Færslur: 2013 Júlí

30.07.2013 08:24

Nokkrar sumarlegar myndir frá Sigló með meiru


878. Hér eru nokkrar myndir frá Sigló sem allar voru teknar helgina fyrir Síldarævintýrið, meðan sólin hafði skinið nánast upp á hvern dag vikum saman og oft mátti sjá verulega heitar tölur á hinum flunku eða splunkunýja hitamæli utan á SPS við Túngötu. Dag eftir dag hafði hann sýnt um og yfir 20 gráður og a.m.k. tvisvar sinnum sá ég töluna 27 sem verður að teljast í það minnsta alveg bærilegt svo ekki sé meira sagt. En því miður á sælan það til að taka enda og oftar en ekki á frekar óheppilegum tíma sé þess nokkur kostur. Föstudaginn 2. ágúst var ljóst að veðurspáin var okkur ekki hliðholl og hafði hrætt margan ferðalanginn frá því að heimsækja norðurlandið, en heimamenn horfðu upp í heiðbláan himinn og skildu illa hvers vegna lítið sem ekkert fjölgaði á tjaldstæðum bæjarins. 
Ég heyrði þá sögu að á fimmtudegi fyrir Síldarævintýri hefðu komið nokkrir húsbílar í bæinn, hreiðrað um sig á Rammatúninu og myndað eins og lítið þorp eða samfélag með auðu svæði í miðju. Þetta virtist vera annað hvort einhver stórfjölskyldan eða þá samhentur hópur sem síðdegis þennan dag var búin að koma sér notalega fyrir á svæðinu. En skyndileg breyting varð á að loknum veðurfréttum í sjónvarpi. Fólk kom út úr bílunum, tók saman útiborð, stóla og annað lauslegt og hvarf á braut úr bænum í miklum flýti. En rigningin sem spáð hafði verið kom þó ekki alveg strax, en laugardagurinn varð nánast eini alvöru rigningardagurinn sem komið hafði um langa hríð. - Óheppilegt.

Hér að ofan má sjá frumleg húsgögn fyrir framan bakaríiið. Hlutirnir þurfa nefnilega ekki alltaf að kosta mikið til að geta þjónað hlutverki sínu, auk þess að gleðja augað vegna frumleika og skemmtilegheita




Sjófyllingin undir hið glæsilega hótel sem ráðgert er að rísi við smábátahöfnina er komin á sinn stað, og nú er verið að setja farg ofan á hana eins og gert var áður en hið Akureyrska "Hof¨" áður en það var byggt.




Þessa mynd tók ég út um stofugluggann minn sem er þráðbeint fyrir ofan innganginn inn í bakaríið. Þegar ég horfði niður eftir götunni var Ómar Hauksson þar á rölti ásamt fólki úr Húsbílafélaginu, hann sagði sögu húsanna, fyrrum íbúa og athafnamanna sem þar höfðu átt viðdvöl og kom auðvitað víða við í frásögn sinni, enda bæði af nætu af taka og Ómar vel fróður um þessa hluti.




Skömmu síðar sama dag voru prúðbúnir gestir á leið til brúðkaupsveislu sem haldin var í Allanum. ér datt í hug lína úr Flowerslaginu Glugginn, "Ég sit og gægist oft út um gluggann, að gamni mínu út yfir skuggann".




Og einmitt þarna hafði Sparisjóðsmælirinn sýnt okkur töluna 27 í svolítinn tíma upp úr hádeginu og eithhvað fram eftir degi. Fleirum en mér varð orðið ansi heitt svo ekki sé meira sagt og einhverjum fannst heillaráð að fá sér kalt fótabað í fjörunni fyrir framan Hannes Boy og Rauðku. 




Á laugardagsmorgni settist ég inn í spjall á útvarpsstöðinni Trölla sem útvarpar á FM tíðninni103.7 hjá þeim Hrólfi, Gulla Stebba og Ægi, en þessi siglfirska stöð er nú til húsa í gömlu skattstofunni sem var í eina tíð á hæðinni fyrir ofan Verslun Guðrúnar Rögnvalds að Túngötu 5, húsinu sem hallar svo áberandi í áttina til fjalls, en þar er Ljóðasetur Íslands núna.




