á dögunum, en hún er úr einu Akureyrarblaðinu frá árinu 1920. Ef rýnt er á milli línanna má með góðum vilja sjá svolítið samhengi milli boðskapsins sem hér birtist, og þess sem er rauði þráðurinn í pistlinum "Sukkið í síldarbænum" svolítið neðar á síðunni. Hún er þó sett fram á talsvert öðrum forsendum og ekki virðist fara mikið fyrir hinum pólitíska undirtón. Það þarf þó ekki að þýða að viðkomandi sé ekki undir áhrifum frá þeim öflum sem þar tjáðu sig. Það er ekki laust við að skrifin kalli á svolitlar vangaveltur um ástæður þess að þau eru sett fram og hvort það að vísað sé til kreppu, sé hin raunverulegar ástæða eða eitthvert yfirvarp. Kannski er hér á ferðinni "kristilegur" hægri maður sem rennur blóðið til skyldunnar og vill reka sama áróður, en bara undir öðru flaggi og málaða í felulitum. Kannski bara venjulegur bóndi sem hefur hrakist af arfleifð sinni vegna hinna nýju og breyttu tíma, þar sem Kaupfélagið er ekki lengur miðdepill alheimsins, Kaupfélagsstjórinn er ekki höfðingi sveitarinnar og bóndinn hvorki drottnari né eigandi hjúanna.

01.06.2011 02:52

Á þeim Græna


716. Það var stígið á pallinn á Græna Hattinum á Akureyri síðast liðna helgi og trallað góða kvöldstund. Tónleikarnir voru bæði mikil og góð upplifun og svolítið skrýtin reynsla í leiðinni. Þessi frábæri staður er t.d. mjög vel tækjum búinn og er þá vægt til orða tekið. Ef vilji stæði til, væri hægt að koma alveg tómhentur á staðinn, því þar er hreinlega allt til alls. Ekki bara vandað hljóðkerfi (ásamt eldklárum hljóðmanni), heldur einnig öll hljóðfæri, magnarar, míkrafónar o.s.frv. Ég hafði til afnota forláta Korg rafmagnspíanó ásamt gamla Hammond orgelinu hans Kalla í Flowers ef ég vildi, en kaus reyndar að nota Tyrusinn minn. Ég neita því ekki að ég skotraði annað slagið augunum á Hammondið ásamt Lesleyinu sem stóðu þögul úti í horni undir svartri yfirbreiðslu. Þá má ekki gleyma því að hljómburðurinn þarna með allra besta móti.

Eftir tónleikana lá svo leiðin á Sigló þar sem verður staldrað við í einhverja daga og "pínulítið ættarmót" undirbúið.

  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 315
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 415
Gestir í gær: 117
Samtals flettingar: 344674
Samtals gestir: 38297
Tölur uppfærðar: 24.5.2024 15:48:50
clockhere

Tenglar

Eldra efni