Eftir hálfs mánaðar dvöl á Sigló þurfti ég að skjótast suður yfir heiðar í tvo daga, en á leiðinni þangað ók ég um tíma á eftir þessari hestakerru sem var frábrugðin öðrum ökutækjum að því leytinu til að hún bar tvö skráningarnúmer. 
Ákaflega sérstakt og örugglega mjög sjaldgæft líka...

30.07.2013 04:47

Auglýsingin á Sparisjóðnum


877. Þetta er Túngatan á Siglufirði. Það ætti að vera nokkuð augljóst bæði þeim sem þekkja þarna til, og jafnvel einnig þeim sem þekkja minna til, því "Ríkið" er fyrsta hús til hægri á myndinni og þangað hafa margir ratað sem ekki hafa átt annað erindi í bæinn. En þetta er nú útúrdúr því leið okkar liggur um þessa götu í átt að sjálfum miðbænum og Ráðhústorginu þar sem lífæð íbúanna liggur um stéttir og stíga, þar sem svo auðvelt er að finna fyrir nálægð þorpssálarinnar og þar sem hjartað slær gjarnan glatt á góðum dögum. - En ef að er gáð, má sjá að eitthvað er öðruvísi en venjulega.



Nokkrir tugir metra til viðbótar eftir götunni og það er engum blöðum um það að fletta að þarna hangir eitthvað á spýtunni, og það alveg í bókstaflegri merkingu.



Nýeinangraður og múraður norðurveggur gamla Útvegsbankahússins eða SPS í dag, maður að sýsla uppi á vinnupöllum og annar að fylgjast með á jörðu niðri. Mikil litagleði einkennir auglýsinguna sem hangir þarna uppi og hún er risastór þó svo að hún sýnist ekki vera það á vegg þessa "sex" hæða húss (ef risið og kjallarinn eru talin með).



Jú, Skúli Jóns var að festa auglýsinguna en Höddi Júll sagðist vera svolítð lofthræddur og vildi því frekar hafa fast land undir fótum og segja Skúla til. Þarna var að fara upp stærsta auglýsing um skemmtun og/eða dansleik m/meiru sem sett hefur verið upp á Siglufirði eða upp á heila átta fermetra. Verður það ekki að teljast sögulegur viðburður eða hvað?



Og þá er komið að því sem ég vildi vekja athygli á og fór svo rækilega í kring um hér að ofan með endalausum orðalengingum og skrúðmælgi, en það er skemmtunin BÍTLAÁRIN á Rauðku föstudaginn 2. ágúst. Skemmtun í myndum, tali og tónum sem hefst með borðhaldi kl. 19.00 þar sem boðið verður upp á þriggja rétta kvöldverð. Sítrusmaríneraða sjávarrétti, reyktan og grafinn lax með piparrótar og graflaxsósu, nautacarpaccio með steinseljurót, jómfrúarolíu og parmessan í forrétt. Í aðalrétt eru beikonvafðar kalkúnabringur með supréme sósu og nautahryggjarvöðvi með villisveppasósu ásamt ofnbökuðu rótargrænmeti kryddjurtabökuðu kartöflusmælki, fersku slati, nýbökuðu brauði og smjöri. Í eftirrétt er svo gómsæt súkkulaðikaka með kremi og vanillusósu.
Þá munu bítladrengirnir Birgir, Leó (ég), Maggi og Grímur með stórsöngvarann Ara Jóns úr Roof Tops í broddi fylkingar stíga á pall ásamt sérlegum gestum kvöldsins, þeim Ómari Hauks og Þorvaldi Halldórssyni. Kynnir kvöldsins er blaða og sjónvarpsmaðurinn Þröstur Emilsson.
Miðasala og pantanir eru á Rauðku og í síma 467-7733 og athygli skal vakin á að aðeins eru 110 miðar í boði á hinn þriggja rétta kvöldverð plús skemmtunina.
-
Á eftir sér svo bítlabandið Vanir Menn um að allir skemmti sér á dunandi balli. 

24.07.2013 23:52

Póstkort

876. Og í beinu framhaldi af síðustu færslu koma þær skýringar sem þar voru boðaðar, þ.e. hvers vegna ferðin var farin upp í turninn? 
Jú, ástæðan var sú að mig vantaði eina mynd í átta mynda pakka. 
Átta mynda pakka hvað? 
Jú, það er víst hagstætt að prenta átta póstkort í einu svona kostnaðarlega séð. 
Ok., en af hverju er verið að prenta póstkort? 
Ég gerði mér ferð í fyrirtæki sem heitir "Sólarfilma" og falaðist eftir póstkortum og fleiru sem það kompaní hefur upp á að bjóða til endursölu, en fékk þau svör hjá forráðamanni og eiganda að það væri eiginlega fyrir neðan virðingu umrædds að vörur þess fengjust þar sem ég hugðist selja þær, þ.e. í Kolaportinu. Ég bankaði því upp á hjá öðru slíku fyrirtæki, Demantskortum í Hafnarfirði. Þar varð fyrir svörum Oddur Thorarensen frá Akureyri, sem er reyndar náfrændi Odds Thorarensen sem rak Nýja Bíó á Siglufirði um áratuga skeið. Hann tók mér vel og frá honum fór ég með talsvert af hinum ágætustu póstkortum, en umsvif Demantskorta eru talsvert minni en hinna fyrrnefndu og ég vildi því auka svolítið á flóruna, breikka línuna og bæta vð úrvalið. 
-
Hér að neðan má svo sjá afurðirnar...


Skólavörðustígurinn, Miðbærinn og Grandinn.


"Hopparinn" og nokkrir af helstu viðkomustöðum hans.


Flekaskil Evrópu og Ameríku nærri Reykjanesvita.


Hrafnseyri við Arnarfjörð, fæðingastaður Jóns Sigurðssonar. - Myndin er meira að segja tekin þann 17. júní 2009. - Víkingaskipið Íslendingur. - Eyðibýli fyrir norðan Hafnarfjörð. - Frá Árbæjarsafni.


Hestamenn ríða yfir Siglufjarðarskarð, - Riðið á Löngufjörur í átt að Snæfellsjökli, - Villimannareið yfir Hólsá á Siglufirði, - Trússferð um Haukadalsskarð.


Tjörnin í Reykjavík, Fríkirkjan og Fríkirkjuvegurinn.


Vesturbærinn í Reykjavík. Myndin er tekin í fjörunni fyrir neðan Boðagranda.
 

Moldóttir hestar.

15.07.2013 19:06

Hátt uppi



875. Það getur verið gaman að vera hátt uppi - eða þannig...  Mig hafði lengi langað að gera mér ferð upp í Hallgrímskirkjuturn til að líta yfir bæinn og geta í leiðinni litið svolítið niður á samborgara mína í bókstaflegri merkingu. Og þar kom eftir margra daga grámósku og myglu, að veður gerðist gott einn daginn og ég hafði einnig ágætan tíma til að slóra svolítið. Ég gekk því til kirkju, greiddi 700 krónur fyrir innlitið eða réttara sagt upplitið, smeygði mér inn í lyftuna ásamt u.þ.b. tug túrhesta af ýmsum þjóðernum og skoðunarferðin var hafin.





Þegar upp var komið fór það ekkert á milli mála að útsýnið var harla gott til allra átta og dreg ég þá heldur úr. Ég naut þess til hins ýtrasta og smellti af nokkrum stafrænum. Þarna blasti við Vatnsmýrin með flugvelli allra landsmanna, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörðurinn og mér fannst ég líka sjá hálfa leið til Keflavíkur.





Í hina áttina mátti sjá Tjörnina þar sem Ráðhúsið húkti svolítið út í horni, Reykjavíkurhöfn og Seltjarnarnesið sem endaði auðnitað úti í Gróttu.





Austurbæjarskólinn.





Iðnskóli Reykjavíkur sem eftir sameiningu við tvo aðra skóla heitir Tækniskóli Íslands að mig minnir.





Stóri turninn sem ég heyrði einverntíma einhvern kalla "Hitt Borgarleikhúsið" einhverju sinni og það með glott á vör. Skálafell, Mosfellsbær, Úlfarsfell...





Austurbærinn og í Bláfjöllin í blámóðu fjarskans.





Handan við flóann sést Snæfellsjölull óvenju vel  að þessu sinni, enda "skyggni ágætt".





Skuggahverfisblokkirnar við Skúlagötuna og síðan taka við sundin blá. 





Það er stutt í Hörpuna úr turninum, sérstaklega ef maður notar aðdráttarlinsu. 





En þetta var eiginlega myndin sem ég fór upp til að taka. Skólavörðustígurinn, miðbærinn, höfnin og vesturbærinn að hluta. En nánar um það atriði í næsta bloggi.





Horft um öxl eða þannig... Það er reyndar talsvert langt þarna niður og það þrátt fyrir að hátt sé til lofts inni í kirkjuskipinu.





Líka niður á kollinn á honum Leifi Eiríkssyni sem þarna stendur keikur, grænn og steinrunninn í öllum veðrum, allan ársins hring, svo og alla "maurana" sem sjá má allt um kring.





En svo er auðvitað hægt að lækka flugið örlítið...

14.07.2013 04:27

Á strætórúntinum um Kópavog



874. Nú er nánast akkúrat ár liðið frá því að ég fór að aka strætó um Kópavog, nokkuð sem mér hefði líklega þótt fráleitt aðeins nokkrum mánuðum áður.en sá kapítuli hófst. Hér að neðan má sjá nokkur "skot" frá því tímabili.





Í vikunni sem leið voru hvorki meira né minna en 11 hraðahindranir (stundum kallaðar löggubrjóst) fjarlægðar af Digranesveginum og fáeinir púðar settir í staðinn. Ekki svo lítil breyting til batnaðar fyrir þá sem aka um á stærri bílum. Það var því mikið um þrengingar í götunni meðan á þessum umbótum stóð og umferðartafirnar voru talsverðar. En nú er það frá og allt annað líf að fara þarna um. Myndin hér að ofan var hins vegar tekin s.l. haust þegar framkvæmdir voru í gangi á Álfhólsveginum. Þá var aðeins ein akrein opin til beggja átta í nokkurn tíma, nokkuð þröngt milli keilanna eins og sjá má og því ekkert allt of marga aukasentimetra upp á að hlaupa. Ekki gerði það málin einfaldari að "göngin" voru s-laga, fyrst var sveigt lítillega til vinstri í átt að Túnbrekku, en síðan aftur upp á Álfhólsveginn þar sem hann hækkar og sveigir til hægri. Skemmtileg ökuleiknisþraut og hin fínasta tilbreyting á leið 28.





Maður sér alls konar farartæki í umferðinni, mörg hver miklu óhefðbundnari og sérstakari á allan hátt en þetta sem virðist vera afrakstur frjórrar hugsunar einhvers hagleiksmanns.





Alls konar uppákomur, vandræði og vesen í dagsins önn.





Þessi maður hefur helgað sér svæði á mörkum Rjúpnavegar og Arnarnesvegar, þar sem hann falbýður afurðir sínar, greinilega bæði lúnkinn og laginn með smíðatól sín.





Er þetta ekki svolítið eins og "gelguleg" skilaboð til einhverrar "vinkonu" sem hefur verið sett út í kuldann (a.m.k. tímabundið)...?





Einu sinni voru þeir kallaðir öskukallar eða ruslakallar, núna er starfsheitið þeir ræstitæknar. Samt finnst mér að þeir ættu ekki að loka annarri akreininni svona kyrfilega.





Dreifing símaskrárinnar virðist hafa farið fram a.m.k. að hluta til með annas konar hætti í Kópavoginum en víðast hvar annars staðar.





Hana mátti fyrir þá sem hefðu viljað glugga í hana, tína upp víða af götum bæjarins. Á Álfhólsvegi, Digranesvegi, Dalvegi, við Smáralind, Þingmannaleið, Vatnsendavegi og eflaust mun víðar. Bókin sú er þykk og mikil af vöxum eins og allflestir vita, svo það hefur varla farið fram hjá ökumönnum þegar þeir óku yfir hana í misjafnlega þungri umferð. Afleiðingin varð auðvitað sú að upplýsingarnar sem hún hefur að geyma dreifðust með þeim hætti sem fáum mátti verða að gagni.




Stundum má sjá svolítið æsilegan hasar, en það má auðvitað ekki stoppa til að fylgjast með nema rétt á meðan rauða ljósið logar á götuvitanum eða eitthvað svoleiðis. Hér er löggan greinilega að leita í bíl og var meira að segja enn að því næst þegar ég átti leið hjá.





Stundum bregður manni aðeins þegar fáír hafa verið á ferli um tíma, Einn inn og kannski einn út á margra stoppustöðva kafla, en svo allt í einu....





Þetta er ljótt að sjá en þvi miður allt of algengt. Ætli sumir séu bara með eitthvað drasl í hausnum?





En áður en við látum gott heita skulum við líta í baksýnispegilinn. Er þetta ekki Micra sem vill ekki? Jú þetta er geinilega Micra. Ef ég hefði verið öðru vísi akandi hefði ég líklega lagt þeim lið sem þarna áttu í vandræðum, en lífið er líka stundum svolítið súrt á köflum.
-
En nú er hafið fyrsta sumarfríið mitt í 30 ár sem launamaður og ég er þar með rokinn norður á Sigló. Ég ætla samt þrátt fyrir takmarkað aðgengi að tölvu, að reyna að blogga einu sinni eða jafnvel tvisvar næstu 2-3 vikurnar...

09.07.2013 23:55

Kvöldganga á Helgafell



873. Í kvöld fékk ég mér svolítinn kvöldrúnt upp að Kaldárseli sem er eins og a.m.k. sumir vita spölkorn ofan við Hafnarfjörð. Við mér blasti bæjarfjallið Helgafell, sem mér finnst oftast líta meira út eins og risastór hóll fremur en fjall. Mér datt si sona í hug að fátt væri nú að því að rölta upp að fjallsrótunum og til baka aftur og rölti af stað. Vigtin sagði mér að ég þyrfti á meiri hreyfingu að halda og svo er alltaf verið að stríða mér á að ég sé kominn með svokallaða bílstjóravömb.




Þegar þangað kom var auðvitað ekki hægt annað en að kíkja a.m.k. aðeins upp á brúnina fyrir ofan neðsta hluta stígsins.
Maðurinn á myndinni sést reyndar mjög illa, en hann hafði verið talsvert fyrir aftan mig skömmu áður, en geystist fram úr mér og hvarf síðan upp fyrir brekkubrún. Þvílik læti...



Þegar upp á brúnina var komið reyndist hún vera einber tálsýn því skammt fyrir ofan hana var önnur brún. - Og maðurinn var alveg horfinn. Kannski hafði jörðin gleypt hann, eða þá að hann faldi sig á bak við stein.



En það virtist svo sem ekkert mjög langt á toppinn, - þangað sem ég ætlaði reyndar alls ekki að fara að þessu sinni, enda engan veginn búinn til neinnar göngu.



Bara að kíkja örlítið ofar. 
Þetta fjall er annars miklu hærra en það sýnist vera frá bænum...



En hvað ætli hafi orðið af manninum? Sennilega hefur hann sest niður í skjóli, alveg að springa úr mæði og vill ekki láta neinn sjá það...



Skrýtið, en samt soldið flott hvað allt er sprungið. - Verulega flottar sprungur.



Eiginlega alveg rosalega flott. - Hvar ætli maðurinn sé annars?



Heitir þetta ekki sandsteinn?



Og varð hann ekki svona útleikinn eftir síðustu ísöld?
Fyrir ofan sandsteinsbrúnina virtist orðið mjög stutt á toppinn



En hvað varð af */#"%* kallinum???



Þarna er hann - og hann er á niðurleið...! 
Það þýðir bara eitt, hann er búinn að fara alla leið upp...



Ég gat því auðvitað ekki annað en gert það líka þó hægar færi...
Á mjög gömlum og slitnum spariskóm, í svörtum stássjakka keyptum á útsölu og með skyrtuna fráhneppta og flaksandi.



Þá var bara eftir að koma sér niður aftur.
-
Og þar sem ég sit og geri grein fyrir ferðum mínum í stuttu máli og nokkrum myndum finn ég hvar strengirnir eru að setjast að í lærum og kálfum. Manni hefnist auðvitað fyrir að hafa varla farið út úr bíl sínum (eða strætó) í næstum tvö ár...

01.07.2013 23:43

"Stóreflis ÚFÓ af himnum ofan datt..."

Húsið að ofan verðu.

872. Skyldu einhverjar framandi verur hafa týnt geimfarinu sínu þarna í uppsveitum Kópavogs, eða eru einhverjar jarðbundnari skýringar til á því sem þarna ber fyrir augu? Sennilega verða fæstir þeirra sem eiga leið um Vatnsendaveginn mikið varir við þetta stórhýsi, enda skilur há hljóðmön Fagraþingið frá þeirri götu. En þegar ég á leið þarna hjá sem er ansi oft, sit ég gjarnan mun hærra en almennt gerist og hef því mun betri yfirsýn yfir það sem mörgum öðrum er hulið. Ég hafði fregnað að þetta muni vera hið fræga hús Kára Stefánssonar, og þegar ég átti leið þarna um án þess að vera bundinn klukkunni um of, leyfði ég mér að gera örstuttan stans og smella af nokkrum sinnum á þetta furðuverk og það meira að segja frá báðum hliðum. En ég skal viðurkenna að ég var svolítið órólegur meðan ég staldraði við og gaf mér því ekkert umfram hæfilega langan tíma til skoðunnar og yfirlits, því svæðið er auðvitað þrælvaktað og ef vel var að gáð, mátti koma auga á nokkrar eftirlitsmyndavélar með ísköld, stafræn, glampandi, illkvittnisleg, ópersónuleg og ómanneskjulega vökul linsuaugu sem fylgdust með húsinu og næsta nágrenni þess.

-

Sögur af byggingu þess hafi oft og iðulega ratað í fjölmiðla og hafa fréttirnar undantekningalítið verið heldur í skrautlegri kantinum. Hér eru nokkur dæmi:

-

Fundargerðir Kópavogsbæjar 22. mars 2006

"Kári Stefánsson, Hávallagötu 24, Reykjavík, sækir um leyfi til að byggja einbýlishús að Fagraþingi 5. Teikn. Hlédís Sveinsdóttir."

9. okt. sama ár var umsóknin samþykkt og þess má gjarnan geta að Hlédís Sveinsdóttir er dóttir Sveins Eyjólfssonar fyrrverandi blaðaútgefanda.

-

5. júní 2008 má sjá eftirfarandi athugasemd í fundargerðum Kópavogs.

"Fagraþing 5, undirbúa afturköllun lóðar. Framkvæmdir nú í fullum gangi. Athuga stöðu við næstu yfirferð."

-

Pressan 20. ágúst 2010

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur hafið framkvæmdir á lóð sinni í Kópavogi, eftir ítrekuð tilmæli frá Kópavogsbæ. Hugmyndir Kára og Kópavogsbæjar ríma þó ekki alveg saman, því Kópavogsbær vill að Kári klári verkið en Kári vill byggja í áföngum.

Pressan greindi fyrst frá því í apríl að Kópavogsbær hafi hótað Kára dagsektum ef hann gengi ekki frá lóð sinni við Fagraþing 5 í Kópavogi, þannig að ekki stafaði hætta af. Í júlí hafði enn ekkert gerst í málinu og höfðu sektirnar, sem námu 20 þúsund krónum á dag, hrannast upp og var heildarupphæðin komin upp í tæpa milljón.

-

DV. 10. sept 2010

Eykt stefndi Kára fyrr á þessu ári vegna verksamnings þeirra á milli. Húseignin sem um ræðir er ókláruð og stendur við Fagraþing 5, Kópavogsmegin við Elliðaárvatn. Eykt hóf að byggja hið ókláraða húsið, sem samkvæmt fasteignaskrá verður um 550 fermetrar að stærð. Kári og Eykt deila um greiðslur vegna verksins. Heimildir DV herma að krafa byggingafélagsins hljóði upp á rúmar 11 milljónir króna, auk vaxta, útaf viðbótarkostnaði vegna tafa. Þær tafir vill Eykt meina að hafi orðið þar sem Kára hafi um tíma skort nauðsynleg leyfi fyrir framkvæmdunum.

Í lok júní sagði Kári í samtali við DV að hann væri búinn að borga byggingafyrirtækinu hverja krónu og gott betur. Hann var vongóður um sigur fyrir dómstólum enda sé hann vanur að hafa rétt fyrir sér.

-

Pressan 24. júní 2011.

Hús Kára, eða réttar sagt skortur á húsi hans, komst í fréttirnar í fyrra eftir að Kópavogsbær beitti hann dagsektum. Lóð Kára hafði staðið ófrágengin í töluverðan tíma, nágrönnum hans til mikillar mæðu.

-

Fréttatíminn 25. nóv. 2011

"Hriflu-villa Kára fór á 110 milljónir

Ingólfur Friðjónsson, framkvæmdastjóri löginnheimtu Frjálsa fjárfestingabankans, hefur fest kaup á hinu fræga húsi Hamragörðum sem standa við Hávallagötu. Ingólfur, sem var sæmdur heiðursorðu íþróttafélagsins Vals árið 2008, greiddi 110 milljónir fyrir húsið í peningum." 

"Ljóst er að ekki mun væsa um Ingólf við Hávallagötuna. Húsið er 329 fermetrar og sérlega reisulegt. Það er teiknað af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins, árið 1941. Upphaflega var húsið ætlað skólastjóra Samvinnuskólans. Sá var á þeim tíma sjálfur Jónas frá Hriflu og bjó hann í húsinu til dauðadags. Félag Kára keypti húsið af Elfari Aðalsteinssyni, syni Alla ríka á Eskifirði, árið 2002."

 

DV. 27. apríl 2012

"Ekki enn sem komið er, en hver veit, dagurinn er ungur," segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, aðspurður hvort hann hafi sigað lögreglu á iðnaðarmenn sem komu að byggingu rúmlega 600 fermetra einbýlishúss hans við Fagraþing í Kópavogi."

-

DV. 10. des. 2012

"Kári Stefánsson, stofnandi og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, þarf að greiða rafverktakanum Elmax 1,1 milljón króna samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll í dag.

Málavextir eru þeir að Kári fól Elmax að athuga hvort allar lagnaleiðir fyrir rafmagn væru opnar og óskemmdar í nýbyggingu við Fagraþing 5 í Kópavog í fyrra. Þegar verkinu var lokið gaf Elmax út tvo reikninga vegna vinnunnar sem Kári mótmælti sökum þess að honum fannst Elmax rukka of mikið fyrir vinnuna.

Kári hafði látið matstækni fara leggja mat á vinnuna sem starfsmenn Elmax unnu af hendi og var niðurstað þess mats að heildarkostnaður vinnunnar var 310 þúsund krónur sem Kári greiddi Elmax í apríl á þessu ári og taldi hann það vera fullnaðargreiðslu fyrir vinnunna.

Féllst Elmax ekki á þetta og stefndi því Kára.

Kári var einnig gert að greiða fjögur hundruð þúsund krónur í málskostnað."

-

DV. 19. febr. 2013

"Þetta er mjög einföld deila á milli verktaka og verkkaupa um frágang á verki," segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, um dómsmál sem verktakafyrirtækið Fonsi ehf. höfðaði á hendur honum. Fyrirtækið vann að byggingu húss Kára við Fagraþing í Kópavogi og forsvarsmenn þess telja hann skulda sér á annan tug milljóna króna fyrir verkið. Fyrirtaka fór fram í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur síðastliðinn föstudag. Lögmaður Kára lagði fram matsgerð unna af dómskvöddum matsmönnum sem á að  sýna á fram á galla og vankanta við húsbygginguna.

Dómsmálið hefur staðið yfir í þó nokkurn tíma og greindi DV frá því í maí á síðasta ári að lögmaður hefði lagt fram greinagerð fyrir dómi. Þar kom fram að Kári teldi sig hafa gert upp við verktakafyrirtækið en hann hefur borgað þeim um 60 milljónir króna fyrir verkið.

Í greinargerðinni kom einnig fram að Kári teldi fyrirtækið skulda sér rúmlega 30 milljónir króna fyrir ofgreiðslu verklauna og galla.

Sigurbjörn Þorbergsson, lögmaður Fonsa, sagði í samtali við DV að ekki hefðu neinar sáttaumleitanir átt sér stað í málinu en nú þegar matið liggi fyrir sé kominn frekari grundvöllur fyrir hugsanlegri sátt.

Önnur fyrirtaka í málinu verður 15. mars næstkomandi og fer aðalmeðferð fram í kjölfarið nema aðilar semji sín á milli.

Töluvert hefur verið fjallað um byggingu hússins sem stefnir í að verða glæsihöll klædd með títani."

Í sama blaði er eftirfarandi gullkorn haft erftir Kára.

"Ég hef átt skrautleg samskipti við iðnaðarmenn, ég viðurkenni það. Enda eru iðnaðarmenn skrautleg stétt almennt," sagði Kári í samtali við DV á síðasta ári."

-

Viðskiptablaðið 1. júlí 2013-07-01

"Þarf að rukka Kára Stefánsson fyrir garðinn í dómsal

Guðmundur Jónsson segir erfitt að rukka Kára Stefánsson. Nær allir hafi þurft að fara í mál sem komu að verki fyrir hann.

"Það er ekki hægt að vinna fyrir Kára öðruvísi en að rukka hann með lögfræðingum," segir Guðmundur Jónsson hjá Torfi túnþökuvinnslu á Hvolsvelli. Hann hefur stefnt Kára Stefánssyni, forstjóra og stofnanda DeCode, vegna vangoldinna reikninga upp á þrjár miljónir króna. Fyrirtæki Guðmundar sá um að tyrfa lóð við nýlegt hús Kára við Fagraþing í Kópavogi. Húsið er engin smásmíði, rúmir 500 fermetrar að stærð og lóðin eftir því.

Bygging hússins hefur ekki gengið vandræðalaust fyrir sig. Árið 2010 stefndi byggingafélagið Eykt Kára vegna 11 milljóna króna viðbótarkostnaðar við byggingu hússins og þurfti rafverktakinn Elmax þurfti að fara með ógreidda kröfu á hendur honum fyrir dóm. Kári tapaði málinu i Héraðsdómi Reykjavíkur en fór þá með það í Héraðsdóm Reykjaness. Þá hótaði Kópavogsbær því að sekta Kára vegna tafa við frágang á lóðinni við húsið árið 2010. Túnþökuvinnslan tók verkið að sér í fyrrahaust. 

Þurfti að vinna verkið aftur

Guðmundur segir í samtali við vb.is farir sínar ekki sléttar. Hann segir fyrirtækið hafa lagt torf á lóðina við hús Kára en hönnuði hússins og lóðarinnar snúist hugur, hann gert breytingar og látið vinna verkið aftur. Guðmundur segir að ætlast hafi verið til þess að verktakinn tæki á sig kostnaðinn við að vinna verkið aftur. 

"Ég kom að þessu verki vegna þess að enginn vildi vinna fyrir Kára, tók ábyrgð á þessu öllu saman og skaffaði menn, efni og vélar og borgaði það. Ég ætlaði aðeins að selja honum torf og við ætluðum að hespa þessari lóð af. Við sömdum um að gera upp vikulega. Síðan dróst það í tvær vikur og þá varð allt vitlaust og ég sit uppi með útlagðan kostnað," segir Guðmundur og rifjar upp að allt sé á sömu bókina lagt í tengslum við byggingu hússins. 

Kári Stefánsson er sáttur við að málið fari fyrir dómstóla. 

"Þetta er bara maður sem bauð í verk. Hann bauð í það ákveðna upphæð. Þegar hann var hálfnaður með verkið þá sendi hann okkur reikning sem var þremur milljónum krónum hærri en sem nam heildarupphæðinni í verkið án þess að fyrir því fyndist nokkur skýring. Ég er ósköp sáttur við það ef hann vill fara með málið fyrir dóm til að skera úr um hvor okkar hefur rétt fyrir sér. Til þess eru dómstólar," segir Kári í samtali við vb.is."

-

Og svo mætti eflaust lengi telja ef menn nenntu að "gúggla" svolítið meira. Til "gamans" má geta þess að hvorki fleiri né færri en fimm byggingarstjórar komið að byggingu hússins og talsvert er eftir enn.



Húsið að neðanverðu

-

Og svo að muna bara, alveg sama hvað hann biður þig fallega; - "ekki skrifa hjá Kára."

  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 385
Gestir í dag: 98
Flettingar í gær: 291
Gestir í gær: 64
Samtals flettingar: 468907
Samtals gestir: 51444
Tölur uppfærðar: 6.11.2024 14:44:05
clockhere

Tenglar

Eldra efni